Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 84/2015

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 84/2015

Fimmtudaginn 12. maí 2016

A

gegn

Vinnumálastofnun


Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Arnar Kristinsson lögfræðingur og Agnar Bragi Bragason lögfræðingur.

Með kæru, dags. 3. desember 2015, kærði A, til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða ákvörðun Vinnumálastofnunar um að fella niður bótarétt til hennar frá og með 30. október 2015 í tvo mánuði.

Þann 1. janúar 2016 tóku gildi lög nr. 85/2015 um úrskurðarnefnd velferðarmála og tók nefndin yfir frá þeim tíma þau mál sem áður voru til meðferðar hjá úrskurðarnefnd atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, þ.m.t. mál kæranda, sbr. 1. gr. laga nr. 85/2015 og 11. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um atvinnuleysisbætur hjá Vinnumálastofnun þann 2. júlí 2014 og var umsóknin samþykkt. Kærandi undirritaði yfirlýsingu, dags. 1. október 2015, um að hún hefði hafnað starfstilboði frá B. Í yfirlýsingunni kemur fram að kærandi sé farin að velja þá vinnu sem hún þoli þar sem hún sé komin með liðverki í vinstri hönd. Þá segir að hún sé komin með nóg af þrifum og ætli að halda sig við C.

Með bréfi, dags. 6. október 2015, var kæranda tilkynnt um að Vinnumálastofnun hefðu borist upplýsingar um að hún hefði hafnað atvinnutilboði/atvinnuviðtali hjá B. Þá var hún upplýst um að hún gæti þurft að sæta biðtíma eftir greiðslu atvinnuleysisbóta samkvæmt 57. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Enn fremur var kæranda veittur kostur á að koma að frekari athugasemdum vegna málsins. Með bréfi, dagsettu sama dag, óskaði Vinnumálastofnun einnig eftir að kærandi legði fram vottorð um vinnufærni sína frá þeim lækni sem hefði annast hana vegna veikindanna. Þann 12. október 2015 barst Vinnumálastofnun læknisvottorð  D, dagsett sama dag, ásamt beiðni um sjúkraþjálfun.

Á fundi Vinnumálastofnunar þann 30. október 2015 var ákveðið að fella niður bætur til kæranda í tvo mánuði á grundvelli 59. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleyisstryggingar. Með bréfi, dagsettu sama dag, var kæranda tilkynnt um að Vinnumálastofnun hefði frestað afgreiðslu umsóknar hennar. Þá var óskað eftir skriflegri afstöðu kæranda á ástæðum þess að hún hefði ekki veitt stofnuninni upplýsingar um skerta vinnufærni hennar fyrr. Með tölvupósti þann 6. nóvember 2015 greindi kærandi nánar frá veikindum sínum. Fyrri ákvörðun um niðurfellingu bóta var staðfest á fundi Vinnumálastofnunar þann 26. nóvember 2015.

Kæra barst úrskurðarnefnd atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða þann 14. desember 2015. Með bréfi, dags. 15. desember 2015, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Vinnumálastofnunar ásamt gögnum málsins. Greinargerð Vinnumálastofnunar barst með bréfi, dags. 26. janúar 2016. Með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 1. febrúar 2016, var greinargerð Vinnumálastofnunar send kæranda til kynningar. Frekari athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi krefst þess að hin kærða ákvörðun um niðurfellingu bóta verði felld úr gildi og bætur greiddar vegna áður ákveðins biðtíma. Í kæru kemur fram að hún hafi útskýrt allt sem viðkomi hennar málefnum sem tengist því að hún hafi fengið símhringingu í lok september 2015 frá B þar sem henni hafi verið boðið að koma í viðtal vegna mögulegrar vinnu á þeim stað. Hún hafi útskýrt mjög vel fyrir Vinnumálastofnun í bréfi, dags. 3. nóvember 2015, hvers vegna hún hafi ekki talið vinnuna henta sér. Í framhaldinu hafi hún skilað læknisvottorð frá D, afriti af beiðni um sjúkraþjálfun og bréfi bæklunarlæknis þar sem fram komi að hún bíði eftir aðgerð á hægri hendi. Í fyrrgreindu bréfi til Vinnumálastofnunar hafi hún rakið að á starfsævi sinni hafi hún stundað mikla líkamlega erfiða vinnu, svo sem skúringar, þrif, afgreiðslustörf, gróðursetningar, stígagerð og unnið í frystihúsi, sláturhúsi, í mötuneyti, sem heimilishjálp svo eitthvað sé nefnt.

Ástæða þess að hún hafi ekki séð tilgang með að fara í atvinnuviðtalið hjá B sé sú að á síðustu mánuðum hafi líkamleg heilsa hennar versnað mjög. Sem dæmi um það séu verkir í vöðvum og liðum í handleggjum. Þá sé fingur farinn að festast á hægri hendi og þumalfingur vinstri handar sé kominn með slæma slitgigt. Hún hafi því gert sér grein fyrir að hún yrði að velja sér störf sem hún ráði við, t.d. sem E. Hún hafi leitað eftir slíku starfi en ekki fengið. Það væri betra ef hún hefði menntun til þess en hún hafi byrjað að leita sér menntunar sem sé nauðsynleg til að fá störf við hæfi. Fram kemur að hún hefði ekki getað unnið þessa vinnu í B. Hún hafi aldrei neitað vinnunni heldur útskýrt fyrir einstaklingnum sem hringdi að þetta væri of erfið vinna fyrir hana.

III.  Sjónarmið Vinnumálastofnunar

Í greinargerð Vinnumálastofnunar kemur fram að kærandi hafi þann 1. október 2015 hafnað starfstilboði frá B. Kærandi hafi skrifað undir yfirlýsingu þess efnis.  Vinnumálastofnun hafi óskað eftir skýringum á höfnun kæranda á atvinnutilboði. Í kjölfarið hafi Vinnumálastofnun borist læknisvottorð þar sem fram komi að kærandi sé ekki fær til að sinna störfum sem reyndu mikið á hendur og axlir.

Þar sem Vinnumálastofnun hafi ekki verið kunnugt um skerta vinnufærni kæranda fyrr en eftir að henni hefði verið boðið starf hjá B hafi það verið niðurstaða stofnunarinnar að kærandi skyldi sæta biðtíma á grundvelli 59. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar.

Fyrir mistök hafi kæranda ekki verið tilkynnt um þessa ákvörðun Vinnumálastofnunar.  Í stað þess að birta ákvörðun um biðtíma hafi kæranda verið sent erindi, dags. 30. október 2015, þar sem fram komi að máli hennar sé frestað og að stofnunin óski eftir frekari upplýsingum.  Kæranda hafi því verið gert að sæta biðtíma á grundvelli 59. gr. laga um atvinnuleysistryggingar en aldrei verið tilkynnt bréflega um þá ákvörðun stofnunarinnar. Kæranda hafi því hvorki verið upplýst um réttargrundvöll eða réttaáhrif ákvörðunar með formlegum hætti.

Það sé afstaða stofnunarinnar að skýringar kæranda á höfnun á starfi geti ekki talist gildar í skilningi laga um atvinnuleysistryggingar. Í ljósi þeirra mistaka sem gerð hafi verið við afgreiðslu á máli hennar telji stofnunin þó rétt að stofnunin taki mál hennar fyrir að nýju. Þar sem mál kæranda sé nú til meðferðar hjá kærunefndinni telji Vinnumálastofnun rétt að bíða niðurstöðu nefndarinnar svo ekki sé fjallað um mál þetta á tveimur stjórnsýslustigum á sama tíma.

IV.  Niðurstaða

Mál þetta lýtur að þeirri ákvörðun Vinnumálastofnunar að fella niður bótarétt kæranda í tvo mánuði á grundvelli 1. mgr. 59. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar.

Ákvæði 1. mgr. 59. gr. laga um atvinnuleysistryggingar hljóðar svo:

„Sá sem lætur hjá líða að veita nauðsynlegar upplýsingar skv. 14. gr. eða um annað það sem kann að hafa áhrif á rétt hans samkvæmt lögum þessum skal ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta skv. VII. kafla fyrr en að tveimur mánuðum liðnum, sem ella hefðu verið greiddar bætur fyrir, frá þeim degi er viðurlagaákvörðun Vinnumálastofnunar er tilkynnt aðila, sbr. þó 4. mgr. Hið sama á við þegar hinn tryggði hefur … látið hjá líða að tilkynna Vinnumálastofnun um þær breytingar sem kunna að verða á högum hans á því tímabili sem hann fær greiddar atvinnuleysisbætur eða sætir biðtíma eða viðurlögum samkvæmt lögum þessum eða annað það sem kann að hafa áhrif á rétt hans samkvæmt lögum þessum, sbr. 3. mgr. 9. gr. og 2. mgr. 14. gr. Skal honum jafnframt verða gert að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur skv. 39. gr.“

Samkvæmt a-lið 1. mgr. 13. gr. laga um atvinnuleysistryggingar ber atvinnuleitanda að vera í virkri atvinnuleit til þess að teljast tryggður samkvæmt lögunum. Um virka atvinnuleit er fjallað í 14. gr. laganna. Þar kemur fram í 1. mgr. að sá teljist vera virkur í atvinnuleit sem uppfylli nánar tilgreind skilyrði. Skilyrðin eru meðal annars að atvinnuleitandi sé fær til flestra almennra starfa og hafi vilja og getu til að taka starfi án sérstaks fyrirvara, sbr. a-lið og d-lið 1. mgr. 14. gr. laganna. Í 2. málsl. 4. mgr. 14. gr. laganna er að finna undanþágu frá þessum skilyrðum þar sem fram kemur að heimilt sé að taka tillit til aðstæðna hins tryggða sem geti ekki sinnt tilteknum störfum vegna skertrar vinnugetu samkvæmt mati sérfræðilæknis.

Til þess að hægt sé að taka tillit til skertrar vinnugetu atvinnuleitanda samkvæmt framangreindu verður hann að upplýsa Vinnumálastofnun um vinnufærni sína. Þannig segir í 3. málsl. 1. mgr. 9. gr. laga um atvinnuleysistryggingar að í umsókn skulu koma fram allar þær upplýsingar sem varði vinnufærni umsækjanda og þær rökstuddar fullnægjandi gögnum. Einnig segir í 2. mgr. 14. gr. að hinn tryggði skuli tilkynna Vinnumálastofnun um þær breytingar sem kunni að verða á vinnufærni hans eða aðstæðum að öðru leyti samkvæmt 1. mgr., þar á meðal um tilfallandi veikindi, án ástæðulausrar tafar. Láti atvinnuleitandi hjá líða að veita upplýsingar eða tilkynna um breytingar á högum ber Vinnumálastofnun að beita hann viðurlögum samkvæmt fyrrgreindri 59. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Í athugasemdum við ákvæðið í frumvarpi til laganna segir svo:

„Ákvæði þetta er nýmæli en mikilvægt skilyrði þess að unnt sé að aðstoða hinn tryggða við að fá starf við hæfi og gefa honum kost á þátttöku í viðeigandi vinnumarkaðsaðgerðum er að nauðsynlegar upplýsingar um hann liggi fyrir. Þannig er bæði tryggt að rétt mynd liggi fyrir um samsetningu þeirra sem eru án atvinnu á hverjum tíma og ekki síst stuðlað að því að atvinnuleitanda sé boðin viðeigandi þjónusta til að auka vinnufærni hans, svo sem atvinnutengd endurhæfing, námskeið og ráðgjöf. Nokkuð er um það að atvinnuleitendur komi með læknisvottorð um skerta starfshæfni þegar þeim eru boðin störf. Það getur hins vegar reynst þýðingarmikið að upplýsingar liggi fyrir þegar í upphafi um að þeir geti ekki sinnt tilteknum störfum vegna heilsufarsástæðna. Skorti nauðsynlegar upplýsingar um vinnufærni umsækjanda getur það því haft neikvæð áhrif á árangur þeirra úrræða sem viðkomandi standa til boða enda hefur þarfamatið verið byggt á ófullnægjandi upplýsingum. Þá er ekki átt við upplýsingar um atvik eða aðstæður sem ekki voru komin fram þegar umsækjandi sótti fyrst um atvinnuleysisbætur en gert er ráð fyrir að hinn tryggði gefi nauðsynlegar upplýsingar um leið og breytingar verða.“

Í kæru greinir kærandi frá því að líkamleg heilsa hennar hafi versnað mjög síðustu mánuði. Fram kemur meðal annars að hún bíði eftir aðgerð á hægri hendi. Þá segir í læknisvottorði D, dags. 12. október 2015, að kærandi sé vinnufær nema til starfa sem reyni mikið á hendur og axlir. Með hliðsjón af framangreindu er það mat úrskurðarnefndar velferðarmála að vinnufærni kæranda sé skert til margra starfa. Því telur nefndin að kæranda hafi borið að tilkynna Vinnumálastofnun um breytingu á vinnufærni hennar, sbr. 2. mgr. 14. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Óumdeilt er að kærandi gerði það ekki fyrr en haft var samband við hana vegna starfs hjá Hreint ehf. Því bar Vinnumálastofnun að láta hana sæta viðurlögum samkvæmt 59. gr. laganna.

Af 59. gr. laga um atvinnuleysistryggingar má ráða að ef beitt er viðurlögum á grundvelli ákvæðisins þá byrjar tveggja mánaða biðtíminn að líða frá þeim degi sem viðurlagaákvörðun Vinnumálastofnunar er tilkynnt aðila. Samkvæmt upplýsingum frá Vinnumálastofnun var kærandi látin sæta tveggja mánaða biðtíma frá 30. október 2015 en vegna mistaka var kæranda ekki tilkynnt um þá ákvörðun. Þegar af þeirri ástæðu að ákvörðunin var ekki tilkynnt kæranda var Vinnumálastofnun óheimilt að láta hana sæta tveggja mánaða biðtíma eftir greiðslu bóta frá 30. október 2015. Hin kærða ákvörðun er því felld úr gildi.


Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Vinnumálastofnunar, í máli A, um að fella niður bótarétt kæranda frá 30. október 2015 í tvo mánuði er felld úr gildi.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta