Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 80/2012.

 

Miðvikudaginn 19. júní 2013 var á fundi úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála tekið fyrir mál nr. 80/2012:

 

Kæra A

á ákvörðun

Íbúðalánasjóðs

 

og kveðinn upp svohljóðandi

 

Ú R S K U R Ð U R

 

A, hér eftir nefnd kærandi, hefur með kæru, dags. 10. september 2012, skotið til úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála ákvörðun Íbúðalánasjóðs, frá 15. júní 2012, um synjun á greiðsluerfiðleikaaðstoð. 

 

 

I. Helstu málsatvik og kæruefni

 

Kærandi kærði synjun um greiðsluerfiðleikaaðstoð til úrskurðarnefndarinnar, með bréfi dags. 10. september 2012. Kæranda hafði áður verið veittur greiðslufrestur á láni hjá Íbúðalánasjóði í þrjú ár, fyrir árin 2009, 2010 og 2011. Kærandi fór að nýju fram á greiðslufrest hjá Íbúðalánasjóði með bréfi, dags. 13. júní 2012, en var synjað. Í ákvörðunarbréfi Íbúðalánasjóðs, dags. 15. júní 2012, kemur fram að greiðsluerfiðleikanefnd Íbúðalánasjóðs hafi metið umsókn kæranda um aðstoð vegna greiðsluerfiðleika. Niðurstaða nefndarinnar hafi verið sú að Íbúðalánasjóður gæti ekki orðið við beiðni um greiðsluerfiðleikaaðstoð þar sem ekki sé hægt að sækja um frystingu á lánum Íbúðalánasjóðs til lengri tíma en þriggja ára. Með bréfi, dags. 25. júlí 2012, óskaði kærandi eftir því að Íbúðalánasjóður endurskoðaði ákvörðun um synjun um frystingu. Ekkert svarbréf frá Íbúðalánasjóði liggur fyrir í gögnum málsins.

 

 

II. Málsmeðferð

 

Með bréfi, dags. 14. september 2012, óskaði úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála eftir upplýsingum um meðferð málsins og frekari gögnum ef þau væru fyrir hendi hjá Íbúðalánasjóði. Að auki var þess farið á leit við Íbúðalánasjóð að tekin yrði afstaða til kærunnar. Með bréfi til úrskurðarnefndarinnar, dags. 24. september 2012, tilkynnti Íbúðalánasjóður að kærandi hafi þegar fengið frestun á greiðslum í þrjú ár á árunum 2009, 2010 og 2011 og því óheimilt að veita lengri frest, sbr. 2. mgr. 48. gr. laga um húsnæðismál, nr. 44/1998. Með bréfi úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála, dags. 1. október 2012, var bréf Íbúðalánasjóðs sent kæranda til kynningar. Engar frekari athugasemdir bárust frá kæranda. Með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 5. desember 2012, var kæranda tilkynnt um tafir á afgreiðslu máls.

 

 

III. Sjónarmið kæranda

 

Kærandi fer þess á leit að ákvörðun um synjun umsókn um greiðslufrest verði endurskoðuð. Kærandi kveðst upphaflega hafa sótt um greiðslufrest sem einstæð móðir með fjögur börn. Kærandi hafi síðar hafið sambúð, skipt um eign og sótt aftur um greiðslufrest. Á þeim tíma kveðst kærandi hafa náð að lækka skammtímaskuldir sínar umtalsvert auk þess sem kærandi hafi ásamt sambýlismanni sínum farið í þrjár tæknifrjóvganir sem allar hafi misheppnast. Árið 2011 hafi komið í ljós kom að kærandi gengi með barn. Kærandi hafi unnið fram á síðasta mánuð fyrir fæðingu en þegar mánuður hafi verið í fæðingu hjá kæranda hafi sambýlismaður hennar misst vinnuna og í kjölfarið komið í ljós sjúkdómur hjá honum sem hann hafi þurft að leita meðferðar við í fjórar vikur. Töluverðar tekjur heimilisins hafi dottið niður á þessu tímabili auk þess sem tekjur kæranda hafi skerst í fæðingarorlofinu. Kærandi kveður það hafa verið ástæðu þess að þau hafi ekki náð endum saman og því hafi verið sótt um greiðslufrest að nýju. Kærandi upplýsir að sambýlismaður hennar hafi óvænt fengið vinnu 1. júlí 2012 en eftir sitji tveir ógreiddir gjalddagar sem þau sjá sér ekki fært að greiða. Kærandi fari þess á leit að umsókn um greiðslufrest verði samþykkt í sex mánuði frá og með 1. ágúst 2012 og að tveimur gjalddögum, fyrir júní og júlí verði bætt við höfuðstól lánsins.

 

 

IV. Sjónarmið Íbúðalánasjóðs

 

Í bréfi Íbúðalánasjóðs til úrskurðarnefndarinnar, dags. 24. september 2012, áréttar sjóðurinn að forsenda synjunar á umsókn kæranda um greiðslufrestun hafi verið sú að kærandi hafi þegar fengið frestun á greiðslum í þrjú ár, árin 2009, 2010 og 2011 og því sé óheimilt að veita lengri frest á grundvelli 2. mgr. 48. gr. laga um húsnæðismál, nr. 44/1998.


 

V. Niðurstaða

 

Málskot kæranda er reist á 1. mgr. 42. gr. laga um húsnæðismál, nr. 44/1998. Hlutverk úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála er meðal annars að skera úr ágreiningsmálum er kunna að rísa vegna ákvarðana Íbúðalánasjóðs og húsnæðisnefnda.

 

Úrskurðarnefndin vekur athygli á því að í ákvörðunarbréfi Íbúðalánasjóðs, dags. 15. júní 2012, er tekið fram að ákvörðun Íbúðalánasjóðs sé kæranleg til kærunefndar húsnæðismála. Umrædd ákvörðun er kæranleg til úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála skv. 1. mgr. 42. gr. laga um húsnæðismál, nr. 44/1998, með síðari breytingum.

 

Kærandi sótti um greiðslufrest á láni hjá Íbúðalánasjóði vegna greiðsluerfiðleika og var synjað á grundvelli þess að hún hefði þegar fengið frestun á greiðslum í þrjú ár og því hafi Íbúðalánasjóði verið óheimilt að veita lengri frest, sbr. 2. mgr. 48. gr. laga um húsnæðismál, nr. 44/1998.

 

Samkvæmt 2. mgr. 48. gr. laga um húsnæðismál er stjórn Íbúðalánasjóðs heimilt að fresta greiðslum hjá einstökum lánþegum vegna almennra lána, viðbótarlána og lána sem sjóðurinn hefur yfirtekið, í allt að þrjú ár og leggja þær greiðslur við höfuðstól skuldarinnar, þyki slík aðstoð líkleg til að koma í veg fyrir greiðsluvanda. Skilyrði fyrir beitingu úrræðisins er að greiðsluvandi stafi af óvæntum tímabundnum erfiðleikum vegna veikinda, slysa, minni atvinnu eða atvinnuleysis eða af öðrum ófyrirséðum atvikum. Kærandi hefur þegar fengið frestun á greiðslum í þrjú ár, árin 2009, 2010 og 2011. Að auki er kveðið á um greiðslufrest í 10. gr. reglugerðar nr. 584/2001, um úrræði til að bregðast við greiðsluvanda vegna lána Íbúðalánasjóðs, sem á sér stoð í 50. gr. laga um húsnæðismál. Þar segir í 1. mgr. að heimilt sé að fresta greiðslum af lánum í allt að þrjú ár. Enn fremur segir 3. mgr. að skilyrði fyrir frestun á greiðslum á láni sé að lánið sé í skilum.

 

Það er undirstöðuregla íslenskrar stjórnskipunar að stjórnvöld eru bundin af lögum. Í því felst að ákvarðanir stjórnvalda verða að eiga sér stoð í lögum og mega ekki vera í andstöðu við lög. Samkvæmt 2. mgr. 48. gr. laga um húsnæðismál, sbr. og 10. og 16. gr. reglugerðar nr. 584/2001, er sjóðnum heimilt að veita greiðslufrest af lánum í allt að þrjú ár. Skortir Íbúðalánasjóð því heimild að lögum til að verða við beiðni kæranda um frekari frestun. Þá uppfyllir kærandi ekki skilyrði 3. mgr. 10. gr. reglugerðar nr. 584/2001 fyrir frestun á greiðslum á láni, þar sem tveir gjalddagar af láninu eru í vanskilum. Með vísan til þessa verður hin kærða ákvörðun staðfest.


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

 

Ákvörðun Íbúðalánasjóðs, dags. 15. júní 2012, um synjun á beiðni A, um greiðsluerfiðleikaaðstoð er staðfest.

 

 

 

Bergþóra Ingólfsdóttir,

 

formaður

 

 

Margrét Gunnlaugsdóttir                                Gunnar Eydal

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta