Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 145/2020-Úrskurður

KÆRUNEFND HÚSAMÁLA

ÚRSKURÐUR

uppkveðinn 6. maí 2021

í máli nr. 145/2020

 

A

gegn

B

 

Kærunefndina skipa í þessu máli Auður Björg Jónsdóttir lögmaður, Valtýr Sigurðsson lögmaður og Eyþór Rafn Þórhallsson verkfræðingur. 

Aðilar málsins eru:

Sóknaraðili: A.

Varnaraðili: B. Umboðsmaður varnaraðila er C. 

Krafa sóknaraðila er að viðurkennt verði að varnaraðila beri að endurgreiða henni kostnað að fjárhæð 41.272 kr. sem hún greiddi vegna viðgerðar á uppþvottavél í eigu varnaraðila.

Varnaraðili krefst þess að kröfu sóknaraðila verði hafnað.

Með kæru, dags. 15. desember 2020, beindi sóknaraðili til nefndarinnar erindi vegna ágreinings við varnaraðila. Þar sem sóknaraðili tilgreindi umboðsmann varnaraðila samkvæmt leigusamningi sem varnaraðila óskaði kærunefndin eftir því með tölvupósti 5. janúar 2021 að kæran yrði leiðrétt og varnaraðili tilgreindur sem varnaraðili. Leiðrétt kæra barst kærunefnd 21. mars 2021. Með bréfi kærunefndar, dags. 24. mars 2021, var varnaraðila gefinn kostur á að tjá sig um efni kærunnar. Greinargerð varnaraðila, dags. 5. apríl 2021, barst kærunefnd sama dag. Kærunefnd sendi sóknaraðila greinargerð varnaraðila með bréfi, dags. 7. apríl 2021, til upplýsingar og var sóknaraðila veittur frestur til að koma að athugasemdum. Athugasemdir bárust ekki.

I. Helstu málsatvik og ágreiningsefni

Aðilar gerðu tímabundinn leigusamning frá 10. maí 2020 til 10. maí 2021 um leigu sóknaraðila á íbúð varnaraðila að D. Ágreiningur er um hvort sóknaraðila beri að greiða kostnað vegna viðgerðar á uppþvottavél sem bilaði á leigutíma og er í eigu varnaraðila.

II. Sjónarmið sóknaraðila

Sóknaraðili segir að í 2. gr. leigusamnings aðila segi að „leigutaki beri allan rekstrarkostnað af uppvöskunarvélinni á leigutíma“ en ekki hafi verið tilgreint nákvæmlega hvað fælist í rekstrarkostnaði. Sóknaraðili hafi farið með uppþvottavélina í viðgerð og greitt fyrir það 41.272 kr. Sóknaraðili hafi síðan spurt umboðsmann varnaraðila með rafrænum skilboðum hvort hún vildi millifæra kostnaðinn á sóknaraðila eða hvort hún ætti að draga hann af næstu leigu. Skilaboðunum hafi ekki verið svarað í rúmar tvær vikur en það hafi ekki verið fyrr en sóknaraðili hafi sent skilaboð um að hún hefði dregið kostnaðinn frá leigunni sem umboðsmaðurinn hafi loks svarað og sagt að samkvæmt leigusamningnum ætti sóknaraðili að greiða kostnaðinn.

Sóknaraðili telji að rekstarkostnaðurinn felist í sápu/glans og því sem þurfi til að reka vél. Þetta hafi ekki verið útskýrt nánar í leigusamningnum og hafi þetta ekki verið ljóst á neinum tímapunkti í samskiptum aðila, þ.e. að sóknaraðili bæri ábyrgð á viðgerðarkostnaði. Uppþvottavélin hafi bilað fimm mánuðum eftir upphaf leigutíma. Sóknaraðili hafi fengið staðfestingu á túlkun sinni á rekstrarkostnaðnum þar sem í 7. gr. samningsins segi að „leigusali annist viðgerðir á gluggum, raftækjum“ og svo framvegis.

Sóknaraðili hafi greitt viðgerðarkostnaðinn með fyrirvara um að hún hygðist kanna rétt sinn vegna þessa ágreinings.

III. Sjónarmið varnaraðila

Varnaraðili segir að ekki hafi staðið til af hans hálfu að uppþvottavélin yrði leigð með íbúðinni. Sóknaraðili hafi óskað eftir því að uppþvottavélin yrði skilin eftir og hann samþykkt það með því skilyrði að hún myndi sjá um allt viðhald og rekstrarkostnað vegna hennar á leigutíma.

Umboðsmaður varnaraðila hafi lesið vel og vandlega yfir leigusamninginn með sóknaraðila og tekið fram að kæmi eitthvað fyrir vélina bæri sóknaraðila skylda til að bera þann kostnað sem hún hafi samþykkt.

Þá hafi sóknaraðili ekki greitt vísitöluhækkun á leigugreiðslum eins og henni hafi borið að gera en varnaraðili muni láta reikna upp stöðuna fyrir sig.

IV. Niðurstaða

Uppþvottavél í eigu varnaraðila bilaði á leigutíma og sóknaraðili greiddi reikning viðgerðaraðila með fyrirvara. Í 2. mgr. 19. gr. húsaleigulaga, nr. 36/1994, segir að leigusali skuli meðal annars annast viðgerðir á heimilistækjum sem teljast fylgifé húsnæðis, sýni leigjandi fram á að bilanir verði ekki raktar til vanrækslu eða yfirsjónar leigjanda eða fólks á hans vegum. Almennt telst uppþvottavél ekki til fylgifjár húsnæðis en í 2. gr. leigusamnings aðila kemur fram að eignin leigist með „uppvöskunarvél að gerðinni Whirlpool umbeðið af leigutaka og mun því leigutaki bera allan rekstrarkostnað af uppvöskunarvélinni á leigutíma.“ Þá segir í 7. gr. leigusamningsins að leigusali annist viðgerðir á raftækjum meðal annars og öðru því er fylgi húsnæðinu, sýni leigjandi fram á að bilanir verði ekki raktar til vanrækslu eða yfirsjónar leigjanda eða fólks á hans vegum.

Á reikningi E ehf., sem annaðist viðgerð á uppþvottavélinni, var orsök bilunar rakin til þess að stýring gaf sig. Ekkert bendir þannig til þess að bilunina sé að rekja til sóknaraðila eða fólks á hennar vegum, enda er því þar að auki ekki haldið fram af aðilum. Með vísan til 2. mgr. 19. gr. húsaleigulaga sem og 7. gr. leigusamnings aðila telur kærunefnd því að það komi í hlut varnaraðila að greiða kostnað vegna viðgerðar á uppþvottavélinni. Þar sem ágreiningur aðila lýtur aðeins að því hvorum þeirra hafi borið að greiða viðgerðarkostnaðinn er það niðurstaða kærunefndar að fallast á kröfu sóknaraðila um að varnaraðila beri að endurgreiða henni viðgerðarkostnað að fjárhæð 41.727 kr.

Ákvæði 5. mgr. 85. gr. húsaleigulaga, sbr. lög nr. 63/2016, kveður á um að úrskurðir kærunefndar húsamála séu bindandi gagnvart málsaðilum og sæti ekki kæru til æðra stjórnvalds. Málsaðilum sé heimilt að bera úrskurði nefndarinnar undir dómstóla innan átta vikna frá því að úrskurður var kveðinn upp og frestast þá réttaráhrif hans uns dómur fellur. Samkvæmt 7. mgr. 85. gr. laganna eru úrskurðir kærunefndar aðfararhæfir án undangengins dóms.

 

ÚRSKURÐARORÐ:

Varnaraðila ber að endurgreiða sóknaraðila kostnað að fjárhæð 41.272 kr. vegna viðgerðar á uppþvottavél.

 

Reykjavík, 6. maí 2021

 

 

Auður Björg Jónsdóttir

 

 

Valtýr Sigurðsson                                          Eyþór Rafn Þórhallsson

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta