Hoppa yfir valmynd

Nr. 356/2020 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

Þann 15. október 2020 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 356/2020

í stjórnsýslumáli nr. KNU20040007

Kæra [...]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

 

I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Þann 7. apríl 2020 kærði einstaklingur sem kveðst heita [...], vera fæddur [...] og vera ríkisborgari Pakistan (hér eftir nefndur kærandi) ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 18. mars 2020, um að synja honum um alþjóðlega vernd á Íslandi ásamt því að synja honum um dvalarleyfi á grundvelli 74. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga.

Kærandi krefst þess aðallega að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að kæranda verði veitt staða flóttamanns með vísan til 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Til vara er þess krafist að kæranda verði veitt viðbótarvernd með vísan til 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Til þrautavara er þess krafist að kæranda verði veitt dvalarleyfi á grundvelli 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

II. Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um alþjóðlega vernd hér á landi þann 11. maí 2019. Kærandi kom í viðtal hjá Útlendingastofnun m.a. þann 17. september 2019 ásamt talsmanni sínum. Með ákvörðun, dags. 18. mars 2020, synjaði Útlendingastofnun kæranda um alþjóðlega vernd ásamt því að synja honum um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Var sú ákvörðun kærð til kærunefndar útlendingamála þann 7. apríl 2020. Kærunefnd barst greinargerð kæranda þann 29. apríl 2020. Þá bárust kærunefnd viðbótargögn þann 18. maí sl. Í greinargerð óskaði kærandi eftir því að fá að koma fyrir nefndina og tjá sig um efni málsins. Kærunefnd taldi ekki ástæðu til að gefa kæranda kost á að koma fyrir nefndina, sbr. 7. mgr. 8. gr. laga um útlendinga.

III. Ákvörðun Útlendingastofnunar

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að kærandi byggi umsókn sína um alþjóðlega vernd á því að hann sé í hættu í heimaríki vegna aðildar sinnar að tilteknum þjóðfélagshópi.

Niðurstaða ákvörðunar Útlendingastofnunar í máli kæranda var sú að kærandi sé ekki flóttamaður og honum skuli synjað um alþjóðlega vernd á Íslandi skv. ákvæðum 37. og 40. gr. laga um útlendinga. Kæranda var jafnframt synjað um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 74. gr. laga um útlendinga. Þá taldi stofnunin að ákvæði 42. gr. laga um útlendinga stæði endursendingu til heimaríkis ekki í vegi.

Kæranda var vísað frá landinu á grundvelli c-liðar 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga. Útlendingastofnun tilkynnti kæranda jafnframt að kæra frestaði réttaráhrifum ákvörðunarinnar, sbr. 1. mgr. 35. gr. laga um útlendinga.

IV. Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð kæranda er vísað til framburðar hans í viðtali hjá Útlendingastofnun. Um ástæður flótta hafi kærandi greint frá því að hann sé giftur tveimur konum og óttist ofsóknir í heimaríki vegna þess. Fyrri konunni hafi hann gifst árið 2000 og síðari konunni árið 2007, án vitneskju fyrri eiginkonu. Kærandi hafi verið starfsmaður [...] fram til ársins 2016 en hann kveður að það sé óheimilt fyrir opinbera starfsmenn þar í landi að giftast fleiri en einni konu. Hafi kærandi verið undir miklum þrýstingi bæði frá fjölskyldu fyrri eiginkonu sinnar og vinnuveitanda sínum að slíta síðara hjónabandi sínu og hafi báðir aðilar gefið í skyn alvarlegar afleiðingar fyrir kæranda vegna málsins. Þá hafi yfirvöld skráð kæranda á svokallaðan útgöngubannlista (e. Exit Control) og hafi hann lagt fram bréf sem staðfesti það. Hafi yfirvöld hringt í bróður kæranda og lýst hótunum í garð kæranda. Kveður kærandi lögbrot sitt geta varðað nokkurra ára fangelsisvist í heimaríki.

Í greinargerð er fjallað almennt um aðstæður og stöðu mannréttinda í heimaríki hans sem og öryggisástands landsins. Kveður kærandi að almennt öryggisástand þar í landi sé afar ótryggt, m.a. vegna árása og ofbeldis af hálfu hryðjuverkahópa. Mannréttindanefnd Pakistan hafi í skýrslu sinni árið 2019 gagnrýnt yfirvöld þar í landi fyrir yfirdrifna og gerræðislega notkun á hinum svokallaða útgöngubannlista. Af umfjölluninni megi sjá að listinn virðist vera notaður í pólitískum sem og ýmsum öðrum tilgangi með gerræðislegum hætti. Þá hafi innflytjenda- og flóttamannanefnd Kanada gert samantekt um fjölkvæni í heimaríki kæranda árið 2013. Þar komi fram að þrátt fyrir að fjölkvæni sé hluti af trú og menningu í Pakistan séu seinni eiginkonur ekki velkomnar í fjölskyldur og samkvæmt íslömskum fjölskyldulögum fáist síðara hjónaband ekki opinberlega skráð nema fyrir liggi samþykki gerðardóms auk samþykkis fyrri eiginkonu eða eiginkvenna. Samkvæmt framangreindri heimild séu lagaákvæðin í orði en ekki á borði. Árið 2017 hafi maður verið dæmdur í sex mánaða fangelsi af þarlendum dómstól fyrir að giftast seinni eiginkonu sinni án samþykkis fyrri eiginkonu. Þá byggir kærandi á því að aðstæður í fangelsum í Pakistan séu afar slæmar. Séu fangelsin yfirfull auk þess sem skortur sé á mat, lyfjum og hreinlæti. Samkvæmt skýrslu Sameinuðu þjóðanna sé notkun opinberra aðila á pyndingum útbreidd og hafi mannréttindasamtök gagnrýnt yfirvöld fyrir að koma ekki í veg fyrir pyndingar sem séu að mestu stundaðar af lögreglu, her og leyniþjónustu og þrífist í skjóli refsileysis. Þá séu dæmi um að einstaklingur hafi látið lífið í vörslu lögreglu í kjölfar pyndinga.

Kærandi gerir athugasemdir við ákvörðun Útlendingastofnunar og hvernig trúverðugleikamati hafi verið háttað í málinu. Hvað varðar meint ósamræmi í frásögn kæranda um mögulega fangelsisrefsingu í heimaríki sé ekki um að ræða frásögn hans af atviki í lífi sínu heldur tilgátu um hvaða reglur séu í gildi í heimaríki. Hvað varðar umfjöllun Útlendingastofnunar um þær reglur sem gildi um fjölkvæni í Pakistan hafi stofnunin dregið rangar ályktanir af fordæmisgildi þarlends dóms, sbr. umfjöllun að framan. Þá bendi nýlegar heimildir til þess að notkun á áðurnefndum útgöngubannlisti sé enn víðtæk. Þá hafi kærandi sýnt fram á að hann hafi verið skráður á umræddan lista. Jafnframt gerir kærandi athugasemd við það mat Útlendingastofnunar að frásögn hans sé ótrúverðug að öllu leyti, enda hafi kærandi stutt hluta frásagnar sinnar með gögnum. Loks mótmælir kærandi þeirri staðhæfingu að framlögð gögn beri ekki með óyggjandi hætti með sér að hann hafi starfað fyrir yfirvöld og sé á útgöngubannlista vegna tvíkvænis. Hafi Útlendingastofnun ekki fært fram nein rök fyrir því að ekki ætti að leggja hin framlögðu gögn til grundvallar en bréf sem sanni skráningu kæranda á útgöngubannlista sé grundvallargagn í málinu sem sýni að hann sé undir smásjá yfirvalda í heimaríki. Þá sýni framlagt starfsskírteini að kærandi hafi starfað fyrir yfirvöld.

Kærandi krefst þess aðallega að honum verði veitt alþjóðleg vernd skv. 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Kærandi byggir á því að hann uppfylli skilyrði framangreinds ákvæðis þar sem hann hafi ástæðuríkan ótta við ofsóknir sem megi rekja til aðildar að tilteknum þjóðfélagshópi, skv. skilgreiningu d-liðar 3. mgr. 38. gr. laga um útlendinga. Kærandi tilheyri hópi manna í Pakistan sem óttist ofsóknir vegna fjölkvænis. Í d-lið 3. mgr. 38. gr. laga um útlendinga kemur fram að þegar rætt sé um þjóðfélagshóp í 37. gr. laganna sé einkum vísað til hóp fólks sem, umfram það að sæta ofsóknum, hafi sameiginleg einkenni eða bakgrunn sem ekki verði breytt. Kærandi telji að sú staðreynd að hann hafi gifst seinni konu sinni feli í sér bakgrunn sem ekki verður breytt.

Kærandi hafi greint frá því að yfirvöld séu á eftir honum en hann hafi m.a. sýnt fram á að hann hafi verið settur á svokallaðan útgöngubannlista. Þá óttist hann fjölskyldu fyrrverandi eiginkonu sinnar. Byggir kærandi á því að framangreindir aðilar sem kærandi óttast falli undir a- og c-liði 4. mgr. 38. gr. laga um útlendinga. Verði kæranda gert að snúa aftur til Pakistan brjóti það gegn grundvallarreglu þjóðaréttar um non-refoulement, sbr. 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga. Að auki myndi slík ákvörðun brjóta í bága við 1. mgr. 68. gr. stjórnarskrárinnar, 2. og. 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, 6. og 7. gr. samnings um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi og 33. gr. Flóttamannasamnings Sameinuðu þjóðanna.

Verði ekki fallist á aðalkröfu kæranda er til vara gerð sú krafa að kæranda verði veitt viðbótarvernd með vísan til 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Með hliðsjón af því sem rakið hafi verið í tengslum við aðalkröfu kæranda sé ljóst að kærandi uppfylli skilyrði 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga þar sem hann eigi í hættu á að sæta ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu verði honum gert að snúa aftur til Pakistan. Samkvæmt c-lið 2. mgr. 38. gr. laga um útlendinga geti ofsóknir m.a. falist í saksókn eða refsingu sem er óhófleg eða mismunar einstaklingum á ómálefnalegum grundvelli. Kærandi hafi greint frá því að hann óttist að verða settur í fangelsi fyrir að hafa gifst seinni eiginkonu sinni. Samkvæmt framangreindum heimildum séu aðstæður í fangelsum í Pakistan afar slæmar og dæmi um að einstaklingar í haldi yfirvalda sæti pyndingum. Jafnframt sé almennt öryggisástand í Pakistan mjög ótryggt og gríðarlegt mannfall sé ár hvert vegna árása af hálfu öryggissveita ríkisins og hryðjuverkasamtaka. Þá beiti yfirvöld borgara sína pyndingum og brjóti þannig á mannréttindum þeirra. Til þrautavara gerir kærandi kröfu um að honum verði veitt dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Með hliðsjón af öllu sem þegar hafi verið rakið telji kærandi ljóst að hann sé þolandi viðvarandi mannréttindabrota í heimaríki sem yfirvöld verndi hann ekki gegn.

V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Lagagrundvöllur

Í máli þessu gilda einkum ákvæði laga um útlendinga nr. 80/2016, reglugerð nr. 540/2017 um útlendinga, ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993, stjórnarskrá lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 og mannréttindasáttmáli Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Jafnframt ber að líta til ákvæða alþjóðasamnings um stöðu flóttamanna frá 1951, ásamt viðauka við samninginn frá 1967, og annarra alþjóðlegra skuldbindinga Íslands á sviði mannréttinda eftir því sem tilefni er til.

Auðkenni

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að kærandi hafi ekki lagt fram nein gögn sem til þess væru fallin að sanna á honum deili. Það var mat Útlendingastofnunar að kærandi hafi ekki sannað hver hann er með fullnægjandi hætti. Leysti stofnunin því úr auðkenni kæranda á grundvelli trúverðugleikamats. Það var mat Útlendingastofnunar að engin ástæða væri til að draga í efa að hann sé pakistanskur ríkisborgari. Við meðferð málsins hjá kærunefnd framvísaði kærandi m.a. útrunnu pakistönsku vegabréfi. Með vísan til skjalarannsóknarskýrslu Flugstöðvardeildar lögreglustjórans á Suðurnesjum, dags. 1. október 2020, er það mat kærunefndar að framangreint vegabréf sé til þess fallið að sanna auðkenni kæranda. Verður því lagt til grundvallar að hann sé pakistanskur ríkisborgari með því nafni sem kemur fram í vegabréfi hans.

Landaupplýsingar

Kærunefnd útlendingamála hefur lagt mat á aðstæður í Pakistan, m.a. með hliðsjón af eftirfarandi skýrslum:

  • Concluding observations on the initial report of Pakistan (UN Committee Against Torture, 1. júní 2017);
  • 2019 Country Reports on Human Rights Practices: Pakistan (U.S. Department of State, 11. mars 2020);
  • Country Information Note. Pakistan: Documentation (UK Home Office, mars 2020);
  • Country Policy and Information Note. Pakistan: Background information, including actors of protection, and internal relocation (UK Home Office, júní 2020);
  • Country Policy and Information Note. Pakistan: Prison Conditions (UK Home Office, nóvember 2019);
  • DFAT Country Information Report. Pakistan. (Australian Government. Department of Foreign Affairs and Trade, 20. febrúar 2019);
  • EASO Country of Origin Report – Pakistan Security Situation (EASO, október 2019);
  • First wife‘s permission mandatory for second marriage, rules Pakistan‘s top court (Daily Pakistan, 26. ágúst 2020);
  • Freedom in the World 2020 – Pakistan (Freedom House, 11. mars 2020);
  • Íslömsk fjölskyldulög í Pakistan (https://www.refworld.org/pdfid/4c3f1e1c2.pdf);
  • Man convicted for contracting second marriage without wife‘s consent challenges family laws amendments (The Express Tribune, 2. febrúar 2020);
  • Man gets three-month jail for second marriage (Dawn, 31. mars 2019);
  • Pakistan: Airport security screening procedures for passengers departing on international flights, including whether authorities verify if a passenger is wanted by the police (Immigration and Refugee Board of Canada, 15. janúar 2018);
  • Pakistan: Country Report (Asylum Research Consultancy, 18. júní 2018);
  • Pakistan: First Information Reports (FIRs) (2010-December 2013) (Immigration and Refugee Board of Canada, 10. janúar 2014);
  • Pakistan makes landmark ruling against man for second marriage (Reuters, 1. nóvember 2017);
  • Pakistan - Mänskliga rättigheter, demokrati och rättstatens principer: situationen per den 31 december 2018 (Utrikesdepartimentet, 18. júní 2019);
  • Pakistan: Practice of polygamy, including legislation; rights of the first wife versus the second, including whether she has the right to refuse a second wife (Immigration and Refugee Board of Canada, 18. desember 2013);
  • Second marriage lands man in jail (The Nation, 16. júlí 2019);
  • State of Human Rights in 2018 (Human Rights Commission of Pakistan, 16. apríl 2019);
  • State of Human Rights in 2019 (Human Rights Commission of Pakistan, 30. apríl 2020);
  • The World Factbook: Pakistan (Central Intelligence Agency, 24. september 2020); • Upplýsingasíða Johns Hopkins háskólans (https://coronavirus.jhe.edu/map.html, sótt 7. október 2020);
  • World Report 2020 – Pakistan (Human Rights Watch, 15. janúar 2020);
  • Vefsíða Human Rights Commission of Pakistan (http://hrcp-web.org/hrcpweb/) og
  • Stjórnarskrá Pakistan (http://na.gov.pk/uploads/documents/1333523681_951.pdf).

Samkvæmt ofangreindum gögnum er Pakistan sambandslýðveldi með um 233 milljónir íbúa. Þann 30. september 1947 gerðist Pakistan aðili að Sameinuðu þjóðunum. Ríkið fullgilti alþjóðasamning um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi árið 2010 og alþjóðasamning um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi árið 2008. Ríkið fullgilti alþjóðasamning um afnám alls kynþáttamisréttis árið 1966 og samning Sameinuðu þjóðanna gegn pyndingum og annarri grimmilegri, ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu árið 2010. Þá fullgilti ríkið jafnframt samning um afnám allrar mismununar gagnvart konum árið 1996, en ríkið hefur hins vegar ekki undirritað valfrjálsa viðbótarbókun við samninginn. Pakistan fullgilti samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins árið 1990.

Í skýrslu bandaríska utanríkisráðuneytisins frá árinu 2020 kemur fram að þrátt fyrir að pakistönsk löggjöf banni handahófskenndar handtökur og varðhald, jafnframt sem lögin kveði á um rétt til að vefengja lögmæti handtöku fyrir dómi, þá sé spilling innan lögreglunnar vandamál í Pakistan. Spilling á lægri stigum lögreglunnar sé algeng og séu dæmi um að lögreglan þiggi mútur. Einstaklingar tilkynni um meinta glæpi eða brot til lögreglunnar með svokallaðri FIR skýrslu (e. first instance report). FIR skýrslan sé fyrsta skrefið við rannsókn sakamáls og sé hún oftast lögð fram af þriðja aðila þó svo að lögreglan hafi heimild til að gera slíka skýrslu sjálf. FIR skýrslan veiti lögreglunni heimild til að halda meintum brotamanni í gæsluvarðhaldi í 24 klukkustundir á grundvelli rannsóknarhagsmuna. Hægt sé að leggja fram slíka skýrslu hjá lögreglumanni, á lögreglustöð og á vefsíðum ákveðinna lögregluembætta í Pakistan.

Í framangreindri skýrslu kemur fram að þrátt fyrir að pakistönsk lög kveði á um sjálfstætt dómskerfi og réttláta málsmeðferð beri gögnin með sér að dómskerfið hafi verið gagnrýnt fyrir spillingu. Spilling sé innan héraðsdómstóla en þeir séu afkastalitlir og undir þrýstingi frá auðugum og áhrifamiklum einstaklingum, einkum á sviði trúar- og stjórnmála. Þá kemur fram að þrátt fyrir að veikleikar séu í réttarkerfinu í Pakistan þá sé spilling refsiverð samkvæmt lögum, en ábyrgðarskrifstofa ríkisins (e. National Accountability Bureau (NAB)) hafi það hlutverk að útrýma spillingu í stjórnkerfum landsins með vitundarvakningu, forvörnum, rannsókn spillingarmála jafnframt sem skrifstofan ákæri í slíkum málum. Þá kemur fram að einkamála-, sakamála- og fjölskyldudómstólakerfi landsins veiti óhlutdræga og réttláta málsmeðferð, að aðilar séu álitnir saklausir uns annað komi í ljós, gagnyfirheyrsla fyrir dómi sé möguleg sem og möguleikinn til áfrýjunar. Þá verndi stjórnarskrá Pakistan réttinn til að fella ekki á sig sök en kviðdómsfyrirkomulag er ekki við lýði í landinu.

Í skýrslu innflytjenda- og flóttamannanefndar Kanada frá árinu 2013 kemur fram að ekki séu til tölfræðiupplýsingar um það hversu algengt fjölkvæni sé í Pakistan. Hins vegar bendi ákveðin gögn til þess að slíkt sé ekki algengt í landinu en þekkist þó í einhverjum mæli. Þótt fjölkvæni sé viðurkennt sem hluti af trúar- og menningarhefð landsins sé það almennt ekki samþykkt og síðari eiginkonan sé almennt ekki velkomin í fjölskylduna. Þá sé fjölkvæni sjaldgæft í þéttbýli. Löggjöf í Pakistan heimili fjölkvæni að ákveðnum skilyrðum uppfylltum, m.a. að fyrir liggi leyfi frá gerðarráði (e. Arbitration Council). Viðurlögin við því að ganga í annað hjónaband án leyfis gerðardóms séu framfærsla til fyrri eiginkonu og sektargreiðslur og/eða fangelsisrefsing allt að einu ári. Þá bendi gögn málsins til þess að hjónabönd sem til er stofnað án samþykkis áðurnefnds gerðardóms séu ekki ógild heldur sé einungis synjað um opinbera skráningu, en mörg dæmi séu um slíkt í Pakistan. Séu þær reglur sem gildi um fjölkvæni í Pakistan í raun aðeins formsatriði. Þá kemur fram að giftist karlmaður annarri konu án samþykkis fyrri eiginkonu geti sú síðarnefnda sótt um skilnað. Jafnframt hafi dómstólar landsins verið tregir til að beita framangreindum viðurlögum vegna brota á lögunum.

Samkvæmt frétt sem birtist á vefsíðu fjölmiðilsins Reuters þann 1. nóvember 2017 var pakistanskur karlmaður dæmdur af þarlendum dómstóli til refsingar fyrir að hafa gifst konu án samþykkis fyrri eiginkonu sinnar. Var hann dæmdur til tveggja mánaða fangelsisrefsingar og til þess að greiða 200.000 pakistanskar rúpíur, eða ígildi um 182.000 kr. Kom fram að að þetta hafi verið í fyrsta skipti sem þarlendur dómstóll dæmi konu í hag skv. breytingum á fjölskyldulögum frá 2015. Samkvæmt fréttum fjölmiðla í Pakistan, þ. á m. Dawn frá 31. mars 2019, The Nation frá 16. júlí 2019 og The Express Tribune frá 2. febrúar 2020, hafi dómstólar í Pakistan dæmt í málum frá þeim tíma þar sem pakistanskir karlmenn hafi verið dæmdir fyrir samskonar brot. Hafi refsingarnar verið frá eins til ellefu mánaða fangelsisrefsingar og sektargreiðslur. Þá komi fram í frétt sem birtist á vefsíðu fjölmiðilsins Daily Pakistan þann 26. ágúst 2020 að Hæstiréttur Pakistan hafi nýverið staðfest að í þeim tilvikum þar sem leyfi fyrir giftingu hafi ekki fengist frá fyrri eiginkonu skuli karlmaður greiða heimanmund til konunnar.

Í skýrslu mannréttindaráðs Pakistan frá 2020, skýrslu breska innanríkisráðuneytisins frá 2019 og skýrslu ástralska utanríkisráðuneytisins frá 2019 eru gerðar alvarlegar athugasemdir við aðstæður og aðbúnað í pakistönskum fangelsum. Meirihluti fangelsa í Pakistan séu yfirfull, undirmönnuð og uppfylli ekki alþjóðlegar lágmarkskröfur. Fangar hafi búið við óheilnæmar aðstæður og sé það áhyggjuefni að þeim hafi ekki verið tryggður aðgangur að fullnægjandi heilbrigðisþjónustu. Þá hafi fangar þurft að þola áreiti og ofbeldi af hálfu fangavarða og samfanga.

Þá kemur fram í skýrslu innflytjenda- og flóttamannanefndar Kanada frá árinu 2018 og skýrslu bandaríska utanríkisráðuneytisins frá 2020 að yfirvöld komi í veg fyrir að einstaklingar á svokölluðum brottfararlista (e. Exit Control list) yfirgefi landið. Gefin hafi verið sú ástæða fyrir listanum að hann komi í veg fyrir að einstaklingar tengdir andófi gegn yfirvöldum, hryðjuverkum eða ólögmætum samtökum yfirgefi landið. Þá komi fram að sé einstaklingur skráður á umræddan lista hafi hann rétt til að leita til dómstóla í því skyni að fá nafn sitt fjarlægt af umræddum lista. Í skýrslum mannréttindaráðs Pakistan frá árunum 2019 og 2020 kemur fram að pakistönsk stjórnvöld hafi m.a. notað brottfararlistann sem tæki gagnvart sakborningum fyrir dómsuppkvaðningar og pólitískum andstæðingum. Þá hafi listinn verið notaður gagnvart aðgerðarsinnum sem berjist fyrir auknum mannréttindum.

Ákvæði 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga

Í 1. mgr. 37. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga, sem byggir á A-lið 1. gr. flóttamannasamningsins, segir:

Flóttamaður samkvæmt lögum þessum telst vera útlendingur sem er utan heimalands síns af ástæðuríkum ótta við að vera ofsóttur vegna kynþáttar, trúarbragða, þjóðernis, aðildar að tilteknum þjóðfélagshópi eða vegna stjórnmálaskoðana og getur ekki eða vill ekki vegna slíks ótta færa sér í nyt vernd þess lands; eða sá sem er ríkisfangslaus og er utan þess lands þar sem hann áður hafði reglulegt aðsetur vegna slíkra atburða og getur ekki eða vill ekki vegna slíks ótta hverfa aftur þangað, sbr. A-lið 1. gr. alþjóðasamnings um réttarstöðu flóttamanna frá 28. júlí 1951 og bókun við samninginn frá 31. janúar 1967, sbr. einnig 38. gr. laga þessara.

Í 38. gr. útlendingalaga eru sett fram viðmið um það hvað felist í hugtakinu ofsóknir skv. 1. mgr. 37. gr., á hvaða grundvelli ofsóknir geta byggst og hvaða aðilar geta verið valdir að þeim. Í 1. mgr. ákvæðisins segir:

Ofsóknir skv. 1. mgr. 37. gr. eru þær athafnir sem í eðli sínu eða vegna þess að þær eru endurteknar fela í sér alvarleg brot á grundvallarmannréttindum, einkum ófrávíkjanlegum grundvallarmannréttindum á borð við réttinn til lífs og bann við pyndingum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu, bann við þrældómi og þrælkun og bann við refsingum án laga. Sama á við um samsafn athafna, þ.m.t. ólögmæta mismunun, sem hafa eða geta haft sömu eða sambærileg áhrif á einstakling.

Í 2. mgr. 38. gr. laga um útlendinga er fjallað um í hverju ofsóknir geta falist. Þá eru þær ástæður sem ofsóknir þurfa að tengjast skilgreindar nánar í 3. mgr. 38. gr. laganna.

Í 4. mgr. 38. gr. kemur fram að þeir aðilar sem geta verið valdir að ofsóknum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð séu:

a. ríkið,

b. hópar eða samtök sem stjórna ríkinu eða verulegum hluta landsvæðis þess,

c. aðrir aðilar, sem ekki fara með ríkisvald, ef sýnt er fram á að ríkið eða hópar eða samtök skv. b-lið, þ.m.t. alþjóðastofnanir, geti ekki eða vilji ekki veita vernd gegn ofsóknum eða meðferð sem fellur undir 2. mgr. 37. gr., m.a. með því að ákæra og refsa fyrir athafnir sem fela í sér ofsóknir.

Orðasambandið „ástæðuríkur ótti við að vera ofsóttur“ í 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga inniheldur huglæga og hlutlæga þætti og þarf að taka tillit til hvors tveggja þegar mat er lagt á umsókn um alþjóðlega vernd. Mat á því hvort ótti umsækjanda sé ástæðuríkur getur verið byggt á persónulegri reynslu umsækjanda sem og á upplýsingum um ofsóknir sem aðrir í umhverfi hans eða þeir sem tilheyra sama hópi hafa orðið fyrir. Þótt umsækjandi um alþjóðlega vernd skuli njóta vafa upp að ákveðnu marki verður umsækjandinn með rökstuddum hætti að leiða líkur að því að hans bíði ofsóknir í heimaríki. Frásögn umsækjanda og önnur gögn um einstaklingsbundnar aðstæður hans verða því almennt að fá stuðning í hlutlægum og áreiðanlegum upplýsingum um heimaríki umsækjanda, stjórnvöld, stjórnarfar og löggjöf þess. Þá er litið til sambærilegra upplýsinga um ástand, aðstöðu og verndarþörf þess hóps sem umsækjandi tilheyrir eða er talinn tilheyra. Umsækjandi sem hefur sýnt fram á með heildstæðri og trúverðugri frásögn af atburðum, og eftir atvikum með trúverðugum gögnum, sem eru í samræmi við áreiðanlegar og hlutlægar upplýsingar um almennt ástand í heimaríki hans, að hann hafi orðið fyrir ofsóknum í skilningi laga um útlendinga, eða beinum og marktækum hótunum um slíkar ofsóknir, yrði almennt talinn hafa sýnt fram á ástæðuríkan ótta við ofsóknir snúi hann aftur til heimaríkis. Í þeim tilvikum hvílir það á stjórnvöldum að eyða öllum vafa um slíka hættu, t.d. með vísan til þess að aðstæður í heimaríki hans hafi breyst.

Kærunefnd hefur við mat sitt á umsókn kæranda haft til hliðsjónar handbók Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna um málsmeðferð og viðmið við mat á umsókn um alþjóðlega vernd (Handbook and Guidelines on Procedures and Criteria for Determining Refugee Status, Genf 2011). Þá hefur aðferðarfræði trúverðugleikamats kærunefndar tekið mið af skýrslu Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna og Flóttamannasjóðs Evrópusambandsins um trúverðugleikamat, eftir því sem við á (Beyond Proof: Credibility Assessment in EU Asylum Systems, Brussel 2013).

Samkvæmt viðtali kæranda hjá Útlendingastofnun og greinargerð til kærunefndar er umsókn kæranda um alþjóðlega vernd byggð á því að hann sé í hættu í heimaríki sínu, Pakistan, vegna ofsókna af hendi yfirvalda vegna fjölkvænis. Kærandi hafi gifst fyrri eiginkonu sinni í Pakistan árið 2000 og þeirri síðari í [...] árið 2007 þar sem hann hafi unnið fyrir [...]. Upp hafi komist um síðara hjónabandið árið 2015 og hafi vinnuveitandi kæranda og fjölskylda fyrri eiginkonu hans gefið í skyn alvarlegar afleiðingar fyrir kæranda ef hann yrði ekki við kröfu þeirra um að að slíta síðara hjónabandinu. Vegna framangreinds hafi kærandi neyðst til að segja starfi sínu lausu árið 2016 og hafi hann farið til Barcelona þar sem hann hafi farið huldu höfði allt til ársins 2018. Verði kæranda gert að snúa aftur til Pakistan telur kærandi að hann eigi á hættu fangelsisrefsingu þar sem óheimilt sé fyrir opinbera starfsmenn þar í landi að vera giftir fleiri en einni konu. Þá telur kærandi að hann verði hvergi óhultur í heimaríki, enda sé það af hendi yfirvalda sem hann óttist ofsóknir. Í því sambandi vísi kærandi m.a. til þess að yfirvöld hafi sett nafn hans á svokallaðan útgöngubannlista.

Við meðferð málsins hjá kærunefnd lagði kærandi fram frumrit af skjali, dags. 3. janúar 2018, sem ber með sér að vera útgefið af yfirvöldum í Pakistan, en þar kemur fram að kærandi hafi verið settur á lista pakistanskra yfirvalda yfir einstaklinga sem sé óheimilt að yfirgefa landið (e. Exit Control list). Óskaði kærunefnd eftir því að Flugstöðvardeild lögreglunnar á Suðurnesjum framkvæmdi rannsókn á skjalinu, en skýrsla lögreglu barst 14. júní sl. Í niðurstöðu skýrslunnar kemur m.a. fram að skjalið sé ekki öryggisskjal og allt prent á skjalinu sé gert með toner prenttækni, sem sé mjög aðgengileg og af litlum gæðum. Fram kemur að skráningarnúmer á skjalinu sé ekki í samræmi við skráningarnúmer á afriti af vegabréfi kæranda. Líklegast sé að mistök hafi verið gerð við ritun skráningarnúmers á skjalið. Þá hafi ekki fundist samanburðargögn fyrir ofangreint skjal og sé það ótraust í grunninn en innihaldið trúverðugt.

Kæranda var gefinn kostur á að koma með athugasemdir varðandi niðurstöðu lögreglunnar á Suðurnesjum. Í athugasemdum kæranda, dags. 19. júní sl., vísar hann til fyrri framburðar. Þá vísar hann til þess að samkvæmt rannsókninni sé efni bréfsins talið trúverðugt og megi því teljast styðja framburðinn. Þá tíðkist að bréf yfirvalda í Pakistan séu á formi sem þessu. Jafnframt vísar kærandi til þess að hann viti ekki skýringuna á því að rangt skráningarnúmer sé skráð á bréfið. Í samræmi við niðurstöðu rannsóknarinnar telji kærandi að líta verði svo á að starfsmaður pakistanskra yfirvalda sem ritaði bréfið hafi gert mistök.

Í viðtali hjá Útlendingastofnun, dags. 17. september 2019, kvað kærandi hjúskaparstöðu sína vera ástæðu þess að hann væri á framangreindum lista. Hins vegar kemur fram á skjalinu sem kærandi lagði fram að hann hafi verið settur á listann þar sem hann hafi hlaupist á brott úr starfi, en þar hafi hann haft aðgang að viðkvæmum upplýsingum. Er þannig ósamræmi milli framburðar kæranda og þeirra upplýsinga sem koma fram á skjalinu. Þrátt fyrir það telur kærunefnd, með vísan til framangreindrar skýrslu lögreglu og rannsóknar nefndarinnar á sambærilegum skjölum, að leggja megi til grundvallar að kærandi sé á umræddum lista pakistanskra stjórnvalda yfir einstaklinga sem er óheimilt að yfirgefa landið.

Með vísan til gagna sem kærunefnd hefur kynnt sér telur nefndin að þrátt fyrir að dæmi séu um að listinn hafi verið misnotaður, m.a. í pólitískum tilgangi, feli skráning kæranda á listann ekki í sér ofsóknir í skilningi 1. mgr. 38. gr. laga um útlendinga. Það er mat kærunefndar að hvorki skráning kæranda á téðan lista né brotthlaup hans úr starfi hafi það í för með sér að hann teljist hafa ástæðuríkan ótta við ofsóknir af hálfu yfirvalda í heimaríki. Þá verður af gögnunum ráðið að einstaklingar á listanum geti leitað réttar síns í því skyni að fá nafn sitt fjarlægt af honum.

Við meðferð málsins hjá kærunefnd lagði kærandi einnig fram þrenn skilríki sem hann kvað vera útrunnið vegabréf sitt, kennivottorð og starfsmannavottorð útgefið í [...], um að hann hafi verið starfsmaður [...] Pakistan hjá [...]. Óskaði kærunefnd eftir því að Flugstöðvardeild lögreglunnar á Suðurnesjum framkvæmdi rannsókn á skilríkjunum, en skýrsla lögreglu barst 1. október sl. Í niðurstöðu skýrslunnar kemur m.a. fram að mörg öryggisatriði hafi verið skoðuð og sannreynd og hafi engin merki hafi verið að sjá um fölsun í skilríkjunum. Þá hafi samanburður á andlitsmyndum af handhöfum skilríkjanna við ljósmynd sem tekin hafi verið af kæranda þegar hann sótti um alþjóðlega vernd ekki leitt neitt í ljós sem stutt geti við staðhæfingu um að ekki sé um einn og sama aðila að ræða. Að framangreindu virtu telur kærunefnd að kærandi hafi sannað hver hann sé með fullnægjandi hætti. Þá telur kærunefnd að leggja megi frásögn kæranda af störfum hans og hjúskaparstöðu í meginatriðum til grundvallar.

Eins og að framan greinir er krafa kæranda m.a. byggð á því að hann eigi á hættu fangelsisrefsingu í heimaríki vegna fjölkvænis. Samkvæmt handbók Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna teljast þeir sem flýja saksókn eða refsingu vegna afbrots alla jafna ekki flóttamenn. Þó verður að meta hvort afbrotamaður geti átt á hættu óhóflega refsingu eða hvort ástæða ákæru jafngildi ofsóknum. Einnig geti þurft að meta hvort lög viðkomandi lands séu ósamrýmanleg viðurkenndum mannréttindareglum.

Í 5. mgr. 6. gr. íslamskra fjölskyldulaga í Pakistan (e. Muslim Family Laws Ordinance, 1961) kemur fram að viðurlög við því að ganga í annað hjónaband án leyfis gerðardóms séu framfærsla til fyrri eiginkonu og sektargreiðslur og/eða fangelsisrefsing allt að einu ári. Viðlíka ákvæði er að finna í landslögum fjölmargra ríkja, þ. á m. í íslenskum rétti, en í 1. mgr. 188. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 kemur fram að ef kvæntur maður eða gift kona gengur að eiga aðra konu eða annan mann, þá varði það fangelsi allt að þremur árum, eða, ef hinum aðilanum hafi verið ókunnugt um fyrra hjónabandið, fangelsi allt að sex árum.

Það er mat kærunefndar að sú refsing sem kærandi kann að eiga yfir höfði sér í Pakistan vegna fjölkvænis teljist hvorki til „harðra viðurlaga“ í skilningi í handbókar Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna né geti refsingin talist „óhófleg“ í skilningi c-liðar 2. mgr. 38. gr. laga um útlendinga. Þá er það mat kærunefndar, m.a. með vísan til framangreinds, að fyrrgreint ákvæði landslaga í Pakistan sé ekki ósamrýmanlegt viðurkenndum mannréttindareglum. Verður því ekki fallist á með kæranda að hann hafi ástæðuríkan ótta við ofsóknir af hálfu stjórnvalda af þeirri ástæðu að hann sé giftur tveimur konum.

Kærunefnd telur jafnframt að kærandi hafi ekki lagt grunn að þeirri málsástæðu sinni að hann óttist ofsóknir af hálfu ættingja fyrstu konu sinnar eða að sú meðferð sem hann gæti átt á hættu sé af því alvarleikastigi sem 1. mgr. 38. gr. laga um útlendinga áskilur.

Með vísan til ofangreinds er það niðurstaða kærunefndar að kærandi hafi ekki með rökstuddum hætti leitt líkur að því að hann hafi ástæðuríkan ótta við ofsóknir í skilningi 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga, sbr. 1. mgr. 38. gr. laganna.

Telur kærunefnd því ljóst að kærandi uppfylli ekki skilyrði 1. mgr. 37. gr. útlendingalaga fyrir viðurkenningu á stöðu sem flóttamaður hér á landi

Ákvæði 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga

Samkvæmt 2. mgr. 37. gr. útlendingalaga er útlendingur einnig flóttamaður ef, verði hann sendur aftur til heimaríkis síns, raunhæf ástæða er til að ætla að hann eigi á hættu að sæta dauðarefsingu, pyndingum eða annarri ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu eða hann verði fyrir alvarlegum skaða af völdum árása í vopnuðum átökum þar sem ekki er greint á milli hernaðarlegra og borgaralegra skotmarka. Sama gildir um ríkisfangslausan einstakling.

Við mat á hvort aðstæður kæranda séu slíkar að þær eigi undir 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga ber að líta til 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Mannréttindadómstóll Evrópu hefur fjallað um það mat sem þarf að fara fram þegar metið er hvort kærandi sé í raunverulegri hættu á að verða fyrir meðferð sem falli undir 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu sem bannar pyndingar og ómannlega eða vanvirðandi meðferð eða refsingu.

Sem fyrr segir hefur kærandi borið því við að hann eigi á hættu fangelsisrefsingu í heimaríki. Kærunefnd telur að kærandi haft lagt nægan grunn að þeirri málsástæðu og kærunefnd telur því fangelsisvist vera raunhæfan möguleika við heimkomu. Vegna bágborinna aðstæðna í fangelsum þar í landi telur kærandi jafnframt að hann eigi á hættu að verða fyrir illri meðferð við afplánun. Í ofangreindri skýrslu breska innanríkisráðuneytisins frá 2019 kemur fram sú afstaða að aðstæður í pakistönskum fangelsum séu ekki svo slæmar að vistun í þeim teljist, ein og sér, til illrar og vanvirðandi meðferðar í skilningi 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Við það mat verði þó að horfa til einstaklingsbundinna aðstæðna einstaklinga, þ. á m. aldurs og heilsufars, og tímalengd fangelsisrefsingar. Kærunefnd hefur farið yfir skýrslur um aðstæður og aðbúnað í fangelsum í Pakistan. Þrátt fyrir að þar komi fram ýmsar athugasemdir er það mat kærunefndar að aðstæður þar séu, almennt séð, ekki taldar svo slæmar að vistun í þeim teljist til ómannlegrar eða vanvirðandi meðferðar í skilningi 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Við það mat hefur kærunefnd litið til einstaklingsbundinna aðstæðna kæranda, s.s. heilsufars og tímalengdar mögulegrar fangelsisrefsingar. Kærunefnd telur því að kærandi eigi ekki á hættu að verða fyrir meðferð í heimaríki sem gangi gegn 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu eða 7. gr. alþjóðasamnings um borgarleg og stjórnmálaleg réttindi, verði honum gert að afplána fangelsisrefsingu fyrir að brjóta gegn lögum landsins.

Í ljósi þess sem að framan er rakið og þeirra gagna sem liggja fyrir um heimaríki kæranda telur kærunefndin að aðstæður hans þar séu ekki þannig að þær falli undir ákvæði 2. mgr. 37. gr. laganna. Telur kærunefndin því ljóst að kærandi uppfylli heldur ekki skilyrði 2. mgr. 37. gr. útlendingalaga fyrir viðurkenningu á stöðu sem flóttamaður hér á landi.

Alþjóðleg vernd á grundvelli 40. gr. laga um útlendinga

Þar sem kærunefnd hefur komist að þeirri niðurstöðu að kærandi uppfylli ekki skilyrði 1. eða 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga á kærandi ekki rétt á alþjóðlegri vernd hér á landi, sbr. 40. gr. laga um útlendinga.

Dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga

Samkvæmt 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga er heimilt að veita útlendingi sem staddur er hér á landi dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, þrátt fyrir að skilyrði 37. gr. séu ekki uppfyllt, ef útlendingur getur sýnt fram á ríka þörf fyrir vernd, t.d. af heilbrigðisástæðum eða vegna erfiðra félagslegra aðstæðna viðkomandi eða erfiðra almennra aðstæðna í heimaríki eða í landi sem honum yrði vísað til. Kærunefnd telur, með vísan til orðalags ákvæðisins um „ríka þörf fyrir vernd“ auk lögskýringargagna sem fylgdu greininni, að dvalarleyfi á grundvelli 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga verði ekki veitt nema aðstæður, bæði almennar og sérstakar m.t.t. heilsufars og félagslegra þátta, auk atvika sem þar er vísað til, nái ákveðnu alvarleikastigi þegar málið er virt í heild.

Kærandi byggir kröfu um dvalarleyfi á erfiðum aðstæðum í heimaríki vegna viðvarandi mannréttindabrota í heimaríki sínu sem yfirvöld verndi hann ekki gegn. Í athugasemdum við frumvarp til laga um útlendinga kemur fram að ákvæði 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga vísi einnig til alvarlegra aðstæðna í heimaríki og væri þar oft um að ræða viðvarandi mannréttindabrota í ríkinu eða þá aðstöðu að yfirvöld veiti ekki þegnum sínum vernd gegn ofbeldisbrotum eða glæpum. Með vísan til umfjöllunar um aðstæður í heimaríki telur kærunefnd að aðstæður séu ekki slíkar að grundvöllur sé til veitingar dvalarleyfis á grundvelli mannúðarsjónarmiða.

Kærunefnd hefur jafnframt litið til þeirra tímabundnu erfiðleika sem heimaríki kæranda kann að þurfa að glíma við vegna Covid-19 faraldursins. Kærunefnd telur þá erfiðleika ekki vera þess eðlis að þeir leiði til þess, einir og sér eða í samhengi við önnur gögn málsins, að heimilt sé að veita kæranda dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða.

Í viðtali hjá Útlendingastofnun kvaðst kærandi vera við góða andlega og líkamlega heilsu og gefa gögn málsins ekki annað til kynna. Þegar upplýsingar um heimaríki kæranda og gögn málsins eru virt í heild er það niðurstaða kærunefndar að kærandi hafi ekki sýnt fram á aðstæður sem ná því alvarleikastigi að hann teljist hafa ríka þörf á vernd líkt og kveðið er á um í 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Því er fallist á það með Útlendingastofnun að aðstæður kæranda í heimaríki séu ekki með þeim hætti að veita beri kæranda dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.

Bann við endursendingu skv. 42. gr. laga um útlendinga

Samkvæmt 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga er ekki heimilt að senda útlending eða ríkisfangslausan einstakling til svæðis þar sem hann hefur ástæðu til að óttast ofsóknir, sbr. 37. og 38. gr., eða vegna svipaðra aðstæðna og greinir í flóttamannahugtakinu er í yfirvofandi hættu á að láta lífið eða verða fyrir ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð. Samkvæmt 2. mgr. sömu greinar er einnig óheimilt að senda útlending til svæðis þar sem ekki er tryggt að hann verði ekki sendur áfram til slíks svæðis sem greinir í 1. mgr.

Með vísan til umfjöllunar að framan um heimaríki kæranda telur kærunefnd að þær aðstæður sem ákvæðið tekur til ekki eiga við í máli kæranda. Kærunefnd telur því að ákvæði 42. gr. laga um útlendinga standi ekki í vegi fyrir endursendingu kæranda þangað.

Frávísun og frestur til að yfirgefa landið

Kærandi kom sótti um alþjóðlega vernd 11. maí 2019. Eins og að framan greinir hefur umsókn hans um vernd og dvalarleyfi hér á landi verið synjað og hefur hann því ekki tilskilin leyfi til dvalar. Verður kæranda því vísað frá landinu á grundvelli c-liðar 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga, sbr. 2. og 5. mgr. 106. laganna, enda hafði hann verið hér á landi í innan við níu mánuði þegar málsmeðferð umsóknar hans hófst hjá Útlendingastofnun.Kærandi er við ágæta heilsu. Að mati kærunefndar, með vísan til 2. mgr. 104. gr. laga um útlendinga og þegar litið er til ferðatakmarkana vegna Covid-19 faraldursins teljast 30 dagar hæfilegur frestur til að yfirgefa landið

Samantekt

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið og forsendna hinnar kærðu ákvörðunar þykir rétt að staðfesta ákvörðun Útlendingastofnunar.

Athygli kæranda er vakin á því að skv. 6. mgr. 104. gr. laga um útlendinga frestar málshöfðun fyrir dómstólum til ógildingar á endanlegri ákvörðun um að útlendingur skuli yfirgefa landið ekki framkvæmd hennar. Að kröfu útlendings getur kærunefnd útlendingamála þó ákveðið að fresta réttaráhrifum endanlegrar ákvörðunar sé talin ástæða til þess. Krafa þess efnis skal gerð ekki síðar en sjö dögum eftir birtingu endanlegrar ákvörðunar. Skal frestun bundin því skilyrði að útlendingur beri málið undir dómstóla innan fimm daga frá birtingu ákvörðunar um frestun réttaráhrifa úrskurðar og óski eftir að það hljóti flýtimeðferð. Nú er beiðni um flýtimeðferð synjað og skal þá mál höfðað innan sjö daga frá þeirri synjun. Þó getur kærunefnd útlendingamála tekið ákvörðun um að fresta framkvæmd ákvörðunarinnar ef sýnt er fram á að verulega breyttar aðstæður hafi skapast frá því að endanleg ákvörðun var tekin.

 

Úrskurðarorð

 

Ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest. Lagt er fyrir kæranda að hverfa af landi brott. Kæranda er veittur 30 daga frestur til að yfirgefa landið sjálfviljugur.

The decision of the Directorate of Immigration is affirmed. The appellant is requested to leave the country. The appellant has 30 days to leave the country voluntarily.

 

Hjörtur Bragi Sverrisson

 

Bjarnveig Eiríksdóttir                                                                                   Þorbjörg Inga Jónsdóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta