Mál nr. 47/2014
Úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála
Hafnarhúsinu v/Tryggvagötu, 101 Reykjavík
Miðvikudaginn 26. nóvember 2014 var á fundi úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála tekið fyrir mál nr. 47/2014:
Kæra A
á ákvörðun
Reykjavíkurborgar
og kveðinn upp svohljóðandi
Ú R S K U R Ð U R:
A hefur með bréfi, dags. 8. ágúst 2014, skotið til úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála synjun Reykjavíkurborgar, dags. 2. júlí 2014, á beiðni hans um undanþágu frá skilyrði c-liðar 4. gr. reglna um félagslegar leiguíbúðir og sérstakar húsaleigubætur í Reykjavík.
I. Málavextir og málsmeðferð
Málavextir eru þeir samkvæmt málsgögnum að kærandi hefur verið með leigusamning við Reykjavíkurborg frá 9. júní 2006 vegna félagslegs leiguhúsnæðis að B í Reykjavík. Í kjölfar reglubundinnar athugunar Velferðarsviðs Reykjavíkurborgar á tekjum leigjenda Félagsbústaða hf. kom í ljós að tekjur kæranda og eiginkonu hans voru yfir tekjumörkum c-liðar 4. gr. reglna um félagslegar leiguíbúðir og sérstakar húsaleigubætur í Reykjavík. Með bréfi Félagsbústaða hf., dags. 23. júlí 2013, var leigusamningi kæranda því sagt upp á þeirri forsendu að skilyrði fyrir leigurétti væru ekki lengur fyrir hendi. Með bréfi, dags. 15. apríl 2014, óskaði kærandi eftir undanþágu frá c-lið 4. gr. reglnanna en var synjað með bréfi þjónustumiðstöðvar, dags. 16. apríl 2014. Kærandi áfrýjaði synjuninni til velferðarráðs sem tók málið fyrir á fundi sínum þann 30. maí 2014 og samþykkti svohljóðandi bókun:
„Velferðarráð staðfesti synjun starfsmanna þjónustumiðstöðvar um undanþágu frá skilyrði c. liðar 4. gr. reglna um félagslegar leiguíbúðir og sérstakar húsaleigubætur.“
Niðurstaða velferðarráðs var tilkynnt kæranda með bréfi, dags. 2. júní 2014. Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála með bréfi, dags. 8. ágúst 2014. Með bréfi, dags. 11. september 2014, óskaði úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála eftir greinargerð Reykjavíkurborgar vegna kærunnar þar sem meðal annars kæmi fram rökstuðningur fyrir synjun á umsókn kæranda. Enn fremur var óskað eftir gögnum sem lágu fyrir og gæfu upplýsingar um fjárhag kæranda. Greinargerð Reykjavíkurborgar barst með bréfi, dags. 7. október 2014. Með bréfi úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála, dags. 10. október 2014, var bréf Reykjavíkurborgar sent kæranda til kynningar. Frekari athugasemdir bárust ekki frá kæranda. Með tölvupósti þann 27. október 2014 óskaði úrskurðarnefndin eftir frekari gögnum frá Reykjavíkurborg og bárust þau nefndinni þann 29. október 2014.
II. Málsástæður kæranda
Kærandi greinir frá því að hann og eiginkona hans eigi tvö börn í grunnskóla og þau hafi bæði átt í erfiðleikum í skóla. Það yrði því verulegt áfall ef þau þyrftu að skipta um skóla. Kærandi greinir einnig frá því að tengdamóðir hans hafi verið búsett hjá þeim síðustu ár en hún sé tekjulaus með öllu. Þá séu kærandi og eiginkona hans með talsverðar skuldir og þau lendi í miklum vandræðum ef þau þurfi að yfirgefa húsnæði sitt.
III. Sjónarmið Reykjavíkurborgar
Í greinargerð Reykjavíkurborgar vegna kærumálsins er greint frá aðstæðum kæranda og fjölskyldu hans. Vísað er til 4. gr. reglna um félagslegar leiguíbúðir og sérstakar húsaleigubætur í Reykjavík þar sem sett séu fram tiltekin skilyrði í a–e-liðum sem umsækjandi þurfi að uppfylla til að umsóknin taki gildi. Í c-lið sé kveðið á um tekju- og eignamörk en eignamörkin séu 4.381.223 krónur og tekjumörkin 4.399.912 krónur miðað við hjón, auk þess 525.986 krónur fyrir hvert barn á framfæri innan 20 ára. Tekjumörk séu miðuð við meðaltal tekna síðastliðin þrjú ár. Tekjur kæranda og eiginkonu hans hafi verið 8.059.766 krónur að meðaltali síðastliðin þrjú ár.
Í 5. gr. reglnanna séu undanþáguákvæði frá settum skilyrðum í 4. gr. en heimilt sé samkvæmt b-lið að veita undanþágu frá lögheimili og tekjumörkum, byggða á faglegu mati, sé um mikla félagslega erfiðleika að ræða. Rétt sé að ítreka að umrætt ákvæði 5. gr. reglnanna sé heimildarákvæði og því ekki skylt að veita umræddar undanþágur. Þau viðmið hafi mótast í framkvæmd að til langvarandi og mikils félagslegs vanda teljist meðal annars félagsleg einangrun, takmörkuð félagsleg færni, framtaksleysi, ekkert stuðningsnet og sértækir erfiðleikar, svo sem háalvarleg veikindi, sem hafi afgerandi áhrif á aðstæður viðkomandi eða meðferðarmál/barnaverndarmál. Kæranda hafi verið hafnað um undanþágu frá b-lið 5. gr. reglnanna þar sem mat starfsmanna þjónustumiðstöðvar hafi verið að ekki væri um að ræða mjög mikla félagslega erfiðleika. Mál kæranda hafi verið metið til tveggja stiga sem sé nokkur félagslegur vandi en skilyrði undanþágu sé að mál sé metið til fjögurra stiga sem sé verulegur félagslegur vandi. Kærandi og eiginkona hans séu bæði á almennum vinnumarkaði og meðaltekjur þeirra hafi verið 47,8% yfir leyfilegu tekjumarki síðastliðinna þriggja ára. Því hafi umsókn um undanþágu verið synjað.
Velferðarráð bendir á að leigusamningi kæranda hafi verið sagt upp með tólf mánaða fyrirvara sem hefði verið nægur tími til að finna aðra íbúð í sama eða nærliggjandi hverfi. Þá sé búseta í hverfi ekki skilyrði fyrir skólagöngu í viðkomandi skóla. Við útreikning á tekjum eigi aðeins að taka tillit til tekna hjóna eða sambúðarfólks og framfærslu barna innan 20 ára aldurs skv. c-lið 4. gr. reglnanna. Því beri ekki að taka mið af tekjum eða tekjuleysi tengdamóður kæranda við útreikning á tekjum kæranda og eiginkonu hans. Með hliðsjón af öllu framansögðu hafi það verið mat velferðarráðs að ekki bæri að veita kæranda undanþágu frá skilyrði c-liðar 4. gr. reglnanna.
IV. Niðurstaða
Málskotsheimild kæranda er reist á 16. gr. laga um húsaleigubætur, nr. 138/1997. Um málsmeðferð fer samkvæmt ákvæðum XVII. kafla laga um félagsþjónustu sveitarfélaga, nr. 40/1991. Fyrir nefndinni liggja reglur um félagslegar leiguíbúðir og sérstakar húsaleigubætur í Reykjavík frá 1. mars 2004, með síðari breytingum. Í máli þessu er ágreiningur um það hvort Reykjavíkurborg hafi borið að veita kæranda undanþágu frá tekjumörkum c-liðar 4. gr. reglnanna.
Kærandi hefur verið með leigusamning við Reykjavíkurborg frá 9. júní 2006 vegna félagslegs leiguhúsnæðis. Leigusamningi kæranda var sagt upp á þeirri forsendu að tekjur kæranda og eiginkonu hans hafi verið yfir tekjumörkum c-liðar 4. gr. reglna Reykjavíkurborgar um félagslegar leiguíbúðir og sérstakar húsaleigubætur. Þá taldi Reykjavíkurborg að kærandi hefði ekki uppfyllt skilyrði b-liðar 1. mgr. 5. gr. reglnanna um að eiga í mjög miklum félagslegum erfiðleikum.
Samkvæmt 20. gr. reglna um félagslegar leiguíbúðir og sérstakar húsaleigubætur verður leigjandi að fullnægja skilyrðum b- og c-liðar 4. gr. reglnanna allt það tímabil sem leigusamningurinn er í gildi. Á tólf mánaða fresti geri Velferðarsvið Reykjavíkurborgar athugun á því hvort leigutaki fullnægi skilyrðunum en heimilt sé að segja leigusamningi upp ef þeim er ekki lengur fullnægt. Þá kemur fram að ákvörðun um uppsögn leigusamnings sé stjórnvaldsákvörðun í skilningi 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993.
Samkvæmt c-lið 4. gr. voru tekjumörk fyrir hjón og sambúðarfólk, á þeim tíma er leigusamningi kæranda var sagt upp, 4.399.912 krónur og auk þess 525.986 krónur fyrir hvert barn á framfæri innan 20 ára. Samkvæmt c-lið eru tekjumörk miðuð við meðaltal tekna síðastliðin þrjú ár. Samkvæmt gögnum málsins voru meðalárstekjur kæranda og eiginkonu hans síðastliðin þrjú ár 8.059.766 krónur eða 2.607.882 krónum yfir tekjumörkum c-liðar 4. gr. reglnanna og var leigusamningi kæranda því sagt upp.
Í 5. gr. reglnanna er kveðið á um undanþágur frá skilyrðum 4. gr. um lögheimili og tekjuviðmið. Á grundvelli b-liðar 5. gr. reglnanna er heimilt að veita undanþágu frá lögheimili og/eða tekjuviðmiði sé umsækjandi samkvæmt faglegu mati ráðgjafa í mjög miklum félagslegum erfiðleikum, sbr. lið 5 c í matsviðmiði sem fylgir reglunum. Af gögnum málsins verður ekki séð að Reykjavíkurborg hafi lagt mat á aðstæður kæranda hvað þessi viðmið varðar áður en til uppsagnar leigusamningsins kom. Úrskurðarnefndin bendir á að uppsögn leigusamnings vegna félagslegs leiguhúsnæðis er stjórnvaldsákvörðun líkt og að framan greinir og því gilda ákvæði stjórnsýslulaga um þá ákvörðun. Að því virtu bar Reykjavíkurborg að fylgja málsmeðferðarreglum stjórnsýslulaga þannig að kærandi gæti gætt hagsmuna sinna en um íþyngjandi ákvörðun var að ræða. Úrskurðarnefndin gerir athugasemdir við framangreint og beinir þeim tilmælum til sveitarfélagsins að hafa umrædd sjónarmið framvegis í huga við úrlausn sambærilegra mála.
Eftir að kærandi óskaði eftir undanþágu frá c-lið 4. gr. reglna Reykjavíkurborgar var lagt mat á félagslegar aðstæður kæranda. Samkvæmt upplýsingum frá Reykjavíkurborg voru félagslegar aðstæður kæranda metnar til tveggja stiga sem er nokkur félagslegur vandi samkvæmt lið 5 c í matsviðmiði sem fylgir reglum sveitarfélagsins. Skilyrði fyrir undanþágu er að félagslegar aðstæður séu metnar til fjögurra stiga sem er mjög mikill félagslegur vandi. Samkvæmt upplýsingum frá Reykjavíkurborg er, við mat á því hvort um mikla félagslega erfiðleika sé að ræða, litið til þess hvort um sé að ræða félagslega einangrun, takmarkaða félagslega færni, framtaksleysi, ekkert stuðningsnet og sértæka erfiðleika, svo sem háalvarleg veikindi, sem hafi afgerandi áhrif á aðstæður viðkomandi eða meðferðarmál/barnaverndarmál. Ekki hefur verið rökstutt með fullnægjandi hætti af hálfu Reykjavíkurborgar hvernig aðstæður kæranda voru metnar, sérstaklega með tilliti til framangreindra sjónarmiða. Þá er í gögnum málsins ekki að finna upplýsingar um aðstæður kæranda hvað þessi viðmið varðar.
Úrskurðarnefndin hefur margsinnis gert athugasemdir við vinnubrögð Reykjavíkurborgar þegar kemur að mati á því hvort umsækjendur uppfylla b-lið 5. gr. reglnanna. Að mati nefndarinnar er brýnt að matið sé framkvæmt með fullnægjandi hætti og að niðurstaða matsins sé skráð á viðeigandi hátt. Nauðsynlegt er að ljóst sé af málsgögnum að sérstakt mat hafi verið lagt á aðstæður umsækjenda samkvæmt lið 5 c í matsviðmiði fylgiskjals 1 með reglum Reykjavíkurborgar. Beinir úrskurðarnefndin þeim tilmælum til sveitarfélagsins að framkvæmd og ákvarðanataka í sambærilegum málum verði framvegis í samræmi við framangreind sjónarmið.
Með vísan til framangreinds er það mat úrskurðarnefndarinnar að ekki liggi fyrir að aðstæður kæranda hafi verið rannsakaðar með fullnægjandi hætti, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993. Getur úrskurðarnefndin því ekki lagt mat á það hvort sú ákvörðun hafi verið byggð á lögmætum sjónarmiðum. Hin kærða ákvörðun verður því felld úr gildi og lagt fyrir Reykjavíkurborg að taka málið til nýrrar meðferðar.
Úrskurð þennan kváðu upp Bergþóra Ingólfsdóttir formaður, Arnar Kristinsson og Gunnar Eydal, meðnefndarmenn.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Ákvörðun Reykjavíkurborgar, dags. 2. júlí 2014, um synjun á umsókn A um undanþágu frá skilyrði c-liðar 4. gr. reglna um félagslegar leiguíbúðir og sérstakar húsaleigubætur í Reykjavík er felld úr gildi og lagt fyrir sveitarfélagið að taka málið til nýrrar meðferðar.
Bergþóra Ingólfsdóttir, formaður
Arnar Kristinsson
Gunnar Eydal