Hoppa yfir valmynd

Úrskurður nr. 247/2016

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

Þann 5. júlí 2016 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 247/2016

í stjórnsýslumáli nr. KNU16040019

Kæra [...]

og sonar hennar [...]

á ákvörðunum

Útlendingastofnunar

I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Með stjórnsýslukæru, dags. 18. apríl 2016, kærði [...], fd. [...], ríkisborgari [...] (hér eftir nefnd kærandi) þær ákvarðanir Útlendingastofnunar, dags. 14. apríl 2016, að synja henni og syni hennar, [...], fd. [...], um hæli á Íslandi ásamt því að synja þeim um dvalarleyfi á grundvelli 12. gr. f laga nr. 96/2002 um útlendinga.

Kærandi krefst þess að hinar kærðu ákvarðanir verði felldar úr gildi og breytt á þann hátt að henni og syni hennar verði veitt dvalarleyfi á Íslandi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 12. gr. f laga um útlendinga.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 30. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests, sbr. 3. mgr. 30. gr. sömu laga.

II. Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi og sonur hennar komu hingað til lands ásamt eiginmanni hennar og sóttu um hæli þann 6. apríl 2016 hjá lögreglunni á Suðurnesjum. Kærandi mætti í viðtal hjá Útlendingastofnun þann 13. apríl s.á. ásamt talsmanni sínum. Ákvarðanir Útlendingastofnunar, dags. 14. apríl 2016, um að synja kæranda og syni hennar um hæli og dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða eða sérstakra tengsla við landið, var birt henni þann 18. apríl 2016 og kærði kærandi ákvarðanirnar til kærunefndar útlendingamála við birtingu. Þá óskaði kærandi eftir frestun réttaráhrifa þann sama dag. Fallist var á frestun réttaráhrifa á meðan málið væri til kærumeðferðar með bréfi kærunefndar, dags. 20. apríl 2016. Greinargerð vegna kæru barst kærunefnd útlendingamála þann 29. apríl s.á. Þann 21. júní 2016 kom kærandi fyrir kærunefndina og gerði grein fyrir máli sínu, sbr. 5. mgr. 3. gr. b laga um útlendinga. Viðstaddir voru talsmaður kæranda og túlkur.

Kæra þessi hefur hlotið hefðbundna málsmeðferð, gagnaöflun er lokið og er málið hér með tekið til úrskurðar.

III. Ákvörðun Útlendingastofnunar

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að kærandi byggði umsókn sína um hæli á efnahagslegum aðstæðum sínum og húsnæðisvanda í [...]. Kærandi bar því einnig við að föðurbróðir eiginmanns hennar hafi tekið hús tengdaforeldra hennar yfirráðum og rekið kæranda út eftir fæðingu sonar hennar. Þá tilheyri kærandi þjóðarbroti [...] í [...].

Í ákvörðuninni kemur fram að ekki verði séð að í [...] sæti fólk kerfisbundnum ofsóknum, ofbeldi eða mismunun. Þar séu borgaraleg og stjórnmálaleg mannréttindi í megindráttum virt og að staða annarra mannréttinda fari batnandi. [...] yfirvöld hafi undanfarin ár innleitt umfangsmikla mannréttindavernd í landslög og sett á fót landsáætlun til styrktar jafnræði borgara og útrýmingu mismununar á grundvelli uppruna, kyns, aldurs og líkamlegrar eða andlegrar fötlunar. Á síðustu árum hafi löggæsla verið endurskipulögð með það að markmiði að auka árangur lögreglunnar og innleiða evrópska staðla. Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að eftirfylgni við hverslags brot gegn refsilöggjöf sé góð í [...], íbúar landsins njóti almennra mannréttinda og í landinu sé til staðar kerfi sem þeir geti leitað til sem telji á sér brotið. Taldi stofnunin að kærandi gæti leitað til lögreglu vegna erfiðleika hennar þar í landi. Þá var ekki talið að [...] væri mismunað í [...] og þar sem kærandi hafi ekki borið fyrir sig að hafa lent í mismunun sjálf hafi sú málsástæða ekki verið lögð til grundvallar í málinu.

Ekki var talið að kærandi væri í sérstaklega viðkvæmri stöðu sem gæti haft áhrif á niðurstöðu í máli hennar. Við ákvörðun stofnunarinnar var tekið mið af því að sonur kæranda er barn að aldri. Ekkert í framburði kæranda eða eiginmanns hennar var talið benda til þess að sonur kæranda gæti átt sjálfstæðan rétt á vernd og ekki talið tilefni til að taka viðtal hann. Hann væri auk þess mjög ungur að árum og því einungis stuðst við frásögn kæranda og eiginmanns hennar.

Það var niðurstaða Útlendingastofnunar að kærandi ætti ekki á hættu ofsóknir eða meðferð sem jafnað yrði til ofsókna í heimalandi hennar, skv. 1. mgr. 44. gr. útlendingalaga. Þá var ekki talið að hún ætti á hættu þá meðferð sem vísað er til í 2. mgr. 44. gr. útlendingalaga.

Útlendingastofnun skoðaði í samræmi við 8. mgr. 46. gr. útlendingalaga hvort aðstæður kæranda féllu undir ákvæði 12. gr. f laganna. Það var mat stofnunarinnar að kærandi ætti ekki rétt á dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Þá hafi kærandi ekki borið fyrir sig að hún hefði sérstök tengsl við Ísland og ekkert í málinu benti til þeirra. Henni var því synjað um dvalarleyfi vegna sérstakra tengsla við Ísland, sbr. 12. gr. f útlendingalaga. Ekki var talið að endursending kæranda til [...] bryti gegn 45. gr. útlendingalaga.

Með tilliti til atvika málsins var það niðurstaða Útlendingastofnunar að kæranda skyldi vísað frá landi í samræmi við 3. mgr. 90. gr. reglugerðar nr. 53/2003 um útlendinga. Með vísan til 2. mgr. 56. gr. reglugerðar nr. 53/2003 um útlendinga þótti rétt að beita frávísun á grundvelli c-liðar 1. mgr. 18. gr. útlendingalaga. Þá var niðurstaða stofnunarinnar að kæra skyldi ekki fresta réttaráhrifum með vísan til c-liðar 1. mgr. 32. gr. útlendingalaga.

IV. Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð kæranda kemur fram að kærandi hafi sótt um hæli hérlendis vegna bágra efnahagslegra aðstæðna en hún og fjölskylda hennar hafi búið við heimilisleysi eftir að föðurbróðir eiginmanns kæranda rak þau á dyr úr húsi tengdaföður kæranda. Kærandi hafi sérstaklega miklar áhyggjur af stöðu sinni í [...] vegna sjö mánaða gamals sonar síns, sem muni búa við heimilisleysi með foreldrum sínum, verði þau send aftur til heimalandsins.

Í greinargerð kæranda kemur fram að í frumvarpi til laga nr. 115/2010, um breytingu á útlendingalögum, komi m.a. fram í sérstökum athugasemdum að ekki sé um tæmandi talningu að ræða á forsendum dvalarleyfis á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 12. gr. f laganna, þar sem veita verði stjórnvöldum svigrúm við mat á því hvenær rétt sé að veita dvalarleyfi samkvæmt greininni. Þá komi fram að taka verði mið af svipuðum sjónarmiðum og gert sé í málum skv. VII. kafla laganna, s.s. almennra aðstæðna í heimalandi hælisleitanda, þ. á m. hvort grundvallarmannréttindi séu nægilega tryggð. Miðað sé við að heildarmat fari fram á öllum þáttum máls áður en leyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða sé veitt. Þau tilvik sem falli undir 12. gr. f geti einnig náð til óvenjulegra aðstæðna á borð við náttúruhamfarir, en að jafnaði taki ákvæðið ekki til neyðar af efnahagslegum rótum, s.s. fátæktar eða húsnæðisskorts, sbr. greinargerð með frumvarpinu.

Kærandi bendir á að samkvæmt nýjustu ársskýrslu Amnesty International um stöðu mannréttinda í heiminum árið 2014 komi fram að mannréttindi séu sniðgengin í [...] í miklum mæli. Stjórnvöld landsins hafi mikil ítök í löggæslu- og dómskerfinu þar sem mikil spilling ríki. Samtökin hafi lýst yfir alvarlegum áhyggjum af ástandinu í landinu og sagt að [...] stjórnvöld hafi fullkomlega brugðist skyldum sínum til að virða mannréttindi.

Kærandi bendir á að þó svo að ríki sé skuldbundið að þjóðarétti til að virða mannréttindi endurspegli það ekki endilega raunverulega stöðu mannréttindamála í landinu. Kærandi telur að skýrslur bendi til þess að mikil spilling ríki hjá stjórnvöldum og að aðgerðir stjórnvalda gegn spillingu hafi skilað takmörkuðum árangri. Þá sé auðvelt að komast til áhrifa með peningum og að mikil spilling ríki í tengslum við fjármögnun kosninga og að lagaramminn í kringum það skili sér ekki í framkvæmd.

Auk þess beri að líta til þess að kærandi tilheyri minnihlutahópi [...] í [...] sem telji rétt rúm 25% af íbúum landsins og togstreita ríki milli [...] og [...] í landinu. Gögn sýni að minnihlutahópar, ekki síst [...] og [...], verði fyrir mismunun og aðkasti. Kærandi sé þar af leiðandi sérstaklega berskjölduð gagnvart kerfinu í landinu, þ.m.t. á húsnæðis- og atvinnumarkaðnum, einkum í ljósi erfiðrar stöðu efnahagsmála í [...] og mikils atvinnuleysis í landinu.

Þá er í greinargerðinni bent á að börn teljist til sérstaklega viðkvæms hóps hælisleitenda og fundið að því að í ákvörðun Útlendingastofnunar að skorti rökstuðning fyrir því að hvaða marki tekið hafi verið tilhlýðilegt tillit til þeirra verndar sem börn eigi rétt á samkvæmt ákvæðum barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, íslenskum lögum og öðrum reglum þjóðaréttar. Í ákvörðun í máli sonar kæranda sé hvergi vísað til viðeigandi lagaákvæða né meginsjónarmiða sem ráðandi hafi verið við matið eða með öðrum hætti gerð grein fyrir því hvernig mat stofnunarinnar hafi farið fram eða hvað hafi ráðið niðurstöðunni. Því sé ljóst að ákvörðunin fullnægi ekki þeim kröfum sem 22. gr. stjórnsýslulaga geri til efnis rökstuðnings stjórnvaldsákvörðunar, auk þess sem svo líti út að Útlendingastofnun hafi við töku ákvörðunar sinnar virt að vettugi mikilvæg ákvæði ýmissa laga sem kveði á um að hagsmunir barna skuli hafðir að leiðarljósi við töku ákvarðana í málum er þau varði. Í greinargerðinni er vísað til 2. mgr. 1. gr. barnalaga, 1. mgr. 3. gr. barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, 2. mgr. 23. gr. laga um útlendinga sem kveði m.a. á um að ávallt skuli það sem barni sé fyrir bestu hafa forgang þegar ákvarðanir séu teknar um málefni þess, því tryggður réttur til að tjá skoðanir sínar í málum sem það varði og tekið tillit til skoðana barnsins í samræmi við aldur þess og þroska. Þá er vísað til tilskipunar Evrópusambandsins nr. 2004/83/EB frá 29. apríl 2004. Í ákvæði 3. mgr. 20. gr. sé kveðið á um að við mat á þörf á alþjóðlegri vernd skuli taka sérstakt tillit til berskjaldaðra barna og í 5. mgr. sömu greinar að ávallt skuli hafa það sem barninu sé fyrir bestu að leiðarljósi. Þá sé í fjölda alþjóðlegra sáttmála kveðið á um vernd fjölskyldunnar og rétt barna til að vera með foreldrum sínum.

Ljóst sé að aðstæður þær sem fjölskyldan hafi búið við í [...] og muni blasa við þeim við endurkomu til landsins séu ekki boðlegar fyrir ungabörn líkt og son kæranda, sem þurfi á húsaskjóli, öryggi og ró að halda til að geta vaxið og dafnað eðlilega. Hagsmunum hans sé betur borgið fái fjölskyldan að vera á Íslandi. Samkvæmt orðanna hljóðan sé því ekki útilokað að veita kæranda dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða samkvæmt 12. gr. f útlendingalaga vegna efnahagslegra aðstæðna á borð við fátækt og húsnæðisskort, þrátt fyrir að meginreglan sé að slíkt sé að jafnaði ekki gert. Aðstæður kæranda í heimalandinu séu svo bágbornar að gerð er krafa um að veita kæranda mannúðarleyfi vegna efnahagslegra aðstæðna og með hagsmuni ungabarnsins að leiðarljósi.

V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Lagarammi

Í máli þessu gilda ákvæði laga nr. 96/2002 um útlendinga, reglugerð nr. 53/2003 um útlendinga með áorðnum breytingum, stjórnarskrá lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 og mannréttindasáttmáli Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Jafnframt ber að líta til ákvæða alþjóðasamnings um stöðu flóttamanna frá 1951, ásamt viðauka við samninginn frá 1967, og annarra alþjóðlegra skuldbindinga Íslands á sviði mannréttinda eftir því sem tilefni er til.

Auðkenni

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að þegar kærandi sótti um hæli á Íslandi hafi hún framvísað [...] vegabréfi fyrir sig og son sinn. Telur kærunefndin því ljóst að kærandi og sonur hennar séu [...] ríkisborgarar.

Réttarstaða barns kæranda

Almennt er viðurkennt að eðlilegur þroski barns sé best tryggður með því að vernda fjölskylduna. Sé ólögráða barn í fylgd annars eða beggja foreldra sinna eða annars úr fjölskyldunni sem hefur það á framfæri sínu og sá fer fram á réttarstöðu flóttamanns, ber að ákvarða réttarstöðu barnsins í samræmi við meginregluna um einingu fjölskyldunnar.

Staða barna á flótta ræðst af viðeigandi reglum í þjóðarétti og landsrétti. Í 3. mgr. 76. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 segir: „Börnum skal tryggð í lögum sú vernd og umönnun sem velferð þeirra krefst.“ Ákvæðið sækir einkum fyrirmynd til inngangsákvæða barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, einkum 3. gr. Í 1. mgr. 1. gr. barnalaga, nr. 76/2003, segir að barn eigi rétt á að lifa, þroskast og njóta verndar, umönnunar og annarra réttinda í samræmi við aldur sinn og þroska og án mismununar af nokkru tagi. Í 2. mgr. 1. gr. segir að það sem barni er fyrir bestu skuli ávallt hafa forgang þegar teknar eru ákvarðanir um málefni þess.

Svo sem fram er komið kom kærandi hingað til lands ásamt eiginmanni sínum og syni þeirra. Haldast úrskurðir er varða foreldra og börn þeirra í hendur í samræmi við meginregluna um einingu fjölskyldunnar, þegar barn er í fylgd annars eða beggja foreldra. Ljóst er að barn það sem hér um ræðir eru í fylgd beggja foreldra sinna.

Landaupplýsingar

Lýðveldið [...] er ríki með um tvær milljónir íbúa og eru mannréttindi almennt virt af stjórnvöldum þar í landi. [...]

Kærunefnd útlendingamála hefur m.a. skoðað eftirfarandi skýrslur um aðstæður í [...]:

  • [...]

Í ofangreindum gögnum kemur m.a. fram að spilling sé þó nokkur í [...] stjórnkerfinu. [...] ríkið hafi hins vegar gripið til ýmissa aðgerða til að sporna við spillingu með misgóðum árangri. Auk þess kemur fram að dómskerfið sé óskilvirkt og meðferð mála taki langan tíma. Þá er jafnframt greint frá því að spenna ríki í samskiptum milli [...] og [...] og að hlutfall [...] sem starfi í dómskerfinu sé lágt. Hlutfall [...] af [...] uppruna á þjóðþingi [...] fari vaxandi auk þess sem stærsti flokkur [...] minnihlutans eigi nú sæti í ríkisstjórn landsins. Atvinnuleysi er mikið í landinu og aðstoð af skornum skammti fyrir viðkvæmustu hópana í samfélaginu. Aðgerðaráætlun var sett á fót í desember 2014 til að sporna gegn atvinnuleysi, fátækt og mismunun í landinu.

Ákvæði 1. mgr. 44. gr. útlendingalaga

Til að teljast flóttamaður hér á landi þarf kærandi að sýna fram á að aðstæður hans séu slíkar að þær falli undir 1. mgr. 44. gr. útlendingalaga, sbr. flóttamannasamning Sameinuðu þjóðanna, eða 2. mgr. 44. gr. sömu laga. Kærandi byggir á því að hún búi við erfiðar aðstæður í heimaríki sínu og hún verði fyrir mismunun vegna uppruna síns.

Í 1. mgr. 44. gr. laga nr. 96/2002 um útlendinga, sem byggir á A-lið 1. gr. flóttamannasamningsins, segir:

Flóttamaður samkvæmt lögum þessum telst vera útlendingur sem er utan heimalands síns af ástæðuríkum ótta við að vera ofsóttur vegna kynþáttar, trúarbragða, þjóðernis, aðildar að tilteknum þjóðfélagshópi eða vegna stjórnmálaskoðana og getur ekki, eða vill ekki, vegna slíks ótta færa sér í nyt vernd þess lands; eða sá sem er ríkisfangslaus og er utan þess lands þar sem hann áður hafði reglulegt aðsetur vegna slíkra atburða og getur ekki, eða vill ekki, vegna slíks ótta hverfa aftur þangað, sbr. A-lið 1. gr. alþjóðasamnings um stöðu flóttamanna frá 28. júlí 1951 og viðauka við samninginn frá 31. janúar 1967. Um skilyrði þess að teljast flóttamaður er frekar mælt í 44. gr. a.

Almennt ber að telja ótta umsækjanda ástæðuríkan ef hann getur á nægilega skýran hátt sýnt fram á að áframhaldandi dvöl í heimalandi sé honum óbærileg af ástæðum sem tilgreindar eru í ákvæðinu, eða yrði óbærileg af sömu ástæðum ef hann sneri aftur. Þessi sjónarmið þurfa jafnframt ekki endilega að byggjast á persónulegri reynslu umsækjanda, heldur geta ofsóknir sem vinir hans eða ættingjar eða aðrir sem tilheyra sama þjóðfélagshópi hafa orðið fyrir, gefið til kynna að ótti hans við að verða fyrr eða síðar fórnarlamb ofsókna sé ástæðuríkur.

Í 44. gr. a útlendingalaga eru sett fram viðmið um það hvað felist í hugtakinu ofsóknir, á hvaða grundvelli ofsóknir geta byggt og hvaða aðilar geta verið valdir að þeim. Í 1. mgr. ákvæðisins segir:

Til þess að um sé að ræða ofsóknir skv. 1. mgr. 44. gr. verður að vera um að ræða athafnir sem í eðli sínu, eða vegna þess að þær eru endurteknar, fela í sér alvarleg brot á grundvallarmannréttindum, einkum ófrávíkjanlegum grundvallarmannréttindum á borð við réttinn til lífs og bann við pyndingum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu, bann við þrældómi og þrælkun og bann við refsingum án laga. Sama á við um samansafn athafna, þ.m.t. ólögmæta mismunun, sem hafa eða geta haft sömu eða sambærileg áhrif á einstakling.

Í 3. mgr. 44. gr. a eru taldir upp þeir aðilar sem geta verið valdir að ofsóknum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð. Þar segir að:

Þeir sem geta verið valdir að ofsóknum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eru:

a. ríkið,

b. hópar eða samtök sem stjórna ríkinu eða verulegum hluta landsvæðis þess, og

c. aðrir aðilar, sem ekki fara með ríkisvald, ef sýnt er fram á að ríkið eða hópar eða samtök skv. b-lið þessarar málsgreinar, þar með talið alþjóðastofnanir, geti ekki eða vilji ekki veita vernd gegn ofsóknum eða meðferð sem fellur undir 2. mgr. 44. gr., m.a. með því að ákæra og refsa fyrir athafnir sem fela í sér ofsóknir.

Þótt fallist sé á að einstaklingur í þessari aðstöðu skuli njóta vafans upp að ákveðnu marki, verður kærandi a.m.k. að sýna fram á að líkur séu á að hans bíði ofsóknir í heimalandi. Samkvæmt meginreglum um túlkun flóttamannahugtaksins sem fram koma í handbók Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna, er m.a. miðað við það að viðkomandi þurfi almennt að sýna fram á að gildar ástæður liggi til grundvallar ótta við ofsóknir og að hugarástand flóttamannsins skipti ekki eitt máli heldur verði yfirlýsing hans einnig að fá stuðning í hlutlægum og staðreynanlegum aðstæðum (Handbók um réttarstöðu flóttamanna. Um málsmeðferð og skilyrði samkvæmt flóttamannasamningnum frá 1951 og bókun frá 1967 um réttarstöðu flóttamanna (Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna, Reykjavík 2008)).

Kærandi hefur greint frá bágum efnahagslegum aðstæðum í heimaríki sínu og ofbeldi af hálfu föðurbróður eiginmanns síns. Að mati kærunefndar teljast athafnir föðurbróður eiginmanns kæranda ekki ofsóknir í skilningi 1. mgr. 44. gr. a laga um útlendinga. Kærandi hefur ekki borið fyrir sig ofsóknir af hálfu [...] stjórnvalda eða aðilum tengdum þeim og ekkert í gögnum málsins bendir til ofsókna af hálfu þeirra gagnvart kæranda. Þá hefur ekki verið sýnt fram á að þarlend stjórnvöld geti ekki eða vilji ekki veita vernd gegn ofsóknum eða meðferð sem fellur undir 2. mgr. 44. gr. laga um útlendinga, m.a. með því að ákæra og refsa fyrir athafnir sem fela í sér ofsóknir. Kærandi hefur ekki borið fyrir sig ofsóknir af ástæðum sem taldar eru upp í 1. mgr. 44. gr. útlendingalaga, þ.e. á grundvelli kynþáttar, trúarbragða, þjóðernis, aðildar að tilteknum þjóðfélagshópi eða vegna stjórnmálaskoðana. Kærandi hefur hins vegar borið fyrir sig að hún sæti mismunun vegna [...] uppruna síns. Gögn og skýrslur sem kærunefnd hefur skoðað benda til þess að spenna sé á milli [...] meirihlutans og [...] minnihlutans í landinu. Hins vegar benda gögn ekki til þess að yfirvöld í landinu mismuni einstaklingum af [...] uppruna eða beiti þá ofbeldi eða að þeir sæti ofsóknum í skilningi laga um útlendinga. Kærunefndin telur, að teknu tilliti til af ákvæða barnalaga og barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, að hagsmunum sonar kæranda sé ekki stefnt í hættu með því að hann fylgi foreldrum sínum til [...].

Telur kærunefndin því ljóst, með vísan til gagna um aðstæður í [...] sem kærunefnd hefur skoðað og frásagnar kæranda, að kærandi og barn hennar uppfylli ekki skilyrði 1. mgr. 44. gr. útlendingalaga fyrir veitingu réttarstöðu flóttamanns.

Ákvæði 2. mgr. 44. gr. útlendingalaga

Í 2. mgr. 44. gr. útlendingalaga er kveðið á um að flóttamaður samkvæmt útlendingalögum telst einnig útlendingur sem telst ekki flóttamaður samkvæmt ákvæði A-liðar 1. gr. alþjóðasamnings um stöðu flóttamanna ef raunhæf ástæða er til að ætla að hann eigi á hættu að sæta dauðarefsingu, pyndingum eða annarri ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu verði hann sendur aftur til heimalands.

Í ljósi þess sem að framan er rakið telur kærunefndin að aðstæður kæranda í heimalandi séu ekki þannig að þær falli undir ákvæði 2. mgr. 44. gr. laganna. Þá telur kærunefndin ekkert fram komið sem bendi til þess að hætt sé við því að kærandi og barn hennar sæti ómannúðlegri og/eða vanvirðandi meðferð við heimkomuna, sbr. 2. mgr. 44. gr. og 1. mgr. 45 gr. laganna.

Ákvæði 12. gr. f útlendingalaga

Kærandi krefst þess að hinni kærðu ákvörðun verði breytt á þann veg að kæranda verði veitt dvalarleyfi á Íslandi af mannúðarástæðum, sbr. 12. gr. f útlendingalaga.

Samkvæmt 12. gr. f er heimilt að veita útlendingi dvalarleyfi, þótt skilyrðum sé annars ekki fullnægt, ef rík mannúðarsjónarmið standa til þess eða vegna sérstakra tengsla útlendingsins við landið. Í 2. mgr. ákvæðisins kemur fram að veita má dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða ef útlendingur getur sýnt fram á ríka þörf á vernd, t.d. af heilbrigðisástæðum, eða vegna erfiðra félagslegra aðstæðna viðkomandi eða erfiðra almennra aðstæðna í heimaríki eða í landi sem honum yrði vísað til eða vegna annarra atvika sem ekki má með réttu gera honum að bera ábyrgð á. Sérstaklega skal taka tillit til þess ef um barn er að ræða og skal það sem barni er fyrir bestu haft að leiðarljósi við ákvörðun.

Í skýringum með 2. gr. laga nr. 115/2010 sem breyttu ákvæði 12. gr. f útlendingalaga er fjallað um mjög íþyngjandi félagslegar aðstæður. Þar kemur fram að átt sé við að útlendingur hafi þörf á vernd vegna félagslegra aðstæðna í heimalandi. Þá kemur fram í ofangreindum skýringum með 2. gr. laga nr. 115/2010 það sjónarmið að almennt séð beri að taka sérstakt tillit til barna hvort sem þau eru fylgdarlaus eða ekki. Þá beri að líta til þess hvort framfærsla, þá sérstaklega fylgdarlausra barna, sé tryggð. Kærandi og eiginmaður hennar hafa greint frá erfiðum félagslegum aðstæðum sínum, atvinnu- og heimilisleysi. Þau hafa þó ekki leitað eftir fjárhaglegri aðstoð eða stuðningi í heimaríki sínu.

Í fyrrgreindum skýringum með 2. gr. laga nr. 115/2010 kemur fram að íþyngjandi félagslegar aðstæður verði að jafnaði ekki taldar taka til neyðar af efnahagslegum rótum, s.s. fátæktar eða húsnæðisskorts. Þá er samkvæmt gögnum sem kærunefnd hefur yfirfarið til staðar í [...] félagslegt kerfi sem aðstoðar fjölskyldur sem á þurfa að halda. Er það því mat kærunefndar að syni kæranda verði tryggð viðunandi framfærsla í heimalandi sínu.

Kærunefnd telur því að aðstæður kæranda og sonar hennar við endurkomu til heimalands séu ekki slíkar að þær geti talist erfiðar í skilningi ákvæðis 2. mgr. 12. gr. f laga um útlendinga. Kærunefnd telur einnig, að teknu tilliti til ákvæða barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og íslenskrar löggjafar um barnavernd, að engin rök standi í vegi fyrir því að sonur kæranda fylgi foreldrum sínum aftur til heimalands þeirra. Sonur kæranda kom hingað til lands í fylgd með foreldrum sínum og verður í fylgd með þeim við endursendingu til heimalands þeirra.

Kærunefndin hefur þegar komist að þeirri niðurstöðu að kærandi uppfylli ekki skilyrði 1. eða 2. mgr. 44. gr. útlendingalaga og teljist því ekki flóttamaður. Þegar upplýsingar um heimaland kæranda og gögn málsins eru virt í heild er það niðurstaða kærunefndar að kærandi hafi ekki sýnt fram á ríka þörf á vernd líkt og kveðið er á um í 12. gr. f útlendingalaga. Því er fallist á það með Útlendingastofnun að aðstæður kæranda og barns hennar í [...] séu ekki með þeim hætti að veita beri kæranda dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 12. gr. f útlendingalaga. Jafnframt telur kærunefndin kæranda ekki uppfylla skilyrði 12. gr. f útlendingalaga um sérstök tengsl við landið. Eins og fram kemur í gögnum málsins hefur kærandi og barn hennar aðeins dvalið á Íslandi í tengslum við hælisumsókn sína og aðeins í skamman tíma.

Ákvæði 22. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993

Í greinargerð kæranda er fundið að því að ekki sé vísað til viðeigandi lagaákvæða eða meginsjónarmiða í tengslum við mál sonar kæranda sem ráðandi hafi verið við matið eða með öðrum hætti gerð grein fyrir því hvernig mat stofnunarinnar hafi farið fram eða hvað hafi ráðið niðurstöðunni. Byggt á því að ákvörðunin fullnægi ekki þeim kröfum sem 22. gr. stjórnsýslulaga geri til efnis rökstuðnings stjórnvaldsákvörðunar. Í skýringarriti með stjórnsýslulögunum (Stjórnsýslulög-skýringarrit (Páll Hreinsson, forsætisráðuneytið, 1994)) kemur fram að í málum á fyrra stjórnsýslustigi ætti tiltölulega stuttur rökstuðningur að nægja til þess að uppfylla skilyrði 22. gr. stjórnsýslulaga. Það er mat kærunefndar að þrátt fyrir stuttan rökstuðning í ákvörðun Útlendingastofnunar fullnægi hann skilyrðum 22. gr. stjórnsýslulaga. Þá telur kærandi annmarka vera á ákvörðun Útlendingastofnunar því ekki hafi verið tilgreind lagaákvæði í ákvörðun er varða hagsmuni barns kæranda en skv. 1. mgr. 22. gr. stjórnsýslulaga skuli í rökstuðningi vísa til þeirra réttarreglna sem ákvörðun stjórnvalds er byggð á. Kærunefndin gerir athugasemd við það að Útlendingastofnun hafi ekki í rökstuðningi sínum vísað til lagaákvæða sem varða hagsmuni barnsins. Er það þó mat kærunefndar að sá ágalli sé ekki slíkur að ógilda beri ákvörðunina. Ekki verður séð að skortur á lagatilvísun hafi haft áhrif á efnislega niðurstöðu ákvörðunarinnar eða rýrt skilning kæranda á hvaða ákvæðum niðurstaða hafi verið byggð.

Samantekt

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið og forsendna hinnar kærðu ákvörðunar þykir rétt að staðfesta ákvörðun Útlendingastofnunar.

Athygli kæranda er vakin á því að skv. 6. mgr. 33. gr. laga um útlendinga frestar málshöfðun fyrir dómstólum til ógildingar á endanlegri ákvörðun um að útlendingur skuli yfirgefa landið ekki framkvæmd hennar. Að kröfu útlendings getur kærunefnd útlendingamála þó ákveðið að fresta réttaráhrifum endanlegrar ákvörðunar sé talin ástæða til þess. Krafa þess efnis skal gerð ekki síðar en sjö dögum frá birtingu endanlegrar ákvörðunar. Skal frestun bundin því skilyrði að útlendingur beri málið undir dómstóla innan fimm daga frá birtingu ákvörðunar um frestun réttaráhrifa úrskurðar og óski eftir að það hljóti flýtimeðferð. Nú er beiðni um flýtimeðferð synjað og skal þá mál höfðað innan sjö daga frá því að beiðni um það er synjað. Þó getur kærunefnd útlendingamála tekið ákvörðun um að fresta framkvæmd ákvörðunarinnar ef sýnt er fram á að verulega breyttar aðstæður hafi skapast frá því ákvörðun var tekin.

Úrskurðarorð

Ákvarðanir Útlendingastofnunar eru staðfestar.

The decisions of the Directorate of Immigration are affirmed.

Hjörtur Bragi Sveinsson, formaður

Pétur Dam Leifsson Anna Valbjörg Ólafsdóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta