Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 59/2011

Föstudaginn 11. maí 2012

A

gegn

umboðsmanni skuldara

 

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Ingibjörg Þorsteinsdóttir formaður, Einar Páll Tamimi hdl. og Arndís Anna K. Gunnarsdóttir hdl.

Þann 22. september 2011 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi, dags. 13. september 2011, þar sem umsókn kæranda um heimild til greiðsluaðlögunar var hafnað.

Með bréfi, dags. 26. september 2011, óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi, dags. 30. nóvember 2011.

Greinargerð umboðsmanns skuldara var send kæranda til kynningar með bréfi, dags. 1. desember 2011 þar sem kæranda var gefinn kostur á að koma að athugasemdum, sem bárust þann 12. desember 2011. Voru athugasemdir kæranda sendar umboðsmanni skuldara með bréfi dags. 15. desember 2011 sem sendi framhaldsgreinargerð sína þann 16. janúar 2012.

Kærunefndin sendi kæranda bréf dags. 26. mars 2012 þar sem óskað var eftir afstöðu kæranda til tiltekins atriðis í framhaldsgreinargerð umboðsmanns skuldara og barst svar kæranda með bréfi dags. 2. apríl 2012.

 

I.

Málsatvik

Kærandi er 48 ára gamall, fráskilinn og býr í eigin húsnæði að B-götu nr. 38, í sveitarfélaginu C, en um er að ræða 246 fermetra einbýlishús. Hann á tvær dætur og starfar hjá D ehf. og eru mánaðarlegar tekjur hans 265.202 krónur eftir frádrátt skatts.

Skuldir kæranda samkvæmt skuldayfirliti umboðsmanns skuldara eru annars vegar lán frá Arion banka, upphaflega að fjárhæð 45.000.000 krónur, nú að fjárhæð 71.942.429 krónur. Lánið var tekið til kaupa á fasteign kæranda að B-götu, sveitarfélaginu C. Aðrar skuldir hans eru óverulegar en þær nema samtals 2.994.789 krónum og er þar um að ræða yfirdráttarheimildir, vangoldin fasteignagjöld og skammtímaskuldir.

Hins vegar eru verulegar kröfur á hendur kæranda vegna atvinnurekstrar. Kærandi gekkst í ábyrgðir fyrir félögin E ehf. og F ehf., auk tryggingavíxils sem kærandi ábyrgðist fyrir G ehf. en heildarfjárhæð ábyrgða kæranda nam upphaflega 185.173.136 krónum. Gjaldfallnar ábyrgðarkröfur nema samtals 202.886.573 krónum. Þá  eru vangreidd opinber gjöld vegna E ehf. á árunum 2008-2010 sem skiptast þannig að 55.018.811 krónur eru vangoldin staðgreiðsla launagreiðanda, 29.894.629 krónur vangoldin staðgreiðsla tryggingagjalds og í vangoldinn virðisaukaskatt vegna áranna 2010-2011 að fjárhæð 1.847.740 krónur. Samtals nema vangreidd opinber gjöld vegna félagsins 86.761.181 krónu.

Samkvæmt gögnum málsins hafa tekjur kæranda verið eftirtaldar undanfarin ár: Árið 2006 voru mánaðarlegar tekjur kæranda að meðaltali 223.541 króna eftir frádrátt skatts, 2.388 krónur árið 2007, 236.285 krónur árið 2008, 266.342 krónur árið 2009 og 295.501 króna árið 2010.

Þann 20. október 2010 lagði kærandi inn umsókn um greiðsluaðlögun til umboðsmanns skuldara. Umboðsmaður synjaði umsókn kæranda þann 13. september 2011 með vísan til málsatvika og að teknu sérstöku tilliti til b-liðar 1. mgr. og c- og d-liða 2. mgr. 6. gr. lge.

 

II.

Sjónarmið kæranda

Í greinargerð sem fylgdi umsókn um greiðsluaðlögun kemur fram að kærandi sé fráskilinn tveggja barna faðir. Hann standi nú frammi fyrir fjárhagsörðugleikum sem séu nær óviðráðanlegir en rætur þeirra megi rekja til fjárfestinga.

Í greinargerð kæranda segir að í kjölfar skilnaðar kæranda við eiginkonu sína árið 2004 hafi hann keypt sér íbúðarhúsnæði og fjármagnað kaupin með láni frá Kaupþingi. Á sama tíma hafi hann fjárfest í félaginu E ehf. sem rak skyndibitastaðinn H. Eftir hrun krónunnar árið 2008 hafi rekstrarforsendur E ehf. brostið þar sem öll aðföng hafi verið keypt erlendis frá og kostnaðurinn þar af leiðandi tvöfaldast. Við hrunið hafi allar skuldir félagsins hækkað og persónulegar skuldir kæranda einnig. Félagið hafi orðið gjaldþrota þann 9. júlí 2010 og hafi kærandi þá misst alla sína fjárfestingu. Í framhaldinu hafi hann orðið atvinnulaus og átt erfitt með að standa í skilum með eigin fjárskuldbindingar.

Kveðst kærandi meta stöðu sína nú þannig að fái hann ekki úrlausn sinna mála stefni hann í gjaldþrot. Kærandi telur sig ekki hafa tekist á hendur neinar óeðlilegar fjárhagsskuldbindingar miðað við ráðahag og aðstæður þær sem í þjóðfélaginu ríktu fyrir hrun. Hann hafi þvert á móti tekið þátt í að byggja upp þjóðfélagið með sama hætti og aðrir. Hann hafi reynt að byggja sér og börnum sínum heimili innan eðlilegra marka. Verði ekki fallist á heimild til að leita greiðsluaðlögunar sé hann á leið í gjaldþrot en það geti varla talist ásættanleg niðurstaða í ljósi þeirra fjölskyldugilda sem þau hafa haft að leiðarljósi og fyrr sé getið, þ.e. að búa börnum sínum og sjálfum sér sómasamlegt heimili. Óþarfi sé að tíunda áhrif gjaldþrots á einstaklinga en óvissan um þetta hafi valdið kæranda miklu hugarangri og kvíða.

Í kæru er því mótmælt sem fram kemur í ákvörðun umboðsmanns skuldara að fram sé komin kæra á hendur kæranda. Kærandi segir að ekkert mál sé í gangi á hendur sér í dómskerfinu og hafnar því að skiptastjóri þrotabús E ehf. hafi kært hann til efnahagsbrotadeildar ríkislögreglustjóra. Ekki hafi verið haft samband við kæranda og honum gefinn kostur á koma að andmælum og leiðréttingum vegna fullyrðinga skiptastjóra. Þá hafi honum ekki verið gefinn kostur á að tjá sig um þá málsástæðu umboðsmanns að verið sé að rannsaka málefni hans. 

Í athugasemdum kæranda við greinargerð umboðsmanns skuldara andmælir kærandi því að honum sé synjað á grundvelli skattaskulda félags sem sé enn í gjaldþrotameðferð. Kæranda sé ekki kunnugt um að mál sé til meðferðar hjá efnahagsbrotadeild ríkislögreglustjóra vegna þrotabús E ehf. og telur sig eiga að njóta vafans í því máli. Þá eigi hann ekki að bera meiri ábyrgð á skuldbindingum félags í sinni eigu en lög kveði á um.

Í bréfi lögmanns kæranda dags. 2. apríl 2012 til kærunefndarinnar kemur fram að kæranda hafi ekki verið kunnugt um kæru skiptastjóra þrotabús E ehf. en sé það nú. Jafnframt kemur þar fram að kærandi telji sig ekki hafa aðhafst neitt óeðlilegt eða refsivert og bendir á að ákæra í málinu hafi ekki verið gefin út.

 

III.

Sjónarmið umboðsmanns skuldara

Í ákvörðun umboðsmanns skuldara eru rakin ákvæði 2. mgr. 6. gr. lge. þar sem fram kemur að heimilt sé að synja umsókn um greiðsluaðlögun þyki óhæfilegt að veita hana og skuli þá sérstaklega líta til sjónarmiða sem rakin eru í sjö stafliðum málsgreinarinnar. Í c-lið 2. mgr. er fjallað um að líta beri til þess hafi skuldari tekið fjárhagslega áhættu sem var ekki í samræmi við fjárhagsstöðu hans á þeim tíma sem til fjárskuldbindinganna var stofnað. Í b-lið sömu málsgreinar er fjallað um þau tilvik þegar skuldari hafi stofnað til skulda þegar hann var greinilega ófær um að standa við fjárhagsskuldbindingar sínar.

Á árunum 2009 og 2010 hafi kærandi tekið á sig ábyrgðir fyrir félagið F ehf. í formi sjálfskuldarábyrgða og útgáfu tryggingabréfa. Stærst þessara skuldbindinga sé frá 12. mars 2010 þar sem kærandi gekkst í sjálfskuldarábyrgð vegna skuldar F ehf. við Arion banka hf. sem standi nú í 6.000.000 króna. Sömu ár hafi kærandi hvorki greitt fasteignagjöld né tryggingariðgjöld, samtals að fjárhæð 808.996 krónum. Þá hafi kærandi hætt að greiða af húsnæðisláni hjá Arion banka hf. í febrúar 2010. Kærandi hafi verið tekjulaus á tímabilinu janúar til júlí 2010 samkvæmt staðgreiðsluskrá Ríkisskattstjóra. Verði því að telja að með stofnun þessara skuldbindinga hafi kærandi stofnað til skulda á þeim tíma sem hann hafi greinilega verið ófær um að standa við fjárhagsskuldbindingar sínar.

Eins og fram komi í greinargerð lögmanns kæranda, sem fylgdi umsókn um greiðsluaðlögun, hafi farið að halla undan fæti í rekstri E ehf. strax þegar virði íslensku krónunnar féll í tengslum við fall bankanna. Samkvæmt upplýsingum frá skiptastjóra þrotabús E ehf. hafi héraðsdómi borist fyrsta beiðni um að félagið yrði tekið til gjaldþrotaskipta þann 9. október 2009. Samkvæmt skiptastjóra sé ólíklegt að eitthvað fáist upp í aðrar kröfur en forgangskröfur og því séu allar líkur á að ábyrgðarskuldbindingar þær sem kærandi stofnaði til vegna félagsins komi til með að falla á hann, miðað við núverandi stöðu.

Samkvæmt skattframtölum voru tekjur kæranda 295.501 króna að meðaltali á mánuði eftir skatt árið 2009. Árið 2008 voru mánaðarlegar tekjur kæranda eftir skatt 266.342 krónur að meðaltali. Farmfærslukostnaður miðað við verðlag ársins 2008 hafi verið 153.074 krónur samkvæmt framfærsluviðmiðum. Því hafi greiðslugeta kæranda, miðað við fyrirliggjandi gögn, verið 83.803 krónur á mánuði. Ekki þyki óvarlegt að áætla að mánaðarleg greiðslubyrði af íbúðarlánunum, auk bílalánsins hafi numið að minnsta kosti 297.462 krónum í upphafi árs 2008. Þrátt fyrir þá þröngu stöðu sem fjárhagur kæranda hafi verið kominn í hafi hann stofnað til frekari skuldbindinga á árunum 2008-2010. Sem framkvæmdastjóra E ehf. hafi kæranda hlotið að vera það ljóst að veruleg hætta hafi verið á því að ábyrgðarskuldbindingar þær sem hann hafði stofnað til vegna félagsins gætu fallið á hann. Sú fjárhagslega áhætta sem kærandi hafi tekið á árunum 2009 og 2010 verði því að teljast umtalsverð.

Í d-lið 2. mgr. 6. gr. lge. segir að við mat á því hvort óhæfilegt sé að veita heimild til greiðsluaðlögunar beri að taka sérstakt tillit til þess hvort skuldari hafi bakað sér skuldbindingu sem einhverju nemi miðað við fjárhag hans sem varðar refsingu eða skaðabótaskyldu. Samkvæmt Hlutafélagaskrá var kærandi skráður framkvæmdastjóri E ehf. og hafi því hvílt á honum sú skylda sem tilgreind sé í 3. mgr. 44. gr. laga nr. 138/1994 um einkahlutafélög. Þá skuli fyrirsvarsmaður félags hlutast til um skil á vörslusköttum lögum samkvæmt að viðlögðum sektum eða fangelsisrefsingu, sbr. 1. og 8. mgr. 40. gr. laga um virðisaukaskatt nr. 50/1988 og 1. og 9. mgr. 30. gr. laga nr. 40/1987 um staðgreiðslu opinberra gjalda. Megi í þessu samhengi líta til dóms Hæstaréttar í máli nr. 659/2009 frá 14. október 2010 en þar var ákærða, framkvæmdastjóra og prókúruhafa, gerð refsing fyrir að hafa hvorki staðið skil á virðisaukaskattskýrslum né virðisaukaskatti fyrir hönd félagsins.

Samkvæmt yfirliti frá Tollstjóra nemi vanskil á árunum 2008-2010 vegna staðgreiðslu launagreiðanda 55.018.811 krónum og vegna staðgreiðslu tryggingagjalds 29.894.629 krónum og byggist lítill hluti þessara fjárhæða á áætlun skattstjóra. Vanskil vegna virðisaukaskatts vegna ársins 2010 nemi 1.847.740 krónum en sú fjárhæð byggi á áætlun.

Samkvæmt upplýsingum frá skiptastjóra þrotabús E ehf. hafi verið lögð fram kæra, dags. 22. júní 2011, á hendur kæranda til efnahagsbrotadeildar ríkislögreglustjóra vegna meintra auðgunar- og bókhaldsbrota hans í rekstri E ehf. Kemur fram í kæru að hugsanlega komi til riftunarmáls vegna riftunarreglna gjaldþrotaskiptalaga nr. 21/1991. Þá áskilji þrotabúið sér rétt til að hafa uppi einkaréttarlega kröfu til skaðabóta á hendur kæranda á síðari stigum málsins.

Í ljósi þessa var það mat umboðsmanns að ekki lægi fyrir nægjanlega glögg mynd af væntanlegri þróun fjárhags kæranda fyrr en hugsanleg málaferli gegn kæranda væru til lykta leidd. Með tilliti til þess taldi umboðsmaður skuldara að sér hafi borið skylda til að synja kæranda um heimild til að leita greiðsluaðlögunar, sbr. b-lið 1. mgr. 6. gr. lge.

 

IV.

Niðurstaða

Í niðurstöðu sinni rekur umboðsmaður skuldara ákvæði b-liðar 1. mgr. 6. gr. lge ásamt b-, c- og d-liðum 2. mgr. 6. gr. sömu laga. Virðist sem byggt sé á öllum þessum ákvæðum samanteknum án þess að skýrt komi fram á hvaða forsendum endanleg niðurstaða er byggð. Orðar umboðsmaður það svo í ákvörðun sinni að „sérstakt tillit“ hafi verið tekið til tilvísaðra ákvæða við ákvörðun um að synja umsókn. Þessi nálgun er afar óheppileg ekki síst í ljósi mismunandi eðlis ákvæða 1. mgr. 6. gr. laganna annars vegar og 2. mgr. 6. gr. hins vegar, en fyrrnefnda ákvæðið leiðir til þess að umboðsmanni er skylt að synja umsókn en það síðarnefnda veitir umboðsmanni hins vegar heimild til synjunar umsóknar eftir heildarmat á umsókn og með tilliti til þeirra þátta sem þar eru tíundaðir. Eigi eitthvert þeirra atriða sem talin eru upp í 1. mgr. 6. gr. við í málinu kemur ekki til þess mats sem gert er ráð fyrir í 2. mgr. 6. gr.

Verður að telja að þessi framsetning umboðsmanns skuldara á niðurstöðu sinni hafi skert möguleika kæranda til andmæla enda ekki fyllilega ljóst á hvaða forsendum niðurstaða hans er byggð. Það leiðir þó ekki til ógildingar ákvörðunar umboðsmanns þar eð nokkuð ítarlega er fjallað um hverja ástæðu fyrir sig í henni. Hafði kærandi því nægjanleg tök á að andmæla öllum forsendum umboðsmanns skuldara þrátt fyrir þennan annmarka á framsetningu forsendnanna.

Þá er ekki að sjá að umsækjanda hafi fengið lögreglukæru þá sem virðist lögð til grundvallar niðurstöðu umboðsmanns í hendurnar fyrr en hann fékk senda framhaldsgreinargerð umboðsmanns skuldara til kærunefndarinnar, ásamt fylgigögnum. Þar sem um grundvöll forsendna umboðsmanns er að ræða hefði verið eðlilegt að gefa kæranda sérstaklega kost á að tjá sig um efni kærunnar áður en ákvörðun var tekin á grundvelli hennar.

Brot á andmælareglu telst almennt verulegur annmarki á málsmeðferð stjórnvalds og leiðir til ógildingar ákvörðunar. Hér horfir hins vegar svo við að ákvörðun umboðsmanns er í raun byggð á fleiri en einni forsendu sem hver um sig hefði komið til greina sem sjálfstæður grundvöllur synjunar. Við mat á því hvort brot á andmælareglu leiði til ógildingar ákvörðunarinnar verður í ljósi þessa að líta til þess hvort hugsanleg andmæli kæranda hefðu leitt til annarrar niðurstöðu. Eins og nánar verður vikið að hér á eftir hefðu andmæli umsækjanda við lögreglukæru þeirri, sem lá til grundvallar niðurstöðu umboðsmanns, engu breytt um niðurstöðuna í málinu. Ber hér einnig að líta til þess að kæranda hefur á kærustigi verið gefið færi á að koma að andmælum sínum og athugasemdum við framkomna kæru. Leiðir annmarki þessi á málsmeðferð umboðsmanns því ekki til ógildingar ákvörðunarinnar.

Þrátt fyrir áðurnefnda annmarka á framsetningu niðurstöðu umboðsmanns skuldara þykir rétt að ganga út frá því að niðurstaða hans byggi í fyrsta lagi á b-lið 1. mgr. 6. gr. lge, en þar er kveðið á um skyldu til að synja um heimild til greiðsluaðlögunar ef fyrirliggjandi gögn gefa ekki nægjanlega glögga mynd af fjárhag skuldara eða væntanlegri þróun fjárhags hans á tímabili greiðsluaðlögunar. Í greinargerð með frumvarpi því er varð að lögum nr. 101/2010 segir um þetta ákvæði:

Skv. b-lið skal umsókn hafnað ef fyrirliggjandi gögn gefa ekki nægilega glögga mynd af fjárhag skuldara eða væntanlegri þróun fjárhags hans á tímabili greiðsluaðlögunar. Ákvæðið er samhljóða 1. tölul. 1. mgr. 63. gr. d. X. kafla a laga um gjaldþrotaskipti o.fl. en þar er þó gert ráð fyrir að ástæðan geti orðið til þess að héraðsdómari hafni beiðni um nauðasamning en í frumvarpinu er kveðið á um skyldu til að synja um heimild til greiðsluaðlögunar undir þessum kringumstæðum enda mikilvægt að skuldari veiti fullnægjandi upplýsingar um allt sem lýtur að fjárhagslegum málefnum hans. Hér er því einungis um það að ræða að skuldari hafi ekki orðið við áskorunum umboðsmanns skuldara um öflun gagna eða upplýsingagjöf sem honum einum er unnt að afla eða gefa. Er hér áréttað eins og víða annars staðar í frumvarpinu að skuldari skuli taka virkan þátt og sýna viðeigandi viðleitni við að varpa sem skýrustu ljósi á skuldastöðu sína og félagslegar aðstæður.

Er það því hvorki tilgangur ákvæðisins né krafa að fjárhagur umsækjanda og þróun hans í nánustu framtíð sé með öllu ljós, enda ómögulegt að gera slíka kröfu. Er því ekki unnt að fallast á það með umboðsmanni að óvissa um hugsanlega niðurstöðu hugsanlegs dómsmáls girði fyrir afgreiðslu umsóknarinnar í skilningi b-liðar 1. mgr. 6. gr. lge. enda ekki er annað að sjá í máli þessu en að umsækjandi hafi sýnt vilja og viðleitni til þess að afla og leggja fram þær upplýsingar sem krefjast má um skuldastöðu hans og aðstæður að öðru leyti. Verður kærandi ekki látinn bera hallann af því að ákveðin atriði varðandi fjárhagsstöðu hans, sem hann getur ekki skýrt sjálfur, séu óljós.

Í d-lið 2. mgr. 6. gr. lge. kemur fram að við mat á því hvort óhæfilegt sé að veita heimild til greiðsluaðlögunar beri að taka sérstakt tillit til þess hvort skuldari hafi bakað sér skuldbindingu sem einhverju nemi miðað við fjárhag hans sem varðar refsingu eða skaðabótaskyldu. Samkvæmt Hlutafélagaskrá var kærandi skráður framkvæmdastjóri E ehf. og hvíldi á honum sú skylda sem tilgreind er í 3. mgr. 44. gr. laga nr. 138/1994 um einkahlutafélög. Þá skal fyrirsvarsmaður félags hlutast til um skil á vörslusköttum lögum samkvæmt að viðlögðum sektum eða fangelsisrefsingu, sbr. 1. og 8. mgr. 40. gr. laga um virðisaukaskatt nr. 50/1988 og 1. og 9. mgr. 30. gr. laga nr. 40/1987 um staðgreiðslu opinberra gjalda. Samkvæmt yfirliti frá Tollstjóra nema vanskil á árunum 2008-2010 vegna staðgreiðslu launagreiðanda um 55 milljónum króna og vegna staðgreiðslu tryggingagjalds tæplega 30 milljónum króna og byggist lítill hluti þessara fjárhæða á áætlun skattstjóra. Vanskil vegna virðisaukaskatts vegna ársins 2010 nema samkvæmt gögnum málsins 1.847.740 krónum en sú fjárhæð byggir á áætlun.

Framangreint ákvæði lge., sem er samhljóða eldra ákvæði í 4. tölul. 1. mgr. 63. gr. d gjaldþrotaskiptalaganna, hefur verið skilið svo í framkvæmd að skattskuldir sem refsing liggur við girði fyrir heimild til að leita greiðsluaðlögunar, óháð því hvort refsinæmi verknaðar hafi verið staðfest með dómi eður ei. Í máli þessu er óumdeilt að hluti skattskulda kæranda felst í ógreiddum virðisaukaskatti og staðgreiðslu vegna starfsemi einkahlutafélags þar sem kærandi gegndi stöðu framkvæmdastjóra. Ber hann stöðu sinnar vegna ábyrgð á greiðslu umræddra skatta, sbr. 44. gr. laga um einkahlutafélög, nr. 138/1944. Samkvæmt 40. gr. laga um virðisaukaskatt, nr. 50/1988, og 30. gr. laga um staðgreiðslu opinberra gjalda, nr. 45/1987, getur slík háttsemi varðað refsingu. Þá ber að líta til þess að um umtalsverðar fjárhæðir er að ræða enda nema umræddar skuldir samtals tæplega 87 milljónum sem er hærra en samtala allra persónulegra skuldbindinga kæranda og um þriðjungur af ábyrgðarskuldbindingum kæranda. 

Með hliðsjón af framangreindu er fallist á það með umboðsmanni skuldara að kærandi hafi bakað sér skuldbindingu svo einhverju nemi miðað við fjárhag hans, sem varðað geti refsingu eða skaðabótaskyldu. Verður ákvörðun umboðsmanns um að synja kæranda um heimild til að leita greiðsluaðlögunar á grundvelli d-liðar 2. mgr. 6. gr. lge. því staðfest.

 

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að synja A um heimild til að leita greiðsluaðlögunar er staðfest.

 

 

Ingibjörg Þorsteinsdóttir

Einar Páll Tamimi

Arndís Anna K. Gunnarsdóttir




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta