Hoppa yfir valmynd

Úrskurður nr. 462/2017

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

Þann 22. ágúst 2017 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 462/2017

í stjórnsýslumáli nr. KNU17070001

Kæra [...]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Þann 3. júlí 2017 kærði [...], fd. [...], ríkisborgari [...] (hér eftir nefndur kærandi), ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 30. júní 2017, um brottvísun og tveggja ára endurkomubann til Íslands, sbr. 1. mgr. 96. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016.

Kærandi krefst þess að ákvörðun Útlendingastofnunar um brottvísun og endurkomubann verði felld úr gildi.

Fyrrgreind ákvörðun var kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

II. Málsatvik og málsmeðferð

Í hinni kærðu ákvörðun kom fram að kærandi hafi sótt um alþjóðlega vernd á Íslandi þann 5. febrúar 2016 ásamt konu sinni og tveimur börnum. Kæranda var synjað um alþjóðlega vernd með ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 6. júní 2016. Þann 30. ágúst 2016 felldi kærunefnd útlendingamála ákvörðun Útlendingastofnunar úr gildi með úrskurði sínum og lagði fyrir Útlendingastofnun að taka umsókn kæranda til efnismeðferðar. Með ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 10. janúar 2017, var umsókn kæranda um alþjóðlega vernd hafnað. Kærandi kærði ákvörðunina til kærunefndar útlendingamála en nefndin staðfesti ákvörðun Útlendingastofnunar með úrskurði, dags. 31. mars 2017. Sú ákvörðun var birt fyrir kæranda þann 3. apríl 2017. Þann 8. apríl sama ár lagði kærandi fram beiðni um frestun réttaráhrifa á úrskurði nefndarinnar en þeirri beiðni var hafnað með úrskurði, dags. 28. apríl 2017. Þann 30. júní síðastliðinn var kærandi boðaður til viðtals hjá Útlendingastofnun þar sem kæranda var veitt færi á að mótmæla ákvörðun um brottvísun og endurkomubann inn á Schengen svæðið. Sama dag var tekin ákvörðun um brottvísun og tveggja ára endurkomubann kæranda til Íslands og hún jafnframt birt kæranda. Kærandi kærði þá ákvörðun til kærunefndar útlendingamála þann 3. júlí 2017. Greinargerð kæranda barst þann 17. júlí 2017.

III. Ákvörðun Útlendingastofnunar

Með ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 10. janúar 2017, var kæranda veittur 30 daga frestur frá dagsetningu birtingar til að yfirgefa landið með vísan til b-liðar 2. mgr. 104. gr. laga um útlendinga. Þá var tekið fram að yfirgæfi kærandi ekki landið innan veitts frests yrði tekin ákvörðun um brottvísun og endurkomubann, sbr. a-lið 2. mgr. 98. gr. laga um útlendinga.

Í niðurstöðum ákvörðunar Útlendingastofnunar kemur fram að kærandi hafi ekki verið talinn uppfylla skilyrði til sjálfviljugrar heimfarar þar sem hann hafi ekki virt frest sem honum hafi verið veittur til að fara frá Íslandi samkvæmt ákvörðun Útlendingastofnunar frá 10. janúar 2017.

Í ákvörðun kæranda hafi komið fram leiðbeiningar um að honum yrði ákvörðuð brottvísun og endurkomubann ef hann færi ekki innan tilgreinds frests, sbr. a-lið 2. mgr. 98. gr. laga um útlendinga, og við það fengi hann í það minnsta tveggja ára endurkomubann, sbr. 2. mgr. 101. gr. sömu laga.

Með vísan til þess að kærandi hafi ekki farið innan 30 daga frestsins var talið tilefni til að brottvísa kæranda, án þess að veita honum frekari frest til að yfirgefa landið.

Í gögnum Útlendingastofnunar hafi ekkert komið fram sem leiddi til þess að sú ráðstöfun að brottvísa kæranda gæti talist ósanngjörn gagnvart honum eða nánustu aðstandendum hans með hliðsjón af tengslum hans við landið eða atvikum máls, sbr. 3. mgr. 102. gr. laga um útlendinga. Að mati Útlendingastofnunar var heimilt og skylt að brottvísa kæranda frá Íslandi og að ekkert í gögnum málsins komi í veg fyrir að svo sé ákvarðað. Andmæli kæranda væru ekki þess eðlis að þau breyttu því mati. Með hliðsjón af málsatvikum í máli kæranda þótti lengd endurkomubanns hæfilega ákveðin tvö ár.

IV. Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð kæranda kemur fram að kærandi hafi í viðtölum og greinargerðum ítrekað bent á að hann og fjölskylda hans geti ekki snúið aftur til heimalands síns, m.a. vegna þess að [...]. Það séu því liðin mörg ár síðan hann hafi yfirgefið heimaland sitt [...]. Fjölskyldan hafi því hvorki tengsl né bakland í [...]. Í landinu bíði þeirra ekkert nema sárafátækt og virkilega bág lífskjör sem muni verða til þess að framfærsla barna þeirra muni verða langt frá því að vera trygg. Kærandi telji að hann muni ekki hafa aðgang að réttindum í [...] þar sem hann og fjölskylda hans hafi ekki búið í landinu í svo langan tíma. Þau muni heldur ekki geta sótt stuðning eða húsaskjól hjá nánum ættingjum í heimalandi sínu þar sem þeir hafi allir flutt sig um set til Evrópu vegna örbirgðar í landinu.

Framangreint sé ástæða þess að kærandi og fjölskylda hans hafi ekki yfirgefið landið til samræmis við ákvörðun Útlendingastofnunar frá 10. janúar 2017. Kærandi byggir á því að í réttarríki sé hverjum manni heimilt að nýta þann rétt sem honum sé veittur samkvæmt lögum og hafi kærandi því verið í fullum rétti og heimilt að kæra fyrrnefnda ákvörðun Útlendingastofnunar til kærunefndar útlendingamála sem og að óska eftir frestun réttaráhrifa á þeim úrskurði. Kærandi hafi því ekkert unnið sér til saka sem réttlæti að honum sé brottvísað og veitt endurkomubann til landsins í ljósi allra aðstæðna. Kærandi telji að um sé að ræða brot á meðalhófsreglu stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Stjórnvöld skuli ekki taka íþyngjandi ákvarðanir nema lögmætu markmiði verði ekki náð með öðru og vægara móti. Sem og að við töku íþyngjandi ákvörðunar skuli ekki fara strangar í sakirnar en nauðsynlegt er til að ná því markmiði.

Í greinargerð kæranda er vísað í 3. mgr. 102. gr. laga um útlendinga. Kærandi telji með hliðsjón af málavöxtum að ákvörðun um brottvísun og endurkomubann til Íslands hafi falið í sér ósanngjarna ráðstöfun gagnvart kæranda og sé þess þar með krafist að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi.

Kærandi byggir einnig á því að Útlendingastofnun hafi við töku ákvarðana um að vísa skyldi honum og fjölskyldu hans úr landi og lagt á þau endurkomubann látið hjá líða að kanna með viðhlítandi hætti þær aðstæður sem raunverulega urðu þess valdandi að kærandi og fjölskylda hans yfirgáfu ekki landið innan tilgreinds frests. Matið hafi ekki farið fram í samræmi við þær kröfur sem lagðar séu á íslensk stjórnvöld og þau hafi þar með brotið gegn eftirfarandi ákvæðum; rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga og 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, þar sem þau hafi ekki með viðhlítandi hætti gengið úr skugga um hvort meðalhófs hafi verið gætt við ákvörðunartökuna.

V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Í máli þessu er til úrlausnar hvort brottvísa beri kæranda frá Íslandi, sbr. a-liður 2. mgr. 98. gr. laga um útlendinga. Jafnframt er til úrlausnar hvort rétt sé að ákvarða kæranda tveggja ára endurkomubann til landsins, sbr. 2. mgr. 101. gr. sömu laga.

Með úrskurði kærunefndar útlendingamála, dags. 30. mars 2017, var ákvörðun Útlendingastofnunar frá 10. janúar 2017 staðfest. Líkt og rakið hefur verið var kæranda vísað frá landinu og gefinn 30 daga frestur til að yfirgefa það af sjálfsdáðum með vísan til 2. mgr. 104. gr. laga um útlendinga. Fram kom að yfirgæfi kærandi ekki landið innan veitts frests yrði tekin ákvörðun um brottvísun og endurkomubann, sbr. a-lið 2. mgr. 98. gr. sömu laga.

Í hinni kærðu ákvörðun frá 30. júní 2017 kemur fram að kærandi hafi ekki yfirgefið landið innan tilskilins frests og hann ekki talinn uppfylla skilyrði til sjálfviljugrar heimfarar. Samkvæmt a-lið 2. mgr. 98. gr. laga um útlendinga skal vísa útlendingi úr landi sem er án dvalarleyfis, svo framarlega sem 102. gr. á ekki við, ef hann hefur ekki yfirgefið landið innan veitts frests, sbr. 2. mgr. 104. gr. sömu laga. Í 3. mgr. 102. gr. kemur fram að brottvísun skal ekki ákveða ef hún, með hliðsjón af málsatvikum, alvarleika brots og tengslum útlendings við landið felur í sér ósanngjarna ráðstöfun gagnvart útlendingi eða nánustu aðstandendum hans. Af ákvæðinu leiðir að fara verður fram mat á því hvort brottvísun feli í sér ósanngjarna ráðstöfun gagnvart útlendingi eða nánustu aðstandendum hans. Sérstaklega skal taka tilllit til þess ef um barn eða nánasta aðstandanda barns er að ræða og skal það sem barni er fyrir bestu haft að leiðarljósi við ákvörðun.

Líkt og fyrr greinir var kærandi boðaður til viðtals þann 30. júní 2017 þar sem honum var gefið færi á andmælum við framkvæmdina. Kærandi greindi frá því í viðtalinu að börn hans væru [...]. Hann kvaðst eiga systur í London og að amma hans búi í [...]. Hann vilji heldur láta brottvísa sér einum heldur en allri fjölskyldunni, þannig að kona hans og börn fái að vera. Kærunefnd telur að þær efnahagslegu aðstæður sem kærandi lýsir að bíði hans í heimaríki geti ekki verið þess eðlis að talið verði ósanngjörn ráðstöfun gagnvart kæranda eða nánustu aðstandendum hans að vísa honum brott frá landinu. Með hliðsjón af málsatvikum í málinu er það mat kærunefndar að brotvísun kæranda feli ekki í sér ósanngjarna ráðstöfun gagnvart henni eða nánustu aðstandendum henni, sbr. 3. mgr. 102. gr. laga um útlendinga. Við þetta mat hefur kærunefnd litið sérstaklega til hagsmuna barna kæranda og er í því sambandi áréttað að kærunefnd útlendingamála hefur áður skorið úr því, með úrskurði kærunefndar nr. 186/2017 frá 30. mars 2017, að þær efnahagslegu aðstæður sem bíði fjölskyldunnar í [...] komi ekki í veg fyrir að talið verði að það sé börnunum fyrir bestu að fylgja foreldrum sínum til heimalands þeirra. Þá telur nefndin að [...].

Þar sem kærandi fór ekki innan þess frests sem honum hafði verið veittur samkvæmt 2. mgr. 104. gr. laga um útlendinga og ákvæði 102. gr. laga um útlendinga eru ekki talin standa í vegi fyrir brottvísun kæranda er það mat kærunefndar að vísa skuli kæranda úr landi samkvæmt a-lið 2. mgr. 98. gr. laga um útlendinga.

Samkvæmt 2. mgr. 101. gr. laga um útlendinga felur brottvísun í sér bann við komu inn í landið síðar. Í sama ákvæði er kveðið á um að endurkomubann geti verið varanlegt eða tímabundið en skal að jafnaði ekki gilda skemur en tvö ár.

Með hinni kærðu ákvörðun var kæranda bönnuð endurkoma til Íslands í tvö ár með vísan til 2. mgr. 101 gr. laga um útlendinga. Að málsatvikum virtum er það mat kærunefndar að staðfesta beri lengd endurkomubanns kæranda. Athygli kæranda er vakin á því að samkvæmt 3. mgr. 101. gr. laga um útlendinga er heimilt að fella endurkomubann úr gildi hafi aðstæður breyst frá því að ákvörðun um brottvísun var tekin. Þegar sérstaklega stendur á, má samkvæmt umsókn heimila þeim sem vísað hefur verið brott að heimsækja landið án þess þó að endurkomubann falli úr gildi.

Úrskurðarorð

Ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest.

The decision of the Directorate of Immigration is affirmed.

Anna Tryggvadóttir

Anna Valbjörg Ólafsdóttir Árni Helgason


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta