Nr. 126/2021 Úrskurður
KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA
Þann 17. mars 2021 er kveðinn upp svohljóðandi
úrskurður nr. 126/2021
í stjórnsýslumáli nr. KNU20120062
Kæra [...]
á ákvörðunum
Útlendingastofnunar
I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild
Þann 28. desember 2020 kærði [...], fd. [...], ríkisborgari [...] (hér eftir nefnd kærandi), ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 11. desember 2020, um að synja umsókn hennar um dvalarleyfi á grundvelli hjúskapar með íslenskum ríkisborgara, sbr. 70. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016. Þá kærði kærandi fyrir hönd barna sinna, [...], fd. [...] og [...], fd. [...], ákvarðanir Útlendingastofnunar, dags. 11. desember 2020, þar sem þeim var synjað um dvalarleyfi á grundvelli fjölskyldusameiningar við kæranda, sbr. 1. mgr. 69. gr. laga um útlendinga.
Kærandi krefst þess að ákvörðun Útlendingastofnunar í máli hennar verði felld úr gildi. Til vara krefst kærandi þess að henni verði veitt dvalarleyfi á grundvelli fjölskyldusameiningar, sbr. 1. mgr. 69. gr. laga um útlendinga.Kærandi krefst þess jafnframt að ákvarðanir Útlendingastofnunar í málum barna hennar verði felldar úr gildi.
Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.
II. Málsatvik og málsmeðferð
Kærandi sótti um dvalarleyfi á grundvelli hjúskapar við íslenskan ríkisborgara, [...], þann 4. júlí 2019. Þann sama dag sótti kærandi fyrir hönd barna sinna um dvalarleyfi á grundvelli fjölskyldusameiningar. Með ákvörðunum Útlendingastofnunar, dags. 11. desember 2020, var umsóknunum synjað. Kæranda var tilkynnt um ákvarðanirnar þann 15. desember 2020 og kærði ákvarðanirnar til kærunefndar útlendingamála þann 28. desember 2020. Greinargerð kæranda barst kærunefnd þann 14. janúar 2021.
III. Ákvarðanir Útlendingastofnunar
Í ákvörðun Útlendingastofnunar sem snýr að kæranda kemur fram að við vinnslu umsóknar hafi komið í ljós að hluti framlagðra gagna væru ekki í samræmi við fyrirmyndir af skjölum frá heimaríki kæranda. Hafi Útlendingastofnun sent beiðni um áreiðanleikakönnum til lögreglunnar á Suðurnesjum þann 13. desember 2019 en um hafi verið að ræða þrjú skjöl, þ.e. hjónavígsluvottorð, þýðingu hjónavígsluvottorðs og sakavottorð. Niðurstaða áreiðanleikakönnunar hafi borist stofnuninni þann 20. janúar 2020 og hafi niðurstaðan verið sú að sakavottorðið væri trúverðugt en hjónavígsluvottorðið væri hins vegar ótraustvekjandi, ótrúverðugt og að öllum líkindum falsað. Hafi Útlendingastofnun sent kæranda bréf, dags. 13. ágúst 2020, þar sem henni var veittur 15 daga frestur til að leggja fram andmæli og tekið fram að ef engin gögn bærust yrði ákvörðun tekin á grundvelli fyrirliggjandi gagna. Með ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 3. nóvember 2020, hafi umsókn kæranda verið synjað með vísan til 2. mgr. 52. gr. laga um útlendinga. Kærandi hafi farið fram á endurupptöku málsins þann 6. nóvember 2020 vegna gagna sem lögð hefðu verið í póstkassa Útlendingastofnunar í októbermánuði. Í ljós hafi komið að láðst hefði að staðfesta móttöku gagnanna og vista þau á fullnægjandi vegu í skjalakerfi stofnunarinnar en hið nýja gagn hafi verið hjónavígsluvottorð, dags. 17. september 2020. Hafi umboðsmanni kæranda verið tilkynnt þann 9. nóvember 2020 að fallist hefði verið á beiðni um endurupptöku og hann upplýstur um að vottorðið yrði rannsakað á fullnægjandi vegu svo Útlendingastofnun gæti tekið efnislega afstöðu til innihalds þess. Hafi stofnunin sent beiðni um áreiðanleikakönnun á skjalinu til lögreglunnar á Suðurnesjum þann 12. nóvember 2020. Samkvæmt niðurstöðu áreiðanleikakönnunar, dags. 30. nóvember 2020, hafi það verið niðurstaða lögreglunnar að hjónavígsluvottorðið væri falsað og þær upplýsingar sem skjalið hefði að geyma yrðu að teljast ótraustar.
Er í ákvörðuninni fjallað um 52. gr. laga um útlendinga og 10. gr. reglugerðar um útlendinga, með síðari breytingum. Með vísan til rannsóknar lögreglunnar á Suðurnesjum teldi Útlendingastofnun ekki unnt að byggja dvalarleyfi á grundvelli hjúskapar á framlögðum hjónavígsluvottorðum. Var umsókn kæranda því synjað. Þá var umsóknum barna hennar, [...] og [...], jafnframt synjað enda leiddu þau rétt sinn af umsókn kæranda.
IV. Málsástæður og rök kæranda
Í greinargerð vísar kærandi til þess að hún hafi gengið í hjúskap með íslenskum ríkisborgara þann 15. janúar 2019 í [...] og eigi þau saman þrjú börn, það yngsta fætt í desember 2020. Kærandi byggir á því að hún hafi alla tíð verið sannfærð um réttmæti þess hjúskaparvottorðs sem hún hafi lagt fram enda hafi hún verið í góðri trú varðandi gögnin þar sem þau hafi verið gefin út af viðkomandi stjórnvaldi í [...]. Kærandi hafi án árangurs reynt að afla skýringa varðandi gögnin og jafnframt óskað eftir aðstoð frá sendiráðinu í [...] varðandi öflun nýrra gagna sem geti staðfest hjúskap hennar. Kærandi byggir á því að form- og efnisannmarkar hafi verið á ákvörðun Útlendingastofnunar varðandi dvalarleyfi á grundvelli hjúskapar samkvæmt 70. gr. laga um útlendinga. Hún telji að hún uppfylli öll skilyrði ákvæðisins, m.a. um að hjúskapur hafi varað lengur en eitt ár. Hafi Útlendingastofnun brotið gegn meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 við töku ákvörðunar í máli hennar en hin kærða ákvörðun komi í veg fyrir að aðilar fái að njóta samvista á grundvelli hjúskapar og þá sé einnig verið að koma í veg fyrir að börnin njóti umönnunar til jafns hjá báðum foreldrum. Þá hafi stofnuninni borið að meta og vega hagsmuni kæranda af því að dvelja hér á landi við hagsmuni hins opinbera af því að synja henni og börnum hennar um dvalarleyfi. Byggir kærandi á því að grundvallarreglur stjórnsýsluréttarins hafi verið virtar að vettugi við málsmeðferðina en Útlendingastofnun hvorki virt þá rannsóknarskyldu sem hvíli á stofnunni né leiðbeiningarskyldu. Í leiðbeiningarskyldunni felist m.a. að stjórnvöldum beri að gera aðila viðvart um það þegar þau telji að hann hafi misskilið réttarreglur, ekki skilað inn nauðsynlegum gögnum eða hafi bersýnilega þörf á leiðbeiningum. Kærandi hafi eftir bestu getu reynt að afla þeirra gagna sem Útlendingastofnun hafi óskað eftir en stofnunin hafi ítrekað talið framlögð gögn vera ófullnægjandi.
Þá hafi Útlendingastofnun aldrei farið fram á það að börn kæranda gangist undir mannerfðafræðilega rannsókn sem myndi staðfesta faðerni barnanna og á þeim grundvelli að þeim yrði veittur sá möguleiki að sameinast sem fjölskylda á ný. Samkvæmt 1. mgr. 112. gr. laga um útlendinga geti Útlendingastofnun óskað eftir því að framkvæmd sé mannerfðafræðileg rannsókn til að staðfesta skyldleika, ef fyrirliggjandi gögn eru ekki talin veita fullnægjandi sönnun um skyldleika sem byggt er á eða hefur vægi í málinu. Við ákvörðun um að veita dvalarleyfi hafi Útlendingastofnun heimild til að krefjast lífsýnis til að staðfesta fjölskyldutengsl; hins vegar hafi stofnunin ekki óskað eftir slíku né leiðbeint kæranda um nauðsyn þess svo unnt væri að staðreyna fjölskyldutengsl. Kærandi byggir jafnframt á því að hin kærða ákvörðun brjóti gegn jafnræðisreglunni þar sem mál hennar hafi ekki hlotið sambærilega meðferð og önnur sambærileg mál. Þá hafi stofnunin gengið lengra en nauðsyn hafi verið til þess að ná því markmiði að ákvörðunin byggði á ófölsuðum gögnum. Að mati kæranda feli málsmeðferðin í sér alvarleg frávik frá málsmeðferðarreglum stjórnsýsluréttarins en reglunum sé ætlað að tryggja lágmarksvernd einstaklinga sem feli stjórnvöldum úrlausn mála sinna.
V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála
Samkvæmt 1. mgr. 52. gr. laga um útlendinga tekur Útlendingastofnun ákvörðun um veitingu dvalarleyfis. Samkvæmt 2. mgr. 52. gr. laganna skulu fylgja með umsókn öll þau gögn og vottorð sem stofnunin gerir kröfu um til staðfestingar á að umsækjandi uppfylli skilyrði sem lög, reglugerðir og önnur stjórnvaldsfyrirmæli kveða á um. Samkvæmt 3. mgr. ákvæðisins setur ráðherra reglugerð um nánari framkvæmd ákvæðisins, m.a. hvaða gögn og vottorð umsækjandi skuli leggja fram, hvaða kröfur skuli gerðar til framlagðra gagna, hver skuli leggja mat á gildi skjala og um undanþágu frá kröfu um gögn.
Í 10. gr. reglugerðar um útlendinga nr. 540/2017, með síðari breytingum, hefur ráðherra útfært nánar reglur um fylgigögn með umsókn um dvalarleyfi. Í 1. mgr. 10. gr. segir að Útlendingastofnun geti krafist þeirra gagna sem nauðsynleg eru við vinnslu umsóknar, m.a. fæðingarvottorðs, hjúskaparstöðuvottorðs, forsjár- eða umgengnisgagna, heilbrigðisvottorðs, dánarvottorðs, og staðfestingu á dvalarstað hér landi. Þá geti stofnunin krafist ljósmynda, greinargerða, gagna um framfærslu og sakavottorðs í þeim tilvikum sem stofnunin meti það nauðsynlegt. Í 2. mgr. 10. gr. er mælt fyrir um að með umsókn um dvalarleyfi skuli umsækjandi leggja fram yfirlýsingu sína um að hann hafi hreinan sakaferil í samræmi við ákvæði laga um útlendinga. Í 3. mgr. 10. gr. segir m.a. að umsækjandi afli sjálfur nauðsynlegra fylgigagna með dvalarleyfisumsókn. Þá skuli fylgigögn vera á því formi sem stofnunin geri kröfu um og staðfest með þeim hætti sem stofnunin telji nauðsynlegan. Í 5. mgr. 10. gr. er m.a. kveðið á um að Útlendingastofnun geti veitt undanþágu frá framlagningu gagna þegar lög krefjist ekki framlagningar og málefnalegar ástæður mæli með því, t.d. ef umsækjanda er ómögulegt að afla þeirra, svo sem vegna stríðsástands í heimaríki.
Samkvæmt 1. mgr. 70. gr. laga um útlendinga er heimilt að veita útlendingi dvalarleyfi hér á landi hyggist hann flytjast hingað til lands til að búa með maka sínum eða sambúðarmaka. Skilyrði þess er að makinn hafi rétt til fjölskyldusameiningar samkvæmt VIII. kafla laga um útlendinga og að hann sé annaðhvort í hjúskap eða sambúð, sbr. 2. ml. 1. mgr. 70. gr. laganna.
Líkt og greinir í hinni kærðu ákvörðun voru tiltekin gögn sem kærandi lagði fram við meðferð umsóknar um dvalarleyfi send í áreiðanleikakönnun til lögreglunnar á Suðurnesjum. Í skjalarannsóknarskýrslu lögreglunnar á Suðurnesjum, dags. 6. janúar 2020, kom fram að framlagt hjónavígsluvottorð væri ótraustvekjandi, ótrúverðugt og að öllum líkindum falsað. Framlagt sakavottorð var metið trúverðugt. Útlendingastofnun sendi beiðni á lögregluna á Suðurnesjum þann 12. nóvember 2020 um að taka til skoðunar hjónavígsluvottorð sem kærandi hafði lagt fram til Útlendingastofnunar í október 2020. Í skjalarannsóknarskýrslu lögreglunnar á Suðurnesjum, dags. 27. nóvember 2020, kom fram að skjalið væri falsað og að þær upplýsingar sem skjalið hefði að geyma yrðu að teljast ótraustar, m.a. með hliðsjón af fyrri rannsókn skjala sömu aðila. Þann 2. mars 2021 barst kærunefnd hjónavígsluvottorð frá kæranda sem er dagsett 22. janúar 2021. Er vottorðið sambærilegt að formi og efni og það skjal sem lögreglan á Suðurnesjum tók til rannsóknar, dags. 27. nóvember 2020. Í ljósi fyrri niðurstöðu lögreglu um þau hjónavígsluvottorð sem kærandi lagði fram við meðferð málsins hjá Útlendingastofnun sem og formi og efni þess skjals sem kærandi lagði fram til kærunefndar, að skjalið sé ótraust og að ekki verði því byggt á efni þess.
Að mati kærunefndar hagga skýringar kæranda við meðferð málsins hjá kærunefnd ekki framangreindri niðurstöðu sérfræðinga á sviði skjalarannsókna hjá lögreglunni á Suðurnesjum, en samkvæmt fyrrgreindum skjalarannsóknarskýrslum hefur kærandi lagt fram hjónavígsluvottorð sem metin hafa verið fölsuð og ótraust. Þá hefur kærunefnd nú metið framlagt hjónavígsluvottorð, dags. 21. janúar 2021, sem ótraust. Kærandi hefur því ekki lagt fram trúverðug gögn sem sýna fram á að hún og [...], sem umsókn hennar byggir á, séu í hjúskap. Að framansögðu virtu uppfyllir kærandi ekki skilyrði 1. mgr. 70. gr. laga um útlendinga um dvalarleyfi á grundvelli hjúskapar.
Fyrirliggjandi í gögnum málsins eru fæðingarvottorð, útgefin af [...] stjórnvöldum, en lögmæti þeirra hefur ekki verið dregið í efa við meðferð málsins hjá íslenskum stjórnvöldum. Þar kemur fram að [...] sé faðir barna kæranda, [...] og [...]. Börn íslensks ríkisborgara eiga sjálfstæðan rétt til dvalar hér á landi, sbr. 1. mgr. 69. gr. og 71. gr. laga um útlendinga og er því ljóst að börn kæranda eiga rétt á fjölskyldusameiningu við föður sinn hér á landi sem er alls óháður rétti kæranda til dvalar. Þá kunna þau að eiga rétt á íslenskum ríkisborgararétti samkvæmt ákvæðum laga nr. 100/1952 um íslenskan ríkisborgararétt. Var rannsókn Útlendingastofnunar að þessu leyti því haldin annmarka enda liggur ekki fyrir sjálfstæð skoðun á rétti [...] og [...] til dvalar hér á landi en eðli málsins samkvæmt þyrfti við slíka rannsókn að kanna afstöðu kæranda, móður þeirra, til slíkrar fjölskyldusameiningar. Þar sem Útlendingastofnun afgreiddi málin með ofangreindum hætti er að mati kærunefndar rétt að ákvarðanir Útlendingastofnunar í máli kæranda og barna hennar verði felldar úr gildi og að stofnunin taki umsóknir þeirra allra um dvalarleyfi til frekari rannsóknar.
Úrskurðarorð
Ákvarðanir Útlendingastofnunar eru felldar úr gildi. Lagt er fyrir stofnunina að taka mál kæranda og barna hennar til meðferðar á ný.
The decisions of the Directorate of Immigration are vacated. The Directorate is instructed to re-examine the appellant’s and her childrens’ cases.
Tómas Hrafn Sveinsson
Gunnar Páll Baldvinsson Bjarnveig Eiríksdóttir