3/2021 A gegn Háskóla Íslands
Ár 2021, 8. október, lauk áfrýjunarnefnd í kærumálum háskólanema, þau Einar Hugi Bjarnason lögmaður og formaður nefndarinnar, Eva Halldórsdóttir lögmaður og Daníel Isebarn Ágústsson lögmaður málinu
nr. 3/2021
A
gegn
Háskóla Íslands
með svohljóðandi
Ú R S K U R Ð I
I.
Málsmeðferð
Mál þetta hófst með kæru sem barst áfrýjunarnefnd í kærumálum háskólanema með kæru, dags. 10. maí 2021. Kærð er ákvörðun forseta Verk- og náttúruvísindasviðs Háskóla Íslands („HÍ“) í máli kæranda málsnr. HI20050185. Einnig er kærð ákvörðun deildarforseta raunvísindadeildar skólans að gefa kæranda núll í einkunn í prófi EFN406G Lífræn efnafræði II. Í kæru gerir kærandi þá kröfu aðallega að „úrskurður deildarforseta og sviðsstjóra verði verði ómerktir þar sem endanleg niðurstaða liggi fyrir í málinu með úrskurði áfrýjunarnefndar í máli nr. 4/2020“. Þá er þess krafist að kærandi verði „sýknaður af ásökunum“ um að hafa notið utanaðkomandi aðstoðar við úrlausn á prófi þar sem ósannað sé að kærandi hafi gerst brotlegur við þá háttsemi sem hann er sakaður um. Einnig að ákvörðun deildarforseta verði hrundið og nefndin skyldi kennara námskeiðsins EFN406G Lífræn efnafræði til þess að skila kæranda einkunn fyrir umrætt próf. Til vara gerir kærandi þá kröfu að nefndin hrindi ákvörðun deildarforseta 18. júní í máli nr. HI20050185 og kærandi fái engin stig fyrir umræddan lið 5a) í prófi námskeiðsins en kennara verði gert að skila gildri einkunn fyrir prófið að frátöldum lið 5a). Til þrautavara er þess krafist að ákvörðun deildarforseta dags. 18. janúar í máli nr. HI20050185 verði hrundið og málið sent að nýju til efnismeðferðar deildarstjóra. Til þrautaþrautavara krefst kærandi þess að ákvörðun sviðsforseta dags. 8. júlí 2020 í máli nr. HI20050185 verði hrundið „og að ósannað sé“ að kærandi hafi gerst brotlegur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök og að ekki sé tilefni til áminningar fyrir meint brot á reglum skólans.
Viðbrögð HÍ við kærunni bárust 24. júní 2021. Í erindinu hafnaði skólinn kröfum kæranda. Kæranda var gefinn kostur á að gera athugasemdir við afstöðu skólans. Þær athugasemdir bárust með bréfi dagsettu 2. júlí 2021 þar sem kærandi ítrekaði fyrri kröfur og færði fram viðbótarröksemdir. Í tölvupósti HÍ frá 14. júlí 2021 var vísað til fyrri athugasemda auk þess sem viðbótarröksemdir og gögn voru lögð fram er lúta að málsástæðu kæranda um brot á jafnræðisreglu. Fundur var haldinn með málsaðilum þann 29. september 2021.
II.
Málsatvik
Kærandi er nemandi á Verk- og náttúruvísindasviði HÍ. Þann 30. apríl 2020 þreytti kærandi próf í námskeiðinu EFN 406G Lífræn efnafræði II. Þann 25. maí 2020 barst kæranda tölvupóstur um að grunur léki á að kærandi hefði brotið reglur skólans í námskeiði á vormisseri 2020. Þann 27. maí 2020 var kærandi kallaður á fund deildarforseta, umsjónarkennara námskeiðsins og kennslustjóra Verk- og náttúruvísindasviðs. Á fundinum var kæranda tilkynnt að hann lægi undir grun um ætluð brot gegn lögum um opinbera háskóla nr. 85/2008 og reglum fyrir Háskóla Íslands nr. 569/2009 með því að hafa nýtt sér utanaðkomandi aðstoð, nánar tiltekið aðstoð af netsíðunni chegg.com, við úrlausn á lið 5a í prófi í áðurnefndu námskeiði. Í lok fundarins var kæranda afhent bréf þar sem tilkynnt var um brot á framangreindum reglum og um sjö daga frest til að skila andmælum.
Með bréfi, dags. 3. júní 2020, kom kærandi andmælum sínum á framfæri og vísaði umræddum ásökunum á bug. Í andmælabréfinu benti kærandi á að ákvörðun um agaviðurlög í opinberum háskólum teldist stjórnvaldsákvörðun í skilningi stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og að háskólinn væri bundinn af grundvallarreglum um rannsóknarskyldu, að sönnunarbyrðin hvíldi alfarið á HÍ og að grunsemdir kennara uppfylltu ekki þá ríku sönnunarbyrði sem á skólanum hvíldi.
Með tölvupósti HÍ frá 4. júní 2020 var óskað eftir gögnum og frekari rökstuðningi af hálfu kæranda í tengslum við andmælabréf hans. Kærandi sendi sama dag afrit af dæmum úr kennslubók, sýnidæmi og glærupökkum í því skyni að renna stoðum undir tilhæfuleysi ásakana um ætluð brot.
Að fengnum síðustu athugasemdum kæranda óskaði deildarforseti eftir áliti Dr. B, PhD í lífrænni efnafræði, á því hvort líkindi væru með lausn kæranda á verkefni 5a í lokaprófinu og lausn á sama dæmi af heimasíðunni chegg.com. Niðurstaða álitsgjafa lá fyrir 14. júní 2020 og þar kom meðal annars fram að álitsgjafi teldi hafið „yfir allan vafa“ að prófverkefni 5a hefði verið leyst með eftirritun og þýðingu úr ensku á netlausninni sem finna mátti á chegg.com. Í álitinu sagði að líkindi með úrlausnunum í minnstu smáatriðum væru svo mikil að það yrði að teljast „frámunalega ólíklegt“ að þau væru tilkomin fyrir tilviljun.
Þann 18. júní 2020, eða níu dögum fyrir útskrift kæranda, var honum tilkynnt skriflega sú ákvörðun deildarforseta að hann hefði gerst brotlegur við 2. mgr. 58. gr. reglna nr. 569/2009 með því að hafa notið utanaðkomandi aðstoðar við próftöku. Einkunn kennara 0,0 fyrir prófið yrði því látin standa. Kærandi hefði því ekki staðist kröfur til þess að ljúka námskeiðinu í EFN406G.
Málið var sent til kærunefndar í málefnum nemenda við Háskóla Íslands en með úrskurði nefndarinnar 26. júní 2020 var talið að málið heyrði ekki undir nefndina. Var málinu því vísað frá nefndinni og tekið til meðferðar að nýju hjá forseta fræðasviðs.
Niðurstaða forseta fræðasviðs lá fyrir þann 8. júlí 2020. Þar kom fram að ekki færi fram endurmat á ákvörðun deildarforseta heldur einungis ákvörðun um viðurlög. Þá sagði að brot kæranda hefði falið í sér „afritun svara við prófverkefni sem finna mátti á vefsíðu sem var ótengd námskeiðinu, en lokaprófið hafði verið sent til vefsíðunnar á meðan prófinu stóð og starfsmenn hennar fengnir til þess að svara prófinu.“ Í framangreindu hafi falist skýr ásetningur til brots og var kæranda veitt áminning með vísan til 3. mgr. 19. gr. laga nr. 85/2008.
Kærandi kærði framangreinda ákvörðun forseta fræðasviðs til áfrýjunarnefndar í kærumálum háskólanema með kæru, dags. 2. júlí 2020. Með úrskurði nefndarinnar 4. janúar 2021 í máli nr. 4/2020 var komist að þeirri niðurstöðu að brotið hefði verið gegn andmælarétti kæranda, sbr. 13. og 14. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, þegar honum var ekki gefinn kostur á að koma að athugasemdum við sérfræðiálit Dr. B sem hefði á endanum haft mikla þýðingu fyrir ákvarðanir í málinu. Í forsendum úrskurðarins var tekið fram að slíkt brot teldist verulegur annmarki á málsmeðferð íþyngjandi stjórnvaldsákvörðunar og af þeim sökum væri ákvörðun deildarforseta raunvísindadeildar frá 18. júní 2020, um að gefa kæranda, 0,0 í einkunn í lokaprófi EFN406G Lífræn efnafræði II og fella niður rétt hans til að taka endurtökupróf, felld úr gildi. Jafnframt var felld úr gildi ákvörðun forseta Verkfræði- og náttúruvísindasviðs Háskóla Íslands 8. júlí 2020 um að veita kæranda áminningu.
Með tölvupósti HÍ 18. janúar 2021 var kæranda tilkynnt um þá ákvörðun að mál hans yrði tekið til meðferðar á ný og andmælaréttur veittur áður en ný ákvörðun yrði tekin. Andmæli kæranda bárust til deildarforseta með bréfi, dags. 26. febrúar 2021.
Með bréfi deildarforseta, dags. 16. mars 2021, var kæranda tilkynnt sú niðurstaða deildarforseta að umrædd lausn kæranda á á verkefni 5a) væri í raun þýðing og afritun á lausn dæmisins á vefsíðunni chegg.com og umrædd háttsemi fæli í sér brot á 2. mgr. 58. gr. reglna nr. 569/2009, sbr. 51. gr. sömu reglna og 2. mgr. 19. gr. laga um opinbera háskóla nr. 85/2008. Væri það því ákvörðun kennara að gefa kæranda 0,0 í einkunn fyrir lokapróf kæranda í námskeiðinu EFN406G Lífræn efnafræði II. Jafnframt félli niður réttur kæranda til endurupptökuprófs í námskeiðinu. Þá var kæranda tilkynnt að málið yrði jafnframt sent til sviðsforseta Verkfræði- og náttúruvísindasviðs til ákvörðunar um agaviðurlög.
Með bréfi sviðsforseta Verkfræði- og náttúruvísindasviðs, dags. 26. mars 2021, var kæranda tilkynnt að forseti hefði til athugunar að veita kæranda áminningu í tilefni af ofangreindu. Í bréfinu var kæranda veittur frestur til 7. apríl 2021 til að koma á framfæri athugasemdum áður en endanlega ákvörðun yrði tekin í málinu. Athugasemdir kæranda bárust með bréfi, dags. 6. apríl 2021.
Með bréfi sviðsforseta Verkfræði- og náttúruvísindasviðs, dags. 20. apríl 2021, var kæranda tilkynnt um þá ákvörðun sviðsforseta að veita kæranda áminningu, sbr. 3. mgr. 19. gr. laga um opinbera háskóla, vegna þess brots sem staðfest hafi verið með niðurstöðu deildarforseta 16. mars 2021.
Kæra kæranda í þessu máli lýtur að framangreindum ákvörðunum sviðs- og deildarforseta Verk- og náttúruvísindasviðs HÍ 16. mars og 20. apríl 2021.
III.
Málsástæður kæranda
Kærandi heldur því fram að áfrýjunarnefnd í kærumálum háskólanema hafi í máli nr. 4/2020 komist að þeirri niðurstöðu að ósannað væri að kærandi hafi svindlað og byggir á því að óheimilt hafi verið að taka málið upp að nýju án nýrra raka eða gagna. Þá er ennfremur á því byggt að HÍ hafi ekki sannað að kærandi hafi gerst sekur um brot á lögum eða reglum HÍ en sönnunarbyrði um þetta hvíli á skólanum.
Þá byggir kærandi á óskýrleika reglna við töku prófa. Vísar hann m.a. til þess að prófreglum hafi verið breytt eftir að þetta mál kom upp. Einnig byggir kærandi á því að málsmeðferð HÍ hafi verið ólögmæt og bendir á að um íþyngjandi stjórnvaldsákvörðun hafi verið að ræða og því hafi þurft að fylgja lágmarks málsmeðferðarreglum stjórnsýslulaga, þ.m.t. rannsóknar-, andmæla- og meðalhófsreglu. Þetta hafi ekki verið gert og vísar kærandi í því sambandi m.a. til þess að hann hafi ekki fengið að kynna sér álit Dr. B áður en ákvörðun var tekin í málinu. Þá vísar kærandi til þess að óhóflegur dráttur hafi orðið á málinu sem sé í andstöðu við málshraðareglu stjórnsýsluréttar. Ennfremur byggir kærandi á því að jafnræðis- og meðalhófsregla hafi verið brotin við meðferð málsins og vísar í því sambandi til þess að kærandi hafi þurft að sæta harðari viðurlögum en nemendur við aðrar deildir háskólans og að niðurstaða deildarforseta um að fella niður rétt hans til endurtökuprófs sé langt fram úr hófi.
Í viðbótarathugasemdum kæranda eru fyrri athugasemdir áréttaðar og tekið sérstaklega fram að skorað hafi verið á HÍ að leggja fram gögn er sýni fram á samræmda nálgun varðandi viðurlög við brotum af því tagi sem hér eru til umfjöllunar. Við þessu hafi HÍ ekki brugðist en með því væri skólinn að leyna því hvernig hvernig meðferð HÍ sé í sambærilegum málum sem skýra verði skólanum í óhag.
IV.
Málsástæður Háskóla Íslands
HÍ krefst þess að kröfum kæranda verði hafnað.
HÍ hafnar því að áfrýjunarnefnd í kærumálum háskólanema hafi í máli nr. 4/2020 komist að þeirri niðurstöðu að ósannað væri að kærandi hafi svindlað. Niðurstaðan í nefndu máli hafi verið reist á því að andmælaréttur hafi verið brotinn þar sem kærandi hafi ekki fengið að koma á framfæri andmælum við álit sérfræðings áður en endanleg ákvörðun hafi verið tekin í málinu. Áfrýjunarnefndin hafi á hinn bóginn ekki tekið afstöðu til þess hvort að umrætt verkefni hafi verið leyst með eftirritun netlausnar verkefnisins sem finna mátti á vefsíðunni chegg.com.
Í kjölfarið hafi málið verið tekið fyrir að nýju í samræmi við þá meginreglu í stjórnsýslurétti að réttaráhrif ógildingar vegna formannmarka séu til bráðabirgða. Við meðferð málsins hafi HÍ bætt úr annmarkanum í samræmi við rannsóknar- og andmælareglu stjórnsýsluréttar áður en ný ákvörðun var tekin í málinu.
Í tilefni af athugasemdum kæranda um sönnunarstöðuna í málinu telur HÍ að hafið sé yfir allan vafa að samanburður á umræddum lausnum sýni fram á með óyggjandi hætti að lausn kæranda hafi verið eftirritun og þýðing á netlausn verkefnisins sem finna mátti á vefsíðunni chegg.com. Sú afstaða byggi á mati þeirra sérfræðinga sem hafi borið saman úrlausn kæranda við þá sem finna mátti á margnefndri vefsíðu, þ.e. umsjónarkennara námskeiðsins, deildarforseta og utanaðkomandi sérfræðings.
HÍ hafnar ennfremur þeirri málsástæðu kæranda að reglur um námsgögn við próftöku hafi verið ónákvæmar og óskýrar og bendir á að í úrskurði áfrýjunarnefndar í kærumálum háskólanema nr. 4/2020 hafi verið tekin afstaða til þessarar málsástæðu. Þá sé alrangt að prófreglum hafi verið breytt eftir að þetta mál kom upp.
HÍ mótmælir því einnig að málsmeðferð hafi verið áfátt í málinu og hafnar því að kærandi hafi ekki fengið að kynna sér álit Dr. B. Í því sambandi vísar HÍ til þess að lögmanni kæranda hafi verið sent umrætt álit með tölvupósti 27. janúar 2021. Þá hafnar HÍ því að óhóflegur dráttur hafi verið á meðferð málsins.
HÍ fullyrðir að kærandi hafi ekki þurft að þola harðari viðurlög en nemendur við aðrar deildir háskólans vegna sambærilegra brota. Á Verkfræði- og náttúruvísindasviði hafa sambærileg mál hlotið sambærilega afgreiðslu. Í því sambandi bendir HÍ á sambærilega afgreiðslu gagnvart þremur öðrum nemendum í sama námskeiði sem uppvísir urðu að notkun óheimilla gagna í umræddu lokaprófi. Með viðbótarathugasemdum HÍ fylgdu ákvarðanir frá öðrum deildum innan skólans um agaviðurlög vegna óheimilla notkun gagna í prófum.
V.
Niðurstaða
Ágreiningur máls þessa snýr að þeirri ákvörðun HÍ að gefa kæranda núll í einkunn í prófi EFN406G Lífræn efnafræði II við Verk- og náttúruvísindasvið skólans og þeirri ákvörðun forseta fræðasviðs að áminna kæranda. Fyrir liggur að ætlað brot kæranda fólst í því að nýta úrlausn á vefsíðunni chegg.com við að leysa úr dæmi 5a á umræddu lokaprófi.
Áfrýjunarnefnd í kærumálum háskólanema hefur í úrskurði í máli nr. 4/2020 þegar tekið afstöðu til og hafnað þeirri málsástæðu kæranda að reglur um námsgögn við próftöku í umræddu prófi hafi verið ónákvæmar og óskýrar. Sömuleiðis hefur nefndin í sama máli tekið afstöðu til og hafnað þeirri málsástæðu kæranda að ekki sé unnt að byggja viðurlög á reglum nr. 569/2009 þar sem þær séu í ósamræmi við lög um opinbera háskóla nr. 85/2008. Ennfremur hefur nefndin hafnað þeirri málsástæðu kæranda að óhóflegur dráttur hafi verið á málinu.
Með úrskurði áfrýjunarnefndarinnar í máli nr. 4/2020 var ekki tekin afstaða til þess hvort umrætt prófverkefni í lið 5a hefði verið leyst með eftirritun netlausnar verkefnisins, sem finna mátti á vefsíðunni chegg.com. Verða hinar umdeildu ákvarðanir þannig ekki ómerktar á þeim grundvelli að endanleg niðurstaða liggi fyrir í málinu.
Í málinu er deilt um tvær stjórnvaldsákvarðanir, annars vegar ákvörðun deildarforseta 16. mars 2021 og hins vegar ákvörðun sviðsforseta Verkfræði- og náttúruvísindasviðs, dags. 20. apríl 2021. Í kröfugerð kæranda er vísað til ákvarðana deildarforseta 18. janúar 2020 og sviðsforseta 8. júlí sama ár, og þess krafist að þeim verði hrundið. Þær ákvarðanir sem vísað er til í kröfugerðinni voru til úrlausnar í máli áfrýjunarnefndarinnar nr. 4/2020 en þær voru efnislega sambærilegar þeim ákvörðunum sem teknar voru 16. mars og 20. apríl 2021. Er þannig ljóst af efni kærunnar í heild og tengslum við fyrra kærumál hjá áfrýjunarnefndinni, sem reis út af sömu málsatvikum, að átt er við þær ákvarðanir deildarforseta og sviðsforseta sem teknar voru eftir að málið var tekið upp að nýju á vettvangi HÍ í kjölfar niðurstöðu áfrýjunarnefndarinnar í máli nr. 4/2020. Þá er einnig til þess að líta að á fundi nefndarinnar með málsaðilum 29. september 2021 kom lögmaður kæranda þeirri leiðréttingu á framfæri að um misritun væri að ræða og kæran lyti að ákvörðunum deildar- og sviðsforseta sem teknar voru í mars og apríl 2021. Þar sem um augljósa misritun er að ræða eru ekki efni til að vísa kærunni frá nefndinni af þessum sökum.
Með ákvörðun deildarforseta 16. mars 2021 var komist að þeirri niðurstöðu að í lokaprófi í námskeiðinu Lífræn efnafræði II hefði kærandi leyst eitt prófverkefnið með eftirritun netlausnar verkefnisins, sem finna mátti á vefsíðunni chegg.com. Var sú háttsemi grundvöllur að þeirri ákvörðun að gefa kæranda einkunnina 0,0 fyrir prófið í heild sinni og fella niður rétt hans til endurtökuprófs. Deildarforseti sendi málið í kjölfarið til ákvörðun sviðsforseta Verkfræði- og náttúruvísindasviðs sem tók ákvörðun um að veita kæranda áminningu 26. mars 2021.
Samkvæmt 2. mgr. 20. gr. laga nr. 63/2006, um háskóla, endurmetur áfrýjunarnefnd í kærumálum háskólanema ekki prófúrlausnir eða faglega niðurstöðu kennara, dómnefnda eða prófdómara. Hin umdeilda niðurstaða um lausn kæranda á prófverkefni byggir á sérfræðilegu mati á prófúrlausninni. Af því leiðir að áfrýjunarnefndin er hvorki bær né hefur sérfræðilega þekkingu til þess að endurmeta þá niðurstöðu að kærandi hafi við úrlausn á hinu umdeilda prófverkefni eftirritað lausn af vefsíðunni chegg.com.
Aftur á móti getur nefndin leyst úr því hvort ákvörðunin byggi á fullnægjandi lagagrundvelli og hvort málsmeðferð og efnisleg úrlausn var í samræmi við skráðar og óskráðar reglur stjórnsýsluréttarins.
Sumarið 2020 óskaði deildarforseti eftir áliti Dr. B, PhD í lífrænni efnafræði, á því hvort líkindi væru með lausn kæranda á verkefni 5a í lokaprófinu og lausn á sama dæmi af heimasíðunni chegg.com. Niðurstaða álitsgjafa lá fyrir 14. júní 2020 og studdi þá niðurstöðu að kærandi hefði eftirritað lausnina af vefsíðunni. Að mati nefndarinnar hafði álitið verulega mikla þýðingu fyrir efnislega niðurstöðu málsins og því bar HÍ að gefa kæranda kost á að gera athugasemdir við álitið. Niðurstaða áfrýjunarnefndarinnar í máli nr. 4/2020 var sú að andmælaréttur hafi verið brotinn á kæranda, þegar honum var ekki gefinn kostur á að koma að athugasemdum á framfæri við sérfræðiálitið.
Málið var tekið upp að nýju hjá HÍ í kjölfar úrskurðar áfrýjunarnefndarinnar í máli 4/2020 og var kæranda þá gefinn kostur á að tjá sig um framangreint álit. Þá var kæranda auk þess gefinn kostur á að tjá sig um efni málsins að öðru leyti áður en báðar ákvarðanirnar sem um er deilt í málinu voru teknar. Fyrir liggur að kærandi nýtti sér þennan rétt og kom athugasemdum á framfæri. Þau andmæli gáfu HÍ ekki tilefni til þess að afla frekari gagna eða breyta afstöðu sinni til prófúrlausnar kæranda. Með hliðsjón af framangreindu telur nefndin að andmælaréttar hafi verið gætt gagnvart kæranda af hálfu HÍ við meðferð málsins eftir að málið var tekið upp að nýju á vettvangi skólans.
Hvað varðar meint brot HÍ gegn jafnræðisreglu stjórnsýsluréttarins vísaði kærandi til afgreiðslu viðskiptafræðideildar í máli frá árinu 2019 vegna prófsvindls þar sem gefin var einkunnin 0,0 en endurtektarpróf var heimilað. Af fyrirliggjandi gögnum í málinu má þó ráða að almennt hafi verið leyst úr málum er varða prófsvindl með sambærilegum hætti og gert var í því máli sem hér er til skoðunar, þó dæmi séu til um annað. Ber einnig að horfa til þess að atvik þess máls sem kærandi vísaði til voru ekki eins og í þessu máli. Þá liggur fyrir að mál þriggja annarra nemenda, sem uppvísir urðu að notkun óheimilla gagna í umræddu lokaprófi, voru leyst með sama hætti og mál kæranda. Verður því ekki fallist á að HÍ hafi brotið gegn jafnræðisreglunni við afgreiðslu málsins.
Þá er ekki heldur hægt að fallast á að brotið hafi verið gegn meðalhófsreglu stjórnsýsluréttarins. Um nokkuð alvarlegt brot var að ræða og meira íþyngjandi úrræði stóðu HÍ til boða en þau sem beitt var í málinu. Kröfur kæranda stefna allar að því markmiði að hinum umdeildu ákvörðunum deildar- og sviðsforseta verði hrundið eða breytt enda hafi þær að mati kæranda verið í andstöðu við lög. Áfrýjunarnefndin telur samkvæmt framansögðu að efnis- og málsmeðferðarreglna stjórnsýsluréttarins hafi verið gætt við meðferð málsins eftir að málið var tekið upp að nýju á vettvangi skólans í kjölfar úrskurðar áfrýjunarnefndarinnar í máli nr. 4/2020. Með vísan til þess sem að framan er rakið hafnar áfrýjunarnefndin öllum kröfum kæranda í málinu.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Öllum kröfum kæranda, A, er hafnað.
Einar Hugi Bjarnason
Daníel Isebarn Ágústsson Eva Halldórsdóttir