Hoppa yfir valmynd

Nr. 266/2017 - Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

Þann 9. maí 2017 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 266/2017

í stjórnsýslumáli nr. KNU17030014

Kæra […]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

 

I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Þann 7. mars 2017 kærði […], fd. […], ríkisborgari […] (hér eftir nefndur kærandi) ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 15. febrúar 2017, um að taka ekki til efnismeðferðar umsókn hans um alþjóðlega vernd á Íslandi og endursenda hann til Danmerkur.

Kærandi krefst þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að Útlendingastofnun verði gert að taka umsókn hans um alþjóðlega vernd til efnislegrar meðferðar með vísan til 1. og 2. mgr. 36. gr., sbr. 1. og 2. mgr. 42. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016. Til vara er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og Útlendingastofnun verði gert að taka málið til meðferðar að nýju.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

II. Málsmeðferð

Kærandi lagði fram umsókn um alþjóðlega vernd á Íslandi þann 23. desember 2016. Við leit að fingraförum kæranda í Eurodac gagnagrunninum, þann 24. desember 2016, kom í ljós að fingraför hans höfðu verið skráð í grunninn af yfirvöldum í Danmörku. Þann 11. janúar 2017 var beiðni um viðtöku kæranda og umsóknar hans um alþjóðlega vernd beint til yfirvalda í Danmörku, sbr. b-lið 1. mgr. 18. gr. reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 604/2013 (hér eftir nefnd Dyflinnarreglugerðin). Þann 16. janúar 2017 barst svar frá dönskum yfirvöldum þess efnis að þau samþykktu viðtöku kæranda á grundvelli d-liðar 1. mgr. 18. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar. Útlendingastofnun ákvað þann 15. febrúar 2017 að taka ekki umsókn kæranda um alþjóðlega vernd hér á landi til efnismeðferðar og að hann skyldi endursendur til Danmerkur. Kærandi kærði ákvörðunina við birtingu þann 7. mars 2017 til kærunefndar útlendingamála. Greinargerð kæranda barst kærunefnd 30. mars 2017 ásamt viðbótargögnum. Í greinargerð óskaði kærandi eftir að fá að tjá sig við nefndina um efni málsins. Kærunefnd taldi ekki ástæðu til að gefa kæranda kost á að koma fyrir nefndina, sbr. 7. mgr. 8. gr. laga um útlendinga.

III. Ákvörðun Útlendingastofnunar

Niðurstaða ákvörðunar Útlendingastofnunar var sú að umsókn kæranda um alþjóðlega vernd yrði ekki tekin til efnismeðferðar hér á landi og hann skyldi endursendur til Danmerkur. Lagt var til grundvallar að Danmörk virði ákvæði mannréttindasáttmála Evrópu og flóttamannasamnings Sameinuðu þjóðanna, þar með talið bann við endursendingu til ríkis þar sem líf og frelsi kæranda kynni að vera í hættu (non-refoulement). Því fæli flutningur kæranda til Danmerkur ekki í sér brot gegn 42. gr. laga um útlendinga. Þá var talið að kærandi hefði ekki slík tengsl við Ísland að ástæða væri til að beita ákvæði 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Þá var það mat stofnunarinnar að sérstakar aðstæður í skilningi 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga væru ekki til staðar í málinu. Útlendingastofnun mat aðstæður kæranda slíkar að hann væri í sérstaklega viðkvæmri stöðu skv. 6. tölul. 3. gr. laga um útlendinga þar sem hann hafi orðið fyrir pyndingum í heimaríki og væri haldinn [...]. Aðstæður kæranda féllu ekki undir 16. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar og væru ekki slíkar að ástæða væri til að beita 1. mgr. 17. gr. reglugerðarinnar í málinu. Kærandi skyldi yfirgefa Ísland og bæri að senda hann til Danmerkur, sbr. c-lið 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

Í ákvörðun Útlendingastofnunar var vísað til skýrslu Amnesty International, dags. [...], sem kærandi lagði fram í málinu. Þar komi fram að kærandi hafi orðið fyrir pyndingum sem leitt hafi til [...]. Kærandi teljist því vera einstaklingur í sérstaklega viðkvæmri stöðu. Að mati Útlendingastofnunar væru dönsk stjórnvöld þó fyllilega í stakk búin til að sinna þörfum kæranda hvað varðar heilbrigðisþjónustu og fái það stoð í þeim gögnum og skýrslum sem Útlendingastofnun hafi skoðað. Þá hafi Mannréttindadómstóll Evrópu slegið því föstu að unnt sé að senda umsækjanda um alþjóðlega vernd á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar þrátt fyrir að umsækjandinn sé haldinn [...] eftir pyndingar. Því var það mat Útlendingastofnunar að aðstæður kæranda væru ekki það sérstakar að þær leiði til þess að mál hans verði tekið til efnismeðferðar, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

Þá var í greinargerð kæranda einnig byggt á 42. gr. laga um útlendinga. Að mati Útlendingastofnunar verði að horfa til úrskurðar dönsku kærunefndar útlendingamála sem kærandi lagði fram í málinu. Þar komi fram að kærandi hafi haldið því fram að […] stjórnvöld hafi handtekið hann þar sem þau hafi haldið að hann væri meðlimur í stjórnmálasamtökunum […] þar sem hann hafi verið að keyra þrjá einstaklinga í leigubíl sem áttu að vera aðilar í samtökunum. Í viðtali hjá Útlendingastofnun upplýsti kærandi að […] stjórnvöld hafi handtekið hann þar sem hann hafi verið að selja vín með frænda sínum. Kærandi sé því tvísaga í framburði sínum hvað þetta atriði varðar og jafnframt margsaga um það hversu oft hann hafi orðið fyrir árás í Danmörku. Að mati Útlendingastofnunar væri framburður kæranda því að nokkru leyti ótrúverðugur. Þá búi dönsk stjórnvöld yfir teymi sem haldi utan um landaupplýsingar og hafi því kynnt sér mjög vel aðstæður í […] enda sé niðurstaða danskra stjórnvalda á tveimur stjórnsýslustigum að endursenda kæranda til […]. Því væri það mat Útlendingastofnunar að endursending kæranda til Danmerkur sé ekki í andstöðu við 42. gr. laga um útlendinga.

IV. Málsástæður og rök kæranda

Fram kemur í greinargerð að í viðtölum kæranda hjá Útlendingastofnun hafi komið fram að hann vilji alls ekki fara aftur til Danmerkur því þar hafi hann fengið lokasynjun á umsókn sinni um alþjóðlega vernd og hans bíði endursending til heimaríkis. Þá hafi kærandi búið við algjöra óvissu og öryggisleysi síðustu sex til sjö árin í móttökumiðstöð fyrir umsækjendur um alþjóðlega vernd. Hann hafi ítrekað orðið fyrir árásum og áreiti af hálfu meðlima danskra glæpasamtaka að nafni […] og […]. Þá hafi kærandi greint frá þeim erfiðu aðstæðum sem hann hafi flúið í heimalandi sínu þar sem hann hafi verið handtekinn af […] lögreglunni og pyndaður á hrottafenginn hátt.

Í greinargerð kemur fram að kærandi hafi lagt fram tvær handtökuskipanir frá árinu 2012, útgefnar og stimplaðar af dómstóli í […]. Eftir birtingu ákvörðunar Útlendingastofnunar hafi kærandi fengið senda ljósmynd, frá fjölskyldu sinni í […], af tveimur dómsúrskurðum sem séu samhljóða þeim sem áður hafi verið lagðir fram. Að sögn kæranda séu þeir um þriggja til fjögurra mánaða gamlir og eru þeir lagðir fram með greinargerð kæranda. Úrskurðirnir staðfesti að mál kæranda í heimalandi sé enn opið og þar með ofsóknir stjórnvalda. Þá liggi fyrir í málinu úrskurður úrskurðarnefndar í Danmörku (d. Flytgningenævnet) þar sem ákvörðun dönsku útlendingastofnunar (d. Udlændingestyrelsen) um að synja kæranda um vernd sé staðfest.

Aðspurður um andlegt og líkamlegt heilsufar sitt í viðtali hjá Útlendingastofnun hafi kærandi greint frá því að það sé ekki gott. Hann sé hræddur og kvíðinn þegar hann sjái lögreglumenn, […]. Þá beri hann […] ummerki eftir pyndingar sem hann hafi orðið fyrir. Hann þurfi á lyfjum að halda […]. Meðal fylgigagna með greinargerð séu samskiptaseðlar frá lækni, hjúkrunarfræðingi og sálfræðingi hjá göngudeild sóttvarna sem staðfesti að kærandi sé með [...] og kvíða. Gögnin séu ný og hafi ekki verið meðal gagna málsins við meðferð þess hjá Útlendingastofnun.

Fram kemur í greinargerð að samkvæmt 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga sé það meginregla að umsókn um alþjóðlega vernd skuli tekin til efnismeðferðar. Í c-lið 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga sé kveðið á um heimild íslenskra stjórnvalda til þess að synja um efnismeðferð umsóknar um alþjóðlega vernd ef krefja megi annað aðildarríki Dyflinnarsamstarfsins um að taka við umsækjanda. Af hálfu kæranda er því haldið fram að ótækt sé að beita heimildinni í c-lið 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga í tilviki kæranda. Þvert á móti njóti kærandi verndar 42. gr. laga um útlendinga sem mæli fyrir um grundvallarreglu þjóðarréttar um non-refoulement, þá sérstaklega 2. mgr. 42. gr. laganna sem kveði á um skýrt bann við sendingu einstaklings til svæðis þar sem ekki sé tryggt að hann verði ekki áframsendur til slíks svæðis. Fyrir liggi að kærandi hafi fengið lokasynjun í Danmörku og standi frammi fyrir flutningi til […] verði hann endursendur til Danmerkur.

Kærandi vísar til þess að í ákvörðun Útlendingastofnunar komi fram að Mannréttindadómstóll Evrópu hafi slegið því föstu í máli A.S. gegn Sviss frá 30. júní 2015 (nr. 39350/13) að unnt sé að endursenda umsækjanda um alþjóðlega vernd á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar þrátt fyrir að hann sé haldinn [...] eftir pyndingar. Kærandi vilji í þessu samhengi vekja athygli á nýföllnum dómi Evrópudómstólsins frá 16. febrúar 2017 í máli C.K. o.fl. gegn Slóveníu nr. C-578/16 PPU. Í málinu hafi verið deilt um túlkun á ákvæði 4. gr. mannréttindaskrár Evrópusambandsins sbr. 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu og 1. mgr. 17. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar. Niðurstaða dómsins feli í sér að þrátt fyrir að ekki sé fyrir hendi kerfisbundinn galli á hæliskerfi móttökuríkis þá sé sú staðreynd ekki nægileg svo heimilt sé að senda líkamlega eða andlega vanheilan einstakling á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar til móttökuríkis. Til grundvallar slíku mati verði að liggja ítarlegt einstaklingsbundið mat á aðstæðum þess einstaklings sem til standi að endursenda. Þannig gangi það beinlínis gegn 4. gr. mannréttindaskrár Evrópusambandsins að líta eingöngu til kerfisbundins galla við endursendingar umsækjenda um alþjóðlega vernd.

Í greinargerð kæranda er vísað til skilgreiningar á einstaklingi í sérstaklega viðkvæmri stöðu í 6. tölul. 3. gr. laga um útlendinga. Þá kemur fram að kærandi hafi lagt fram skýrslu frá Amnesty International í Danmörku. Skýrslan sé skrifuð af tveimur læknum og innihaldi ítarlega lýsingu á þeim pyndingum sem hann hafi verið beittur í heimalandi og andlegar og líkamlegar afleiðingar þeirra. Í skýrslunni komi fram að sálfræðimat hafi verið gert á kæranda og niðurstaða þess sé að kærandi sé haldinn [...]. Á meðal framlagðra gagna eru einnig samskiptaseðlar frá læknum, hjúkrunarfræðingum og sálfræðingum sem skoðað hafi kæranda á göngudeild sóttvarna á tímabilinu 28. desember 2016 til 19. mars 2017. Í gögnunum komi fram að kærandi hafi verið greindur með [...] og kvíða. Þá sé kærandi með […] eftir pyndingar og […] af völdum þeirra. Hann hafi fengið lyf við kvillum sínum. Með hliðsjón af framangreindu sé byggt á því að kærandi sé viðkvæmur einstaklingur í skilningi 6. tölul. 3. gr. laga um útlendinga. Í rökstuðningi Útlendingastofnunar sé fallist á að kærandi sé einstaklingur í sérstaklega viðkvæmri stöðu en þar sem hann muni fá heilbrigðisþjónustu í Danmörku þá hafi það ekki haft áhrif á niðurstöðu málsins. Sé þannig ekki metið hvaða áhrif það muni hafa á heilsu kæranda að vera synjað um vernd hér á landi og fluttur til Danmerkur. Þá hafi beiðni um sálfræðimat verið hafnað af Útlendingastofnun.

Í greinargerð kæranda kemur fram að með breyttri stefnu danskra stjórnvalda í innflytjendamálum hafi umsóknum um alþjóðlega vernd í landinu fækkað mikið sem líklega megi rekja til breytinga sem gerðar hafi verið á danskri útlendingalöggjöf á árunum 2014 til 2016. Fyrir liggi að Danmörk reki eina ströngustu innflytjendalöggjöf í Evrópu og að málefni umsækjenda um alþjóðlega vernd og flóttamanna hafi verið ofarlega á baugi í stjórnmálum þar í landi. Þá hafi í opinberum skýrslum verið bent á tiltekin mannréttindavandamál í hæliskerfinu í Danmörku. Þar beri að nefna ófullnægjandi heilbrigðisskoðun og aðgang að heilbrigðisþjónustu fyrir einstaklinga sem fengið hafi synjun á umsókn sinni, vanhöld á því að lögregluþjónar beri auðkenni og lagalegar takmarkanir á ferðafrelsi. Þá hafi takmarkanir á möguleikum umsækjenda til þess að vinna verið gagnrýndar. Þegar straumur flóttamanna hafi farið að aukast á árunum 2014 og 2015 hafi ríkisstjórn Danmerkur beitt sér gegn því að flóttamenn leiti til landsins. Auglýst hafi verið í dagblöðum í […] að flóttafólk sé ekki velkomið í Danmörku. Lög hafi verið sett sem kveðið hafi á um rétt ríkisins til að leggja hald á verðmæti flóttamanna sem komi inn í landið, að víkja megi frá rétti umsækjenda að hitta dómara innan 72 klukkustunda frá komu til landsins, takmarka rétt fólks sem flýi stríðsástand til dvalar í Danmörku, að hýsa megi einstæða karlmenn í tjöldum, takmarkaðri rétt til fjölskyldusameiningar og aukinn rétt yfirvalda til að hneppa umsækjendur um alþjóðlega vernd í varðhald. Þá sé í skýrslu mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna lýst áhyggjum af aðgerðum sem stjórnvöld hafi gripið til í kjölfar aukningar á umsóknum um alþjóðlega vernd í Danmörku. Í því samhengi sé m.a. fjallað um heimild stjórnvalda til varðhaldsvistunar umsækjenda um alþjóðlega vernd í allt að 12 mánuði og slæman aðbúnað umsækjenda í varðhaldsmiðstöðvum. Þá hafi Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna lýst því yfir að hertar aðgerðir danskra stjórnvalda í þeim tilgangi að minnka flæði flóttamanna til Danmerkur ali á útlendingaandúð og ótta og geti haft lífshættulegar afleiðingar fyrir umsækjendur. Hafi stofnunin biðlað til danskra stjórnvalda að endurskoða stefnu sína í málaflokknum. Þess beri að geta að 24. maí 2016 hafi Mannréttindadómstóll Evrópu komist að þeirri niðurstöðu í máli Biao gegn Danmörku (mál nr. 38590/10) að dönsku lögin um fjölskyldusameiningu flóttamanna hafi brotið gegn mannréttindasáttmála Evrópu.

Þá kemur fram í greinargerð að eftir að umsækjendur um alþjóðlega vernd í Danmörku fái lokasynjun á umsókn sinni flytjist mál þeirra á borð dönsku lögreglunnar. Lögreglan kalli þá einstaklinga á fund til sín og bjóði þeim að fara heim á eigin vegum. Í þeim tilvikum er umsækjandi neitar sé skráð í málið að hann sé ósamvinnuþýður og verði fluttur af landi brott af lögreglunni. Í kjölfarið sé viðkomandi sendur í miðstöð fyrir brottflutninga. Þá séu dagpeningar teknir af viðkomandi, honum gert að hitta lögregluna vikulega og eigi á hættu að vera fangelsaður fari hann ekki eftir settum reglum. Nánast ógerlegt reynist fyrir fólk að fá mál sitt endurupptekið í Danmörku og festist því margir í biðstöðu í Danmörku eða því sem kallað hafi verið þolanleg dvöl, jafnvel svo árum skipti eins og í tilviki kæranda en hann hafi komið til Danmerkur árið 2010 eða 2011. Dönsk stjórnvöld hafi ítrekað synjað honum um vernd og endurupptöku málsins. Hann sé því án nokkurra réttinda í Danmörku og hafi þurft að lifa við stöðugan ótta um að vera sendur aftur til […].

Í greinargerð kæranda er vísað til nýlegra breytinga á lögum um útlendinga og byggt á því að vilji löggjafans hafi verið að víkka út gildissvið 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016 og þannig gefa stjórnvöldum fyrirmæli um að setja lægri viðmið þegar meta skuli hvort sérstakar ástæður séu til staðar í málum er falli undir a-c liði 1. mgr. 36. gr. Ákvæðið kveði á um heimild til handa stjórnvöldum að synja umsækjendum um efnismeðferð á umsókn sinni en ekki skyldu. Við mat á því hvort fyrir hendi séu sérstakar ástæður verði því að meta viðkvæma stöðu kæranda sem fórnarlamb pyndinga og fyrirsjáanlega endursendingu hans til […] þar sem hann eigi yfir höfði sér […]. Þá sé áréttað að ákvæði 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga geri ekki kröfu um „kerfisbundinn ágalla“ á meðferð umsókna um alþjóðlega vernd eða aðbúnaði umsækjenda í móttökuríki til þess að taka megi mál til efnismeðferðar hér á landi þrátt fyrir ákvæði Dyflinnarreglugerðarinnar, né gerir hún kröfu um að endursending feli í sér brot á 42. gr. laga um útlendinga eða samsvarandi alþjóðlegum reglum. Ákvæðið geri þvert á móti sérstaka kröfu um að fram fari mat á því í hverju tilviki fyrir sig hvort „sérstakar ástæður“ mæli með því að umsókn verði tekin til efnismeðferðar hér á landi. Meginregla laganna sé að allar umsóknir skuli taka til efnismeðferðar nema að undantekningarreglur laganna eigi við og að rétt þyki að beita þeim, en í samræmi við almennar lögskýringarreglur skuli túlka undantekningarreglur í lögum þröngt.

Kærandi byggir jafnframt á því að með ákvörðun sinni hafi Útlendingastofnun brotið gegn rannsóknarreglu stjórnsýsluréttarins sem lögfest sé í 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 þar sem hin kærða ákvörðun hafi verið tekin á grundvelli ófullnægjandi upplýsinga. Áður en stjórnvöld taki ákvörðun í máli beri því að sjá til þess að eigin frumkvæði að málsatvik séu nægilega upplýst. Útlendingastofnun vísi í tvær skýrslur í ákvörðun sinni en fjalli ekki um efni þeirra. Þá sé enga sjálfstæða umfjöllun að finna um framlögð gögn kæranda fyrir utan stutta vísun til skýrslu Amnesty International. Með hliðsjón af framagreindu hafi gögnin ekki verið skoðuð á gaumgæfilegan hátt að mati kæranda.

Í ákvörðun Útlendingastofnunar komi fram að kærandi sé tvísaga í framburði sínum um ástæður handtöku í heimaríki og hafi jafnframt verið margsaga um það hversu oft hann hafi orðið fyrir árás í Danmörku. Af hálfu kæranda sé gerð athugasemd við þessar staðhæfingar Útlendingastofnunar og talið ljóst með vísan til þeirrar skyldu sem hvíli á stofnuninni á grundvelli stjórnsýslulaga að fullt tilefni hafi verið til að spyrja kæranda nánar út í framagreindar frásagnir. Í ráðgjafaviðtali kæranda og talsmanns hans hafi kærandi kvartað undan því að túlkurinn hafi ekki túlkað orð hans rétt í viðtali hans hjá Útlendingastofnun þegar hann sagði að kærandi hafi tvisvar sinnum orðið fyrir árás af hendi glæpagengja í Danmörku. Kvað kærandi að hann hafi sagt að hann hafi orðið fyrir árás af hendi tveggja glæpagengja í Danmörku en ekki tvisvar sinnum. Aðspurður um hvers vegna kærandi hafi sagt aðra sögu um aðdraganda handtöku og pyndinga í […] í viðtali hjá Útlendingastofnun en í Danmörku kvað kærandi að hann hafi verið hræddur um að vera synjað um alþjóðlega vernd á Íslandi eins og í Danmörku og vera sendur aftur til […]. Réttar ástæður og aðdragandi handtökunnar í […] komi hins vegar fram í skýrslu Amnesty International og úrskurði kærunefndar útlendingamála í Danmörku og við þá frásögn standi kærandi. Í viðtali kæranda hjá Útlendingastofnun hafi hann jafnframt beðist afsökunar á minnisleysi. Hafi kærandi því gefið trúverðugar skýringar á misræmi varðandi atvik málsins auk þess sem hann hafi sýnt einlægan vilja til þess að segja satt og rétt frá. Burtséð frá ástæðum handtöku kæranda í […] þá hafi hann nú lagt fram fjóra dómsúrskurði frá […] sem varpi ljósi á stöðu hans þar í landi og skýrslu sem staðfesti að hann sé fórnarlamb alvarlegra pyndinga.

Á stjórnvöldum hvíli rík skylda til þess að framkvæma einstaklingabundið mat á aðstæðum hvers umsækjanda um alþjóðlega vernd með tilliti til þess hvort ákvörðun í máli hans uppfylli kröfur laga og alþjóðlegra skuldbindinga um verndun mannréttinda. Við lestur á ákvörðun Útlendingastofnunar fáist ekki séð að slíkt einstaklingsbundið mat hafi farið fram. Sérstaklega viðkvæm staða kæranda sem fórnarlamb pyndinga, sú staðreynd að honum hafi verið synjað um vernd í Danmörku og að mál hans í […] sé enn opið, hljóti að leggja sérstaklega ríkar skyldur á stofnunina að upplýsa málið og ganga úr skugga um hvaða aðstæður bíði hans við endursendingu til Danmerkur. Kærandi geri athugasemd við að Útlendingastofnun hafi ekki leitast við að upplýsa málið á fullnægjandi hátt. Fyrir liggi skýrsla sem kærandi hafi lagt fram frá Amnesty International. Að sögn kæranda hafi skýrslan ekki verið lögð til grundvallar úrskurði kærunefndar í Danmörku. Tilraun kæranda til að fá mál sitt endurupptekið á grundvelli hennar hafi að sögn kæranda engan árangur borið. Allt að einu leggi Útlendingastofnun skýrsluna til grundvallar og fallist á að kærandi sé í sérstaklega viðkvæmri stöðu sem þolandi pyndinga. Hins vegar telji stofnunin að dönsk stjórnvöld séu í stakk búin til að sinna þörfum hans hvað varðar heilbrigðisþjónustu. Ekki sé þó vísað í heimildir um hvernig heilbrigðisaðstoð sé fyrir umsækjendur um alþjóðlega vernd sem séu þolendur pyndinga. Vakin er athygli á því að kærandi hafi verið í Danmörku í sex til sjö ár en staða hans frá lokasynjun hafi verið svokölluð þolanleg dvöl (e. tolerated stay). Engin gögn beri með sér að við endursendingu kæranda til Danmerkur muni hann geta stundað vinnu eða gengið í skóla, þvert á það sem stofnunin virðist fullyrða. Rannsóknarregla stjórnsýslulaga sé öryggisregla og leiði brot á henni alla jafna til ógildingar stjórnvaldsákvörðunar. Telji kærandi að við ákvarðanatöku í máli hans hafi svo gróflega verið brotið gegn rannsóknarreglunni að ekki komi annað til greina en að ógilda ákvörðunina og taka umsókn hans til efnislegrar meðferðar hér á landi.

V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Fyrir liggur í máli þessu að dönsk stjórnvöld hafa samþykkt viðtöku á kæranda á grundvelli d-liðar 1. mgr. 18. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar, en Ísland skuldbatt sig til að fylgja reglugerðinni með samningi Íslands, Noregs og Evrópusambandsins frá 19. janúar 2001, um viðmiðanir og fyrirkomulag við að ákvarða hvaða ríki skuli fara með beiðni um alþjóðlega vernd sem lögð er fram í aðildarríki eða á Íslandi eða í Noregi. Í III. kafla Dyflinnarreglugerðarinnar koma fram viðmið, í ákveðinni forgangsröð, um hvaða ríki skuli bera ábyrgð á umsókn um alþjóðlega vernd. Samþykki Danmerkur er byggt á því að kærandi hafi fengið synjun á umsókn sinni um alþjóðlega vernd þar í landi.

Í c-lið 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga kemur fram að umsókn um alþjóðlega vernd skv. 37. gr. skuli tekin til efnismeðferðar nema heimilt sé að krefja annað ríki sem tekur þátt í samstarfi á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar um að taka við umsækjanda. Í 2. mgr. 36. gr. kemur fram að ef svo standi á sem greini í 1. mgr. skuli þó taka umsókn um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar ef útlendingurinn hefur slík sérstök tengsl við landið að nærtækast sé að hann fái hér vernd eða ef sérstakar ástæður mæli annars með því. Ef meira en 12 mánuðir hafa liðið frá því að umsókn um alþjóðlega vernd barst fyrst íslenskum stjórnvöldum og tafir á afgreiðslu hennar eru ekki á ábyrgð umsækjanda sjálfs skal taka hana til efnismeðferðar.

Þá er í 3. mgr. 36. gr. laga um útlendinga tekið fram að ef beiting 1. mgr. myndi leiða til þess að brotið væri gegn 42. gr., t.d. vegna aðstæðna í því landi sem senda á umsækjanda til, skuli taka umsókn til efnismeðferðar. Í 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga er kveðið á um að ekki sé heimilt að senda útlending eða ríkisfangslausan útlending til svæðis þar sem hann hefur ástæðu til að óttast ofsóknir, sbr. 37. og 38. gr., eða vegna svipaðra aðstæðna og greinir í flóttamannahugtakinu er í yfirvofandi hættu á að láta lífið eða verða fyrir ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð. Þá segir í 2. mgr. ákvæðisins að 1. mgr. eigi einnig við um sendingu útlendings til svæðis þar sem ekki er tryggt að hann verði ekki sendur áfram til slíks svæði sem greinir í 1. mgr.

Við mat á því hvort senda eigi umsækjanda um alþjóðlega vernd til ríkis, sem hefur samþykkt að taka við honum á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar, ber stjórnvöldum jafnframt að leggja sjálfstætt mat á hvort aðstæður þar brjóti gegn 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Þá ber stjórnvöldum að leggja mat á hvort málsmeðferð vegna umsókna um alþjóðlega vernd tryggi umsækjendum raunhæfa leið til að ná fram rétti sínum, sbr. 13. gr. sáttmálans. Í samræmi við framkvæmd Mannréttindadómstól Evrópu skal mat á meðferð umsókna um alþjóðlega vernd og móttöku og aðbúnaði umsækjenda taka mið af einstaklingsbundnum aðstæðum í hverju máli.

Kærunefnd útlendingamála hefur lagt mat á aðstæður og málsmeðferð í Danmörku, m.a. með hliðsjón af eftirfarandi skýrslum og gögnum:

• Country Factsheet Denmark (European Union Agency for Fundamental Rights, september 2010)

• Report by Nils Muižnieks Commissioner for Human Rights of the Council of Europe Following his visit to Denmark from 19 to 21 November 2013 (Council of Europe: Commissioner for Human Rights, 24. mars 2014)

• Denmark 2016 Human Rights Report (United States Department of State, 3. mars 2017)

• Dublin II – national asylum procedure in Denmark (Danish Refugee Council, 2011)

• Amnesty International Report 2016/17 - Denmark (Amnesty International, 22. febrúar 2017)

• Freedom in the world 2016 – Denmark (Freedom House, 2016)

• Upplýsingar af heimasíðu sem danska Útlendingastofnunin heldur úti: www.nyidanmark.dk, Udlændingestyrelsen og Styrelsen for International Rekruttering og Integrations.

Í framangreindum gögnum kemur fram að danska útlendingastofnunin (d. Udlændingestyrelsen) tekur ákvarðanir er varða umsóknir um alþjóðlega vernd í Danmörku og eiga umsækjendur um alþjóðlega vernd þess almennt kost að bera synjun dönsku útlendingastofnunarinnar undir sérstaka kærunefnd útlendingamála (d. Flygtningenævnet). Almennt kemur umsækjandi, sem hefur kært synjun á umsókn um alþjóðlega vernd, fyrir hina dönsku kærunefnd útlendingamála og skýrir mál sitt munnlega fyrir nefndinni. Hafi umsækjandi um alþjóðlega vernd í Danmörku fengið lokaniðurstöðu í máli sínu getur hann lagt fram nýja umsókn um alþjóðlega vernd telji hann nýjar ástæður eða breyttar aðstæður vera fyrir hendi í máli hans sem ekki voru fyrir hendi þegar mál hans var áður til meðferðar. Þá eiga umsækjendur um alþjóðlega vernd þess kost að leggja fram beiðni fyrir Mannréttindadómstól Evrópu um bráðabirgðaráðstöfun, skv. 39. gr. málsmeðferðarreglna dómstólsins, telji þeir endanlega niðurstöðu um synjun á alþjóðlegri vernd og brottvísun til heimaríkis hafa í för með sér hættu á ofsóknum eða meðferð sem muni brjóta í bága við ákvæði mannréttindasáttmálans.

Dönsk yfirvöld tryggja umsækjendum ekki endurgjaldslausa lögfræðiaðstoð við meðferð máls á stjórnsýslustigi. Hins vegar eiga umsækjendur rétt á lögfræðiaðstoð sér að kostnaðarlausu við meðferð máls á kærustigi. Þá veita frjáls félagasamtök að nafni Dansk Flygtningehjælp lögfræðiráðgjöf til umsækjenda um alþjóðlega vernd þeim að kostnaðarlausu.

Umsækjendur um alþjóðlega vernd eiga rétt á að vera í Danmörku á meðan mál þeirra er til meðferðar fyrir dönskum stjórnvöldum. Af framangreindum gögnum um Danmörku má ráða að umsækjendur fá gistingu í móttökumiðstöðvum þar til ákvörðun um brottvísun kemur til framkvæmda eða umsækjandi yfirgefur Danmörku sjálfviljugur. Jafnframt eiga umsækjendur rétt á dagpeningum til grunnframfærslu eða mat í móttökumiðstöðvum án endurgjalds. Þá veitir útlendingastofnun umsækjendum nauðsynlega heilbrigðisþjónustu sem þeir þurfa á að halda.

Athugun kærunefndar á aðstæðum umsækjenda um alþjóðlega vernd í Danmörku hefur ekki leitt í ljós gögn sem gefa tilefni til að líta svo á að aðstæður eða móttökuskilyrði þeirra þar í landi séu þess eðlis að hætta sé á að endursending umsækjenda um alþjóðlega vernd til Danmerkur brjóti í bága við 1. eða 2. mgr. 42. gr. laga um útlendinga eða 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Þá benda öll gögn til þess að umsækjendum um alþjóðlega vernd séu tryggð úrræði til að leita réttar síns í Danmörku bæði fyrir landsrétti og fyrir Mannréttindadómstól Evrópu, sbr. 13. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Ennfremur er haft til hliðsjónar að Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna hefur ekki lagst gegn endursendingu umsækjenda um alþjóðlega vernd til Danmerkur á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar. Þá bendir ekkert til þess að umsóknum […] umsækjenda um alþjóðlega vernd í Danmörku sé synjað sjálfkrafa eða þeir endursendir til heimaríkis án þess að leyst sé úr málum þeirra á einstaklingsgrundvelli.

Kærandi hefur greint frá því að hann hafi orðið fyrir líkamsárásum af hendi glæpagengja í Danmörku. Kærandi kvað að hann geti ekki tilkynnt þessa einstaklinga til lögreglu þar sem þeir hafi verið svo margir og hafi haft grímur fyrir andlitum sínum. Þau gögn sem kærunefnd hefur skoðað um aðstæður í Danmörku benda til þess að kærandi geti leitað aðstoðar yfirvalda í Danmörku óttist hann tiltekna aðila eða að á honum verði brotið.

Í viðtali kæranda hjá Útlendingastofnun þann 20. janúar 2017 greindi kærandi frá því að hann hafi orðið fyrir pyndingum í heimaríki og hafi dvalið á spítala […] í kjölfarið. Þá kvað kærandi að hann sé hræddur og kvíðinn og eigi erfitt með svefn. Fram hefur komið í málinu að kærandi sé með [...] vegna pyndinganna og lagði kærandi fram gögn fyrir kærunefnd því til stuðnings. Um er að ræða samskiptaseðla lækna, hjúkrunarfræðinga og sálfræðinga sem sinnt hafa kæranda á göngudeild sóttvarna og skýrslu frá Amnesty International í Danmörku sem fjallar m.a. um heilsufar kæranda. Í gögnunum kemur fram að kærandi hafi verið greindur með [...] og kvíða. Skilgreiningu á einstaklingi í sérstaklega viðkvæmri stöðu er að finna í 6. tölul. 3. gr. laga um útlendinga en þar kemur fram að átt sé við einstaklinga sem hafa sérþarfir sem taka þarf tillit til við meðferð máls eða geta ekki að fullu eða með engu móti nýtt sér rétt eða uppfyllt skyldur sem kveðið er á um í lögunum án aðstoðar eða sérstaks tillits, t.d. fólk með geðraskanir, alvarlega veikir einstaklingar og einstaklingar sem hafa orðið fyrir pyndingum. Í ljósi framangreinds tekur kærunefnd undir mat Útlendingastofnunar að kærandi sé einstaklingur í sérstaklega viðkvæmri stöðu í skilningi 6. tölul. 3. gr. laga um útlendinga.

Af gögnum málsins má ráða að kærandi hafi dvalið í Danmörku í um sex eða sjö ár og tali dönsku. Hann hafi unnið á veitingastað og gengið í skóla þar í landi. Í viðtali hjá Útlendingastofnun þann 20. janúar 2017 greindi kærandi frá því að hann hafi fengið aðstoð vegna andlegra veikinda sinna í Danmörku. Þá hefur komið fram í málinu að kærandi hafi fengið synjun á umsókn sinni um alþjóðlega vernd í Danmörku og verið búsettur í brottflutningsmiðstöð áður en hann hafi komið til Íslands. Af þeim gögnum sem kærunefnd hefur kynnt sér um aðstæður umsækjenda um alþjóðlega vernd í Danmörku sem fengið hafa endanlega niðurstöðu í máli sínu má ráða að þeim er skylt að dvelja í svokölluðum brottflutningsmiðstöðvum fram að brottvísun þeirra frá landinu. Dæmi eru um að umsækjendur um alþjóðlega vernd dvelji í þessum miðstöðvum í lengri tíma og bíði brottvísunar í töluverðri óvissu um framtíð sína. Fram kemur í alþjóðlegum skýrslum að slík óvissa og skortur á samskiptum við umheiminn geti haft slæmar afleiðingar á líkamlega og andlega heilsu umsækjenda um alþjóðlega vernd.

Heilsufar er eitt af þeim þáttum sem stjórnvöldum ber að líta til við mat á því hvort aðstæður umsækjanda um alþjóðlega vernd teljist sérstakar í skilningi 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga og mæli þannig með því að umsókn hans verði tekin til efnismeðferðar. Fara þarf fram heildstætt mat á aðstæðum umsækjanda þar sem litið er til heilsufarsupplýsinga og upplýsinga um þær aðstæður sem bíða kæranda í viðtökuríki, þ.m.t. hvort sú heilbrigðisþjónusta sem umsækjandi hefur aðgang að í viðtökuríki sé fullnægjandi. Kærunefnd leggur áherslu á að mat á því hvort heilsufar umsækjanda teljist sérstakar aðstæður er ekki bundið við skoðun á heilbrigðiskerfi móttökuríkis heldur þarf matið að fara fram á einstaklingsgrundvelli með hliðsjón af atvikum málsins. Meðal þeirra atvika sem sérstaklega þarf að líta til eru áhrif flutnings til viðtökuríkis á heilsufar umsækjanda að teknu tilliti til aðstæðna við flutning, sbr. einkum 29. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar. Verði niðurstaða heildstæðs mats á atvikum málsins sú að gögn málsins bendi eindregið til þess að framkvæmd synjunar á efnismeðferð umsóknar komi til með að hafa verulegar og óafturkræfar neikvæðar afleiðingar á andlega eða líkamlega heilsu umsækjanda telur kærunefnd að taka beri slíkar umsóknir til efnismeðferðar, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga, enda sé þá öruggt að einstaklingur verði ekki fyrir ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð við framkvæmd slíkrar ákvörðunar, sbr. 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu og 68. gr. stjórnarskrárinnar.

Til stuðnings þeirri kröfu kæranda að umsókn hans verði tekin til efnismeðferðar er vísað til nýlegs dóm Evrópudómstólsins í máli C.K. og fleiri gegn Slóveníu (nr. C-578/16) frá 16. febrúar 2017. Það er mat kærunefndar að áðurnefndur dómur er skýr um að ekki sé útilokað að flytja veikan einstakling nema ástand hans sé sérstaklega alvarlegt og hætta sé á ómannúðlegri og vanvirðandi meðferð í skilningi 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu og 4. gr. sáttmála Evrópusambandsins um grundvallarréttindi. Með ómannúðlegri og vanvirðandi meðferð sé átt við þegar flutningur skerðir heilsu einstaklings verulega eða flutningur verði til þess að valda óafturkræfum skaða á heilsu einstaklingsins og skiptir þá engu máli í matinu hvort umönnun í viðtökuríkinu uppfylli lágmarkskröfur sem Evrópusambandið gerir til móttöku umsækjenda um alþjóðlega vernd. Þá kemur fram í niðurstöðu dómsins að heimilt sé að flytja einstakling þegar hann geti ferðast en stjórnvöld verði að eyða öllum efasemdum um hvaða áhrif endursending hafi á heilsufar einstaklings með því að gera nauðsynlegar varúðarráðstafanir fyrir flutninginn þannig að flutningurinn fari fram á viðeigandi hátt og núverandi heilsa umsækjanda sé nægilega tryggð í ljósi 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Því sé samstarf við viðtökuríki vegna flutnings á veikum einstaklingi nauðsynlegt, t.d. til að tryggja nauðsynlega heilbrigðisþjónustu fyrir, á meðan og eftir flutning. Þá sé skylt að hætta við flutning ef slíkar varúðarráðstafanir dugi ekki til að koma í veg fyrir versnandi heilsu einstaklingsins. Heilsufarsástæður einstaklingsins geti því hamlað flutningi og réttlætt frestun á flutningi, sbr. 1. mgr. 29. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar. Ef hugsanlegt sé að veikindin vari í lengri tíma eða frestun flutnings í langan tíma auki á veikindi einstaklingsins er hugsanlegt að beita 1. mgr. 17. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar og í einstaka tilvikum er aðildarríkinu skylt að beita ákvæðinu. Geti því persónulegar aðstæður umsækjanda um alþjóðlega vernd komið í veg fyrir flutning þrátt fyrir að enginn kerfisbundinn galli sé í viðtökuríkinu og varúðarráðstafanir dugi ekki til að tryggja að flutningur umsækjanda feli ekki í sér raunverulega hættu á verulegum og óafturkræfum skerðingum af hálfu stjórnvalda á heilsu viðkomandi.

Í fyrrgreindum skýrslum um aðstæður í Danmörku kemur fram að umsækjendur um alþjóðlega vernd eiga rétt á nauðsynlegri heilbrigðisþjónustu sem þeir þurfa á að halda fram að brottflutningi þeirra frá landinu. Þó svo að mikið álag sé á hæliskerfi Danmerkur um þessar mundir telur kærunefnd ekki forsendur til annars, í ljósi þeirra upplýsinga sem liggja fyrir um aðstæður í Danmörku, en að leggja til grundvallar við úrlausn málsins að kærandi geti leitað sér heilbrigðisþjónustu við hæfi þar í landi. Samkvæmt gögnum málsins er kærandi haldinn [...]. Það er aftur á móti mat kærunefndar að gögn málsins beri ekki með sér að heilsufar kæranda sé með þeim hætti að framkvæmd synjunar á efnismeðferð umsóknar hans hafi í för með sér verulegar, neikvæðar og óafturkræfar afleiðingar fyrir heilsufar hans. Í ljósi aðstæðna í Danmörku og að teknu tilliti til einstaklingsbundinna aðstæðna kæranda, m.a. sérstaklega viðkvæmrar stöðu kæranda, er það því mat kærunefndar að ekki séu fyrir hendi slíkar sérstakar ástæður sem mæli með því að mál hans verði tekið til efnismeðferðar hér á landi, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Hins vegar beinir kærunefndin því til Útlendingastofnunar að tryggja að fyrir endursendingu kæranda verði dönsk stjórnvöld upplýst um heilsufar kæranda í samræmi við 32. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar.

Þar að auki er ekkert í gögnum málsins sem bendir til þess að kærandi hafi slík tengsl við landið að beita beri ákvæði 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Þá telur kærunefnd ljóst að síðari málsliður 2. mgr. 36. gr. eigi ekki við í máli kæranda þar sem ekki eru liðnir 12 mánuðir frá því að kærandi sótti um alþjóðlega vernd hér á landi, en hann lagði fram umsókn sína þann 23. desember 2016.

Líkt og fram hefur komið gerir kærandi athugasemd við rannsókn Útlendingastofnunar með vísan til rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Kærandi telur að rannsókn Útlendingastofnunar hafi verið ábótavant þar sem ákvörðunin hafi verið tekin á grundvelli ófullnægjandi upplýsinga m.a. vegna þess að eingöngu hafi verið vísað í tvær skýrslur og efni þeirra hafi ekki verið reifað í ákvörðun stofnunarinnar. Kærunefnd tekur fram að ekki fáist annað séð af ákvörðun Útlendingastofnunar en að stofnunin hafi byggt á nýjustu tiltæku skýrslum um aðstæður í Danmörku. Rannsóknarreglan í 10. gr. stjórnsýslulaga mælir fyrir um að stjórnvald afli þeirra gagna sem eru nauðsynleg svo mál sé nægjanlega upplýst. Reglan gerir kröfu um rannsókn sem er fullnægjandi grundvöllur ákvörðunar stjórnvalds en gerir hvorki kröfu um að aflað sé allra upplýsinga sem varpað gætu ljósi á málið né að stjórnvald afli ófáanlegra gagna, sbr. jafnframt 2. mgr. 23. gr. laga um útlendinga þar sem fram kemur að við meðferð mála er varða umsóknir um alþjóðlega vernd skuli afla nauðsynlegra og aðgengilegra upplýsinga. Eins og að framan greinir tekur kærunefnd undir það, sem fram kemur í ákvörðun Útlendingastofnunar um aðstæður í Danmörku, og telur ekki tilefni til að gera athugasemd við rannsókn málsins er þetta varðar.

Hins vegar, með vísan til málsl. 1. mgr. 25. gr. laga um útlendinga, ber Útlendingastofnun að tryggja eins fljótt og kostur er að fram fari einstaklingsbundin greining á því hvort umsækjandi teljist vera í sérstaklega viðkvæmri stöðu, sbr. 6. tölul. 3. gr. Útlendingastofnun mat aðstæður kæranda slíkar að hann væri í sérstaklega viðkvæmri stöðu og byggði mat sitt á skýrslu Amnesty International frá árinu 2012. Þá hafnaði stofnunin beiðni kæranda um að framkvæmt yrði á honum sálfræðimat. Kærunefnd gerir athugasemd við framkvæmd og rannsókn Útlendingastofnunar við mat á því hvort kærandi sé í viðkvæmri stöðu. Stofnunin byggir niðurstöðu sína um þennan þátt málsins á fimm ára gamalli skýrslu sem fjallar m.a. um andlega heilsu kæranda. Kærunefnd telur að það væri í betra samræmi við reglur um rannsókn stjórnvaldsákvarðana ef Útlendingastofnun hefði samþykkt beiðni kæranda um að aflað yrði nýrri gagna hvað þetta atriði varðar og byggt niðurstöðu sína á þeim. Ljóst er að meginmarkmiðið með kæruheimildum er að tryggja réttaröryggi borgaranna með því að gera þeim kleift að fá umfjöllun um mál sín á tveimur stjórnsýslustigum. Að mati kærunefndar er þó, í þessu tilviki, hægt á kærustigi að bæta úr þeim ágöllum sem tengjast skorti á rannsókn og rökstuðningi í ákvörðun Útlendingastofnunar enda voru lögð fram ný gögn er varða andlega heilsu kæranda á kærustigi málsins. Ljóst er, með vísan til framangreindrar niðurstöðu kærunefndar um aðstæður í Danmörku og stöðu kæranda, að ágallar á ákvörðun Útlendingastofnunar hafi ekki leitt til rangrar efnislegrar niðurstöðu og séu því ekki slíkir að ógilda beri ákvörðunina af þeirri ástæðu. Varakröfu kæranda um að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að Útlendingastofnun verði gert að taka málið til meðferðar að nýju er því hafnað.

Í ákvörðun Útlendingastofnunar, að því er varðar umfjöllun um 42. gr. laga um útlendinga, er að finna umfjöllun um framburð kæranda hjá Útlendingastofnun í samanburði við upplýsingar um framburð hans hjá dönskum stjórnvöldum. Þar kemur fram sú afstaða Útlendingastofnunar að framburður hans um ástæður flótta frá heimaríki hafi að nokkru leyti verið ótrúverðugur. Að mati kærunefndar er óljóst af rökstuðningi stofnunarinnar hvaða þýðingu niðurstaða um trúverðugleikamat á framburði kæranda varðandi flótta frá heimaríki hefur fyrir niðurstöðu varðandi synjun á efnismeðferð og 42. gr. laga um útlendinga. Kærunefnd áréttar að rökstuðningur stjórnvaldsákvörðunar á að vera skýr og glöggur. Þar skal gera grein fyrir atvikum máls að því leyti sem þau hafa þýðingu fyrir niðurstöðu máls. Gerir kærunefnd að þessu leyti athugasemd við rökstuðning ákvörðunar Útlendingastofnunar.

Þá er í ákvörðun Útlendingastofnunar fjallað um túlkun 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016 þar sem m.a. er vísað til athugasemda við 36. gr. frumvarps til laga um útlendinga (þskj. 1180, 145. lögþ. 2015-2016). Af því tilefni tekur kærunefnd fram að tilvitnaðar athugasemdir eiga við um 36. gr. frumvarp til laga um útlendinga. Frumvarpið tók breytingum í meðförum Alþingis og er 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016 ekki að efni til samhljóða 2. mgr. 36. gr. frumvarpsins. Að mati kærunefndar verður því ekki vísað til tilvitnaðra athugasemda við túlkun á 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga án þess að geta samhengis breytinganna og annarra lögskýringargagna, einkum nefndarálits allsherjar- og menntamálanefndar (þskj. 1400, 145. lögþ.) Að þessu leyti er gerð athugasemd við rökstuðning ákvörðunar Útlendingastofnunar.

Í máli þessu hafa dönsk stjórnvöld fallist á að taka við kæranda og umsókn hans um alþjóðlega vernd á grundvelli ákvæða Dyflinnarreglugerðarinnar. Í ljósi alls ofangreinds er það niðurstaða kærunefndar að rétt sé að synja því að taka til efnismeðferðar umsókn kæranda um alþjóðlega vernd hér á landi og senda kæranda til Danmerkur með vísan til c-liðar 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

Ákvörðun Útlendingastofnunar er því staðfest.

Athygli kæranda er vakin á því að skv. 6. mgr. 104. gr. laga um útlendinga frestar málshöfðun fyrir dómstólum til ógildingar á endanlegri ákvörðun um að útlendingur skuli yfirgefa landið ekki framkvæmd hennar. Að kröfu útlendings getur kærunefnd útlendingamála þó ákveðið að fresta réttaráhrifum endanlegrar ákvörðunar sé talin ástæða til þess. Krafa þess efnis skal gerð ekki síðar en sjö dögum frá birtingu endanlegrar ákvörðunar. Skal frestun bundin því skilyrði að útlendingur beri málið undir dómstóla innan fimm daga frá birtingu ákvörðunar um frestun réttaráhrifa úrskurðar og óski eftir að það hljóti flýtimeðferð. Nú er beiðni um flýtimeðferð synjað og skal þá mál höfðað innan sjö daga frá þeirri synjun. Þó getur kærunefnd útlendingamála tekið ákvörðun um að fresta framkvæmd ef sýnt er fram á að verulega breyttar aðstæður hafi skapast frá því að endanleg ákvörðun var tekin.

 

Úrskurðarorð

Ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest.

The decision of the Directorate of Immigration is affirmed.

 

Anna Tryggvadóttir, varaformaður

Erna Kristín Blöndal                                             Þorbjörg Inga Jónsdóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta