Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 54/2013.

Úrskurður

Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða 28. janúar 2014 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A, nr. 54/2013.

 

1.

Málsatvik og kæruefni

Málsatvik eru þau að með bréfi, dags. 15. maí 2013, var umsókn kæranda, A, um atvinnuleysisbætur hafnað á grundvelli a-liðar 13. og 14. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006, þar sem hún taldist ekki vera í virkri atvinnuleit þar sem hún væri óvinnufær samkvæmt læknisvottorði. Kæranda var með sama bréfi gert að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur fyrir tímabilið 22. desember 2012 til 28. febrúar 2013 samtals að fjárhæð 321.688 kr. skv. 2. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Kærandi vildi ekki una ákvörðun Vinnumálastofnunar og kærði hana til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða með erindi, dags. 30. maí 2013. Vinnumálastofnun telur að staðfesta beri hina kærðu ákvörðun.

Kærandi sótti um atvinnuleysisbætur 3. október 2011. Hún tilkynnti 25. febrúar 2013 að samkvæmt læknisvottorði væri hún óvinnufær með öllu frá og með þeim degi. Skilaði hún inn svokölluðu sjúkradagpeningavottorði undirrituðu af Reyni Þorsteinssyni lækni, dags. 25. febrúar 2013, sem staðfesti óvinnufærni kæranda auk þess sem fram kom í vottorðinu að kærandi hefði verið óvinnufær frá og með 22. desember 2012. Í vottorðinu kemur fram að kærandi hafi greinst með brjósklos í hálsi með verk út í vinstri handlegg í janúar á síðasta ári. Hún hafi reynt að vinna en hafi versnað í desember 2012.

Í skýringarbréfi kæranda til Vinnumálastofnunar 4. apríl 2013 kom fram að hún hafi farið á heilsugæsluna á Akranesi vegna verkja í vinstri öxl og handlegg. Talið hafi verið að þetta myndi lagast eftir einhvern tíma en kærandi hefði þó verið send í myndatöku í janúar 2013 og hafi komið í ljós að hún væri með brjósklos. Hún hefði ekki fengið vitneskju um það fyrr en 19. febrúar 2013 og hefði hún í kjölfarið tilkynnt um óvinnufærni sína til Vinnumálastofnunar og skilað inn læknisvottorði þess efnis.

 

 

Í læknisvottorði Reynis Þorsteinssonar, læknis, dags. 27. febrúar 2013, kemur fram að kærandi sé óvinnufær með öllu. Hún sé enn slæm af einkennum um brjósklos á hálsi sem vonast sé til að gangi til baka.

Í læknisvottorði Reynis Þorsteinssonar læknis, dags. 3. júní 2013, kemur fram að kærandi hafi leitað á heilsugæsluna 11. desember 2012 vegna verkja í handlegg. Hafi rannsóknir leitt í ljós að hún væri með brjósklos í hálsi. Það sé oft þannig að slíkt gangi hratt yfir og hafi vonir verið bundnar við að það gerðist hjá kæranda. Það hafi þó ekki orðið og veikindin valdið henni verulegum óþægindum næstu vikur og mánuði. Læknirinn og kærandinn hafi ekki rætt vinnutengd vandamál hennar en hún hafi augljóslega ekki verið fær um að vinna hvaða vinnu sem er en hefði kannski getað unnið léttari vinnu. Eftir á, þegar í ljós hafi komið að kæranda mundi ekki batna og ekki væri hægt að gera aðgerðir til að bæta úr og það hafi orðið augljósara að hún gæti ekki staðið undir vinnuframlagi, hafi verið ákveðið að sækja um sjúkrabætur. Þær bætur hafi hún þegið frá 1. mars 2013. Fram kemur að læknirinn telji eðlilegt að kærandi hafi verið á atvinnuleysisskrá eins og margir séu þótt þeir hafi ekki fulla starfsgetu.

Í kæru kæranda kemur fram að hún hafi verið úrskurðuð óvinnuhæf 25. febrúar 2013. Hún hafi þá farið á Vinnumálastofnun Vesturlands og afhent vottorð þar að lútandi. Kærandi bendir á að við fyrstu skoðun hafi verið talið að verkirnir í vinstri öxl og handlegg gengju fljótlega til baka. Í myndatöku 24. janúar 2013 hafi komið í ljós að um brjósklos væri að ræða en vitneskja um það hafi fyrst borist kæranda 19. febrúar 2013 í samtali við Ingvar Hákon Ólafsson, heila- og taugalækni. Hafi hún þá snúið sér til Reynis Þorsteinssonar læknis á heilsugæslu Akraness og sent framangreint vottorð þar sem hún hafi verið úrskurðuð óvinnufær frá 12. desember 2012.

Kærandi tekur fram að það sé ekki rétt að hún hafi ekki verið virk í atvinnuleit. Í nóvember 2012 hafi hún fengið vinnu í D í reynslumánuð. Í janúar 2013 hafi hún lagt inn tvær umsóknir um atvinnu á Akranesi en ekki fengið. Kærandi tjáði úrskurðarnefnd atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða að um hafi verið að ræða umsóknir hjá B og hjá C. Hún hafi ekki getað fengið þetta staðfest þar sem ekki hafi verið um rafrænar umsóknir að ræða. Umsóknunum hafi verið eytt að sex mánuðum liðnum þar sem hún hafi ekki endurnýjað þær.

 

Í greinargerð til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 28. júní 2013, bendir Vinnumálastofnun á að í 13. gr. laga um atvinnuleysistryggingar sé gerð grein fyrir almennum skilyrðum fyrir atvinnuleysistryggingum launamanna. Sé virk atvinnuleit launamanns eitt af þeim skilyrðum er atvinnuleitandi þurfi að uppfylla til að geta talist tryggður samkvæmt lögunum, sbr. a-lið 1. mgr. 13. gr. laganna. Nánar sé kveðið á um það í a‒h-liðum 1. mgr. 14. gr. laganna hvað teljist vera virk atvinnuleit. Eitt af meginskilyrðum 13. og 14. gr. laga um atvinnuleysistryggingar sé að einstaklingur sem þiggur atvinnuleysisbætur sé fær til flestra almennra starfa. Þá sé gert ráð fyrir því að sá sem þiggur atvinnuleysisbætur hafi vilja og getu til að taka við starfi án sérstaks fyrirvara og sé reiðubúinn að taka við starfi hvar sem er á Íslandi, sbr. c- og d-liði 1. mgr. 14. gr. laganna. Þannig sé það forsenda þess að atvinnuleitandi teljist tryggður samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar að hann sé fær til flestra almennra starfa, sbr. a-lið 1. mgr. 14. gr. laganna.

Fram kemur af hálfu Vinnumálastofnunar að tímamark óvinnufærni kæranda sé tilgreind í tveimur læknisvottorðum frá 22. desember 2012. Í þriðja læknisvottorðinu, dags. 3. júní 2013, sem kærandi hafi lagt fram staðfesti yfirlæknir hjá Heilbrigðisstofnun Vesturlands að kærandi hefði að minnsta kosti ekki verið fær til flestra starfa heldur aðeins léttari starfa. Sé það mat Vinnumálastofnunar að í ljósi skýrra ummæla í læknisvottorðum hafi kærandi ekki verið fær til flestra almennra starfa frá og með 22. desember 2012. Kærandi hafi því ekki uppfyllt skilyrði a-liðar 13. gr. og a-liðar 14. gr. laga um atvinnuleysistryggingar á tímabilinu 22. desember 2012 til 28. febrúar 2013 og beri því að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur fyrir það tímabil að fjárhæð samtals 321.688 kr. skv. 2. mgr. 39. gr. laganna. Það að kærandi hafi ekki sótt um sjúkradagpeninga fyrr en í marsmánuði 2013 breyti engu um óvinnufærni hennar á fyrrgreindu tímabili. Hvergi í lögum um atvinnuleysistryggingar sé tekið fram að til að atvinnuleitandi geti talist óvinnufær verði hann að hafa sótt um eða fengið greidda sjúkradagpeninga fyrir þann tíma sem hann er óvinnufær.


 

 

Kæranda var með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 2. júlí 2013, sent afrit af greinargerð Vinnumálastofnunar og gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum til 17. júlí 2013. Ekki bárust athugasemdir frá kæranda. Kæranda var með bréfi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 12. ágúst 2013, tilkynnt að afgreiðsla máls þessa myndi tefjast vegna mikils málafjölda hjá nefndinni.

 

 

2.
Niðurstaða

Mál þetta lýtur að því að Vinnumálastofnun telur kæranda hafi fengið ofgreiddar atvinnuleysisbætur á tímabilinu frá 22. desember 2012 til 28. febrúar 2013 að fjárhæð samtals 321.688 kr., þar sem hún hafi á þeim tíma ekki uppfyllt almenn skilyrði laga um atvinnuleysistryggingar skv. a-lið 13. gr. og a-lið 14. gr. laga um atvinnuleysistryggingar sem fjalla um virka atvinnuleit. Beri kæranda að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur skv. 2. mgr. 39. gr. laganna að fjárhæð 279.729 kr. auk 15% álags eða samtals 321.688 kr.

Kærandi leitaði á heilsugæslu 11. desember 2012 vegna verkja í handlegg og leiddu rannsóknir í ljós að hún væri með brjósklos. Samkvæmt læknisvottorði, dags. 3. júní 2013, er algengt að slíkt gangi hratt yfir og hafi verið gert ráð fyrir því í tilviki kæranda. Kærandi starfaði til reynslu í nóvembermánuði 2012 í hannyrðaverslun. Þá kveðst hún hafa sótt um starf á tveimur stöðum í janúar 2013, í B og á C, en hvorugt fengið. Í læknisvottorði, dags. 25. febrúar 2013, er gerð grein fyrir veikindum kæranda, þ.e. brjósklosi í hálsi, og þá fyrst tiltekið að hún hafi verið óvinnufær með öllu aftur í tímann eða frá 12. desember 2012 í u.þ.b. tvo mánuði. Kærandi tilkynnti Vinnumálastofnun samdægurs um þessa niðurstöðu. Af hálfu kæranda kemur einnig fram að henni hafi fyrst orðið ljóst að hún væri með brjósklos í samtali við Ingvar Hákon Ólafsson, heila- og taugalækni, 19. febrúar 2013.


 

 

Skömmu eftir að þessi tilkynning barst Vinnumálastofnun, eða 9. mars 2013, hóf kærandi töku sjúkradagpeninga frá Sjúkratryggingum Íslands. Engin gögn hafa verið lögð fram í málinu sem benda til að kæranda hafi verið fært að fá greiðslur úr öðrum sjóðum vegna tímabilsins 22. desember 2012 til og með 28. febrúar 2013. Þessu til viðbótar hefur ekki verið sýnt fram á að kærandi hafi getað hagað málum sínum þannig að greiðslur atvinnuleysistrygginga til hennar yrðu stöðvaðar fyrr. Kjarni málsins er að bæði hún sem og aðrir héldu að hún væri vinnufær í skilningi laga um atvinnuleysistryggingar þar til að vottorð læknis var gefið út 25. febrúar 2013. Jafnframt ber til þess að líta að staðfest er að kærandi hefur fengið greidda sjúkrapeninga frá 1. mars 2013 og hefur kærandi hefur lagt fram gögn um umsóknir sínar í tiltekna sjúkrasjóði.

Með vísan til framanskráðs lítur úrskurðarnefnd atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða svo á að telja verði, eins og háttar til í máli þessu, að kærandi hafi á tímabilinu 22. desember 2012 til 19. febrúar 2013 haft heilsu til að taka starfi eða taka þátt í virkum vinnumarkaðsaðgerðum í skilningi b-liðar 14. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Miðað er við 19. febrúar 2013 vegna þess að þann dag varð kæranda fyrst ljóst að hún væri með brjósklos, þ.e. í samtali við Ingvar Hákon Ólafsson, heila- og taugalækni, 19. febrúar 2013 eins og rakið hefur verið.

Ekki verður fallist á það mat Vinnumálastofnunar að kærandi hafi ekki verið í virkri atvinnuleit á framangreindu tímabili. Hinni kærðu ákvörðun er því hrundið og tekin ákvörðun um það að kærandi hafi átt rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta til 19. febrúar 2013 þegar henni var orðið ljóst eðli veikinda sinna eins og fram hefur komið.


 

 

Úrskurðarorð

Ákvörðun Vinnumálastofnunar í máli A frá 8. maí 2013 er hrundið. Kærandi endurgreiði ofgreiddar atvinnuleysisbætur sem hún fékk fyrir tímabilið 20. febrúar til 28. febrúar 2013.

 

 

Brynhildur Georgsdóttir,

formaður

 

Hulda Rós Rúriksdóttir                                             Helgi Áss Grétarsson


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta