Mál nr. 39/2010
Úrskurður
Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða þann 7. desember 2010 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A nr. 39/2010.
1.
Málsatvik og kæruefni
Málsatvik eru þau að með bréfi, dags. 18. janúar 2010, tilkynnti Vinnumálastofnun kæranda, A, að Vinnumálastofnun hefði á fundi sínum þann 15. janúar 2010 fjallað um fjarveru kæranda í boðað viðtal þann 1. desember 2009. Vegna fjarveru kæranda var réttur hans til atvinnuleysisbóta felldur niður í 40 daga frá og með degi ákvörðunar sem ella hefðu verið greiddar atvinnuleysisbætur fyrir með vísan til 1. mgr. 58. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006. Kærandi vildi ekki una þeirri ákvörðun og kærði hana til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða með erindi dagsettu 5. mars 2010. Kærandi krefst þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. Vinnumálastofnun krefst þess að hin kærða ákvörðun verði staðfest.
Kærandi sótti um atvinnuleysisbætur hjá Vinnumálastofnun þann 28. október 2008. Hann var, með bréfi Vinnumálastofnunar, dags. 23. nóvember 2009, boðaður til fundar við ráðgjafa stofnunarinnar þann 1. desember 2009. Bréfið var sent á lögheimili kæranda að Frostafold 153 í Reykjavík en það heimilisfang hafði hann tilkynnt Vinnumálastofnun sem aðsetur sitt. Kærandi mætti ekki til fundarins og boðaði ekki forföll. Með bréfi Vinnumálastofnunar, dags. 3. desember 2009, var honum tilkynnt að hann uppfylli ekki skilyrði 13. og 14. gr. laga um atvinnuleysistryggingar og var honum, í samræmi við 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, gefinn kostur á að gefa skýringar á fjarveru sinni. Engar skýringar bárust frá kæranda og var tekin ákvörðun á fundi Vinnumálastofnunar þann 28. desember 2009 um að stöðva greiðslur til kæranda þar sem hann teldist ekki lengur í virkri atvinnuleit. Þann 5. janúar 2010 barst skýringarbréf kæranda vegna fjarveru á boðuðum fundi Vinnumálastofnunar, en skýringar hans voru ekki teknar gildar og var hin kærða ákvörðun tekin þann 15. janúar 2010 eins og fram hefur komið.
Kærandi kveðst hafa tekið pósthólf á leigu við Pósthússtræti 5 sumarið 2009. Meiningin hafi verið sú að girða fyrir að póstur færi forgörðum þar sem hann hafi verið að búa sig undir að missa íbúðina sína sökum þeirra aðstæðna sem hann hafi verið kominn í. Það sé algengt að póstur eigi erfitt með að skila sér í töluverðan tíma eftir að flutt sé og hafi hann talið að með pósthólfinu væri fyrir það girt að svo gæti farið. Engu að síður virðist sá póstur sem honum hafi verið ætlaður af Vinnumálastofnun aldrei hafa borist honum, hvorki í pósthólf né í B-stað
. Kærandi segir smáskilaboð (SMS) sem Vinnumálastofnun hafi sent honum í síma ekki hafa borist sér. Ástæðan sé sú að eftir að hann missti vinnuna hafi hann talið skynsamlegra að vera með svokallað „frelsi“ til þess að eiga auðveldara með að greiða fyrir símanotkun sína þar sem frelsið sé fyrirfram greidd þjónusta. Það sé erfitt að fá símareikninga eftir á við þær aðstæður sem skapist við atvinnumissi. Við þessar breytingar hafi hann skipt um símanúmer en honum hafi láðst að láta Vinnumálastofnun vita af þessum breytingum. Hafi hann beðið stofnunina velvirðingar á þessu.
Í greinargerð Vinnumálastofnunar til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 24. júní 2010, kemur fram að af 58. gr. laga um atvinnuleysistryggingar megi ráða að hafni einstaklingur þátttöku í vinnumarkaðsaðgerðum skuli hann sæta 40 daga biðtíma eftir atvinnuleysisbótum. Í greinargerð er fylgdi frumvarpi því er varð að lögum um atvinnuleysistryggingar sé efni 58. gr. laganna nánar skýrt. Segi þar að Vinnumálastofnun annist skipulag vinnumarkaðsaðgerða og að litið sé svo á að þeim sem tryggðir séu innan atvinnuleysistryggingakerfisins sé skylt að taka þátt í vinnumarkaðsúrræðum. Þá sé jafnframt tekið fram í greinargerðinni að bregðist hinn tryggði þeirri skyldu leiði það til viðurlaga í formi biðtíma eftir atvinnuleysisbótum. Það sé grundvallarskilyrði þess að unnt sé að aðstoða umsækjanda um atvinnuleysisbætur við að fá starf við hæfi og gefa honum kost á þátttöku í viðeigandi vinnumarkaðsaðgerðum að atvinnuleitandi sinni þeim boðunum og ábendingum sem sannanlega séu send með viðurkenndum hætti og tilkynni stofnuninni um breytingar á heimilisfangi og símanúmerum. Vinnumálastofnun líti svo á að það teljist liður í virkri atvinnuleit að upplýsa stofnunina um þær breytingar sem verði á högum atvinnuleitenda, hafi þær breytingar bein áhrif á getu atvinnuleitandans til að taka þátt í vinnumarkaðsúrræðum og sinna starfsviðtölum sem stofnunin boði til með sannanlegum hætti. Í ljósi þess að rík skylda hvíli á umsækjendum um atvinnuleysisbætur til þátttöku í vinnumarkaðsaðgerðum sé það mat Vinnumálastofnunar að hvorki skýring sú er kærandi taki fram í bréfi sínu til stofnunarinnar né í kæru til úrskurðarnefndarinnar geti réttlætt fjarveru kæranda á fundi stofnunarinnar þann 1. desember 2009 og að með fjarveru sinni hafi kærandi brugðist skyldum sínum skv. 1. mgr. 58. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.
Kæranda var með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 24. júní 2010, sent afrit af greinargerð Vinnumálastofnunar og gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum fyrir 8. júlí 2010. Kærandi sendi bréf með tölvupósti þann 13. ágúst, 20. október og 12. nóvember 2010.
2.
Niðurstaða
Mál þetta lýtur að 1. mgr. 58. gr. laga um atvinnuleysistryggingar en hún er svohljóðandi:
„Sá sem hafnar þátttöku í vinnumarkaðsaðgerðum, sbr. lög um vinnumarkaðsaðgerðir, samkvæmt ákvörðun Vinnumálastofnunar eftir að hafa verið í atvinnuleit í a.m.k. fjórar vikur frá móttöku Vinnumálastofnunar á umsókn um atvinnuleysisbætur skal ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta skv. VII. kafla fyrr en að 40 dögum liðnum, sem ella hefðu verið greiddar bætur fyrir, frá þeim degi er viðurlagaákvörðun Vinnumálastofnunar er tilkynnt aðila.“
Í athugasemdum við 58. gr. með frumvarpi til laga atvinnuleysistryggingar kemur fram að Vinnumálastofnun annist skipulag vinnumarkaðsaðgerða og hinir tryggðu njóti faglegrar ráðgjafar sérfræðinga stofnunarinnar og sé litið svo á að hinum tryggðu sé skylt að taka þátt í slíkum úrræðum. Bregðist hinn tryggði þessum skyldum sínum leiði það til viðurlaga í formi biðtíma eftir atvinnuleysisbótum.
Samkvæmt 13. gr. laga um atvinnuleysistryggingar er virk atvinnuleit skilyrði fyrir atvinnuleysistryggingum launamanna. Til að geta talist vera í virkri atvinnuleit þarf umsækjandi að hafa vilja og getu til að taka þátt í vinnumarkaðsaðgerðum sem standa honum til boða, sbr. g-lið 14. gr. laganna. Ekki er gert ráð fyrir undanþágum frá þessari skyldu, en gera verður ráð fyrir því að til slíkrar þátttöku sé boðað með eðlilegum hætti og kæranda almennt gert mögulegt að taka þátt í slíkum aðgerðum.
Í umsókn kæranda var lögheimili hans sagt vera B-staður og farsímanúmer hans C. Síðar tók hann á leigu pósthólf við Pósthússtræti 5. Með bréfi Vinnumálastofnunar dagsettu 23. nóvember 2009 var kærandi boðaður á fund þann 1. desember 2009. Bréfið var sent á lögheimili hans og jafnframt voru send smáskilaboð um fundinn í það farsímanúmer sem hann hafði gefið upp. Kærandi mætti ekki á fundinn.
Kærandi fullyrðir að honum hafi ekki borist boðunarbréf Vinnumálastofnunar, hvorki í pósthólf sitt né á B-stað. Enda þótt ekki sé útilokað að bréf misfarist í meðförum póstsins, verður almennt að teljast ólíklegt að þau berist ekki réttum viðtakendum. Erfitt er hins vegar að sannreyna hið rétta í þessum efnum. Til að auka líkur á því að skilaboð Vinnumálastofnunar berist skjólstæðingum hennar hefur stofnunin komið skilaboðum áleiðis með fleiri leiðum, til dæmis með smáskilaboðum á uppgefin farsímanúmer. Kæranda bárust ekki smáskilaboð Vinnumálastofnunar um boðaðan fund, en hann hafði skipt um farsímanúmer án þess að láta Vinnumálastofnun vita af þeirri breytingu.
Sú skylda hvílir á atvinnuleitendum að veita Vinnumálastofnun upplýsingar um hagi sína og breytingar á þeim svo þeir geti tekið þátt í vinnumarkaðsúrræðum og sinnt viðtölum sem stofnunin boðar til með sannanlegum hætti. Í ljósi framanritaðs verður ekki fallist á að þær skýringar sem kærandi hefur gefið á fjarveru sinni á hinum boðaða fundi réttlæti fjarveru hans á fundinum. Með fjarveru sinni brást kærandi skyldum sínum skv. 1. mgr. 58. gr. laga um atvinnuleysistryggingar og slíkt leiðir til viðurlaga í formi biðtíma eftir atvinnuleysisbótum. Hin kærða ákvörðun Vinnumálastofnunar er staðfest.
Úrskurðarorð
Ákvörðun Vinnumálastofnunar frá 15. janúar 2010 um niðurfellingu bótaréttar A í 40 daga er staðfest.
Brynhildur Georgsdóttir, formaður
Hulda Rós Rúriksdóttir
Helgi Áss Grétarsson