Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 26/2014

 Á fundi úrskurðarnefndar fæðingar- og foreldraorlofsmála þann 12. mars 2015 var tekið fyrir mál nr. 26/2014:

 

Kæra A

á ákvörðun

X ehf.

 

og kveðinn upp svohljóðandi

 

Ú R S K U R Ð U R:

 

A, hefur með kæru, dags. 28. desember 2014, skotið til úrskurðarnefndar fæðingar- og foreldraorlofsmála þeirri ákvörðun X ehf. að segja kæranda upp störfum hjá fyrirtækinu eftir að hann hafði tilkynnt um fyrirhugaða töku fæðingarorlofs.

 

I. Málsatvik og málsmeðferð

 

Samkvæmt gögnum málsins hóf kærandi störf hjá X ehf. í maí 2005. Þann 10. september 2014 tilkynnti kærandi um fyrirhugaða töku fæðingarorlofs í 30 daga frá fæðingardegi barns hans og svo aftur í júní og júlí 2015. Áætlaður fæðingardagur var 21. nóvember 2014 en barnið fæddist Y. nóvember 2014. Með bréfi kærða, dags. 18. október 2014, var kæranda sagt upp störfum hjá fyrirtækinu frá og með þeim degi og ekki óskað eftir frekari vinnuframlagi. Tekið var fram að kærandi fengi greidd laun til 31. desember 2014 að frádregnu fæðingarorlofi og síðan myndi uppsögnin formlega taka gildi frá 1. janúar 2015. Með bréfi kærða, dags. 28. október 2014, var kæranda tilkynnt um ranga dagsetningu á uppsagnarbréfinu og það því leiðrétt þannig að uppsögnin myndi taka gildi 21. október 2014.

 

Með bréfi til kærða, dags. 3. nóvember 2014, mótmælti stéttarfélag kæranda uppsögninni sem ólögmætri með vísan til 30. gr. laga nr. 95/2000, um fæðingar- og foreldraorlof (ffl.). Í framhaldi af því dró kærði uppsögnina til baka með bréfi, dags. 7. nóvember 2014, og sagði kæranda upp störfum á ný frá og með þeim degi en með bréfinu fylgdi rökstuðningur fyrir uppsögninni. Með bréfi til kærða, dags. 27. nóvember 2014, mótmælti stéttarfélag kæranda þeirri uppsögn með vísan til þess að ekki lægi fyrir marktækur rökstuðningur. Með bréfi, dags. 3. desember 2014, svaraði kærði stéttarfélagi kæranda.

 

Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála þann 29. desember 2014. Með bréfi, dags. 7. janúar 2015, óskaði úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála eftir afstöðu kærða til málsins. Afstaða kærða barst með bréfi, dags. 14. janúar 2015. Með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 20. janúar 2015, var bréf kærða sent kæranda til kynningar. Athugasemdir bárust frá kæranda með bréfi, dags. 26. janúar 2015.

 

II. Sjónarmið kæranda

 

Í kæru til úrskurðarnefndar greinir kærandi frá því að honum hafi verið sagt upp störfum eftir að hann hafi tilkynnt um fyrirhugaða töku fæðingarorlofs en hann hafi þá verið kominn með undirskrift hjá vinnuveitanda sínum. Það hafi verið ákveðið að hann myndi taka fæðingarorlofið í tveimur hlutum, í einn mánuð frá fæðingardegi barnsins og svo í júní og júlí 2015. Uppsögn kæranda hafi átt að taka gildi 1. janúar 2015, eða eftir fyrri hluta fæðingarorlofsins. Kærandi telur uppsögnina brjóta gegn 30. gr. ffl. þar sem hann hafi ekki verið búinn að ljúka öllu fæðingarorlofinu.

 

III. Sjónarmið kærða

 

Í greinargerð kærða kemur fram að um hafi verið að ræða óásættanlegan ágreining milli tveggja starfsmanna fyrirtækisins. Uppsögn kæranda hafi ekki tengst fæðingarorlofi hans á neinn hátt enda hafi það verið vitað fyrir uppsögnina. Fyrirtækið hafi verið í bréflegum samskiptum við stéttarfélag kæranda varðandi uppsögnina og gefið ítarlegar upplýsingar um ástæðu þess að kæranda hafi verið sagt upp störfum. Ástandið á vinnustaðnum hafi verið mjög neikvætt og haft áhrif á starfsemi þess.

 

Tekið er fram að uppsagnarbréf kæranda hafi verið með rangri dagsetningu sem síðar hafi verið leiðrétt með bréfi dagsettu 28. október 2014. Eftir ábendingu frá stéttarfélagi kæranda hafi uppsögnin verið ógilt og honum send önnur uppsögn með rökstuðningi. Ástæða uppsagnarinnar sé hvorki sú að kærandi hafi ekki kunnað til verka né að hann væri að fara í fæðingarorlof. Um hafi verið að ræða ósættanlegan ágreining milli tveggja starfsmanna fyrirtækisins en kærandi hafi ekki sýnt neinn vilja til að ná sáttum.

 

IV. Niðurstaða

 

Samkvæmt 2. mgr. 5. gr. ffl. er hlutverk úrskurðarnefndar að kveða upp úrskurði um ágreiningsefni sem kunna að rísa á grundvelli laganna. Ágreiningur málsins lýtur að lögmæti uppsagnar kæranda úr starfi hjá X ehf.

Í 29. gr. ffl. er kveðið á um að ráðningarsamband milli starfsmanns og vinnuveitanda haldist óbreytt í fæðingar- og foreldraorlofi. Þá segir í 2. mgr. 29. gr. að starfsmaður skuli eiga rétt á að hverfa aftur að starfi sínu að loknu fæðingar- og foreldraorlofi. Sé þess ekki kostur skuli hann eiga rétt á sambærilegu starfi hjá vinnuveitanda í samræmi við ráðningarsamning. Í 30. gr. laga er ákvæði um vernd gegn uppsögnum, en þar segir að óheimilt sé að segja starfsmanni upp störfum vegna þess að hann hefur tilkynnt um fyrirhugaða töku fæðingar- eða foreldraorlofs skv. 9. eða 26. gr. eða er í fæðingar- eða foreldraorlofi nema gildar ástæður séu fyrir hendi og skuli þá skriflegur rökstuðningur fylgja uppsögninni. Í athugasemdum sem fylgdu frumvarpi til ffl. segir um 30. gr. að tilgangur ákvæðisins sé að vernda starfsmenn sem lagt hafi fram skriflega tilkynningu um að þeir ætli að nýta sér rétt til töku fæðingar- eða foreldraorlofs, eða séu í fæðingar- eða foreldraorlofi, gegn uppsögn af hálfu vinnuveitanda. Ákveði vinnuveitandi að segja upp starfsmanni sem svo sé ástatt um beri honum að tilgreina ástæður fyrir uppsögninni og rökstyðja þær skriflega. Slíkt ákvæði sé nauðsynlegt til að koma í veg fyrir að það hafi neikvæðar afleiðingar fyrir starfsmann að nýta sér rétt sinn samkvæmt ffl.

Við skýringu þessa lagaákvæðis verður að líta svo á að úr því að vinnuveitanda er við þessar aðstæður því aðeins heimilt að segja upp starfsmanni að gildar ástæður séu til þeirrar ráðstöfunar, þá verði að leggja til grundvallar að í öllum öðrum tilvikum sé uppsögn óheimil þótt ekki sé sýnt fram á að hún sé gagngert komin til vegna þess að starfsmaður hafi annað tveggja tilkynnt um fyrirhugaða töku orlofs eða sé að taka það út. Þessu til samræmis verður að fella á vinnuveitanda sönnunarbyrði fyrir því að gildar ástæður hafi í raun ráðið gerðum hans, sbr. dóm Hæstaréttar í máli nr. 318/2008.

Í því máli sem þar var fjallað um, var ýmislegt sem þótti varpa vafa á þær skýringar sem fram komu fyrir uppsögninni. Bar vinnuveitandinn hallann af þeim sönnunarskorti sem af þessu hlaust og var umrædd uppsögn talin ólögmæt. Í því máli sem hér er til umfjöllunar háttar hins vegar svo til að enginn ágreiningur er um það með aðilum að uppsögnin tengist ekki fyrirhuguðu fæðingarorlofi, heldur átti uppsögnin rót í samstarfsörðugleikum. Ágreiningur þeirra lýtur að því hvort þeir samstarfsörðugleikar sem upp voru komnir á vinnustaðnum hafi verið þess eðlis að í þeim hafi falist gild ástæða til uppsagnar, eða hvort vinnuveitandanum hafi borið að leysa úr ágreiningnum með öðrum leiðum.

Í því efni verður ekki litið fram hjá því að vinnuveitandinn hefur rétt til að stjórna vinnustaðnum. Eins og framkoma kæranda horfði við honum verður að fallast á það með kærða að kærandi hafi sýnt af sér viðmót og afstöðu til samstarfsmanna sem ekki var ásættanlegt. Var það í valdi kærða sem vinnuveitanda að ákveða að leysa úr þessu með því að binda enda á vinnusambandið, jafnvel þótt aðrar leiðir hafi komið til greina. Verður því ekki talið að ekki hafi verið fyrir hendi gildar ástæður til uppsagnarinnar.

Með því að uppsögnin var ekki tilkomin vegna tilkynningar kæranda um töku fæðingarorlofs, heldur studdist við gildar ástæður, verður kröfu hans hafnað.

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

 

Kærða, X ehf., braut ekki gegn ákvæði 30. gr. laga nr. 95/2000, um fæðingar- og foreldraorlof, við uppsögn A, úr starfi hjá fyrirtækinu.

 

Haukur Guðmundsson formaður

Heiða Gestsdóttir

Gunnlaugur Sigurjónsson


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta