Hoppa yfir valmynd

A-407/2012. Úrskurður frá 22. mars 2012

ÚRSKURÐUR

 

Hinn 22. mars 2012 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð í máli nr. A-407/2012.

 

Kæruefni og málsatvik

Með bréfi, dags. 5. maí 2011, kærði [A] hdl., f.h. [B] ehf., til úrskurðarnefndar um upplýsingamál þá ákvörðun Reykjavíkurborgar, dags. 28. apríl það sama ár, að synja beiðni kæranda um aðgang að tilboði [C] ehf. í útboði Reykjavíkurborgar nr. 12485, Hreinsun gatna og gönguleiða 2011, útboð IV, ásamt tilteknum fylgigögnum, gögnum frá [C] ehf. sem bárust Reykjavíkurborg eftir opnun tilboða, afriti af úttektarskýrslu Mannvits vegna tækja frá [C] ehf. og matsskýrslu Mannvits á bjóðendum í útboðinu.

 

Af gögnum málsins er ljóst að [C] ehf. var einnig einn bjóðenda í útboði Reykjavíkurborgar nr. 12484: Hreinsun gatna og gönguleiða 2011, útboð III, en kærandi málsins var jafnframt einn bjóðenda í því útboði. Í gögnum málsins, einkum fundargerðum og minnisblöðum, er iðulega fjallað um bæði útboðin saman.

 

Í kæru er aðdraganda málsins lýst svo að Reykjavíkurborg hafi auglýst í ágúst 2010 útboð nr. 12485: Hreinsun gatna og gönguleiða 2011, útboð IV. Verkið hafi verið boðið út til eins árs með möguleika á framlengingu í allt að tvö ár. Tilboð hafi borist frá fjórum bjóðendum og voru þau opnuð 13. október 2010. [C] ehf. hafi reynst lægstbjóðandi en tilboð kæranda næstlægst. Innkauparáð kærða hafi ákveðið á fundi sínum 16. nóvember að taka tilboði [C] ehf. og hafi tilkynning þess efnis verið send öllum bjóðendum degi síðar. Þá hafi verið tilkynnt 29. sama mánaðar að endanlegur samningur hefði komist á milli kærða og [C] ehf. um framkvæmd samnings á grundvelli útboðsins.

 

Í kæru málsins er því lýst að ágreiningur sé milli aðila um það hvort [C] ehf. hafi uppfyllt skilyrði útboðslýsingar í verkinu og hvort jafnræði aðila hafi verið raskað með því að heimila einum bjóðenda, [C] ehf., að breyta tilboði sínu eftir opnun tilboða. Af þeirri ástæðu hafi kærandi óskað eftir því við kærða að hann afhenti ákveðin gögn er vörðuðu tilboð [C] ehf. og mat á því. Hafi málið m.a. verið lagt fyrir kærunefnd útboðsmála en því verið vísað frá þar sem kærufrestur hafi verið útrunninn.

 

Þann 28. febrúar 2011 hafi kærandi óskað eftir því að kærði afhenti tafarlaust afrit af tilboði [C] ehf. í útboði Reykjavíkurborgar nr. 12485, ásamt öllum fylgigögnum, fyrir utan magntöluskrá, þ. á m. upplýsingar um fjölda starfsmanna og reynslu þeirra, skrá yfir helstu vélar, tæki og búnað sem notuð yrðu við verkið, skrá yfir helstu sambærileg verk sem bjóðandi hafi unnið og skrá yfir undirverktaka er bjóðandi myndi ráða til verksins. Í erindinu var þess jafnframt farið á leit við Reykjavíkurborg að afhent yrði afrit af öllum þeim gögnum frá [C] ehf. sem borist hefðu kærða eftir opnun tilboða, þ.m.t. staðfesting frá söluaðilum um tækjakaup. Loks var óskað afrits af úttektarskýrslu Mannvits vegna tækja frá [C] ehf. og matsskýrslu Mannvits á bjóðendum í útboðinu.

 

Kærði hafnaði framangreindri beiðni með bréfi, dags. 28. apríl 2011. Var synjunin byggð á  17. gr. laga um opinber innkaup nr. 84/2007, 6. gr. tilskipunar Evrópuþingsins- og ráðsins nr. 2004/18/EC og 5. gr. upplýsingalaga.

 

Kemur síðan fram að kærandi telji að Reykjavíkurborg sé skylt að afhenda umbeðnar upplýsingar á grundvelli upplýsingalaga, einkum 3. og 9. gr. Þá telji kærandi að hvorki 5. gr. upplýsingalaga né ákvæði laga um opinber innkaup nr. 84/2007, séu því til fyrirstöðu að gögnin verði afhent og vísar um það til úrskurða úrskurðarnefndar um upplýsingamál. Í kærunni kemur fram að umrætt verk felist í hreinsun gatna og göngustíga og að kærandi telji að slík verkefni séu einföld í eðli sínu og að upplýsingarnar sem varði mikilsverð viðskiptaleyndarmál sem tengist slíkum verkefnum séu fátíð, þ.e. upplýsingar um tæki sem notuð séu á opinberum vettvangi, fjöldi starfsmanna fyrirtækis, reynsla bjóðanda af fyrri verkum eða upplýsingar um undirverktaka sem starfa muni fyrir bjóðanda. Ítrekað er að beiðni kæranda varði aðeins upplýsingar um hvernig [C] ehf. uppfylli skilyrði útboðslýsingar, ekki sé beðið um magntölur eða verð. Um sé að ræða gögn sem staðfesti hvernig [C] ehf. hafi uppfyllt skilyrði útboðsins og þær lágmarkskröfur sem þar hafi verið gerðar. Kemur fram að kærandi telji að kærði hafi brotið gegn meginreglu útboðsréttar um jafnræði.

 

Þá kemur fram nánari tilgreining á þeim upplýsingum sem óskað var eftir:

1.      Skrá yfir helstu tæki og búnað sem átti að fylgja tilboði [C] ehf.

2.      Upplýsingar um fjölda starfsmanna og reynslu þeirra enda sé gerð krafa um slíkt í útboðsgögnum.

3.      Skrá yfir sambærileg verk sem [C] ehf. hefði unnið.

4.      Skrá yfir undirverktaka er [C] ehf. tilgreindi í útboðinu að félagið myndi ráða til verksins.

5.      Afrit af öllum þeim gögnum sem kærða bárust frá [C] ehf. eftir opnun tilboða þ.m.t. staðfestingu frá söluaðilum um tækjakaup.

6.      Afrit af úttektarskýrslu Mannvits vegna tækja frá [C] ehf. og matsskýrslu Mannvits á bjóðendum í útboðinu.

 

Í kærunni er mótmælt þeirri afstöðu Reykjavíkurborgar að í þeim gögnum sem kærandi hafi óskað eftir sé að finna upplýsingar sem varði fjárhags- eða viðskiptahagsmuni [C] ehf. Þá segir að upplýsingar sem skylt sé að gefa við opnun tilboða séu ekki þess eðlis að þær falli undir 5. gr. upplýsingalaga. Gera verði ráð fyrir því að útboðsgögn í almennu útboði falli ekki undir nefnda undantekningarreglu, en upplýsingarnar séu nauðsynlegt forsenda þess að almenningur geti fylgst með því að vel sé farið með almannafé og að málefnaleg sjónarmið ráði ferð við opinber innkaup.

 

Málsmeðferð

Kæran var send Reykjavíkurborg með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 11. maí 2011. Kærða var þar veittur frestur til að gera athugasemdir við kæruna og til þess að koma að frekari rökstuðningi fyrir ákvörðuninni til 20. maí 2011. Var þess jafnframt óskað að úrskurðarnefndinni yrði innan sama frests látið í té í trúnaði afrit af þeim gögnum, sem kæran lyti að.

 

Svar barst með bréfi, dags. 3. júní 2011. Því fylgdu afrit af gögnum málsins. Í bréfinu kemur fram að Reykjavík hafni þeim málsástæðum sem kærandi byggi kröfu sína á enda falli hin kærða synjun undir skilyrði upplýsingalaga. Þá kemur fram að tilvísun kæranda til heimildar 9. gr. upplýsingalaga eigi ekki við í málinu þar sem gögn málsins varði ekki á neinn hátt upplýsingar um kæranda sjálfan.

 

Höfnun á aðgangi að gögnum málsins byggi á því að þær upplýsingar sem fram komi í umbeðnum fylgigögnum með tilboði bjóðanda í útboðinu og einstök önnur umbeðin gögn sem varði tæknilega burði bjóðandans og mat á tilboði hans falli undir seinni málslið 5. gr. upplýsingalaga, þ.e. að um sé að ræða upplýsingar um tæknilega burði [C] ehf. og að um sé að ræða viðkvæmar upplýsingar um fjárhags- og viðskiptahagsmuni fyrirtækisins. Þá er byggt á 3. tölul. 6. gr. upplýsingalaga. Jafnframt byggir Reykjavíkurborg á því að umbeðin gögn sem bárust frá [C] ehf., eftir opnun tilboða, úttektarskýrsla og matsskýrsla væru ekki nægilega tilgreind í beiðni kæranda, sem og því að þau gögn sem þar gætu komið til álita séu vinnuskjöl í skilningi 3. tölul. 4. gr. upplýsingalaga.

 

Þá kemur orðrétt fram í umsögn Reykjavíkurborgar:

 

„Sú meginregla gildir við opinber innkaup að kaupandi skuli gæta trúnaðar um upplýsingar sem hann fær frá bjóðendum, eftir því sem efni og eðli upplýsinganna gefur tilefni til, sbr. m.a. 17. gr. laga um opinber innkaup nr. 84/2007 og 6. gr. tilskipunar Evrópuþingsins og Ráðsins nr. 2004/18/EB frá 31. mars 2004 um samræmingu reglna um útboð og gerð opinberra verksamninga, vörusamninga og þjónustusamninga. Þær upplýsingar sem hér koma einkum til álita eru ýmiss konar upplýsingar um fjárhagslega og tæknilega burði bjóðenda, áætlanir þeirra auk tæknilegra lausna og aðferða til að koma til móts við þarfir kaupanda. Fylgigögn með tilboði bjóðanda sem kærandi, sem er jafnframt samkeppnisaðili hans á markaði þar sem afar hörð samkeppni ríkir, óskar aðgangs að fela í sér slíkar upplýsingar. Er því jafnframt byggt á því að 3. tl. 6. gr. upplýsingalaga eigi við um aðgang að þeim gögnum sem kærandi fer fer fram á. Samkvæmt ákvæðinu er heimilt að takmarka aðgang að gögnum þegar mikilvægir almannahagsmunir krefjast, enda hafi þau að geyma upplýsingar um viðskipti stofnana og fyrirtækja í eigu ríkis eða sveitarfélaga, að því leyti sem þau eru í samkeppni við aðra.“

 

Í umsögn Reykjavíkurborgar kemur fram að veruleg hætta sé á því að samkeppnisstaða raskist ef aðgangur sé veittur að gögnunum þar sem það kunni að hafa áhrif á mat kæranda á samkeppnisaðila sínum í næstu útboðum Reykjavíkurborgar á þessum markaði og hafa óeðlilega verðmyndandi áhrif á tilboð kæranda. Borgin hafi metið það svo í þessu máli að hagsmunir bjóðandans af því að hafna aðgangi að umræddum gögnum vægju þyngra en hagsmunir kæranda af því að fá aðgang að þeim. Hafi beiðni um aðgang að fylgigögnum tilboðs og öðrum gögnum um fjárhag og tæknilegar lausnir bjóðanda því verið hafnað á grundvelli 5. gr. upplýsingalaga, enda innihaldi þau upplýsingar um mikilvæga fjárhags- eða viðskiptahagsmuni bjóðandans [C] ehf. sem sanngjarnt sé og eðlilegt að leynt fari.

 

Þá kemur fram að Reykjavíkurborg telji að tölvupóstar, fundargerðir og skýrslur sem beðið sé um aðgang að teljist vinnuskjöl í skilningi 3. tölul. 4. gr. upplýsingalaga. Augljóst sé af þeim gögnum að þau geymi enga endanlega ákvörðun um afgreiðslu máls þar sem um sé að ræða gögn sem verði til við eðlilega framkvæmd á samningi um þjónustu við Reykjavíkurborg. Gögnin beri með sér upplýsingar um mat á tilteknum aðstæðum á hverjum tíma sem taki breytingum eftir því sem fram vindi í undirbúningi á því að hefja þjónustu á grundvelli samningsins. Bent er á að við mat á því hvort gögnin hafi að geyma upplýsingar sem ekki verði aflað annars staðar frá beri að hafa í huga að það ákvæði eigi aðeins við þegar upplýsingar nái til staðreynda máls sem kunni að hafa vegið þungt við ákvarðanatöku stjórnvalds. Um þetta er vísað til athugasemda við ákvæði 3. tölul. 4. gr. í frumvarpi til upplýsingalaga þar sem segi að þegar metið sé hvort upplýsinga verði ekki aflað annars staðar frá sé „einkum átt við upplýsingar um staðreyndir máls sem af einhverjum ástæðum sé ekki að finna annars staðar en kunna að hafa vegið þungt við ákvarðanatöku. Rökin að baki þessari reglu eru einkum þau að slíkar upplýsingar geti verið ómissandi til skýringar á ákvörðun og af þeim orsökum sé ekki rétt að undanþiggja þær aðgangi almennings enda þótt þær sé aðeins að finna í vinnuskjölum.“

 

Segir svo orðrétt:

 

„Umrædd gögn sem óskað er aðgangs að hafa ekki að geyma neina ákvörðum stjórnvalds og upplýsingarnar sem í skjalinu er að finna varða þannig ekki stjórnvaldsákvörðun sem hefur verið tekin. Um er að ræða framkvæmd samnings sem boðinn var út á grundvelli laga um opinber innkaup nr. 84/2007 og unninn er samkvæmt útboðslýsingu nr. 12485 og verða einstaka ákvarðanir eða athafnir sem eru órjúfanlegur hluti af framkvæmd samningsins ekki taldar stjórnvaldsákvarðandir í skilningi upplýsingalaga nr. 50/1996.“

 

Þá ítrekar Reykjavíkurborg að beiðni um gögn önnur en fylgigögn með tilboði sé þannig úr garði gerð að ekki sé ljóst hvaða gögnum sé óskað eftir aðgangi að. Ekki sé til nein skýrsla sem geti talist vera matsskýrsla Mannvits á bjóðendum í útboðinu þar sem ekki hafi farið fram mat á öðrum bjóðendum en [C] ehf. í umræddu útboði. Bendir Reykjavíkurborg á að þessi annmarki á beiðni kæranda standi því í vegi að hægt sé að taka afstöðu til upplýsingaréttar kæranda.

 

Með bréfi Reykjavíkurborgar fylgdu eftirfarandi gögn:

1.      Útboðsgögn nr. 12485.

2.      Viðauki 1.

3.      Útfyllt tilboðsblað [C] ehf., dags. 14. október 2010, ásamt fylgiskjölum;

·         Yfirlýsing bjóðanda um hæfni og tækjakost, dags. 14. október 2010.

·         Vottorð úr fyrirtækjaskrá vegna [C] ehf., útgefið 12. október 2010.

·         Sundurliðun tilboðsfjárhæðar, dags. 14. október 2010.

·         Útfyllt tilboðsblað nr. 2.3. um tæknilegt tilboð, dags. 14. október 2010.

·         Útfylltur listi yfir helstu stjórnendur og starfsmenn, dags. 14. október 2010.

·         Úfyllt tilboðsblað nr. 2.3.3. um hæfni verktaka og sambærileg verk, dags. 14. október 2010. 

4.      Upplýsingar frá [C] ehf. til framkvæmda- og eignasviðs Reykjavíkurborgar vegna útboðsins um tæki og starfsferilskrá yfirstjórnanda verksins, ásamt ítarefni um tæki.

5.      Farmbréf nr. 701168677, 701168720 og 701168717.

6.      Minnisblöð;

·         Minnisblað Mannvits verkfræðistofu til framkvæmda- og eignasviðs Reykjavíkurborgar, dags. 26. október 2010, efni: lægsta boð í útboðum  III og IV.

·         Minnisblað Mannvits verkfræðistofu til framkvæmda- og eignaviðs Reykjavíkurborgar, dags. 17. janúar 2011, efni: úttekt á tækjakosti [C] ehf.

·         Minnisblað Mannvits verkfræðistofu til framkvæmda- og eignasviðs Reykjavíkurborgar, dags. 04. febrúar 2011, efni: fundur framkvæmdasviðs og ráðgjafa um sópun í Reykjavík 2011.

7.      Fundargerðir;

·         Fundargerð fundar nr. 1/2010, vegna hreinsun gatna og gönguleiða, í útboði III og IV, dags. 21. október 2010, rituð af starfsmanni Mannvits verkfræðistofu.

·         Fundargerð fundar nr. 2/2010, vegna hreinsunar gatna og gönguleiða 2011, útboð III og IV, dags. 26. október 2010, rituð af starfsmanni Mannvits verkfræðistofu.

·         Fundargerð fundar nr. 3/2010, vegna hreinsunar gatna og gönguleiða 2011, útboð III og IV, dags. 2. nóvember 2010, rituð af starfsmanni Mannvits verkfræðistofu.

·         Fundargerð fundar nr. 4/2010, vegna hreinsunar gatna og gönguleiða 2011, útboð III og IV, dags. 30. nóvember 2010, rituð af starfsmanni Mannvits verkfræðistofu.

·         Fundargerð fundar nr. 1/2011, vegna hreinsunar gatna og gönguleiða 2011, útboð III og IV, dags. 11. janúar 2011, rituð af starfsmanni Mannvits verkfræðistofu.

·         Fundargerð fundar nr. 2/2011, vegna hreinsunar gatna og gönguleiða 2011, útboð III og IV, dags. 19. janúar 2011, rituð af starfsmanni Mannvits verkfræðistofu.

·         Fundargerð fundar nr. 3/2011, vegna hreinsunar gatna og gönguleiða 2011, útboð III og IV, dags. 7. febrúar 2011, rituð af starfsmanni Mannvits verkfræðistofu.

·         Fundargerð fundar nr. 4/2011, vegna hreinsunar gatna og gönguleiða 2011, útboð III og IV, dags. 16. febrúar 2011, rituð af starfsmanni Mannvits verkfræðistofu.

·         Fundargerð fundar nr. 5/2011, vegna hreinsunar gatna og gönguleiða 2011, útboð III og IV, dags. 2. mars 2011, rituð af starfsmanni Mannvits verkfræðistofu.

·         Fundargerð fundar nr. 6/2011, vegna hreinsunar gatna og gönguleiða 2011, útboð III og IV, dags. 21. mars 2011, rituð af starfsmanni Mannvits verkfræðistofu.

·         Fundargerð fundar nr. 7/2011, vegna hreinsunar gatna og gönguleiða 2011, útboð III og IV, dags. 29. mars 2011, rituð af starfsmanni Mannvits verkfræðistofu.

·         Fundargerð fundar nr. 8/2011, vegna hreinsunar gatna og gönguleiða 2011, útboð III og IV, dags. 18. apríl 2011, rituð af starfsmanni Mannvits verkfræðistofu.

8.      Tölvupóstar;

·         Tölvupóstur fyrirsvarsmanns [C] ehf., dags. 15. janúar 2011, til starfsmanns Mannvits verkfræðistofu o.fl., efni; Athugasemdir, ásamt meðfylgjandi tölvupóstsamskiptum.

·         Tölvupóstur starfsmanns Mannvits verkfræðistofu, dags. 17. janúar 2011, til fyrirsvarsmanns [C] ehf., o.fl., efni; Re: Athugasemdir, ásamt meðfylgjandi tölvupóstsamskiptum.

·         Tölvupóstur fyrirsvarsmanns [C] ehf., dags. 20. janúar 2011, til starfsmanns Mannvits verkfræðistofu o.fl., efni; Re: Vetrarhreinsun útb. III og IV, ásamt meðfylgjandi tölvupóstsamskiptum.

·         Tölvupóstur starfsmanns Mannvits verkfræðistofu, dags. 21. janúar 2011, til fyrirsvarsmanns [C] ehf., o.fl., efni; Re: Vetrarhreinsun útb. III og IV, ásamt meðfylgjandi tölvupóstsamskiptum.

·         Tölvupóstur fyrirsvarsmanns [C] ehf., dags. 4. febrúar 2011, til starfsmanns Mannvits verkfræðistofu, efni; [C].

·         Tölvupóstur fyrirsvarsmanns [C] ehf., dags. 10. febrúar 2011, til starfsmanns Mannvits verkfræðistofu, efni; Re: Flutningar á tækjum.

·         Tölvupóstur fyrirsvarsmanns [C] ehf., dags. 20. janúar 2011, til starfsmanns Mannvits verkfræðistofu, efni; Fwd: fleiri sópar, ásamt meðfylgjandi tölvupóstsamskiptum.

·         Tölvupóstur fyrirsvarsmanns [C] ehf., dags. 20. janúar 2011, til starfsmanns Mannvits verkfræðistofu, efni; 2 Farmbréf, ásamt meðfylgjandi tölvupóstsamskiptum.

·         Tölvupóstur starfsmanns Mannvits verkfræðistofu, dags. 8. mars 2011, til fyrirsvarsmanns [C] ehf.,, o.fl., efni; Vorhreinsun 2011.

·         Tölvupóstur fyrirsvarsmanns [C] ehf.,, dags. 25. mars 2011, til starfsmanns Mannvits verkfræðistofu, efni; Re: Vatnsbíll, ásamt meðfylgjandi tölvupóstsamskiptum.

9.      Úttekt Mannvits verkfræðistofu; Úttekt tækja, yfirlit yfir niðurstöður dags. 14. mars 2011, verkheiti: Hreinsun gatna og gönguleiða í Reykajvík, útboð 3 og 4.

 

Með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 6. júní 2011, var kæranda kynnt umsögn Reykjavíkurborgar vegna kærunnar. Var kæranda gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum vegna kærunnar í ljósi umsagnarinnar til 16. júní. Þær athugasemdir bárust með tölvupósti 15. júní. Með vísan til 31. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 þykir ekki ástæða til þess að rekja frekar það sem kemur fram í gögnum málsins um málsatvik og ágreiningsefni aðila, en úrskurðarnefndin hefur haft hliðsjón af öllum gögnum málsins við úrlausn þess.

 

Niðurstaða

1.

Mál þetta lýtur að synjun Reykjavíkurborgar á beiðni kæranda um aðgang að gögnum í tengslum við útboð Reykjavíkurborgar nr. 12485 – Hreinsun gatna og gönguleiða 2011, útboð IV, eins og nánar greinir í kæru málsins og lýst er í upphafi úrskurðar þessa.

 

2.

Kærði hefur byggt á því að beiðni kæranda um gögn er bárust eftir opnun tilboða séu ekki tilgreind nægjanlega. Eins og kemur fram í 1. mgr. 10. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996, sbr. 2. gr. 161/2006, skal sá sem fer fram á aðgang að gögnum tilgreina þau gögn máls sem hann óskar að kynna sér. Þá getur hann einnig óskað eftir að fá að kynna sér öll gögn um tiltekið mál án þess að tilgreina einstök gögn sem málið varða. Í athugasemdum með 1. gr. í frumvarpi því sem varð að lögum nr. 161/2006 kemur fram að tilgreina verður gögn máls eða málið með það glöggum hætti að stjórnvöldum sé fært að hafa uppi á málinu og gögnum þess.

 

Úrskurðarnefndin lítur svo á að kærandi hafi með nægilega skýrum hætti tilgreint það mál sem þau gögn tilheyra sem hann óskar aðgangs að. Líta verður svo á að beiðni hans lúti að tilgreindu máli. Þá verður ekki séð að beiðni kæranda um gögn sé þannig úr garði gerð að það sé neinum vandkvæðum háð fyrir kærða að hafa upp á þeim.

 

3.

Af hálfu Reykjavíkurborgar hefur einnig verið vísað til þess að borginni sé óheimilt að afhenda umbeðnar upplýsingar vegna þagnarskylduákvæðis 17. gr. laga um opinber innkaup nr. 84/2007, sem nái til umrædds útboðs, en þar segir í 1. mgr. að kaupanda sé óheimilt að láta af hendi upplýsingar sem fyrirtæki hefur lagt fram sem trúnaðarupplýsingar. Til slíkra upplýsinga teljist einkum tækni- og viðskiptaleyndarmál auk þeirra atriða í tilboði sem leynt skulu fara. Af þessu tilefni bendir úrskurðarnefndin á að í 3. mgr. 17. gr. segir sérstaklega að ákvæði 1. mgr. hafi ekki áhrif á skyldu opinbers aðila til að leggja fram upplýsingar á grundvelli upplýsingalaga. Með vísan til 3. mgr. 17. gr. laga um opinber innkaup er ljóst að þagnarskylduákvæði laganna er ekki sérstakt þagnarskylduákvæði, sem gengur framar upplýsingarétti aðila samkvæmt upplýsingalögum. Þá hefur af hálfu Reykjavíkurborgar verið vísað til 6. gr. tilskipunar Evrópuþingsins Ráðsins nr. 2 004/18/EB frá 31. mars 2004 um samræmingu reglna um útboð og gerð opinberra verksamninga, vörusamninga og þjónustusamninga. Það ákvæði er efnislega tekið upp í framangreindri 17. gr. laga nr. 84/2007. Hefur tilvísunin því ekki sjálfstæða þýðingu í málinu.   

 

4.

Í III. kafla upplýsingalaga nr. 50/1996 er fjallað um aðgang aðila að upplýsingum um hann sjálfan. Í 1. mgr. 9. gr. segir orðrétt: „Stjórnvöldum er skylt, sé þess óskað, að veita aðila sjálfum aðgang að skjölum og öðrum gögnum sem varða tiltekið mál ef þau hafa að geyma upplýsingar um hann sjálfan.“ Þetta ákvæði hefur verið skýrt svo af úrskurðarnefndinni að undir það falli ekki eingöngu þau tilvik þegar einstaklingur eða lögaðili óskar eftir upplýsingum sem beinlínis fjalla um hann sjálfan heldur taki hún einnig til þeirra tilvika þegar upplýsingarnar varða viðkomandi með þeim hætti að hann hafi sérstaka hagsmuni umfram aðra af því að fá aðgang að gögnunum. Úrskurðarnefnd um upplýsingamál hefur litið svo á að þátttakandi í útboði teljist „aðili máls“ í skilningi þessa ákvæðis þegar hann fer fram á að fá aðgang að útboðsgögnum, þ. á m. gögnum frá öðrum þátttakendum í útboði, sem verða til áður en til samninga er gengið við tiltekinn bjóðanda, sbr. úrskurði nefndarinnar í máli nr. A-307/2009 og A-377/2011. Að öðru leyti, þ.e. eftir það tímamark, fari um upplýsingarétt bjóðanda skv. 3. gr. upplýsingalaga.

 

Hinn ríki réttur aðila sjálfs til aðgangs að gögnum samkvæmt III. kafla laganna er undantekning frá hinni almennu reglu í II. kafla um rétt almennings til aðgangs að gögnum. Verður því að vera hafið yfir vafa að sá sem fer fram á aðgang að gögnum teljist aðili í skilningi 9. gr. upplýsingalaga. Með vísan til framangreinds og á grundvelli gagna málsins er það niðurstaða úrskurðarnefndar um upplýsingamál að leysa eigi úr því hver réttur kæranda sé til aðgangs að hluta umræddra gagna á grundvelli 9. gr. upplýsingalaga, þ.e. þeirra gagna sem urðu til áður en Reykjavíkurborg tók tilboði [C] ehf. þann 16. nóvember 2010 sem og þeirra gagna sem urðu til eftir þann tíma en varða kæranda með beinum hætti. Fjallað er um rétt kæranda til aðgangs að þessum gögnum undir tölulið 5 hér að aftan.  

 

Um rétt kæranda til aðgangs að gögnum málsins sem til urðu eftir að ákveðið var að taka tilboði [C] ehf., þann 16. nóvember 2010, fer eftir 3. gr. upplýsingalaga, með þeim takmörkunum sem greinir í 4. – 6. gr. laganna, eins og nánar er lýst undir tölulið 6 hér að aftan.

 

Úrskurðarnefndin tekur fram að beiðni kæranda varðar ekki aðgang að gögnum sem tilgreind eru sem fylgigögn nr. 1 og 2 í bréfi Reykjavíkurborgar, dags. 3. júní 2011, þ.e. útboðsgögn nr. 12485 og viðauka 1 við útboðsgögn, enda má ætla að kærandi hafi þau gögn undir höndum sem bjóðandi í útboðinu.

 

5.

Við mat á því hvaða gögn það séu sem kærandi á rétt til aðgangs að skv. 9. gr. upplýsingalaga, ber að líta til þeirra takmarkana sem fram koma í ákvæðinu sjálfu.

 

Í 2. mgr. 9. gr. laganna segir að 1. mgr. gildi ekki um þau gögn sem talin eru í 4. gr. og ekki heldur um þau gögn sem hafa að geyma upplýsingar um mikilvæga almannahagsmuni sem leynt eiga að fara skv. 6. gr. laganna. Þá segir í 3. mgr. 9. gr. að heimilt sé að takmarka aðgang aðila að gögnum ef þau hafa jafnframt að geyma upplýsingar um einkamálefni annarra, enda vegi þeir hagsmunir, sem mæla með því að upplýsingunum sé haldið leyndum, þyngra en hagsmunir þess sem fer fram á aðgang að gögnum.

 

Reykjavíkurborg hefur í þessu sambandi byggt ákvörðun sína um synjun á aðgangi að umbeðnum gögnum á 3. tölul. 6. gr. upplýsingalaga, en jafnframt 3. tölul. 4. gr. Jafnframt hefur Reykjavíkurborg byggt synjun sína á aðgangi kæranda að gögnum málsins á hagsmunum [C] ehf.

 

Samkvæmt 3. tölul. 4. gr. upplýsingalaga tekur réttur almennings til aðgangs að gögnum ekki til „vinnuskjala sem stjórnvald hefur ritað til eigin afnota; þó skal veita aðgang að vinnuskjölum ef þau hafa að geyma endanlega ákvörðun um afgreiðslu máls eða upplýsingar sem ekki verður aflað annars staðar frá.“ Skilyrði fyrir því að skjal teljist vinnuskjal í skilningi þessa ákvæðis er því að það sé ritað til eigin afnota fyrir stjórnvaldið sjálft. Í athugasemdum sem fylgdu frumvarpi til upplýsingalaga segir svo um þetta atriði: „Með vinnuskjölum er hér einkum átt við skjöl sem stjórnvald ritar til eigin afnota, svo og skjöl sem fara á milli deilda, skrifstofa eða að öðru leyti á milli starfsmanna hjá sama stjórnvaldi.“

 

Í 3. tölul. 6. gr. kemur fram að  heimilt er að takmarka aðgang almennings að gögnum þegar mikilvægir almannahagsmunir krefjast enda hafi þau að geyma upplýsingar um: „viðskipti stofnana og fyrirtækja í eigu ríkis eða sveitarfélaga að því leyti sem þau eru í samkeppni við aðra.“

 

Til þess að stjórnvöld geti byggt takmörkun á aðgangsrétti á 3. tölul. 6. gr. laganna verður a.m.k. þremur eftirtöldum skilyrðum að vera fullnægt. Í fyrsta lagi skal starfsemi þess aðila sem upplýsingabeiðni beinist að, eða upplýsingar tengjast að öðru leyti, í heild eða að hluta, vera í samkeppni við aðra aðila. Í öðru lagi þurfa þær upplýsingar sem beðið er um að tengjast þeirri starfsemi viðkomandi aðila sem telst til samkeppnisrekstrar hans. Í þriðja lagi að sú afstaða hafi verið tekin á grundvelli ígrundaðs mats að þeir samkeppnishagsmunir hinnar opinberu stofnunar eða fyrirtækis sem um ræðir séu það verulegir að réttlætanlegt sé að þeir gangi framar hagsmunum og rétti almennings skv. 3. gr. upplýsingalaga til aðgangs að umræddum upplýsingum. Um þetta má m.a. vísa til úrskurða nefndarinnar í málum nr. A-344/2010, A-378/2011 og A-379/2011.

 

Úrskurðarnefndin hefur kynnt sér efni umræddra gagna. Þau gögn sem falla undir rétt kæranda samkvæmt 9. gr. upplýsingalaganna eru eftirtalin:

 

Tilboð [C] ehf. dags. 14. október, auk fylgigagna, sbr. upptalningu í kafla um málsmeðferð.

Um er að ræða þau gögn sem falla undir lið 3 í upptalningu málsgagna í kafla um málsmeðferð hér að framan. Nánar tiltekið er um að ræða tilboðsblað, yfirlýsingu tilboðsgjafa um samstarfssamning við nafngreindan lögaðila, vottorð úr fyrirtækjaskrá, sundurliðun tilboðsfjárhæðar eftir verknúmeri en þar kemur jafnframt fram einingaverð vegna sérverkefna og viðbótarvinnu, tækjalisti (útfyllt tilboðsblað með fyrirsögninnni tækjalisti), útfyllt tilboðsblað um helstu stjórnendur og starfsmenn, en þar kemur aðeins fram nafn fyrirsvarsmanns kæranda og almenn yfirlýsing um starfsreynslu og að lokum er tekið fram nafn lögaðila sem er tilgreindur sem samstarfsaðili kæranda og er þar jafnframt almenn yfirlýsing um starfsreynslu þess aðila.

 

Upplýsingar frá [C] ehf. til framkvæmda- og eignasviðs Reykjavíkurborgar vegna útboðsins um tæki og starfsferilskrá yfirstjórnanda verksins, ásamt ítarefni um tækin.

Um er að ræða þau gögn sem falla undir lið 4 í upptalningu málsgagna í kafla um málsmeðferð hér að framan. Nánar tiltekið er um að ræða upplýsingar frá [C] ehf. sem eru annars vegar upptalning undir fyrirsögninni; tækjalisti og lýsing hans, en hins vegar starfsferilskrá yfirstjórnanda verksins. Með þessu skjali fylgja upplýsingabæklingar framleiðanda sem tilgreint er sem ítarefni vegna tækja sem [C] ehf. hyggst nýta við framkvæmd verksins og tiltekin eru á tækjalista. Þá koma fram upplýsingar um starfsferil yfirstjórnanda verksins og nöfn annars vegar lögaðila sem tilgreindur er sem samstarfsaðili en einnig nafn einstaklings og stutt lýsing á réttindum og starfsferli hans.

 

Minnisblöð Mannvits verkfræðistofu, dags. 26. október 2010 og 4. febrúar 2011.

Um er að ræða tvö af þeim gögnum sem falla undir lið 6 í upptalningu málsgagna í kafla um málsmeðferð hér að framan. Annars vegar er um að ræða minnisblað Mannvits verkfræðistofu til framkvæmda- og eignasviðs Reykjavíkurborgar um lægsta boð í útboðum III og IV, dags. 26. október 2011 en hins vegar minnisblað Mannvits til framkvæmda- og eignasviðs Reykjavíkurborgar um stöðu verks [C] ehf. á grundvelli útboðsins, en þar er m.a. fjallað með beinum hætti um kæranda.

 

Fundargerðir, dags. 21. október 2010, 26. október 2010 og  2. nóvember 2010.

Um er að ræða þrjár af þeim fundargerðum sem falla undir lið 7 í upptalningu málsgagna í kafla um málsmeðferð hér að framan. Í fyrsta lagi er um að ræða fundargerð af fundi fyrirsvarsmanns [C] ehf., fulltrúa Reykjavíkurborgar og tveggja fulltrúa Mannvits verkfræðistofu, dags. 21. október 2010, þar sem fjallað er um tilboð [C] ehf. vegna útboða III og IV, aðstöðu verktaka, hæfni verktaka, mannafla og tæki, verktryggingu, annað og næstu skref. Í öðru lagi fundargerð af fundi fulltrúa Reykjavíkurborgar, fyrirsvarsmanna [C] ehf., fulltrúa Mannvits verkfræðistofu sem og fulltrúa Vegamálunar ehf., um tilboð [C] ehf., dags. 26. október 2010, þar sem fjallað er um tilboð [C] ehf. vegna útboða III og IV, umsjón verktaka, aðstöðu verktaka, hæfni verktaka, lista yfir sambærileg verk, mannafla og tæki, verktryggingu, annað og næstu skref. Í þriðja lagi fundargerð af fundi fulltrúa Reykjavíkurborgar, Mannvits verkfræðistofu og Vegamálunar ehf., dags. 2. nóvember 2010, þar sem fjallað er um gögn sem [C] ehf. skilaði til verkkaupa vegna tilboða í útboðum III og IV, sem og umsjón verktaka, hæfni verktaka, lista yfir sambærileg verk, mannafla og tæki.

 

Í fundargerðunum kemur fram að dreifing fundargerðarinnar sé til fundarmanna, sem og til annarra tilgreindra aðila sem ekki sátu fundina. Í öllum tilvikum eru fundargerðirnar ritaðar af starfsmanni Mannvits verkfræðistofu.

 

Þegar litið er  til efnis þeirra gagna sem hér eru upp talin er það niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að ekkert í þeim sé þess eðlis að heimilt sé að takmarka aðgang kæranda að þeim vegna hagsmuna [C] ehf. eða annarra einkaaðila, sbr. 3. mgr. 9. gr. upplýsingalaga. Nánar tiltekið þá verður ekki séð að neitt í umræddum gögnum sé þess eðlis að þar birtist upplýsingar um málefni af viðskiptalegum eða fjárhagslegum toga sem gætu orðið [C] ehf. til tjóns þótt þær kæmust í hendur kæranda.

 

Þá verður ekki heldur séð að tilefni sé til að fallast á að aðgangur kæranda að umræddum gögnum verði skertur á grundvelli 2. mgr. 9. gr. upplýsingalaga. Ekkert nefndra gagna fullnægir skilyrðum þess að vera vinnuskjal skv. 3. tölul. 4. gr. upplýsingalaga. Þau gögn sem unnin eru til undirbúnings ákvörðunartöku eða vegna almennrar greiningar á stöðu mála, sbr. framangreind minnisblöð, dags. 26. október 2010 og 4. febrúar 2011 og fundargerðir, dags. 21. október 2010, 26. október 2010 og  2. nóvember 2010, voru ekki unnin eingöngu af starfsmönnum Reykjavíkurbogar til eigin afnota þeirra, heldur voru þau unnin af Mannviti verkfræðistofu og ætluð til afnota af hálfu framkvæmdasviðs Reykjavíkurborgar. Þegar af þeirri ástæðu geta þau tekki talist vinnuskjöl kærða til eigin afnota í skilningi upplýsingalaga og á takmörkun 3. tölul. 4. gr. ekki við um framangreind gögn. Þá fellst  úrskurðarnefndin ekki á að takmarka beri aðgang kæranda að framangreindum gögnum á þeim grundvelli að þau varði viðskipti Reykjavíkurborgar í samkeppni við aðra, sbr. 2. mgr. 9. gr., sbr. 3 tölul. 6. gr. upplýsingalaga. Ekki verður séð að það skaði hagsmuni Reykjavíkurborgar, sem í þessu tilliti felast í því að fá sem hagkvæmust tilboð í útboðin verk, frá hæfum bjóðendum, þó að mögulegir samkeppnisaðilar þeirra verktaka sem sinna þjónustu fyrir borgina fái upplýsingar um þau verð sem til þeirra eru greidd.

 

Með vísan til framangreinds er það niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að kærandi eigi rétt á aðgangi að öllum þeim gögnum sem fjallað er um undir þessum tölulið, eins og nánar er tilgreint í úrskurðarorði.

 

6.

Verður þá tekin afstaða til þeirra gagna sem eftir standa. Um rétt kæranda til aðgangs að þeim fer eftir ákvæði 3. gr. upplýsingalaga, með þeim takmörkunum sem greinir í 4.–6. gr. sömu laga. 

 

Í 1. mgr. 3. gr. upplýsingalaga birtist meginregla laganna um upplýsingarétt almennings. Sætir hún undantekningum samkvæmt 4.–6. gr. sömu laga, sem ber að skýra þröngt samkvæmt viðteknum lögskýringaraðferðum.  

 

Í 5. gr. upplýsingalaga er m.a. kveðið á um að óheimilt sé að veita almenningi „aðgang að gögnum er varða mikilvæga fjárhags- eða viðskiptahagsmuni fyrirtækja og annarra lögaðila sem sanngjarnt er og eðlilegt að leynt fari, nema sá samþykki sem í hlut á.“ Í athugasemdum sem fylgdu frumvarpi til laganna er þetta ákvæði skýrt svo: „Óheimilt er að veita almenningi aðgang að gögnum um mikilvæga fjárhags- eða viðskiptahagsmuni fyrirtækja og annarra lögaðila. Þannig er óheimilt að veita upplýsingar um atvinnu-, framleiðslu- og viðskiptaleyndarmál eða viðkvæmar upplýsingar um rekstrar- eða samkeppnisstöðu svo og aðra mikilvæga viðskiptahagsmuni.“

 

Í upplýsingalögum er gert ráð fyrir að metið sé í hverju tilviki hvort um sé að ræða upplýsingar um svo mikilvæga fjárhags- eða viðskiptahagsmuni fyrirtækis að ætla megi að þær séu til þess fallnar að valda viðkomandi fyrirtæki tjóni, verði aðgangur veittur að þeim. Við þetta mat verður einnig að líta til þess hversu mikið tjónið geti orðið og hversu líklegt er að það muni verða, verði upplýsingarnar veittar. Við það mat verður enn fremur að líta til eðlis upplýsinganna, framsetningar þeirra og aldurs, svo og hvaða þýðingu þær hafa fyrir rekstur fyrirtækisins á þeim tíma er matið fer fram. Þegar allt þetta er virt verður að því búnu að meta hvort vegi þyngra á metum; hagsmunir fyrirtækisins eða þeir hagsmunir sem meginreglu 3. gr. upplýsingalaga um aðgang almennings að gögnum er ætlað að tryggja, sbr. úrskurð nefndarinnar í málinu nr. A-388/2011 og til hliðsjónar dóm Hæstaréttar Íslands frá 23. mars 2000 í máli nr. 455/1999.

 

Að framan hefur verið fjallað almennt um skýringu og beitingu 3. tölul. 4. gr. og 3. tölul. 6. gr. upplýsingalaga.

 

Úrskurðarnefndin hefur kynnt sér efni umræddra gagna. Þau gögn sem fjalla ber um á grundvelli 3. gr. upplýsingalaga eru eftirtalin:

 

Minnisblað Mannvits verkfræðistofu, dags. 17. janúar 2011.

Um er að ræða eitt af þeim gögnum sem fellur undir lið 6 í upptalningu málsgagna í kafla úrskurðar þessa um málsmeðferð. Í umræddu minnisblaði Mannvits verkfræðistofu er fjallað um úttekt starfsmanns verkfræðistofunnar, og tveggja starfsmanna Reykjavíkurborgar, sem gerð var 13. janúar 2011 á tveimur tækjum [C] ehf.

 

Farmbréf 1 og 2, ódagsett.

Um er að ræða þau gögn sem falla undir lið 5 í upptalningu málsgagna í kafla um málsmeðferð hér að framan. Nánar tiltekið er um að ræða tvö farmbréf vegna flutnings [C] ehf. á tækjum til landsins vegna vinnu við verk á grundvelli útboða Reykjavíkurborgar.

 

Fundargerðir dags. 30. nóvember 2010, 11. janúar 2011, 19. janúar 2011, 7. febrúar 2011, 16. febrúar 2011, 2. mars 2011, 21. mars 2011, 29. mars 2011 og 18. apríl 2011.

Um er að ræða níu af þeim fundargerðum sem falla undir lið 7 í upptalningu málsgagna í kafla úrskurðar þessa um málsmeðferð.

 

Í fyrsta lagi er um að ræða fundargerð fundar fulltrúa Reykjavíkurborgar, [C] ehf., Vegamálunar ehf. og Mannvits verkfræðistofu, dags. 30. nóvember 2010, þar sem fjallað er um þá ákvörðun innkauparáðs að semja við [C] ehf. í útboðum III og IV, og þær ráðstafanir sem nauðsynlegar væru.

 

Í öðru lagi er um að ræða fundargerð fundar fulltrúa Reykjavíkurborgar, [C] ehf., Vegamálunar ehf. og Mannvits verkfræðistofu, dags. 11. janúar 2011, þar sem fjallað er um stöðu samningaviðræðna við [C] ehf., í útboðum III og IV, umsjón verktaka og verkkaupa, aðstöðu og athafnasvæði, tryggingar, samninga, verkstöðu, verkáætlun, mannafla og tæki, útboðsgögn, reikninga og greiðslur, athugasemdir, önnur mál og næsta verkfund.

 

Í þriðja lagi er um að ræða fundargerð fundar fulltrúa Reykjavíkurborgar, [C] ehf., Vegamálunar ehf. og Mannvits verkfræðistofu, dags. 19. janúar 2011, þar sem fjallað er um verkáætlun í útboðum III og IV, mannafla og tæki, athugasemdir, önnur mál og næsta verkfund.

 

Í fjórða lagi er um að ræða fundargerð fundar fulltrúa Reykjavíkurborgar, [C] ehf., og Mannvits verkfræðistofu, dags. 7. febrúar 2011, þar sem fjallað er um útboð III og IV, mannafla og tæki, athugasemdir, önnur mál og næsta verkfund.

 

Í fimmta lagi er um að ræða fundargerð fundar fulltrúa Reykjavíkurborgar, [C] ehf., og Mannvits verkfræðistofu, dags. 16. febrúar 2011, þar sem fjallað er um útboð III og IV, mannafla og tæki, athugasemdir, önnur mál, næsta verkfund og úttektir.

 

Í sjötta lagi er um að ræða fundargerð símafundar fulltrúa [C] ehf., og Mannvits verkfræðistofu, dags. 2. mars 2011, þar sem fjallað er um útboð III og IV, mannafla og tæki, athugasemdir, önnur mál, næsta verkfund og úttektir.

 

Í sjöunda lagi er um að ræða fundargerð fundar fulltrúa Reykjavíkurborgar, [C] ehf., og Mannvits verkfræðistofu, dags. 21. mars 2011, þar sem fjallað er um útboð III og IV, niðurstöður úttektar á tækjakosti [C] ehf.

Í áttunda lagi er um að ræða fundargerð fundar fulltrúa Reykjavíkurborgar, [C] ehf., og Mannvits verkfræðistofu, dags. 29. mars 2011, þar sem fjallað er um útboð III og IV, verkstöðu, verkáætlun, vinnutíma, mannafla og tæki, reikninga og greiðslur og athugasemdir.

 

Í níunda lagi er um að ræða fundargerð fundar fulltrúa Reykjavíkurborgar, [C] ehf., og Mannvits verkfræðistofu, dags. 18. apríl 2011, þar sem fjallað er um útboð III og IV, verkstöðu, verkáætlun, mannafla og tæki, reikninga og greiðslur og athugasemdir.

 

Umræddar fundargerðir varða samskipti Reykjavíkurborgar við [C] ehf. um samning Reykjavíkurborgar við fyrirtækið eftir að ákveðið var að tilboði þess yrði tekið. Á þeim fundum sem um ræðir sitja ávallt fyrirsvarsmenn [C] ehf., starfsmaður eða starfsmenn verkfræðiskrifstofunnar Mannvits, starfsmenn Reykjavíkurborgar, að undanskildum símafundi 2. mars 2011, og eftir atvikum fulltrúi Vegamálunar ehf. Jafnframt eru allar fundargerðirnar ritaðar af starfsmanni Mannvits verkfræðistofu.

 

Tölvupóstar dags. 15. janúar 2011, 17. janúar 2011, 20. janúar 2011, 21. janúar 2011, 4. febrúar 2011, 10. febrúar 2011, 14. febrúar 2011, 16. febrúar 2011, 8. mars 2011 og 25. mars 2011.

Hér er um að ræða öll gögn sem falla undir lið 8 í upptalningu málsgagna í kafla um málsmeðferð í úrskurði þessum. Í fyrsta lagi er um að ræða tölvupóst frá fyrirsvarsmanni [C] ehf., dags. 15. janúar 2011, til fulltrúa Mannvits verkfræðistofu, Reykjavíkurborgar og Vegamálunar ehf., ásamt meðfylgjandi tölvupóstsamskiptum, þar sem fram koma athugasemdir fyrirsvarsmanns [C] ehf., við fundargerð dags., 11. janúar 2011.

 

Í öðru lagi er um að ræða tölvupóst frá starfsmanni Mannvits verkfræðistofu, dags. 17. janúar 2011, til fulltrúa Mannvits verkfræðistofu, Reykjavíkurborgar og Vegamálunar ehf., vegna athugasemda við fundargerð, dags. 11. janúar 2011, ásamt meðfylgjandi tölvupóstsamskiptum.

 

Í þriðja lagi er um að ræða tölvupóst frá fyrirsvarsmanni [C] ehf., dags. 20. janúar 2011, til fulltrúa Mannvits verkfræðistofu, Reykjavíkurborgar og Vegamálunar ehf., ásamt meðfylgjandi tölvupóstsamskiptum, þar sem fjallað er um tæki [C] ehf.

 

Í fjórða lagi er um að ræða tölvupóst frá starfsmanni Mannvits verkfræðistofu, dags. 21. janúar 2011, til fyrirsvarsmanns [C] ehf., fulltrúa Mannvits verkfræðistofu, Reykjavíkurborgar og Vegamálunar ehf., vegna undirverktaka og afsláttar af einingaverði.

 

Í fimmta lagi er um að ræða tölvupóst frá fyrirsvarsmanni [C] ehf., dags. 4. febrúar 2011, til fulltrúa Mannvits verkfræðistofu og Reykjavíkurborgar, þar sem fjallað er um tæki [C] ehf.

 

Í sjötta lagi er um að ræða tölvupóst frá fyrirsvarsmanni [C] ehf., dags. 10. febrúar 2011, til fulltrúa Mannvits verkfræðistofu og Reykjavíkurborgar, ásamt meðfylgjandi tölvupóstsamskiptum, þar sem fjallað er um tæki [C] ehf. og flutning á þeim.

 

Í áttunda lagi er um að ræða tölvupóst frá fyrirsvarsmanni [C] ehf., dags. 14. febrúar 2011, til fulltrúa Mannvits verkfræðistofu, ásamt meðfylgjandi tölvupóstsamskiptum, þar sem fjallað er um tæki [C] ehf. og flutning á þeim.

 

Í níunda lagi er um að ræða tölvupóst frá fyrirsvarsmanni [C] ehf., dags. 16. febrúar 2011, til fulltrúa Mannvits verkfræðistofu, ásamt meðfylgjandi tölvupóstsamskiptum, þar sem send eru farmbréf vegna tækja.

 

Í tíunda lagi er um að ræða tölvupóst frá starfsmanni Mannvits verkfræðistofu, dags. 8. mars 2011, til fulltrúa [C] ehf., Reykjavíkurborgar og Vegamálunar ehf., vegna vorhreinsunar 2011.

 

Í ellefta lagi er um að ræða tölvupóst frá fyrirsvarsmanni [C] ehf., dags. 25. mars 2011, til fulltrúa Mannvits verkfræðistofu, ásamt meðfylgjandi tölvupóstsamskiptum, þar sem fjallað er um tæki [C] ehf.

 

Úttekt Mannvits verkfræðistofu og Reykjavíkurborgar á tækjum [C] ehf; yfirlit yfir niðurstöður, dags. 14. mars 2011.

Hér er um að ræða þau gögn sem falla undir lið 9 í upptalningu málsgagna í kafla um málsmeðferð hér að framan. Nánar tiltekið er um að ræða úttekt starfsmanns Mannvits verkfræðistofu og tveggja starfsmanna Reykjavíkurborgar á tilgreindum tækjum [C] ehf., yfirlit yfir niðurstöður úttekta og athugasemdir.

 

Eftir yfirferð á umræddum gögnum er það niðurstaða úrskurðarnefndar um upplýsingamál að ekkert í þeim sé þess eðlis að rétt sé að hafna því að veita kæranda aðgang að þeim með vísan til þeirra röksemda sem Reykjavíkurborg hefur fært fram til í málinu.

 

Ekkert þeirra gagna sem hér um ræðir fullnægir skilyrðum þess að teljast vinnuskjal í skilningi 3. tölul. 4. gr. upplýsinglaga. Sérstaklega vísast hér til fundargerða annars vegar og tölvupósta hins vegar. Ekkert þessara gagna eru unnin af starfsmönnum kærða einvörðungu til eigin afnota þeirra.

 

Í tilvitnuðum gögnum er ekki að finna upplýsingar sem varða atvinnu, framleiðslu- eða viðskiptaleyndarmál, viðkvæmar upplýsingar um rekstrar- eða samkeppnisstöðu sem talist geta varða mikilvæga viðskiptahagsmuni [C] ehf. Það verður heldur ekki séð að það yrði [C] ehf. til tjóns að neinu leyti yrðu þessar upplýsingar gerðar opinberar. Ekki verður því fallist á að heimilt sé að takmarka aðgang að umræddum gögnum með vísan til 5. gr. upplýsingalaga.

 

Þá verður ekki séð að neitt í gögnum málsins sé þess eðlis að heimilt sé að takmarka aðgang að þeim vegna samkeppnishagsmuna Reykjavíkurborgar.

 

Að þessu öllu virtu fellst nefndin ekki á að neita beri kæranda aðgangi að gögnum þeim sem hann hefur farið fram á.

 

Reykjavíkurborg ber því að afhenda kæranda þau gögn sem hann hefur óskað eftir, samanber upptalningu í kafla um málsmeðferð framar í úrskurði þessum og í samræmi við nánari afmörkun í úrskurðarorði.


 

Úrskurðarorð

Reykjavíkurborg ber að afhenda kæranda afrit af öllum þeim gögnum sem tilgreind eru í töluliðum 3 til og með 9 í kafla með yfirskriftinni „málsmeðferð“ í úrskurði þessum.

 

 

Trausti Fannar Valsson

formaður

 

 Sigurveig Jónsdóttir                                                                                     Friðgeir Björnsson


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta