Hoppa yfir valmynd

Úrskurður nr. 242/2017

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

Þann 19. apríl 2017 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 242/2017

í stjórnsýslumáli nr. KNU17030001

Kæra [...]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Þann 1. mars 2017 kærði [...], fd. [...], ríkisborgari [...] (hér eftir nefndur kærandi) ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 27. janúar 2017, um að taka ekki til efnismeðferðar umsókn hans um alþjóðlega vernd á Íslandi og endursenda hann til Litháens.

Kærandi krefst þess aðallega að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og að umsókn hans um alþjóðlega vernd verði tekin til efnismeðferðar hér á landi með vísan til meginreglu 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016, sbr. einnig 3. mgr. 36. gr., 1. og 2. mgr. 42. gr. og 2. mgr. 36. gr. sömu laga. Til vara er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að Útlendingastofnun verði gert að taka málið til meðferðar að nýju með vísan til 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

II. Málsmeðferð

Kærandi lagði fram umsókn um alþjóðlega vernd á Íslandi þann 10. nóvember 2016. Leit að fingraförum kæranda í Eurodac gagnagrunninum, þann sama dag, skilaði engum niðurstöðum. Þann 17. nóvember 2016 var beiðni um viðtöku kæranda og umsóknar hans um alþjóðlega vernd beint til yfirvalda í Litháen, sbr. 2. og 3. mgr. 12. gr. reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 604/2013 (hér eftir nefnd Dyflinnarreglugerðin), þar sem kærandi hafði fengið útgefna vegabréfsáritun af litháískum yfirvöldum. Þar sem Litháen svaraði ekki beiðninni innan tilskilinna tímamarka var það talið jafngilda samþykki, sbr. 7. mgr. 22. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar. Útlendingastofnun ákvað þann 27. janúar 2017 að taka ekki umsókn kæranda um alþjóðlega vernd hér á landi til efnismeðferðar og að hann skyldi endursendur til Litháen. Kærandi kærði ákvörðunina þann 1. mars 2017 til kærunefndar útlendingamála. Greinargerð kæranda barst kærunefnd þann 9. mars 2017.

III. Ákvörðun Útlendingastofnunar

Niðurstaða ákvörðunar Útlendingastofnunar var sú að umsókn kæranda um alþjóðlega vernd yrði ekki tekin til efnismeðferðar hér á landi og hann skyldi endursendur til Litháen. Þá var varakröfu kæranda um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða vísað frá með vísan til 2. málsl. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Lagt var til grundvallar að Litháen virði ákvæði mannréttindasáttmála Evrópu og flóttamannasamnings Sameinuðu þjóðanna, þar með talið bann við endursendingu til ríkis þar sem líf og frelsi kæranda kynni að vera í hættu (non-refoulement). Því fæli flutningur kæranda til Litháens ekki í sér brot gegn 33. gr. flóttamannasamningsins, 13. gr. mannréttindasáttmála Evrópu eða 1. og 2. mgr. 42. gr. laga um útlendinga. Þá var talið að kærandi hefði ekki slík tengsl við Ísland að ástæða væri til að beita ákvæði 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Þá var það mat stofnunarinnar að sérstakar aðstæður í skilningi 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga væru ekki til staðar í málinu. Kærandi var ekki talinn í sérstaklega viðkvæmri stöðu sem áhrif hefði á mál hans. Aðstæður kæranda féllu ekki undir 16. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar og væru ekki slíkar að ástæða væri til að beita 1. mgr. 17. gr. reglugerðarinnar í málinu. Kærandi skyldi yfirgefa Ísland og bæri að senda hann til Litháen, sbr. c-lið 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

Í gögnum málsins kom fram að kærandi væri með [...]. Tók Útlendingastofnun til skoðunar hvort kærandi væri það alvarlega veikur að taka skyldi mál hans til efnismeðferðar. Taldi stofnunin að samkvæmt dómaframkvæmd Mannréttindadómstóls Evrópu þyrfti meðferð að ná tilteknu lágmarks alvarleikastigi til að falla undir gildissvið 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu og væri þröskuldurinn talsvert hár. Á grundvelli viðtals við kæranda og annarra gagna málsins var talið að kærandi væri ekki það alvarlega veikur að hann væri í sérstaklega viðkvæmri stöðu sem gæti haft áhrif á niðurstöðu í máli hans, sem fyrr segir. Þá var það mat Útlendingastofnunar að kærandi væri ferðafær og að hann gæti fengið heilbrigðisþjónustu í Litháen vegna veikinda sinna.

IV. Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð kæranda kemur fram að kærandi vilji ekki fara til Litháens. Hann hafi aðeins fengið vegabréfsáritun þangað til þess að komast til Íslands. Það hafi aldrei verið ætlun hans að sækja um alþjóðlega vernd í Litháen og reyndar hafi hann ekki einu sinni komið þar við á leið sinni til Íslands. Þá glími kærandi við [...] og þurfi einnig að taka [...]. Hafi þetta verið staðfest með vottorði [...]. Í læknisvottorðinu komi fram að að kærandi sé [...]. Þá sé meðferð hans flókin og kalli m.a. á [...]. Í samræmi við 6. tölul. 3. gr. laga um útlendinga teljist kærandi, sem alvarlega veikur einstaklingur, í sérstaklega viðkvæmri stöðu.

Til stuðnings aðalkröfu sinni, um að mál hans verði tekið til efnismeðferðar, byggir kærandi á því að ekki megi senda hann aftur til Litháen vegna non-refoulement reglu þjóðaréttar, sbr. 1. og 2. mgr. 42. gr. laga um útlendinga. Þær aðstæður sem kærandi megi eiga von á í Litháen jafnist á við ómannúðlega og vanvirðandi meðferð í skilningi 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Þá sé jafnframt hætta á því að kærandi verði sendur áfram frá Litháen til [...]. Með vísan til 3. mgr. 36. gr. laga um útlendinga sé því ótækt að beita c-lið 1. mgr. 36. gr. laganna í máli kæranda. Samkvæmt meginreglu 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga skuli taka allar umsóknir til efnismeðferðar nema undantekningarreglur laganna eigi við. Í samræmi við almennar lögskýringarreglur beri að túlka undantekningarreglur þröngt. Þá kveði c-liður 36. gr. laganna aðeins á um heimild stjórnvalda til að synja kæranda um efnismeðferð vegna umsóknar um alþjóðlega vernd, en ekki skyldu. Verði ekki fallist á að endursending kæranda brjóti í bága við ákvæði 42. gr. laga um útlendinga telji kærandi að taka skuli mál hans efnislegrar meðferðar vegna sérstakra ástæðna, sbr. 2. mgr. 36. gr. sömu laga. Í því sambandi vísar kærandi til athugasemda við 36. gr. með frumvarpi til laga nr. 80/2016 um útlendinga.

Þá fjallar kærandi í greinargerð sinni ítarlega um aðstæður og réttindi umsækjenda um alþjóðlega vernd í Litháen, svo og ástand mannréttindamála og heilbrigðiskerfisins þar í landi. Í því skyni vísar kærandi til heimasíðu Evrópunets á sviði fólksflutninga (e. European Migration Network (EMN)), skýrslu Evrópunets gegn kynþáttahyggju (e. European Network Against Racism (ENAR)), skýrslu framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins um niðurstöðu úttektar EMN á móttökuskilyrðum í 24 aðildarríkjum Evrópusambandsins og skýrslu Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna um aðlögun flóttamanna í Litháen (e. Integration of Refugees in Lithuania – Participation and Empowerment). Afar fáir umsækjendur hljóti alþjóðlega vernd í Litháen og við lok árs 2015 hafi litháísk stjórnvöld skert verulega fjárframlög til málefna flóttamanna. Þá einkennist viðhorf almennings í Litháen af miklum fordómum í garð flóttamanna. Fyrir vikið eigi flóttamenn í miklum erfiðleikum með að aðlagast litháísku samfélagi. Þá leggi kærandi áherslu á þá mikilvægu, stöðugu og flóknu meðferð sem honum sé nauðsynleg til að halda heilsu. Útgjöld til heilbrigðismála í Litháen séu afar rýr í samanburði við önnur aðildarríki Efnahags- og framfarastofnunarinnar (e. Economic Co-operation and Development (OECD)). Þá ríki jafnframt mikil spilling í heilbrigðisgeiranum í Litháen og heilbrigðisþjónusta sé mismunandi eftir því hver eigi í hlut.

Í greinargerð sinni gerir kærandi ýmsar athugasemdir við rannsókn og rökstuðning Útlendingastofnunar, þ.á m. mat stofnunarinnar um að kærandi sé ferðafær og niðurstöðu mats á því hvort kærandi sé í viðkvæmri stöðu. Þá mótmælir kærandi þeirri niðurstöðu Útlendingastofnunar að mál [...] umsækjenda um alþjóðlega vernd í Litháen fari í almenna meðferð, viðtal sé tekið við þá og mál séu skoðuð á einstaklingsbundnum grundvelli. Samkvæmt tölvupósti frá innanríkisráðuneyti Litháens, dags. 9. febrúar 2017, sé fyrrgreint ferli aðeins til málamynda en jákvæðar niðurstöður séu afar fátíðar. Að endingu geri kærandi athugasemd við það að hann hafi ekki verið upplýstur um fyrrgreindan tölvupóst og honum boðið að gera athugasemdir. Kærandi hafi einungis fengið fregnir af tölvupóstinum við lestur ákvörðunar Útlendingastofnunar.

Þá vísar kærandi til niðurstöðu dómstóls Evrópusambandsins í máli C.K. o.fl. gegn Slóveníu (mál nr. C-578/16 PPU) frá 16. febrúar 2017. Samkvæmt niðurstöðu dómstólsins í máli þessu sé kerfisbundinn galli í hæliskerfi móttökuríkis ekki skilyrði fyrir því að mál líkamlega eða andlega veiks einstaklings sé tekið til efnismeðferðar. Samkvæmt dómnum þurfi þau lönd sem hyggi á endursendingar fyrst og fremst að líta til hættunnar á ómannlegri eða vanvirðandi meðferð, sbr. 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu og 4. gr. sáttmála Evrópusambandsins um grundvallarréttindi (e. Charter of Fundamental Rights of the European Union). Flutningur einstaklings í sérstaklega viðkvæmri stöðu sem ógni verulega heilsu hans feli því í sér brot gegn 3. gr. mannréttindasáttmálans. Telji kærandi að fyrrgreindur dómur hafi fordæmisgildi í máli hans.

Til stuðnings varakröfu sinni, um að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og Útlendingastofnun gert að taka málið til meðferðar að nýju, vísar kærandi til þess að ákvörðun stofnunarinnar sé ekki studd nægum gögnum, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga og 22. gr. sömu laga. Rökstuðningur Útlendingastofnunar sé á þá leið að ekkert hafi komið fram sem bendi til þess að kærandi eigi á hættu ómannúðlega meðferð í Litháen. Kærandi geri þá kröfu að Útlendingastofnun vísi ítarlega til heimilda máli sínu til stuðnings. Þá geti skortur á heimildum ekki talist nægur grundvöllur fyrir svo íþyngjandi ákvörðun sem um ræði í tilviki kæranda. Telji kærandi að Útlendingastofnun hafi ekki uppfyllt skyldur sínar skv. 10. gr. stjórnsýslulaga og megi í því sambandi benda á bréf umboðsmanns Alþingis til forstjóra Útlendingastofnunar frá 5. ágúst 2016. Rannsóknarregla stjórnsýslulaga sé öryggisregla og leiði brot á henni alla jafna til ógildingar stjórnvaldsákvörðunar. Verði ekki fallist á aðalkröfu byggi kærandi á því að svo gróflega hafi verið brotið gegn fyrrgreindri reglu að ekki komi annað til greina en að ógilda ákvörðunina.

V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Fyrir liggur í máli þessu að krefja má Litháen um viðtöku kæranda á grundvelli 7. mgr. 22. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar, en Ísland skuldbatt sig til að fylgja reglugerðinni með samningi Íslands, Noregs og Evrópusambandsins frá 19. janúar 2001, um viðmiðanir og fyrirkomulag við að ákvarða hvaða ríki skuli fara með beiðni um alþjóðlega vernd sem lögð er fram í aðildarríki eða á Íslandi eða í Noregi. Í III. kafla Dyflinnarreglugerðarinnar koma fram viðmið, í ákveðinni forgangsröð, um hvaða ríki skuli bera ábyrgð á umsókn um alþjóðlega vernd. Þar sem Litháen svaraði ekki endurviðtökubeiðni íslenskra stjórnvalda innan tilskilins tíma teljast þarlend yfirvöld hafa samþykkt viðtöku á kæranda, sbr. 7. mgr. 22. gr. reglugerðarinnar.

Í c-lið 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga kemur fram að umsókn um alþjóðlega vernd skv. 37. gr. skuli tekin til efnismeðferðar nema heimilt sé að krefja annað ríki sem tekur þátt í samstarfi á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar um að taka við umsækjanda. Í 2. mgr. 36. gr. kemur fram að ef svo standi á sem greini í 1. mgr. skuli þó taka umsókn um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar ef útlendingurinn hefur slík sérstök tengsl við landið að nærtækast sé að hann fái hér vernd eða ef sérstakar ástæður mæli annars með því. Ef meira en 12 mánuðir hafa liðið frá því að umsókn um alþjóðlega vernd barst fyrst íslenskum stjórnvöldum og tafir á afgreiðslu hennar eru ekki á ábyrgð umsækjanda sjálfs skal taka hana til efnismeðferðar.

Þá er í 3. mgr. 36. gr. laga um útlendinga tekið fram að ef beiting 1. mgr. myndi leiða til þess að brotið væri gegn 42. gr., t.d. vegna aðstæðna í því landi sem senda á umsækjanda til, skuli taka umsókn til efnismeðferðar. Í 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga er kveðið á um að ekki sé heimilt að senda útlending eða ríkisfangslausan einstakling til svæðis þar sem hann hefur ástæðu til að óttast ofsóknir, sbr. 37. og 38. gr., eða vegna svipaðra aðstæðna og greinir í flóttamannahugtakinu er í yfirvofandi hættu á að láta lífið eða verða fyrir ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð. Þá segir í 2. mgr. ákvæðisins að 1. mgr. eigi einnig við um sendingu útlendings til svæðis þar sem ekki er tryggt að hann verði ekki sendur áfram til slíks svæðis sem greinir í 1. mgr.

Við mat á því hvort senda eigi umsækjanda um alþjóðlega vernd til ríkis, sem hefur samþykkt að taka við honum á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar, ber stjórnvöldum jafnframt að leggja sjálfstætt mat á hvort aðstæður þar brjóti gegn 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Þá ber stjórnvöldum að leggja mat á hvort málsmeðferð vegna umsókna um alþjóðlega vernd tryggi umsækjendum raunhæfa leið til að ná fram rétti sínum, sbr. 13. gr. sáttmálans. Í samræmi við framkvæmd Mannréttindadómstóls Evrópu skal mat á meðferð umsókna um alþjóðlega vernd og móttöku og aðbúnaði umsækjenda taka mið af einstaklingsbundnum aðstæðum í hverju máli.

Kærunefnd útlendingamála hefur lagt mat á aðstæður og málsmeðferð í Litháen, m.a. með hliðsjón af eftirfarandi skýrslum og gögnum:

· Lithuania 2016 Human Rights Report (U.S. Department of State, 3. mars 2017)

· Amnesty International Report 2016/17 – Lithuania (Amnesty International, 21. febrúar 2017)

· Freedom in the World 2016 – Lithuania (Freedom House 18. ágúst 2016)

· Progress Report mid-2016. Beyond Detention: A Global Strategy to support Governments to end the detention of asylum-seekers and refugees (UN High Commissioner for Refugees, september 2016)

· Baseline Report – Detention situation as of end 2013. Beyond Detention: A Global Strategy to support Governments to end the detention of asylum-seekers and refugees – 2014-2019 (UN High Commissioner for Refugees, ágúst 2016)

· The Organisation of Reception Facilities for Asylum Seekers in different Member States (European Migration Network Study, 2014)

· Health Systems in Transition. Lithuania: Health System Review 2013 (European Observatory on Health Systems and Policies, a partnership hosted by the World Health Organisation (WHO), 2013)

· Integration of refugees in Lithuania: Participation and Empowerment. Understanding Integration in Lithuania through age, gender and diversity based participatory approach. October – November 2013 (UN High Commissioner for Refugees, september 2014)

Litháen fullgilti flóttamannasamning Sameinuðu þjóðanna þann 28. apríl 1997. Ríkið gerðist aðili að Evrópusambandinu þann 1. maí 2004 og hefur innleitt tilskipanir sambandsins um meðferð og móttöku umsækjenda um alþjóðlega vernd. Þá eru viðmiðanir um veitingu alþjóðlegrar verndar lögfestar í litháískum rétti og fram fer kerfisbundið mat á því hvort umsækjandi sé í viðkvæmri stöðu. Umsækjendur um alþjóðlega vernd fá inni í móttökumiðstöðvum þar sem þeir fá máltíðir og fatnað eftir þörfum, auk vasapeninga. Alþjóðlegar stofnanir og félagasamtök hafa þó gagnrýnt litháísk yfirvöld fyrir að láta umsækjendur um alþjóðlega vernd sæta varðhaldsvist í of ríkum mæli. Í kjölfar fyrrgreindrar gagnrýni hefur nú verið bætt úr þessu vandamáli að miklu leyti. Börn sæta ekki varðhaldi og fara þarf fram mat á því hvort einstaklingur sé í viðkvæmri stöðu, sem fyrr segir. Þá er lögð áhersla á meðalhóf í beitingu varðhaldsvistar ef hennar er þörf.

Útgjöld til heilbrigðismála í Litháen hafa aukist jafnt og þétt á síðastliðnum árum og er það í samræmi við það sem gengur og gerist í nágrannalöndum Litháens sem jafnframt eru aðilar að Evrópusambandinu, þó að það séu lægri útgjöld en tíðkast víða í löndum Vestur-Evrópu. Heilbrigðiskerfið er að mestu leyti fjármagnað með skattgreiðslum almennings í heilbrigðistryggingasjóð (e. National Health Insurance Fund) og er þátttaka í heilbrigðistryggingakerfinu skyldubundin. Útgjöld notenda þjónustunnar eru þó að jafnaði um 27% af heildarkostnaði og lyfjakostnaður er ekki niðurgreiddur nema að takmörkuðu leyti. Ákveðnir hópar fá þó endurgreiddan lyfjakostnað vegna ávísaðra lyfja frá lækni, þ.á m. börn, ellilífeyrisþegar og fatlað fólk, svo og einstaklingar með ákveðna sjúkdóma, þ.á m. [...]. Samkvæmt litháískum útlendingalögum eiga flóttamenn og umsækjendur um alþjóðlega vernd rétt á heilbrigðisþjónustu.

Athugun kærunefndar á aðstæðum umsækjenda um alþjóðlega vernd í Litháen hefur ekki leitt í ljós gögn sem gefa tilefni til að líta svo á að aðstæður eða móttökuskilyrði þeirra þar í landi séu þess eðlis að hætta sé á að endursending umsækjenda um alþjóðlega vernd til Litháens brjóti í bága við 1. eða 2. mgr. 42. gr. laga um útlendinga eða 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Samkvæmt tölvupósti frá innanríkisráðuneyti Litháens, dags. 9. febrúar 2017, fá [...] umsækjendur um alþjóðlega vernd hefðbundna málsmeðferð, þ.á m. viðtal og mat á einstaklingsbundnum grundvelli. Enn fremur benda öll gögn til þess að umsækjendum um alþjóðlega vernd séu tryggð úrræði til að leita réttar síns í Litháen bæði fyrir landsrétti og fyrir Mannréttindadómstól Evrópu, sbr. 13. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Þá er haft til hliðsjónar að Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna hefur ekki lagst gegn endursendingu umsækjenda um alþjóðlega vernd til Litháen á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar.

Kærandi er karlmaður á miðjum aldri sem kveðst eiga sambýliskonu og tvö börn í heimalandi sínu, [...]. Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum glímir kærandi við [...]. Að mati kærunefndar teljast veikindi kæranda ekki alvarleg og því er það niðurstaða nefndarinnar að kærandi sé ekki í sérstaklega viðkvæmri stöðu, sbr. 6. tölul. 3. gr. laga um útlendinga.

Heilsufar er einn þeirra þátta sem stjórnvöldum ber að líta til við mat á því hvort aðstæður umsækjanda um alþjóðlega vernd teljist sérstakar í skilningi 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga og mæli þannig með því að umsókn hans verði tekin til efnismeðferðar. Fara þarf fram heildstætt mat á aðstæðum umsækjanda þar sem litið er til heilsufarsupplýsinga og upplýsinga um þær aðstæður sem bíða kæranda í viðtökuríki, þ.m.t. hvort sú heilbrigðisþjónusta sem umsækjandi hefur aðgang að í viðtökuríki sé fullnægjandi. Kærunefnd leggur áherslu á að mat á því hvort heilsufar umsækjanda teljist sérstakar ástæður er ekki bundið við skoðun á heilbrigðiskerfi móttökuríkis heldur þarf matið að fara fram á einstaklingsgrundvelli með hliðsjón af atvikum máls. Meðal þeirra atvika sem sérstaklega þarf að líta til eru áhrif flutnings til viðtökuríkis á heilsufar umsækjanda að teknu tilliti til aðstæðna við flutning, sbr. einkum 29. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar. Verði niðurstaða heildstæðs mats á atvikum málsins sú að gögn málsins bendi eindregið til þess að framkvæmd synjunar á efnismeðferð umsóknar komi til með að hafa verulegar og óafturkræfar neikvæðar afleiðingar á andlega eða líkamlega heilsu umsækjanda telur kærunefnd að taka beri slíkar umsóknir til efnismeðferðar, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga, enda sé þá öruggt að einstaklingur verði ekki fyrir ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð við framkvæmd slíkrar ákvörðunar, sbr. 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu og 68. gr. stjórnarskrárinnar.

Kærandi vísar í greinargerð sinni til nýlegs dóms Evrópudómstólsins í máli C.K. og fleiri gegn Slóveníu (nr. C-578/16) frá 16. febrúar 2017. Það er mat kærunefndar að áðurnefndur dómur sé skýr um að ekki sé útilokað að flytja veikan einstakling nema ástand hans sé sérstaklega alvarlegt og hætta sé á ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð í skilningi 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu og 4. gr. sáttmála Evrópusambandsins um grundvallarréttindi. Með ómannúðlegri og vanvirðandi meðferð sé átt við þegar flutningur skerðir heilsu einstaklingsins verulega eða flutningur verði til þess að valda óafturkræfum skaða á heilsu einstaklingsins og skiptir þá engu máli í matinu hvort umönnun í viðtökuríkinu uppfylli lágmarkskröfur sem Evrópusambandið gerir til móttöku umsækjenda um alþjóðlega vernd. Þá kemur fram í niðurstöðu dómsins að heimilt sé að flytja einstakling þegar hann geti ferðast en stjórnvöld verði að eyða öllum efasemdum um hvaða áhrif endursending hafi á heilsufar einstaklings með því að gera nauðsynlegar varúðarráðstafanir fyrir flutninginn þannig að flutningurinn fari fram á viðeigandi hátt og núverandi heilsa umsækjanda sé nægilega tryggð í ljósi 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Því sé samstarf við viðtökuríki vegna flutnings á veikum einstaklingi nauðsynlegt, t.d. til að tryggja nauðsynlega heilbrigðisþjónustu fyrir, á meðan og eftir flutning. Aðildarríki þurfi því að skipuleggja flutning þannig að einstaklingurinn sé með lyf, búnað eða aðra heilbrigðisþjónustu sem komi í veg fyrir versnandi heilsu viðkomandi. Þá er skylt að tilkynna viðtökuríkinu um ástand þess sem fluttur er svo hægt sé að gera nauðsynlegar ráðstafanir og aðstoða einstaklinginn við málsmeðferð sína í viðtökulandinu og veita nauðsynlega umönnun eftir flutninginn. Þá sé skylt að hætta við flutning ef slíkar varúðarráðstafanir dugi ekki til að koma í veg fyrir versnandi heilsu einstaklingsins. Heilsufarsástæður einstaklingsins geti því hamlað flutningi og réttlætt frestun á flutningi, sbr. 1. mgr. 29. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar. Ef hugsanlegt sé að veikindin vari í lengri tíma eða frestun flutnings í langan tíma auki á veikindi einstaklingsins er hugsanlegt að beita 1. mgr. 17. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar og í einstaka tilvikum er aðildarríkinu skylt að beita ákvæðinu. Geti því persónulegar aðstæður umsækjanda um alþjóðlega vernd komið í veg fyrir flutning þrátt fyrir að enginn kerfisbundinn galli sé í viðtökuríkinu og varúðarráðstafanir dugi ekki til að tryggja að flutningur umsækjanda feli ekki í sér raunverulega hættu á verulegum og óafturkræfum skerðingum af hálfu stjórnvalda á heilsu viðkomandi.

Samkvæmt framansögðu bera gögn málsins það með sér að kærandi þjáist af [...]. Það er mat kærunefndar að gögn málsins beri ekki með sér að heilsufar kæranda sé með þeim hætti að framkvæmd vegna synjunar á að taka umsókn hans til efnismeðferðar hér á landi hafi í för með sér verulegar eða óafturkræfar afleiðingar fyrir heilsufar hans. Fyrir liggur að kærandi hefur fengið útgefna vegabréfsáritun í Litháen, þar sem hann á rétt á viðhlítandi heilbrigðisþjónustu vegna veikinda sinna. Þá kemur fram í gögnum frá lækni að [...] sé hægt að halda niðri með [...]. Í ljósi aðstæðna í Litháen og einstaklingsbundinna aðstæðna kæranda, þ.á m. veikinda hans, er það mat nefndarinnar að ekki séu fyrir hendi sérstakar ástæður sem mæli með því að mál hans verði tekið til efnismeðferðar hér á landi, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

Kærandi kvaðst í viðtali hjá Útlendingastofnun þann 14. desember 2016 ekki hafa sérstök tengsl við Ísland. Þar að auki er ekkert í gögnum málsins sem bendir til þess að kærandi hafi slík tengsl við landið að beita beri ákvæði 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

Þá telur kærunefnd ljóst að síðari málsliður 2. mgr. 36. gr. eigi ekki við í máli kæranda þar sem ekki eru liðnir 12 mánuðir frá því að kærandi sótti um alþjóðlega vernd hér á landi, en hann lagði fram umsókn sína þann 10. nóvember 2016.

Líkt og áður segir gerir kærandi athugasemdir við rannsókn og rökstuðning Útlendingastofnunar í máli hans, sbr. 10. og 22. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Telur kærandi ákvörðun stofnunarinnar ekki studda nægum gögnum.

Rannsóknarreglan í 10. gr. stjórnsýslulaga mælir fyrir um að stjórnvald afli þeirra gagna sem nauðsynleg eru svo að mál sé nægjanlega upplýst. Reglan gerir kröfu um rannsókn sem er fullnægjandi grundvöllur ákvörðunar stjórnvalds en gerir hvorki kröfu um að aflað sé allra upplýsinga sem varpað gætu ljósi á málið né að stjórnvald afli ófáanlegra gagna. Þá segir í 2. mgr. 23. gr. laga um útlendinga að við meðferð mála vegna umsókna um alþjóðlega vernd skuli Útlendingastofnun afla nauðsynlegra og aðgengilegra upplýsinga. Við ákvörðunartöku í máli kæranda hjá Útlendingastofnun byggði stofnunin niðurstöðu sína á gögnum sem aflað var við meðferð málsins, gögnum sem kærandi lagði fram og nýjustu tiltæku skýrslum um aðstæður og aðbúnað umsækjenda um alþjóðlega vernd í móttökuríkinu, Litháen. Að mati kærunefndar hefur ekkert komið fram í málinu sem bendir til þess að skort hafi á að nauðsynlegar upplýsingar lægju fyrir um aðstæður í Litháen, við ákvörðunartöku hjá Útlendingastofnun. Í því sambandi er tekið fram að kærunefnd hefur yfirfarið þau gögn sem aflað var við meðferð málsins, svo og skýrslur opinberra stofnana, og komist að sömu niðurstöðu og Útlendingastofnun. Það er því mat kærunefndar að málsmeðferð Útlendingastofnunar í máli kæranda hafi verið í samræmi við 10. gr. stjórnsýslulaga.

Það er jafnframt mat kærunefndar að í ákvörðun Útlendingastofnunar sé gerð grein fyrir þeim meginsjónarmiðum sem ráðandi voru við mat á því hvort rétt væri að synja kæranda um efnismeðferð og helstu málsatvikum sem höfðu verulega þýðingu við úrlausn málsins, sbr. 22. gr. stjórnsýslulaga. Telur kærunefnd því ekki tilefni til að gera athugasemd við rökstuðning Útlendingastofnunar í málinu.

Með því að svara ekki endurviðtökubeiðni íslenskra yfirvalda innan tilskilinna tímamarka, sbr. 7. mgr. 22. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar, hafa litháísk stjórnvöld fallist á að taka við kæranda og umsókn hans um alþjóðlega vernd. Í ljósi alls ofangreinds er það niðurstaða kærunefndar að rétt sé að synja því að taka til efnismeðferðar umsókn kæranda um alþjóðlega vernd hér á landi og senda hann til Litháens með vísan til c-liðar 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

Ákvörðun Útlendingastofnunar er því staðfest.

Athygli kæranda er vakin á því að skv. 6. mgr. 104. gr. laga um útlendinga frestar málshöfðun fyrir dómstólum til ógildingar á endanlegri ákvörðun um að útlendingur skuli yfirgefa landið ekki framkvæmd hennar. Að kröfu útlendings getur kærunefnd útlendingamála þó ákveðið að fresta réttaráhrifum endanlegrar ákvörðunar sé talin ástæða til þess. Krafa þess efnis skal gerð ekki síðar en sjö dögum frá birtingu endanlegrar ákvörðunar. Skal frestun bundin því skilyrði að útlendingur beri málið undir dómstóla innan fimm daga frá birtingu ákvörðunar um frestun réttaráhrifa úrskurðar og óski eftir að það hljóti flýtimeðferð. Nú er beiðni um flýtimeðferð synjað og skal þá mál höfðað innan sjö daga frá þeirri synjun. Þó getur kærunefnd útlendingamála tekið ákvörðun um að fresta framkvæmd ef sýnt er fram á að verulega breyttar aðstæður hafi skapast frá því að endanleg ákvörðun var tekin.

Úrskurðarorð

Ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest.

The decision of the Directorate of Immigration is affirmed.

Anna Tryggvadóttir

Erna Kristín Blöndal Þorbjörg Inga Jónsdóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta