Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 85/2010

 

Úrskurður

Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða þann 7. desember 2010 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A nr. 85/2010.

 

1.

Málsatvik og kæruefni

Málsatvik eru þau að með bréfi dags. 17. maí 2010 tilkynnti Vinnumálastofnun kæranda, A, að Vinnumálastofnun hefði á fundi sínum þann 5. maí 2010 fjallað um umsókn hennar um atvinnuleysisbætur frá 4. janúar 2010. Fallist var á umsókn kæranda en réttur hennar til atvinnuleysisbóta var felldur niður í tvo mánuði í upphafi bótatímabils með vísan til 1. mgr. 54. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006. Kærandi vildi ekki una þeirri ákvörðun og kærði hana til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða með erindi, dags. 25. maí 2010. Kærandi krefst þess að litið verði þannig á starfslok sín hjá X að henni hafi verið sagt upp og að henni verði greiddar atvinnuleysisbætur í samræmi við það og hún krefst þess einnig að henni verði greiddar tekjutengdar atvinnuleysisbætur í þrjá mánuði. Vinnumálastofnun krefst þess að hin kærða ákvörðun verði staðfest.

Kærandi sótti um atvinnuleysistryggingar þann 4. janúar 2010. Með ákvörðunarbréfi Vinnumálastofnunar, dags. 26. mars 2010, var kæranda tilkynnt að stofnunin hefði ákveðið að synja henni um greiðslur atvinnuleysistrygginga þar sem hún gæti einungis unnið næturvinnu samkvæmt upplýsingum hennar sjálfrar. Hún gæti því ekki talist í virkri atvinnuleit, sbr. ákvæði 13. gr. og 14. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Af hálfu kæranda var synjuninni mótmælt með bréfi, dags. 30. mars 2010, og hún talin byggð á misskilningi. Í kjölfarið var mál kæranda tekið fyrir að nýju og á fundi þann 5. maí 2010 var tekin ákvörðun um að fella niður greiðslur til kæranda í tvo mánuði þar sem hún hafi sagt upp starfi sínu án gildra ástæðna, sbr. 1. mgr. 54. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

Með bréfi hjúkrunarheimilisins að X til kæranda, dags. 29. september 2009, var henni tilkynnt um breytingu á vinnutilhögun frá og með 1. janúar 2010 með þeim hætti að hún ætti að sinna dag- og kvöldvöktum jafnhliða næturvöktum en þeim hafði hún eingöngu sinnt. Kærandi var ósátt við fyrirhugaða breytingu á vöktum og tilkynnti vinnustaðnum að hún liti svo á að með breytingunum hafi henni verið sagt upp störfum frá og með 1. janúar 2010. Í bréfi forstöðumanns X til kæranda, dags. 8. október 2009, segir að breytingar á vaktafyrirkomulagi teljist ekki uppsögn starfs og að í ráðningarsamningi við kæranda komi fram að hún sé ráðin í vaktavinnu á X. Samkvæmt vottorði vinnuveitanda, dags. 5. janúar 2010, starfaði kærandi sem sjúkraliði á heimilinu þar til hún sagði upp störfum 31. desember 2009.

Í greinargerð Vinnumálastofnunar til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 11. nóvember 2010, kemur fram varðandi kröfu kæranda um að henni verði greiddar tekjutengdar atvinnuleysisbætur að stofnuninni sé ekki heimilt að greiða tekjutengdar atvinnuleysisbætur í þeim tilvikum sem atvinnuleitandi hafi verið gert að sæta biðtíma, sbr. 9. mgr. 32. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Fram kemur af hálfu Vinnumálastofnunar að hyggist atvinnurekandi breyta einhliða ráðningarkjörum starfsmanns beri honum að tilkynna launamanni það með sama hætti og sama fresti og væri um uppsögn að ræða. Hér hafi kæranda verið tilkynnt með þriggja mánaða fyrirvara um breytingar á vaktafyrirkomulagi. Einnig sé gerð sú krafa að vinnuveitandi gæti sömu formreglna og gildi um uppsögn og greini í hverju breytingin sé fólgin. Í bréfi því sem vinnuveitandinn hafi sent kæranda hafi henni verið gert skýrt að það óformlega samkomulag þess efnis að hún ynni eingöngu á næturvöktum væri ekki lengur í gildi að þessum þremur mánuðum liðnum og við tæki vinna á dag-, kvöld- og næturvöktum. Vilji starfsmaður ekki una fyrirhugaðri breytingu á ráðningarkjörum geti hann tilkynnt atvinnurekanda að hann sætti sig ekki við breytinguna og muni láta af störfum við lok uppsagnarfrestsins. Starfsmanni beri að tilkynna atvinnurekanda án óþarfa dráttar, ætli hann að láta af störfum. Tilkynningin sé því í raun ígildi uppsagnar en með öfugum formerkjum. Líti Vinnumálastofnun svo á að kærandi hafi ekki sætt sig við það vaktafyrirkomulag sem henni hafi verið boðið og í kjölfarið sagt starfi sínu lausu.

Skýringar kæranda fyrir uppsögn sinni séu í reynd tvenns konar. Í fyrsta lagi segi hún að næturvinna sé eina vinnan sem hún geti unnið vegna fjölskylduaðstæðna. Lögmaður kæranda hreki þó þessa fullyrðingu hennar og segi að um misskilning hafi verið að ræða, hún hafi átt við að næturvaktir hafi eingöngu komið til greina hjá þessum ákveðna vinnuveitanda. Hún teljist því réttilega í virkri atvinnuleit hvað varði aðra vinnuveitendur. Ekki verði séð að þetta sé gild ástæða fyrir uppsögn á starfi þar sem dag- og kvöldvinnu sé sambærilega háttað á vinnustöðum, óháð því hver vinnuveitandinn sé. Það sé ljóst að kæranda hafi staðið til boða að starfa áfram á fyrrverandi vinnustað. Einnig komi fram í samskiptasögu kæranda við Vinnumálastofnun að hún þjáist af gigt og geti því ekki unnið sambærileg störf í dagvinnu. Kærandi hafi ekki skilað gögnum er varði skerta vinnufærni til stofnunarinnar og því sé ekki hægt að telja slíkt til gildra ástæðna fyrir uppsögn á starfi.

Fram kemur að það sé mat Vinnumálastofnunar að ástæður þær er kærandi gefi fyrir uppsögn sinni, teljist ekki gildar í skilningi 1. mgr. 54. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

Kæranda var með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 17. nóvember 2010, sent afrit af greinargerð Vinnumálastofnunar og gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum fyrir 1. desember 2010. Engar frekari athugasemdir bárust frá kæranda.

 

2.

Niðurstaða

Mál þetta lýtur að túlkun á 1. mgr. 54. gr. laga um atvinnuleysistryggingar en hún er svohljóðandi:

„Sá sem telst tryggður samkvæmt lögum þessum en hefur sagt starfi sínu lausu án gildra ástæðna skal ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta skv. VII. kafla fyrr en að tveimur mánuðum liðnum, sem ella hefðu verið greiddar bætur fyrir, frá móttöku umsóknar um atvinnuleysisbætur. Hið sama gildir um þann sem missir starf af ástæðum sem hann á sjálfur sök á.“

Í skilningi 1. mgr. 54. gr. er orðalagið „gildar ástæður“ skýrt þröngt, sem þýðir í raun að fá tilvik falla þar undir. Lagareglan er matskennd og Vinnumálastofnun falið að meta hvernig atvik og aðstæður þess máls er fyrir henni liggur falli að umræddri reglu. Stofnuninni ber að líta til almennra reglna og málefnalegra sjónarmiða við ákvarðanir um hvort umsækjendur um atvinnuleysisbætur skuli sæta biðtíma eftir atvinnuleysisbótum.

Vinnuveitandi kæranda ákvað að breyta einhliða vinnufyrirkomulagi hennar. Samkvæmt þeim upplýsingum er liggja fyrir í málinu var breytingin innan ráðningarsamnings kæranda við vinnuveitanda sinn og hefur þeirri fullyrðingu ekki verið mótmælt af hálfu kæranda. Rétt var staðið að tilkynningu um breytinguna og kæranda veittur hæfilegur frestur til að gera við hana athugasemdir. Kærandi sætti sig ekki við breytt vinnufyrirkomulag og ákvað að hætta störfum að liðnum veittum fresti. Með hliðsjón af þessu verður ekki hjá því komist að líta svo á að kærandi hafi sagt upp störfum hjá vinnuveitanda sínum.

Ekki verður talið að ástæður þess að kærandi ákvað að halda ekki áfram störfum hjá vinnuveitanda sínum geti talist gildar ástæður í skilningi 1. mgr. 54. gr. Því ber að staðfesta niðurstöðu Vinnumálastofnunar um niðurfellingu bótaréttar kæranda í tvo mánuði.

 

Úrskurðarorð

Ákvörðun Vinnumálastofnunar 5. maí 2010 um niðurfellingu bótaréttar A í tvo mánuði er staðfest.

 

 

Brynhildur Georgsdóttir, formaður

Hulda Rós Rúriksdóttir

Helgi Áss Grétarsson

 




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta