Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 137/2024-Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 137/2024
Föstudaginn 7. júní 2024

A

gegn

B

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Björn Jóhannesson lögfræðingur og Helgi Viborg sálfræðingur.

Með kæru, dags. 18. mars 2024, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun B, dags. 26. febrúar 2024, um að loka máli samkvæmt 1. mgr. 23. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 (bvl.) vegna dóttur kæranda, C.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Stúlkan, C, er X ára gömul. Kærandi og móðir stúlkunnar fara saman með forsjá hennar en lögheimili stúlkunnar er hjá kæranda sem er faðir hennar.

Mál stúlkunnar var tekið fyrir hjá starfsmönnum Br þann 13. febrúar 2024 og var niðurstaðan sú að loka bæri barnaverndarmálinu. Tilkynnt var um lokun málsins með bréfi til foreldra, dags. 26. febrúar 2024.  

Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd velferðarmála þann 18. mars 2024. Með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 10. apríl 2024, var óskað eftir greinargerð B ásamt gögnum málsins. Greinargerð B barst nefndinni með bréfi, dags. 18. apríl 2024. Með bréfi, dags. 22. apríl 2024 var greinargerðin send kæranda til kynningar. Athugasemdir kæranda bárust með bréfi, dags. 24. apríl 2024 og voru þær sendar barnavernd til kynningar með bréfi, dags. 30. apríl 2024. Frekari athugasemdir bárust ekki. 


 

II.  Sjónarmið kæranda

Kærð er ákvörðun B um að loka barnaverndarmáli dóttur kæranda. Ráðið verður af kæru að þess sé krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Í kæru segir að kærandi telji að ákvörðun um loka málinu hafi verið röng og óheimil. Því til stuðnings bendir kærandi á að stúlkan hafi mánuðum saman óskað eftir því að koma sínum sjónarmiðum á framfæri beint við B en ekki fengið áheyrn.

Í greinargerð kæranda segir að efnislega fari B með rétt mál og sé hann sammála því að samþætta eigi þjónustu samkvæmt 10-12. gr. laga nr. 86/2021 um samþættingu þjónustu í þágu farsælar barna (farsældarlögin) og ekki séu gerðar athugasemdir við að börn færist á milli þjónustustiga. Kærandi geri samt faglega athugasemd við þessa nálgun, þ.e. ef málastjórn færist til megi ætla að farsæld barns sé hætta búin. Kærandi telji því að málastjóri skuli áfram vera sá sami, í öllu falli að nýjum málastjóra verði komið vel inn í málið áður en yfirfærsla á sér stað.

Kærandi gerir athugasemd við að B hafi ekki upplýst hann um þá hættu sem stafaði af […]. Bæði kærandi og stúlkan séu hrædd við hann og sé kærandi hræddur um stúlkuna þegar […] sé einn með henni. Stúlkan sé sannarlega í flóknum aðstæðum sem geta haft alvarlegar afleiðingar í för með sér. Að því sögðu telur kærandi að stúlkan eigi að fá þriðja stigs þjónustu, sbr. 12. gr. farsældarlaganna. Þá bendir kærandi á að hjá D sé ekkert í gangi og engin virk umsókn þar.

Kærandi kveðst sannarlega hafa fyrir hönd stúlkunnar óskað eftir samtali við B. Þann 14. desember 2023 hafi kæranda verið boðið til viðtals og fór það viðtal fram 8. janúar 2024. Í viðtalinu hafi kærandi látið vita að stúlkan vildi fá að ræða við B. Líkt og bersýnilega sést hafi B verið fullmeðvituð um þessa ósk stúlkunnar og séu gerðar verulegar athugasemdir við málflutning B hvað þetta varðar. Að mati kæranda sé málflutningurinn ámælisverður.

Kærandi óskar þess að unnið verði að málefnum barna hans af heilindum, þeirra hagsmunir hafðir ofar en hagsmunir einstakra stafsmanna. Eins fari kærandi fram á hið sjálfsagða, að hvorugt barna hans líði fyrir óskýrt orðalag í lagatexta – það sé annar vettvangur fyrir slíkt.

III.  Sjónarmið B

Í greinargerð B kemur fram að um sé að ræða stúlku sem lúti sameiginlegri forsjá foreldra sinna en með lögheimili hjá föður. Málefni stúlkunnar hafi verið til vinnslu hjá B frá desember 2022 þar til málinu hafi verið lokað í febrúar 2024. Mál stúlkunnar hafi fyrst verið bókað á meðferðarfundi starfsmanna þann 14. mars 2023. Í bókun hafi komið fram að miklir erfiðleikar hafi verið í samskiptum foreldra og ættingjar þeirra komið til aðstoðar. Þá hafði stúlkan lýst daglegum rifrildum við föður. Faðir hafði lýst því að setja meiri mörk og strangari kröfur en móðir. Barnavernd lagði til í bókun að sótt yrði um MST fjölkerfameðferð fyrir fjölskylduna í samráð við foreldra með það að markmiði að styrkja foreldra í uppeldishlutverki sínu, koma samræmi á milli heimila og draga úr samskiptavanda innan fjölskyldunnar. Þá hafði stúlkan verið í viðtölum hjá sálfræðingi og hafi það verið mat B að stúlkan fengi listmeðferð í stað viðtalsmeðferðar. Þá hafi verið gerð áætlun um meðferð máls skv. 23. gr. barnaverndarlaga til sex mánaða.

Málið hafi verið bókað á meðferðarfundi þann 25. apríl 2023 þar sem lagt hafi verið til að send yrði tilvísun í E vegna tíu listmeðferðarviðtala fyrir stúlkuna.

Þann 31. október 2023 hafi málið verið bókað á meðferðarfundi. Kom fram að stúlkan hafi þá verið byrjuð í listmeðferð og báðir foreldrar samþykkir þátttöku í fjölskyldumeðferð hjá fyrrum meðferðaraðila þeirra með það að markmiði að bæta samskipti sín. Bókað hafi verið um að Barnavernd greiddi fimm viðtöl fyrir hvort foreldri hjá fjölskyldumeðferðarfræðingi. Þá yrði sótt um einstaklingsstuðning til D fyrir stúlkuna í alls 16 tíma yfir þriggja mánaða tímabil og áætlun um meðferð máls framlengd um þrjá mánuði.

Þann 18. janúar 2024 hafi mál stúlkunnar verið bókað. Samkvæmt upplýsingum frá listmeðferðarfræðing hafði stúlkan verið að mæta í viðtöl í E og nýtt þau vel. Það væri mat listmeðferðarfræðings að stúlkan væri í mikilli þörf fyrir áframhaldandi viðtöl. E hafði óskað eftir tíu viðtölum til viðbótar. Bókað hafi verið um tíu listmeðferðarviðtöl fyrir stúlkuna í samræmi við tillögu listmeðferðarfræðings.

Þann 13. febrúar 2024 hafi málefni stúlkunnar verið bókað. Kemur þar fram að stúlkan hafði ekki fengist til að fara í viðtöl hjá fjölskyldumeðferðarfræðing en það hafi staðið henni til boða. Með Fjölskyldumeðferð hafi markmiðið verið að bæta samskipti allra fjölskyldumeðlima á milli heimila foreldra. Einstaklingsstuðningur hjá D, alls 16 klst. yfir þriggja mánaða tímabil hafi einnig verið samþykktur og hafi stúlkan verið á bið eftir þjónustunni. Stúlkan hafði þá verið í viðtölum hjá listmeðferðarfræðing í E frá því í september 2023 en henni hafi verið vísað þangað eftir tilraun til sjálfsvígs vegna vanlíðan sem tengdist meðal annars skilnaði foreldra og samskiptaörðugleika í fjölskyldunni. Samkvæmt meðferðaraðila hafi komið fram jákvæðar breytingar á líðan stúlkunnar og samskiptum annarra fjölskyldumeðlima þó stúlkan glímdi enn við flóknar tilfinningar í kjölfar breyttra fjölskylduaðstæðna. Samhliða D hafi verið samþykkt að greiða tíu tíma í áframhaldandi listmeðferð fyrir stúlkuna en hún hafði þá lokið alls 20 tímum. Í bókun hafi verið lagt til að máli stúlkunnar yrði lokað og í samráð við foreldra yrði bókun send á ráðgjafa foreldra í F. Málefni stúlkunnar hafi því verið fært frá þriðja stigi yfir á aðra stigs þjónustu, sbr. ákvæði laga nr. 86/2021 um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna. Foreldrum hafi verið sent lokabréf eftir meðferðarvinnu þann 26. febrúar 2024. Þann 8. apríl 2024 hafi bréf verið sent á G vegna lokun máls og málefni stúlkunnar rakið.

Þrátt fyrir lokun máls hjá B njóti stúlkan enn stuðnings sem bókaður hafi verið þann 13. febrúar 2024. Stúlkan sé í listmeðferð sem hafi skilað góðum árangri og þá sé stúlkan að byrja í einstaklingsstuðning á vegum D. D sé miðlægt stuðningsúrræðum á vegum Reykjavíkurborgar og ekki þörf á aðkomu Barnaverndar svo fjölskyldan eigi aðgang að því. Fjölskyldan sé eins og fram hefur komið með ráðgjafa á Þjónustumiðstöð sem veitir stuðning og/eða ráðgjöf til foreldra og barna. Á Þjónustumiðstöðvum starfa margir fagaðilar sem hafa reynslu og þekkingu sem getur nýst þeim vel sem standa frammi fyrir erfiðleikum. Miðstöðvar vinna náið með skólum, frístundamiðstöðvum og fleiri aðilum að velferðarmálum barna og unglinga. Þá séu miðstöðvar jafnframt með góða þekkingu á ýmsum úrræðum, svo sem stuðningsúrræðum, námskeiðum og fræðslu sem stuðla að auknum lífsgæðum fyrir fjölskyldur, börn og einstaklinga.

Í frumvarpi sem varð að lögum nr. 86/2021 um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna kemur fram um 10. gr. að stigskipting miðast við að fara frá almennum til sérhæfðari úrræða. Þannig má gera ráð fyrir að allir nýti að einhverju leyti þjónustu á fyrsta stigi en tiltölulega lítill hópur muni þurfa þjónustu á þriðja stigi. Undirstrika beri að stofnanir tilheyra ekki tilteknu þjónustustigi heldur verður að greina eðli þeirra þjónustu sem stofnun veitir. Þannig beri að meta hvort tiltekin stofnun veitir þjónustu á einu eða fleiri þjónustustigum og hvaða þjónusta tilheyrir hverju stigi. Árétta beri að barn geti notið þjónustu sem tilheyrir fleiri en einu þjónustustigi á hverjum tíma. Þá geta þarfir barns fyrir þjónustu breyst þannig að barn sem um tíma hefur til dæmis notið þjónustu á þriðja stigi þurfi ekki lengur á svo umfangsmikilli þjónustu að halda heldur dugi þjónusta á öðru eða jafnvel fyrsta stigi. Þá komi fram í sama frumvarpi um 11. gr. að annars stigs þjónustu í þágu farsældar barna tilheyra úrræði þar sem veittur er einstaklingsbundinn og markvissari stuðningur en veittur er á fyrsta stigi með það að markmiði að tryggja farsæld barns. Með því sé átt við úrræði þar sem þörf sé á sérhæfðari eða fjölbreyttari þjónustu en veitt sé á fyrsta stigi þjónustu á þann hátt að skortur á slíkum stuðningi kunni að hafa neikvæð áhrif á aðstæður og líðan barns. Dæmi um þjónustu á öðru stigi sé ýmis stuðningsþjónusta á vegum félags- og skólaþjónustu sveitarfélaga, sérdeildir eða starfsbrautir í skólum. Í þessu samhengi sé vísað til þess að hjá Reykjavíkurborg séu þjónustumiðstöðvar flokkaðar sem annars stigs þjónusta, sbr. 11. gr. laga um samþættingu. Um 12. gr. frumvarpsins segir að þriðja stigs þjónusta í þágu farsældar barna tilheyra úrræði þar sem sé veittur sérhæfðari stuðningur til að tryggja að farsæld barns verði ekki hætta búin. Barn sem njóti þjónustu á þessu stigi hafi að jafnaði flókinn og fjölþættan vanda og mikla umönnunarþörf. Barn sé þá í aðstæðum þar sem skortur sé á viðeigandi stuðningi og úrræðum getur haft alvarlegar afleiðingar og ógnað heilsu þess og þroska. Lögð sé áhersla á þá aðgreiningu milli annars og þriðja stigs að afleiðingar skorts á stuðningi á þriðja stigi séu alvarlegri en á öðru stigi. Orðalagið um sérhæfðan stuðning gefi til kynna að þjónusta sem tilheyrir stiginu sé veitt af starfsfólki með sérhæfða þjálfun. Dæmi um þjónustu á þriðja stigi séu ýmis vistunarúrræði á grundvelli barnaverndaralaga, umfangsmikill og fjölþættur stuðningur við fötluð börn og langvarandi sjúkrahúsdvöl barna.

Það sé mat B sbr. bókun meðferðarfundar 13. febrúar 2024 að vandi stúlkunnar sé ekki þess eðlis í dag að þörf sé á þriðja stigs þjónustu í málefnum barnsins. Mikilvægt sé að fullreyndur verði nú sá stuðningur sem foreldrum og barni býðst á þjónustumiðstöð, þá annars stigs þjónustu.

Í kæru föður til úrskurðarnefndar um lokun málsins hjá B vísar hann til þess að hann telji þá ákvörðun ranga og óheimila. Því til stuðnings bendir faðir á að stúlkan hafi mánuðum saman óskað eftir að koma sínum sjónarmiðum á framfæri við B án þess að hljóta áheyrn.

Við könnun og meðferð málsins hjá B hitti ráðgjafi Barnaverndar stúlkuna þann 15. febrúar 2023. Samkvæmt dagálsnótu, dags. 15. febrúar 2023 hafi stúlkan verið viðræðugóð. Stúlkan vísaði til þess að foreldrar ættu ekki í góðum samskiptum. Stúlkan greindi frá því að líða vel en þegar henni líði illa væri það helst af félagslegum toga í skólaumhverfinu. Stúlkan sagðist vera hjá sálfræðingi og líkaði það ágætlega.

Ráðgjafi hitti stúlkuna aftur þann 9. ágúst 2023. Ráðgjafi ræddi við stúlkuna hvernig sumarið hafði gengið og kom fram að stúlkan hafði lent í félagslegum átökum við […]. Þá hafi verið brýnt fyrir stúlkunni um mikilvægi þess að leita til fullorðinna ef hún væri í þörf fyrir aðstoð vegna samskipta við jafnalda eða ef upp kæmi vanlíðan hjá stúlkunni. Aðspurð sagðist stúlkunni ekki hafa líkað við sálfræðing sinn en væri opin fyrir viðtölum hjá öðrum sálfræðingi. Rætt hafi verið við föður þann 15. ágúst 2023 eftir viðtal við stúlkuna sem upplýsti starfsmann að stúlkan væri í meira jafnvægi en áður. Jákvæðar breytingar hefðu orðið og betri samskipti milli systkinanna. Þá kom faðir til viðtals hjá starfsmönnum þann 19. febrúar 2024 en ekki kom fram á þeim fundi eða á öðrum tíma að stúlkan vildi sérstaklega fá áheyrn hjá Barnavernd eins og fram kemur í kæru föður. Föður hafi verið kynnt bókun vegna lokun máls á þeim fundi og hafi hann verið sammála um að loka ætti máli stúlkunnar. Fram kom að vanlíðan stúlkunnar snerist að samskiptavanda stúlkunnar við vinkonur sínar og ekki væri tilefni til aðkomu Barnaverndar vegna þessa.

Í ljósi framangreinds og gagna málsins sé fyrir hönd B gerð krafa um að hin kærða ákvörðun verði staðfest.

VI.  Niðurstaða

Stúlkan, C, er dóttir kæranda. Kærandi og móðir stúlkunnar fara saman með forsjá hennar en lögheimili stúlkunnar er hjá kæranda.

Samkvæmt 22. gr. bvl. er það markmið könnunar máls að afla nauðsynlegra upplýsinga um aðstæður barns og meta þörf fyrir úrræði samkvæmt ákvæðum bvl., allt í samræmi við hagsmuni og þarfir barns. Í þessu skyni skal þjónustan kappkosta að afla sem gleggstra upplýsinga um hagi barns, svo sem andlegt og líkamlegt ásigkomulag, tengsl við foreldra eða aðra, hagi foreldra, aðbúnað á heimili, skólagöngu, hegðun og líðan þess. Leita skal aðstoðar sérfræðinga eftir því sem þörf krefur. Um könnun máls, rannsóknarheimildir barnaverndarnefnda, skyldu til að láta barnaverndarþjónustu í té upplýsingar og málsmeðferð fyrir barnaverndarþjónustu almennt, gilda ákvæði VIII. kafla bvl.

Í 23. gr. bvl. segir að þegar mál hafi verið nægjanlega kannað að mati barnaverndarþjónustu skal þjónustan taka saman greinargerð þar sem lýst er niðurstöðum könnunar, tiltekið er hverra úrbóta sé þörf og settar eru fram tillögur að heppilegum úrræðum ef því er að skipta. Í greinargerð skal sérstaklega tiltaka hvernig barni var gefinn kostur á að koma sjónarmiðum sínum á framfæri og hvernig tillit var tekið til skoðana barnsins, eftir því sem við á. Ákvörðun barnaverndarþjónustu um að loka máli á þessu stigi geta foreldrar skotið til úrskurðarnefndar velferðarmála.

Í bókun meðferðarfundar, dags. 13. febrúar 2024, hefur mál stúlkunnar verið til meðferðar hjá  barnaverndaryfirvöldum frá desember 2022. Frá árinu 2015 hafa borist alls 14 tilkynningar í máli stúlkunnar sem voru vegna heimilisofbeldis, vanrækslu, sjálfskaðandi hegðun stúlkunnar, erfiðar heimilisaðstæður og […]. Foreldrar hafa báðir samþykkt þátttöku í fjölskyldumeðferð sem er hafinn en stúlkan hefur ekki samþykkt að fara til fjölskylduráðgjafa. […]. Miklir samskiptaerfiðleikar hafa verið á milli foreldra stúlkunnar frá skilnaði og eiga þau í mjög takmörkuðum samskiptum. Stúlkan var með jafna umgengni við foreldra þar til haustið 2023 þegar faðir tók fyrir umgengni við móður. Stúlkan er því alfarið búsett á heimili föður þar sem hún er einnig með lögheimili. […]. Stúlkan hefur verið í viðtölum hjá listmeðferðarfræðingi í E frá því í september 2023 […]. Þá er hún á bið eftir einstaklingsstuðningi hjá D. Stúlkna hefur verið að glíma við vanlíðan sem m.a. tengist skilaði foreldra og samskiptaerfiðleikum í fjölskyldunni. Að mati meðferðaraðila hafa komið fram jákvæðar breytingar á líðan stúlkunnar og samskiptum þrátt fyrir að hún glími enn við flóknar tilfinningar vegna breyttra fjölskylduaðstæðna.

Við úrlausn málsins ber úrskurðarnefndinni að leysa úr því hvort B hafi réttilega metið það svo að ekki væri þörf á að hafa frekari afskipti af málefnum stúlkunnar og því bæri að loka því með vísan til 1. mgr. 23. gr. bvl.

Fyrir liggur að þegar ákvörðun var tekin um að hefja könnun máls var í ljósi þeirrar tilkynningar sem borist hafði verið lagt upp með því að bregðast við vanda stúlkunnar. Ekki verður annað ráðið af gögnum málsins en að könnun málsins hafi gengið eftir í samræmi við fyrirætlan þar um að öðru leyti en því að ekki náðist að ræða við kæranda í síma. Þá er til þess að líta að gögn málsins gefa til kynna að stúlkan fái áfram þá sérhæfðu þjónustu sem hún þarfnast og ekki verði rof í þjónustu þrátt fyrir að málið færist frá barnaverndarþjónustu til þjónustumiðstöðvar. Úrskurðarnefnd velferðarmála telur samkvæmt framansögðu að rannsókn málsins hafi verið fullnægjandi með hliðsjón af þeim gögnum sem aflað var í málinu.      

Úrskurðarnefndin telur því að ekki sé tilefni til þess að hrófla við því mati B að rétt hafi verið að loka málinu samkvæmt 1. mgr. 23. bvl. Aflað hafi verið viðeigandi upplýsinga um hagi stúlkunnar og rannsókn málsins í samræmi við 41. gr. bvl.

Með vísan til alls þess, sem að framan er rakið, er það niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að staðfesta beri hina kærðu ákvörðun B.


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun B, dags. 26. febrúar 2024, um að loka máli vegna stúlkunnar C, er staðfest.

 

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

 

Kári Gunndórsson

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta