Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 146/2011

Úrskurður

 

Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða 5. desember 2012 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A, nr. 146/2011.

 

1.

Málsatvik og kæruefni

 

Málsatvik eru þau að kærandi, A, sótti um atvinnuleysisbætur hjá Vinnumálastofnun 4. september 2011. Umsókn kæranda fylgdi vottorð frá síðasta vinnuveitanda kæranda, B., en kærandi var stjórnarmaður í fyrirtækinu og handhafi prókúruumboðs. Bótaréttur kæranda var, í samræmi við viðmiðunarfjárhæðir sem fjármálaráðherra gefur út fyrir hverja starfsgrein við upphaf hvers tekjuárs, reiknaður 53%, sbr. starfaflokk B4. Af hálfu kæranda er farið fram á endurreikning bótaréttar og talið að hún eigi að fá því sem næst fullar atvinnuleysisbætur. Vinnumálastofnun telur að rétt hafi verið staðið að útreikningi bótaréttar kæranda.

 

Í vottorði frá síðasta vinnuveitanda kæranda, B., dags. 3. september 2011, kemur fram að hún hafi starfað hjá fyrirtækinu sem verkamaður frá 5. september 2008 til 5. september 2011. Hafi hún látið af störfum vegna samdráttar.

 

Í bréfi C endurskoðanda, dags. 21. október 2011, sem ritað er fyrir hönd kæranda, kemur fram að hún hafi starfað við atvinnurekstur eiginmanns síns en þau hafi skilið í febrúar 2011. Samkvæmt kaupmála hafi hún ekki átt neitt í atvinnurekstri eiginmanns síns sem sé bændagisting. Hún hafi hins vegar verið sett í stjórn félagsins þar sem samþykktir þess kveði á um tvo stjórnarmenn. Vinna við bændagistingu verði seint talin til viðmiðunarflokks B4 um reiknað endurgjald, slík laun þekkist ekki í þeim atvinnurekstri. Þar sem vísað sé til reglna um reiknað endurgjald hafi henni borið að reikna sér laun samkvæmt flokki H3 sem taki til manns sem starfi við atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi maka og nemi 138.000 kr. á mánuði í stað 429.000 kr.

 

Með bréfi C, dags. 22. september 2011, var fyrir hönd kæranda óskað rökstuðnings Vinnumálastofnunar fyrir útreikningum á atvinnuleysisbótum hennar. Rökstuðningurinn var veittur með bréfi, dags. 27. september 2011.

 

Í greinargerð Vinnumálastofnunar, dags. 17. janúar 2012, kemur fram að þeir sem starfi hjá eigin einkahlutafélögum teljist launamenn í skilningi laga um atvinnuleysistryggingar og ákvarðist réttur þeirra til greiðslna atvinnuleysisbóta af ákvæðum laganna er lúti að réttindum launafólks en ekki þeim ákvæðum er varði réttindi sjálfstætt starfandi einstaklinga með rekstur á eigin kennitölu.

 

Við mat á réttindum launamanns sem starfað hafi hjá eigin hlutafélagi eða félagi tengdu eða skyldu atvinnuleitanda sé meðal annars litið til kjara launafólks þegar starfshlutfall þess sé kannað. Sé þá miðað við lágmarksákvæði gildandi kjarasamnings í viðkomandi starfsgrein við upphaf hvers tekjuárs á grundvelli laga um tekjuskatt, nr. 90/2003, að fengnum tillögum ríkisskattstjóra. Við ákvörðun þessa lágmarksendurgjalds sé höfð hliðsjón af raunverulegum tekjum fyrir sambærileg störf.

 

Fram kemur af hálfu Vinnumálastofnunar að skv. 1. mgr. 58. gr. laga um tekjuskatt, nr. 90/2003, skuli endurgjald fyrir vinnu manns sem reikni sér endurgjald skv. 2. mgr. 1. tölul. A-liðar 7. gr. laganna eigi vera lægra en launatekjur hans hefðu orðið ef unnið hefði verið fyrir ótengdan eða óskyldan aðila. Gildi ákvæðið um vinnu manns við atvinnurekstur lögaðila þar sem hann sé ráðandi aðili vegna eignar- eða stjórnunaraðildar. Af gögnum frá Creditinfo megi sjá að kærandi hafi verið meðstjórnandi hjá B. Þá hafi hún einnig verið með prókúruumboð.

 

Við frekari athugun á því hvort laun kæranda séu í samræmi við uppgefið starfshlutfall á ávinnslutímabilinu telji Vinnumálastofnun, í ljósi 2. mgr. 16. gr. laga um atvinnuleysistryggingar og 1. mgr. 58. gr. laga um tekjuskatt, sér skylt að líta til viðmiðunarfjárhæðar þeirrar sem fjármálaráðherra gefi út fyrir hverja starfsgrein við upphaf hvers tekjuárs á grundvelli laga um tekjuskatt, nr. 90/2003.

 

Fram kemur að Vinnumálastofnun hafi leitað eftir gögnum úr staðgreiðsluskrá ríkisskattstjóra. Hafi stofnunin tekið mið af þeim upplýsingum við útreikning á bótarétti kæranda. Starfsemi kæranda falli undir tekjuflokk B4 samkvæmt reglum um reiknað endurgjald, settum skv. 3. málsl. 1. mgr. 58. gr. laga um tekjuskatt, nr. 90/2003, og nemi lágmarksviðmiðunarfjárhæð í þeim flokki 429.000 kr. á mánuði. Við útreikning á bótarétti kæranda horfi Vinnumálastofnun til þeirra tólf mánaða sem hún hafi starfað á innlendum vinnumarkaði í hæsta starfshlutfalli á síðustu 36 mánuðum frá móttöku umsóknar hennar. Samkvæmt upplýsingum úr staðgreiðsluskrá ríkisskattstjóra hafi meðallaun kæranda numið 226.367 kr. á ofangreindu viðmiðunartímabili sem nemi 52,7% af viðmiðunarfjárhæð ríkisskattstjóra í tekjuflokki B4. Telji Vinnumálastofnun bótarétt kæranda vera 53%.

 

Vinnumálastofnun mótmælir því að kærandi skuli heyra undir tekjuflokk H3. Í þann tekjuflokk falli þeir sem starfi við starfsemi maka síns eða starfi hjá félagi sem maki eða nákomnir venslamenn hafi ráðandi stöðu í vegna eignar- eða stjórnaraðildar. Ekki verði fallist á að kærandi eigi að falla undir H-flokk framangreindra reglna enda hafi kærandi sjálf verið skráð stjórnarmaður og handhafi prókúruumboðs hjá fyrirtækinu. Sé hún því sjálf tengd fyrirtækinu á þann hátt er fram komi í lýsingu á starfaflokki.

 

Kæranda var send greinargerð Vinnumálastofnunar með bréfi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 18. janúar 2012, og var henni veittur frestur til 1. febrúar 2012 til að koma frekari athugasemdum á framfæri í máli þessu. Kærandi nýtti sér það ekki.

 

2.

Niðurstaða

 

Kærandi starfaði hjá fyrirtækinu B., en missti vinnuna vegna samdráttar. Hún var stjórnarmaður í fyrirtækinu og handhafi prókúruumboðs. Samkvæmt 3. gr. laga um atvinnuleysistryggingar telst hver sá sem vinnur launuð störf í annarra þjónustu í a.m.k. 25% starfshlutfalli í hverjum mánuði og greitt er tryggingagjald fyrir vegna starfsins samkvæmt lögum um tryggingagjald launamaður. Þeir sem starfa hjá eigin einkahlutafélögum teljast því launamenn í skilningi laganna og ákvarðast réttur þeirra til greiðslna atvinnuleysistrygginga af ákvæðum laganna er lúta að réttindum launafólks. Við mat á réttindum launamanns sem starfað hefur hjá eigin hlutafélagi er miðað við lágmarksákvæði gildandi kjarasamnings í viðkomandi starfsgrein eða viðmiðunarfjárhæðir sem fjármálaráðherra gefur út fyrir hverja starfsgrein á grundvelli laga um tekjuskatt nr. 90/2003.

 

Fram kemur af hálfu Vinnumálastofnunar að hún hafi talið sér skylt, í ljósi 2. mgr. 16. gr. laga um atvinnuleysistryggingar og 1. mgr. 58. gr. laga um tekjuskatt, við frekari athugun á því hvort laun kæranda séu í samræmi við uppgefið starfshlutfall á ávinnslutímabilinu, að líta til viðmiðunarfjárhæðar þeirrar sem fjármálaráðherra gefur út fyrir hverja starfsgrein við upphaf hvers tekjuárs á grundvelli laga um tekjuskatt.

Af 2. mgr. 16. gr. laga um atvinnuleysistryggingar leiðir meðal annars að Vinnumálastofnun er heimilt að afla upplýsinga um starfshlutfall umsækjanda um atvinnuleysisbætur og hvort þær upplýsingar séu í samræmi við vinnuveitendavottorð sem aflað er skv. 1. mgr. 16. gr. laga laganna. Við mat á starfshlutfalli á ávinnslutímabili skal miða við ákvæði gildandi kjarasamnings í viðkomandi starfsgrein á því svæði sem atvinnuleitandi starfaði eða eftir atvikum viðmiðunarfjárhæð viðkomandi ráðherra fyrir reiknað endurgjald í viðkomandi starfsgrein. Af þessum lagatexta leiðir að Vinnumálastofnun ber fyrst að rannsaka ákvæði viðeigandi kjarasamnings áður en rýnt er í viðmiðunarfjárhæðir stjórnvalda fyrir reiknað endurgjald. Þessi skilningur er ekki í ósamræmi við ummæli sem er að finna í athugasemdum greinargerðar um 11. gr. frumvarps þess sem varð að lögum nr. 37/2009.

Áður en hin kærða ákvörðun var tekin fór engin rannsókn fram á efni þeirra kjarasamninga sem gætu gilt í máli kæranda. Við töku ákvörðunarinnar var því brotið á rannsóknareglunni, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993. Þykir því verða að fella hina kærðu ákvörðun úr gildi og vísa henni til löglegrar meðferðar Vinnumálastofnunar.

 

 

 

 

Úr­skurðar­orð

 

Hin kærða ákvörðun Vinnumálastofnunar þess efnis að bótaréttur A sé 53% er felld úr gildi og málinu vísað til löglegrar meðferðar hjá stofnuninni.

 

 

 

Brynhildur Georgsdóttir, for­maður

Hulda Rós Rúriksdóttir

Helgi Áss Grétarsson


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta