Hoppa yfir valmynd

Úrskurður nr. 34/2015

ÚRSKURÐUR ÚRSKURÐARNEFNDAR UM LEIÐRÉTTINGU VERÐTRYGGÐRA FASTEIGNAVEÐLÁNA 

 nr. 34/2015

 

Ár 2015, miðvikudaginn 25. febrúar, er tekið fyrir mál nr. 28/2014; kæra A og B, dags. 29. desember 2014. Í málinu úrskurða Eva Dís Pálmadóttir, Ingi Tryggvason og Kristján Jónasson. Upp er kveðinn svofelldur

 

ú r s k u r ð u r :


I.

Málavextir eru þeir að af hálfu kærenda var sótt um leiðréttingu verðtryggðra fasteignaveðlána þann 26. ágúst 2014. Útreikningur á leiðréttingu verðtryggðra fasteignaveðlána kærenda grundvallaðist á þeim verðtryggðu lánum sem tilgreind voru í lið 5.2 í skattframtölum þeirra árin 2009 og 2010, vegna tekjuáranna 2008 og 2009.

Með kæru til úrskurðarnefndar um leiðréttingu verðtryggðra fasteignaveðlána, dags. 29. desember 2014, er farið fram á að tilgreint lán verði fært úr lið 5.5, öðrum skuldum og vaxtagjöldum, í lið 5.2, vaxtagjöld vegna íbúðarhúsnæðis til eigin nota, í skattframtali kærenda árið 2010. Í kæru kemur fram að leiðrétting á verðtryggðum fasteignaveðlánum kærenda nái eingöngu til ársins 2008. Kærendur greina frá því að þau hafi sótt um leiðréttingu á lánum nr. 1 og 2 hjá X banka. Þau lán hafi að mati kærenda verið ranglega skráð í lið 5.5 í skattframtölum þeirra árin 2009 og 2010. Kærendur hafi farið fram á að lánin væru flutt í lið 5.2. Ríkisskattstjóri hafi fallist á að flytja lán nr. 2 í lið 5.2 í skattframtali kærenda árið 2009 en ekki í skattframtali árið 2010. Forsendur ríkisskattstjóra hafi verið þær að fasteignin M, sem lánið hafi hvílt á, hafi verið seld á árinu 2008. Kærendur greina frá því að ástæða fyrir sölu M hafi verið sú að að kærendur hafi staðið í byggingarframkvæmdum. Lánið hafi því ekki gufað upp, heldur hafi það verið flutt yfir á aðra eign, N, þar sem það hafi verið geymt þar til byggingarframkvæmdum lauk og unnt hafi verið að flytja lánið yfir á nýju eignina. Kærendur hafi alltaf gert grein fyrir láninu í skattframtölum þeirra, þó mistök þeirra hafi verið gerð í tvígang með því að færa það í lið 5.5 í stað 5.2. Kærendum hafi ekki verið kunnugt um þessi mistök og þau hafi ekki haft neinn hag af þeim. Kærendur telja að ríkisskattstjóri hafi viðurkennt að um mistök hafi verið að ræða með því að breyta skattframtali þeirra árið 2009 og færa lán nr. 2 úr lið 5.5 í 5.2. Þau telja það skjóta skökku við að embættið viðurkenni að um mistök hafi verið að ræða fyrra árið en ekki það seinna. Kærendur benda á að ein forsenda ríkisskattstjóra fyrir þeirri ákvörðun standist ekki. Ríkisskattstjóri hafi byggt á því að ekki hafi verið gerð grein fyrir byggingu nýju eignarinnar, O, í skattframtölum. Sú fullyrðing standist ekki þar sem gerð hafi verið grein fyrir O sem eign kærenda og í viðeigandi fylgiskjölum með skattframtölum. Kærendur telja að þó lánið hafi verið flutt á lánsveð eigi slíkur flutningur ekki að skerða rétt þeirra til leiðréttingar, sbr. 1. mgr. 11. gr. laga nr. 35/2014, um leiðréttingu verðtryggðra fasteignaveðlána.

 

II.

Í kæru er greint frá því að umrætt lán hafi verið ranglega fært í skattframtölum kærenda árin 2009 og 2010 í lið 5.5 í stað 5.2. Í lokamálslið 1. mgr. 3. gr. laga nr. 35/2014, um leiðréttingu verðtryggðra fasteignaveðlána, kemur fram það skilyrði fyrir því að lán sé leiðrétt samkvæmt ákvæðum þeirra laga að vaxtagjöld af því láni hafi verið viðurkennd sem grundvöllur útreiknings vaxtabóta, í heild eða hluta, á tímabilinu frá 1. janúar 2008 til 31. desember 2009. Krafa kærenda felur því í raun í sér kröfu um að lán nr. 2 hjá X banka verði talið hafa uppfyllt skilyrði um ákvörðun vaxtabóta, sbr. B-lið 68. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt.

Að því er snertir skilyrði, í lokamálslið 1. mgr. 3. gr. laga nr. 35/2014, um að lán hafi verið viðurkennt sem grundvöllur útreiknings vaxtabóta, skal tekið fram að ríkisskattstjóri ákveður vaxtabætur við álagningu opinberra gjalda ár hvert. Ákvæðið verður ekki túlkað með þeim hætti að í því felist heimild til að taka tillit til lána sem kunna að uppfylla skilyrði B-liðar 68. gr. laga nr. 90/2003 án þess að skattframtölum áranna 2009 og 2010 hafi verið sérstaklega breytt til samræmis. Af framangreindu leiðir að krafa kærenda fellur ekki undir kærumeðferð þá sem kveðið er á um í 14. gr. laga nr. 35/2014 og úrskurðarnefnd starfar samkvæmt. Af kæru er jafnframt ljóst að krafa um að lán verði viðurkennt sem grundvöllur vaxtabóta hefur fengið úrlausn og verið hafnað að hluta hjá ríkisskattstjóra, sbr. lög nr. 90/2003, um tekjuskatt. Samkvæmt framansögðu er ekki á valdsviði úrskurðarnefndar að taka til efnislegrar úrlausnar kröfu kærenda varðandi flutning láns í skattframtali þeirra og er kærunni af þeim sökum vísað frá.        

 

Ú r s k u r ð a r o r ð :

 Kærunni er vísað frá úrskurðarnefnd um leiðréttingu verðtryggðra fasteignaveðlána.


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta