Hoppa yfir valmynd

Nr. 473/2023 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Hinn 7. september 2023 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 473/2023

í stjórnsýslumálum nr. KNU23030052 og KNU23030051

 

Kæra

[…]og barna þeirra

á ákvörðunum

Útlendingastofnunar

 

I.       Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Hinn 14. mars 2023 kærðu […], fd. […], ríkisborgari Kólumbíu (hér eftir K) og […], fd. […], ríkisborgari Kólumbíu (hér eftir M), ákvarðanir Útlendingastofnunar, dags. 28. febrúar 2023, um að synja kærendum og börnum þeirra, […], fd. […] (hér eftir A), […], fd. […] (hér eftir B) og […], fd. […] (hér eftir C), ríkisborgurum Kólumbíu, um alþjóðlega vernd á Íslandi ásamt því að synja þeim um dvalarleyfi á grundvelli 74. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016.

Kærendur krefjast þess aðallega að ákvarðanir Útlendingastofnunar verði felldar úr gildi og að þeim og börnum þeirra verði veitt staða flóttamanna með vísan til 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Til vara er þess krafist að ákvarðanir Útlendingastofnunar verði felldar úr gildi og að þeim og börnum þeirra verði veitt viðbótarvernd með vísan til 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Til þrautavara er þess krafist að ákvarðanir Útlendingastofnunar verði felldar úr gildi og að þeim og börnum þeirra verði veitt dvalarleyfi á Íslandi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.

Fyrrgreindar ákvarðanir eru kærðar á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

II.      Málsatvik og málsmeðferð

Kærendur sóttu um alþjóðlega vernd hér á landi 11. ágúst 2022 fyrir sig og börn þeirra. Kærendur komu í viðtal hjá Útlendingastofnun m.a. 30. ágúst 2022 ásamt talsmanni sínum. Með ákvörðunum, dags. 28. febrúar 2023, synjaði Útlendingastofnun kærendum og börnum þeirra um alþjóðlega vernd ásamt því að synja þeim um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Voru ofangreindar ákvarðanir kærðar til kærunefndar útlendingamála 14. mars 2023. Kærunefnd barst greinargerð kærenda 28. mars 2023.

III.    Ákvarðanir Útlendingastofnunar

Í ákvörðunum Útlendingastofnunar kemur fram að kærendur byggi umsóknir sínar um alþjóðlega vernd á því að þau séu í hættu í heimaríki sínu vegna almennra aðstæðna og vegna ofbeldis sem þau kváðu dóttur sína hafa orðið fyrir af hendi fjölskyldumeðlims. Jafnframt beri þau því við að fjölskyldan hafi sætt áreiti glæpahóps að nafni Cardillero og þau óttist um öryggi sitt í Kólumbíu.

Niðurstaða Útlendingastofnunar var sú að kærendur væru ekki flóttamenn og var þeim synjað um alþjóðlega vernd á Íslandi samkvæmt ákvæðum 37. og 40. gr. laga um útlendinga. Kærendum var jafnframt synjað um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða samkvæmt 74. gr. laga um útlendinga. Þá taldi stofnunin að ákvæði 42. gr. laga um útlendinga stæði endursendingu til heimaríkis ekki í vegi.

Í ákvörðunum Útlendingastofnunar í málum barna kærenda, kom fram að þau hafi mætt til viðtals 19. október 2022 ásamt talsmanni sínum. Fram kom að A hafi greint frá því að hafa upplifað erfiða tíma í Kólumbíu en hafi ekki viljað tjá sig mikið um það. Kvaðst A hafa gengið í skóla og hafa upplifað sig öruggt í skólanum. Fram kom að B hafi átt erfitt með að tjá sig og svara spurningum í viðtali hjá Útlendingastofnun en hafi greint frá því að hafa liðið vel í Kólumbíu. Þá hafi C greint frá því að hafa ekki oft getað farið út að leika sér í heimaríki sínu vegna hótana sem fjölskyldan hafi fengið. Kvaðst C hafa fengið nóg af mat og átt föt til skiptana í heimaríki. Fram kom að umsóknir barna kærenda væru grundvallaðar á framburði foreldra þeirra og þeim hefði verið synjað um alþjóðlega vernd og dvalarleyfi á grundvelli 74. gr. laga um útlendinga. Í ákvörðunum foreldra hefði jafnframt verið tekin afstaða til aðstæðna barnanna og hvernig þær aðstæður horfi við einstökum þáttum ákvarðananna. Var það niðurstaða Útlendingastofnunar með vísan til niðurstöðu í máli foreldra þeirra, að gættum ákvæðum samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, laga um útlendinga og barnaverndarlaga, að börnum kærenda væri ekki stefnt í hættu með því að fylgja foreldrum sínum til heimaríkis.

Kærendum var brottvísað frá landinu og þeim ákvarðað endurkomubann til tveggja ára. Fram kom að yfirgæfu kærendur landið sjálfviljug innan frests sem þeim hefði verið veittur yrði endurkomubann þeirra fellt niður. Börnum kærenda var brottvísað frá landinu.

Útlendingastofnun tilkynnti kærendum og börnum þeirra jafnframt að kæra frestaði réttaráhrifum ákvarðananna, sbr. 1. mgr. 35. gr. laga um útlendinga.

IV.    Málsástæður og rök kærenda

Í greinargerð kærenda er vísað til frásagna þeirra í viðtölum hjá Útlendingastofnun. Þar hafi þau greint frá því að hafa lagt á flótta frá heimaríki sínu vegna ofbeldis og hótana sem meðlimir glæpasamtaka að nafni Cordillera Bacrim hafi beitt þau í kjölfar þess að þau hafi leitað til lögreglu vegna kynferðislegrar áreitni sem barn þeirra, A, hafi sætt af hálfu frænda síns. Lögreglan hafi hafið rannsókn á málinu. Kærendur óttist að verða beitt ofbeldi og séu hrædd um líf allra fjölskyldumeðlima.

Kærendur krefjast þess aðallega að þeim og börnum þeirra verði veitt alþjóðleg vernd sem flóttamenn hér á landi samkvæmt 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Kærendur telja að landaupplýsingarnar um Kólumbíu sem fram koma í ákvörðunum Útlendingastofnunar styðji að öllu leyti frásagnir þeirra um ástæður flótta þeirra. Samkvæmt frásögnum kærenda og fyrirliggjandi gögnum sé ótti þeirra við að verða ofsótt, beitt líkamlegu ofbeldi og jafnvel myrt raunverulegur og byggður á þeirra persónulegu reynslu. Gögn sem þau hafi lagt fram fái einnig stuðning í hlutlægum og áreiðanlegum upplýsingum um heimaríki þeirra. Kærendur sæti ofsóknum vegna kvartana sem þau hafi lagt fram hjá lögregluyfirvöldum í Kólumbíu en vegna spillingar hjá hinu opinbera rannsaki lögreglan ekki starfsemi glæpasamtaka og veiti fjölskyldunni ekki þá vernd sem hún eigi rétt á sem ríkisborgarar Kólumbíu. Þá séu sum glæpasamtök jafnvel undir verndarvæng lögreglu.

Kærendur telja að Útlendingastofnun hafi lagt of mikla sönnunarbyrði á sig og vísa í því samhengi til niðurstöðu Landsréttar í máli nr. 149/2020 þar sem fram komi m.a. að við mat á því hvort umsækjandi um alþjóðlega vernd hafi fært fram nægar sönnur beri jafnframt að hafa í huga að sönnunarkröfur mega ekki vera svo ríkar að viðkomandi njóti ekki raunhæfrar verndar gegn alvarlegum mannréttindabrotum. Í heimildum um Kólumbíu komi skýrt fram að fulltrúar stjórnvalda þiggi mútugreiðslur og vilji því ekki veita einstaklingum fullnægjandi vernd. Með vísan til framangreinds telja kærendur ljóst að þær ofsóknir og ofbeldi sem þau hafi sætt falli undir skilgreiningar a-, c- og d-liðar 2. mgr. 38. gr. laga um útlendinga, d- og e-liðar 3. mgr. 38. gr. laganna og a-, b- og c-lið 4. mgr. 38. gr. sömu laga.

Til vara krefjast kærendur þess að þeim og börnum þeirra verði veitt viðbótarvernd hér á landi með vísan til 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Kærendur telja að aðstæður þeirra í Kólumbíu séu slíkar að þær falli undir ákvæði 2. mgr. 37. gr. þar sem stjórnvöld geti ekki tryggt öryggi borgara sinna og tryggt þeim aðgang að mat, drykkjavatni og heilbrigðis- og félagsþjónustu.

Til þrautavara krefjast kærendur þess að þeim og börnum þeirra verði veitt dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Ákvæðið heimili veitingu slíks dvalarleyfis þegar útlendingur geti sýnt fram á ríka þörf á vernd, t.d. af heilbrigðisástæðum eða vegna erfiðra félagslegra aðstæðna viðkomandi eða erfiðra almennra aðstæðna í heimaríki. Kærendur vísa m.a. til athugasemda við ákvæðið í frumvarpi því er varð að lögum um útlendinga. Tvö börn kærenda glími við líkamlega og andlega heilsubresti og hafi gögn þess efnis verið lögð fram. Ekkert bendi til þess að Útlendingastofnun hafi haft hagsmuni þeirra að leiðarljósi við meðferð málsins. Vísa kærendur í því samhengi til ákvæðis 3. mgr. 25. gr. og a-liðar 1. mgr. 29. gr. laga um útlendinga. Ljóst sé að börn kærenda þurfi mikla umhyggju og eftirlit lækna sem þau fái ekki í heimaríki sínu. Kerfið þar sé svo flókið að erfitt þyki og jafnvel ómögulegt að fá aðstoð frá stjórnvöldum, þ.m.t. aðgang að félags- og heilbrigðiskerfi landsins og löggæslustofnunum. Fjölskyldan njóti ekki verndar gegn ofbeldi, hvorki líkamlegu né andlegu. Telja kærendur að með endursendingu þeirra og barna þeirra til heimaríkis yrði brotið gegn meginreglunni um bann við endursendingu, sbr. 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga.

V.      Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Lagagrundvöllur

Í máli þessu gilda einkum ákvæði laga um útlendinga nr. 80/2016, reglugerð nr. 540/2017 um útlendinga, ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993, stjórnarskrá lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 og mannréttindasáttmáli Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Jafnframt ber að líta til ákvæða alþjóðasamnings um stöðu flóttamanna frá 1951, ásamt viðauka við samninginn frá 1967, og annarra alþjóðlegra skuldbindinga Íslands á sviði mannréttinda eftir því sem tilefni er til. Þá hefur kærunefnd sérstaklega horft til ákvæða samnings sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks við meðferð mála kærenda og barna þeirra.

Auðkenni

Í ákvörðunum Útlendingastofnunar kemur fram að til að sanna á sér deili hafi kærendur framvísað kólumbískum vegabréfum fyrir sig og börn sín. Telur kærunefnd því ljóst að kærendur og börn þeirra séu kólumbískir ríkisborgarar.

Réttarstaða barna kærenda

Staða barna á flótta ræðst af viðeigandi reglum í þjóðarétti og landsrétti. Í 22. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, sbr. lög nr. 19/2013, segir í fyrsta lagi að aðildarríki skuli gera viðeigandi ráðstafanir til að tryggja að barn sem leiti eftir réttarstöðu sem flóttamaður, eða sem talið sé flóttamaður samkvæmt viðeigandi reglum eða starfsháttum þjóðaréttar eða landslaga, fái, hvort sem það sé í fylgd foreldra eða annarra eða ekki, viðeigandi vernd og mannúðlega aðstoð við að nýta sér þau réttindi sem við eigi og kveðið sé á um í samningnum.

Í 2. mgr. 10. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016 segir að ákvarðanir sem varði barn skuli teknar með hagsmuni þess að leiðarljósi, því tryggður réttur til að tjá skoðanir sínar í málum sem það varði og tekið tillit til skoðana barnsins í samræmi við aldur þess og þroska. Í 3. mgr. 25. gr. laga um útlendinga kemur fram að við ákvörðun sem sé háð mati stjórnvalds skuli huga að öryggi barns, velferð þess og félagslegum þroska og möguleika þess til að sameinast fjölskyldu sinni.

Sérstaklega er fjallað um mat stjórnvalda á umsóknum barna um alþjóðlega vernd í 5. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Þar segir að við mat á því hvort barn teljist flóttamaður samkvæmt lögunum skuli það sem barninu sé fyrir bestu haft að leiðarljósi. Við mat á því hvað barni sé fyrir bestu skuli stjórnvöld líta til möguleika barns á fjölskyldusameiningu, öryggis þess, velferðar og félagslegs þroska auk þess sem taka skuli tillit til skoðana barnsins í samræmi við aldur þess og þroska. Við ákvörðun í máli er varðar hagsmuni barns skuli stjórnvöld taka skriflega afstöðu til þessara atriða.

Almennt er viðurkennt að eðlilegur þroski barns sé best tryggður með því að vernda fjölskylduna. Sé ólögráða barn í fylgd annars eða beggja foreldra sinna eða annars úr fjölskyldunni sem hefur það á framfæri sínu og sá fer fram á réttarstöðu flóttamanns, ber að fara með málin í samræmi við meginregluna um einingu fjölskyldunnar. Ljóst er að börn þau sem hér um ræðir eru í fylgd með foreldrum sínum og haldast úrskurðir fjölskyldunnar því í hendur.

Landaupplýsingar

Kærunefnd útlendingamála hefur lagt mat á aðstæður í Kólumbíu, m.a. með hliðsjón af eftirfarandi skýrslum:

  • 2021 Country Reports on Human Rights Practices – Colombia (US Department of State, 30. mars 2022);
  • 2022 Country Reports on Human Rights Practices – Colombia (US Department of State, 20. mars 2023);
  • Acled. Dashboard, 24. febrúar 2022 – 24. febrúar 2023.
  • Amnesty International Report 2021/22 – Colombia (Amnesty International, 29. mars 2022);
  • Amnesty International Report 2022/23 – Colombia (Amnesty International, 28. mars 2023);
  • Annual Report 2020 – Chapter IV.A: Human Rights Development in the Region (IACHR, 2021);
  • Availability and accessibility of mental health services, particularly in Bogotá, Cartagena and Barranquilla; treatment of individuals with mental illness by society and by the authorities; state protection, including recourse and complaint mechanism (Immigration and Refugee Board of Canada, 11. ágúst 2021);
  • Bandas Criminales (https://cisac.fsi.stanford.edu/mappingmilitants/profiles/bandas-criminales, skoðað 7. september 2023);
  • Colombia 2020 Crime and Safety Report (US Department of State, Bureau of Diplomatic Security, 13. mars 2020);
  • Colombia: Country Focus (EUAA, desember 2022);
  • Colombia: Fact-Finding Mission Report. Conflict Dynamics in the Post- FARC- EP Period and State Protection (Immigration and Refugee Board of Canada, mars 2020);
  • Colombia. Social Institutions and Gender Index 2019 (Organization for Economic Co-operation and Development, 7. desember 2018);
  • Colombia Travel Advisory (US Department of State, Bureau of Consular Affairs, síðast uppfært 11. maí 2023);
  • Colombian Authorities Arrest Alleged Leader of Criminal Gang ‘La Cordillera’ (https://bnn.network/breaking-news/colombian-authorities-arrest-alleged-leader-of-criminal-gang-la-cordillera/, apríl 2023)
  • Colombia’s illegal armed groups (maps) (Colombia Reports, 3. október 2021);
  • Colombia´s Armed Groups Battle for the Spoils of Peace (International Crisis Group, 19. október 2017);
  • Colombia Complex crisis (ACAPS, 9. ágúst 2021);
  • Colombia: Fact – Finding Mission Report; Conflict Dynamics in the Post- FARC-EP Period and State Protection (mars, 2020);
  • Colombia at a Stabilization Crossroads (Center for Strategic and International Studies (CSIS), 5. mars 2021);
  • Conflict persists five years after peace deal (Norwegian Refugee Council, 23. nóvember 2021);
  • Foreign travel advice: Colombia (Gov.uk, síðast uppfært 9. maí 2023);
  • Freedom in the World 2023 - Colombia (Freedom House, 2023);
  • Gustavo Petro and Francia Márquez: A new era For Colombia (BBC, 20. júní 2022);
  • Los Focos del Conflicto en Colombia. Informe Sobre Presencia de Grupos Armados (Indepaz, 4. október 2021);
  • Left Undefended – Killings of Rights Defenders in Colombia´s Remote Communities (Human Rights Watch, 10. febrúar 2021);
  • Mental Health ATLAS 2017. Member State Profile. Colombia (World Health Organization, 2018);
  • OCHA Annual Report 2022 (UN Office for the Coordination of Humanitarian Affairs, 9. janúar 2023);
  • Protecting Colombia´s Most Vulnerable on the Road to Total Peace (International Crisis Group, 24. febrúar 2023);
  • Resolution 2673(2023) (United Nations Security Council, 11. janúar 2023);
  • Situation of human rights in Colombia. Report of the United Nations High Commissioner for Human Rights (UN Human Rights Council, 10. febrúar 2021);
  • Social Security Throughout the World, The Americas, 2019 – Colombia (Social Security Administration. Office of Retirement and Disability Policy. Office of Research, Evaluation and Statistics, mars 2020);
  • The World Factbook: Colombia (CIA, síðast uppfært 15. ágúst 2023);
  • UNHCR Eligibility Guidelines for Assessing the International Protection Needs of Asylum-Seekers from Colombia (UNHCR, september 2015);
  • United Nations Verification Mission in Colombia: Report of the Secretary- General (United Nations, 24. mars 2023);
  • World Report 2023 – Events of 2022 (Human Rights Watch, 12. janúar 2023);
  • Upplýsingar af vefsíðu kólumbíska heilbrigðis- og félagsmálaráðuneytisins (https://www.minsalud.gov.co);
  • Upplýsingar af vefsíðu Colombia Reports (colombiareports.com) og
  • Upplýsingar af vefsíðu Refugees International (https://www.refugeesinternational.org).

Kólumbía er stjórnarskrárbundið lýðveldi með tæplega 50 milljónir íbúa. Í landinu aðhyllast um 92% íbúa kristna trú, þar af meirihlutinn rómversk-kaþólska trú. Hinn 5. nóvember 1945 gerðist Kólumbía aðili að Sameinuðu þjóðunum. Ríkið fullgilti alþjóðasamning um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi ásamt alþjóðasamningi um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi árið 1969. Ríkið fullgilti alþjóðasamning um afnám allrar mismununar gegn konum árið 1982 og samning Sameinuðu þjóðanna gegn pyndingum og annarri grimmilegri, ómannlegri og vanvirðandi meðferð eða refsingu árið 1987. Í frétt BBC frá 2022 kemur fram að 20. júní 2022 hafi Gustavo Petro verið kjörinn forseti Kólumbíu. Petro sé fyrsti vinstrisinnaði forseti landsins og heimildir bendi til þess að hann hafi á yngri árum tilheyrt M-19 skæruliðahreyfingunni áður en hann hafi snúið sér að stjórnmálum. Í kosningabaráttunni hét hann því að berjast gegn spillingu og skipulagðri glæpastarfsemi í landinu auk þess að beita sér fyrir auknu jafnrétti. Í skýrslu Freedom House frá 2023 kemur fram að forsetinn hafi valið Francia Márquez sem varaforseta. Hún sé umhverfisverndarsinni af Afró-kólumbískum uppruna og önnur konan til að gegna stöðu varaforseta.

Í skýrslu bandaríska utanríkisráðuneytisins frá 2023 kemur fram að meðal helstu vandamála á sviði mannréttinda í landinu séu handahófskennd morð, pyndingar af hálfu stjórnvalda og vopnaðra hópa, víðtæk spilling og ofbeldi gegn hinsegin einstaklingum. Spilling sé umtalsverð á meðal stjórnmálamanna og innan lögreglu landsins. Í skýrslunni komi fram að stjórnvöld hafi almennt gert ráðstafanir til að lögsækja og refsa embættismönnum fyrir mannréttindabrot þó sum mál taki langan tíma. Stjórnvöld hafi innleitt lög sem gera opinbera spillingu refsiverða. Þá hafi ríkisstjórnin innleitt umbætur hjá lögreglunni sem miði að því að auka ábyrgð og bæta mannréttindavernd og samskipti almennings og lögreglu. Refsileysi innan öryggissveita landsins hafi verið vandamál en stjórnvöld hafi á síðustu árum aukið þjálfun liðsmanna öryggissveita landsins hvað varðar mannréttindi ásamt því að rannsaka og sakfella í auknum mæli brot liðsmanna þeirra. Þá hafi dregið úr samstarfi á milli öryggissveita og ólöglegra vopnahópa. Mannréttindasamtök hafi þó gagnrýnt að á sumum svæðum virðist glæpahópar fá að starfa því sem næst óáreittir. Lögregla sé fagmannlegri en í nágrannaríkjum Kólumbíu en skortur sé á fjármagni og mannafla. Enn fremur hafi lögreglan verið sökuð um að vinna með glæpamönnum og að vera ekki til staðar á strjálbýlli svæðum þar sem hættulegir hópar séu virkir.

Af framangreindum heimildum, m.a. skýrslu bandaríska utanríkisráðuneytisins frá 2023, má ráða að glæpa- og morðtíðni sé há og að glæpahópar séu starfandi víðs vegar um landið og séu ráðandi á ákveðnum svæðum, einkum í héruðunum Cauca, Narino, Catatumbo og Norte de Santander. Þeir stærstu og þekktustu hafi verið skæruliðahóparnir FARC-EP (e. Revolutionaty Armed Forces of Colombia -People´s Army) og ELN (e. National Liberation Army). Þá séu einnig starfandi svokallaðir NAG (e. New Armed Groups) sem hafi sprottið út frá hersveitum sem áður hafi starfað í landinu. Fram kemur í skýrslu bandaríska utanríkisráðuneytisins fyrir árið 2021 að í kjölfar undirritunar friðarsamkomulags stjórnvalda við skæruliðahópinn FARC, hafi formlegri afvopnun hópsins lokið árið 2017 og það sama ár hafi fyrrum meðlimir myndað stjórnmálaflokk og tekið þátt í þingkosningum í mars árið 2018. Í skýrslunni kemur fram að her landsins hafi áætlað að meðlimir í afsprengihópum FARC væru nú fleiri en 5.200 talsins. Af fyrirliggjandi gögnum, þ. á m. skýrslu Indepaz frá 2021 og kortum Columbia Reports frá 2020, verður ráðið að afsprengihópar FARC hafi að mestu haldið til í suður-, suðvestur- og suðausturhluta Kólumbíu og við landamæri Venesúela. Hóparnir hafi verið virkir utan tilgreindra svæða, þá ýmist með leynilegum aðgerðum eða í gegnum bandalög með öðrum glæpahópum, en séu ekki með mikla viðveru eða sterk ítök í höfuðborg landsins, Bógóta. Í frétt á vef fréttamiðilsins Al Jazeera frá 4. október 2022 kemur fram að kólumbísk yfirvöld og ELN hafi komist að samkomulagi um að hefja friðarviðræður á ný eftir að þeim var slitið árið 2018.

Í skýrslu Freedom House frá 2023 kemur fram að sum landsvæði, einkum þau sem eru rík af auðlindum og sem eru á flutningssvæðum fíkniefna, séu óörugg. Meðlimir afsprengihópa skæruliðahópa, m.a. ELN og FARC, misnoti óbreytta borgara, sérstaklega á svæðum þar sem kókaín sé ræktað. Almenn sundrung og aukning átaka hafi haft áhrif á sum svæði sem aukið hafi á fjölda þeirra sem séu á innri flótta í Kólumbíu. Eftir að Petro hafi tekið við embætti hafi ýmis glæpasamtök lýst yfir vilja til að taka tilboði um samninga, sem hafi leitt til vopnahlés sem hafi bætt tímabundið öryggi borgara á sumum svæðum. Petro hafi lagt til nýjan friðarsamning við andófsmenn FARC í ágúst 2022, sem hafi vakið gagnrýni frá samningamönnum ríkisstjórnarinnar frá friðarsamningum 2016. Petro hafi hafið samningaviðræður við ELN í desember og hafi það verið fyrstu viðræðurnar við samtökin síðan 2019. Í sama mánuði hafi ríkisstjórnin tilkynnt um sex mánaða vopnahlé við ELN, FARC andófsmenn og þrjá aðra glæpahópa.

Í skýrslu Human Rights Watch frá 2023 kemur fram að almennir borgarar hafi verið beittir misnotkun og ofbeldi af hendi framangreindra skæruliða- og glæpahópa. Í skýrslu frá bandaríska utanríkisráðuneytinu um glæpi og öryggi í Kólumbíu frá 2020 kemur m.a. fram að lögregluyfirvöld í Kólumbíu séu alla jafna öflug og fagleg. Þrátt fyrir ofangreind vandamál hafi dregið verulega úr ofbeldi í landinu öllu á síðustu 20 árum. Megi rekja þessa fækkun ofbeldisglæpa einkum til friðarsamkomulagsins við FARC og vopnahlés og friðarviðræðna við ELN. Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna hafi framlengt umboð verkefnis sannleiks- og sáttanefndar (e. UN Verification Mission) í Kólumbíu. Nefndinni hafi verið gert að fylgjast með og hafa eftirlit með framfylgd ríkisstjórnar og samningsaðila FARC á friðarsamkomulaginu, þ.m.t. pólitíska, efnahagslega og félagslega enduraðlögun FARC og innleiðingu persónulegra og sameiginlegra öryggistrygginga ásamt því að halda utan um yfirgripsmiklar áætlanir um öryggis- og verndarráðstafanir fyrir samfélög og stofnanir á svæðunum. Í skýrslu frá 24. mars 2023 komi fram að sú jákvæða þróun hafi verið að kólumbíska ríkisstjórnin og FARC hafi samþykkt að framlengja umboð framkvæmdarstjórnar til að fylgja eftir og hafa eftirlit með framfylgd friðarsamkomulagsins í fjögur ár.

Samkvæmt upplýsingum á vefsíðu Standford Center for International Security and Cooperation er La Cordillera svokallaður BACRIM glæpahópur. Samkvæmt skýrslu EUAA frá 2022 er glæpahópurinn með tengsl við glæpasamtökin Gulf Clan (AGC). Hópurinn La Cordillera hafi engan pólitískan hvata en hann starfi náið með vinstrisinnuðum skæruliðum og öðrum skipulögðum glæpahópum í fíkniefnaviðskiptum. Þá samanstandi hópurinn m.a. af virkum og fyrrum hermönnum. Samkvæmt fréttamiðlinum BNN var leiðtogi La Cordillera, Tapete, handtekinn og ákærður á fyrrihluta árs 2023, m.a. fyrir fíkniefnasmygl og glæpsamlegt samsæri. Níu meðlimir samtakanna hafi einnig verið handteknir og ákærðir fyrir sömu glæpi. Í kjölfarið hafi yfirmaður lögreglunnar í Pereira lýst því yfir að með handtökunum hafi starfsemi veigamikilla glæpasamtaka, sem m.a. hafi áreitt íbúa Dosquebradas og Pereira, verið brotin á bak aftur. Þá hafi kólumbísk yfirvöld handsamað nokkra leiðtoga glæpahópsins undanfarin ár.

Í framangreindri skýrslu Freedom House kemur fram að friðarsamkomulagið sem undirritað var árið 2016 milli ríkisstjórnarinnar og FARC skæruliðahópsins hafi haldist óbreytt á árinu. En tafir á framkvæmd samkomulagsins og afvopnun fyrrverandi uppreisnarmanna hafi vakið áhyggjur eftirlitsaðila. Í skýrslu bandaríska utanríkisráðuneytisins frá 2023 kemur fram að fjöldi kólumbískra og alþjóðlegra mannréttindahópa starfi án takmarkana stjórnvalda, rannsaki og birti niðurstöður um mannréttindamál. Þá séu embættismenn yfirleitt samvinnuþýðir og reiðubúnir að hlusta á áhyggjur staðbundinna mannréttindasamtaka. Nokkur frjáls félagasamtök hafi fengið hótanir en ríkisstjórnin fordæmi hótanirnar og skori á dómsmálaráðherra að rannsaka þau. Í sumum tilvikum hafi aðgerðarsinnum þótt viðbrögð stjórnvalda hæg og lítil. Þá kemur fram að þótt löggjöf í landinu veiti frjálsum félagasamtökum og mannréttindabaráttufólki vernd þá sé traust slíkrar verndar takmarkað og á síðustu árum hafi hundruð meðlima mannréttindasamtaka, fjölmiðlafólks, leiðtoga frumbyggja og annarra aðgerðarsinna staðið frammi fyrir margvíslegu ofbeldi, líflátshótunum og verið myrtir, einkum af uppreisnarmönnum eða meðlimum glæpasamtaka. Stjórnvöld hafi ekki gripið til fullnægjandi ráðstafana til að vernda þau, refsileysi sé útbreitt og ákærur og sakfellingar eigi sér sjaldnast stað.

Í skýrslu kanadíska innflytjendaeftirlitsins kemur fram að skrifstofa umboðsmanns (s. Defensoría del Pueblo), sem sett var á fót árið 1991, sinni margvíslegu hlutverki til að stuðla að bættri mannréttindavernd í Kólumbíu. Skrifstofan beri ábyrgð á að sinna eftirliti og aðhaldi með stjórnvöldum, taki við kvörtunum frá einstaklingum, hópum og lögaðilum og beiti sér fyrir aukinni vernd og fræðslu um mannréttindi. Í skýrslu bandaríska utanríkisráðuneytisins frá 2023 kemur fram að vanfjármögnun takmarki getu skrifstofunnar til að fylgjast með misnotkun á áhrifaríkan hátt. Umboðsmaðurinn, sem og meðlimir svæðisskrifstofu umboðsmanns, fái hótanir frá vopnuðum hópum í gegnum ýmsa miðla. Skrifstofa umboðsmanns gefi reglulega út viðvaranir fyrir svæði sem hún telji hættuleg en ríkisstjórnin bregðist hægt við tilmælum og viðvörunum. Þá veiti ríkisstofnunin National Protection Unit einstaklingum vernd sem telji sig þurfa á vernd að halda, m.a. þolendum mannréttindabrota og vopnaðra átaka. Eðli verndarinnar fari eftir áhættumati sem stofnunin framkvæmi fyrir hvern og einn einstakling. Verndin sem stofnunin veiti sé þó ekki alltaf fullnægjandi eða í samræmi við þá hættu sem viðkomandi sé í. 

Í skýrslu kanadísku innflytjendastofnunarinnar kemur fram að kynbundið ofbeldi sé útbreitt í Kólumbíu. Ofbeldi gegn konum og nauðganir, þ. á m. nauðganir í hjónaböndum, séu vandamál í landinu. Í skýrslunni kemur fram að ofbeldi gegn konum hafi aukist í Covid-19 heimsfaraldrinum en að löggjöf í landinu kveði á um jöfn réttindi kvenna. Í skýrslu Freedom House kemur fram að um 30 prósent þingsæta í hverri þingdeild sé í höndum kvenna og varaforseti Kólumbíu sé kona. Samkvæmt skýrslu samtakanna Freedom House frá 2023 standi konur frammi fyrir mismunun á vinnumarkaði og verði fyrir kynferðislegri áreitni á vinnustöðum. Stjórnlagadómstóll Kólumbíu hafi áréttað skyldu fyrirtækja til að bregðast við og refsa fyrir kynbundið ofbeldi á vinnustöðum. Í skýrslu bandaríska utanríkisráðuneytisins kemur fram að lög leggi bann við hvers kyns áreitni á vinnustöðum og mæli jafnframt fyrir um eins til þriggja ára fangelsisvist fyrir slík brot.

Í skýrslu Freedom House kemur fram að löggjafinn hafi um árabil hunsað réttindi kvenna en árið 2021 hafi lög verið samþykkt sem m.a. sé ætlað að bæta félagslegar og efnahagslegar aðstæður kvenna. Í framangreindum skýrslum kemur fram að kólumbísk stjórnvöld hafi fullgilt alla gildandi alþjóðasamninga er lúti að mannréttindum og réttindum kvenna og ríkið hafi náð þýðingarmiklum framförum varðandi þróun löggjafar sem styðji jafnrétti kynjanna og mannréttindi kvenna. Sem dæmi um það hafi lög verið sett árið 2014 til að bæta aðgengi þolenda kynferðisofbeldis að réttvísi. Mismunun og ofbeldi gagnvart konum og refsileysi gerenda í slíkum málum sé þó vandamál í ríkinu. Konur verði fyrir kynbundnu ofbeldi, m.a. kynferðisofbeldi, í tengslum við átök tengd glæpastarfsemi og baráttu stjórnvalda við glæpahópa í landinu. Kólumbísk lög leggi skyldu á kólumbísk stjórnvöld að veita þolendum heimilisofbeldis tafarlausa vernd gegn frekara ofbeldi, hvort sem það sé líkamlegt eða andlegt. Þá kveði kólumbísk lög á um 21 til 50 ára fangelsisvist fyrir kynbundin morð á konum (e. femicide) sem sé talsvert þyngri refsing en við morðum af öðrum ástæðum, sem varði að lágmarki 13 ára fangelsisvist. Sérstök kynferðisbrotadeild, Sexual Assault Investigative Unit, sem heyri undir kólumbísk stjórnvöld, hafi það hlutverk að rannsaka kynferðisbrotamál.

Í skýrslu fulltrúa aðalframkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna um kynferðislegt ofbeldi í Kólumbíu, kemur fram að Covid-19 heimsfaraldurinn hafi gert aðgengi að þjónustu og stuðning erfiðari á svæðum þar sem glæpahópar séu virkir. Sem hluti af viðleitni stjórnvalda til að tryggja aðgang viðkvæmra hópa að þjónustu hafi sumar stofnanir boðið upp á viðtöl og stuðning í gegnum fjarfundarbúnað. Kynferðisbrotadeildin (e. The National Victims´Unit) hafi innleitt áætlanir sem lúti að skaðabótum og sálfélagslegri endurhæfingu fyrir þolendur kynferðisofbeldis. Heilbrigðisráðuneytið hafi þjálfað 22.516 heilbrigðisstarfsmenn í samræmi við bókun (e. protocol) um alhliða heilbrigðisþjónustu fyrir þolendur kynferðisofbeldis. Þá hafi forseti Kólumbíu gefið út leiðbeiningar um eflingu kynjajafnréttis í öryggissveitum með það að markmiði að bæta gæði og skilvirkni í tengslum við kynferðislegt og kynbundið ofbeldi. Í skýrslu kanadíska innflytjendayfirvalda kemur fram að hægt sé að fá aðstoð og stuðning vegna kynbundins ofbeldis hjá kynferðisbrotadeild (s. Centro de Atención Integral a Víctimas de Delitos Sexuales) á skrifstofu saksóknara (s. Fiscalía) og hjá lögregluyfirvöldum sem vísi málum til saksóknara. Skrifstofa fjölskyldumálastjóra taki á móti heimilisofbeldismálum og geti gert verndarráðstafanir, svo sem að fjarlægja ætlaða árásarmenn af heimilum, sækja nauðsynjar fyrir þolendur, tryggja lögregluvernd og leysa tímabundin mál varðandi forsjá og meðlög. Þá sé til staðar stofnun um velferð fjölskyldunnar (s. Instituto Colombiano de Bienestar Familiar) sem vinni að alhliða velferð barna, ungmenna og fjölskyldna þeirra. Stofnunin starfræki svæðisbundnar fjölskyldumiðstöðvar í öllum borgum. Skrifstofa umboðsmanns verndi mannréttindi bæði þolenda og gerenda þegar um ofbeldi sé að ræða, m.a. með því að veita einstaklingum ráðgjöf og aðstoð. Í skýrslunni kemur fram að hægt sé að tilkynna kynbundið ofbeldi í gegnum neyðarlínur sem séu opnar allan sólarhringinn.

Samkvæmt stjórnarskrá Kólumbíu eiga ríkisborgarar rétt á grunnheilbrigðisþjónustu og félagslegri aðstoð í landinu. Samkvæmt vef Alþjóðabankans var atvinnuleysi í Kólumbíu 14,3% árið 2021 og hefur aukist verulega frá árinu 2019 en minnkað frá árinu 2020. Ráðuneyti heilbrigðis- og félagslegrar verndar (s. Ministerio de Salud y de Protección Social) beri ábyrgð á að hafa eftirlit með og samræma þjónustu á starfssviði sínu á landsvísu. Samkvæmt lögum um heilbrigðisþjónustu frá 2015 (s. La Ley Estatutaria de Salud 1751 de 2015) telst heilbrigði til grundvallar mannréttinda og bann er lagt við því að synja sjúklingum um nauðsynlega heilbrigðisþjónustu á grundvelli efnahagslegrar stöðu. Þá kemur fram í skýrslum Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar (World Health Organization, WHO) og innflytjenda- og flóttamannanefnd Kanada að sérstök löggjöf um geðheilbrigðismál í Kólumbíu hafi verið í gildi frá árinu 2013. Samkvæmt þeirri löggjöf sé ríkisborgurum Kólumbíu tryggt aðgengi að geðheilbrigðisþjónustu og þurfi meirihluti fólks sem sæki þjónustu hjá geðheilbrigðissérfræðingum ekki að greiða fyrir slíka þjónustu. Biðtími geti verið langur en aðgengi að geðheilbrigðisþjónustu og lyfjum sé betra í þéttbýli heldur en í dreifbýli, þ. á m. í Bógóta.         

Fram kemur í skýrslu bandaríska utanríkisráðuneytisins fyrir árið 2023 að um 6,7 milljónir íbúa í Kólumbíu séu vegalausir innanlands (e. internally displaced people), flestir vegna vopnaðra átaka í landinu. Í skýrslu skrifstofu Sameinuðu þjóðanna um samhæfingu mannúðarmála (OCHA) fyrir árið 2022, kemur fram að 56 % aukning hafi verið í hópi einstaklinga sem komust ekki út af heimilum sínum eða heimasvæðum vegna starfsemi og átaka vopnahópa og að 12% aukning hafi orðið á fjölda fólks sem hafi þurft að leggja á flótta innanlands af sömu ástæðum, frá árinu á undan. Samkvæmt lögum hafi 52 opinberar stofnanir í Kólumbíu það hlutverk að veita einstaklingum sem hafi þurft að flýja heimkynni sín aðstoð. Jafnframt séu fjöldi félaga og samtaka í samstarfi með stjórnvöldum og hafi tekið að sér að veita mannúðaraðstoð til þeirra sem hafi þurft að flytjast á brott frá heimasvæði sínu. Stjórnvöld hafi þó sætt gagnrýni fyrir seinar og ófullnægjandi aðgerðir. Þá hafi mannúðarsamtök aukið fræðslu og dreifingu hreinlætisvara, í tengslum við Covid-19 heimsfaraldurinn.

Ákvæði 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga

Í 1. mgr. 37. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga, sem byggir á A-lið 1. gr. flóttamannasamningsins, segir:

Flóttamaður samkvæmt lögum þessum telst vera útlendingur sem er utan heimalands síns af ástæðuríkum ótta við að vera ofsóttur vegna kynþáttar, trúarbragða, þjóðernis, aðildar að tilteknum þjóðfélagshópi eða vegna stjórnmálaskoðana og getur ekki eða vill ekki vegna slíks ótta færa sér í nyt vernd þess lands; eða sá sem er ríkisfangslaus og er utan þess lands þar sem hann áður hafði reglulegt aðsetur vegna slíkra atburða og getur ekki eða vill ekki vegna slíks ótta hverfa aftur þangað, sbr. A-lið 1. gr. alþjóðasamnings um réttarstöðu flóttamanna frá 28. júlí 1951 og bókun við samninginn frá 31. janúar 1967, sbr. einnig 38. gr. laga þessara.

Í 38. gr. laga um útlendinga eru sett fram viðmið um það hvað felist í hugtakinu ofsóknir samkvæmt 1. mgr. 37. gr., á hvaða grundvelli ofsóknir geta byggst og hvaða aðilar geta verið valdir að þeim. Í 1. mgr. ákvæðisins segir:

Ofsóknir samkvæmt 1. mgr. 37. gr. eru þær athafnir sem í eðli sínu eða vegna þess að þær eru endurteknar fela í sér alvarleg brot á grundvallarmannréttindum, einkum ófrávíkjanlegum grundvallarmannréttindum á borð við réttinn til lífs og bann við pyndingum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu, bann við þrældómi og þrælkun og bann við refsingum án laga. Sama á við um samsafn athafna, þ.m.t. ólögmæta mismunun, sem hafa eða geta haft sömu eða sambærileg áhrif á einstakling.

Í 2. mgr. 38. gr. laga um útlendinga er fjallað um í hverju ofsóknir geta falist. Þá eru þær ástæður sem ofsóknir þurfa að tengjast skilgreindar nánar í 3. mgr. 38. gr. laganna.

Í 4. mgr. 38. gr. kemur fram að þeir aðilar sem geta verið valdir að ofsóknum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð séu:

a. ríkið,

b. hópar eða samtök sem stjórna ríkinu eða verulegum hluta landsvæðis þess,

c. aðrir aðilar, sem ekki fara með ríkisvald, ef sýnt er fram á að ríkið eða hópar eða samtök samkvæmt b-lið, þ.m.t. alþjóðastofnanir, geti ekki eða vilji ekki veita vernd gegn ofsóknum eða meðferð sem fellur undir 2. mgr. 37. gr., m.a. með því að ákæra og refsa fyrir athafnir sem fela í sér ofsóknir.

Orðasambandið „ástæðuríkur ótti við að vera ofsóttur“ í 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga inniheldur huglæga og hlutlæga þætti og þarf að taka tillit til hvors tveggja þegar mat er lagt á umsókn um alþjóðlega vernd. Mat á því hvort ótti umsækjanda sé ástæðuríkur getur verið byggt á persónulegri reynslu umsækjanda sem og á upplýsingum um ofsóknir sem aðrir í umhverfi hans eða þeir sem tilheyra sama hópi hafa orðið fyrir. Umsækjandi sem hefur sýnt fram á að hann hafi þegar orðið fyrir ofsóknum í heimaríki, sbr. 1. mgr. 38. gr. laga um útlendinga, eða beinum og marktækum hótunum um slíkar ofsóknir, yrði almennt talinn hafa sýnt fram á ástæðuríkan ótta við slíkar ofsóknir snúi hann aftur til heimaríkis nema talið verði að miklar líkur séu á því að slíkar ofsóknir yrðu ekki endurteknar, t.d. þar sem aðstæður í heimaríki hans hafi breyst. Þótt umsækjandi um alþjóðlega vernd skuli njóta vafa upp að ákveðnu marki, verður umsækjandinn með rökstuddum hætti að leiða líkur að því að hans bíði ofsóknir í heimaríki. Frásögn umsækjanda og önnur gögn um einstaklingsbundnar aðstæður hans verða því almennt að fá stuðning í hlutlægum og áreiðanlegum upplýsingum um heimaríki umsækjanda, stjórnvöld, stjórnarfar og löggjöf þess. Þá er litið til sambærilegra upplýsinga um ástand, aðstöðu og verndarþörf þess hóps sem umsækjandi tilheyrir eða er talinn tilheyra. 

Kærunefnd hefur við mat sitt á umsókn kærenda haft til hliðsjónar handbók Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna um málsmeðferð og viðmið við mat á umsókn um alþjóðlega vernd (Handbook and Guidelines on Procedures and Criteria for Determining Refugee Status, Genf 2019). Þá hefur aðferðarfræði trúverðugleikamats kærunefndar tekið mið af skýrslu Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna og Flóttamannasjóðs Evrópusambandsins um trúverðugleikamat, eftir því sem við á (Beyond Proof: Credibility Assessment in EU Asylum Systems, Brussel 2013).

Kærendur byggja umsóknir sínar á því að þau séu í hættu í heimaríki sínu vegna áreitni sem þau kváðu dóttur sína, A, hafa sætt af hendi fjölskyldumeðlims. Jafnframt hafi fjölskyldan sætt áreiti glæpahóps að nafni La Cordillera og óttist kærendur um öryggi sitt og barna sinna í Kólumbíu.

Mat á trúverðugleika frásagnar kærenda er byggt á endurritum af viðtölum þeirra og barna þeirra hjá Útlendingastofnun, öðrum gögnum málsins og upplýsingum um heimaríki kærenda.

Kærendur hafa ekki borið fyrir sig að hafa sætt ofsóknum eða að þau óttist ofsóknir af hálfu yfirvalda í Kólumbíu sem hafa eða gætu náð því alvarleikastigi sem 1. mgr. 38. gr. laga um útlendinga mælir fyrir um. Þá benda önnur gögn málsins ekki til þess að slíkar ofsóknir hafi átt sér stað eða að kærendur eigi þær á hættu.

Í viðtölum hjá Útlendingastofnun greindu kærendur frá því að barn þeirra, A, hafi orðið fyrir kynferðislegri áreitni af hálfu frænda síns í heimaríki. A hafi byrjað að stunda sjálfsskaða og að lokum ákveðið að láta kærendur vita af áreitni frændans. Kærendur hafi í kjölfarið rætt við frændann og leitað til lögreglu. Kærendur hafi fengið þau svör frá lögreglunni að hún gæti ekkert gert þar sem áreitnin hefði verið munnleg en ekki líkamleg. Kærendur kváðu að í kjölfar þess að þau hafi tilkynnt frændann til lögreglu hafi lögreglan þó farið að fylgjast með svæðinu þar sem kærendur hafi búið. Glæpahópurinn La Cordillera hafi talið svæðið vera sitt yfirráðasvæði og því verið óánægðir með aukna gæslu lögreglunnar. Kvað M í viðtali að viðskiptavinir og aðrir einstaklingar hefðu komið á vinnustað hans og hvatt hann til að hætta að tala illa um frændann og leggja málið til hliðar. Kvað M að ekki hafi beint verið um að ræða hótanir heldur frekar viðvaranir. Kvaðst M gruna að meðlimir glæpahópsins hefðu verið sendir af yfirmanni sínum til að hræða sig.

Kærunefnd telur ekki ástæðu til að draga í efa að A hafi sætt áreitni af hálfu frænda síns í heimaríki. Í ljósi upplýsinga um heimaríki kærenda telur kærunefnd jafnframt ekki ástæðu til annars en að leggja til grundvallar að fjölskyldan hafi sætt einhvers konar áreiti af hálfu meðlima La Cordillera. Af frásögn kærenda og gögnum málsins er ljóst að kærendur hafi óskað eftir vernd og aðstoð lögreglu í heimaborg sinni, Dosquebradas, vegna áreitis fjölskyldumeðlims gagnvart barni þeirra, A. Kærendur kváðu lögreglu ekki hafa brugðist við vegna skorts á sönnunargögnum. Frásögn kærenda ber þó ekki með sér að þau hafi reynt að leita aðstoðar lögreglu aftur eða nýtt önnur úrræði í heimaríki sínu sem þeim stendur til boða líkt og fjallað hefur verið um fyrr í úrskurði þessum. Kærendur hafa ekki lagt fram gögn sem leggja grunn að staðhæfingum þeirra um að þar til bær yfirvöld í heimaríki hafi ekki vilja til eða muni ekki aðhafast frekar vegna kvartana þeirra og þá fær sú frásögn ekki stoð í gögnum um heimaríki þeirra.

Þá horfir kærunefnd til þess að kærendur kváðu lögreglu ekki hafa brugðist við kvörtun þeirra vegna áreitni fjölskyldumeðlimsins gagnvart A. Kærendur báru því þó við að lögregla hefði aukið viðveru sína á svæðinu eftir tilkynningu þeirra og að M hafi í kjölfarið borist viðvaranir frá ýmsum aðilum sem hann hafi talið stafa frá meðlimum glæpahópsins La Cordillera. Telur kærunefnd að ekki sé fulls samræmis að gæta í framangreindum staðhæfingum kærenda um viðbrögð lögreglu. Þá voru frásagnir þeirra af meintu áreiti í kjölfarið afar óljósar og óvíst frá hverjum áreitið átti að stafa og hver hafi verið tilgangur þess. Þá kváðust kærendur ekki geta lagt fram gögn til stuðnings frásögnum sínum um framangreint.

Að því sögðu er þó ekki ástæða til þess, í ljósi heimilda um Kólumbíu, að efast um að fjölskyldan hafi sætt einhvers konar áreiti af hálfu meðlima glæpahópsins La Cordillera. Þær heimildir sem kærunefnd hefur skoðað bera með sér að glæpahópurinn hafi áreitt ýmsa íbúa Dosquebradas og Pereira. Fram kemur þó í heimildum að lögregluyfirvöld hafi handtekið og ákært þó nokkra leiðtoga og meðlimi glæpahópsins La Cordillera. Jafnframt hafi lögregluyfirvöld í Pereira lýst því yfir að með handtökunum væri búið að grafa undan starfsemi hópsins. Er það því mat kærunefndar að ekkert í frásögnum kærenda eða gögnum um heimaríki þeirra bendi til þess að þau geti ekki leitað aðstoðar lögreglu verði þau fyrir áreiti eða hótunum frá glæpahópum. Verður því ekki talið að kærendur og börn þeirra séu sérstök skotmörk glæpahópa í heimaríki þeirra umfram aðra almenna borgara.

Í þeim gögnum sem kærunefnd hefur skoðað, m.a. skýrslur frá bandaríska utanríkisráðuneytinu um glæpi og öryggi í Kólumbíu frá 2021 og um stöðu mannréttinda frá árinu 2023, kemur fram að lögregluyfirvöld í Kólumbíu séu alla jafna öflug og fagleg. Skýrslur og önnur gögn sem kærunefnd hefur kynnt sér um aðstæður í Kólumbíu bera m.a. með sér að ítök glæpahópa séu á sumum svæðum sterk og löggæsla veik. Þrátt fyrir að gögn um aðstæður í Kólumbíu bendi til þess að glæpahópar séu áhrifamiklir á sumum svæðum í Kólumbíu er það mat kærunefndar að gögnin sýni fram á að á öðrum svæðum geti kólumbísk yfirvöld almennt verndað grundvallarmannréttindi ríkisborgara sinna. Heimildir benda ennfremur ekki til þess að ítök og áhrif glæpa- eða skæruliðahópa séu slík í Dosquebradas eða Pereira að ómögulegt sé fyrir kærendur að leita aðstoðar yfirvalda telji þau þörf á því. Þá benda heimildir til þess að yfirvöld í Pereira hafi getu til þess að veita borgurum sínum vernd gegn ofbeldi og glæpum, m.a. með því að ákæra eða refsa fyrir þær athafnir sem feli í sér ofsóknir, sbr. c-lið 4. mgr. 38. gr. laga um útlendinga. Kærendur hafa því raunhæfan möguleika á því að leita sér ásjár stjórnvalda þar í landi, ef þau telja sig þurfa á aðstoð þeirra að halda.

Samkvæmt 5. mgr. 37. gr. laga um útlendinga skal, við mat samkvæmt 1. og 2. mgr. 37. gr. í málum sem varða börn, fylgdarlaus sem önnur, hafa það sem er barninu fyrir bestu að leiðarljósi. Í ákvæðinu kemur fram að við það mat beri að líta til möguleika barns á fjölskyldusameiningu, öryggis barnsins, velferðar og félagslegs þroska auk þess sem taka skal tillit til skoðana barnsins í samræmi við aldur þess og þroska. Leggur kærunefnd mat á hagsmuni þeirra samkvæmt 5. mgr. 37. gr. laga um útlendinga með hliðsjón af upplýsingum úr fyrirliggjandi gögnum málsins og framangreindum aðstæðum í heimaríki þeirra. Að mati kærunefndar var sjónarmiðum barna kærenda nægilega komið á framfæri með framburði þeirra og kærenda og hagsmunagæslu talsmanns. Kærendur greindu frá því í viðtölum að barn þeirra, A, hefði sætt kynferðislegri áreitni af hálfu fjölskyldumeðlims í Kólumbíu. Í viðtali hjá Útlendingastofnun, dags. 19. október 2022, mætti A til viðtals þar sem hún greindi m.a. frá því að hafa átt í erfiðleikum með fjölskyldumeðlimi. Kvaðst hún upplifa að flótti fjölskyldunnar frá heimaríki hafi verið hennar sök og að henni hafi þótt erfitt að yfirgefa Kólumbíu. Líkt og fjallað hefur verið um mæla kólumbísk lög um skyldu stjórnvalda til að veita þolendum heimilisofbeldis tafarlausa vernd gegn frekara ofbeldi, hvort sem það sé líkamlegt eða andlegt. Þá sé starfandi sérstök kynferðisbrotadeild í Kólumbíu sem hafi það hlutverk að rannsaka kynferðisbrot. Hægt sé að fá aðstoð og stuðning vegna kynbundins ofbeldis hjá kynferðisbrotadeild á skrifstofu saksóknara og hjá lögregluyfirvöldum sem vísi málum til saksóknara. Benda því heimildir til þess að A standi til boða vernd og aðstoð stjórnvalda vegna áreitni frænda síns telji hún þörf á því. Kærunefnd telur að teknu tilliti til ákvæða barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og íslenskrar löggjafar um barnavernd, að engin rök standi í vegi fyrir því að þau fylgi foreldrum sínum aftur til heimaríkis. Kærunefnd horfir m.a. til þess að börnum kærenda stendur til boða nauðsynleg heilbrigðisþjónusta í heimaríki sínu og gjaldfrjáls menntun og ljóst er af frásögn kærenda og gögnum málsins að B hefur fengið greiningu og meðferð í heimaríki vegna heilsufarskvilla sinna. Þá eru þau í fylgd foreldra sinna sem eru heilsuhraust og vinnufær og njóta börnin stuðnings þeirra. Horfir kærunefnd sérstaklega til þess að kærendur veittu A stuðning og aðstoð og leituðu til lögreglu er hún lét þau vita af áreitni frænda síns. Með vísan til framangreinds er það niðurstaða kærunefndar, að teknu tilliti til sjónarmiða um öryggi, velferð og félagslegan þroska barnanna, að það sé þeim fyrir bestu að fylgja foreldrum sínum til heimaríkis síns.

Með vísan til framangreinds er það niðurstaða kærunefndar að kærendur hafi ekki með rökstuddum hætti leitt líkur að því að þau og börn þeirra hafi ástæðuríkan ótta við ofsóknir í skilningi 1. mgr. 37.gr. laga um útlendinga.

Telur kærunefnd því ljóst að kærendur og börn þeirra uppfylli ekki skilyrði 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga fyrir viðurkenningu á stöðu sem flóttamenn hér á landi.

Ákvæði 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga

Samkvæmt 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga er útlendingur einnig flóttamaður ef, verði hann sendur aftur til heimaríkis síns, raunhæf ástæða er til að ætla að hann eigi á hættu að sæta dauðarefsingu, pyndingum eða annarri ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu eða hann verði fyrir alvarlegum skaða af völdum árása í vopnuðum átökum þar sem ekki er greint á milli hernaðarlegra og borgaralegra skotmarka. Sama gildir um ríkisfangslausan einstakling.

Við mat á því hvort aðstæður kæranda séu slíkar að þær eigi undir 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga ber að líta til 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Mannréttindadómstóll Evrópu hefur fjallað um það mat sem þarf að fara fram þegar metið er hvort kærandi sé í raunverulegri hættu á að verða fyrir meðferð sem falli undir 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu sem bannar pyndingar og ómannlega eða vanvirðandi meðferð eða refsingu. Hefur dómstóllinn sagt að 3. gr. sáttmálans geti átt við þegar hættan stafar frá einstaklingum eða hópi fólks sem ekki séu fulltrúar stjórnvalda. Kærandi verður þó að geta sýnt fram á að gildar ástæður séu til að ætla að um raunverulega hættu sé að ræða og að stjórnvöld í ríkinu séu ekki í stakk búin til að veita viðeigandi vernd. Ekki er nóg að aðeins sé um að ræða möguleika á illri meðferð og verður frásögn kæranda að fá stuðning í öðrum gögnum (sjá t.d. dóma Mannréttindadómstóls Evrópu í máli NA gegn Bretlandi (mál nr. 25904/07) frá 7. júlí 2008 og H.L.R. gegn Frakklandi (mál nr. 24573/94) frá 29. apríl 1997).

Kærendur hafa vísað til þess að þau séu í hættu í heimaríki vegna áreitis og hótana af hálfu ótilgreindra meðlima glæpahópsins La Cordillera. Þau gögn sem kærunefnd hefur kynnt sér benda til þess að ástandið í Kólumbíu sé víða ótryggt, sumum svæðum sé að mestu leyti stjórnað af glæpa- og skæruliðahópum og að íbúar landsins kunni að eiga á hættu að vera beittir ofbeldi af hálfu slíkra hópa. Að jafnaði hafi kólumbísk stjórnvöld og öryggissveitir þeirra góða stjórn á öðrum svæðum og séu þau svæði nokkuð friðsæl og örugg. Þá séu lögregluyfirvöld að öllu jöfnu öflug og fagleg í landinu. Að virtum framburði kærenda, gögnum málsins og landaupplýsingum um ástandið í Dosquebradas og Pereira, þar sem kærendur höfðu búsetu, er það mat kærunefndar að kærendur og börn þeirra eigi ekki á hættu að sæta dauðarefsingum, pyndingum eða annarri ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu eða verða fyrir alvarlegum skaða af völdum árása í vopnuðum átökum þar sem ekki sé greint á milli hernaðarlegra og borgaralegra skotmarka, verði þeim gert að snúa aftur til Kólumbíu.

Í ljósi þess sem að framan er rakið og þeirra gagna sem liggja fyrir um heimaríki kærenda telur kærunefnd að aðstæður kærenda og barna þeirra þar séu ekki þannig að þær falli undir ákvæði 2. mgr. 37. gr. laganna. Telur kærunefnd því ljóst að kærendur og börn þeirra uppfylli heldur ekki skilyrði 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga fyrir viðurkenningu á stöðu sem flóttamenn hér á landi. 

Alþjóðleg vernd á grundvelli 40. gr. laga um útlendinga

Þar sem kærunefnd hefur komist að þeirri niðurstöðu að kærendur og börn þeirra uppfylli ekki skilyrði 1. eða 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga eiga þau ekki rétt á alþjóðlegri vernd hér á landi, sbr. 40. gr. laga um útlendinga.

Dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða samkvæmt 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga

Samkvæmt 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga er heimilt að veita útlendingi sem staddur er hér á landi dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, þrátt fyrir að skilyrði 37. gr. séu ekki uppfyllt, ef útlendingur getur sýnt fram á ríka þörf fyrir vernd, t.d. af heilbrigðisástæðum eða vegna erfiðra félagslegra aðstæðna viðkomandi eða erfiðra almennra aðstæðna í heimaríki eða í landi sem honum yrði vísað til. Kærunefnd telur, með vísan til orðalags ákvæðisins um „ríka þörf fyrir vernd“ auk lögskýringargagna sem fylgdu greininni, að dvalarleyfi á grundvelli 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga verði ekki veitt nema aðstæður, bæði almennar og sérstakar m.t.t. heilsufars og félagslegra þátta, auk atvika sem þar er vísað til, nái ákveðnu alvarleikastigi þegar málið er virt í heild.

Í athugasemdum við 74. gr. frumvarps til laga um útlendinga kemur fram að í samræmi við ákvæði alþjóðlegra skuldbindinga og almennra laga sé lagt til að tekið sé sérstakt tillit til barna, hvort sem um er að ræða fylgdarlaus börn eða önnur börn. Í því ljósi og með hliðsjón af meginreglunni um að það sem barni er fyrir bestu skuli hafa forgang þegar teknar eru ákvarðanir um málefni þess, sbr. jafnframt 2. mgr. 10. gr. og 3. mgr. 25. gr. laga nr. 80/2016, telur kærunefnd að við mat á því hvort skilyrði 1. mgr. 74. gr. laganna séu fyrir hendi skuli taka sérstakt tillit til þess ef um barn er að ræða og skuli það sem er barni fyrir bestu haft að leiðarljósi við ákvörðun.

Ráða má að kærendur byggi á því að þau og börn þeirra hafi ríka þörf fyrir vernd í skilningi 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga vegna heilbrigðisástæðna og erfiðra félagslegra og almennra aðstæðna. Tvö börn kærenda glími við líkamlega og andlega heilsubresti og sé ljóst að þau þurfi mikla umhyggju og eftirlit lækna sem þau fái ekki í heimaríki sínu. Þá njóti fjölskyldan ekki verndar gegn ofbeldi þar í landi.

Í athugasemdum við frumvarp til laga um útlendinga að með erfiðum almennum aðstæðum að öðru leyti sé einnig vísað til alvarlegra aðstæðna í heimaríki og væri þar oft um að ræða viðvarandi mannréttindabrot í ríkinu eða þá aðstöðu að yfirvöld veiti ekki þegnum sínum vernd gegn ofbeldisbrotum eða glæpum. Af þeim gögnum og skýrslum sem kærunefnd hefur farið yfir má ráða að þrátt fyrir að ótryggt ástand ríki á ákveðnum landsvæðum í heimaríki kærenda þá teljist svæðið þar sem þau og börn þeirra höfðu búsetu öruggt svæði. Þá standi borgurum Kólumbíu almennt til boða skilvirk vernd yfirvalda.

Þá segir í athugasemdunum og í 43. gr. a reglugerðar um útlendinga að með erfiðum félagslegum aðstæðum sé átt við að útlendingur hafi þörf á vernd vegna félagslegra aðstæðna í heimaríki og eru þar nefnd sem dæmi aðstæður kvenna sem hafa sætt kynferðislegu ofbeldi, sem leitt getur til erfiðrar stöðu þeirra í heimaríki, eða aðstæður kvenna sem ekki fella sig við kynhlutverk sem er hefðbundið í heimaríki þeirra og eiga á hættu útskúfun eða ofbeldi við endurkomu. Verndarþörf þjóðfélagshópa að öðru leyti myndi fara eftir aðstæðum í hverju máli. Líkt og fram hefur komið stendur kærendum og A til boða ýmis úrræði vegna þeirrar áreitni sem A kveðst hafa sætt af hálfu frænda síns í heimaríki. Meðal annars sé starfrækt sérstök kynferðisbrotadeild í Kólumbíu sem hafi það hlutverk að rannsaka kynferðisbrot. Jafnframt sé starfrækt sérstök stofnun um velferð fjölskyldunnar (s. Instituto Colombiano de Bienestar Familiar) sem vinni að alhliða velferð barna, ungmenna og fjölskyldna þeirra. Með vísan til fyrri umfjöllunar um aðstæður kærenda og barna þeirra er það niðurstaða kærunefndar að gögn málsins bendi ekki til þess að félagslegar og almennar aðstæður sem bíða kærenda og barna þeirra í heimaríki nái því alvarleikastigi sem 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga kveði á um.

Í athugasemdum við frumvarp til laga um útlendinga og 43. gr. a reglugerðar um útlendinga kemur fram að með ríkri þörf á vernd af heilbrigðisástæðum sé m.a. miðað við að um skyndilegan og lífshættulegan sjúkdóm sé að ræða og meðferð við honum væri aðgengileg hér á landi en ekki í heimaríki viðkomandi. Í þessu sambandi kemur jafnframt fram að meðferð teljist ekki óaðgengileg þótt greiða þurfi fyrir hana heldur er hér átt við þau tilvik þar sem meðferð sé til í heimaríkinu en viðkomandi eigi ekki rétt á henni svo sem vegna alvarlegrar mismununar. Þá kunna að falla undir 1. mgr. 74. gr. mjög alvarlegir sjúkdómar sem ekki teljast lífshættulegir, svo sem ef sýnt þykir að þeir muni valda alvarlegu óbætanlegu heilsutjóni eða óbærilegum þjáningum verði einstaklingi gert að snúa aftur til heimaríkis. Ef um langvarandi sjúkdóm sé að ræða væru ríkari verndarsjónarmið fyrir hendi ef sjúkdómur væri á lokastigi. Jafnframt væri rétt að líta til þess hvort meðferð hafi hafist hér á landi og ekki væri læknisfræðilega forsvaranlegt að rjúfa meðferð, sem og til atriða sem varði félagslegar aðstæður útlendings og horfur hans. Í viðtali hjá Útlendingastofnun greindu kærendur frá því að barn þeirra, A, hafa glímt við andlega erfiðleika og stundað sjálfskaða í heimaríki. A hafi farið í eitt viðtal hjá sálfræðingi en henni hafi ekki liðið betur. Þá sé biðin löng eftir sálfræðiaðstoð í Kólumbíu. Kærendur greindu jafnframt frá því að barn þeirra, B, glími við andlega og líkamlega fötlun og þjáist m.a. af hryggskekkju (e. scoliosis). Kváðu þau B hafa undirgengist aðgerðir í heimaríki og verið undir eftirliti lækna en biðin eftir sérfræðingum í Kólumbíu sé löng. Í framlögðum heilsufarsgögnum frá Landspítala kemur m.a. fram að helstu vandamál B séu hægar hreyfingar, jafnvægisskerðing og erfiðleikar með að stýra hreyfingum handa. B hafi farið þrisvar sinnum í aðgerð vegna hryggskekkju og tvisvar sinnum í augnaðgerð í heimaríki sínu. Settar hafi verið langar stangir og skrúfur í hrygg hennar. Þá hafi hún verið í meðferð hjá sjúkraþjálfara í Kólumbíu.

Það að B sæki læknisþjónustu hér á landi leiðir ekki sjálfkrafa til þess að hún teljist hafa ríka þörf á vernd á grundvelli mannúðarsjónarmiða vegna heilbrigðisástæðna. Í ljósi þess sem fram hefur komið verður sú meðferð sem B þarfnast hvorki talin vera svo sérhæfð að hún geti einungis hlotið hana hérlendis né að rof á henni yrði til tjóns fyrir hana verði henni gert að snúa aftur til heimaríkis. Líkt og fram hefur komið er öllum ríkisborgurum Kólumbíu tryggður aðgangur að heilbrigðiskerfinu í landinu. Þá verður ráðið af frásögnum kærenda og framlögðum gögnum að B hafi hlotið fullnægjandi heilbrigðisþjónustu í heimaríki sínu, en hún hafi undirgengist ýmsar aðgerðir, verið undir eftirliti sérfræðinga og stundað sjúkraþjálfun. Þá hafði barn kærenda, A, aðgang að sálfræðiþjónustu í heimaríki sínu samkvæmt framburði kærenda. Samkvæmt þeim gögnum sem kærunefnd hefur skoðað er í boði geðheilbrigðisþjónusta í Kólumbíu fyrir A en slík heilbrigðisþjónusta sé að mestu tryggð með sjúkratryggingakerfi landsins og meirihluti fólks sem glími við andleg veikindi þurfi ekki að greiða fyrir slíka þjónustu. Þá kemur fram í ofangreindum athugasemdum við lagafrumvarpið að meðferð teljist ekki óaðgengileg þótt greiða þurfi fyrir hana heldur sé hér átt við þau tilvik þar sem meðferð sé til í heimaríkinu en viðkomandi eigi ekki rétt á henni. Af gögnum málsins er ljóst að börn kærenda hafi aðgang að heilbrigðisþjónustu og menntun í heimaríki þeirra. Þá greindu kærendur frá því að eiga bakland í heimaríki og af gögnum málsins verður talið að kærendur geti starfað í heimaríki og framfleytt sér og börnum sínum. Þá hafa kærendur og börn þeirra aðgang að félagslegu kerfi í heimaríki þurfi þau á því að halda. Með vísan til alls framangreinds er það niðurstaða kærunefndar að börn kærenda eða kærendur hafi ekki ríka þörf fyrir vernd vegna heilbrigðisástæðna, sbr. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.

Þegar upplýsingar um heimaríki kærenda og gögn málsins eru virt í heild, með hliðsjón af aðstæðum kærenda og barna þeirra í heimaríki, er það niðurstaða kærunefndar að kærendur hafi ekki sýnt fram á aðstæður sem ná því alvarleikastigi að þau og börn þeirra hafi ríka þörf á vernd líkt og kveðið er á um í 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Við þetta mat hefur kærunefnd litið til hagsmuna barna kærenda í samræmi við 2. mgr. 10. gr. laga um útlendinga og 3. mgr. 25. sömu laga. Því er fallist á það með Útlendingastofnun að aðstæður kærenda og barna þeirra í heimaríki séu ekki með þeim hætti að veita beri þeim dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.

Bann við endursendingu samkvæmt 42. gr. laga um útlendinga

Samkvæmt 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga er ekki heimilt að senda útlending eða ríkisfangslausan einstakling til svæðis þar sem hann hefur ástæðu til að óttast ofsóknir, sbr. 37. og 38. gr., eða vegna svipaðra aðstæðna og greinir í flóttamannahugtakinu er í yfirvofandi hættu á að láta lífið eða verða fyrir ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð. Samkvæmt 2. mgr. sömu greinar er einnig óheimilt að senda útlending til svæðis þar sem ekki er tryggt að hann verði ekki sendur áfram til slíks svæðis sem greinir í 1. mgr.

Með vísan til umfjöllunar að framan um heimaríki kærenda telur kærunefnd að þær aðstæður sem ákvæðið tekur til eigi ekki við í máli kærenda og barna þeirra. Kærunefnd telur því að ákvæði 42. gr. laga um útlendinga standi ekki í vegi fyrir endursendingu kærenda og barna þeirra þangað.

Athugasemdir kærenda við ákvarðanir Útlendingastofnunar

Í greinargerð kærenda kemur fram að þau telji Útlendingastofnun hafa lagt of mikla sönnunarbyrði á þau og vísa þau í því samhengi til niðurstöðu Landsréttar í máli nr. 149/2020 þar sem fram komi m.a. að við mat á því hvort umsækjandi um alþjóðlega vernd hafi fært fram nægar sönnur í málinu beri jafnframt að hafa í huga að sönnunarkröfur mega ekki vera svo ríkar að viðkomandi njóti ekki raunhæfrar verndar gegn alvarlegum mannréttindabrotum. Fram komi að þótt það standi umsækjanda sjálfum nær að afla gagna um persónulegar aðstæður sínar standi það ríkinu nær að afla gagna um aðstæður í heimaríki hans, þar með talið um að yfirvöld þar geti veitt honum fullnægjandi vernd.

Þótt umsækjandi um alþjóðlega vernd skuli njóta vafa upp að ákveðnu marki, verður umsækjandinn með rökstuddum hætti að leiða líkur að því að hans bíði ofsóknir í heimaríki. Frásögn umsækjanda og önnur gögn um einstaklingsbundnar aðstæður hans verða því almennt að fá stuðning í hlutlægum og áreiðanlegum upplýsingum um heimaríki umsækjanda, stjórnvöld, stjórnarfar og löggjöf þess. Fram kemur í landaupplýsingaskýrslum um aðstæður í Kólumbíu, sem bæði Útlendingastofnun og kærunefnd hafa stuðst við, að borgurum landsins standi almennt vernd yfirvalda til boða þurfi þeir á slíkri aðstoð að halda. Þá hafa kærendur, líkt og áður greinir, ekki lagt fram gögn sem renna stoðum undir frásögn þeirra um að yfirvöld hafi ekki vilja til eða muni ekki aðhafast í málinu.

Kærunefnd telur hvorki óeðlilegt né ósanngjarnt að gera almennt þá kröfu til umsækjenda um alþjóðlega vernd, líkt og í tilviki kærenda, að þeir leggi fram gögn sem sýni fram á að þeir hafi leitað til lögreglu og/eða að málið hafi verið fellt niður, s.s. lögregluskýrslur. Verður því ekki fallist á það með kærendum að Útlendingastofnun hafi gert of miklar sönnunarkröfur.

Athugasemdir kærunefndar við ákvarðanir Útlendingastofnunar

Kærunefnd gerir athugasemd við að ekki hafi verið tekin afstaða til aðstæðna K og dætra kærenda með hliðsjón af stöðu kvenna í Kólumbíu. Að mati kærunefndar hefði verið rétt að fjalla um aðstæður kvenna og kynbundið ofbeldi í ljósi frásagna kærenda og A varðandi kynferðislega áreitni fjölskyldumeðlims í garð A. Var þessi þáttur ákvarðananna ekki í samræmi við 10. og 22. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, sbr. 2. mgr. 23. gr. laga um útlendinga. Með vísan til framangreindrar umfjöllunar kærunefndar hefur verið bætt úr annmarka þessum á málsmeðferð Útlendingastofnunar á kærustigi. Þá er ljóst að mati kærunefndar að umræddur annmarki hafði ekki áhrif á efnislega niðurstöðu málsins og því ekki til ástæða til að ógilda ákvörðun stofnunarinnar af þeim sökum.

Brottvísun og endurkomubann 

Í 3. mgr. 43. gr. reglugerðar um útlendinga nr. 540/2017 kemur fram að verði umsækjanda um alþjóðlega vernd ekki veitt dvalarleyfi skuli Útlendingastofnun taka ákvörðun um frávísun eða brottvísun eftir ákvæðum laga um útlendinga og að útlendingur sem sótt hafi um alþjóðlega vernd teljist hafa áform um að dveljast á landinu lengur en 90 daga. Samkvæmt 2. mgr. 98. gr. laga um útlendinga skal vísa útlendingi úr landi sem dvelst ólöglega í landinu eða þegar tekin hefur verið ákvörðun sem bindur enda á heimild útlendings til dvalar í landinu svo framarlega sem ákvæði 102. gr. laganna eigi ekki við. Í 102. gr. laganna er kveðið á um vernd og takmarkanir við ákvörðun um brottvísun. Samkvæmt 3. mgr. 102. gr. laganna skal brottvísun ekki ákveðin ef hún, með hliðsjón af atvikum, alvarleika brots og tengslum útlendings við landið, felur í sér ósanngjarna ráðstöfun gagnvart útlendingi eða nánustu aðstandendum hans. Sérstaklega skal taka tillit til þess ef um barn eða nánasta aðstandanda barns er að ræða og skal það sem barni er fyrir bestu haft að leiðarljósi við ákvörðun. Við mat á því hvort brottvísun feli í sér ósanngjarna ráðstöfun gagnvart kæranda verður að hafa ákvæði 71. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands, sbr. nr. 33/1944 og 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu um friðhelgi einkalífs og fjölskyldu til hliðsjónar. Þegar útlendingur á hagsmuna að gæta í skilningi 8. gr. sáttmálans verður ákvörðun um brottvísun að vera í samræmi við það sem lög mæla fyrir um og nauðsyn ber til í lýðræðislegu þjóðfélagi, sbr. 2. mgr. 8. gr. sáttmálans.

Samkvæmt 1. mgr. 101. gr. laganna felst í endanlegri ákvörðun um brottvísun skylda útlendings til þess að yfirgefa Schengen-svæðið nema viðkomandi hafi heimild til dvalar í öðru ríki sem er þátttakandi í Schengen-samstarfinu. Með lögum um landamæri nr. 136/2022 voru gerðar breytingar á 98. gr. laga um útlendinga sem leiða til þess að brottvísun og endurkomubann er nú beitt þar sem áður var beitt frávísun en veita skal frest til sjálfviljugrar heimfarar, sbr. 104. gr. laga um útlendinga. Sá sem sætir slíkri ákvörðun getur komist hjá endurkomubanni með því að yfirgefa landið sjálfviljugur innan frestsins sbr. 3. mgr. 101. gr. laga um útlendinga. 

Samkvæmt gögnum málsins sóttu kærendur um alþjóðlega vernd hér á landi 11. ágúst 2022 fyrir sig og börn sín. Eins og að framan greinir hefur umsóknum kærenda og barna þeirra um alþjóðlega vernd og dvalarleyfi á grundvelli 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga verið synjað. Hafa þau því ekki frekari heimild til dvalar hér á landi. Af framangreindu leiðir að með hinu kærðu ákvörðunum var réttilega bundinn endir á heimild kærenda og barna þeirra til dvalar hér á landi og ber því samkvæmt 2. mgr. 98. gr. laga um útlendinga að vísa kærendum og börnum þeirra úr landi nema 102. gr. laganna standi því í vegi. Það athugast að kæra til kærunefndar útlendingamála frestaði réttaráhrifum hinna kærðu ákvarðana.

Kærendum var í viðtali hjá Útlendingastofnun leiðbeint um að til skoðunar væri að brottvísa þeim og börnum þeirra frá Íslandi og ákvarða kærendum endurkomubann hingað til lands. Var kærendum gefið færi á að koma að andmælum hvað það varðar. Kærendur greindu frá því að eiga vini á Spáni og fjölskyldumeðlimi sem þau væru þó ekki náin. Þá kváðust kærendur hafa komið hingað til lands til að öðlast betra líf fyrir sig og börn sín.

Af þeim svörum sem kærendur gáfu um tengsl sín við Ísland og önnur Schengen-ríki verður ekki séð að brottvísun þeirra og barna þeirra og endurkomubann kærenda verði talin ósanngjörn ráðstöfun í garð kærenda eða nánustu aðstandenda þeirra, sbr. 3. mgr. 102. gr. laga um útlendinga. Þá horfir kærunefnd jafnframt til þess að kærendur geta komist hjá endurkomubanni og afleiðingum þess yfirgefi þau Ísland innan þess frest sem þeim er gefinn.  

Í ákvörðunarorðum í ákvörðunum Útlendingastofnunar í málum kærenda og barna þeirra er þeim brottvísað og kærendum ákvarðað endurkomubann til tveggja ára. Var kærendum veittur 15 daga frestur til að yfirgefa landið auk þess sem tekið var fram að yfirgefi þau landið sjálfviljug innan þess frests verði endurkomubannið fellt niður.

Að mati kærunefndar og með vísan til 2. mgr. 104. gr. laga um útlendinga teljast 15 dagar hæfilegur frestur í tilviki kærenda og barna þeirra til að yfirgefa landið. Endurkomubann kærenda fellur niður yfirgefi kærendur landið sjálfviljug innan framangreinds frests.

Samantekt

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið og forsendna hinna kærðu ákvarðana eru ákvarðanir Útlendingastofnunar í málum kærenda og barna þeirra staðfestar.

Athygli kærenda er vakin á því að samkvæmt 6. mgr. 104. gr. laga um útlendinga frestar málshöfðun fyrir dómstólum til ógildingar á endanlegri ákvörðun um að útlendingur skuli yfirgefa landið ekki framkvæmd hennar. Að kröfu útlendings getur kærunefnd útlendingamála þó ákveðið að fresta réttaráhrifum endanlegrar ákvörðunar sé talin ástæða til þess. Krafa þess efnis skal gerð ekki síðar en sjö dögum eftir birtingu endanlegrar ákvörðunar. Skal frestun bundin því skilyrði að útlendingur beri málið undir dómstóla innan fimm daga frá birtingu ákvörðunar um frestun réttaráhrifa úrskurðar og óski eftir að það hljóti flýtimeðferð. Nú er beiðni um flýtimeðferð synjað og skal þá mál höfðað innan sjö daga frá þeirri synjun. Þó getur kærunefnd útlendingamála tekið ákvörðun um að fresta framkvæmd ákvörðunarinnar ef sýnt er fram á að verulega breyttar aðstæður hafi skapast frá því að endanleg ákvörðun var tekin.

Úrskurðarorð:

Ákvarðanir Útlendingastofnunar í málum kærenda og barna þeirra eru staðfestar. Endurkomubann kærenda verður fellt úr gildi fari þau sjálfviljug frá Íslandi innan 15 daga.

The decisions of the Directorate of Immigration in the cases of the appellants and their children are affirmed. If the appellants leave Iceland voluntarily within 15 days, the re-entry ban will be revoked.

Þorsteinn Gunnarsson

Sindri M. Stephensen                                                Þorbjörg I. Jónsdóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta