Matsmál nr. 1/2021, úrskurður 30. maí 2023
Þriðjudaginn 30. maí 2023 var í matsnefnd eignarnámsbóta tekið fyrir matsmálið nr. 1/2021
Umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra
gegn
Guðrúnu Maríu Valgeirsdóttur
R3 ehf.
Bryndísi Jónsdóttur
Sigurði Jónasi Þorbergssyni
Sigurði Baldurssyni
Garðari Finnssyni
Hilmari Finnssyni
og Gísla Sverrissyni
og kveðinn upp svohljóðandi
ú r s k u r ð u r :
I
Skipan matsnefndar eignarnámsbóta:
Matsnefnd eignarnámsbóta er í máli þessu skipuð Valgerði Sólnes, dósent, formanni, ásamt þeim Daða Má Kristóferssyni, prófessor, og Karli Axelssyni, prófessor og hæstaréttardómara, sem formaður kvaddi til starfans samkvæmt 2. mgr. 2. gr. laga nr. 11/1973 um framkvæmd eignarnáms.
II
Matsbeiðni, eignarnámsheimild, aðilar og matsandlag:
Með bréfi matsþola 20. maí 2022 fór meirihluti eigenda jarðarinnar Reykjahlíðar í Skútustaðahreppi, nánar tiltekið eigendur lögbýlanna Reykjahlíðar I, Reykjahlíðar II, Reykjahlíðar III, Reykjahlíðar IV og Víðihlíðar (hér eftir matsþolar), þess á leit við matsnefnd eignarnámsbóta að matsmáli nr. 1/2021 yrði fram haldið.
Eignarhald 76,5625% hluta jarðarinnar Reykjahlíðar skiptist á hendur eftirgreindra matsþola í óskiptri sameign: Í fyrsta lagi Guðrún María Valgeirsdóttir, kt. [...], eigandi jarðarinnar Reykjahlíðar I og 25% hluta jarðarinnar Reykjahlíðar. Í öðru lagi R3 ehf., kt. 650707-1090, og Bryndís Jónsdóttir, kt. [...], eigendur jarðarinnar Reykjahlíðar III og hvort um sig 8,3333% hluta Reykjahlíðar (samtals 16,6666%). Í þriðja lagi Sigurður Jónas Þorbergsson, kt. [...], eigandi jarðarinnar Reykjahlíðar II og 17,7778% hluta Reykjahlíðar. Í fjórða lagi Sigurður Baldursson, kt. [...], Garðar Finnsson, kt. [...] og Hilmar Finnsson, kt. [...], eigendur jarðanna Reykjahlíðar II-IV, og 7,7778%, 3,8889% og 3,8889% hluta Reykjahlíðar í áðurgreindri röð (samtals 15,5556%). Í fimmta lagi Gísli Sverrisson, kt. [...], eigandi jarðarinnar Víðihlíðar og 1,5625% hluta Reykjahlíðar.
Matsandlagið er nánar tiltekið:
Landsvæði jarðarinnar Reykjahlíðar í Skútustaðahreppi á háhitasvæði Gjástykkis sem friðlýst var með auglýsingunum 1. apríl 2020 og 16. júní 2021. Samkvæmt matsþolum eru þeir sem fyrr greinir eigendur 76,5625% hluta Reykjahlíðar í óskiptri sameign og byggja þeir á því að landi jarðarinnar fylgi eignarréttur að 52,98% háhitasvæðisins sem sætti friðlýsingu og 23,72% alls verndarsvæðis friðlýsingarinnar. Í 3. gr. auglýsingarinnar 1. apríl 2020 segir meðal annars að mörk verndarsvæðisins séu sýnd á korti og afmarkist af nánar tilgreindum hnitum og að afmörkun jarðhita sé dregin eftir útbreiðslu háhita samkvæmt viðnámsmælingum og landslagi, þar sem friðlýsing Gjástykkjasvæðis markist af Einbúa í vestri, Gæsafjöllum í suðvestri, Hrútafjöllum í austri og fylgi hrauninu til norðurs. Í 4. gr. auglýsingarinnar 1. apríl 2020, eins og henni var breytt með 1. gr. auglýsingarinnar 16. júní 2021, er tiltekið að orkuvinnsla jarðvarma með uppsett varmaafl 50 MW eða meira og jarðvarma með uppsett rafafl 10 MW eða meira innan marka svæðisins sé óheimil. Þá sé ekki heimilt að veita leyfi tengd orkurannsóknum eða orkuvinnslu á verndarsvæðinu vegna virkjunar jarðvarma með uppsett varmaafl 50 MW eða meira og virkjunar jarðvarma með uppsett rafafl 10 MW eða meira.
III
Málsmeðferð:
Með úrskurði matsnefndar eignarnámsbóta 27. ágúst 2021 var kveðinn upp úrskurður í fyrrnefndu máli nr. 1/2021. Niðurstaða hans varð á þá leið að hafnað var kröfu matsþola um bætur úr hendi umhverfis- og auðlindaráðherra (nú umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra; hér eftir „ráðherra“) vegna þess að með auglýsingum ráðherrans 1. apríl 2020 nr. 367/2020, um verndarsvæði á Norðausturlandi - háhiti Gjástykkissvæðis í verndarflokki verndar- og orkunýtingaráætlunar, og 16. júní 2021 nr. 720/2021, um breytingu á auglýsingu nr. 367/2020, hefðu matsþolar verið sviptir rétti sínum til orkurannsókna og orkuvinnslu jarðvarma með uppsett varmaafl 50 MW eða meira og jarðvarma með uppsett rafafl 10 MW eða meira fyrir landi jarðar þeirra Reykjahlíðar innan marka verndarsvæðis samkvæmt auglýsingunum. Þá var ráðherra gert að greiða samtals 9.200.315 krónur málskostnað, svo og 2.000.000 krónur í ríkissjóð vegna kostnaðar við matsnefnd í málinu. Í úrskurðinum taldi matsnefnd að matsþolum bæri á grundvelli 42. gr. laga nr. 60/2013 um náttúruvernd réttur til bóta úr hendi ráðherra vegna friðlýsingarinnar. Á hinn bóginn var það niðurstaða matsnefndar að slík óvissa væri um hlutdeild matsþola í þeim réttindum sem sættu friðlýsingu, og þar með hlutdeild í bótum vegna tjóns af völdum þeirrar eignarskerðingar sem fólst í friðlýsingu réttindanna umrætt sinn, að ófært væri að ákveða að svo komnu máli bætur fyrir ætlað tjón af þessum völdum líkt og matsþolar hefðu krafist.
Með bréfi matsþola 17. september 2021 fóru matsþolar þess á leit við matsnefnd eignarnámsbóta að endurupptekið yrði mál matsnefndar nr. 1/2021 á grundvelli 1. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.
Með úrskurði matsnefndar 21. desember 2021 var kröfu matsþola um endurupptöku máls matsnefndar nr. 1/2021 hafnað með vísan til þess að skilyrði 1. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga fyrir því að stjórnsýslumál yrði endurupptekið væru ekki fyrir hendi. Í úrskurðinum kemur meðal annars fram að óumdeilt væri að þau réttindi sem sætt hefðu friðlýsingu, þ. á m. réttur til orkunýtingar háhitasvæðis Gjástykkis, væru á hendi fleiri aðila en eigenda jarðarinnar Reykjahlíðar, þ. á m. matsþola. Þá segir meðal annars í úrskurðinum:
„Undir meðferð endurupptökubeiðninnar hefur af hálfu matsþola verið upplýst að handhafar réttindanna séu auk eigenda Reykjahlíðar, Þingeyjarsveit (eigandi jarðarinnar Þeistareykja), íslenska ríkið (eigandi jarðanna Áss og Svínadals) og Landsvirkjun (sem „hagsmunaaðili að virkjun Gjástykkis“). Þótt aðild að eignarréttindunum, sem sættu skerðingu með friðlýsingu ráðherra 1. apríl 2020, sé því orðin skýrari stendur sú grundvallarforsenda óröskuð að umræddur orkunýtingarréttur er í sameign matsþola og fleiri aðila og í málinu liggur hvorki fyrir samkomulag þessara aðila um skiptingu réttindanna né matsgerð, dómur eða annað haldbært sönnunargagn fyrir hlutdeild hvers og eins þeirra, þ. á m. matsþola, í þeim eignarréttindum. Það er álit matsnefndar að þótt á henni hvíli rannsóknarskylda verði sú skylda ekki talin ná til þess að rannsaka og leysa úr hlutdeild eiganda sameignar gagnvart sameigendum hans við þær aðstæður sem hér eru uppi. Úrlausn um slíkt fellur utan valdsviðs nefndarinnar.“
Með bréfi matsþola 20. maí 2022 var þess farið á leit við matsnefnd að matsmáli nr. 1/2021 yrði fram haldið. Í bréfinu var upplýst að 3. mars 2022 hefðu að þeirra beiðni verið dómkvaddir tveir hæfir og óvilhallir matsmenn í samræmi við 27. gr. laga nr. 57/1998 um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu, til að meta hlutfallslegan rétt eigenda háhitasvæðis Gjástykkis til nýtingar þess. Að fenginni niðurstöðu hinna dómkvöddu matsmanna hefði verið eytt óvissu um hlutdeild matsþola í jarðhitaréttindum á háhitasvæði Gjástykkis, og þar með hlutdeild þeirra í bótum vegna tjóns af völdum eignarskerðingarinnar sem falist hefði í friðlýsingu réttindanna. Þar með stæði því ekkert í vegi að matsnefnd lyki því verki að ákveða bætur fyrir tjón matsþola af þessum völdum í samræmi við hlutverk nefndarinnar samkvæmt 3. mgr. 42. gr. laga nr. 60/2013.
Með bréfi matsnefndar 24. maí 2022 var lögmönnum ráðherra og matsþola gefinn frestur til að skila til nefndarinnar athugasemdum um fram komna beiðni matsþola um framhald málsins. Einnig var í bréfinu upplýst um að við svo búið myndi matsnefnd eftir atvikum úrskurða um frávísun málsins eða boða til fyrirtöku í því stæðu skilyrði til endurupptöku. Með bréfi matsþola 10. júní 2022 bárust frekari athugasemdir. Með bréfi ráðherra 14. júní 2022 bárust athugasemdir ráðherra.
Með bréfi matsnefndar 23. júní 2022 var boðað til fyrstu fyrirtöku málsins samkvæmt 1. mgr. 5. gr. laga nr. 11/1973 um framkvæmd eignarnáms og þess óskað að gerðar yrðu athugasemdir við hæfi nefndarmanna matsnefndar.
Mál þetta var fyrst tekið fyrir fimmtudaginn 30. júní 2022. Matsnefndin lagði fram bréf matsnefndar 24. maí 2022 til málsaðila, þar sem þess var óskað að þeir skiluðu til nefndarinnar athugasemdum um endurupptökubeiðni matsþola, svo og afrit boðunarbréfa. Matsþolar lögðu fram bréf lögmanns matsþola 20. maí 2022 til matsnefndar ásamt tveimur fylgiskjölum, þar sem beint var til nefndarinnar beiðni um að meðferð matsmáls nr. 1/2021 yrði fram haldið og matsnefnd gert að ákveða bætur til handa matsþolum vegna friðlýsingar á háhitasvæði Gjástykkis. Með bréfinu fylgdu umrædd matsgerð dómkvaddra manna 19. maí 2022 um hlutfallslegan rétt eigenda háhitasvæðis Gjástykkis til nýtingar og þingbók héraðsdómsmáls nr. M-13/2022. Einnig lögðu matsþolar fram fyrrgreint bréf lögmanns þeirra 10. júní 2022 til matsnefndar og af hálfu ráðherra bréf lögmanns hans 14. júní 2022 til matsnefndar. Þá var lögð fram krafa ríkislögmanns, sbr. bréf 20. júní 2022, til héraðsdóms um endurmat matsgerðar á grundvelli 1. mgr. 66. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Fært var til bókar að ekki væri ágreiningur um skipan matsnefndar í málinu og að árangurslaust hefði verið leitað sátta með aðilum um bætur, sbr. 1. málslið 7. gr. laga nr. 11/1973. Loks var eftirfarandi bókað:
„Fært er til bókar að matsþolar hafi lagt fram matsgerð tveggja manna 19. maí 2022 um hlutfallslegan rétt eigenda háhitasvæðis Gjástykkis til nýtingar, sem aflað hafi verið samkvæmt lögum nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Í matsgerðinni komi fram að undir meðferð matsmálsins hafi Ásta Sóllilja Sigurbjörnsdóttir lögmaður hjá embætti ríkislögmanns lagt fram bókun. Samkvæmt þingbók héraðsdómsmáls nr. M-13/1922, sem matsþolar hafa og lagt fram í málinu, er bókun lögmannsins svofelld:
„Af umfjöllun matsbeiðanda í matsbeiðni má ráða að matsbeiðendur líti svo á að jarðhitaréttindi á Gjástykkissvæðinu skuli skiptast milli jarðanna sem það eiga í sameign eftir landamerkjum um háhitasvæðið og hlutfallslegur réttur jarðanna ráðist þannig af flatarmáli háhitasvæðisins á Gjástykki innan landamerkja jarðanna hverrar fyrir sig miðað við gildistökudag friðlýsingar þess, sbr. auglýsing nr. 367/2020. Matsþoli, ríkissjóður Íslamds, leggur áherslu á að engin fyrirliggjandi fordæmi eða skýr löggjöf liggur fyrir um það hvernig skipta eigi jarðhitaréttindum ef þau eru innan tveggja eða fleiri jarða. Matsþoli telur því ekki hægt að slá því föstu að hlutfallslegur réttur jarða ráðist af flatarmáli háhitasvæðis innan landamerkja þeirra. Slík niðurstaða geti einungis átt við þegar allt svæðið er jafngilt til nýtingar. Þessu til stuðnings leggur matsþoli fram matsgerð í máli Héraðsdóms Norðurlands eystra, mál M-10/2015 þar sem ítrekað kemur fram eftirfarandi: „Ef rannsóknir benda til þess að hlutar svæðis séu jafngildir til nýtingar er eðlilegast að flatarmál í eigu sérhvers eiganda ráði hlutfallslegum rétti hans. Ef óvissa ríkir um svæði þarf frekari rannsóknir til að meta hlutfallslegan rétt sérhvers eiganda.“ Mótmæli matsþola við þeim staðhæfingum matsbeiðenda sem koma [fram] í matsbeiðni, að eðlilegast sé að flatarmál í eigu sérhvers eiganda ráði hlutfallslegum rétti hans, byggja á því að ekki liggur fyrir að svæðið allt sé jafngilt til nýtingar.“
Þá er fært til bókar að í bréfi ráðherra 14. júní 2022 til matsnefndar komi meðal annars fram að til skoðunar sé hjá ríkislögmanni að krefjast úrskurðar dómara um endurskoðun eða endurmat samkvæmt 1. mgr. 66. gr. laga nr. 91/1991, svo og að jafnvel þótt héraðsdómur féllist ekki á að matið yrði unnið að nýju kæmi samkvæmt upplýsingum frá ríkislögmanni til skoðunar að óska eftir yfirmati. Með kröfu ríkislögmanns hefur nú verið gerð krafa um endurmat.
Að þessu virtu er málinu frestað í átta vikur, til fimmtudagsins 25. ágúst 2022 kl. 10.30, til þess að gefa ráðherra svigrúm til að bregðast við framkominni matsgerð með því að freista þess að fá niðurstöðum hennar hnekkt með beiðni um endurmat, yfirmat ellegar annarri sönnunarfærslu að lögum.“
Fimmtudaginn 25. ágúst 2022 var málið tekið fyrir að nýju. Matsnefndin lagði fram afrit fundargerðar 30. júní 2022. Ráðherra lagði fram tölvubréf lögmanns ráðherra 18. ágúst 2022 til matsnefndar þar sem upplýst var um að 17. sama mánaðar hefði verið tekin fyrir í héraði beiðni íslenska ríkisins um endurmat á matsgerð tveggja dómkvaddra manna frá 19. maí 2022 um hlutfallslegan rétt eigenda háhitasvæðis Gjástykkis til nýtingar. Matsþolar lögðu fram tölvubréf lögmanns matsþola 19. ágúst 2022 til matsnefndar ásamt úrskurði Héraðsdóms Norðurlands eystra sama dag í máli nr. M-205/2022, þar sem upplýst var að beiðni íslenska ríkisins um endurmat hefði verið hafnað. Matsþolar lögðu einnig fram tölvubréf frá embætti ríkislögmanns 24. ágúst 2022 til matsþola, ásamt greiðslubeiðni til fjársýslu ríkisins vegna málskostnaðar samkvæmt úrskurði Héraðsdóms Norðurlands eystra í máli nr. M-205/2022. Fært var til bókar að af hálfu ráðherra væri upplýst að íslenska ríkið hefði ekki tekið ákvörðun um hvort farið yrði fram á yfirmat en fundur um það væri ráðgerður 26. ágúst 2022. Ákvörðun þar að lútandi lægi væntanlega fyrir á næstu tveimur vikum. Af þeim sökum væri af hálfu ráðherra farið fram á að málinu yrði frestað uns sú ákvörðun lægi fyrir. Af hálfu matsnefndar var upplýst að lögð væri áhersla á málshraða fyrir nefndinni. Af hálfu matsþola var tekið undir sjónarmið um málshraða og lagst gegn frestun málsins. Af hálfu matsnefndar var ákveðið að málinu yrði fram haldið. Af hálfu ráðherra var mótmælt að málinu yrði fram haldið. Matsþolar töldu að vettvangsathugunar væri ekki þörf í málinu en ráðherra tók sér umhugsunarfrest og kvaðst myndu upplýsa um afstöðu sína þar að lútandi þegar ákvörðun lægi fyrir. Þá var málsaðilum gefinn frestur á að leggja fram greinargerð.
Föstudaginn 19. janúar 2023 var málið enn tekið fyrir. Matsnefndin lagði fram afrit fundargerðar 25. ágúst 2022. Þá höfðu matsnefndinni borist til framlagningar af hálfu ráðherra greinargerð 25. október 2022 og athugasemdir 11. nóvember 2022 ásamt 14 tölusettum fylgiskjölum. Af hálfu matsþola höfðu matsnefndinni borist til framlagningar greinargerð 18. október 2022 ásamt þremur fylgiskjölum auk athugasemda 3. nóvember 2022. Voru skjöl þessi lögð fram. Matsþoli lagði fram nýtt skjal um útreikninga á fjárhagslegu tjóni sem byggt var á verðmati Þróunarfélags Íslands ehf. 15. apríl 2021 og mati dómkvaddra matsmanna á hlutdeild matsþola í tjóninu. Þá lögðu þeir fram málskostnaðaryfirlit vegna vinnu lögmanns matsþola. Var málið að því búnu flutt munnlega fyrir matsnefndinni og tekið til úrskurðar að málflutningi loknum. Eftir lögmönnum var bókað að þeir teldu sig ekki þurfa að tjá sig frekar um málið en í munnlegum málflutningi.
Með tölvubréfi matsþola til matsnefndar og ráðherra 20. janúar 2023 var upplýst um svar frá Landsneti við fyrirspurn matsþola um upprunaábyrgðir.
Með tölvubréfi matsnefndar til matsþola 11. apríl 2023 var óskað eftir nánar tilgreindum upplýsingum um framlagt málskostnaðaryfirlit og útlagðan kostnað. Með tölvubréfi matsþola til matsnefndar sama dag bárust athugasemdir þeirra ásamt tveimur nýjum skjölum. Með tölvubréfi 12. apríl 2023 var ráðherra upplýstur um svar matsþola.
Með tölvubréfi matsnefndar til aðila 9. maí 2023 var þess farið á leit við þá að upplýst yrði um hvort dæmi væru um að Landsvirkjun hefði greitt landeigendum fyrir upprunavottorð. Með þremur tölvubréfum matsþola til matsnefndar 9. maí 2023 og 10. sama mánaðar bárust svör þeirra. Með tölvubréfi ráðherra 17. þess mánaðar bárust svör hans ásamt nýju skjali. Með tölvubréfi matsþola 19. maí 2023 bárust athugasemdir þeirra við svari ráðherra ásamt nýju skjali.
IV
Sjónarmið ráðherra:
Ráðherra krefst þess að endurupptöku málsins verði hafnað. Að öðru leyti gerir hann þær kröfur sem fram koma í greinargerð hans frá 20. apríl 2021 og reifaðar eru í úrskurði matsnefndar 27. ágúst 2021 í máli nr. 1/2021. Þá byggir ráðherra á sjónarmiðum í greinargerðum sínum til nefndarinnar 20. apríl 2021, 28. maí 2021, 25. október 2022 og 11. nóvember 2022. Nánar tiltekið eru þetta aðallega fyrrgreind krafa um að endurupptöku málsins verði hafnað, til vara krafa um frávísun, að þessu frágengnu krafa um að hafnað verði kröfum matsþola en að því frágengnu að ákvarðaðar verði hæfilegar bætur fyrir ætlað eignarnám. Um málatilbúnað ráðherra að öðru leyti en því sem greinir hér á eftir vísast til úrskurðarins 27. ágúst 2021.
Af hálfu ráðherra er meðal annars bent á að fyrirliggjandi matsgerð um hlutdeild matsþola í þeim réttindum sem sætt hafi friðlýsingu sé haldin slíkum ágöllum að hún verði ekki lögð til grundvallar, auk þess sem ráðherra hafi ekki viðurkennt efni hennar. Því beri að hafna endurupptöku. Ráðherra bendir á að matsþolar geti ekki haft væntingar til þess að mega nýta landareign sína með hvaða hætti sem er, án tillits til hagsmuna annarra hagaðila, náttúruverndarsjónarmiða eða almannahagsmuna. Hafi friðlýsingin byggt á almennum lögum í þágu almannaréttar sem matsþolar verði að þola bótalaust. Að auki sé um að ræða afnot, langt umfram hefðbundin not af landssvæði sem landeigendur geti almennt gengið út frá að mega nýta. Þá takmarkist slík nýting sem friðlýsingin taki til líka af fjölda annarra laga og telur ráðherra að matsþolar hafi ekki getað haft raunverulegar væntingar til þess að leyfð yrði slík nýting og af þeirri stærðargráðu sem friðlýsingin tók til, ef ekki hefði komið til friðlýsingarinnar. Að auki hafi virkjunarhugmyndir verið háðar verulegri óvissu varðandi nýtingu á svæðinu sem ekki hafi verið rannsökuð ítarlega. Þá hafi matsþolar ekki heldur haft forræði á hvort ráðist yrði í umræddar virkjanaframkvæmdir. Ráðherra bendir á að friðlýsingin komi ekki í veg fyrir aðra nýtingu landsvæðisins sem í hlut eigi. Verði bótagrundvöllur talinn vera fyrir hendi sé ljóst að í því felist afstaða til þess að framtíðarorkunýting matsþola innan neðri marka friðlýsingarinnar sé raunhæf og líkleg. Taka verði mið af mögulegri framtíðarnýtingu sem í séu fólgin veruleg fjárhagsleg verðmæti. Geti það sjálfstætt leitt til höfnunar á kröfum matsþola í málinu eða í öllu falli til verulegrar lækkunar á bótum miðað við að um væri að ræða beina yfirfærslu eignarréttar á landinu eða jarðvarmanum. Ráðherra bendir á að álitsgerð matsþola um meint tjón sem afleiðingu af friðlýsingunni hafi verið einhliða aflað og verði því ekki lögð til grundvallar. Þá séu forsendur verulega gallaðar og bótakrafa langt umfram bætur í sambærilegum málum. Í því samhengi áréttar ráðherra sjónarmið um verðmat háhitaréttinda, sem hann hafi fjallað um í málatilbúnaði sínum til matsnefndar 28. maí 2021, og telur ljóst að útreikningar matsþola taki ekki mið af dómi Hæstaréttar 28. október 2011 í máli nr. 233/2011 varðandi vatnsréttindi Kárahnjúkavirkjunar.
Af hálfu ráðherra er tiltekið að hann hafi áður bent á að matsþolar eigi ekki þau réttindi sem um sé að ræða heldur hafi þau verið framseld félaginu Landeigendur Reykjahlíðar ehf., kt. 550402-3860, sem aftur hafi framselt þau til Landsvirkjunar með rammasamningi milli Landsvirkjunar og Landeigenda Reykjahlíðar ehf. frá nóvember 2005. Sá samningur sé enn í gildi og séu matsþolar bundnir af honum. Þá hafi ráðherra ítrekað bent á að friðlýsingin komi eingöngu í veg fyrir tiltekin not landsvæðisins sem hvorki hafi verið í hendi né líkleg. Alltaf hafi legið fyrir að verndargildi svæðisins væri hátt og staðfesti þær takmörkuðu rannsóknir sem fram hafi farið ekki að um nýtanlegan jarðhita væri að ræða. Verkefnisstjórn rammaáætlunar hafi lagt áherslu á að kortleggja öll háhitasvæði landsins, auk þess sem gríðarmiklar breytingar hafi átt sér stað á raforkumarkaði. Þá hafi endurskoðun á lögum um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu augljóslega haft áhrif á gerð rammasamnings um rannsóknir og nýtingu svæðisins. Ráðherra tiltekur einnig að hann hafi ítrekar bent á að löggjafinn hafi fullar heimildir til almennra takmarkana á borð við friðlýsinguna sem stjórnvöldum beri að framfylgja. Í slíkum almennum takmörkunum felist ekki eignarnám og fyrir slíkar takmarkanir verði ekki greiddar bætur. Ráðherra hafi bent á að matsþolar hafi þegar ýmis not af landi sínu og hafi meðal annars ráðstafað hluta jarðhitaréttinda til virkjunarframkvæmda. Innan jarðar Reykjahlíðar séu hvoru tveggja Bjarnarflag og Krafla. Ljóst sé að mati ráðherra að slík nýting sé ekki takmarkalaus og af þeim sökum einnig langsótt að friðlýsing hluta landareignar matsþola, sem þegar hafi fengið heimild til að nýta auðlindina að hluta, geti leitt af sér bótaskyldu. Ráðherra hafi bent á að friðlýsingin opni á margskonar önnur not sem ella hefðu ekki verið möguleg hefði komið til virkjunar jarðhitans af þeirri stærðargráðu sem friðlýsingin nái til. Við mat á hvort um sé að ræða bótaskylda takmörkun verði að taka mið af öðrum mögulegum nytjum jarðarinnar, bæði á hinu friðlýsta svæði og í grennd við friðlýsinguna, komi til mats á bótaskyldu. Með hliðsjón af þessum sjónarmiðum fjallar ráðherra ítarlega um jörðina Reykjahlíð og þau helstu not af henni sem þegar séu til staðar. Samandregið telur ráðherra ljóst mega vera að matsþolar hafi ýmis not af landi sínu og hafi af því ýmsar tekjur. Þá bjóði svæðið upp á enn frekari not og tekjur meðal annars með frekari uppbyggingu ferðaþjónustu og landbúnaðar. Landeigendur Reykjahlíðar, og aðrir þeir sem landeigendur hafi framselt réttindi sín til, nýti þegar jarðhita innan landamerkja Reykjahlíðar. Ljóst sé að friðlýsingin takmarki ekki aðra möguleika til nýtingar jarðhita innan og utan þeirra svæða sem hafi verið friðlýst, að því marki sem það sé unnt og leyfi fáist til á grundvelli almennra laga og reglna, sbr. einnig greinargerð ráðherra til matsnefndar 25. október 2022. Enn ítrekar ráðherra að not matsþola af eigin landi séu ekki takmarkalaus en þeir líkt og aðrir verði að taka tillit til almannahagsmuna og umhverfisverndar. Minnt sé á að þegar hafi verið nýtt verulegt magn jarðhita í landi Reykjahlíðar. Í því samhengi sé ítrekað að verndarflokkurinn sem friðlýsingin byggi á almennum lögum þar sem sömu viðmiðum hafi verið beitt við mat á verndargildi svæða alls staðar á landinu. Verndarflokkunin hafi byggt á mati á verndargildi landsvæða og efnahagslegum, umhverfislegum og samfélagslegum áhrifum nýtingar, þ. á m. verndunar, sbr. 4. mgr. 3. gr. laga nr. 48/2011 um verndar- og orkunýtingaráætlun. Friðlýsingin hafi þannig beinst að þessu tiltekna svæði en byggt á almennum grunni, það er rannsóknum og stefnumótun.
Ráðherra ítrekar að með friðlýsingu Gjástykkis hafi almennum takmörkunum löggjafans verið framfylgt og því geti eignarnámsbætur ekki komið til álita enda sé bótaákvæði laga nr. 60/2013 ekki ætlað að útvíkka bótaskyldu ríkisins hvað þetta varðar. Ráðherra fjallar í þessu samhengi ítarlega um almennar takmarkanir með hliðsjón af stjórnarskrá og mannréttindasáttmála Evrópu. Ráðherra telur að með vísan til þróunar í umhverfismálum sé ljóst að jafnvel þótt talið væri líklegt að til nýtingar á jarðhita hefði komið í þeim mæli sem friðlýsingin nái til, ef ekki hefði komið til hennar, þá væru ríkar almennar heimildir til takmarkana á slíkum stórtækum inngripum til verndar umhverfinu víðtækar og feli ekki í sér eignarnám sem leiði til bótaskyldu. Í því tilviki sem hér sé til umfjöllunar hafi meðalhófs verið gætt og ekki gengið lengra en nauðsyn hafi borið til að virtum þeim verndarsjónarmiðum sem lágu að baki.
Varðandi ætlaða bótaskyldu og fjárhæð tjónsbóta vísar ráðherra til þess að í 6. tölul. niðurstöðukafla í úrskurði matsnefndar 27. ágúst 2021 í máli nr. 1/2021 hafi verið ályktað sem svo að „[...] gögn málsins beri með sér að framtíðarnýting matsþola á jarðhitaréttindum Gjástykkis hafi verið bæði raunhæf og líkleg, sbr. t.d. skýrslu Orkustofnunar um virkjunarkosti til umfjöllunar í 3. áfanga verndar- og orkunýtingaráætlunar, þ. á m. virkjunarkostinn Gjástykki, ásamt skýrslu Landsvirkjunar ‚LV-2014-130, Gjástykki, Tilhögun virkjunarkosts R3200B‘, sem fylgdi erindi til verkefnastjórnar 3. áfanga 20. febrúar 2015, og orskuspá Orkuspárnefndar [...].“ Af þessari niðurstöðu matsnefndar telur ráðherra virðast mega draga þá ályktun að komi til friðlýsingar á öðrum svæðum vegna kosta/hugmynda sem hafi verið samhliða metnir þá leiði það til bótaskyldu. Ráðherra telur það í andstöðu við fyrri umfjöllun um heimildir löggjafans til að setja eignarrétti tilteknar skorður á grundvelli almennra lagasetninga, meðal annars til að stuðla að vernd umhverfis og almannaréttar, og skyldu stjórnvalda til að fylgja slíkri lagasetningu eftir. Ráðherra telur að auki að ný gögn, sem nú séu lögð fyrir nefndina, sýni að alls ekki sé unnt að draga svo víðtæka ályktun af skýrslu Orkustofnunar og Landsvirkjunar um tilhögun virkjunarkosts frá árinu 2014 að framkvæmdin hafi talist raunhæf og líkleg. Telur ráðherra því nauðsynlegt að matsnefndin endurskoði afstöðu sína hvað þetta varðar meðal annars með vísan til 24. gr. stjórnsýslulaga.
Í þessu samhengi fjallar ráðherra um aðdraganda þess að matsþolar og Landsvirkjun hafi gert rammasamning 2005 og að kosturinn hafi verið metinn í 2. og 3. áfanga rammaáætlunar. Þá fjallar ráðherra um að rannsóknarleyfi hafi verið veitt á grundvelli upphaflegrar umsóknar Landsvirkjunar 10. maí 2007 en í framhaldinu hafi átt sér stað miklar umræður í þjóðfélaginu um hvort forsendur hafi verið fyrir rannsóknarleyfinu og einnig um hvað í því hafi falist, þ. á m. gagnrýni um ætlaða ótímabæra leyfisveitingu. Í fréttatilkynningu iðnaðarráðuneytis 4. september 2007 hafi verið undirstrikað að rannsóknarleyfi raskaði á engan hátt þeirri vernd sem náttúru og umhverfi væru tryggð með öðrum lögum og í frétt 4. júní 2008 hafi verið haft eftir Landsvirkjun að orkuvinnsla í Gjástykki myndi bíða um sinn þar sem ekki yrði gripið til þess að virkja þar nema hinir kostir dygðu ekki til. Ráðherra vísar einnig til þess að 2008 hafi verið orðið ljóst að rannsóknarborholur í Gjástykki þyrftu að fara í mat á umhverfisáhrifum sem lokið hafi verið með matsskýrslu 7. janúar 2010. Þá bendir ráðherra á að meðal annars hafi fram komið af hálfu Skipulagsstofnunar að neikvæð áhrif virkjunar á svæðinu yrðu allt annars eðlis og mun neikvæðari á marga umhverfisþætti en framkvæmdir vegna rannsóknaborana. Orkustofnun hafi gefið út leyfi til rannsóknarborana 10. janúar 2011 en ekki hafi komið til þess að Landsvirkjun framkvæmdi rannsóknir á grundvelli leyfisins. Þá hafi verkefnisstjórn um gerð rammaáætlunar skilað niðurstöðum sínum 5. júlí 2011 og þar hafi verið lagt til að virkjunarkosturinn Gjástykki yrði settur í verndarflokk vegna verndargildis á heimsmælikvarða. Þeirri verndarflokkun hafi ekki verið breytt í 3. áfanga rammaáætlunar.
Ráðherra geti ekki fallist á að það að láta meta kostinn í rammaáætlun geti verið meginforsenda bótagreiðslu í máli sem þessu. Ný gögn staðfesti að þær breytingar sem hafi verið í farvatninu á lögum og sú vinna sem átt hafi sér stað hjá verkefnastjórn rammaáætlunar hafi verið raunveruleg ástæða þess að yfirborðsrannsóknir hafi átt sér stað í öndverðu. Frá upphafi hafi legið fyrir að verndargildi svæðisins væri mikið og því mikil óvissa um hvort veitt yrði leyfi til að nýta svæðið yfir höfuð. Frá upphafi hafi verið verulega óvissa um hvort um nýtanlegan jarðhita væri að ræða og einnig um hvort nokkurn tíma yrði þörf fyrir þennan virkjanakost. Aldrei hafi verið staðfest hvort um nýtanlegan jarðhita til vinnslu væri að ræða. Alltaf hafi legið fyrir að í besta falli væri um að ræða varakost. Ráðherra bendir á að ekki hafi komið til nýtingar á hinu svæðinu sem rammasamningur landeigenda Reykjahlíðar og Landsvirkjunar frá 2005 tók til, það er svæði C, sem ekki hafi verið friðlýst. Ýmsar aðrar ástæður kunni að búa því að baki, sem og að baki samningsgerðinni í öndverðu, annað en raunverulegar áætlanir um nýtingu. Af dómaframkvæmd verði ráðið að landeigendur Reykjahlíðar og Landsvirkjun hafi haft í hyggju að gera samning um enn eitt svæðið á landi landeigenda, það er svæði E, sem ekki hafi orðið af að því er virðist. Þessar staðreyndir geri það enn fjarlægara að til nýtingar á jarðhita til vinnslu í Gjástykki hefði komið.
Þá liggi auðvitað fyrir að ekki sé gert ráð fyrir framkvæmdum í aðal- eða deiliskipulagi. Umhverfismat liggi heldur ekki fyrir auk þess sem ekki liggi fyrir samningar við alla landeigendur. Þessi þrjú atriði síðastgreindu atriði ein og sér leiði til þess að framkvæmdin geti hvorki talist raunhæf né líkleg. Ráðherra telur a.m.k. að sú óvissa sem sé uppi um það hvort nokkurn tíma yrði veitt leyfi til nýtingar svæðisins til orkuvinnslu sé svo mikil að tjón landeigenda sé, vegna óvissunnar, lítið sem ekki neitt.
Ráðherra ber fyrir sig sjónarmiðum um lækkun á bótakröfu matsþola. Hann vísar til þess að matsþolar fari í athugasemdum til nefndarinnar fram á auknar bætur frá því sem áður hafi verið og sé þar vísað til nýrrar tækni til djúpborunar. Ráðherra mótmælir þeim sjónarmiðum og bendir á að slík nýting sé þá væntanlega möguleg á öðrum stöðum landareignar matsþolar og geri það enn ólíklegra að forsendur hefðu verið til nýtingar Gjástykkis sem varakosts. Ráðherra ítrekar og það sem fram hafi komið í greinargerð hans 25. október 2022, að verði niðurstaðan sú að bótagrundvöllur sé fyrir hendi felist í því sú afstaða að framtíðarnýting matsþola á jarðhitaréttindum, innan neðri marka friðlýsingarinnar, sé bæði raunhæf og líkleg og að við ákvörðun bóta beri að taka mið af núverandi og framtíðarnýtingu á svæðinu. Jafnframt verði að taka tillit til þess rannsóknarkostnaðar sem Landsvirkjun hafi orðið fyrir en samkvæmt, sbr. grein 10.2-10.3 í rammasamningnum 2005. Landsvirkjun hafi framkvæmt yfirborðsrannsóknir og að auki greitt landeigendum umsýsluþóknun upp á 92.000.000 krónur. Taka verði tillit til þess kostnaðar við mat á bótum, komi til slíks mats.
Samandregið áréttar ráðherra að venja hafi skapast við mat á hæfilegum bótum fyrir virkjunarrétt, sbr. dóm Hæstaréttar í máli nr. 233/2011, og á tjónþola hvíli skylda til að takmarka tjón sitt. Jafnframt standi aðstæður hér til verulegrar lækkunar frá þessum venjubundnu viðmiðunum, því veruleg óvissa sé fyrir hendi og jarðvarminn enn í eigu matsþola sem hafi haft af honum ákveðin not og ýmis önnur not séu möguleg sem skapað geti verulegar tekjur, auk þess sem verðmæti jarðvarma sé minna en verðmæti vatnsafls því jarðvarmavirkjanir séu dýrari en vatnsaflsvirkjanir. Hér verði matsnefnd einnig að líta til þess að bætur verði ekki ákveðnar með hliðstæðum hætti og þegar um sé að ræða eignarnám á landsvæði þar sem bein eignaryfirfærsla hafi átt sér stað. Til lækkunar á bótum verði því að líta til þess að jarðvarminn sé enn í eigu matsþola og annarra landeigenda, óvissa hafi alltaf verið til staðar um virkjunarmöguleika, matsþolar hafi þegar haft tekjur af Gjástykki á grundvelli samninga við Landsvirkjun, friðlýsing komi sem fyrr greini ekki í veg fyrir smærri virkjanir eða nýtingu jarðvarma t.d. með hitaveitu. Telur ráðherra raunar að verði komist að niðurstöðu um bótaskyldu í málinu verði að ætla að síðastgreind nýting sé bæði raunhæf og líkleg út frá sömu röksemdum. Þá sé mögulegt að nýta jarðhita utan friðlýsta svæðisins og að nýta skiljuvatn eða vatn á annan hátt til uppbyggingar, t.d. í þágu baðstaða. Frekari uppbygging ferðaþjónustu sé möguleg og þegar séu vinsæl ferðamannasvæði innan jarðarinnar Reykjahlíðar, t.d. Hverasvæði við Námaskarð, Leirhnjúkur og þekktar gönguleiðir. Til skoðunar hafi verið hjá landeigendum að innheimta gjald af ferðamönnum sem myndi fela í sér beinar tekjur og alls óvíst sé að slíkt færi saman við virkjunarframkvæmdir. Hér áréttar ráðherra og að útreikningar sem matsþolar hafi lagt fram í málinu til stuðnings ætluðu tjóni séu verulega gallaðir því ekki sé miðað við dóm Hæstaréttar í máli nr. 233/2011, byggt sé á rammasamningi milli þriðju manna og miðað við umfangsmeiri framkvæmdir en þær sem lagðar hafi verið fram til kynningar við gerð rammaáætlunar. Auk þess sé á því byggt af hálfu matsþola að þeir eigi rétt til að fá bætt heildar fjárhagslegt tjón landeigenda þrátt fyrir að stöðvarhús hefði líklega aldrei verið staðsett á þeirra landsvæði og þeir eigi aðeins hluta af framkvæmdasvæði virkjunar, auk þess sem málsaðilar séu aðeins hluti landeigenda Reykjahlíðar.
Að endingu bendir ráðherra á að málskostnaður vegna matsmáls nr. 1/2021 sé þegar orðinn hár og áréttar að ákveða skuli endurgjald sem eignarnemi skuli greiða eignarnámsþola vegna þess kostnaðar sem eignarnámsþoli hafi haft af rekstri matsmáls og hæfilegur verði talinn.
V
Sjónarmið matsþola:
Matsþolar krefjast þess að máli matsnefndar eignarnámsbóta nr. 1/2021 verði fram haldið. Þeir hafi að gengnum úrskurði matsnefndar 27. ágúst 2021 í máli nr. 1/2021 lagt fram matsgerð dómkvaddra manna og að fenginni afdráttarlausri niðurstöðu þeirra hafi óvissu um hlutdeild matsþola í jarðhitaréttindum á háhitasvæði Gjástykkis, og þar með hlutdeild í bótum vegna tjóns af völdum þeirrar eignarskerðingar sem falist hafi í friðlýsingu réttindanna, verið útrýmt. Þar með standi því ekkert í vegi að matsnefnd ljúki því verki að ákveða bætur vegna tjóns matsþola af þessum völdum í samræmi við hlutverk nefndarinnar, samkvæmt 3. mgr. 42. gr. laga nr. 60/2013. Matsþolar benda á að það sé að sjálfsögðu verkefni matsnefndar að meta fjárhagslegt tjón vegna friðlýsingarinnar samkvæmt 3. mgr. 42. gr. laga nr. 60/2013 og 1. mgr. 72. gr. stjórnarskrárinnar.
Matsþolar gera margvíslegar athugasemdir við málatilbúnað ráðherra í greinargerð hans 25. október 2022.
Varðandi kröfugerð ráðherra benda matsþolar á að ráðherra krefjist þess að hafnað verði endurupptöku málsins. Þeir kveða matsnefnd þegar hafa tekið afstöðu til þessarar kröfu ráðherra, hafnað henni og ákveðið að málinu verði fram haldið. Matsþolar benda á að ráðherra vísi að öðru leyti til þeirra krafna sem fram komi í greinargerð hans 20. apríl 2021. Þar hafi ráðherra gert þrjár kröfur: Í fyrsta lagi aðalkröfu um að málinu yrði vísað frá matsnefnd, sem matsnefnd hafi hafnað með úrskurðum í máli nr. 1/2021 27. ágúst 2021 og 21. desember s.á. Í öðru lagi hafi ráðherra til vara gert kröfu um að bótakröfum matsþola yrði hafnað og matsnefnd hafi einnig tekið afstöðu gegn þeirri kröfu í úrskurðinum 27. ágúst 2021. Í þriðja lagi hafa ráðherra gert þrautavarakröfu um að matsþolum yrðu ákvarðaðar hæfilegar bætur fyrir ætlað eignarnám. Þessa kröfu kveða matsþolar í reynd einu kröfuna af hálfu ráðherra sem matsnefnd hafi ekki þegar tekið efnislega afstöðu til. Þá benda matsþolar á að þessar kröfur ráðherra séu órökstuddar í greinargerð hans 25. október 2021.
Varðandi umfjöllun ráðherra um málsatvik halda matsþolar því fram að ráðherra hafi lýst málsatvikum frá sjónarhóli sínum og atvikum sé þar ekki lýst á fullnægjandi hátt. Því hafi ekki verið lýst að rannsóknir Landsvirkjunar á háhitasvæði Gjáhita hafi sýnt að afl svæðisins væri a.m.k. 135 MW með orkuvinnslu 1.107 Gwst/ári. Þess hafi ekki verið getið að kostnaður Landsvirkjunar við rannsóknir á háhitasvæðinu, þ. á m. borkostnaður, hafi numið hundruðum milljónum króna, sem sé kostnaður sem íslenska ríkinu hafi borið að greiða við friðlýsingu svæðisins. Í málatilbúnaði ráðherra hafi ekkert verið að því vikið að Landsvirkjun og Landeigendur Reykjahlíðar ehf. hafi gert samning um fyrirhugaða virkjun Gjástykkis 6. nóvember 2005 og væntar greiðslur til landeigenda vegna þeirrar virkjunar þegar þar að kæmi. Matsþolar vísa til málsatvikalýsinga í úrskurði matsnefndar 27 ágúst 2021 í máli nr. 1/2021 og í framlögðum gögnum af hálfu matsþola þar sem atvikum sé réttilega lýst frá sjónarhóli matsþola.
Varðandi umfjöllun ráðherra um matsgerð dómkvaddra manna, sem matsþolar hafa lagt fram í málinu, vísa matsþolar til þess að í málatilbúnaði ráðherra komi fram að ráðherra hafi ekki viðurkennt efni matsgerðarinnar, dómstólar ekki tekið afstöðu til sönnunargildis hennar og ráðherrann áskilji sér allan rétt vegna þessa. Jafnframt sé því haldið þar fram að engin gögn liggi fyrir í málinu sem unnt sé að leggja til grundvallar hlutfallsskiptingu réttindanna. Benda matsþolar á að héraðsdómur hafi hafnað kröfu íslenska ríkisins um endurmat matsgerðarinnar með vísan til þess að matsþolar beri ábyrgð á sönnunargildi hennar og að hin eiginlega forsenda héraðsdóms hafi verið sú að þegar af þeirri ástæðu væri ekki lagaheimild til að taka kröfu ríkisins um endurmat til greina. Matsþolar benda á að við fyrirtekt fyrir matsnefnd 25. ágúst 2022 hafi verið bókað af hálfu ráðherra að ákvörðun um yfirmat myndi verða tekin af ráðherra á næstu tveimur vikur þar frá. Í greinargerð sinni hafi ráðherra áskilið sér rétt til að bera efni matsgerðarinnar undir dómstóla. Engin slík ákvörðun hafi hins vegar verið tekin. Matsþolar benda á að matsgerðin sé dómkvaddra manna, sem sé byggð á og rökstudd umfangsmiklum rannsóknargögnum. Þeir telja að matsgerðinni hafi ekki verið hnekkt með nokkrum hætti og að fullyrðingar ráðherra um að framkvæmd matsins rýri sönnunargildi hennar séu efnislega rangar og ámælisverðar. Matsþolar árétta að um sé að ræða matsgerð sem aflað hafi verið á grundvelli 27. gr. laga nr. 57/1998 en ákvæðinu sé bersýnilega ætlað að móta farveg fyrir rétthafa til að leysa úr ágreiningi um nýtingu auðlindar með aðstoð utanaðkomandi sérfræðinga. Ef báðir aðilar þyrftu að samþykkja niðurstöðuna svo hún hefði eitthvert gildi, svo sem ráðherra virðist byggja á, væri ákvæðið þýðingarlaust og næði aldrei markmiði sínu. Matsþolar byggja á að ráðherra sé bundinn af niðurstöðu matsgerðarinnar óháð afstöðu ráðherra til efnislegrar niðurstöðu hennar, enda hafi matsgerðinni ekki verið hnekkt með neinum hætti, sbr. til hliðsjónar Hrd. 1987, bls. 1201 og Hrd. 1992, bls. 1720.
Matsþolar gera og athugasemdir við umfjöllun ráðherra um lög nr. 60/2013 og árétta bótarétt sinn samkvæmt 72. gr. stjórnarskrárinnar.
Varðandi fjárhæð tjónbóta benda matsþolar á að tjón þeirra samkvæmt 1. mgr. 42. gr. laga nr. 60/2013 sé fólgið í því að réttur þeirra til hagnýtingar landgæða í Gjástykki til orkuvinnslu hafi verið afnuminn og sé hér eftir refsiverður samkvæmt 1. og 5. gr. auglýsingar nr. 367/2020. Eignarréttur matsþola njóti verndar 1. mgr. 72. gr. stjórnarskrárinnar og verkefni matsnefndar samkvæmt 3. mgr. 42. gr. laga nr. 60/2013 sé að ákveða matsþolum fullt verð/bætur fyrir það að réttur þeirra til hagnýtingar landgæðanna í Gjástykki hafi verið frá þeim tekinn með auglýsingunni í apríl 2020. Þá fjalla matsþolar um rammasamninginn sem gerður var 6. nóvember 2005 á milli Landeigenda Reykjahlíðar ehf. og Landsvirkjunar og telja að samningsgerðin staðfesti fyrirhugaða nýtingu landeigenda á háhitasvæði Gjástykkis og fleiri háhitasvæða sem þeir eiga, svo og að markaður hafi verið fyrir fjárfestingakosti af þessari gerð á samningstímanum. Eftir gildistöku raforkulaga nr. 65/2003 hafi sú breyting orðið að margir hafi hug og getu til virkjunar háhitasvæða til öflunar og sölu raforku, þ. á m. eigendur slíkra svæða. Eigendur háhitasvæðis Gjástykkis hafi einmitt haft hug á að virkja einir eða með öðrum ef samningar við Landsvirkjun hefðu ekki náðst. Matsþolar benda á að friðlýsing ráðherra hafi verið tekin í þessu lagalega umhverfi og ráðherra meti stöðuna svo að hann vilji koma í veg fyrir röskun svæðisins í þágu orkuvinnslu. Ráðherra hafa formlegt vald til slíkrar ákvarðanatöku og matsþolar virði þá ákvörðun ráðherra en hafni því alfarið að í þeirri valdheimild hans felist heimild til að afnema rétt matsþola til bóta fyrir það fjárhagslega tjón sem þeir verða fyrir við friðlýsinguna. Matsþolar benda á að íslenska ríkið hafi ekki hlutast til um mat á fjárhagslegu tjóni sem landeigendur yrðu við friðlýsinguna svo sem því hafi borið að gera og þess vegna hafi ekkert slíkt mat legið fyrir þegar ráðherra hafi tekið ákvörðun um friðlýsinguna. Því hafi matsþolar fengið sérfróða menn til að áætla tjónið vegna friðlýsingarinnar, sbr. matsgerð Þróunarfélags Íslands ehf. 15. apríl 2021. Heildartjón landeigenda Reykjahlíðar vegna friðlýsingar Gjástykkis (miðað við að landeigendur virkjuðu háhitasvæðið sjálfir og seldu virkjaða raforku og önnur nýtanleg verðmæti á markaðsverði) hafi verið metið á 11.791.633 milljónir krónur. Þar af hafi fjárhagslegt tjón landeigenda vegna þess að samningur þeirra við Landsvirkjun 6. nóvember 2005 gekk ekki eftir verið metið á 3.925.140 milljónir krónur, en matsþolar telja samninginn gera glögga grein fyrir því endurgjaldi fyrir rétt sinn til virkjunar svæðisins sem þeir hefðu notið ef samningurinn hefði gengið eftir. Þá hafi hlutdeild landeigenda Reykjahlíðar í heildartjóni vegna friðlýsingarinnar verið metinn 52,98% í matsgerð dómkvaddra manna 19. maí 2022 og hlutdeild í heildartjóninu nemi því 6.247.208 milljónum króna. Þar sem matsþolar eigi 76,5625% af landi Reykjahlíðar nemi fjárhagslegt tjón þeirra 4.783.019 milljónum króna miðað við framangreindar forsendur. Þeir telja jafnframt að fjárhagslegt tjón þeirra og þar með fullt verð sé hærra en þær bætur sem áætlaðar hafi verið í verðmati sem matsþolar hafi aflað en verðmatið hafi verið reist á grundvelli rammasamningsins frá 2005 miðað við 135 MW afl. Í því samhengi benda matsþolar á upplýsingar um jarðhitanotkun og jarðhitavinnslu, þ. á m. djúpborun, á vefsíðu Orkustofnunar. Þeir halda því fram að djúpborun sé tækninýjung sem auki afkastagetu háhitasvæða og mögulegt afl háhitasvæðis Gjástykkis sé því mjög líklega margfalt hærra en 135 MW og það án þess að gengið yrði á sjálfbærni orkupottsins í Gjástykki. Með friðlýsingunni hafi matsþolar jafnframt verið sviptir möguleika á að nýta þennan nýja virkjunarmöguleika. Matsþolar telja að dómaframkvæmd og úrskurðaframkvæmd matsnefndar leggi áherslu á framtíðarnýtingu eignarnuminna eigna, sbr. t.d. Hrd. 1984, bls. 906 (Ásgarður), úrskurð matsnefndar í málum nr. 22/1997 (Syðri-Brú), 7/2022 (Garðabær), 3/2008 (Egilsstaðir II og Kollstaðir), 2/2008 (Eyvindartunga), 17/2006 (Eyvík II), 9/2006 (Silfrastaðir) og 5/2006 (Fremri-Kot). Þeir telja að með sama hætti verði matsnefnd við ákvörðun bóta að horfa til framtíðarmöguleika á nýtingu jarðhita sem matsþolar hafi verið sviptir og taka tillit til vaxandi raforkunotkunar meðal annars í tengslum við orkuskipti, sbr. t.d. raforkuspá Orkuspárnefndar frá október 2021 um raforkuþörf 2021-2060.
Varðandi málatilbúnað ráðherra um fjárhæð bóta benda matsþolar á að ráðherra láti að því liggja að áætlanir Landsvirkjunar um að reisa 45-50 MW virkjun á svæðinu sýni hámarksafkastagetu svæðisins. Þetta telja matsþolar ekki rétt. Samkvæmt óumdeildum gögnum sem lögð hafi verið fram í málinu hafi Landsvirkjun ráðgert að hefja nýtingu háhitasvæðisins með því að reisa 45-50 MW virkjun en rangt sé að þessar fyrirætlanir sýni hámarksafköst svæðisins. Áætlanir Landsvirkjunar staðfesti þvert á móti að afl svæðisins sé a.m.k. þrefalt meira og áætlað að Gjástykkissvæði sé 135 MW með orkuvinnslu sem næmi 1.107 GWst/ári að lágmarki. Matsþolar hafna málatilbúnaði ráðherra um tæknilega möguleika á smærri virkjunum og telja víst að leyfisveitandinn Orkustofnun myndi ekki telja tæknibrellur af þessu tagi samrýmast lögum nr. 57/1998. Þá séu „sjónhverfingar“ af þessu tagi fjarstæða í raunheimum af fjárhagslegum ástæðum. Ráðherra hafi ekki lagt fram gögn sem styðji málatilbúnað hans um tæknilega eða fjárhagslega möguleika til að nýta svæðið með þessum hætti.
Matsþolar vísa til hugmynda í greinargerð ráðherra um ætluð not sem hafa megi af landi þeirra varðandi smávirkjanir auk þeirra nota sem leiða muni af friðuninni, t.d. aukinnar ferðaþjónustu, nýtingar jarðvarma til húshitunar eða annars, betri nýtingar með fleiri virkjunum en einni stórri virkjun, byggingar baðstaða o.fl. Ráðherra byggi á því að þessi atriði eigi að leiða til þessa að hafna beri bótakröfu matsþola eða lækka bótafjárhæð og að friðlýsingin útiloki alls ekki hagkvæma nýtingu á svæðinu. Matsþolar telja þessar hugmyndir ráðherra byggja á misskilningi eða ómarktækum vangaveltum. Matsþolar fari ekki fram á bætur fyrir landsréttindi sem friðlýsingin beinist að heldur aðeins mat á bótum fyrir þau réttindi sem þeir séu sviptir með friðlýsingunni, það er orkuvinnslu jarðvarma með uppsett varmaafl 50 MW eða meira og rafafl 10 MW eða meira fyrir landi matsandlagsins. Ætlaðir nýtingarmöguleikar sem ráðherra bendi á eigi ekki við nokkur rök að styðjast og hann hafi ekki lagt fram nein gögn um þá.
Matsþolar vísa til málatilbúnaðar ráðherra um álitsgerð Þróunarfélags Íslands ehf. Matsþolar hafi sjálfir aflað matsgerðarinnar og lagt fram í málinu sökum þess að ráðherra hafi vanrækt þá rannsóknarskyldu sína samkvæmt 10. gr. stjórnsýslulaga að hlutast til um mat á tjóni eigenda háhitasvæðis Gjástykkis vegna friðlýsingar. Matsgerðinni hafi ekki verið hnekkt. Matsþolar hafna því með ítarlegri umfjöllun að um einhliða álitsgerð sé að ræða, að forsendur hennar séu gallaðar, óútskýrðar og vanreifaðar. Þeir benda meðal annars á að álitsgerðin byggi einkum á samningi sem landeigendur Reykjahlíðar hafi gert við Landsvirkjun 6. nóvember 2005, að sá samningur liggi fyrir í málinu og að ráðherra hafi ekki lagt fram nein gögn eða útreikninga sem rýri gildi áætlana sem byggt sé á í matsgerðinni. Matsþolar gera athugasemd við umfjöllun ráðherra um verðmat háhitaréttinda almennt og telja það sæta furðu að í málatilbúnaði ráðherra sé varla minnst á samninginn frá 2005 sem landeigendur Reykjahlíðar hafi gert við Landsvirkjun um tilteknar fjárhagslegar greiðslur Landsvirkjunar til landeigenda fyrir fyrirhugaða nýtinga þeirra á háhitasvæði Gjástykkis sem nú verði ekki ráðist í vegna friðlýsingarinnar. Samningurinn og gerð hans hljóti að hafa lykilþýðingu fyrir mál þetta og lýsi beinlínis þeirri aðferð sem nota skuli við útreikning fjárhæðar greiðslna til landeigenda fyrir afnotin sem þeir voru sviptir með friðlýsingunni. Því hafi matsgerð Þróunarfélags Íslands ehf. einmitt byggt á samningnum. Loks benda matsþolar á að ráðherra hafi ekki bent á neina raunhæfa fordæmisgefandi hliðstæðu við þetta mál sem hugsanlega gæti haft áhrif til lækkunar tjónbóta.
Varðandi viðbótarathugasemdir ráðherra í málinu vísa matsþolar til umfjöllunar um ætluð sjónarmið og nýjungar í dómaframkvæmd Mannréttindadómstóls Evrópu. Matsþolar hafna því að tilvitnaðir dómar eigi við í þessu máli. Í dómunum séu rakin ýmis lögfræðileg sjónarmið um mörk á milli bótaskyldra skerðinga og takmarkana eignarréttar sem hafi ekki í för með sér bótaskyldu. Þetta sé umræða sem sé vel þekkt hér á landi og feli ekki í sér neitt nýtt fyrir það mál sem hér sé til úrlausnar. Þá fjalli ráðherra um lögfræðileg álitaefni sem áður hafi verið rakin af báðum málsaðilum fyrir matsnefnd og matsnefnd tekið afstöðu til í úrskurðum sínum þar sem fallist hafi verið á málsástæður matsþola en ekki ráðherra. Það sé álit matsþola að tilvísanir ráðherra til dómaframkvæmdar MDE styðji í reynd niðurstöðu matsnefndarinnar og séu fjarri því að breyta forsendum í úrskurðum nefndarinnar. Ráðherra hafi og farið þess á leit við matsnefnd að hún endurskoðaði niðurstöðu í fyrri úrskurðinum frá 27. ágúst 2021, þar sem nefndin taldi að framtíðarnýting matsþola á jarðhitaréttindum Gjástykkis hefði verið bæði raunhæf og líkleg, og legði nú fram gögn þessu til stuðnings sem ráðherra kalli ný gögn. Matsþolar hafna því að um ný gögn sé að ræða, allt séu þetta greinar sem birst hafi í dagblöðum og fleiri gögn sem beinlínis hafi legið fyrir hjá matsnefnd áður en úrskurðurinn 27. ágúst 2021 hafi verið kveðinn upp. Þá séu þessar hugleiðingar ráðherra um að niðurstaða matsnefndar hafi byggst á ófullnægjandi eða röngum gögnum um málsatvik ýmist óljósar eða efnislega rangar og eigi ekki við rök að styðjast. Þvert á móti kveða matsþolar málsástæður sínar hafa styrkst enn frekar eftir að úrskurður matsnefndar 27. ágúst 2021 gekk, því t.d. hafi spá Orkuspárnefndar um raforkuþörf 2020-2060 gengið eftir og sú spá raunar verið endurnýjuð með nýrri raforkuspá 2021-2060 vegna enn aukinnar orkuþarfar. Sérstaklega hafna matsþolar umfjöllun ráðherra þar sem reynt sé að draga upp þá mynd af rammasamningi Landsvirkjunar og Landeigenda Reykjahlíðar frá 6. nóvember 2005 að samningurinn sé ekki marktæk heimild um fyrirhugaða framtíðarnýtingu matsþola á háhitasvæði Gjástykkis á þeim tíma. Hér sé meðal annars áréttað að í rammasamningnum sjálfum, formála hans og einstökum greinum sé gerð ítarleg grein fyrir forsendum samningsgerðarinnar, ástæðum þess að samningurinn var gerður og efni hans. Í fylgiskjali 1 með honum komi einnig fram áætlaður árlegur kostnaður vegna fyrirhugaðra rannsókna á Gjástykkis og hafi hann verið áætlaður 240 mkr. fyrir árið 2008. Matsþolar kveða ætluð ný gögn, sem lögð hafi verið fram af ráðherra, hvorki rýra efni né þýðingu rammasamningsins fyrir þetta mál nema síður sé. Þá bendi gögnin ekki til þess að niðurstaða matsnefndar hafi byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik. Matsþolar hafna og þeirri röksemd ráðherra að lækka beri bótafjárhæð til handa matsþolum ef til hennar komi, því sú röksemdafærsla sem ráðherra byggi á sé ekki rétt. Orkuvinnsla smávirkjana á friðuðu háhitasvæði Gjástykkis sé tæknilega séð ekki útilokað en fjárhagslega svo óhagkvæm að hún kæmi ekki til álita og styrki upplýsingar frá Landsvirkjun 7. júní 2021 sem matsþolar hafi lagt fram í málinu þá ályktun. Þá lækki bótakrafa Landsvirkjunar á hendur ríkissjóði, vegna rannsóknarkostnaðar og umsýsluþóknun sem fyrirtækið hafi greitt matsþolum, ekki tjónbætur til matsþola, auk þess sem matsþolar kannist ekki við þá fjárhæð sem ráðherra haldi til streitu í því samhengi (92.000.000 krónur).
Varðandi fjárhæð tjónbótanna árétta matsþolar að sérstaða máls þessa felist í því að við gildistöku friðlýsingarinnar hafi rammasamningurinn við Landsvirkjun frá 6. nóvember 2005 verið í gildi. Þar sé fjallað um fjárhagslegt endurgjald til matsþola fyrir þá fyrirhuguðu nýtingu jarðhitaréttindanna sem friðlýsing ráðherra útiloki. Með friðlýsingunni hafi fallið niður öll ákvæði samningsins um endurgjald til matsþola. Sé samningurinn sönnun þess að matsþolar hafi orðið fyrir fjárhagslegu tjóni sem þeir eigi rétt á að fá bætt samkvæmt 42. gr. laga nr. 60/2013. Þá sé samningurinn meginviðmið áætlana um fjárhagslegt tjón matsþola.
Matsþolar hafa lagt fram málskostnaðaryfirlit vegna þess kostnaðar sem þeir hafa haft af rekstri matsmálsins.
VI
Niðurstaða matsnefndar:
1
Í málinu krefst ráðherra þess aðallega að endurupptöku málsins verði hafnað, til vara að málinu verði vísað frá matsnefnd, að þessu frágengnu að hafnað verði kröfum matsþola en að því frágengnu að ákvarðaðar verði hæfilegar bætur fyrir ætlað eignarnám. Matsþolar krefjast þess á hinn bóginn að máli matsnefndar eignarnámsbóta nr. 1/2021 verði fram haldið og bætur ákveðnar fyrir tjón þeirra samkvæmt 3. mgr. 42. gr. laga nr. 60/2013. Matsþolar krefjast þess einnig að ráðherra verði gert að greiða þeim endurgjald vegna þess kostnaðar sem þeir hafa haft af rekstri matsmálsins samkvæmt framlögðu málskostnaðaryfirliti.
Með úrskurði matsnefndar 27. ágúst 2021 í máli nr. 1/2021 var eins og áður greinir komist að niðurstöðu um að hafna kröfu matsþola um bætur úr hendi ráðherra vegna þess að með auglýsingum ráðherrans 1. apríl 2020 nr. 367/2020, um verndarsvæði á Norðausturlandi - háhiti Gjástykkissvæðis í verndarflokki verndar- og orkunýtingaráætlunar, og 16. júní 2021 nr. 720/2021, um breytingu á auglýsingu nr. 367/2020, hefðu matsþolar verið sviptir rétti sínum til orkurannsókna og orkuvinnslu jarðvarma með uppsett varmaafl 50 MW eða meira og jarðvarma með uppsett rafafl 10 MW eða meira fyrir landi jarðar þeirra Reykjahlíðar innan marka verndarsvæðis samkvæmt auglýsingunum. Þá var ráðherra gert að greiða samtals 9.200.315 krónur málskostnað, svo og 2.000.000 krónur í ríkissjóð vegna kostnaðar við störf matsnefndar í málinu. Í úrskurðinum taldi matsnefnd að matsþolum bæri réttur til bóta úr hendi ráðherra vegna friðlýsingarinnar. Á hinn bóginn var það niðurstaða matsnefndar að slík óvissa væri um hlutdeild matsþola í þeim réttindum sem sættu friðlýsingu, og þar með hlutdeild í bótum vegna tjóns af völdum þeirrar eignarskerðingar fólst í friðlýsingu réttindanna umrætt sinn, að ófært væri að ákveða að svo komnu máli bætur fyrir ætlað tjón af þessum völdum líkt og matsþolar hefðu krafist. Þá var endurupptöku málsins hafnað með úrskurði matsnefndar 21. desember 2021 í máli nr. 1/2021.
Meðferð matsmáls nr. 1/2021 nú byggist á því að matsþolar hafa á grundvelli laga nr. 91/1991 og í samræmi við 27. gr. laga nr. 57/1998 aflað mats tveggja dómkvaddra manna, Leifs Skúlasonar Kaldals verkfræðings og Benedikts Steingrímssonar eðlisfræðings, um hlutfallslegan rétt eigenda háhitasvæðis Gjástykkis til nýtingar þess. Á þeim grunni fóru matsþolar sem fyrr greinir fram á það með bréfi 20. maí 2022 að matsmáli nr. 1/2021 yrði fram haldið. Í síðastgreindu lagaákvæði segir að komi upp ágreiningur milli rétthafa um nýtingu auðlindar, sem ekki fæst jafnaður, t.d. ef landamerki tveggja eða fleiri rétthafa liggja þannig að nýting auðlindar verður ekki aðskilin, skuli afla mats dómkvaddra matsmanna um hvernig hagkvæmast er að hagnýta auðlindina og hver sé hlutfallslegur réttur hvers og eins til nýtingar. Matsþolar voru íslenska ríkið vegna jarðanna Áss og Svínadals, sveitafélagið Þingeyjarsveit vegna jarðarinnar Þeistareykja og auk þess þeir eigendur Reykjahlíðar sem ekki stóðu að matsbeiðninni með matsþolum. Var dómkvöddu matsmönnunum falið að svara svofelldri matsspurningu: „Óskað er mats hinna dómkvöddu matsmanna á því hver hafi verið hlutfallslegur réttur hvers og eins eigenda háhitasvæðisins Gjástykkis til nýtingar þess við friðlýsingu svæðisins samkvæmt auglýsingu nr. 367/2020 hinn 1. apríl 2020.“ Matsgerð dómkvöddu matsmannanna er dagsett 19. maí 2022 og ber hún heitið „Hlutfallslegur réttur eigenda háhitasvæðis Gjástykkis til nýtingar.“ Niðurstaða matsgerðarinnar er svofelld:
„Það er samdóma mat matsmanna að svæðið, sem afmarkar háhitakerfið í Gjástykki, er út frá núverandi þekkingu jafngilt til jarðhitavinnslu og engin fyrirliggjandi gögn benda til annars. Því er það niðurstaða matsmanna að jarðhitaréttindi eigenda 1. apríl 2020 hafi verið í samræmi við hlutfall landareigna hvers og eins í heildarflatarmáli háhitasvæðisins eins og það hefur verið skilgreint. Hlutfallslegur réttur til bóta sé því samkvæmt eignahlutfalli flatarmáls jarða innan háhitasvæðisins, það er að segja 52,98% innan marka Reykjahlíðar og 47,02% innan marka Þeistareykja, Áss og Svínadals.“
Samkvæmt gögnum málsins hefur mat hinna dómkvöddu manna ekki sætt endurskoðun eftir fyrirmælum laga nr. 91/1991.
Verður nú leyst úr þeirri kröfu matsþola að matsmáli nr. 1/2021 verði fram haldið.
2
Matsþolar fóru sem fyrr greinir fram á það með bréfi 20. maí 2022 að matsmáli nr. 1/2021 yrði fram haldið. Með bréfi formanns matsnefndar 24. maí 2022 til málsaðila er meðal annars tiltekið að af hálfu formanns verði ekki annað ráðið en að af hálfu matsþola hafi verið farið fram á endurupptöku málsins á grundvelli 24. gr. stjórnsýslulaga. Með bréfinu 24. maí 2022 var lögmönnum aðila síðan veittur frestur til að skila til matsnefndar athugasemdum um fram komna beiðni matsþola, það er um hvort skilyrði stæðu til endurupptöku málsins samkvæmt stjórnsýslulögum og tiltekið að matsnefndin myndi við svo búið og eftir atvikum úrskurða um frávísun málsins eða boða til fyrstu fyrirtöku í því. Athugasemdir matsþola bárust með bréfi 10. júní 2022 þar sem aðallega var gerð krafa um að málinu yrði fram haldið með þeim rökstuðningi að nú þegar þeir hefðu lagt fram matsgerð dómkvaddra manna hefði matsnefndin allar forsendur til að ljúka málinu. Byggðu matsþolar á því að málinu hefði í reynd ekki verið lokið með úrskurði nefndarinnar 21. ágúst 2021. Að því frágengnu var því haldið fram af matsþolum að uppfyllt væru skilyrði fyrir endurupptöku málsins samkvæmt 1. og 2. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga, óskráðum reglum stjórnsýsluréttar og 16. gr. laga nr. 11/1973. Athugasemdir ráðherra bárust með bréfi 14. júní 2022 og þar var þeirri afstöðu ráðherra lýst að engar forsendur væru til að taka matsmál nr. 1/2021 upp að nýju. Í bréfinu er sú afstaða ráðherra reist á því að ekki væru efnislegar forsendur til að verða við beiðninni. Í fyrsta lagi vegna þess að það væri ekki matsnefndar að taka afstöðu til ágreinings um eignarhald á þeirri jarðrænu auðlind sem bótaákvörðun sneri að og þar með hlutfallslegan rétt hvers og eins til nýtingar og að framlögð matsgerð leysti ekki úr því hver ætti auðlindina né hlutdeild einstakra eiganda í henni. Í öðru lagi efaðist ráðherra um gildi matsgerðarinnar vegna aðferðafræði við gerð hennar og að til athugunar væri að krefjast endurmats hennar. Í þriðja lagi að til athugunar væri að krefjast yfirmats enda niðurstaða matsgerðarinnar ekki sjálfgefin og hugsanlegt væri að meta þyrfti með frekari rannsóknum hvernig jarðhitaréttindin skiptist. Í fyrstu fyrirtöku málsins fyrir matsnefnd 30. júní 2022 var bókað:
„Þá er fært til bókar að í bréfi ráðherra 14. júní 2022 til matsnefndar komi meðal annars fram að til skoðunar sé hjá ríkislögmanni að krefjast úrskurðar dómara um endurskoðun eða endurmat samkvæmt 1. mgr. 66. gr. laga nr. 91/1991, svo og að jafnvel þótt héraðsdómur féllist ekki á að matið yrði unnið að nýju kæmi samkvæmt upplýsingum frá ríkislögmanni til skoðunar að óska eftir yfirmati. Með kröfu ríkislögmanns hefur nú verið gerð krafa um endurmat. Að þessu virtu er málinu frestað í átta vikur, til fimmtudagsins 25. ágúst 2022 kl. 10.30, til þess að gefa ráðherra svigrúm til að bregðast við framkominni matsgerð með því að freista þess að fá niðurstöðum hennar hnekkt með beiðni um endurmat, yfirmat, ellegar annarri sönnunarfærslu að lögum.“
Íslenska ríkið beindi kröfu til héraðsdóms 20. júní 2022 um endurmat matsgerðarinnar samkvæmt 1. mgr. 66. gr. laga nr. 91/1991, sem hafnað var með úrskurði 19. ágúst 2022 í máli nr. M-205/2022. Við næstu fyrirtöku málsins fyrir matsnefnd 25. ágúst 2022 var meðal annars bókað:
„Fært er til bókar að af hálfu ráðherra sé upplýst að íslenska ríkið hafi ekki tekið ákvörðun um hvort farið verði fram á yfirmat en fundur um það sé ráðgerður á morgun, 26. ágúst 2022. Ákvörðun þar að lútandi liggi væntanlega fyrir á næstu tveimur vikum.“
Samkvæmt gögnum málsins liggur fyrir að íslenska ríkið hefur ekki leitað yfirmats.
Í 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga segir að eftir að stjórnvald hefur tekið ákvörðun og hún verið tilkynnt eigi aðili máls rétt á því að mál sé tekið til meðferðar á ný ef ákvörðun hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik, sbr. 1. tölul. 1. mgr. 24. gr., eða íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því að ákvörðun var tekin, sbr. 2. tölul. 1. mgr. 24. gr. Það er álit matsnefndar að úrskurðurinn 27. ágúst 2021 hafi verið reistur á ófullnægjandi upplýsingum um málsatvik vegna óvissu um hlutdeild matsþola í réttindum sem sættu friðlýsingu og þar með hlutdeild í bótum vegna tjóns af völdum eignarskerðingarinnar sem fólst í friðlýsingu réttindanna. Matsnefnd telur að með tilkomu matsgerðar dómkvaddra manna, sem matsþolar hafa aflað og lagt fram í málinu, hafi verið upplýst nánar um þau atvik þannig að uppfyllt séu skilyrði 1. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga fyrir endurupptöku matsmálsins. Með hliðsjón af efni þeirra athugasemda sem ráðherra gerði við endurupptökubeiðni er það einnig álit matsnefndar að tímaskilyrði 2. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga standi endurupptöku ekki í vegi. Það er jafnframt álit matsnefndar að uppfyllt séu skilyrði 16. gr. laga nr. 11/1973 fyrir endurupptöku málsins. Er þá litið til þess að um er að ræða kröfu um eignarnámsbætur sem ekki var fjallað um í fyrra mati, svo og að tímaskilyrði ákvæðisins standa endurupptöku ekki í vegi því eignarskerðing matsþola er til komin af völdum friðlýsingar sem alla jafna verður talin almenn takmörkun á eignarrétti nema sérstaklega horfi við. Er sú raunin í máli matsþola og litið svo á að hinni bótaskyldu skerðingu á eignarréttindum matsþola hafi ekki verið slegið fastri fyrr en með úrskurðinum 27. ágúst 2021, þótt eignarréttindi matsþola hafi verið skert þegar við friðlýsinguna. Hér er og til þess að líta að skýra ber ákvæði laga, þ. á m. laga nr. 11/1973, með það í huga að stjórnarskrárverndaður réttur manns, sem skyldaður er til að láta eign sína af hendi, til fullra bóta sé raunhæfur og virkur. Samkvæmt þessu öllu er það niðurstaða matsnefndar að skilyrði standi til þess að endurupptaka matsmál nr. 1/2021. Var því með bréfi matsnefndar 23. júní 2022 til málsaðila boðað til fyrstu fyrirtöku í málinu með vísan til 5. gr. laga nr. 11/1973.
Að þessari niðurstöðu fenginni verður nú tekin afstaða til kröfu ráðherra um að málinu verði vísað frá matsnefnd.
3
Ráðherra gerir sem fyrr greinir meðal annars þær kröfur, sem fram komu í greinargerð hans frá 20. apríl 2021, sem lögð var fram undir meðferð matsmáls nr. 1/2021 sem lokið var með úrskurði matsnefndar 27. ágúst 2021 í málinu. Þar gerði ráðherra meðal annars kröfu um frávísun málsins frá matsnefnd og styður hana enn við sömu röksemdir. Snúa þær annars vegar að því að matsþolar hafi ekki lögvarða hagsmuni af úrlausn málsins og hins vegar því að matsþolar séu ekki réttur aðili að málinu fyrir matsnefnd. Í kafla VI.5 í úrskurðinum 27. ágúst 2021 leysti matsnefnd úr frávísunarkröfunni og hafnaði henni. Undir meðferð málsins nú hafa engin ný gögn eða sjónarmið verið lögð fram undir til stuðnings kröfu um frávísun og er henni því hafnað með vísan til forsendna úrskurðarins 27. ágúst 2021.
Að þeirri niðurstöðu fenginni verður nú leyst úr kröfum aðila sem snúa að efni máls.
4
Matsnefnd hefur með úrskurði matsnefndar 27. ágúst 2021 í máli nr. 1/2021 komist að niðurstöðu um að matsþolum beri réttur til bóta á grundvelli 42. gr. laga nr. 60/2013 úr hendi ráðherra vegna friðlýsingarinnar. Um þá niðurstöðu segir í úrskurðinum:
„Fallist verður á það með matsþolum að það hafi verið með friðlýsingunni sem landsréttindi þeirra hafi verið varanlega skert, en með vísan til niðurstöðu matsnefndar í úrskurðinum 17. desember 2020 verður hér lagt til grundvallar að ráðherra hafi við það tímamark svipt matsþola eignarréttindum sem fólust í rétti þeirra til orkurannsókna og orkuvinnslu jarðvarma með uppsett varmaafl 50 MW eða meira og jarðvarma með uppsett rafafl 10 MW eða meira fyrir landi matsandlagsins. Auðsætt er að matsþolar hafa með friðlýsingunni samkvæmt auglýsingunum 1. apríl 2020 og 16. júní 2021 verið sviptir rétti sínum til umræddra orkurannsókna og orkuvinnslu jarðvarma fyrir landi matsandlagsins, það er því landi Reykjahlíðar sem fellur innan verndarsvæðis friðlýsingarinnar. Að áliti matsnefndar hafa sterk rök verið leitt að því að sú eignarskerðing geti, óháð öðrum þáttum, valdið matsþolum tjóni og að þeim beri réttur til bóta úr hendi ráðherra af þeim sökum. Gögn málsins bera og með sér að framtíðarnýting matsþola á jarðhitaréttindum Gjástykkis hafi verið bæði raunhæf og líkleg, sbr. t.d. skýrslu Orkustofnunar um virkjunarkosti til umfjöllunar í 3. áfanga verndar- og orkunýtingaráætlunar, þ. á m. virkjunarkostinn Gjástykki, ásamt skýrslu Landsvirkjunar „LV-2014-130, Gjástykki, Tilhögun virkjunarkosts R3200B“, sem fylgdi erindi til verkefnastjórnar 3. áfangans 20. febrúar 2015, og orkuspá Orkuspárnefndar um raforkuþörf 2020-2060 þar sem ráðgert er að raforkunotkun meðal annars tengd orkuskiptum fari vaxandi á tímabilinu, auk þess sem til lengri tíma litið sé búist við aukinni notkun á orku með skerðanlegan flutning, sem skýrist af auknum uppsjávarafla, þótt veruleg óvissa sé um notkun á slíkri orku vegna uppbyggingar raforkukerfisins.“
Í úrskurðinum 27. ágúst 2021 var bótakröfu matsþola á hinn bóginn hafnað vegna óvissu um hlutdeild þeirra í þeim réttindum sem sættu friðlýsingu, og þar með hlutdeild í mögulegum bótum vegna tjóns af völdum eignarskerðingarinnar sem fólst í friðlýsingu réttindanna umrætt sinn. Fyrir matsnefnd hefur nú, sem fyrr greinir, verið lögð fram matsgerð dómkvaddra manna 19. maí 2022 sem aflað var í samræmi við fyrirmæli laga nr. 91/1991.
Kemur þá næst til úrlausnar matsnefndar, að teknu tilliti til fram kominnar matsgerðar, hvaða hlutdeild matsþolar eigi í þeim réttindum sem sættu friðlýsingunni umrætt sinn og hverrar fjárhæðar slíkar bætur skuli nema. Undir matsnefndina heyrir að skera úr ágreiningi um eignarnámsbætur og annað endurgjald, sem ákveða á samkvæmt lögum nr. 11/1973, sbr. 1. mgr. 2. gr. laganna.
5
Í matsgerð dómkvaddra manna 19. maí 2022 er fjallað um hlutfallslegan rétt eigenda háhitasvæðis Gjástykkis til nýtingar þess í samræmi við 27. gr. laga nr. 57/1998 og meðal annars komist að þeirri niðurstöðu að jarðhitaréttindi eigenda 1. apríl 2020 hafi verið í samræmi við hlutfall landareigna, hvers og eins, í heildarflatarmáli háhitasvæðisins eins og það hafi verið skilgreint. Hlutfallslegur réttur til bóta sé því í samræmi við eignarhlutfall flatarmáls jarða innan háhitasvæðisins, það er 52,98% innan marka Reykjahlíðar og 47,02% innan marka Þeistareykja, Áss og Svínadals.
Matsþolar öfluðu matsgerðarinnar í samræmi við fyrirmæli XII. kafla laga nr. 91/1991, sem fjallar um öflun sönnunargagna án þess að mál hafi verið höfðað. Eru ekki á matsgerðinni neinir þeir gallar sem rýrt geta gildi hennar. Matsgerðinni hefur eins og áður greinir ekki verið hrundið með yfirmati. Forsendur eru því ekki til annars en að leggja hana til grundvallar úrlausn málsins, sbr. t.d. dóm Hæstaréttar 7. febrúar 2002 í máli nr. 244/2001. Lögvarðir hagsmunir matsþola eða skortur á þeim standa því heldur ekki í vegi að matsgerðin verði lögð til grundvallar úrlausn málsins, því eins og matsnefnd hefur áður slegið föstu í úrskurðinum 21. desember 2021 í máli nr. 1/2021, sbr. einnig úrskurði matsnefndar 17. desember 2020 í máli nr. 17/2019 og 27. ágúst 2021 í máli nr. 1/2021, mæla óskráðar reglur um sérstaka sameign fyrir um þá meginreglu við ákvarðanatöku sameigenda að það dugi að meirihluti sameigenda samþykki tiltekna ráðstöfun eða hagnýtingu sameignarinnar. Það sé aðeins þegar ráðstöfun sé óvenjuleg eða mikils háttar að samþykki allra þurfi til. Þótt vera kunni að ákvörðun um að hagnýta jörðina Reykjahlíð á þann hátt sem matsþolar kveðast hafa haft í hyggju kunni að krefjast samþykkis allra, svo sem ráðherra hefur borið við í málinu, sbr. t.d. dóm Hæstaréttar 11. febrúar 2016 í máli nr. 305/2015, varðar mál þetta ekki slíka ákvarðanatöku heldur þá ráðstöfun að krefjast skaðabóta á grundvelli bótaákvæðis í lögum vegna ætlaðrar skerðingar á eignarrétti fyrir friðlýsingu. Það er því álit matsnefndar að sú ráðstöfun að krefjast skaðabóta á grundvelli bótaákvæðis í lögum vegna ætlaðrar skerðingar á eignarrétti fyrir friðlýsingu sé ekki ráðstöfun sem útheimti samþykki allra.
6
Matsþolar reisa bótarétt sinn á reglu 1. mgr. 42. gr. laga nr. 60/2013 þar sem segir að hindri friðlýsing fyrirhugaða nýtingu landeiganda eða rétthafa lands á landinu eða geri hana til muna erfiðari, umfram það sem teljast megi til almennra takmarkana eignarréttar, skuli landeigandi eða rétthafi lands eiga rétt á bótum fyrir fjárhagslegt tjón sem hann verði fyrir og geti sýnt fram á að sé verulega umfram þær takmarkanir sem finna megi í sambærilegum friðlýsingum eða ákvörðunum. Til bótaábyrgðar getur þannig komið sýni tjónþoli, landeigandi eða rétthafi lands, fram á að friðlýsing hindri fyrirhugaða nýtingu hans eða geri fyrirhuguðu nýtinguna til muna erfiðari, í báðum tilvikum umfram það sem teljast megi til almennra takmarkana. Tjónþoli þarf einnig að sýna fram á fjárhagslegt tjón af völdum friðlýsingarinnar og þá jafnframt að tjónið „sé verulega umfram þær takmarkanir sem finna megi í sambærilegum friðlýsingum eða ákvörðunum.“ Ómælt er í ákvæðinu um hvernig ákveða skuli fjárhæð bóta og fer um það eftir almennum reglum.
Í réttarframkvæmd hefur sú meginregla verið talin gilda við ákvörðun fjárhæðar eignarnámsbóta að miða beri bætur við sölu- og markaðsvirði eignar, nema útreikningur á grundvelli notagildis eignar leiði á hinn bóginn til hærri niðurstöðu en ætlað sölu- eða markaðsverð, svo og að í undantekningartilvikum geti eignarnámsþoli átt rétt á bótum sem ákvarðaðar eru á grundvelli enduröflunarverðs, sbr. t.d. dóma Hæstaréttar í máli nr. 233/2011 og 10. apríl 2014 í máli nr. 802/2013. Með sölu- eða markaðsvirði eignar er átt við það verð sem ætla má að fengist fyrir eignina við sölu hennar. Þegar bætur eru ákveðnar á grundvelli notagildis er leitast við að staðreyna þann líklega arð sem eignin getur gefið af sér á ársgrundvelli að teknu tilliti til endingartíma og vaxta. Þá koma bætur á grundvelli enduröflunarverðs aðeins til greina í undantekningartilvikum.
Við úrlausn málsins er til þess að líta að miða ber eignarnámsbætur við sölu- og markaðsvirði eignar, nema sérstakar ástæður standi til þess að reikna bætur á grundvelli notagildis eða enduröflunarverðs. Þær sérstöku röksemdir liggja fyrir í málinu að með dómi Hæstaréttar í máli nr. 233/2011 var tekið af skarið um að mælikvörðum söluverðs og notagildis verði ekki beitt afbrigðalaust um fallréttindi og komist að niðurstöðu um hvernig meta skuli til verðs fallsréttindi og önnur orkunýtingarréttindi hér á landi. Er matsnefndin bundin af þeirri niðurstöðu við ákvörðun um fjárhæð bóta komi til hennar í málinu. Verður niðurstaða um bætur samkvæmt þessu reist á heildstæðu mati á þeim atriðum sem niðurstaða Hæstaréttar í máli nr. 233/2011 byggir á, úrskurðum matsnefndarinnar sjálfrar í hliðstæðum málum og sérþekkingu sem nefndin býr yfir. Við þessa ályktun um þýðingu tilvitnaðs dóms Hæstaréttar verður þó að gera þann fyrirvara að mögulegt er að semja á annan veg og reglur um ákvörðun fjárhæðar eignarnámsbóta taka þá við þar sem samningi sleppir. Sömuleiðis gilda reglurnar fullum fetum þegar engum samningi er til að dreifa.
7
Í dómi Hæstaréttar í máli nr. 233/2011 var lagt til grundvallar að taka skyldi mið af því hvernig verðmæti fallréttinda og annarra orkunýtingarréttinda hefðu verið metin til fjár á Íslandi frá því farið var að vinna raforku úr vatnsafli hér á landi. Var í því samhengi byggt á niðurstöðum matsnefndar Kárahnjúkavirkjunar og matsgerðar 10. ágúst 1992 um ákvörðun bóta fyrir fallréttindi Blöndu, svo og matsgerða um verðmæti vatnsréttinda jarðarinnar Úlfljótsvatns í Þingvallavatni, Sogi og Úlfljótsvatni vegna virkjunar Sogsins 28. maí 1929, verðmæti helmings vatnsréttinda jarðarinnar Efri-Brúar í Grímsnesi vegna Ljósafossstöðvar 18. desember 1935, verðmæti vatnsréttinda jarðanna Dynjanda, Borgar og Rauðsstaða í Vestur-Ísafjarðarsýslu vegna Mjólkárvirkjunar 22. desember 1961 og matsgerðar dómkvaddra manna um verðmæti vatnsréttinda jarðarinnar Króks í Ásahreppi í Þjórsá vegna fyrirhugaðrar Urriðafossvirkjunar sem á reyndi í dómi Hæstaréttar 19. janúar 2006 í máli nr. 388/2005, svo og til hliðsjónar gerðardóms 21. janúar 1976 um verðmæti jarðhitaréttinda við Svartsengi í nágrenni Grindavíkur og úrskurðar matsnefndar eignarnámsbóta 30. desember 1980 um bætur vegna eignarnáms Deildartunguhvers í Borgarfirði.
Í dómi Hæstaréttar í máli nr. 233/2011 var talið að vatnsréttindi væru réttindi sem nytu verndar eignarréttarákvæðis stjórnarskrárinnar. Af því leiddi að greiða skyldi fullt verð fyrir þau vatnsréttindi sem yfirtekin væru í þágu virkjunar og bætur miðuðust við fjárhagslegt tjón rétthafanna eingöngu en ekki þann ávinning sem orkufyrirtæki kynni að hafa af framkvæmdinni.
Í dóminum var talið að við verðmat réttindanna skyldi í fyrsta lagi líta til stærðar og hagkvæmni virkjunar, í öðru lagi samanburðar hennar við aðra virkjunarkosti, í þriðja lagi deifikerfis þeirrar orku sem til yrði, í fjórða lagi markaðar fyrir orkuna, í fimmta lagi að eðlilegt og sanngjarnt hlutfall þyrfti að vera milli verðs vatnsréttinda annars vegar og stofnkostnaðar virkjunar hins vegar og í sjötta lagi þess sérhags sem koma skyldi til frádráttar bótum samkvæmt 140. gr. vatnalaga nr. 15/1923. Rétt væri að miða bætur vatnsréttarhafa ásamt öðru við hlutfall af stofnkostnaði virkjunar. Væru þessi viðmið í samræmi við þau sem nefnd væru í 5. mgr. 23. gr. raforkulaga og 3. mgr. 30. gr. laga nr. 57/1998 um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu, þar sem fram kæmi að taka bæri sérstakt tillit til óvissu um orkulindina og kostnaðar við þá framkvæmd sem eignarnámið grundvallaðist á. Gæfu þessi sjónarmið raunhæfa mynd af því, hvernig unnt væri við eignarnám að nálgast verðmat réttinda, sem í ljósi eðlis síns væri jafn örðugt að meta til fjár og fallréttindi, þannig að fullar bætur kæmu fyrir. Þar var einnig talið að gildistaka nýrra raforkulaga nr. 65/2003 hefði ekki leitt til þess að önnur sjónarmið en hingað til hefði verið stuðst við í framkvæmd hér á landi yrðu lögð til grundvallar verðmati fallréttinda né að sjónarmið úr norskum rétti gætu fengið þeim sjónarmiðum breytt.
8
Í máli þessu háttar á hinn bóginn þannig til að í nóvember 2005 gerðu Landeigendur Reykjahlíðar ehf., sem meðal annars matsþolar eiga eignarhlutdeild í, og Landsvirkjun með sér rammasamning um nýtingu jarðhita, kaup á fasteignum og fleira. Í samningnum kemur fram að Landeigendur Reykjahlíðar ehf. komi þar fram fyrir hönd félagsins og alla þinglýsta eigendur jarðarinnar Reykjahlíðar í Skútustaðahreppi í Suður-Þingeyjarsýslu. Ástæða er til að víkja að þeim ákvæðum samningsins sem snúa að Gjástykki og tengsl hafa við efni málsins.
Í rammasamningnum er í kafla I fjallað um rannsókn jarðhita og forgang Landsvirkjunar að nýtingu og í grein 1.2 segir meðal annars að Landsvirkjun hafi í hyggju svo fljótt sem verða megi að sækja um að iðnaðarráðherra veiti fyrirtækinu rannsóknarleyfi á jarðhita, með fyrirheiti um forgang að nýtingarleyfi, á svæði í Gjástykki, sem sé að hluta innan landamerkja Reykjahlíðar. Þá kemur fram í grein 1.3 að Landeigendur Reykjahlíðar veiti með samningnum Landsvirkjun einkarétt fyrir sitt leyti til rannsókna á jarðhita og nýtingar hans á því svæði sem tilgreint sé í nánar tilgreindu fylgiskjali með samningnum, sbr. 1. mgr. 7. gr. laga nr. 57/1998, og samkvæmt nánari skilmálum samningsins. Meðal þess sé svæðið Gjástykki; svonefnt svæði D. Í grein 1.6 segir:
„Aðilum er ljóst að Landsvirkjun áformar að ráðast á næstu árum í umfangsmiklar rannsóknir á jarðhitasvæðum á Norðausturlandi. Áætlun um heildarkostnað og verktíma liggur fyrir og er hún fylgiskjal nr. 1 með samningi þessum og telst hluti hans. Ákvarðanir um rannsóknir verða teknar af Landsvirkjun í ljósi aðstæðna í hverju tilfelli og verður þá einkum horft til framvindu viðræðna um orkusölu. Áætlunin er því ekki skuldbindandi fyrir Landsvirkjun en leitast verður við að fylgja henni í megindráttum eftir því sem aðrir þættir orkunýtingarmála á Norðausturlandi þróast. Þá eru rannsóknir og tilraunir til orkunýtingar af hálfu Landsvirkjunar ávallt háðar þeim fyrirvara að orkunýting sé hagstæð að mati fyrirtækisins og að orkusala sé fyrirsjáanleg í náinni framtíð.“
Þá segir meðal annars í grein 1.7 að Landsvirkjun greiði Landeigendum Reykjahlíðar ehf. árlega 1.500.000 krónur án virðisaukaskatts í umsýslugjald vegna rannsóknarsvæðis í Gjástykki, á meðan Landsvirkjun hafi gild rannsóknar- og nýtingarleyfi, allt til þess tíma að orkusala frá jarðhitavirkjun á viðkomandi svæði hefjist eða Landsvirkjun hverfi frá áformum sínum um rannsóknir og nýtingu. Í grein 1.8 er nánar útskýrt fyrir hvað umsýslugjaldið standi og tilgreint að það skuli breytast til samræmis við vísitölu neysluverðs með grunnvísitölu 248,4 stig í október 2005. Í grein 1.9 er ákvæði um að Landsvirkjun greiði fyrir efnistöku og vatnstöku vegna rannsóknarborana meðal annars á svæði D í Gjástykki og mælt fyrir um að þegar rannsóknum ljúki skuli gera sérstakan samning um endurgjald fyrir landnot vegna mannvirkjagerðar í þágu rannsóknarborana komi ekki til nýtingar og endurgjalds samkvæmt grein 2.6. Í grein 1.12 kemur fram að komi til nýtingar Landsvirkjunar á jarðhitaorku á framangreindum svæðum, sbr. grein 1.3, til rafmagnsframleiðslu og annarrar orkuframleiðslu, skuli greiðslu hagað samkvæmt ákvæðum 2. gr. og falli þá umsýslugjald á viðkomandi svæði niður frá því rafmagnssala hefjist eða sala á háþrýstigufu og heitu vatni eftir því sem við eigi. Skilyrði þess að umsýslugjald falli niður sé þó að endurgjald til einkahlutafélagsins af raforkusölu, sölu á háþrýstigufu eða heitu vatni nemi hærri fjárhæð en umsýslugjaldið. Nemi afgjald lægri fjárhæð en umsýslugjald falli greiðsla afgjalds niður.
Í rammasamningnum er í grein 2 fjallað um nýtingu jarðhita og endurgjald. Þar segir meðal annars í grein 2.1 að Landeigendur Reykjahlíðar veiti Landsvirkjun fyrir sitt leyti með samningnum einkarétt til nýtingar jarðhita á þeim svæðum sem afmörkuð séu á meðfylgjandi korti á fylgiskjali nr. 4 sem teljist hluti hans, sbr. og grein 1.3, allt að uppfylltum skilyrðum um opinber leyfi til virkjunar svæðanna og rekstrar virkjunarmannvirkja. Landsvirkjun séu heimil nauðsynleg afnot af svæðunum, innan landamerkja jarðarinnar, til borunar, virkjunar og lagningar nauðsynlegra laga til orkuflutnings, þ.m.t. gufu- og línulagna, vegagerðar og annarrar mannvirkjagerðar. Landsvirkjun hafi umferðarrétt um land jarðarinnar Reykjahlíðar eins og nauðsynlegt kunni að reynast vegna undirbúnings og framkvæmda og seinna starfrækslu og viðhalds þeirra mannvirkja sem nýtingunni tengist, sbr. 26. gr. laga nr. 57/1998. Í grein 2.2 kemur fram að Landsvirkjun skuli bera allan kostnað af framkvæmdum vegna nýtingar, hvort sem sé vegna borana eða annars, skuli afla þeirra opinberu leyfa sem til þyrfti og annast önnur samskipti við opinbera aðila. Þá skuli Landsvirkjun einnig annast um samskipti við skipulagsyfirvöld. Í grein 2.3 er síðan fjallað um afgjald fyrir nýtingarrétt en þar segir:
„Fyrir þann jarðhita sem [Landeigendur Reykjahlíðar ehf.] heimilar Landsvirkjun nýtingarrétt á með samningi þessum skal Landsvirkjun greiða afgjald á framleidda kílówattstund rafmagns (kWst) út á flutningsnet frá þeim degi sem rafmagnssala frá virkjun hefst (royalty-greiðsla). Skal greiðslan nema 1,7 eyri/kWst rafmagns án virðisaukasaktts. Greiðslan er verðtengd miðað við gengisvísitölu (TWI) íslensku krónunnar (ISK) eins og hún er útgefin af Seðlabanka Íslands. Grunnvísitala (TWio) er ákveðin miðað við gengisvísitölu 1. nóvember 2005 eða 102,312 stig. Afgjaldið (A) breytist í hlutfalli við breytingar á gengisvísitölu miðað við útgáfudag reiknings, sbr. grein 2.4, sbr. eftirfarandi formúlu: A – 1,7 x TWI/TWIo. Hugsanlegar skattgreiðslur [Landeigenda Reykjahlíðar ehf.], aðrar en virðisaukaskattur ef við á, eða aðrir kostnaðarliðir félagsins vegna þessara tekna [Landeigenda Reykjahlíðar ehf.] hafa ekki áhrif á afgjaldið og verður ekki bætt ofaná það. Er hér um að ræða endurgjald fyrir auðlind í skilningi 1. mgr. 7. gr. laga nr. 57/1998.“
Í grein 2.5 segir meðal annars:
„Í ljósi þess að samningi þessum er ætlaður langur gildistími lýsa aðilar yfir þeim ásetningi sínum að honum verði beitt af sanngirni í skiptum þeirra á milli og án þess að hagsmunir annars hvors þeirra bíði tjón af, þegar tillit er tekið til skiptingarinnar á því hagræði og þeirri áhættu sem af honum leiðir. Hvorum aðila um sig er heimilt, að 15 árum liðnum frá undirritun þessa samnings og síðan á 10 ára fresti, að óska eftir endurskoðun á því afgjaldi sem Landsvirkjun ber að greiða, sbr. grein 2.3. Til þess að endurskoðun fari fram þarf sá aðili sem óskar hennar að sýna fram á að sérstakar ástæður mæli með endurskoðun og líkur bendi til þess að forsendur hafi breyst í verulegum atriðum honum í óhag, svo sem vegna nýrrar virkjunartækni, djúpborunar, breytinga á álverði á álmörkuðum og náttúruhamfara. Aðilar skulu leitast við eftir því fremsta megni, sem eðlilegt má telja frá viðskiptasjónarmiði, að ná samningi um breytingu á afgjaldinu, þannig að verði sanngjarnt gagnvart báðum aðilum. [...]“
Í grein 2.6 segir er kveðið á um að gera skuli sérstakan samning milli aðila um endurgjald fyrir afnot af landi sem fari undir mannvirki sem séu varanlega notuð til nýtingar jarðhitans. Þá er í grein 2.8 fjallað um sérstakt endurgjald fyrir jarðhitaorku sem Landsvirkjun geti nýtt til annarra nota en rafmagnsframleiðslu og um það segir meðal annars í ákvæðinu:
„Komi til slíkrar framleiðslu, nýtingar og sölu skal Landsvirkjun greiða [Landeigendum Reykjahlíðar ehf.] 1,30% af heildarsöluverði á hverjum tíma vegna þessarar starfsemi sem afgjald fyrir nýtingu auðlindar.“
Önnur ákvæði rammasamningsins hafa takmarkaða þýðingu fyrir það mál sem hér er til úrlausnar.
Samandregið er þannig í rammasamningnum tekið af skarið um það endurgjald sem matsþolar hefðu ásamt öðrum eigendum Reykjahlíðar notið ef komið hefði til nýtingar jarðhita í Gjástykki af hálfu Landsvirkjunar. Er þar í fyrsta lagi um að ræða umsýslugjald vegna rannsóknarsvæðis í Gjástykki, á meðan Landsvirkjun hefði gild rannsóknar- og nýtingarleyfi og allt til þess tíma að orkusala frá jarðhitavirkjun á viðkomandi svæði hæfist eða Landsvirkjun hyrfi frá áformum sínum um rannsóknir og nýtingu. Í öðru lagi afgjald fyrir jarðhitanýtingu á framleidda kílówattstund rafmagns (kWst) út á flutningsnet frá þeim degi sem rafmagnssala frá virkjun hæfist. Í þriðja lagi skyldi samkvæmt samningnum gera sérstakan samning um endurgjald fyrir afnot af landi sem færu undir mannvirki sem yrðu varanlega notuð til nýtingar jarðhitans. Í fjórða lagi sérstakt endurgjald fyrir jarðhitaorku sem Landsvirkjun gæti nýtt til annarra nota en rafmagnsframleiðslu.
Svo sem fyrr greinir gilda almennar óskráðar reglur um ákvörðun fjárhæðar eignarnámsbóta hafi ekki verið samið á annan veg. Verður rammasamningurinn sem Landeigendur Reykjahlíðar ehf., þ. á m. matsþolar, og Landsvirkjun gerðu með sér 6. nóvember 2005 lagður til grundvallar við úrlausn matsnefndar um fjárhæð þeirra bóta sem matsþolum ber vegna eignarskerðingarinnar samkvæmt framangreindu enda hefur ráðherra ekki sýnt fram á neina þá ágalla á samningnum sem hefðu getað staðið efndum hans í vegi. Þar sem samningnum sleppir taka við reglur um ákvörðun fjárhæðar eignarnámsbóta, þ. á m. þær reglur sem leiddar verða af dómi Hæstaréttar í máli nr. 233/2011.
9
Matsþolar hafa lagt fram í málinu verðmat Þróunarfélags Íslands ehf. 15. apríl 2021 á áætluðu fjárhagslegu tjóni landeigenda Reykjahlíðar í Skútustaðahreppi vegna friðlýsingar Gjástykkis samkvæmt auglýsingu nr. 367/2020. Við þýðingu þessa mats verður gerður sá fyrirvari að þess er einhliða aflað af matsþolum og sönnunargildi þess er ekki það sama og matsgerðar dómkvaddra manna.
Í verðmatinu er í fyrsta lagi reiknað út fjárhagslegt núvirt tjón Landeigenda Reykjahlíðar ehf. til 50 ára miða við 22. apríl 2020 vegna þess að friðlýsing Gjástykkis útilokaði að rammasamningurinn 6. nóvember 2005 næði fram að ganga (þáttur A). Í verðmatinu er í öðru lagi áætlað og núvirt fjárhagslegt tjón Landeigenda Reykjahlíðar ehf. á þeim grundvelli að friðlýsing Gjástykkis hafi útilokað möguleika landeigenda Reykjahlíðar til að virkja svæðið sjálfir eða með öðrum aðilum til raforkuframleiðslu og eru þeir útreikningar við það miðaðir að félag í þeirra eigu, með eða án annarra aðila, hefði virkjað háhitasvæði Gjástykkis og selt raforkuna og önnur nýtanleg verðmæti á markaðsverði (þáttur B). Í verðmatinu eru í þriðja lagi núvirtar fjárhæðir upprunaábyrgða til 50 ára ef Gjástykki hefði verið virkjað sem hluti af verðmætum í þætti B.
Um þær forsendur sem miðað er við segir svo í verðmati Þróunarfélags Íslands ehf.:
„Grunnforsendur:
Rannsóknir Landsvirkjunar á háhitasvæði Gjástykkis sýna að afl virkjunar Gjástykkis næmi 135 MW með orkuvinnslu 1.107 GWst/ár. Okkar útreikningar miða við 50 ára líftíma virkjunar. Afgjald/Royalty er byggt á einingaverði á framleidda KW stund sem uppreiknað er eftir meðal gengisvísitölu sem tilgreind er í [rammasamningnum]. Endurgjald fyrir land er reiknað út frá stærð rannsóknarsvæðis fyrir virkjun og nýlegu leiguverði sem Landsvirkjun samdi um vegna Þeistareykjavirkjunar. Stærð svæðisins er 5.919 ha.Vatnsnotkun byggir á áætlaðri vatnsþörf fyrir jarðvarmavirkjun sem nemur um 1,8 lítrum á sekúndu, samkvæmt skjali R3297B vegna Bjarnarflagsvirkjunar, fyrir hvert framleitt MW og verð sem samið var um 2005 uppreiknað með vísitölu neysluverðs í samræmi við ákvæði í [rammasamningnum]. Vatnsþörf við borun byggir á reynslutölum úr Kröflu og áætluðum fjölda borhola fyrir 135 MW virkjun sem miðar við meðalvirkni boraðrar holu sé um 5 MW. Efnistaka á framkvæmdatíma byggir á áætlun um þörf fyrir jarðefni (möl) til mannvirk[j]agerðar, mati á skiptingu eftir tegund jarðefna og verðlista [Landeigendafélags Reykjahlíðar ehf.] frá 2019/2020. Gert er ráð fyrir um 750.000 rúmmetrum til verkefnisins. Verð á upprunaábyrgðum byggja á opinberum tölum frá Landsvirkjun. Áætlaðar tekjur vegna upprunaábyrgða í okkar mati byggja á fyrrnefndum tölum fyrir virkjun sem framleiðir liðlega 1.100 GW stundir á ári. Verðmæti í [þætti] B byggir á LCOE (Levelized Cost of Energy) sem svo er núvirt til 50 ára með 7,5% afvöxtun.“
Í verðmatinu er síðan tilgreint að fjárhagslegt tjón landeigenda Reykjahlíðar samkvæmt þætti A nemi 3.925,140 milljónum króna en samkvæmt þætti B nemi tjónið 11.791,633 milljónum króna.
10
Þótt í verðmati Þróunarfélags Íslands ehf. 15. apríl 2021 sé í meginatriðum miðað við forsendur rammasamningsins 6. nóvember 2005 telur matsnefnd að verðmatið verði ekki afbrigðalaust lagt til grundvallar. Er það vegna þess að þar er í fyrsta lagi byggt á þeirri forsendu að 100% vissa sé fyrir því að af framkvæmdunum hefði orðið ef ekki hefði komið til friðlýsingar ráðherra og í öðru lagi þeirri forsendu að til greiðslna myndi koma þegar í stað.
Það er álit matsnefndar að verulega meiri óvissa ríki um það hvort orðið hefði af virkjunarframkvæmdum ef ekki hefði komið til friðlýsingarinnar, svo og að óvissa sé um það hvenær virkjunarframkvæmdum hefði verið hrint í framkvæmd ef ákvörðun hefði verið tekin um að ráðast í þær.
Matsnefnd telur að þessir óvissuþættir hafi þýðingu fyrir útreikning á bótum til handa matsþolum vegna þess tjóns sem þeir sættu á grundvelli eignarskerðingarinnar, því ekki hefði komið til greiðslna samkvæmt rammasamningnum frá 2005 nema virkjað hefði verið. Tjón matsþola er þannig háð líkum á því að virkjað hefði verið ef ekki hefði komið til friðlýsingar ráðherra.
Varðandi óvissu um hvort virkjað hefði verið, er það álit matsnefndar líta verði til nokkurra þátta sem vegast á í þessu sambandi. Er þá haft í huga að Landsvirkjun stóð að gerð rammasamningsins 2005 um virkjunarkost á háhitasvæði Gjástykkis á Gjástykkissvæði og hefur samkvæmt gögnum málsins kostað til umtalsverðu fé í þágu rannsókna á grundvelli samningsins, svo og þess að virkjunarkostinum var skipað í verndarflokk samkvæmt lögum nr. 48/2011 um verndar- og orkunýtingaráætlun með þingsályktun 14. janúar 2013. Hér hefur einnig þýðingu það sem ráðherra hefur haldið fram í málinu, um að hvorki liggi fyrir mat á umhverfisáhrifum vegna virkjunarkostsins né deiliskipulag vegna landsvæðisins sem í hlut eigi, hvorki sé né hafi verið í aðalskipulagi gert ráð fyrir uppbyggingu þar í slíka þágu og ekki séu fyrir hendi aðrar aðstæður sem heimili þegar slíkar framkvæmdir. Í málinu liggi og fyrir upplýsingar sem stafi frá Landsvirkjun um að stofnunin hafi litið á Gjástykki sem virkjunarkost til vara. Þá fylgi því einnig óvissa að matsþolar eigi ekki einir hagsmuna að gæta í Gjástykki því þar eigi fleiri land. Að öllu virtu er það niðurstaða matsnefndar að heildarlíkur á að virkjun hefði orðið séu 50%.
Varðandi óvissu um hvenær virkjunarframkvæmdir hefðu hafist, er það niðurstaða matsnefndar að rétt sé að miða við jafndreifðar líkur á upphafi virkjunarframkvæmda frá fimmta til 25. árs frá eignarskerðingunni að telja, það er frá auglýsingum um friðlýsingu 1. apríl 2020 nr. 367/2020 og 16. júní 2021 nr. 720/2021 og verður í því samhengi miðað við fyrrgreinda tímamarkið.
11
Varðandi tímamark til viðmiðunar þegar bætur í málinu eru metnar er til þess að líta að með úrskurði matsnefndar 27. ágúst 2021 í máli nr. 1/2021 var komist að niðurstöðu um að það hafi verið með friðlýsingunni sem landsréttindi matsþola hafi verið varanlega skert og með vísan til niðurstöðu matsnefndar í úrskurði 17. desember 2020 í máli nr. 17/2019 var og lagt til grundvallar að ráðherra hafi við það tímamark svipt matsþola eignarréttindum sem falist hafi í rétti þeirra til orkurannsókna og orkuvinnslu jarðvarma með uppsettu varmaafli 50 MW eða meira og jarðvarma með með uppsettu rafafli 10 MW eða meira fyrir landi matsandlagsins. Einnig var komist að niðurstöðu um að auðsætt væri að matsþolar hefðu með friðlýsingunni samkvæmt auglýsingunum 1. apríl 2020 og 16. júní 2021 verið sviptir rétti sínum til umræddra orkurannsókna og orkuvinnslu jarðvarma fyrir landi matsandlagsins, það er því landi Reykjahlíðar sem félli innan verndarsvæðis friðlýsingarinnar. Að þessu virtu og með vísan til dóms Hæstaréttar 18. október 2012 í máli nr. 233/2011 er það álit matsnefndar að þegar með auglýsingu ráðherra um friðlýsingu 1. apríl 2020 hafi matsþolar sætt bótaskyldri eignarskerðingu í merkingu 1. mgr. 42. gr. laga nr. 60/2013 og að eftir það tímamark verði ekki horft til annarra breytinga á aðstæðum en þeirra sem felist í því að verðmæti réttinda ákvarðist á grundvelli verðlags á matsdegi.
12
Á grundvelli rammasamningsins frá 2005 telur matsnefnd rétt að miða við eftirfarandi forsendur um umfang mögulegrar virkjunar háhitasvæðis í Gjástykki:
- Að tekjur af leyfisgjöldum (afgjald fyrir jarðhitanýtingu samkvæmt grein 2.3 í rammasamningnum) miði við forsendur rammasamningsins um greiðslu á framleidda einingu, uppfært miðað við gengisvísitölu íslensku krónunnar eins og hún var á þeim degi þegar eignarskerðing átti sér stað, það er miðað við auglýsingu um friðlýsingu 1. apríl 2020 nr. 367/2020.
- Að 45 MW virkjun hefði risið sem stækkað gæti í 90 MW, að tvö ár hefðu liðið frá upphafi framkvæmda þar til fyrri áfangi (45 MW) hefði verið tekinn í notkun og að síðari áfangi (45 MW) hefði verið tekinn í notkun tíu árum eftir upphaf framkvæmda. Hér hefur matsnefnd annars vegar hliðsjón af því að þótt áætlanir Landsvirkjunar hafi aðeins miðað við eina 45 MW virkjun, sbr. matsskýrslu Mannvits verkfræðistofu um mat á umhverfisáhrifum rannsóknaborana Landsvirkjunar í Gjástykki frá í janúar 2010, séu stækkunarmöguleikar sýnilega fyrir hendi. Hins vegar að málatilbúnaður matsþola miði við þrjár 45 MW virkjanir.
- Að nýtingarhlutfall virkjunarinnar hefði verið 85% eins og verðmat Þróunarfélags Íslands ehf. miðar við.
- Að virkjunin hefði krafist afnota af landsvæði að stærð 81 hektari, eins og áætlanir Landsvirkjunar miðuðu við samkvæmt matsskýrslu Mannvits verkfræðistofu um mat á umhverfisáhrifum rannsóknaborana Landsvirkjunar í Gjástykki frá í janúar 2010. Það er álit matsnefndar að hér sé rétt að miða við hæfilegt verðmæti lands á þessum stað sem nefndin telur nema 380.174 krónum á hektara (38,0174 krónum á fermetra), sbr. úrskurð matsnefndar 22. febrúar 2017 í máli nr. 1/2016 varðandi spildu úr landi jarðarinnar Reykjahlíðar í þágu lagningar Kröflulínu og verðlagsáhrif.
- Að vænt efnisþörf taki mið af áætlunum þar um í verðmati Þróunarfélags Íslands ehf. 15. apríl 2021.
Þá telur matsnefnd rétt að leggja til grundvallar að tekjustreymi rétthafa samkvæmt rammasamningnum 2005 miðað við þessar forsendur skuli núvirða með 7,5% ávöxtunarkröfu til upphafsdags framkvæmda og hefur matsnefnd hliðsjón af þeirri ávöxtunarkröfu sem byggt var á í verðmati Þróunarfélagsins ehf. 15. apríl 2021 sem er ekki fjarri veginni ávöxtunarkröfu t.d. Orkuveitu Reykjavíkur. Að þessu öllu virtu hefðu núvirtar tekjur Landeigendafélags Reykjahlíðar ehf. samkvæmt rammasamningnum 2005 numið 496.654.337 krónum. Næst þarf að taka tillit til fyrrgreindra forsendna um 50% heildarlíkur á að virkjað hefði verið og jafndreifðar líkur á upphafi virkjunarframkvæmda frá fimmta til 25. árs frá eignarskerðingunni 1. apríl 2020 að telja, því tjón matsþola er sem áður greinir háð líkum þess að virkjað hefði verið. Það er álit matsnefndar að leggja skuli svofellt líkan til grundvallar mati á tjóni matsþola, þar sem NPV er núvirt tekjustreymi Landeigendafélags Reykjahlíðar ehf. af rammasamningnum frá 2005 miðað við fyrrgreindar forsendur, r er ávöxtunarkrafa, t er árið og f(t) er líkindadreifing upphafs framkvæmda:
Samkvæmt þessu er tjón Landeigendafélags Reykjahlíðar ehf. þegar eignarskerðing átti sér stað, á friðlýsingardeginum 1. apríl 2020, að fjárhæð 83.779.807 krónur, eða 118.251.946 krónur á verðlagi matsdags og hefur þá verið miðað við 4,5% ársafvöxtun og tekið tillit til breytingar á vísitölu neysluverðs til verðtryggingar frá apríl 2020 til maí 2023. Samkvæmt matsgerð dómkvaddra manna 19. maí 2022, sem lögð hefur verið fram í málinu af hálfu matsþola, nemur hlutfallslegur réttur landeigenda jarðarinnar Reykjahlíðar til bóta 52,98%. Samkvæmt því nemur hlutdeild þeirra í tjóninu 62.649.881 krónum (0,5298x118.251.946). Matsþolar eru sem áður greinir eigendur 76,5625% hluta jarðarinnar Reykjahlíðar og nemur hlutdeild þeirra þess vegna samtals 47.966.315 krónum (0,765625x62.649.881).
13
Í málatilbúnaði matsþola hefur verið við það miðað að við eignarskerðinguna hafi þeir ekki aðeins farið á mis við tekjur vegna virkjunaráforma heldur og tekjur af upprunaábyrgðum sem útgefin eru á grundvelli laga nr. 30/2008 um upprunaábyrgð á raforku sem framleidd er með endurnýjanlegum orkugjöfum o.fl. Þá er við það miðað í verðmati Þróunarfélags Íslands ehf. 15. apríl 2021 að matsþolar hefðu notið góðs af tekjum fyrir upprunaábyrgðir til 50 ára ef landeigendur jarðarinnar Reykjahlíðar hefðu sjálfir eða með öðrum virkjað háhitasvæði Gjástykkis til raforkuframleiðslu og selt raforkuna og önnur nýtanleg verðmæti á markaðsverði, sbr. þátt B í verðmatinu. Með tölvubréfi matsnefndar 9. maí 2023 var þess farið á leit við aðila að upplýst yrði um hvort dæmi væru um að Landsvirkjun hefði greitt landeigendum fyrir upprunavottorð. Af hálfu matsþola er meðal annars fram komið að Landsvirkjun hafi í undantekningartilvikum verið kaupandi upprunavottorða enda sé hlutverk stofnunarinnar aðallega sala slíkra ábyrgða, en bent á viðskipti landeigenda svonefndra „bændavirkjana“ í tengslum við upprunaábyrgðir fyrir milligöngu Landsnets. Af hálfu ráðherra er meðal annars fram komið að hvorki Landsvirkjun né íslenska ríkið sem landeigandi þekki dæmi þess að landeigendum hafi verið greitt eða þeir fengið hlutdeild í upprunavottorðum. Þessu mótmæla matsþolar og halda því fram að samkvæmt upplýsingum á vefsíðu Landsvirkjunar hafi stofnunin fyrir fáeinum árum síðan keypt virkjunarrétt af eigendum Þeistareykjasvæðisins og þeim virkjunarrétti hafi fylgt réttur til útgáfu upprunaábyrgða lögum samkvæmt. Séu upprunaábyrgðir vegna virkjana á Þeistareykjasvæðis þannig hluti af 15 milljarða króna árlegum rétti Landsvirkjunar til útgáfu á upprunaábyrgðum, samkvæmt fréttum á vefsíðu stofnunarinnar. Matsþolar telja að með þessum hætti hafi Landsvirkjun greitt landeigendum Þeistareykja fyrir rétt til útgáfu og sölu upprunaábyrgða.
Eins og áður er fram komið er það niðurstaða matsnefndar að tjón matsþola einskorðist við þær tekjur sem þeir hafi farið á mis við sökum þess að eignarskerðingin, friðlýsing ráðherra, hafi komið í veg fyrir efndir á grundvelli rammasamningsins frá 2005. Eins og fyrr greinir kemur meðal annars fram í grein 2.5 í samningnum að hvorum aðila um sig sé heimilt að 15 árum liðnum frá undirritun samningsins og síðan á 10 ára fresti að óska eftir endurskoðun á afgjaldinu, sbr. grein 2.3, og þurfi sá sem óskar endurskoðunar að sýna fram á að sérstakar ástæður mæli með endurskoðun og líkur bendi til þess að forsendur hafi breyst í verulegum atriðum honum í óhag, svo sem vegna nýrrar virkjunartækni, djúpborunar, breytinga á álverði á álmörkuðum og náttúruhamfara. Þá skuli aðilar leitast við að ná samningi um breytingu á afgjaldinu þannig að verði sanngjarnt gagnvart báðum aðilum. Það er álit matsnefndar að þótt lög nr. 30/2008 hafi ekki verið sett fyrr en eftir gerð rammasamningsins 2005 og að upprunaábyrgðir hafi síðan orðið markaðsvara, verði því ekki jafnað til sérstakra ástæðna sem mælt hefðu með endurskoðun rammasamningsins og líkna sem bent hefðu til þess að forsendur hefðu breyst verulega öðrum samningsaðilanum í óhag í merkingu greinar 2.5 í rammasamningnum, sem aftur hefði getað leitt til breytingar á afgjaldinu til hækkunar matsþolum í vil. Er þessari kröfu matsþola því hafnað.
14
Í málinu hefur ráðherra krafist þess að bætur til handa matsþolum skuli lækkaðar. Í því samhengi hefur ráðherra borið því við að á matsþolum hvíli skylda til að takmarka tjón sitt og bent á ýmsa ætlaða nýtingarmöguleika fyrir landi Reykjahlíðar innan og utan friðlýsta svæðisins. Ráðherra hefur einnig borið haldið því fram að matsþolar geti hvað sem friðlýsingunni líði reist smærri virkjanir fyrir landi sínu eða hitaveitu. Af hálfu ráðherra hefur hvorki ekki verið sýnt fram á fjárhagslega hagkvæmni slíkra virkjunarkosta né fjárhagslegan ábata af öðrum ætluðum nýtingarmöguleikum. Er þessari kröfu ráðherra hafnað sem haldlausri.
15
Í síðari málslið 11. gr. laga nr. 11/1973 segir að eignarnemi skuli greiða eignarnámsþola endurgjald vegna þess kostnaðar, sem eignarnámsþoli hefur haft af rekstri matsmáls og hæfilegur verður talinn.
Í málinu hefur af hálfu matsþola verið lagt fram málskostnaðaryfirlit vegna lögfræðiráðgjafar í þágu matsþola í þessu máli. Samkvæmt yfirlitinu nemur heildarfjárhæð kostnaðar samkvæmt 19 reikningum fyrir vinnu á tímabilinu 31. ágúst 2021 til 19. janúar 2023 16.507.639 krónum, að meðtöldum virðisaukaskatti. Auk þess eru tilgreindir kostnaðarliðir vegna reiknings að fjárhæð 705.600 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti vegna matsgerðar dómkvaddra manna sem lögð var fram í málinu, reiknings að fjárhæð samtals 5.000 krónur vegna kostnaðar lögmannsstofu lögmanns matsþola sem féll til 30. desember 2021 við að skanna samþykktir fyrir Landeigendafélag Geiteyjarstrandar 1 ehf. og reiknings frá 27. janúar 2022 að fjárhæð 19.000 krónur vegna staðgreiðslugjalda til Héraðsdóms Norðurlands eystra, samtals að fjárhæð 729.600 krónur. Framlagðir málskostnaðarreikningar frá 31. ágúst 2021 að fjárhæð 530.926 krónur, 30. september 2021 að fjárhæð 739.987 krónur, 31. október 2021 að fjárhæð 301.864 krónur og 30. nóvember 2021 að fjárhæð 459.622 krónur varða allir meðferð endurupptökubeiðni matsþola sem hafnað var með úrskurði matsnefndar 21. desember 2021. Það sama gildir um hluta reiknings frá 31. desember 2021, nánar tiltekið kostnað að fjárhæð 700.000 krónur. Í öllum tilvikum er um að ræða reikningsfjárhæðir að teknu tilliti til afsláttar sem matsþolar nutu og að meðtöldum virðisaukaskatti. Eins og greinir í úrskurði matsnefndar 21. desember 2021 voru ekki skilyrði til þess að ráðherra bæri kostnað af endurgjaldi til handa matsþolum vegna reksturs málsins, sbr. 11. gr. laga nr. 11/1973. Af þeim sökum kemur heldur ekki til greina að fella þennan sama kostnað á ráðherra nú. Verður hann því undanskilinn. Samkvæmt þessu nemur reikningsfjárhæð samkvæmt 15 reikningum á tímabilinu 31. desember 2021 til 19. janúar 2023 13.775.240 krónum (16.507.639 - 2.732.399) að meðtöldum virðisaukaskatti.
Kostnaður matsþola sem nemur síðastgreindri fjárhæð verður ekki í heild sinni talinn hæfilegur kostnaður við rekstur matsmáls samkvæmt síðari málslið 11. gr. laga nr. 11/1973. Samkvæmt lögum nr. 11/1973 er það matsnefndar að tryggja að réttur manna samkvæmt 1. mgr. 72. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 verði raunhæfur og virkur. Matsmál nr. 1/2021, sem nú er endurupptekið og úrskurðað í, barst matsnefnd vanbúið í upphafi, sbr. þá niðurstöðu í úrskurði matsnefndar 27. ágúst 2021 í máli 1/2021 að hafna bótakröfu matsþola vegna þess að slík óvissa væri um hlutdeild matsþola í réttindunum sem sættu friðlýsingu og þar með hlutdeild í bótum vegna tjóns af völdum eignarskerðingarinnar sem falist hefði í friðlýsingunni að ófært væri að ákveða bætur fyrir ætlað tjón af þessum völdum. Einnig verður að taka tillit til þess að lögmaður matsþola hefur nú í þrígang rekið mál nr. 1/2021 vegna sömu eignarskerðingarinnar og matsnefnd leyst úr með úrskurði 27. ágúst 2021, þar sem ráðherra var gert að greiða matsþolum samtals 9.200.315 krónur í málskostað, úrskurði 21. desember sama ár og nú úrskurði þessum. Mál þetta er þó mikið að vöxtum og af hálfu matsþola hefur verið lagt fram ítarlegt og rökstutt málskostnaðaryfirlit. Að þessum atriðum er sérstaklega gætt þegar nefndin metur að álitum þann málskostnað sem ráðherra verður gert að greiða matsþolum og er þá sérstaklega litið til framangreindrar kröfu 11. gr. laga nr. 11/1973 um hæfilegar bætur og 1. mgr. 72. gr. stjórnarskrár. Að öllu þessu gættu verður ráðherra gert að greiða matsþolum óskipt 12.509.600 krónur, þar með talinn virðisaukaskatt, í kostnað vegna reksturs máls þessa fyrir nefndinni eins og greinir í úrskurðarorði.
Þá skal ráðherra greiða 3.500.000 krónur í ríkissjóð vegna starfa matsnefndar eignarnámsbóta í máli þessu.
ÚRSKURÐARORÐ:
Umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra skal greiða matsþolum, Guðrúnu Maríu Valgeirsdóttur, R3 ehf., Bryndísi Jónsdóttur, Sigurði Jónasar Þorbergssyni, Sigurði Baldurssyni, Garðari Finnssyni, Hilmari Finnssyni og Gísla Sverrissyni, óskipt 47.966.315 krónur í bætur í máli þessu og matsþolum óskipt 12.509.600 krónur í málskostnað.
Þá skal ráðherra greiða 3.500.000 krónur í ríkissjóð vegna kostnaðar við matsnefnd eignarnámsbóta í máli þessu.
Valgerður Sólnes
Daði Már Kristófersson Karl Axelsson