Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 62/2022-Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Beiðni um endurupptöku máls nr. 62/2022

Miðvikudaginn 15. júní 2022

A

gegn

Barnaverndarnefnd B

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Björn Jóhannesson lögfræðingur og Guðfinna Eydal sálfræðingur.

Með bréfi, mótteknu 29. apríl 2022, óskaði A, eftir því að úrskurðarnefnd velferðarmála tæki mál hans til meðferðar og úrskurðaði um umgengni hans við börn sín, C, og D. 

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kæra, dags. 12. janúar 2022, vegna úrskurðar Barnaverndarnefndar B, dags. 23. nóvember 2021, barst úrskurðarnefnd velferðarmála með bréfi þann 26. janúar 2022 sem póstlagt var 24. janúar 2022. Með bréfi úrskurðarnefndar velferðarmála, dags. 10. mars 2022, var óskað eftir skýringum kæranda á því hvers vegna kæra hafi borist að kærufresti liðnum með vísan til 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Svar kæranda barst með tölvupósti, dags. 12. mars 2022. Í svari kæranda komu ekki fram skýringar á því hvers vegna kæra barst að liðnum kærufresti. Með úrskurði úrskurðarnefndar velferðarmála, dags. 11. apríl 2022, var kæru vísað frá nefndinni. Með bréfi, dags. 9. apríl 2022, sem barst úrskurðarnefndinni 29. apríl 2022 og var póstlagt 12. apríl 2022 gerir kærandi kröfu til þess að úrskurðað verði í málinu.


 

II.  Sjónarmið kæranda

Í beiðni kemur fram að kærandi fari fram á umgengni við börn sín. Kærandi kveðst vilja fá réttlæti í málinu og umgengni fjórum sinnum á ári, auk þess sem umgengni verði lengd í þrjár klukkustundir í senn. Kærandi kveðst sér vera treystandi fyrir börnunum og vilji því að umgengni fari fram án eftirlits.

III. Niðurstaða

Líta verður á erindi kæranda sem beiðni um endurupptöku á úrskurði úrskurðarnefndar velferðarmála, dags. 11. apríl 2022. Með fyrrgreindum úrskurði var kæru vísað frá þar sem hún barst að kærufresti liðnum.

Samkvæmt 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 á aðili máls rétt á því að mál hans sé tekið til meðferðar á ný ef ákvörðun stjórnvalds hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik, eða íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því að ákvörðun var tekin.

Aðili máls getur einnig átt rétt á endurupptöku máls á grundvelli annarra ólögfestra reglna stjórnsýsluréttar, til að mynda ef ákvörðun stjórnvalds hefur byggst á röngu mati stjórnvalds.

Að mati úrskurðarnefndar velferðarmála verður ekki ráðið af gögnum málsins að niðurstaða nefndarinnar hafi byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik, sbr. 1. mgr. 24. gr. laga nr. 37/1993. Þá verður heldur ekki séð að kærandi eigi rétt á endurupptöku málsins á grundvelli ólögfestra reglna stjórnsýsluréttar. Þá telur úrskurðarnefndin að ekki sé tilefni til að afturkalla úrskurðinn með vísan til 25. gr. stjórnsýslulaga.

Með hliðsjón af framangreindu er beiðni kæranda um endurupptöku máls úrskurðarnefndar velferðarmála nr. 62/2022 synjað.


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Beiðni A, um endurupptöku máls nr. 62/2022 hjá úrskurðarnefnd velferðarmála, er synjað.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Kári Gunndórsson

 

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta