Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 14/2023 - Úrskurður

Úrskurður kærunefndar jafnréttismála

 

 

A

gegn

Norðurþingi

 

Ráðning í starf. Mismunun á grundvelli kyns. Ekki fallist á brot.

A kærði ákvörðun N um að ráða karl í starf sviðsstjóra skipulags- og umhverfissviðs sveitarfélagsins. Að mati kærunefndar hafði ekki verið sýnt fram á að kæranda hefði verið mismunað á grundvelli kyns við ráðningu í starfið. Var því ekki fallist á að N hefði gerst brotlegt við lög nr. 150/2020, um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna.

Á fundi kærunefndar jafnréttismála hinn 14. ágúst 2024 er tekið fyrir mál nr. 14/2023 og kveðinn upp svohljóðandi úrskurður:

  1. Með kæru, dags. 5. september 2023, kærði A ákvörðun Norðurþings um að ráða karl í starf sviðsstjóra skipulags- og umhverfissviðs. Kærandi telur að með ráðningunni hafi kærði brotið gegn lögum nr. 150/2020, um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna.
  2. Kæran ásamt fylgigögnum var kynnt kærða með bréfi, dags. 26. október 2023. Greinargerð kærða barst með bréfi, dags. 17. nóvember s.á., ásamt fylgigögnum auk þess sem frekari gögn bárust 27. s.m. Greinargerðin og gögnin voru kynnt kæranda 2. janúar 2024. Athugasemdir kæranda eru dags. 24. janúar 2024 og athugasemdir kærða 8. febrúar s.á.

     

    MÁLAVEXTIR

     

  3. Kærði auglýsti starf sviðsstjóra skipulags- og umhverfissviðs 2. mars 2023 og var umsóknarfrestur til og með 16. s.m. Í auglýsingunni kom fram að helstu verkefni sviðsstjóra fælust í umsjón með starfs- og fjárhagsáætlunum á sviðinu, yfirumsjón og eftirliti með faglegu starfi, samræmingu og samþættingu á milli eininga, umsjón með starfsemi nefnda og ráða, ráðgjöf og stuðningi við aðra stjórnendur á sviðinu í störfum þeirra og stjórnun, samskiptum við fagnefndir og hagsmunaaðila, þátttöku í stefnumótun og nýsköpunarverkefnum þvert á fagsvið sveitarfélagsins og því að stuðla að úrbótaverkefnum þvert á sviðið. Gerðar voru kröfur um víðtæka og farsæla reynslu af verkefnum sem féllu að starfinu, góða þekkingu á lögum og reglugerðum sem vörðuðu verkefni sviðsins, þekkingu á opinberri stjórnsýslu, þekkingu og reynslu af stjórnun, rekstri og áætlanagerð, leiðtogahæfni og ríka færni í mannlegum samskiptum, góða skipulagsfærni, sjálfstæði í vinnubrögðum og frumkvæði, góða almenna tölvukunnáttu og þekkingu á upplýsingatækni, góða íslensku- og enskukunnáttu og hæfni til að tjá sig í ræðu og riti.
  4. Alls bárust átta umsóknir um starfið. Var fjórum umsækjendum boðið í viðtal, þremur körlum og kæranda. Að viðtölum loknum var ákveðið að bjóða einum karlinum í annað viðtal. Í framhaldinu var tekin ákvörðun um að ráða hann til starfa.
  5. Kærandi óskaði eftir rökstuðningi sem var veittur með bréfi, dags. 5. apríl 2023.

     

    SJÓNARMIÐ KÆRANDA

     

  6. Kærandi telur að kærði hafi brotið gegn lögum nr. 150/2020, um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna, við ráðningu í starf sviðsstjóra skipulags- og umhverfissviðs.
  7. Kærandi bendir á að hún hafi yfirgripsmikla þekkingu á öllum þeim málefnum og verkefnum sem falla undir skipulags- og umhverfissvið kærða ólíkt karlinum sem var ráðinn. Telur kærandi að rökstuðningur kærða fyrir ráðningunni staðfesti það. Þá bendir kærandi á að í rökstuðningnum komi fram að sá sem fékk starfið hafi menntun í sjávarútvegsfræðum en sjálf hafi hún menntun í umhverfisskipulagi, landslags­arkitektúr og skipulagsfræði. Allt séu þetta fræðigreinar sem séu sérsniðnar að skipulags- og umhverfismálum. Þá veki athygli að kærði hafi ekki krafist menntunar við ráðningu í æðstu stjórnendastöðu sveitarfélagsins sem heyri beint undir sveitar­stjóra. Bendir kærandi á að með því að taka alfarið út kröfu um háskólamenntun og meta hana ekki sem hluta af hæfni umsækjenda hafi möguleikar hennar og annarra kvenna til þess að hljóta starfið verið skertir.
  8. Kærandi bendir á að karlinn sem var ráðinn hafi starfsreynslu sem sveitarstjóri en enga beina reynslu af skipulags- og byggingarmálum, úrgangsmálum sveitarfélaga, loftslagsmálum, alþjóðlegri samvinnu sveitarfélaga eða húsnæðisuppbyggingu. Hún hafi hins vegar slíka reynslu eins og komi fram í ferilskrá hennar. Kærandi telur að með ferilskrá sinni og í viðtali hafi hún sýnt fram á leiðtogahæfni, færni í mannlegum samskiptum, skipulag, frumkvæði og sjálfstæði. Þeir meðmælendur sem tilteknir voru í ferilskrá hennar hafi hins vegar ekki fengið möguleika á að staðfesta það þar sem ekki var haft samband við þá í ráðningarferlinu. Það að meta leiðtogahæfni hennar síðri en þess sem var ráðinn sé hvorki í samræmi við ferilskrá hennar né þau svör sem hún hafi gefið í viðtali. Að stýra allri húsnæðisuppbyggingu og öllum samgönguframkvæmdum innan Reykjavíkur hljóti að teljast víðtæk reynsla af stjórnun.
  9. Kærandi telur að kærði hafi litið fram hjá menntun hennar, sérfræðiþekkingu og yfirgripsmikilli reynslu af skipulags- og umhverfismálum. Hafi reynsla hennar og menntun því ekki verið metin með réttmætum hætti eins og matsblaðið beri með sér. Kærandi gerir athugasemdir við að upplýsingar um reynslu í einstökum málaflokkum sem sviðsstjóri þyrfti að búa yfir hafi aldrei komið fram í ráðningarferlinu. Þær komi aftur á móti fram í minnisblaði til kærunefndar. Hafi kærandi því gengið út frá að sviðsstjóri þyrfti að hafa menntun og reynslu til að stýra öllum málaflokkum innan sviðsins enda ekki haft forsendur til að ætla annað. Kærði hljóti að bera hallann af því að hafa ekki tekið fram að verið væri að leita eftir þekkingu sem hvorki væri tiltekin í auglýsingu né heldur í viðtölum við umsækjendur.
  10. Kærandi bendir á að í minnisblaðinu komi fram að hluti af ákvörðun um að ráða karlinn hafi verið sá að hann hafi getað hafið störf strax í fullu starfi en hún hafi óskað eftir að byrja í hálfu starfi þar sem hún væri að koma úr veikindaleyfi. Hún hafi aftur á móti aldrei verið spurð hvort hún gæti unnið fullt starf ásamt því sem hún hafi ekki verið látin vita að það skipti máli hvort hún gæti byrjað strax. Þannig hafi henni ekki verið gefinn kostur á að upplýsa hvort hún væri tilbúin til að mæta þörfum kærða.
  11. Kærandi tekur fram að reynsla hennar í þeim málaflokkum sem heyra undir nýstofnað skipulags- og umhverfissvið kærða verði að teljast einstaklega umfangsmikil. Bendir kærandi á að sem formaður skipulags- og samgönguráðs hafi hún stýrt öllum mála­flokkum umhverfis- og skipulagssviðs Reykjavíkurborgar. Á sviðinu starfi um 450 manns í sjö deildum. Umfang þeirrar starfsemi sé mikið og bendir kærandi á nokkrar lykiltölur úr rekstri sviðsins í því sambandi. Sem formaður skipulags- og samgönguráðs hafi hún stýrt allri stefnumótun sviðsins, haft umsjón með og stýrt ráðsfundum, afgreiðslu mála og eftirliti með rekstri sviðsins. Telur kærandi að reynsla hennar innan stjórnsýslu borgarinnar og sem formaður svæðisskipulagsnefndar höfuðborgar­svæðisins sýni ótvírætt fram á hæfni hennar. Miðað við hennar víðtæku og farsælu reynslu sem falli að starfinu hefði hún átt að fá fleiri stig í lið eitt í matsrammanum en sá sem var ráðinn.
  12. Kærandi tekur fram að hún hafi sýnt fram á yfirgripsmikla þekkingu og reynslu í opinberri stjórnsýslu. Hafi hún umfangsmikla reynslu af því að verja ákvarðanir umhverfis- og skipulagssviðs, til að mynda í fjölmiðlum, fyrir úrskurðarnefnd, á nefndarfundum Alþingis og fyrir dómstólum. Hafi hennar hlutverk verið að starfa ávallt innan ramma laganna og samkvæmt reglugerðum.
  13. Kærandi telur að þekking og reynsla af stjórnun, rekstri og áætlanagerð sé ekki metin í samræmi við þá þekkingu sem hún hafi sýnt fram á í ferilskrá sinni og í viðtali. Að bera ábyrgð á allri fjárhagsáætlun borgarinnar og ársreikningum, vinna með kynjaða fjárhagsáætlun og læra að starfa innan þess ramma sem umhverfis- og skipulagssviði er úthlutað ár hvert hljóti að teljast yfirgripsmikil þekking af rekstri og áætlanagerð. Telur kærandi því ótvírætt að hún hafi ekki verið metin á sanngjarnan hátt.
  14. Kærandi bendir á að ekki verði séð í stigagjöf fyrir einstaka liði á matsblaðinu að menntun hennar hafi verið metin sem reynsla eins og haldið sé fram af kærða. Þá bendir hún á að þrátt fyrir að hafa umfangsmikla reynslu og menntun af lögum og reglugerðum varðandi verkefni sviðsins sé stigagjöf á matsblaðinu ekki í samræmi við það. Hafi hún lokið einu ári í skipulagsfræði á meistarastigi við Landbúnaðarháskóla Íslands þar sem skipulagslögfræði og stjórnsýsluramminn sé skyldunámskeið.
  15. Kærandi telur að hún hafi sýnt fram á að hún hafi ekki verið metin á sanngjarnan hátt samkvæmt þeirri menntun og reynslu sem hún sannarlega búi yfir. Telur hún að gögn málsins sýni fram á að mat kærða á umsækjendum sé ekki forsvaranlegt og að það eina sem hafi ráðið niðurstöðu sveitarfélagsins við ráðningu sé kyn umsækjenda.

     

    SJÓNARMIÐ KÆRÐA

     

  16. Kærði heldur því fram að hann hafi ekki farið gegn lögum nr. 150/2020 við ráðninguna, sbr. 4. mgr. 19. gr. laganna, þar sem kyn umsækjenda hafi engin áhrif haft á hana. Hafi eingöngu faglegt mat, út frá hagsmunum og áherslum kærða, ráðið för. Ekkert í gögnum málsins eða ferli þess gefi ástæðu til að ætla annað. Telur kærði kæranda ekki hafa leitt líkur að því að henni hafi verið mismunað á grundvelli kyns enda hafi það ekki verið gert.
  17. Kærði telur sig hafa beinlínis sýnt fram á að faglegt mat hafi verið lagt á hæfni umsækjenda miðað við þær kröfur sem gerðar voru í auglýsingu. Vísar hann til þess að sérstaklega hafi verið ákveðið að gera ekki kröfu um ákveðna menntun og leggja meiri áherslu á færni í stjórnun. Þannig hafi byggðarráð ákveðið að taka út úr drögum að auglýsingu þætti sem sneru að háskólaprófi, menntun sem nýttist í starfi og að framhaldsmenntun væri kostur. Rökin fyrir þessari ákvörðun hafi verið útiloka ekki hæfa einstaklinga sem byggju yfir yfirgripsmikilli þekkingu og víðtækri og farsælli starfsreynslu sem félli að starfinu. Hafi menntun því ekki haft vægi í matsrammanum við mat á hæfi umsækjenda þótt ekki hafi verið gert lítið úr menntun kæranda.
  18. Kærði tekur fram að matsramminn sem gerður hafi verið í upphafi ráðningarferlisins hafi byggt á grunnþáttum auglýsingarinnar. Vægi einstakra þátta hafi verið ákvarðað eftir mat kærða á mikilvægi þeirrar þekkingar og hæfni sem sóst var eftir í starfinu. Víðtæk og farsæl reynsla af verkefnum sem féllu að því hafi verið þýðingarmest og hafi sá þáttur því fengið meira vægi en aðrir grunnþættir auglýsingarinnar, eða 4,5 stig, enda talinn fyrst í auglýsingunni og mest áhersla lögð á hann hjá byggðarráði. Það hafi því verið eðlilegt að farsæll fyrrverandi sveitarstjóri í byggðarkjarna á svæðinu hafi skorað mjög hátt í þessum þætti.
  19. Kærði tekur fram að við mat á þeim grunnþáttum sem hafi komið fram í auglýsingu um starfið hafi fjórir umsækjenda fengið flest stig, eða 2,64 eða hærra. Hafi verið ákveðið að bjóða þessum umsækjendum í viðtöl. Eftir viðtölin hafi nýtt mat á umsækjendum legið fyrir. Þar hafi sá sem var ráðinn fengið flest stig, eða 3,69 af 4 mögulegum. Kærandi hafi komið næst honum með 3,43 stig. Hafi mest borið á milli umsækjenda í þekkingu og reynslu af stjórnun, rekstri og áætlanagerð. Þar hafi karlinn sem var ráðinn fengið 4 stig af 4 mögulegum en hann hafi yfirgripsmikla þekkingu og reynslu. Kærandi hafi fengið 2,5 stig þar sem hún hafi verið talin vera með einhæfa eða takmarkaða þekkingu og stutta reynslu. Hafi mikill munur verið á starfsreynslu þeirra. Sá sem fékk starfið hafi tiltekið fjölþætta og víðtæka reynslu, bæði fyrir opinbera aðila og einkaaðila. Þá hafi hann farið með mannaforráð. Starfsreynsla kæranda hafi á hinn bóginn einkum verið fyrir borgarstjórn, skipulags- og samgönguráð Reykjavíkurborgar og svæðisskipulagsnefnd höfuðborgarsvæðisins. Þá hafi hún starfað sem landslags­arkitekt og við kennslu.
  20. Kærði tekur fram að í viðtölum hafi komið fram að sá sem fékk starfið hafi getað hafið störf mjög fljótlega en kærandi aftur á móti eftir páska, auk þess sem hún vildi skoða lægra starfshlutfall í byrjun en hún hafi verið með hálft starf í huga þar sem hún hafi verið að koma úr veikindaleyfi. Hafi hún viljað byrja í lægra starfshlutfalli og bæta svo smátt og smátt við það, en skýringin hafi verið sú að hún hafi viljað endast í starfi og halda heilsu í því.
  21. Kærði tekur fram að starfsmaður ráðningarstofu, sveitarstjóri kærða og fjármálastjóri kærða sem hafi setið viðtölin hafi öll verið einhuga um að mæla með ráðningu karlsins í starfið. Hafi byggðarráð því falið sveitarstjóra að ganga til samninga við hann. Kærði tekur fram að vandað hafi verið til verka, aðkoma lýðræðislega kjörinna fulltrúa hafi verið ráðandi um lykilatriði, hlutlaus sérfræðingur hafi haldið utan um ráðningarferlið og fulltrúar kærða í ráðningarferlinu hafi eingöngu horft til þess að ráða þann sem hæfastur þótti í starfið.
  22. Kærði telur að hann hafi sýnt fram á að faglegt mat hafi verið lagt á hæfni umsækjenda út frá þeim kröfum sem gerðar voru í auglýsingu um starfið. Bendir kærði á að um hafi verið ræða ráðningu yfirmanns á nýju sviði hjá kærða þar sem sveitarstjórn hafði áður ákveðið að sameina framkvæmda- og skipulagssvið í eitt svið, þ.e. skipulags- og umhverfissvið. Þekking og menntunarstig innan sviðsins hafi legið fyrir og í auglýsingu hafi verið lögð áhersla á að stjórnandi sviðsins byggi yfir eiginleikum sem kæmu þar til viðbótar. Hafi stjórnunarhæfileikar því haft mikið vægi. Tekur kærði fram að sá hluti á skrifstofu kærða sem snýr að skipulagsmálum hafi verið fullmannaður. Ef vöntun hefði verið á starfsmanni til að sinna skipulags- og byggingarmálum hefði verið gerð krafa um slíka menntun í auglýsingunni þar sem hún er grunnþáttur í hæfni slíkrar stöðu.
  23. Kærði bendir á að kærunefndinni beri að leggja mat á málið út frá þeim sjónarmiðum sem hann hafi lagt áherslu á í auglýsingu um starfið. Af þeim sökum sé ekki unnt að taka undir sjónarmið kæranda um vægi menntunar hennar. Ekki sé verið að gera lítið úr þeirri menntun á nokkurn hátt en kærði hafi metið það svo, áður en starfið var auglýst, að nýr stjórnandi þyrfti frekar að búa yfir öðrum eiginleikum en tiltekinni menntun þó að í henni felist ákveðin reynsla. Verði að hafa í huga að svigrúm kærða til að ákveða áherslur sínar um kröfur til reynslu og hæfni umsækjenda hafi ekki verið takmarkað af ákvæðum laga eins og þegar um er að ræða ráðningu byggingar- eða skipulagsfulltrúa. Að sama skapi verði að veita kærða svigrúm til að ákveða vægi hvers matsþáttar fyrir sig við ákvörðun um ráðningu. Í þessu tilviki verði þó ekki litið fram hjá því að vægi einstakra liða hafði ekki áhrif á niðurstöðu í matsrammanum, þar sem sá sem fékk starfið hafi í nokkrum tilvikum verið metinn hæfari eða með meiri reynslu en kærandi en í engu tilviki hafi því verið öfugt farið. Því hafi innbyrðis vægi ekki haft áhrif. Byggir kærði á því að áhersla á þá þætti sem réðu för við ákvörðunina um að ráða karlinn hafi verið málefnaleg og innan þess svigrúms sem kærði hafði.
  24. Kærði tekur fram að telji kærunefndin að kæranda hafi tekist að leiða að því líkur að við ráðninguna hafi mismunun átt sér stað vegna þeirra atriða sem talin eru upp í 4. mgr. 19. gr. laga nr. 150/2020 sé til vara byggt á því að kærða hafi tekist að sýna fram á að aðrar ástæður en þær sem í lagagreininni eru taldar upp hafi legið til grundvallar ákvörðun um ráðninguna. Byggir kærði á því að mat á sjónarmiðum sem lögð voru til grundvallar við val á þeim umsækjanda sem fékk starfið hafi verið málefnalegt, forsvaranlegt og innan þess svigrúms sem kærði hafði að lögum. Ekkert í gögnum málsins bendi til að málsmeðferðin hafi verið ómálefnaleg eða farið gegn lögum.

     

    NIÐURSTAÐA

     

  25. Mál þetta beinist að því hvort kærði hafi brotið gegn 19. gr. laga nr. 150/2020, um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna, með ráðningu karls í starf sviðsstjóra skipulags- og umhverfissviðs hjá kærða.
  26. Í 1. mgr. 1. gr. laga nr. 150/2020 kemur fram að markmið laganna sé að koma í veg fyrir mismunun á grundvelli kyns og koma á og viðhalda jafnrétti og jöfnum tækifærum kynjanna á öllum sviðum samfélagsins. Samkvæmt 1. gr. laga nr. 151/2020, um stjórnsýslu jafnréttismála, gilda lögin um stjórnsýslu á sviði jafnréttismála á því sviði sem löggjöf um jafnréttismál tekur til, m.a. laga um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna, og um störf kærunefndar jafnréttismála. Samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laganna tekur kærunefnd jafnréttismála til meðferðar kærur sem til hennar er beint samkvæmt framansögðu og kveður upp skriflegan úrskurð um hvort ákvæði laganna hafi verið brotin.
  27. Samkvæmt 1. mgr. 19. gr. laga nr. 150/2020 er atvinnurekendum óheimilt að mismuna umsækjendum um starf á grundvelli kyns. Samkvæmt sönnunarreglu í 4. mgr. 19. gr. laganna kemur það í hlut umsækjanda sem telur á sér brotið að leiða líkur að því að honum hafi verið mismunað á grundvelli kyns. Takist sú sönnun ber atvinnu­rekandanum að sýna fram á að aðrar ástæður en kyn hafi legið til grundvallar ákvörðun hans. Af framangreindu er ljóst að það kemur í hlut kæranda að færa fram staðreyndir eða önnur gögn og upplýsingar sem leiða líkur að því að kyn hafi haft áhrif á ráðningu í starfið sem um ræðir í málinu hjá kærða.
  28. Við mat á því hvort ákvæði 19. gr. laga nr. 150/2020 hafi verið brotin skal taka mið af menntun, starfsreynslu, sérþekkingu eða öðrum sérstökum hæfileikum sem krafa er gerð um í viðkomandi starfi samkvæmt lögum eða reglugerðum eða telja verður annars að komi að gagni í starfinu. Árétta ber að framangreint verður ekki talið fela í sér sjálfstæða heimild fyrir nefndina til að byggja á öðrum sjónarmiðum en kærði hefur sjálfur lagt til grundvallar og ekki heldur heimild til að endurmeta innbyrðis vægi þessara sjónarmiða með sjálfstæðum hætti, svo lengi sem þau voru málefnaleg og innan þess svigrúms sem kærði hefur, sbr. athugasemdir við 19. gr. frumvarps þess sem varð að lögum nr. 150/2020. Þá fellur það ekki undir valdsvið kærunefndarinnar að endurskoða mat kærða á því hvaða umsækjandi fellur best að þeim sjónarmiðum sem lögð var áhersla á við ráðninguna nema draga megi þá ályktun af gögnum málsins að matið hafi ekki verið forsvaranlegt.
  29. Í auglýsingu um starf sviðsstjóra skipulags- og umhverfissviðs hjá kærða kom fram að helstu verkefnin fælust í umsjón með starfs- og fjárhagsáætlunum, yfirumsjón og eftirliti með faglegu starfi, samræmingu og samþættingu á milli eininga, umsjón með starfsemi nefnda og ráða, ráðgjöf og stuðningi við aðra stjórnendur á sviðinu í störfum þeirra og stjórnun, samskiptum við fagnefndir og hagsmunaaðila, þátttöku í stefnumótun og nýsköpunarverkefnum þvert á fagsvið kærða og stuðla að úrbótaverkefnum þvert á sviðið. Þær kröfur sem voru gerðar til starfsins voru víðtæk og farsæl reynsla af verkefnum sem féllu að starfinu, góð þekking á lögum og reglugerðum sem vörðuðu verkefni sviðsins, þekking á opinberri stjórnsýslu, þekking og reynsla af stjórnun, rekstri og áætlanagerð, leiðtogahæfni og rík færni í mannlegum samskiptum, góð skipulagsfærni, sjálfstæð vinnubrögð og frumkvæði, góð almenn tölvukunnátta og þekking á upplýsingatækni, góð íslensku- og enskukunnátta og hæfni til að tjá sig í ræðu og riti.
  30. Kærði hefur lýst því að orðalag auglýsingarinnar um starf sviðsstjóra hafi verið ákveðið af byggðarráði. Þannig hafi byggðarráð tekið ákvörðun um að gera ekki sérstakar menntunarkröfur í auglýsingu með þeim rökum að slíkar kröfur gætu útilokað þá umsækjendur sem hefðu yfir að búa yfirgripsmikilli þekkingu og víðtækri og farsælli starfsreynslu sem félli að starfinu. Tveir starfsmenn kærða, sveitarstjórinn og fjármálastjórinn, en annar þeirra er starfsmaður byggðarráðs, og starfsmaður ráðningarþjónustu hafi fengið það hlutverk að leggja mat á umsækjendur og gera tillögu til byggðarráðs.
  31. Meðal gagna málsins eru tveir matsrammar. Fyrir liggur að annar matsramminn var notaður við val á umsækjendum í viðtöl eða í grunnmati, þar sem allir umsækjendur voru metnir út frá innsendum gögnum, en hinn var notaður að loknum viðtölum. Hefur kærði lýst því að matsrammarnir hafi verið fyrirfram skilgreindir þar sem byggt hafi verið á þeim þáttum sem komu fram í auglýsingu en vægi einstakra þátta hafi verið ákvarðað út frá mikilvægi þeirra. Þannig hafi í stað menntunar verið lögð áhersla á víðtæka og farsæla reynslu af verkefnum sem féllu að starfinu en sá þáttur hafi haft mest vægi í matinu.
  32. Í málinu liggur fyrir að fjórum af átta umsækjendum sem komu best út í grunnmati hafi verið boðið í viðtal. Var kærandi þar á meðal ásamt þremur körlum. Af gögnum málsins má ráða að í viðtalinu hafi verið notast við staðlaðan viðtalsramma sem byggður var á þeim þáttum sem komu fram í auglýsingu sem voru þeir sömu og í matsrammanum. Sömu spurningar hafi verið lagðar fyrir alla umsækjendurna en minnispunktar úr viðtölum liggja fyrir í málinu. Samkvæmt matsrammanum voru umsækjendum gefin stig á bilinu 0–4 fyrir hvern þátt sem spurt var um en samtals var um að ræða tíu matsþætti sem höfðu allir sama vægið fyrir utan einn sem beindist að víðtækri og farsælli reynslu af verkefnum sem féllu að starfinu, en hann hafði mest vægi eins og áður segir.
  33. Að loknum viðtölum við þessa fjóra umsækjendur stóð einn umsækjandi framar hinum þremur að mati matsaðila. Fékk hann flest stig á matsblaðinu, eða 3,69 stig, en kærandi kom honum næst með 3,43 stig. Í kjölfarið var sá umsækjandi sem fékk flest stig boðaður í annað viðtal. Í framhaldinu var það niðurstaðan á grundvelli heildstæðs mats á þeim þáttum sem voru lagðir til grundvallar við matið að leggja til að sá umsækjandi yrði ráðinn í starfið. Komst byggðarráð í kjölfarið að sömu niðurstöðu að loknu heildstæðu mati á sömu sjónarmiðum. Kærunefndin bendir á að þar sem ekki sé mælt fyrir um hæfniskröfur í lögum sé það kærða að ákveða þær í ljósi þeirra þarfa sem hann telur nauðsynlegt að uppfylla til starfrækslu þeirra verkefna sem um ræðir með hagsmuni sveitarfélagsins að leiðarljósi. Að mati kærunefndar verður ekki betur séð en að þessar hæfniskröfur hafi verið málefnalegar.
  34. Kærði hefur vísað til þess að það sem hafi ráðið úrslitum við mat á hæfni þessara umsækjenda hafi verið heildstætt mat á öllum matsþáttum. Byggði kærði mat sitt einkum á upplýsingum sem komu fram í innsendum gögnum og frammistöðu í viðtölum. Af matsblöðum sem liggja fyrir í málinu má ráða að sá sem var ráðinn í starfið hafi fengið fleiri stig en kærandi í þremur matsþáttum sem lágu til grundvallar mati á umsækjendum, þ.e. fyrir reynslu af þeim verkefnum sem falla að starfinu, þekkingu og reynslu af stjórnun, rekstri og áætlanagerð sem og leiðtogahæfni. Að öðru leyti hafi þau verið jöfn að stigum í öðrum matsþáttum. Af þessu og þeim gögnum sem liggja fyrir í málinu verður ekki annað ráðið en að lagt hafi verið mat á efnislegt inntak þessara þátta. Þá verður að mati kærunefndar ekki heldur annað séð af þeim gögnum sem liggja fyrir í málinu en að niðurstaða um hvað félli undir þessa matsþætti hafi verið byggð á málefnalegum sjónarmiðum og að mat á þeim hafi verið forsvaranlegt. Í því sambandi er þó rétt að benda á að jafnvel þótt einhver munur kunni að vera á stigagjöfinni er það einungis hluti af margþættu og heildstæðu mati ráðningaraðila á umsækjendum.
  35. Að framangreindu virtu verður að mati kærunefndar að telja að mat kærða á þeim sjónarmiðum sem hann lagði til grundvallar við val á hæfasta umsækjandanum hafi verið málefnalegt og forsvaranlegt og innan þess svigrúms sem hann hafði. Þá er ekkert í gögnum málsins sem bendir til þess að málsmeðferð kærða við ráðningu í starf sviðsstjóra hafi að öðru leyti verið ómálefnalegt eða farið gegn lögum nr. 150/2020. Telur kærunefnd því að mat kærða á umsækjendunum, eins og það birtist í gögnum málsins, leiði ekki líkur að því að við ráðninguna hafi kæranda verið mismunað á grundvelli kyns, sbr. 4. mgr. 19. gr. laga nr. 150/2020.
  36. Með vísan til framangreinds verður ekki talið að sýnt hafi verið fram á að kæranda hafi verið mismunað á grundvelli kyns við ráðningu í starf sviðsstjóra skipulags- og umhverfissviðs hjá kærða. Samkvæmt því verður ekki fallist á að kærði hafi gerst brotlegur við lög nr. 150/2020.

 

Ú r s k u r ð a r o r ð

Kærði, Norðurþing, braut ekki gegn lögum nr. 150/2020, um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna, við ráðningu sviðsstjóra skipulags- og umhverfissviðs.

 

Kristín Benediktsdóttir

 

Andri Árnason

 

Ari Karlsson


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta