Hoppa yfir valmynd

Úrskurður nr. 90/2015

ÚRSKURÐUR ÚRSKURÐARNEFNDAR UM LEIÐRÉTTINGU VERÐTRYGGÐRA FASTEIGNAVEÐLÁNA 

 nr. 90/2015

 

Ár 2015, miðvikudaginn 18. mars, er tekið fyrir mál nr. 69/2015; kæra A, dags. 31. janúar 2015. Í málinu úrskurða Eva Dís Pálmadóttir, Ingi Tryggvason og Kristján Jónasson. Upp er kveðinn svofelldur

 

ú r s k u r ð u r :


I.

Málavextir eru þeir að kærandi sótti um leiðréttingu verðtryggðra fasteignaveðlána þann 19. maí 2014. Kæranda var birt ákvörðun um útreikning leiðréttingarfjárhæðar og framkvæmd hennar sitt í hvoru lagi. Útreiknuð leiðréttingarfjárhæð var 610.089 kr. og var sú fjárhæð birt kæranda 11. nóvember 2014. Kæranda var tilkynnt þann 3. janúar 2015 um að þeirri fjárhæð skyldi ráðstafað inn á lán nr. 1 hjá X banka.

Með kæru, dags. 31. janúar 2015, hefur kærandi kært fjárhæð leiðréttingar, sbr. 9. gr. laga nr. 35/2014, um leiðréttingu verðtryggðra fasteignaveðlána. Skilja verður kæru á þann veg að þess sé krafist að umsókn kæranda um leiðréttingu verðtryggðra fasteignaveðlána gildi jafnframt fyrir eiginmann hans. Í kæru er farið fram á helmings hækkun á leiðréttingunni þar sem aðeins hafi verið leiðrétt fyrir annan aðilann. Tekið er fram að hvergi í umsóknarferlinu hafi komið fram að báðir aðilarnir þyrftu að sækja um leiðréttingu á láni sem væri sameiginlegt. Í kæru er ítrekað að eiginmaður kæranda hafi verið skráður fyrir því láni sem hafi verið leiðrétt.

           

II.

Með tölvupósti, dags. 12. febrúar 2015, leitaði úrskurðarnefnd um leiðréttingu verðtryggðra fasteignaveðlána umsagnar ríkisskattstjóra, sbr. 5. mgr. 14. gr. laga nr. 35/2014. Spurt var hvaða aðgerðir hjón og sambýlisfólk sem uppfylltu skilyrði samsköttunar í árslok 2013 þurftu að viðhafa í umsóknarferlinu til að umsókn þeirra yrði sameiginleg, sbr. heimild í 2. mgr. 4. gr. laga nr. 35/2014. Þá var óskað eftir upplýsingum um hvort umsókn hafi undir einhverjum kringumstæðum orðið sjálfkrafa eða fyrirfram sameiginleg. Jafnframt var óskað eftir áliti ríkisskattstjóra á hvort að umsækjendum hafi, þegar umsókn tók ekki til þeirra beggja, mátt vera það ljóst að svo væri ekki og þá hvernig. Þá var leitað eftir upplýsingum um hvort athygli aðila, sem svona var ástatt um, hafi verið vakin á því á einhverjum tímapunkti í umsóknarferlinu að umsóknin tæki ekki til beggja aðila.

Í umsögn ríkisskattstjóra, sem barst úrskurðarnefnd þann 22. febrúar 2015, kemur fram að þeir umsækjendur sem uppfylltu skilyrði 2. málsl. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 35/2014 á umsóknardegi og höfðu verið í samvistum óslitið frá byrjun árs 2008 hafi verið sjálfkrafa settir saman í umsókn. Öðru máli hafi gegnt, ef par hafði ekki verið saman samfellt frá byrjun árs 2008 til umsóknardags. Þá hafi aðilar þurft að sækja um sem einstaklingar. Ríkisskattstjóri greindi frá því að það hafi stafað af þeirri ástæðu að ekki hafi verið talið heimilt að birta maka upplýsingar úr skattframtali, sem hafi tilheyrt núverandi maka, fyrir upphaf sambúðar þeirra. Þessar aðstæður hafi staðið í vegi sameiginlegrar umsóknar. Í umsögninni kemur fram að hjón eða sambýlisfólk sem ekki hafi getað sótt sameiginlega um hafi fengið tilkynningu þess efnis upp á skjáinn að maki þyrfti að sækja um sérstaklega. Ekki hafi að öðru leyti verið vakin athygli á þörf fyrir sjálfstæða umsókn. Eftir að umsóknarfresti lauk og eftir að fyrstu niðurstöður voru birtar þann 11. nóvember 2014 hafi verið ljóst að nokkur hópur fólks hafi staðið í þeim sporum að hafa ekki lokið við umsókn. Hluti þeirra einstaklinga hafi staðið í þeirri trú að sótt hafi verið um sameiginlega fyrir þá sem hjón eða sambúðaraðila. Ríkisskattstjóri kvaðst vera að kanna aðstæður hvers og eins og þá sérstaklega hvaða ástæður kynnu almennt eða einstaklingsbundið að vera til skýringar því að umsókn barst einungis frá öðrum aðilanum.

 

III.

Ágreiningsefni máls þessa snýr samkvæmt kæru að fjárhæð leiðréttingar, sbr. 9. og laga nr. 35/2014. Samkvæmt þeim upplýsingum, sem ákvörðun ríkisskattstjóra um leiðréttingarfjárhæð byggist á, þá sótti eiginmaður kæranda, B, ekki um leiðréttingu verðtryggðra fasteignaveðlána. B og kærandi hafa verið skráð í óvígða sambúð frá árinu 1988 en í lok ársins 2008 stofnuðu þau til hjúskapar og er því ljóst að þau uppfylltu m.a. skilyrði til samsköttunar, sbr. 3. mgr. 62 .gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, í árslok 2013. Af heimilisskráningu ríkisskattstjóra virðist þó sem svo að kærandi og eiginmaður hans hafi ekki verið skráð í hjónaband í einn sólarhring, 31. desember 2013 til 1. janúar 2014. Óumdeilt er að kærandi skilaði umsókn sinni þann 19. maí 2014. Álitamál er hvort umsókn kæranda gilti fyrir eiginmann hans, sbr. 2. málsl. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 35/2014.

Um leiðréttingarfjárhæð er fjallað í 9. gr. laga nr. 35/2014. Í 1. mgr. þeirrar greinar kemur fram að leiðréttingarfjárhæð umsækjanda samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 35/2014 er samtala fjárhæðar einstaklinga samkvæmt 7. gr. sömu laga að teknu tilliti til frádráttarliða einstaklinga samkvæmt 8. gr. laganna og er að hámarki 4.000.000 kr. á hvert heimili hvort sem um er að ræða einstaklinga, hjón eða sambýlisfólk sem uppfyllir skilyrði til samsköttunar vegna hjúskaparstöðu sinnar í árslok 2013.

Samkvæmt 2. málsl. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 35/2014 er hjónum og sambýlisfólki sem uppfyllti skilyrði til samsköttunar í árslok 2013 heimilt að sækja sameiginlega um leiðréttingu vegna lána sem veittu rétt til vaxtabóta á árunum 2008–2009 og annað eða bæði voru ábyrg fyrir.

Eins og fyrr greinir kveðst kærandi hafa, auk eiginmanns síns, staðið í þeirri trú að umsókn hans gilti fyrir báða aðila. Í 2. mgr. 10. gr. laga nr. 35/2014 kemur fram að ef niðurstaða útreiknings samkvæmt 9. gr. laganna byggist á röngum upplýsingum skuli umsækjanda heimilt að óska eftir leiðréttingu til ríkisskattstjóra. Samkvæmt forsendum ríkisskattstjóra virðist þó sem svo að kærandi og eiginmaður hans hafi ekki verið skráð sem hjón frá 31. desember 2013 til 1. janúar 2014 en aftur frá 2. janúar sama ár. Ljóst er að ríkisskattstjóri hefur ekki fjallað um rétt eiginmanns kæranda til leiðréttingar samkvæmt lögum nr. 35/2014, hvort sem litið er á þann rétt sem hans sjálfstæða rétt, sem hann hefði þurft að sækja um og eftir atvikum að kæra sjálfur vegna, eða rétt kæranda til að fá fjallað um það sem hann taldi vera sameiginlega umsókn hans og eignmanns síns. Samkvæmt 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 er heimilt að kæra stjórnvaldsákvörðun til æðra stjórnvalds. Ekki hefur verið tekin stjórnvaldsákvörðun af hálfu ríkisskattstjóra um ágreiningsefni þessa máls þar sem ekki hefur verið fjallað um umsókn kæranda um leiðréttingu fyrir hönd hans og eiginmanns hans eða sérstaka umsókn hans. Með hliðsjón af umsögn ríkisskattstjóra, þeim lagarökum sem búa að baki 2. mgr. 10. gr. laga nr. 35/2014 og 26. gr. laga nr. 37/1993 þykir rétt að vísa kærunni frá úrskurðarnefnd og senda ríkisskattstjóra til umfjöllunar, með þeim rökstuðningi sem fram er kominn af hálfu kæranda.

 

Ú r s k u r ð a r o r ð :

 Kærunni er vísað frá úrskurðarnefnd og send ríkisskattstjóra til umfjöllunar.


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta