Hoppa yfir valmynd

Nr. 523/2019 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

Þann 7. nóvember 2019 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 523/2019

í stjórnsýslumálum nr. KNU19100064, KNU19100089 og KNU19100090

Beiðni […], […]

og […] um endurupptöku

 

I. Málsatvik

Þann 14. ágúst 2019 staðfesti kærunefnd útlendingamála ákvarðanir Útlendingastofnunar, dags. 24. júlí 2019, um að taka ekki til efnismeðferðar umsóknir einstaklinga er kveðast heita […], vera fædd […] (hér eftir A), […], er kveðst vera fædd […] (hér eftir B) og […], er kveðst vera fædd […] (hér eftir C), er kveðast allar vera ríkisborgarar [...], um alþjóðlega vernd á Íslandi og vísa þeim frá landinu. Úrskurður kærunefndar var birtur kærendum þann 19. ágúst 2019 og þann 26. ágúst 2019 barst kærunefnd beiðni kærenda um frestun réttaráhrifa. Kærunefnd synjaði þeirri beiðni með úrskurði nr. 441/2019, dags. 11. september 2019. Þann 22. október 2019 barst kærunefnd beiðni kærenda um endurupptöku auk fylgiskjals.

Krafist er endurupptöku á málum fjölskyldunnar á grundvelli 1. og 2. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, að felldar verði úr gildi ákvarðanir Útlendingastofnunar og að stofnuninni verði gert að taka umsóknir þeirra til efnislegrar meðferðar.

II. Málsástæður og rök kærenda

Krafa kærenda um endurupptöku er annars vegar reist á því að aðstæður þeirra hafi breyst verulega frá því ákvarðanir í málum þeirra hafi verið teknar og hins vegar á því að ákvarðanirnar hafi verið byggðar á ófullnægjandi upplýsingum, sbr. 1. og 2. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga.

Í beiðni kærenda um endurupptöku vísa kærendur til læknisvottorðs, dags. 21. október 2019, þar sem fram komi að það sé mat sérfræðilæknis að komi til framkvæmdar brottvísunar A, á þessu stigi, sé lífi hennar stefnt í alvarlega hættu. A sé háð skilunarmeðferð til þess að lifa og ekki megi rjúfa þá meðferð sem henni sé nú veitt hér á landi.

Kærendur telji að framangreint læknisvottorð feli í sér hvorttveggja í senn, nýjar upplýsingar og breyttar aðstæður. Hinar nýju upplýsingar séu þær að framkvæmd brottvísunar geti stefnt lífi A í alvarlega hættu og hinar breyttu aðstæður séu þær að ekki megi rjúfa þá meðferð sem hafin sé hér á landi. Telji kærendur að afla þurfi frekari upplýsinga um hvaða rannsóknir hafi verið gerðar, hvernig meðferð og eftirliti sé háttað og ekki síst nákvæma útlistun á þeirri meðferð sem A njóti hér á landi og ekki megi rjúfa. Vísa kærendur til rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga í þessu sambandi. Af framangreindu sé ljóst að skilyrði endurupptöku séu fyrir hendi, sbr. 1. og 2. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga. Þá gera kærendur varakröfu um að kærunefnd fresti þegar í stað framkvæmd endanlegrar ákvörðunar um brottvísun fari svo að nefndin fallist ekki á beiðni kærenda um endurupptöku.

III. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Samkvæmt 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga á aðili máls rétt á því að mál sé tekið upp á ný ef ákvörðun hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik sbr. 1. tölul. ákvæðisins eða íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því að ákvörðun var tekin sbr. 2. tölul. þess.

Kærendur byggja endurupptökubeiðni sína á báðum ofangreindum töluliðum. Til grundvallar kröfum þeirra liggur ofangreint vottorð frá sérfræðilækni á Landspítalanum, dags. 21. október 2019. Í vottorðinu kemur m.a. fram að A sé með sykursýki og hafi verið í skilunarmeðferð hér á landi frá 7. mars 2019. A hafi verið mjög meðtekin fyrst eftir komu til Íslands frá Grikklandi, en með skilunar- og lyfjameðferð hafi ástand hennar batnað verulega á um einum mánuði. […]. Í niðurlagi umrædds vottorðs segir að komi til brottvísunar A á þessu stigi sé lífi hennar stefnt í alvarlega hættu. Hún sé háð skilunarmeðferð til þess að lifa og ekki megi rjúfa þá meðferð sem henni sé nú veitt hér á landi. Eins og áður hefur verið greint frá telja kærendur niðurlag vottorðsins annars vegar fela í sér nýjar upplýsingar og hins vegar sýna fram á breyttar aðstæður. Vegna þess hversu nátengdar málsástæður kærenda eru, verður fjallað um þær samhliða hvor annarri.

Í úrskurði kærunefndar nr. 389/2019 frá 14. ágúst sl. í málum kærenda var ítarlega farið yfir stöðu þeirra, sérstaklega með tilliti til heilbrigðissögu A og núverandi veikinda og þarfa hennar. Fyrir lágu gögn frá Göngudeild sóttvarna, dags. 14. mars til 14. júní 2019 og gögn frá Landspítalanum, dags. 6. mars til 9. apríl 2019. Í úrskurðinum kom fram að í heilsufarsgögnunum hafi komið fram að A glími m.a. við sykursýki og nýrnabilun og sé af þeim sökum háð blóðskilunarmeðferð sem hún mæti í þrisvar í viku í fjóra tíma í senn. Hefði kærandi notið þeirrar meðferðar hér á landi auk þess sem hún hefði fengið ávísað lyfjum vegna þess. Í úrskurðinum lágu auk þess fyrir heilsufarsgögn frá Grikklandi þar sem fram kom m.a. að A hefði hafið blóðskilunarmeðferð í Grikklandi í desember 2017. Í meðferðaráætlun A vegna blóðskilunarmeðferðarinnar þar í landi kæmi fram að A hefði fengið þá meðferð þrisvar í viku í fjóra tíma í senn á sjúkrahúsi í Aþenu. Þá sagði í úrskurðinum að það væri mat kærunefndar að A ætti við alvarleg veikindi að stríða auk þess sem hún hefði þörf fyrir læknismeðferð sem mætti ekki rjúfa. Lagði kærunefnd til grundvallar að A hefði sérþarfir sem taka þyrfti tillit til við meðferð málsins, sbr. 6. tölul. 3. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016.

Í úrskurðinum kom einnig fram að það væri mat kærunefndar, þegar litið væri til framburðar kærenda um fyrri læknismeðferð í Grikklandi og rannsóknar nefndarinnar á aðstæðum þar í landi, að A ætti rétt á endurgjaldslausri grunnheilbrigðisþjónustu og nauðsynlegum lyfjum þ. á m. meðferð við veikindum hennar. Var það því niðurstaða kærunefndar að leggja til grundvallar við úrlausn málsins að meðferðin sem A hefði þörf fyrir væri til staðar í Grikklandi og aðgengileg henni, sbr. viðmið í 32. gr. a reglugerðar um útlendinga nr. 540/2017, með síðari breytingum. Þá tók kærunefnd mið af því sem fram hefði komið í ákvörðun Útlendingastofnunar í máli A, þ.e. að stofnunin myndi miðla nauðsynlegum heilsufarsupplýsingum til Grikklands áður en til flutnings kæmi svo að tryggt yrði að A myndi bíða viðunandi aðstoð við komuna þangað. Kærunefnd beinir því til Útlendingastofnunar að flutningur kærenda fari fram með þeim hætti að tryggt sé að heilsufari A verði ekki stefnt í hættu.

Í ljósi ofangreinds er það mat kærunefndar að þær upplýsingar sem koma fram í læknisvottorði því sem fylgdi með endurupptökubeiðni kærenda feli hvorki í sér að mál kærenda hafi byggst á ófullnægjandi upplýsingum né að atvik hafi breyst verulega frá því að ákvörðun var tekin. Áréttar kærunefnd að upplýsingar um hátt alvarleikastig veikinda A og að hún hefði nauðsynlega þörf fyrir áframhaldandi meðferð við veikindum sínum, hafi legið fyrir áður en úrskurður var kveðinn upp í málum kærenda.

Þá er það mat kærunefndar að framangreint læknisvottorð gefi ekki til kynna að úrskurður kærunefndar, hvað varðar aðstæður B og C, hafi verið byggður á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik eða á atvikum sem hafi breyst verulega frá því að ákvörðunin var tekin.

Í ljósi þessa verður ekki séð að úrskurður kærunefndar frá 14. ágúst 2019 hafi byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik, sbr. 1. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga. Þá er það mat kærunefndar í ljósi þess sem hér hefur verið rakið að atvik málanna hafi ekki breyst verulega frá því að úrskurður kærunefndar var kveðinn upp, sbr. 2. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga. Kærunefnd telur samkvæmt framansögðu að skilyrði 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga séu ekki uppfyllt og er kröfu kærenda um endurupptöku mála þeirra hjá kærunefnd því hafnað. Í ljósi niðurstöðu kærunefndar verður ekki fallist á beiðni kærenda um að fresta framkvæmd.

 

Úrskurðarorð

Kröfu kærenda er hafnað.

The request of the appellant’s is denied.

Áslaug Magnúsdóttir

Árni Helgason                                                              Bjarnveig Eiríksdóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta