Hoppa yfir valmynd

Nr. 437/2019 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

Þann 17. september 2019 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 437/2019

í stjórnsýslumáli nr. KNU19060003

Kæra […]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Þann 3. júní 2019, kærði […], ríkisborgari […] (hér eftir nefndur kærandi), ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 16. maí 2019, um að synja honum um ótímabundið dvalarleyfi.Kærandi krefst þess að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og umsókn hans um ótímabundið dvalarleyfi verði samþykkt. Til vara fer þá kærandi fram á að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og lagt fyrir stofnunina að taka málið aftur til efnislegrar meðferðar.Fyrrgreind ákvörðun var kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016 og barst kæran fyrir lok kærufrests.

II. Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi fékk fyrst útgefið dvalarleyfi á Íslandi vegna fjölskyldusameiningar þann 5. maí 2014. Af gögnum málsins verður ráðið að hann hafi verið með dvalarleyfi á þeim grundvelli óslitið til 2. júlí 2018. Kærandi sótti um ótímabundið dvalarleyfi þann 31. maí 2018. Með ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 16. maí 2019, var umsókn kæranda synjað. Kæranda var tilkynnt um ákvörðunina þann 20. maí sl. Kærandi kærði ákvörðunina þann 3. júní 2019 til kærunefndar útlendingamála og meðfylgjandi kæru var greinargerð kæranda og fylgigögn. Kærunefnd óskaði eftir upplýsingum frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu þann 13. ágúst sl. og fékk svar við því erindi samdægurs. Kæranda var veitt tækifæri til að koma að andmælum vegna svars lögreglunnar þann 23. ágúst sl. Athugasemdir bárust frá kæranda þann 28. ágúst 2019 og var kæranda þá veittur frekari frestur til að koma á framfæri frekari athugasemdum til 3. september sl. Engin frekari gögn bárust frá kæranda. Kærunefnd bárust upplýsingar frá Útlendingastofnun vegna málsins þann 28. ágúst 2019.

III. Ákvörðun Útlendingastofnunar

Í ákvörðun Útlendingastofnunar voru skilyrði fyrir útgáfu ótímabundins dvalarleyfis rakin, sbr. 58. gr. laga um útlendinga. Meðal skilyrða væri að útlendingur ætti ekki ólokið máli í refsivörslukerfinu þar sem hann væri grunaður eða sakaður um refsiverða háttsemi, sbr. e-lið 1. mgr. 58. gr. Fram kom að samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu frá 8. mars 2019 ætti kærandi ólokið mál í refsivörslukerfinu. Þar sem kærandi uppfyllti ekki fyrrnefnt skilyrði e-liðar 1. mgr. 58. gr. laga um útlendinga var umsókn hans um ótímabundið dvalarleyfi synjað.

IV. Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð kæranda kemur fram að það hafi komið kæranda í opna skjöldu að hann væri með opið mál í refsivörslukerfinu. Samkvæmt svörum frá starfsmanni hjá lögregluembættinu sé kærandi á skrá hjá embættinu í tengslum við […]. Þetta hafi komið kæranda á óvart, […]. Kærandi bendir á að málið hafi málanúmer frá árinu 2017 og virðist aldrei hafa verið rannsakað.

Kærandi telur þá að Útlendingastofnun hafi borið að kalla eftir gögnum um hið meinta mál í refsivörslukerfinu og fá staðfestingu á því að kærandi sé kærður fyrir refsiverðan verknað. Það geti ekki verið nægilegt að kennitala aðila hafi verið skráð í skýrslu lögreglu […], en engin kæra eða frekari gögn liggi fyrir um málið. Kærandi krefst þess að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og umsókn kæranda um ótímabundið dvalarleyfi verði samþykkt. Til vara fer þá kærandi fram á að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og lagt fyrir stofnunina að taka málið aftur til efnislegrar meðferðar, sinna rannsóknarskyldu sinni og kalla eftir upplýsingum frá lögreglu og staðreyna að kærandi sé ásakaður um refsiverðan verknað.

V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Í 58. gr. laga um útlendinga er fjallað um ótímabundið dvalarleyfi. Samkvæmt 1. mgr. 58. gr. er heimilt að veita útlendingi ótímabundið dvalarleyfi hafi hann dvalist hér á landi samfellt síðustu fjögur ár samkvæmt dvalarleyfi sem getur verið grundvöllur ótímabundins dvalarleyfis. Eins og að framan greinir hefur kærandi dvalið hér á landi samkvæmt dvalarleyfi sem getur verið grundvöllur ótímabundins leyfis síðan 5. maí 2014, þ.e.a.s. í meira en fjögur ár.

Frekari skilyrði fyrir veitingu ótímabundins dvalarleyfis eru m.a. tilgreind í stafliðum a-e í 1. mgr. 58 gr. laga um útlendinga. Samkvæmt e-lið er það skilyrði að útlendingur eigi ekki ólokið máli í refsivörslukerfinu þar sem hann er grunaður eða sakaður um refsiverða háttsemi.

Í gögnum máls liggur fyrir svar frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, dags. 8. mars 2019, þar sem fram kemur að kærandi eigi ólokið mál í refsivörslukerfinu. Þann 13. ágúst sl. óskaði kærunefnd eftir uppfærðum upplýsingum frá embættinu um stöðu mála kæranda. Svar barst frá embættinu þann sama dag þar sem fram kom að kærandi væri með tvö ólokin mál til meðferðar í refsivörslukerfinu. Samkvæmt framangreindum upplýsingum frá lögreglu uppfyllir kærandi ekki skilyrði e-liðar 1. mgr. 58. gr. laga um útlendinga. Kærunefnd tekur fram að ákvæði 58. gr. laga um útlendinga gerir ekki greinarmun á eðli þess máls sem er ólokið í refsivörslukerfinu og þá er ekki heimilt að víkja frá skilyrði e-liðar 1. mgr. 58. gr. laganna. Er mál kæranda að þessu leyti nægjanlega upplýst.

Samkvæmt framangreindu er ljóst að kærandi uppfyllir ekki ófrávíkjanlegt skilyrði fyrir veitingu ótímabundins dvalarleyfis og verður hin kærða ákvörðun Útlendingastofnunar því staðfest.

Samkvæmt 6. mgr. 58. gr. laga um útlendinga hafði kærandi heimild til dvalar hér á landi á meðan á málsmeðferð umsóknar hans um ótímabundið leyfi stóð. Í ákvörðun Útlendingastofnunar var kæranda leiðbeint að til þess að eiga rétt á áframhaldandi dvöl hér á landi þyrfti hann að sækja um dvalarleyfi á öðrum grundvelli innan 15 daga frá móttöku ákvörðunar stofnunarinnar. Var þá tekið fram að ef hvorki yrði sótt um dvalarleyfi innan þess frests né ákvörðunin kærð bæri kæranda að yfirgefa landið innan 30 daga frá móttöku ákvörðunarinnar. Samkvæmt upplýsingum sem bárust kærunefndinni frá Útlendingastofnun þann 28. ágúst sl. sótti kærandi um dvalarleyfi hér á landi að nýju þann 24. maí sl. og er sú umsókn enn í vinnslu. Athygli kæranda er því vakin á því að fái hann ekki dvalarleyfi á öðrum grundvelli og yfirgefi ekki landið í kjölfarið kunni að vera heimilt að brottvísa honum, sbr. a-lið 2. mgr. 98. gr. laga um útlendinga. Brottvísun felur í sér bann við komu til landsins síðar og skal endurkomubann að jafnaði ekki gilda skemur en tvö ár, sbr. 2. mgr. 101. gr. laga um útlendinga.

 

Úrskurðarorð

 

Ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest.

The decision of the Directorate of Immigration is affirmed.

 

Anna Tryggvadóttir

Gunnar Páll Baldvinsson                                                           Anna Valbjörg Ólafsdóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta