Hoppa yfir valmynd

Nr. 175/2022 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Hinn 28. apríl 2022 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 175/2022

í stjórnsýslumáli nr. KNU22040005

 

Beiðni […] um endurupptöku

 

I.       Málsatvik og málsmeðferð

Hinn 6. desember 2018 staðfesti kærunefnd útlendingamála ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 19. september 2018, um að synja […], fd. […], ríkisborgara Pakistan, um alþjóðlega vernd og dvalarleyfi á Íslandi, með úrskurði sínum nr. 533/2018.

Niðurstaða kærunefndar var birt kæranda hinn 10. desember 2018. Hinn 17. desember 2018 barst kærunefnd beiðni kæranda um frestun réttaráhrifa. Með úrskurði kærunefndar útlendingamála nr. 11/2019, dags. 10. janúar 2019, var beiðni kæranda um frestun réttaráhrifa hafnað. Hinn 18. janúar 2019 barst kærunefnd beiðni kæranda um endurupptöku ásamt fylgiskjölum. Hinn 8. febrúar s.á. hafnaði kærunefnd þeirri beiðni með úrskurði nr. 57/2019. Hinn 18. febrúar 2020 barst kærunefnd önnur beiðni kæranda um endurupptöku á úrskurði kærunefndar frá 6. desember 2018, ásamt fylgigögnum. Hinn 2. apríl s.á. hafnaði kærunefnd þeirri beiðni með úrskurði nr. 127/2020. Hinn 1. júní 2021 barst kærunefnd þriðja beiðni kæranda um endurupptöku ásamt fylgiskjölum. Hinn 1. júlí s.á. hafnaði kærunefnd þeirri beiðni með úrskurði nr. 302/2021. Hinn 4. apríl 2022 barst kærunefnd að nýju beiðni kæranda um endurupptöku ásamt fylgiskjölum. Viðbótargögn bárust kærunefnd hinn 5., 22. og 25. apríl 2022.

Ráða má af beiðni kæranda um endurupptöku að krafa hans sé byggð á því að atvik hafi breyst verulega frá því úrskurður kærunefndar frá 6. desember 2018 var kveðinn upp, sbr. 2. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

II.        Málsástæður og rök kæranda

Í tölvubréfi frá kæranda til kærunefndar, dags. 4. apríl 2022, kemur m.a. fram að kærandi hafi sótt um alþjóðlega vernd hér á landi árið 2017 en verið synjað um hana á báðum stjórnsýslustigum. Fram kemur að meirihluti fjölskyldu kæranda hafi flúið frá Pakistan og að kærandi hafi komist til Íslands eftir hættulega og erfiða för frá heimaríki sínu. Kærandi hafi talið að hann gæti hafið nýtt líf hér á landi en eftir að hafa dvalið hér í fimm ár hafi hann ekki fengið dvalarleyfi sem geri honum kleift að dvelja hér og vinna. Kærandi kveðst vera vel menntaður og vilja leggja sitt að mörkum til samfélagsins í stað þess að vera byrði á ríkinu. Kærandi sé […] og hafi verið virkur félagi í […] frá árinu 2018. Þar þjálfi hann m.a. börn. Kærandi telur að í ljósi þess að hann hafi lagt sitt af mörkum til samfélagsins hér á landi síðustu fimm ár, og að fram komi í lögum að þeir sem dvelji hér lengur en 18 mánuði eigi rétt á dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, eigi hann rétt á að vera veitt slíkt dvalarleyfi. Þá kveðst kærandi vera í hættu í heimaríki sínu, en […] hans hafi látið lífið og fjölskylda hans hafi flúið.

Ásamt beiðni um endurupptöku lagði kærandi fram talsvert magn fylgiskjala, m.a. ráðningarsamning og launaseðla frá […], yfirlit yfir greiðslur í lífeyrissjóð, bréf frá ritara […], tölvubréfasamskipti og skjöl varðandi störf kæranda hjá […], meðmælabréf og umsókn um íslenskan ríkisborgararétt og viðurkenningu á því að kærandi hafi lokið íslenskunámskeiði frá […]. Þá lagði kærandi fram viðbótargögn dagana 22. og 25. apríl 2022, m.a. íslenskt sakavottorð og eldri gögn sem hann lagði fram við meðferð máls hans árið 2018.

III.       Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Samkvæmt 24. gr. stjórnsýslulaga á aðili máls rétt á því að mál sé tekið upp á ný ef ákvörðun hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik eða íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því að ákvörðun var tekin.

Með úrskurði kærunefndar í máli kæranda, dags. 6. desember 2018, var komist að þeirri niðurstöðu að kærandi uppfyllti ekki skilyrði 1. eða 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga og því ætti hann ekki rétt á alþjóðlegri vernd hér á landi, sbr. 40. gr. laga um útlendinga. Þá var það mat kærunefndar að aðstæður kæranda í heimaríki væru ekki með þeim hætti að veita bæri honum dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 74. gr. laga um útlendinga. Líkt og áður greinir má ráða af beiðni kæranda um endurupptöku að hann telji atvik í máli hans hafa verulega breyst í ljósi þess tíma sem liðið hefur frá því að úrskurður kærunefndar var kveðinn upp, án þess að komið hafi til flutnings hans af landinu. Þá lagði kærandi fram ýmis gögn því til stuðnings að hann hafi aðlagast íslensku samfélagi.

Um er að ræða fjórðu endurupptökubeiðni kæranda hjá kærunefnd. Að undanskilinni fyrstu beiðni kæranda um endurupptöku hafa beiðnir kæranda um endurupptöku aðallega byggst á því að hann hafi dvalið hér á landi í meira en 18 mánuði. Líkt og fjallað hefur verið um í úrskurðum kærunefndar í máli kæranda kemur fram í 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga að heimilt sé að veita útlendingi sem sótt hefur um alþjóðlega vernd og ekki fengið niðurstöðu í máli sínu á stjórnsýslustigi innan 18 mánaða eftir að hann sótti fyrst um alþjóðlega vernd hér á landi, dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða samkvæmt ákvæðinu, að því tilskildu að skorið hafi verið úr um að hann uppfylli ekki skilyrði samkvæmt 37. og 39. gr. laganna. Samkvæmt orðanna hljóðan miðast lokadagur frests samkvæmt 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga við ákvörðun á stjórnsýslustigi. Í athugasemdum við frumvarp til laganna kemur fram að átt sé við endanlega niðurstöðu hjá stjórnvöldum á báðum stjórnsýslustigum.

Kærandi lagði fram umsókn um alþjóðlega vernd hér á landi hinn 17. ágúst 2017, en úrskurður kærunefndar í máli hans var kveðinn upp hinn 6. desember 2018 eða um 16 mánuðum eftir að hann lagði fram umsókn sína. Var máli kæranda því lokið á stjórnsýslustigi innan 18 mánaða. Kærandi hefur ekki farið af landi brott líkt og lagt var fyrir hann með úrskurði kærunefndar og hefur hann því dvalið hér á landi í um fjögur ár og 8 mánuði. Í ljósi þess að máli kæranda var lokið á báðum stjórnsýslustigum innan þeirra tímamarka sem fram koma í ákvæði 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga er ljóst að hann uppfyllir ekki skilyrði til dvalarleyfis á grundvelli mannúðarsjónarmiða.

Með vísan til framangreinds er það mat kærunefndar að þótt kærandi hafi dvalið hér á landi í nokkurn tíma eftir að hann hafi fengið niðurstöðu í mál sitt hafi atvik málsins ekki breyst verulega á þann veg að tilefni sé til að verða við beiðni hans um endurupptöku málsins á grundvelli 24. gr. stjórnsýslulaga. Kærunefnd telur að þau gögn sem kærandi lagði fram til stuðnings beiðni sinni um endurupptöku hafi ekki að geyma nýjar upplýsingar sem gefi tilefni til þess að endurupptaka málið.

Með vísan til framangreinds er það mat kærunefndar að ekki sé hægt að fallast á að atvik í máli kæranda hafi breyst verulega frá því að úrskurður kærunefndar frá 6. desember 2018 var birtur, sbr. 24. gr. stjórnsýslulaga.

Samantekt

Með vísan til alls framangreinds er það mat kærunefndar að hafna beri beiðni kæranda um endurupptöku málsins.

 

 

Úrskurðarorð:

Kröfu kæranda um endurupptöku er hafnað.

The request of the appellant to re-examine the case is denied.

 

Tómas Hrafn Sveinsson

 

Sindri M. Stephensen                                                                     Þorbjörg I. Jónsdóttir

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta