Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 20/2020. Ákvörðun kærunefndar útboðsmála.

Ákvörðun kærunefndar útboðsmála 9. júní 2020
í máli nr. 20/2020:
Penninn ehf.
gegn
Akureyrarbæ og
Egilsson ehf.

Lykilorð
Örútboð. Stöðvunarkrafa samþykkt.

Útdráttur
Fallist var á kröfu kæranda um að örútboð um kaup á ýmsum ritföngum og námsgögnum fyrir grunnskóla yrði stöðvað um stundarsakir, sbr. 1. mgr. 110. gr. laga um opinber innkaup.

Með kæru móttekinni hjá kærunefnd útboðsmála 22. maí 2020 kærir Penninn ehf. örútboð Akureyrarbæjar (hér eftir vísað til sem varnaraðila) um kaup á ritföngum og námsgögnum fyrir grunnskóla Akureyrarbæjar sem haldið var innan rammasamnings Ríkiskaupa um ritföng og skrifstofuvörur nr. RK 02.01. Kærandi krefst þess aðallega að kærunefnd útboðsmála ógildi ákvörðun varnaraðila um að ganga til samninga við Egilsson ehf. í hinu kærða örútboði og að nefndin „leggi fyrir kaupanda að gera samning við kæranda um kaup á ritföngum og námsgögnum samkvæmt hinu kærða örútboði.“ Til vara er þess krafist að hið kærða örútboð verði fellt úr gildi og að kærunefnd leggi fyrir varnaraðila að auglýsa útboðið að nýju og að nefndin láti í ljós álit sitt á skaðabótaskyldu varnaraðila gagnvart kæranda. Þá kemur fram í kæru að hún sé borin undir kærunefnd innan lögboðins biðtíma og leiði því til sjálfkrafa stöðvunar samningsgerðar, en líti nefndin ekki svo á sé þess krafist að samningsgerð varnaraðila og Egilssonar ehf. á grundvelli hins kærða útboðs verði stöðvuð þar til endanlega hefur verið skorið úr kæru. Í þessum hluta málsins verður tekin afstaða til stöðvunarkröfu kæranda. Varnaraðili krefst þess að kröfunni verði hafnað, en Egilsson ehf. hefur ekki látið málið til sín taka.

Í apríl 2020 óskaði varnaraðili tilboða í ýmis ritföng og námsgögn fyrir grunnskóla Akureyrarbæjar, en um var að ræða örútboð innan rammasamnings Ríkiskaupa um ritföng og skrifstofuvörur RK 02.01. Voru örútboðsgögn send fjórum aðilum að rammasamningnum, þ.á m. kæranda og Egilsson ehf. Í örútboðsgögnum var meðal annars að finna eftirfarandi ákvæði: „Framboðnar vörur skulu uppfylla þær almennu kröfur sem gerðar eru til námsgagna svo sem: blýantar skulu vera sterkir svo þeir hrökkvi ekki í sundur við notkun og auðvelt sé að skrifa með þeim. Vaxlitir skulu lita en ekki bara marka blaðið, strokleður skal geta strokað út blý með góðu móti og svo frv.“ Þá kom fram að varnaraðili áskildi sér rétt til að skoða og prófa vöru fyrir afhendingu til að kanna hvort skilyrði þessi væru uppfyllt og væri honum heimilt að hafna móttöku boðinna vara ef gallar reyndust á þeim. Kæmu í ljós gallar á vöru væri það „á ábyrgð og kostnað seljanda að taka við gölluðu vörunni og koma annarri, fullnægjandi vöru, í stað þeirrar gölluðu til kaupanda.“ Þá kom fram að lægstbjóðandi yrði beðinn um nokkur sýnishorn af boðnum vörum eftir skil tilboða. Ef einhver vara uppfyllti ekki kröfur varnaraðila um gæði yrði viðkomandi „gefinn kostur á að framvísa annarri vöru og þá á hugsanlega öðru verði.“ Þá kom einnig fram að tilboð yrðu einungis metin á grundvelli innsendra gagna og stefnt væri að því að semja við einn seljanda sem væri með „fjárhagslega hagkvæmasta tilboðið, „þ.e. lægsta verð.“

Tilboð voru opnuð 5. maí 2020 og bárust tilboð frá kæranda og Egilsson ehf. Var tilboð kæranda að fjárhæð 6.499.260 krónur en tilboð Egilsson ehf. að fjárhæð 7.043.929 krónur. Með tölvubréfi 14. maí 2020 upplýsti varnaraðili að fram hefði farið gæðamat á 15 vörum sem hefði verið kallað eftir að bjóðendur legðu fram til að meta hvort þær fullnægðu kröfum varnaraðila, en matið hefði verði í höndum sjö aðila úr grunnskólum Akureyrarbæjar sem hver um sig hefði fyllt út eyðublað um það hvort viðkomandi vara fullnægði kröfum um gæði eða ekki. Kom fram að niðurstaða gæðamatsins hefði verið sú að tilteknir blýantar, vasareiknir, strokleður og límstifti sem kærandi hefði boðið fullnægðu ekki kröfum. Var óskað eftir því að kærandi legði fram nýjar vörur í stað þeirra og upplýsingar um einingaverð þeirra. Kærandi mun hafa orðið við þessari beiðni að hluta, en við það hækkaði tilboð hans í 7.668.960 krónur. Með tölvubréfi 19. maí 2020 tilkynnti varnaraðili að tilboð kæranda hefði hækkað þegar hann hefði tilgreint nýjar vörur í stað þeirra sem ekki voru taldar fullnægja kröfum um gæði. Þá kom fram að varnaraðili hefði ákveðið að taka tilboði Egilsson ehf. í örútboðinu, sem hefði verið lægra að fjárhæð. Jafnframt var gerð grein fyrir möguleikum bjóðenda á að óska eftir rökstuðningi, sbr. 85. gr. laga nr. 120/2016 um opinber innkaup, sem og biðtíma áður en heimilt yrði að ganga til samnings samkvæmt 86. gr. sömu laga.

Kærandi byggir að meginstefnu til á því að gæðamat varnaraðila hafi ekki farið fram í samræmi við lög nr. 120/2016 um opinber innkaup. Gæðakröfur örútboðsgagna hafi verið matskenndar og ekki verið upplýst um fyrirkomulag eða forsendur gæðamatsins fyrirfram. Þá hafi matsmenn haft frjálsar hendur við matið og sé óljóst hvort matið hafi farið fram í samræmi við skilmála útboðsins. Kærandi hafi boðið gæðavörur sem hafi verið seldar í fjölmarga grunnskóla og hafi þær fullnægt öllum kröfum örútboðsgagna.

Varnaraðili byggir að meginstefnu til á því að kærufrestur hafi verið liðinn þegar kæra barst þar sem kærandi hafi þegar við móttöku örútboðsgagna 17. apríl 2020 vitað að varnaraðili myndi framkvæma gæðamat á boðnum vörum. Þá hafi verið gerðar skýrar gæðakröfur til boðinna vara í örútboðsgögnum og upplýst um að varnaraðili áskildi sér rétt til að skoða og prófa vörur til að kanna hvort skilyrðum þessum væri fullnægt. Slíkt mat hafi farið fram af hálfu reyndra aðila innan grunnskóla Akureyrarbæjar, en varnaraðili hafi ákveðið svigrúm við ákvörðun um hvaða forsendur hann leggur til grundvallar mati sínu. Þá hafi það verið í samræmi við sjónarmið um meðalhóf og sanngirni að gefa kæranda færi á að skipta út gölluðum vörum.

Niðurstaða

Samkvæmt 3. tl. 2. mgr. 86. gr. laga nr. 120/2016 um opinber innkaup gildir biðtími samkvæmt 1. mgr. greinarinnar ekki við gerð samnings á grundvelli rammasamnings. Gat kæra í máli þessu því ekki haft í för með sér sjálfkrafa stöðvun samningsgerðar samkvæmt 1. mgr. 107. gr. laganna. Í ákvörðun þessari verður því leyst úr kröfu kæranda um að hið kærða innkaupaferli verði stöðvað um stundarsakir þar til endanlega hefur verið skorið úr kæru, sbr. 1. mgr. 110. gr. laga um opinber innkaup, en aðilar telja bindandi samning ekki hafa komist á.

Kæran snýr einkum að framkvæmd gæðamats varnaraðila og þeirri ákvörðun að velja tilboð Egilssonar ehf. í útboðinu. Varnaraðili upplýsti fyrst um niðurstöður gæðamatsins með tölvubréfi 14. maí 2020 og um val tilboðs með tölvubréfi 19. sama mánaðar. Verður því að miða við að kæra, sem var móttekin af kærunefnd útboðsmála 22. maí 2020, hafi borist innan kærufrests samkvæmt 1. mgr. 106. gr. laga um opinber innkaup.

Áður hefur verið lýst þeim kröfum til gæða boðinna vara sem fram komu í örútboðsgögnum. Miða verður við að með þessum kröfum hafi kærandi verið að lýsa þeim eiginleikum sem boðnar vörur skyldu uppfylla til að koma til greina, sbr. 49. gr. laga um opinber innkaup. Samkvæmt b. lið 4. mgr. 49. gr. er kaupanda heimilt að setja fram kröfur til eiginleika boðinna vara með lýsingu á virkni eða kröfum til hagnýtingar þeirra, en slík viðmið verða þó að vera nægilega nákvæm til að gera bjóðendum kleift að gera sér grein fyrir efni samnings og gera kaupanda mögulegt að gera upp á milli tilboða. Eins og mál þetta liggur fyrir nú telur nefndin að fyrrgreindar kröfur til gæða hafi verið mjög matskenndar og veitt varnaraðila verulegt svigrúm við matið. Þá verður ekki séð að örútboðsgögn hafi borið með sér að framkvæmt yrði gæðamat með þeim hætti sem gert var, en jafnframt benda fyrirliggjandi gögn til þess að þeir sem framkvæmdu matið hafi að hluta til lagt til grundvallar sjónarmið sem ekki mátti lesa úr örútboðsgögnum. Þá samrýmist það ekki meginreglum útboðsréttar um jafnræði og gagnsæi að gefa bjóðendum kost á því að skipta út boðnum vörum og breyta tilboðsfjárhæð eftir opnun tilboða. Samkvæmt framangreindu telur nefndin að kærandi hafi leitt verulegar líkur að broti gegn lögum um opinber innkaup við framkvæmd örútboðsins sem geti leitt til ógildingar ákvörðunar eða annarra athafna varnaraðila, sbr. 1. mgr. 110. gr. laga um opinber innkaup. Verður því krafa hans um að hið kærða innkaupaferli verði stöðvað um stundarsakir tekin til greina.

Ákvörðunarorð:

Örútboð varnaraðila, Akureyrarbæjar, um kaup á ritföngum og námsgögnum fyrir grunnskóla Akureyrarbæjar sem haldið var innan rammasamnings Ríkiskaupa um ritföng og skrifstofuvörur nr. RK 02.01, er stöðvað um stundarsakir.


Reykjavík, 9. júní 2020

Ásgerður Ragnarsdóttir

Sandra Baldvinsdóttir

Auður Finnbogadóttir









Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta