Hoppa yfir valmynd

A-408/2012. Úrskurður frá 22. mars 2012

ÚRSKURÐUR

 

Hinn 22. mars 2012 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð í máli nr. A-408/2012.

 

Kæruefni og málsatvik

Með bréfi, dags. 4. júní 2011, kærði [A] til úrskurðarnefndar um upplýsingamál synjun „Landlæknisembættisins á skjölum og gögnum með upplýsingum um niðurstöður á úttekt á hjúkrunarheimilum“ sem hann hefði óskað eftir í tölvupósti 27. maí 2011 og ekki hafi verið svarað.

 

Í framangreindum tölvupósti segir m.a.: „Landlæknisembættið hefur vitneskju um hjúkrunar-heimili sem ekki standast kröfur eftir úttekt sem gerð var, samkvæmt því sem fram hefur komið í fréttum. Með þessum tölvupósti langar mig undirritaðan, blaðamann á [B], að biðja góðfúslegast um aðgang að og afrit af skýrslu um úttektina eða öðrum þeim gögnum og skjölum í vörslu embættisins sem sýna hvaða heimili standast kröfurnar og hvaða heimili gera það ekki.“

 

Málsmeðferð

Kæran var send Landlæknisembættinu með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 9. júní 2011, þar sem vakin er athygli á því að skv. 11. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996 beri stjórnvaldi að taka svo fljótt sem verða megi ákvörðun um hvort verða eigi við beiðni um aðgang að gögnum. Ennfremur skuli skýra þeim, sem fer fram á aðgang að gögnum, frá ástæðum tafa og hvenær ákvörðunar sé að vænta, hafi beiðni ekki verið afgreidd innan sjö daga frá móttöku hennar. Þá beri að tilkynna skriflega synjun beiðni, sbr. 13. gr. s.l.

 

Í bréfinu var því beint til Landlæknisembættisins að taka ákvörðun um afgreiðslu á beiðni kæranda eins fljótt og við yrði komið, hefði það ekki þegar verið gert, eða ekki síðar en 16. júní 2011. Innan sama tímafrests skyldi birta ákvörðunina kæranda og nefndinni. Kom fram að kysi Landlæknisembættið að synja kæranda um aðgang að umbeðnum gögnum, skyldi nefndinni látin í té afrit þeirra innan sama frests. Þá kom fram að kæmi til synjunar yrði Landlæknisembættinu gefinn kostur á að koma að athugasemdum við kæruna og frekari rökstuðningi fyrir ákvörðuninni innan sömu tímamarka, sbr. 2. mgr. 16. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996.

 

Landlæknisembættið óskaði eftir fresti vegna bréfs úrskurðarnefndar og var hann veittur til 22. júní 2011.

 

Kærði svaraði bréfi úrskurðarnefndarinnar með bréfi, dags. 21. júní 2011, og sendi kæranda samrit þess. Í bréfinu er beðist velvirðingar á því að tölvupósti kæranda, dags. 27. maí 2011, hafi ekki verið svarað. Þá segir að Landlæknisembættið hafi ákveðið að birta útttekarskýrslur embættisins á vefsetri þess í síðasta lagi 24. júní 2011 og yrðu þær því öllum aðgengilegar þar. Embættið teldi þó ekki ástæðu til að birta skýrslur sem gerðar væru fyrir árið 2008, þar sem svo gamlar úttektir gæfu ekki rétta mynd af núverandi starfsemi stofnananna.

 

Með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 4. júlí 2011, var kæranda kynnt umsögn Landlæknisembættisins vegna kærunnar. Var kæranda gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum vegna kærunnar í ljósi umsagnarinnar til 11. júlí s.á.

 

Með tölvupósti, dags. 14. júlí 2011, bárust athugasemdir kæranda vegna umsagnarinnar. Í bréfinu er kæran ítrekuð og á því byggt að kæranda hafi ekki verið veittur aðgangur að umbeðnum gögnum. Þá segir kærandi í bréfinu að greinargerðir virðist hafa verið birtar á vef Landlæknisembættisins um úttektir á tilteknum heimilum, en þar sé ekki að finna þá samantekt sem óskað hafi verið eftir með beiðni til embættisins. Auk þess hafi Landlæknisembættið ekki svarað ósk kæranda um að fá ábendingu um efnið á vefnum, en vegna þess geti hann ekki áttað sig á hvaða úttektir það séu sem embættið hafi kosið að birta í framhaldi af erindi sínu.

 

Með bréfi, dags. 17. febrúar 2012, óskaði úrskurðarnefndin eftir svörum Landlæknisembættisins við eftirfarandi spurningum;

1.   Eru birtar á vefsíðu yðar allar úttektir á hjúkrunarheimilum sem gerðar hafa verið af hálfu Landlæknisembættisins frá ársbyrjun 2009 til 27. maí 2011, en beiðni kæranda um aðgang að gögnum er dags. þann dag? Ef til eru fleiri úttektir en þær sem birtar eru á vefsíðunni (sex talsins eftir því sem best verður séð) óskar úrskurðarnefndin eftir því að Landlæknisembættið láti nefndinni afrit af þeim í té í trúnaði.

2.   Er til sérstök samantekt á þeim úttektum sem gerðar hafa verið á framangreindu tímabili, sbr. það sem fram kemur í hjálögðum athugasemdum kæranda frá 14. júlí 2007? Ef svo er óskar úrskurðarnefndin eftir því að Landlæknisembættið láti nefndinni afrit af samantektinni í té í trúnaði.

3.   Beiðni kæranda um aðgang að gögnum, dags. 27. maí 2011, og kæru hans til úrskurðarnefndarinnar, dags. 4. júní s.á., verður að skilja svo að hann óski eftir aðgangi að öllum skjölum og gögnum sem varða framangreindar úttektir á hjúkrunarheimilum. Ef fyrir liggja slík gögn og skjöl frá tímabilinu frá ársbyrjun 2009 til 27. maí 2011 til viðbótar úttektum þeim sem birtar hafa verið á vefsíðu Landlæknisembættisins óskar úrskurðarnefndin eftir því að henni verði send afrit þeirra gagna í trúnaði.

Þá sagði í bréfinu að teldi Landlæknir ekki unnt að verða við beiðni kæranda eins og hún væri fram sett, eða teldi rétt að synja um aðgang að gögnum, óskaði úrskurðarnefndin þess einnig að embættið léti úrskurðarnefndinni í té, innan sama frests, nánari skýringar og röksemdir þar að lútandi.

 

Með bréfi, dags. 22. febrúar 2012, svaraði Landlæknisembættið erindi úrskurðarnefndar. Í bréfinu kemur fram að allar úttektir á hjúkrunarheimilum sem gerðar hafi verið hjá embættinu á árunum 2009 til 2011 hafi verið birtar á vef embættisins. Þá sagði að embættið hefði ekki gert neina sérstaka samantekt á úttektunum. Þá segir orðrétt í bréfinu:

 

„Þriðja spurningin er um það hvort til séu gögn og skjöl frá tímabilinu frá ársbyrjun 2009 til 27. maí 2011, til viðbótar úttektum þeim sem birtar hafa verið á vefsíðu embættisins og sé svo óskar úrskurðarnefndin eftir afriti þeirra gagna. Þau gögn sem verða til við úttektir á hjúkrunarheimilum eru bréf til stjórnenda stofnunarinnar þar sem úttektin er tilkynnt og óskað svara við sérstökum spurningalista um þjónustuna, húsnæði og aðbúnað, mannauðsmál, gæðamál, lyfjamál, skráningu, atvik og kvartanir, öryggismál, vistunarmat og RAI mat. Svör stjórnenda eru tekin saman í úttektarskýrslunni. Þar eru einnig niðurstöður helstu RAI gæðavísa og svo niðurstöður notendakannanna þegar þær eru gerðar. Þau gögn sem úttekt varða eru þannig efnislega orðin hluti af hinni birtu skýrslu. Gögn sem verða til eftir að úttekt lýkur eru bréf til stjórnenda að lokinni úttekt og til velferðarráðuneytisins. Hjálagt sendast úrskurðarnefndinni umbeðin afrit þeirra gagna frá umræddu tímabili sem úttektunum tengjast.

 

Embætti landlæknis lagði þann skilning í beiðni kæranda frá 27. maí 2011 að þær upplýsingar sem óskað væri eftir væru í raun upplýsingar um niðurstöður úttektanna, sem koma fram í úttektarskýrslunum. Taldi embættið því að það hefði orðið við beiðni kæranda um upplýsingar með birtingu skýrslnanna, sbr. bréf dags. 21. júní sl. og hefur því ekki sent honum framangreint afrit. Ekkert er því þó til fyrirstöðu óski hann þess nú.“

 

Með bréfinu fylgdu eftirtalin gögn:

 

1. Varðandi hjúkrunarheimilið Sunnuhlíð

Bréf vegna úttektar

Efni: Úttekt á gæðum þjónustu á Hjúkrunarheimilinu Sunnuhlíð

Fylgigögn

Spurningalisti: Gæði og öryggi þjónustu hjúkrunarheimila - Upplýsingar frá framkvæmdastjórn

Gátlisti vegna úttektar: Gátlisti yfir atriði, sem skoðuð eru í úttektarheimsókn

Svör framkvæmdastjórnar við spurningalista

Bréf til velferðarráðuneytisins með úttektarskýrslu

Efni: Úttekt Landlæknisembættisins á hjúkrunarheimilinu Sunnuhlíð

Bréf til framkvæmdastjórnar með úttektarskýrslu

Efni: Skýrsla vegna úttektar á Sunnuhlíð, hjúkrunarheimili aldraðra

Lokaskýrsla

Bréf til framkvæmdastjórnar

Efni: Eftirfylgni vegna úttektar á Sunnuhlíð, hjúkrunarheimili aldraðra

 

2. Hjúkrunarheimilið Skógarbær

Bréf vegna úttektar

Efni: Úttekt á gæðum þjónustu á Hjúkrunarheimilinu Skógarbæ

Fylgigögn

Spurningalisti og gátlisti: Gæði og öryggi þjónustu hjúkrunarheimila - Upplýsingar frá framkvæmdastjórn

Bréf til velferðarráðuneytisins

Efni: Eftirlit og áreiðanleikamat RAI skráningar á hjúkrunarheimilinu Skógarbæ 2. mars 2011

Svör framkvæmdastjórnar við spurningalista

Bréf til framkvæmdastjórnar með úttektarskýrslu

Efni: Skýrsla vegna úttektar á Hjúkrunarheimilinu Skógarbæ

Lokaskýrsla

Bréf til framkvæmdastjórnar

Efni: Eftirfylgni vegna úttektar á Hjúkrunarheimilinu Skógarbæ

 

3. Hjúkrunarheimilið Eir

Bréf vegna úttektar

Efni: Úttekt á gæðum þjónustu á Hjúkrunarheimilinu Eir

Fylgigögn

Spurningalisti og gátlisti: Gæði og öryggi þjónustu hjúkrunarheimila - Upplýsingar frá framkvæmdastjórn

Svör framkvæmdastjórnar við spurningalista

Bréf til framkvæmdastjórnar með úttektarskýrslu

Efni: Skýrsla vegna úttektar á Hjúkrunarheimilinu Eir

Lokaskýrsla

Bréf til framkvæmdastjórnar

Efni: Eftirfylgni vegna úttektar á Hjúkrunarheimilinu Eir

 

4. Dvalarheimili aldraðra á Suðurnesjum, Hlévangur og Garðvangur

Bréf vegna úttektar

Efni: Úttekt á gæðum þjónustu á Dvalarheimili aldraðra á Suðurnesjum, Hlévangur og Garðvangur

Fylgigögn

Spurningalisti og gátlisti: Gæði og öryggi þjónustu hjúkrunarheimila - Upplýsingar frá framkvæmdastjórn

Svör framkvæmdastjórnar við spurningalista

Þau komu í þremur bréfum/tölvupóstum

Fylgigögn

Stefna dvalarheimilisins

Bréf til framkvæmdastjórnar með úttektarskýrslu

Efni: Skýrsla vegna úttektar á Dvalarheimili aldraðra á Suðurnesjum, Hlévangur og Garðvangur

Lokaskýrsla

Bréf til framkvæmdastjórnar

Efni: Eftirfylgni vegna úttektar á Dvalarheimili aldraðra á Suðurnesjum, Hlévangur og Garðvangur

 

5. Hjúkrunarheimilið Holtsbúð

Bréf vegna úttektar

Efni: Úttekt á gæðum þjónustu á Hjúkrunarheimilinu Holtsbúð.

Fylgigögn

Spurningalisti: Gæði og öryggi þjónustu hjúkrunarheimila - Upplýsingar frá framkvæmdastjórn

Gátlisti vegna úttektar: Gátlisti yfir atriði, sem skoðuð eru í úttektarheimsókn

Tilkynning til framkvæmdastjórnar um áreiðanleikamat á RAI mat

Efni: Áreiðanleikamat

Verklýsing vegna áreiðanleikamats RAI-skráningar á hjúkrunarheimilinu Holtsbúð, Garðabæ 27. október 2010

Gátlisti fyrir áreiðanleikamat á RAI-skráningu á hjúkrunarheimilinu Holtsbúð í Garðabæ, 27. október 2010

Bréf til velferðarráðuneytisins

Efni: Eftirlit og áreiðanleikamat RAI skráningar á hjúkrunarheimilinu Holtsbúð 27. október 2010

Svör framkvæmdastjórnar við spurningalista

Bréf til framkvæmdastjórnar með úttektarskýrslu

Efni: Meðfylgjandi er skýrsla vegna úttektar á Hjúkrunarheimilinu Holtsbúð

Lokaskýrsla

Bréf til velferðarráðuneytisins

Efni: Hjúkrunarheimilið Holtsbúð. Úttekt á gæðum þjónustu

Lokaskýrsla

 

 

6. St. Jósefsspítali og Sólvangur

Bréf vegna úttektar

Efni: Úttekt á gæðum þjónustu á St. Jósefsspítala og Sólvangi

Fylgigögn

Spurningalisti til framkvæmdastjórna á St. Jósefsspítala

Spurningalisti til framkvæmdastjórna á Sólvangi

Bréf sem fylgir með viðhorfskönnun meðal starfsmanna

Bréf til framkvæmdastjórnar um framkvæmd þjónustukönnunar á Sólvangi

Fylgigögn

Spurningalisti: Þjónustukönnun á Sólvangi

Bréf til íbúa á Sólvangi

Bréf til aðstandenda íbúa á Sólvangi

Bréf til framkvæmdastjórnar um framkvæmd þjónustukönnunar á St. Jósefsspítala

Fylgigögn

Spurningalisti: Þjónustukönnun á St. Jósefsspítala

Svör framkvæmdastjórnar við spurningalista

Þau komu í þremur bréfum/tölvupóstum

Fylgigögn

Stefna dvalarheimilisins

Bréf til framkvæmdastjórnar með úttektarskýrslu

Efni: Skýrsla vegna úttektar á St. Jósefsspítala og Sólvangi.

Lokaskýrsla

 

Með bréfi dags. 29. febrúar var kæranda sent afrit bréfs Landlæknisembættisins og veittur frestur til 9. mars til að koma á framfæri athugasemdum við umsögnina.

 

Í tölvupósti dags. 2. mars svaraði kærandi bréfi úrskurðarnefndarinnar frá 29. febrúar. Í tölvupóstinum segir hann drátt á afgreiðslu kærunnar meiri en við verði unað. Þá segir orðrétt í tölvupóstinum: „Til þess að ljúka máli þessu fyrir úrskurðarnefndinni uni ég við að tekin verði afstaða til afhendingar á aðeins þeim gögnum sem vísað er til í bréfi landlæknisembættisins dags. 22. febrúar sl. og verða til eftir að úttekt lýkur.“

 

Niðurstaða

1.

Mál þetta laut upphaflega að drætti Landlæknisembættisins á beiðni [A] um aðgang að úttektarskýrslu embættisins á hjúkrunarheimilum og öðrum þeim gögnum og skjölum í vörslu embættisins sem sýni hvaða heimili standist kröfur og hvaða heimili geri það ekki. Í kjölfar þess að kæra málsins var kynnt Landlæknisembættinu birti embættið úttektarskýrslur á hjúkrunarheimilum á vef embættisins, þó ekki eldri skýrslur en frá því árið 2008. Synjun þess að veita kæranda aðgang að skýrslum eldri en 2008 var á því byggð að þær gæfu ekki rétta mynd af starfsemi hjúkrunarheimila eins og hún væri nú.

 

Á vef Landlæknisembættisins á slóðinni http://www.landlaeknir.is/Utgafa/Ritogskyrslur má finna yfirlit yfir þær skýrslur og rit sem Landlæknisembættið hefur gefið út frá og með árinu 1974. Í málinu liggur fyrir að úttektir embættisins varðandi hjúkrunarheimili eru aðgengilegar með þessum hætti öllum almenningi frá og með árinu 2008. Þá kemur fram á síðunni að ritin séu til sölu í afgreiðslu embættisins, séu þau ekki aðgengileg á rafrænu formi. Samkvæmt síðunni er hún uppfærð í janúar 2012.

 

Í  tölvupósti frá kæranda, dags. 2. mars, afmarkaði hann kröfu sína um aðgang að gögnum við þau gögn sem lýst er í bréfi embættis landlæknir til úrskurðarnefndarinnar að til séu til viðbótar þeim skýrslum sem gerðar voru um úttektir landlæknisembættisins á hjúkrunarheimilum á tímabilinu frá ársbyrjun 2009 til júní 2011 og birtar hafa verið á vef embættisins. Þá liggur fyrir að af hálfu landlæknisembættisins er ekkert því til fyrirstöðu að kæranda verði veittur aðgangur að þessum gögnum sem lýst er sérstaklega í úrskurðinum hér að framan. Þannig liggur fyrir ósk kæranda um aðgang að ákveðnum tilteknum gögnum og samþykki þess stjórnvalds, sem gögnin stafa frá og hefur þau í vörslum sínum, að veita aðgang að þeim. Landlæknisembættið hefur hins vegar ekki enn hlutast til um  að afhenda kæranda umbeðin gögn.

 

Samkvæmt 1. mgr. 12. gr. upplýsingalaga skal stjórnvald taka ákvörðun um hvort gögn, sem heimilt er að veita aðgang að, skuli sýnd eða hvort afhent verði ljósrit eða afrit þeirra. Í þessu sambandi ber að taka sérstaklega fram að til þess að stjórnvald fullnægi þeirri ákvörðun sinni að veita aðgang að gögnum nægir ekki að úrskurðarnefndinni einni séu afhent afrit gagnanna, heldur ber stjórnvaldi að afhenda gögnin þeim sem um þau biður, eins fljótt og verða má, sbr. einnig 1. mgr. 11. gr. upplýsingalaga. Landlæknisembættinu bar því að taka ákvörðun um afhendingu gagnanna þegar í stað eftir að tekin hafði verið ákvörðun um að veita kæranda aðgang að gögnunum. Það hefur embættið ekki gert.

 

Með vísan til þessa er það niðurstaða úrskurðarnefndar í því tilviki sem hér um ræðir að fella verði úrskurð um það að leggja fyrir Landlæknisembættið að afhenda kæranda þau fylgigögn sem embættið sendi úrskurðarnefnd um upplýsingamál með bréfi dags. 22. febrúar og tilgreind eru hér að framan.

 

Uppkvaðning úrskurðar þessa hefur dregist verulega, einkum vegna anna nefndarinnar.

 

Úrskurðarorð

Landlæknisembættinu ber að afhenda [A] afrit fylgiskjala sem vísað er til í bréfi embættisins til úrskurðarnefndar um upplýsingamál, dags. 22. febrúar 2012. Þessum gögnum er lýst hér að framan og hefst lýsingin á fyrirsögninni „1. Varðandi hjúkrunarheimilið Sunnuhlíð og lýkur á orðunum „ Efni: Skýrsla vegna úttektar á St. Jósefsspítala og Sólvangi.

Lokaskýrsla.“

 

 

 

 

Trausti Fannar Valsson

formaður

 

 

 Sigurveig Jónsdóttir                                                                                     Friðgeir Björnsson


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta