Hoppa yfir valmynd

Úrskurður nr. 85/2015

ÚRSKURÐUR ÚRSKURÐARNEFNDAR UM LEIÐRÉTTINGU VERÐTRYGGÐRA FASTEIGNAVEÐLÁNA

 nr. 85/2015

 

Ár 2015, miðvikudaginn 18. mars, er tekið fyrir mál nr. 55/2015; kæra A, dags. 22. janúar 2015. Í málinu úrskurða Eva Dís Pálmadóttir, Ingi Tryggvason og Kristján Jónasson. Upp er kveðinn svofelldur

 

ú r s k u r ð u r :


I.

Málavextir eru þeir að kærandi sótti um leiðréttingu verðtryggðra fasteignaveðlána þann 9. júlí 2014. Kæranda var birt ákvörðun um útreikning leiðréttingarfjárhæðar og framkvæmd hennar sitt í hvoru lagi. Útreiknuð leiðréttingarfjárhæð lána kæranda var 622.482 kr., en frádráttarliðir námu 143.042 kr. Útreiknuð leiðréttingarfjárhæð kæranda var því 479.440 kr. og var hún birt kæranda 11. nóvember 2014. Ráðstöfun leiðréttingarinnar var síðan birt kæranda 9. janúar 2015.

Með kæru, dags. 22. janúar 2015, hefur kærandi kært framkvæmd leiðréttingar, sbr. 11. gr. laga nr. 35/2014, um leiðréttingu verðtryggðra fasteignaveðlána. Í kæru er þess krafist að frádráttarliður vegna sérstakrar vaxtagreiðslu verði einungis 40% af því sem hann er tilgreindur. Kærandi greinir frá því hann sé sáttur við leiðréttinguna miðað við þær forsendur sem voru gefnar. Aftur á móti er kærandi ósáttur við frádráttinn. Í kæru kemur fram að kærandi hafi ásamt fyrrverandi sambýlismanni skuldað lífeyrissjóði X lán sem tekið hafi verið 80% til íbúðakaupa. Kærandi hafi skilið við sambýlismann sinn á árinu 2011 og keypt aðra íbúð. Þá kemur fram að kærandi hafi flutt fyrrgreint lífeyrissjóðslán yfir á nýju íbúðina og lánið hafi þá verið alfarið til íbúðakaupa ásamt því að taka nýtt lán hjá lífeyrissjóðnum X. Kærandi telur að sérstök vaxtaniðurgreiðsla sé fyrir 50% af fyrra láninu árið 2011 og 100% af báðum lánunum árið 2012.  Útreikningur leiðréttingar miðist við 40% af láni en frádrátturinn miðist 100% af sama láni og að auki af öðru láni. Að mati kæranda er það ekki eðlilegt að hann fái lægri leiðréttingu vegna þess að hann hafi skuldað meira.  


II.

Ágreiningsefni máls þessa snýr í raun að fjárhæð leiðréttingar, sbr. 9. gr. laga nr. 35/2014. Útreiknuð leiðrétting samkvæmt 7. gr. laga nr. 35/2014, um leiðréttingu verðtryggðra fasteignaveðlána, er 622.482 kr. Samkvæmt þeim upplýsingum, sem ákvörðun ríkisskattstjóra um leiðréttingarfjárhæð byggist á, eru 143.042 kr. dregnar frá útreiknaðri leiðréttingarfjárhæð lána samkvæmt 7. gr. laga nr. 35/2014, sbr. 8. og 9. gr. sömu laga. Nánar tiltekið er um að ræða sérstaka vaxtaniðurgreiðslu að fjárhæð 27.806 kr. árið 2011 og 115.236 kr. árið 2012.

Um frádráttarliði einstaklinga er fjallað í 8. gr. laga nr. 35/2014. Þar kemur fram í f-lið 1. mgr. að frá þeirri fjárhæð leiðréttingar sem ákvarðast samkvæmt 7. gr. laganna skuli draga m.a. sérstaka vaxtaniðurgreiðslu samkvæmt ákvæði til bráðabirgða XLII í lögum nr. 90/2003, um tekjuskatt, sbr. 6. gr. laga nr. 164/2010.

Nánar er fjallað um frádráttarliði í 3. mgr. 5. gr. reglugerðar nr. 698/2014, um samræmt verklag og viðmið við leiðréttingu verðtryggðra fasteignaveðlána. Þar segir að þeir frádráttarliðir einstaklings skv. 8. gr. laga nr. 35/2014 sem komið hafa til framkvæmda eða samkomulag verið gert um, á tímabilinu 1. janúar 2008 til samþykktardags ákvörðunar um útreikning leiðréttingar skv. 3. mgr. 10. gr. laganna dragist frá leiðréttingarfjárhæð skv. 7. gr. laga nr. 35/2014.

Ágreiningslaust virðist vera að kærandi hafi notið þeirra úrræða sem koma til frádráttar útreiknaðri leiðréttingu. Hefur því ekki verið mótmælt að sérstök vaxtaniðurgreiðsla hafi numið 143.042 kr. Kærandi virðist einkum byggja málatilbúnað sinn á því að lán sem lagt var til grundvallar útreikningi leiðréttingar hafi verið hlutfallað en það hlutfall hafi ekki verið lagt til grundvallar vegna frádráttarliða. Þar sem óumdeilt er að kærandi naut sérstakrar vaxtaniðurgreiðslu við álagningu opinberra gjalda árin 2011 og 2012 kemur sú fjárhæð að fullu til frádráttar útreiknaðri leiðréttingu lána kæranda, sbr. skýr fyrirmæli f-liðar 1. mgr. 8. gr. laga nr. 35/2014. Forsendur og þ.á m. hlutföll við útreikning leiðréttingar samkvæmt 7. gr. laga nr. 35/2014 hafa þar ekki áhrif á. Sérstök vaxtaniðurgreiðsla samkvæmt 1. mgr. ákvæðis til bráðabirgða XLII í lögum nr. 90/2003 var þar fyrir utan 0,6% af skuldum vegna lána sem tekin hafa verið vegna kaupa eða byggingar á íbúðarhúsnæði til eigin nota, að teknu tilliti til hámarks og frádráttarliða. Var hún því ekki reiknuð af öðrum lánum eða öðru hlutfalli lána en því sem voru vegna íbúðarhúsnæðis til eigin nota.

Með vísan til framangreinds er ljóst að frádráttur frá útreiknaðri leiðréttingu er í samræmi við framangreind lagafyrirmæli sem um hana gilda. Ákvörðun ríkisskattstjóra um útreikning leiðréttingarfjárhæðar, að teknu tilliti til frádráttarliða, verður ekki hnekkt. Kröfu kæranda er því hafnað. 

 

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Kröfu kæranda er hafnað.


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta