Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 70/2015

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 70/2015

Fimmtudaginn 28. apríl 2016

A

gegn

Vinnumálastofnun


Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Arnar Kristinsson lögfræðingur og Agnar Bragi Bragason lögfræðingur.

Með kæru, móttekinni þann 4. nóvember 2015, kærði A, til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 25. september 2015, um að stöðva greiðslur atvinnuleysisbóta til hans þar til hann hefur starfað a.m.k. tólf mánuði á innlendum vinnumarkaði og innheimta ofgreiddar atvinnuleysisbætur að fjárhæð 76.066 kr. með 15% álagi.

Þann 1. janúar 2016 tóku gildi lög nr. 85/2015 um úrskurðarnefnd velferðarmála og tók nefndin yfir frá þeim tíma þau mál sem áður voru til meðferðar hjá úrskurðarnefnd atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, þ.m.t. mál kæranda, sbr. 1. gr. laga nr. 85/2015 og 11. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Með bréfi, dags. 25. september 2015, var kærandi upplýstur um að Vinnumálastofnun hefði ákveðið að stöðva greiðslur atvinnuleysisbóta til hans á grundvelli 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar og að hann skyldi ekki eiga rétt á atvinnuleysisbótum fyrr en hann hefði starfað a.m.k. tólf mánuði á innlendum vinnumarkaði þar sem hann hafi verið að vinna hjá B og C samhliða því að þiggja atvinnuleysisbætur án þess að tilkynna Vinnumálastofnun um vinnuna. Þá var kærandi krafinn um endurgreiðslu ofgreiddra atvinnuleysisbóta samtals að fjárhæð 76.066 kr. með 15% álagi á grundvelli 2. mgr. 39. gr. laganna.

Kæra barst úrskurðarnefnd atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða þann 4. nóvember 2015. Með bréfi, dags. 5. nóvember 2015, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Vinnumálastofnunar ásamt gögnum málsins. Greinargerð Vinnumálastofnunar barst með bréfi, dags. 5. janúar 2016. Með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 8. janúar 2016, var greinargerð Vinnumálastofnunar send kæranda til kynningar. Þá var óskað eftir afstöðu kæranda til greinargerðar stofnunarinnar með bréfi, dags. 5. febrúar 2016. Einnig var óskað eftir afstöðu kæranda með tölvupósti þann 24. febrúar 2016. Engin svör bárust frá kæranda.

II.  Sjónarmið kæranda

Af kæru má ráða að kærandi óski eftir því að ákvörðun Vinnumálastofnunar um beitingu viðurlaga og  innheimtu ofgreiddra bóta verði felld úr gildi. Kærandi greinir frá því í kæru að hann hafi leitað til Vinnumálastofnunar í byrjun júní þegar hann hafi hætt störfum á D. Eigandi D hafi boðið honum að prófa að starfa á öðrum [...], E, í tvo daga. Hann sé ekki mjög góður í íslensku. Hann hafi ekki vitað að hann þyrfti að tilkynna Vinnumálastofnun um það fyrir fram ef hann vildi prófa vinnu í tvo daga þegar hann væri á atvinnuleysisbótum.

III.  Sjónarmið Vinnumálastofnunar

Í greinargerð Vinnumálastofnunar kemur fram að stofnunin telji að ranglega hafi verið staðið að ákvörðun í máli kæranda með tilliti til nýrra gagna sem stofnunin hafi aflað. Stofnunin hafi því afturkallað ákvörðun sína og tekið nýja ívilnandi ákvörðun í máli kæranda.

IV.  Niðurstaða

Kærð er ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 25. september 2015, um að stöðva greiðslur atvinnuleysisbóta til kæranda þar til hann hefur starfað að minnsta kosti tólf mánuði á innlendum vinnumarkaði samkvæmt 60. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar og krefja kæranda um endurgreiðslu ofgreiddra atvinnuleysisbóta samkvæmt 2. mgr. 39. gr. laganna.

Með bréfi Vinnumálastofnunar, dags. 23. desember 2015, var kæranda tilkynnt um að hin kærða ákvörðun væri felld niður. Stofnunin greindi frá þeirri ákvörðun í greinargerð til úrskurðarnefndar velferðarmála, dags. 5. janúar 2015. Úrskurðarnefndin óskaði eftir afstöðu kæranda til greinargerðarinnar með bréfi, dags. 5. febrúar 2016 og tölvupósti þann 24. febrúar 2016 en engin svör bárust frá kæranda.

Úrskurðarnefnd velferðarmála kveður upp úrskurði um ágreiningsefni sem kunna að rísa á grundvelli laga um atvinnuleysistryggingar, sbr. 2. mgr. 11. gr. laganna. Þar sem hin kærða ákvörðun hefur verið felld úr gildi er það mat úrskurðarnefndar velferðarmála að það sé enginn ágreiningur fyrir hendi í máli þessu. Kæru er því vísað frá úrskurðarnefndinni.

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Kæru A, er vísað frá úrskurðarnefnd velferðarmála.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta