Hoppa yfir valmynd

Nr. 36/2024 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Hinn 17. janúar 2024 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 36/2024

í stjórnsýslumáli nr. KNU23100134

 

Kæra [...]á ákvörðun

Útlendingastofnunar

I.          Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Hinn 23. október 2023 kærði [...], fd. [...], ríkisborgari Namibíu ( hér eftir nefndur kærandi), ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 5. október 2023, um að synja umsókn hans um dvalarleyfi á grundvelli fjölskyldusameiningar fyrir börn, sbr. 71. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016.

Af kæru má ráða að kærandi krefjist þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að honum verði veitt umbeðið dvalarleyfi.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

Lagagrundvöllur

Í máli þessu koma einkum til skoðunar ákvæði laga um útlendinga nr. 80/2016 ásamt síðari breytingum, reglugerð um útlendinga nr. 540/2017 ásamt síðari breytingum, ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993, stjórnarskrá lýðveldisins Íslands, sbr. lög nr. 33/1944, mannréttindasáttmáli Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994 auk annarra alþjóðlegra skuldbindinga Íslands á sviði mannréttinda eftir því sem tilefni er til.

II.            Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi hefur aldrei haft gilt dvalarleyfi á Íslandi. Hann sótti um dvalarleyfi á grundvelli fjölskyldusameiningar fyrir börn, sbr. 71. gr. laga um útlendinga 5. desember 2022. Með ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 5. október 2023, var umsókninni synjað. Ákvörðun Útlendingastofnunar var móttekin af kæranda 10. október 2023. Hinn 23. október 2023 kærði kærandi ákvörðunina til kærunefndar útlendingamála. Með tölvubréfi, dags. 3. nóvember 2023, lagði kærandi fram greinargerð og frekari gögn vegna málsins.

III.       Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð er vísað til þess að faðir kæranda, sem sé íslenskur ríkisborgari, hafi starfað í heimaríki kæranda frá árinu 1999. Þar hafi hann kynnst móður kæranda, þau hafi saman eignast kæranda og síðar gift sig. Faðir kæranda hafi síðar starfað víðsvegar um heiminn áður en hann flutti aftur til Íslands fyrir um ári síðan. Færð eru þau rök fyrir útgáfu dvalarleyfis að kærandi hafi verið alinn upp samkvæmt íslenskum gildum og verið hluti af samfélagi Íslendinga í heimaríki sínu. Hann sé stoltur af uppruna sínum og ætíð viljað flytjast til Íslands. Þá hafi kæranda verið boðin atvinna á Íslandi og muni honum ganga vel að aðlagast íslensku samfélagi. Kærandi sé yngsta barn föður síns og hans nánasti ættingi en kærandi eigi auk þess sterk tengsl við aðra fjölskyldumeðlimi, einkum systkin og ömmu. Þá hafi kærandi menntað sig í heimaríki, sé skapgóður, með mikinn sjálfsaga og stundað karate frá ungum aldri. Loks er vísað til hinnar kærðu ákvörðunar og þröngrar túlkunar Útlendingastofnunar. Kærandi og faðir hans séu mjög samrýmdir og vilji vera í námunda við hvor annan.

Meðal annarra fylgigagna sem lögð voru fram á kærustigi er bréf, ritað af ættingjum kæranda, þar sem þess er óskað að ákvörðun um synjun dvalarleyfis verði endurskoðuð.

IV.       Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Í 69. gr. laga um útlendinga er kveðið á um skilyrði dvalarleyfis vegna fjölskyldusameiningar. Samkvæmt 1. mgr. 69. gr. laganna getur nánasti aðstandandi íslensks eða annars norræns ríkisborgara sem er með fasta búsetu hér á landi eða útlendings sem dvelst hér á landi á grundvelli dvalarleyfis skv. 61. - 65., 70., 73., 74. og 78. gr. eða ótímabundins dvalarleyfis skv. 58. gr. með umsókn fengið dvalarleyfi á grundvelli fjölskyldusameiningar að fullnægðum skilyrðum 55. gr. og VIII. kafla. Til nánustu aðstandenda teljast maki, sambúðarmaki, börn viðkomandi yngri en 18 ára í forsjá hans og á framfæri og foreldrar 67 ára og eldri. Sama gildir um maka, sambúðarmaka og börn þeirra sem stunda framhaldsnám á háskólastigi, doktorsnám og rannsóknir hér á landi á grundvelli 65. gr. 

Í 1. mgr. 71. gr. laga um útlendinga segir að heimilt sé að veita barni yngra en 18 ára dvalarleyfi ef foreldri þess hefur dvalarleyfi á grundvelli 58., 61. – 65., 70., 73., 74. eða 78. gr. laganna. Jafnframt er heimilt að veita umsækjanda sem náð hefur 18 ára aldri dvalarleyfi á grundvelli ákvæðisins hafi umsókn verið lögð fram áður en hann náði 18 ára aldri. Sé barn fætt hér á landi og foreldri eða foreldrar þess dvelja hér á landi á öðrum grundvelli en greinir í 1. málsl. er heimilt að veita barninu dvalarleyfi með sama gildistíma og dvalarleyfi foreldris.

Kærunefnd telur að ákvæði 1. mgr. 69. gr. og 1. mgr. 71. gr. verði ekki skýrð á annan veg en að þar séu tæmandi talin þau dvalarleyfi sem veita rétt til fjölskyldusameiningar fyrir börn. Samkvæmt framansögðu er ljóst að kærandi var 20 ára og fjögurra mánaða þegar umsókn hans um dvalarleyfi var lögð fram. Liggur því fyrir að kærandi uppfylli ekki skilyrði 1. mgr. 71. gr. laga um útlendinga, sbr. einkum 2. málsl. ákvæðisins.

Í 5. mgr. 71. gr. laga um útlendinga segir að heimilt sé að víkja frá skilyrðum ákvæðisins ef sérstaklega stendur á enda krefjist hagsmunir barnsins þess. Eigi þetta t.d. við í tilvikum þar sem barnaverndarþjónusta hefur tekið yfir forsjá barns eða ef barn er í varanlegu fóstri. Í athugasemdum við 5. mgr. 71. gr. í frumvarpi því sem varð að gildandi lögum um útlendinga kemur fram:

Í 5. mgr. er stjórnvöldum veitt undanþáguheimild til að bregðast við sérstökum aðstæðum þar sem hagsmunir barns krefjast. Við slíkt mat skal ávallt haft samráð við barnaverndaryfirvöld ef grunur leikur á að barn búið við óviðunandi aðstæður. Getur þetta t.d. átt við ef í ljós kemur eftir að barn hefur flust til Íslands að skilyrði fyrir veitingu dvalarleyfis í upphafi voru ekki uppfyllt eða skilyrði endurnýjunar séu af öðrum orsökum brostin. Sem dæmi má nefna ef barnaverndaryfirvöld þurfa að grípa til þess úrræðis að taka barn í sína umsjá. Þessi heimild þarf að vera fyrir hendi meðan íslensk stjórnvöld leysa úr málefnum viðkomandi barns. Um undanþáguheimild er að ræða sem þarf að skýra þröngt en árétta ber að heimildin er sett til verndar hagsmunum barns.

Þegar kærandi sótti um umrætt dvalarleyfi var hann orðinn fullra 18 ára og því getur undantekningarákvæði 5. mgr. 71. gr. laga um útlendinga, sem lýtur að sérstökum hagsmunum barns, ekki átt við í máli hans. Með vísan til þess uppfyllir kærandi ekki skilyrði 71. gr. til útgáfu dvalarleyfis.

Af gögnum málsins verður ráðið að kærandi sé ekki staddur hér á landi.

Kærunefnd bendir kæranda á að hann getur lagt inn nýja umsókn um dvalarleyfi á öðrum grundvelli hjá Útlendingastofnun, telji hann sig uppfylla skilyrði fyrir útgáfu dvalarleyfis. Með þessum leiðbeiningum hefur kærunefnd þó ekki tekið afstöðu til þess hvort kærandi uppfylli önnur skilyrði laga um útlendinga til útgáfu dvalarleyfis.

Að öllu framangreindu virtu verður staðfest ákvörðun Útlendingastofnunar um synjun á umsókn kæranda um dvalarleyfi.

Úrskurðarorð:

Ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest.

 

The decision of the Directorate of Immigration is affirmed.

 

Valgerður María Sigurðardóttir

Gunnar Páll Baldvinsson                                                                                             Sandra Hlíf Ocares



Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta