Mál nr. 19/2011
Fimmtudagurinn 2. febrúar 2012
A
gegn
Vinnumálastofnun-Fæðingarorlofssjóði
Úrskurður
Mál þetta úrskurða Jóna Björk Helgadóttir hdl., Gunnlaugur Sigurjónsson læknir og Heiða Gestsdóttir lögfræðingur.
Þann 14. október 2011 barst úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála kæra frá Z lögmönnum ehf., f.h. A, dags. 12. október 2011. Kærð var ákvörðun Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs (hér eftir nefndur Fæðingarorlofssjóður) sem tilkynnt var með bréfi, dags. 9. september 2011, um að synja kæranda um greiðslu fæðingarstyrks sem námsmanni.
Með bréfi, dags. 14. október 2011, óskaði úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála eftir greinargerð Fæðingarorlofssjóðs sem barst með bréfi, dags. 10. nóvember 2011.
Greinargerðin var send lögmanni kæranda til kynningar með bréfi, dags. 14. nóvember 2011, og honum gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Frekari athugasemdir bárust ekki frá kæranda.
I.
Sjónarmið kæranda.
Kærandi greinir frá því að hann sé fæddur og uppalinn á Íslandi. Hann hafi meginpart ævi sinnar búið þar og borgað skatta og borið skyldur samkvæmt því. Kærandi greinir frá því að hann eigi fimm börn, fædd á árunum 2001, 2006, 2007 og tvíbura árið 2011.
Kærandi kveðst hafa flutt í lok septembermánaðar árið 2007 til C-lands ásamt eiginkonu sinni. Á þeim tíma hafi hann verið í fæðingarorlofi með barni fæddu Y. maí 2006. Þann 1. janúar 2008 hafi hann svo byrjað í fæðingarorlofi með barni fæddu Y. ágúst 2007 og verið í fæðingarorlofi með því til 30. júní 2008. Þann 15. ágúst 2008 hafi hann byrjað í Háskólanum í B-borg.
Kærandi greinir frá því að hann hafi ákveðið á árinu 2007 að flytja út með eiginkonu sinni til C-lands svo hann gæti hafið undirbúningsnám og í framhaldi af því háskólanám í D-fræði við Háskólann í B-borg. Eiginkona hans hafi á árum áður búið í B-borg og því þekkt þar vel til. Hún hafi sjálf byrjað í fornámi við sama skóla og því verið búin að kynna sér skilyrðin fyrir inngöngu. Skilyrðin séu að um sé að ræða íslenskan ríkisborgara búsettan í C-landi, yfir tvítugt og með starfsreynslu. Kærandi hafi uppfyllt þetta allt. Þau hjónin hafi jafnframt gengið úr skugga um það áður en þau fóru út að kærandi kæmist í námið. Þar sem kærandi hafi verið í fæðingarorlofi þá töldu þau réttast að drífa sig strax út, til að hann gæti verið búinn að ná almennilegum tökum á tungumálinu áður en hann byrjaði námið. Undirbúningsnám kæranda hafi byrjað 15. ágúst 2008 og staðið til 18. júní 2009. Þann 1. september 2009 hafi kærandi byrjað í D-fræðináminu.
Kærandi vísar til þess að skv. 1. mgr. 19. gr. laga um fæðingar- og foreldraorlof, nr. 95/2000 (ffl.), eigi foreldrar sem hafa verið í fullu námi í a.m.k. sex mánuði á síðustu tólf mánuðum fyrir fæðingu barns sjálfstæðan rétt til fæðingarorlofs í allt að þrjá mánuði hvort um sig vegna fæðingar barns. Auk þess eigi foreldrar sameiginlegan rétt á þremur mánuðum til viðbótar sem annað foreldrið getur tekið í heild eða foreldrar skipt með sér.
Kærandi hafi stundaði fullt nám við skólann frá 15. ágúst 2008 til og með 21. júní 2011. Kærandi sótti um fæðingarorlof vegna tvíbura sem fæddust Y. mars 2011 frá og með tímabilinu 1. ágúst 2011 til 30. maí 2012.
Kærandi bendir á að í 2. málsl. 3. mgr. 19. gr. ffl. komi fram að foreldri skuli að jafnaðieiga lögheimili hér á landi við fæðingu barns og hafa átt lögheimili hér á landi síðustu tólf mánuði fyrir þann tíma. Í 3. málsl. 3. mgr. 19. gr. ffl. sé svo að finna undantekningarákvæði sem eigi við í hans tilviki. Þar segi orðrétt: „Heimilt er þó að veita undanþágu frá lögheimilisskilyrði hafi foreldri flutt lögheimili sitt tímabundið vegna náms erlendis enda hafi foreldri átt lögheimili hér á landi samfellt í a.m.k. fimm ár fyrir flutning.“ Kærandi hafi flutti lögheimili sitt erlendis tímabundið til að geta hafið nám sitt og átt lögheimili á Íslandi gott betur en fimm ár, áður en hann flutti það tímabundið til C-lands til að hefja námið.
Kærandi bendir á að hvergi komi fram í lögunum að tiltekinn tími megi ekki líða frá því að foreldri flytji tímabundið erlendis til að hefja nám þar til að nám hefst. Einungis komi fram að heimilt sé að veita foreldri sem flytur tímabundið erlendis undanþágu frá lögheimilisskilyrðinu. Það hafi ávallt verið ætlun kæranda að hefja nám sitt að loknu fæðingarorlofi. Í þessu samhengi bendir kærandi á að réttur til fæðingarstyrks falli niður við 18 mánaða aldurs barns, sbr. 1. mgr. 18. gr. og 1. mgr. 19. gr. ffl. Því hafi kæranda í raun verið gert ókleift að hefja nám sitt fyrr ef hann hafi á annað borð ætlað sér að sinna foreldrisskyldum sínum og taka fæðingarorlof.
Kærandi hafi verið í fæðingarorlofi á tímabilinu september 2007 til 30. júní 2008. Hann hafi í beinu framhaldi af því tekið sér sumarleyfi og farið svo í nám. Það nám hafi hann stundað samfleytt þar til að hann ákvað núna að fara í foreldraorlof vegna barna sem fæddust í mars 2011.
II.
Sjónarmið Fæðingarorlofssjóðs.
Fæðingarorlofssjóður greinir frá því að með umsókn, dags. 28. júlí 2011, hafi kærandi sótt um greiðslu fæðingarstyrks sem foreldri í fullu námi í níu mánuði vegna fjölburafæðingar Y. mars 2011. Með umsókn kæranda hafi fylgt vottorð frá sveitarfélaginu B-borg, dags. 18. ágúst 2011, bréf frá Háskólanum í B-borg, dags. 9. júní 2011, yfirlit frá sama skóla, dags. 18. ágúst 2011, og staðfesting frá Þjóðskrá Íslands um lögheimilisflutning, dags. 30. ágúst 2011. Auk þess hafi legið fyrir upplýsingar úr Þjóðskrá.
Með bréfi Fæðingarorlofssjóðs, dags. 9. september 2011, hafi kæranda verið synjað um greiðslu fæðingarstyrks sem námsmanni þar sem hann hefði ekki verið með lögheimili á Íslandi við fæðingu barnanna og ekki væri séð að hann hefði flutt lögheimili sitt tímabundið erlendis vegna náms.
Eftir að kæra var lögð fram hafi Fæðingarorlofssjóður ákveðið að kalla eftir staðfestingu frá Háskólanum í B-borg um hvenær kærandi hafi sótt um undirbúningsnám, sem hófst 15. ágúst 2008, og hvenær skólinn hafi samþykkt umsókn kæranda um námið. Einnig hafi verið óskað eftir afriti af flutningstilkynningu kæranda til C-lands. Í framhaldinu hafi borist bréf frá lögmanni kæranda, dags. 31. október 2011, bréf frá háskólanum, dags. 28. október 2011, ásamt tölvupóstum frá kæranda, skólanum og Þjóðskrá Íslands.
Fæðingarorlofssjóður vísar til þess að skv. 1. mgr. 19. gr. ffl., sbr. 16. gr. laga nr. 74/2008, eigi foreldrar sem hafa verið í fullu námi í a.m.k. sex mánuði á síðustu tólf mánuðum fyrir fæðingu barns, frumættleiðingu eða töku barns í varanlegt fóstur og sýnt viðunandi námsárangur rétt á fæðingarstyrk. Foreldri skal leggja fram staðfestingu frá viðkomandi skóla um að það hafi verið skráð í fullt nám og sýnt viðunandi námsárangur. Heimilt sé að taka tillit til ástundunar náms í stað námsárangurs á þeirri skólaönn sem barn fæðist.
Í 3. mgr. 19. gr. ffl. komi fram sú meginregla að foreldri skuli að jafnaði eiga lögheimili hér á landi við fæðingu barns og hafi átt lögheimili hér á landi síðustu tólf mánuði þar á undan. Heimilt sé þó að veita undanþágu frá lögheimilisskilyrði hafi foreldri flutt lögheimili sitt tímabundið vegna náms erlendis enda hafi foreldri átt lögheimili hér á landi samfellt í a.m.k. fimm ár fyrir flutning. Hið sama gildi þegar foreldri hefur flutt lögheimili sitt tímabundið og stundar fjarnám við íslenskan skóla á þeim tíma, enda hafi foreldri átt lögheimili hér á landi samfellt í a.m.k. fimm ár fyrir flutning og fullnægir öðrum skilyrðum um fæðingarstyrk til foreldra í fullu námi.
Fæðingarorlofssjóður greinir frá því að skilgreiningu á fullu námi sé að finna í 4. mgr. 7. gr. ffl., sbr. 4. gr. laga nr. 74/2008 og c-lið 2. gr. reglugerðar nr. 1218/2008, um greiðslu úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks. Þar komi fram að fullt nám í skilningi ffl. teljist vera 75–100% samfellt nám, verklegt eða bóklegt, í viðurkenndri menntastofnun innan hins almenna menntakerfis á Íslandi sem standi yfir í a.m.k. sex mánuði. Enn fremur sé átt við 75–100% nám á háskólastigi og annað nám sem gerir sambærilegar kröfur til undirbúningsmenntunar og nám á háskólastigi. Einstök námskeið teljist ekki til náms.
Fæðingarorlofssjóður bendir á að samkvæmt staðfestingu frá Þjóðskrá Íslands, dags. 30. ágúst 2011, hafi kærandi verið skráður með lögheimili í C-landi frá 25. september 2007. Hann uppfyllir því ekki meginreglu 3. mgr. 19. gr. ffl. þar sem komi fram að foreldri skuli að jafnaði eiga lögheimili hér á landi við fæðingu barns og hafa átt lögheimili hér á landi síðustu tólf mánuði þar á undan.
Fæðingarorlofssjóður greinir frá því að þá komi til athugunar heimild í 3. mgr. 19. gr. ffl. sem kveði á um að heimilt sé að veita undanþágu frá lögheimilisskilyrði hafi foreldri flutt lögheimili sitt tímabundið vegna náms erlendis enda hafi foreldri átt lögheimili hér á landi samfellt í a.m.k. fimm ár fyrir flutning.
Á yfirliti frá Háskólanum í B-borg, dags. 18. ágúst 2011, komi fram að kærandi hafi verið skráður í undirbúningsnám við skólann þann 15. ágúst 2008 sem hafi lokið þann 18. júní 2009. Kærandi hafi því ekki byrjað nám erlendis fyrr en tíu og hálfum mánuði eftir að hann hafði flutt lögheimili sitt til C-landi enda hafi hann verið í fæðingarorlofi með eldri börnum sínum til júníloka 2008.
Fæðingarorlofssjóður ítrekar að kallað hafi verið eftir frekari upplýsingum frá kæranda og skólanum vegna ummæla í kæru þess efnis að kærandi hafi gengið úr skugga um það áður en hann fór út að hann kæmist í námið.
Í bréfi frá háskólanum, dags. 28. október 2011, sem sé svar við fyrirspurn Fæðingarorlofssjóðs frá 26. október 2011, komi fram að skólinn geti ekki gefið út staðfestingu á hvenær sótt hafi verið um námið. Í tölvupósti frá skólanum, dags. 10. nóvember 2011, komi á hinn bóginn fram að skólinn hafi móttekið umsókn kæranda þann 13. ágúst 2008 og umsókn hans hafi verið samþykkt samdægurs.
Samkvæmt framangreindu geti Fæðingarorlofssjóður ekki séð að lögheimilisflutningur kæranda til C-lands hafi verið vegna náms við háskólann í B-borg enda hafi kærandi ekki sótt nám við skólann fyrr en tíu og hálfum mánuði eftir að hann flutti lögheimili sitt og því getur undanþáguákvæði 3. mgr. 19. gr. ffl. ekki átt við í tilviki kæranda. Fæðingarorlofssjóður vísar í úrskurð úrskurðarnefndar fæðingar- og foreldraorlofsmála nr. 32/2007 máli sínu til stuðnings. Þá greinir Fæðingarorlofssjóður frá því að sjóðurinn hafi ekki skoðað sérstaklega hvort kærandi uppfylli skilyrði um fullt nám að öðru leyti.
III.
Niðurstaða.
Kærð er ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs um að synja kæranda um fæðingarstyrk námsmanna vegna fæðingar tvíbura hinn Y. mars 2011.
Samkvæmt 1. mgr. 19. gr. ffl., sbr. a-lið 16. gr. laga nr. 74/2008, eiga foreldrar sem verið hafa í fullu námi í a.m.k. sex mánuði á síðustu tólf mánuðum fyrir fæðingu barns, frumættleiðingu eða töku barns í varanlegt fóstur og sýnt viðunandi námsárangur rétt til fæðingarstyrks. Skal foreldri leggja fram staðfestingu frá viðkomandi skóla um að það hafi verið skráð í fullt nám og sýnt viðunandi námsárangur. Heimilt er að taka tillit til ástundunar náms í stað námsárangurs á þeirri skólaönn sem barn fæðist.
Í lögskýringargögnum með umræddum ákvæðum, sem komu inn í ffl. með 9. gr. laga nr. 90/2004 um breytingu á ffl., er ekki að finna leiðbeiningar um túlkun þeirra reglna sem þarna koma fram, hvorki meginreglunnar um lögheimili á Íslandi né undanþáguheimildarinnar um flutning lögheimilis tímabundið vegna náms erlendis. Samkvæmt orðskýringu verður þó ekki annað ráðið af ákvæðunum en að meginreglan sé sú að foreldri skuli hafa átt lögheimili hér á landi við fæðingu barns. Þá verður ekki ráðið af orðalagi greinargerðar með 9. gr. laga nr. 90/2004 að orðin „að jafnaði“ hafi sérstaka þýðingu í þessu sambandi eða veiti heimildir til annarra undanþága en beinlínis eru teknar fram í ákvæði 3. mgr. 19. gr. ffl. Þá leiðir orðskýring á 3. málsl. 3. mgr. 19. gr. ffl., um undanþágu vegna tímabundins flutnings lögheimilis, til þess að það verði að teljast skilyrði undanþágunnar, að hinn tímabundni lögheimilisflutningur hafi verið „vegna náms erlendis“, þannig að ástæða lögheimilisflutningsins hafi verið nám erlendis.
Samkvæmt staðfestingu frá Þjóðskrá, dags. 30. ágúst 2011, hefur kærandi verið skráður með lögheimili í C-landi frá 25. september 2007. Samkvæmt upplýsingum frá Fæðingarorlofssjóði var kærandi í fæðingarorlofi með barni fæddu Y maí 2006 á tímabilinu 1.–15. júní 2007 og frá 14. ágúst til 28. október 2007, alls þrjá mánuði. Hinn 1. janúar 2008 hóf kærandi fæðingarorlof með barni fæddu Y. ágúst 2007 og lauk því fæðingarorlofi 30. júní 2008, alls sex mánuðir. Þá er ljóst samkvæmt gögnum málsins að kærandi hóf undirbúningsnám 15. ágúst 2008 við háskólann í B-borg sem stóð til 18. júní 2009 og þann 1. september 2009 hóf hann annað nám við þann skóla.
Almennt ber að skýra reglur sem fela í sér undanþágur frá meginreglum þröngri lögskýringu. Að mati nefndarinnar er ekkert í ákvæði 3. málsl. 3. mgr. 19. gr. ffl. eða lögskýringargögnum með því ákvæði sem gefur ástæðu til annars en þröngrar túlkunar á umræddri undanþágu. Með hliðsjón af fyrirliggjandi gögnum málsins þykir ekki staðfest að tilgangur með lögheimilisflutningi kæranda hinn 25. september 2007 til C-lands hafi verið vegna undirbúningsnáms hans sem hófst tæpu ári síðar eða 15. ágúst 2008 og síðar annars náms hans við háskólann í B-borg sem hófst 1. september 2009. Telst hann því ekki uppfylla skilyrði 3. mgr. 19. gr. ffl. um tímabundinn lögheimilisflutning vegna náms erlendis. Verður hin kærða ákvörðun því staðfest.
ÚRSKURÐARORÐ:
Ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs um að synja A um greiðslu um greiðslu fæðingarstyrks sem námsmanni er staðfest.
Jóna Björk Helgadóttir
Heiða Gestsdóttir
Gunnlaugur Sigurjónsson