Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 277/2023-Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 277/2023

Miðvikudaginn 6. september 2023

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Unnþór Jónsson lögfræðingur og Kristinn Tómasson læknir.

Með rafrænni kæru, móttekinni 4. júní 2023, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 20. janúar 2023 um upphafstíma greiðslna örorkulífeyris.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um örorkulífeyri og tengdar greiðslur frá Tryggingastofnun ríkisins með umsókn, móttekinni 13. janúar 2023. Með ákvörðun stofnunarinnar, dags. 20. janúar 2023, var kæranda metinn örorkulífeyrir og var gildistími matsins ákvarðaður frá 1. febrúar 2022 til 30. apríl 2025. Með beiðni 22. mars 2023 fór kærandi fram á rökstuðning fyrir ákvörðun stofnunarinnar og var hann veittur með bréfi, dags. 13. apríl 2023.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 4. júní 2023. Með bréfi, dags. 6. júní 2023, óskaði úrskurðarnefnd eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Með bréfi, dags. 20. júní 2023, barst greinargerð Tryggingastofnunar og var hún kynnt kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 21. júní 2023. Athugasemdir bárust frá kæranda 19. júlí 2023 og voru þær kynntar Tryggingastofnun með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 20. júlí 2023. Athugasemdir bárust á ný frá kæranda 8. ágúst 2023 og voru þær kynntar Tryggingastofnun með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 9. ágúst 2023. Frekari athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Í kæru greinir kærandi frá því Tryggingastofnun ríkisins neiti að greiða honum örorkulífeyri fyrir tímabilið janúar 2021 til 1. febrúar 2022. Tryggingastofnun byggi ákvörðun stofnunarinnar á læknismati frá Danmörku sem gert hafi verið árið 2022.

Kærandi hafi bent Tryggingastofnun á að staða hans hafi verið óbreytt í mörg ár og að hann geti útvegað læknismat frá lækni sem staðfesti að geta hans hafi verið jafn skert frá því fyrir árið 2021. Tryggingastofnun hafi ekki haft ekki áhuga á því að fá læknismat frá þeim tíma, sem hafi verið mikil vonbrigði.

Það sérstaka í þessu sé að allir lífeyrissjóðir taki undir kröfu kæranda og hafi greitt eingreiðslur frá og með 1. janúar 2021. Lífeyrissjóðirnir hafi staðfest að kærandi hafi raunverulega verið með skerta getu síðan 2013/2014.

Árið 2013 hafi kærandi verið lagður inn á geðdeild í fyrsta skipti og hafi þurft að hætta á vinnumarkaði. Síðan þá hafi hann verið reglulegur gestur á geðspítalanum í B í Danmörku. Hann hafi farið í ótal starfsþjálfanir með lélegum árangri og árið 2021 hafi verið ákveðið sækja um varanlega örorku fyrir kæranda.

Árið 2020 hafi hann verið lagður inn á D spítala eftir sjálfsvígstilraun þar sem hann hafi legið í dái í X daga áður en hann hafi rankað við sér. Í kjölfarið hafi hann verið lagður inn á geðspítala og nokkrum mánuðum seinna hafi hann aftur verið lagður inn á spítala vegna sjálfsvígstilraunar. Kærandi hafi haft sérstaka stuðningspersónu síðan 2013, sem komi og aðstoði hann við daglegt líf. Hún hafi reynst honum mikill styrkur.

Hjúkrunarfræðingar komi þriðja hvern dag og hafi gert um árabil til þess að flokka og leysa út lyfin hans. Lyfin hafi verið í læstum kassa síðan hann hafi reynt að taka sitt eigið líf árið 2020. Hjúkrunarfræðingur komi á hverjum fimmtudegi til þess að athuga hvernig hann hafi það og sjái til þess að hann sé í jafnvægi.

Kærandi eigi erfitt með að lifa eðlilegu lífi án töluverðar aðstoðar og sú aðstoð hafi verið óbreytt í áraraðir. Greiningin hans sé ekki tilkomin vegna einhvers sem hafi gerst 1. febrúar 2022. Kærandi hafi verið veikur mun lengur og líti læknar svo á að hann komi aldrei til með að geta lifað eðlilegu lífi án aðstoðar.

Í athugasemdum kæranda, dags. 19. júlí 2023, segir að kærandi furði sig á rökum Tryggingastofnunar ríkisins. „Flex job“ hafi ekki verið til þess að sýna fram á að kærandi hefði möguleika á starfsendurhæfingu í framtíðinni heldur hafi „flex job“ reynslan sýnt dönskum yfirvöldum fram á það að hann ætti ekki afturkvæmt á vinnumarkað. Kærandi sé með „fultidspension“ og þurfi aldrei að fara í endurmat aftur í Danmörku, enda hafi hann verið með mjög ítarlegt mat frá 2021 til 2023. Kærandi skilji því ekki hvernig Tryggingastofnun komist að því að það ýti undir möguleika hans að komast aftur út á vinnumarkaðinn eins mikið og hann vilji það. „Flex job“ hafi alltaf endað illa fyrir hann og valdið vinnuveitanda hans óþægindum.

Örorkumat hans í Danmörku hafi verið framkvæmt 2021 til 2022, sem sýni augljóslega að ástand hans hafi verið jafn slæmt ef ekki verra en það sé í dag. Kærandi sæki um afturvirkar greiðslur örorkulífeyris þar sem hann telji að ástand sitt hafi verið jafnslæmt 2021 og 2022, líkt og lífeyrissjóðirnir hafi staðfest með afgreiðslu þeirra í máli kæranda.

Í læknisvottorði E, dags. 11. febrúar 2021, komi fram að allir möguleikar til frekari lækningar kæranda hafi verið reyndir. Möguleikar hans á atvinnu séu verulega takmarkaðir ef ekki útilokaðir og hafi það verið staðfest af D og F sem hafi staðfest varanlega örorku hans. Læknisvottorðið sýni að staða hans hafi verið jafnslæm þá eins og hún sé í dag.

Tryggingastofnun segi að stofnunin fylgi leiðbeiningum sem komi frá Danmörku en svo virðist sem valið sé hvað henti hverju sinni, líkt og að endurgreiða ekki þær greiðslur sem lífeyrissjóðir samþykkja og séu þar af leiðandi einu greiðendur lífeyris sem geri það ekki.

Tryggingastofnun telji að „flex job“ sanni að kærandi geti starfað í framtíðinni, þegar raunin hafi verið sú að „flex job“ hafi verið notað til að sýna að hann muni ekki geta starfað í eðlilegu umhverfi í framtíðinni. Nema að það verði einhver framför í læknavísindum eða meðferðarúrræðum. Örorka hans í Danmörku sé varanleg en hjá Tryggingastofnun þurfi hann að fara í endurmat tveimur árum eftir að hann fái samþykkta örorku. Kæranda virðist sem Tryggingastofnun taki út ákveðna þætti sem stofnuninni henti hverju sinni.

Í athugasemdum kæranda, dags. 8. ágúst 2023, segir að „flex job“ sé ekki til að undirbúa hann undir störf í framtíðinni heldur til að athuga hvort hann hafi getu til að starfa á vinnumarkaði. Það hafi komið í ljós eftir fjórar tilraunir að það hafi ekki gengið. Kærandi hafi látið fylgja með mat frá geðlækni, dags. 11. febrúar 2021, sem hafi verið lykilgagn í því að hann hafi fengið örorku í Danmörku. Kærandi sjái ekki hvernig hann eigi ekki rétt á þessum greiðslum.

III.  Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins

Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins kemur fram að kærð sé synjun á örorkumati um afturvirkt tímabil hjá Tryggingastofnun ríkisins, [dags. 20. janúar 2023]. Í synjunarbréfi hafi kæranda verið synjað um afturvirkt tímabil á örorkumati frá 1. janúar 2021 til febrúar 2022. Samþykkt hafi verið að veita kæranda örorkulífeyri frá 1. febrúar 2022 en ekki lengra aftur í tímann, þar sem ekki lægju forsendur fyrir frekari afturvirkni hjá kæranda, sbr. niðurstöður úr læknisvottorði frá Danmörku. Því hafi verið byggt á fyrra mati og ekki ástæða til að lengja afturvirkt tímabil á örorkulífeyri kæranda frá janúar 2021 til 1. febrúar 2022 eins og óskað hafi verið eftir, þar sem gögn málsins hafi ekki stutt slíka ákvörðun.

Örorkulífeyrir greiðist samkvæmt þágildandi 18. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar þeim sem séu metnir til að minnsta kosti 75% örorku til langframa vegna afleiðinga læknisfræðilegra viðurkenndra sjúkdóma eða fötlunar. Tryggingastofnun ríkisins meti örorku þeirra sem sæki um örorkubætur. Um framkvæmd örorkumats sé fjallað í reglugerð nr. 379/1999 um örorkumat.

Í niðurlagi þágildandi 2. mgr. 18. gr. almannatryggingalaga komi fram að heimilt sé að setja það skilyrði að umsækjandi gangist undir sérhæft mat á möguleikum til endurhæfingar og viðeigandi endurhæfingu áður en til örorkumats komi, sbr. 7. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð.

Kærandi hafi verið skráður um tíma í „Flex job“ í Danmörku sem þýði að hann gæti mögulega farið í einhverja endurhæfingu sem stuðli að því að hann geti farið á vinnumarkaðinn að einhverju leyti og sinnt til dæmis hlutastarfi við hæfi. Það sé eitt af markmiðum almannatryggingabótakerfisins að fá greiðsluþega frekar út á almennan vinnumarkað en að þiggja örorkubætur til lengri tíma ef möguleiki sé á einhverri endurhæfingu.

Þá sé í þágildandi 37. gr. laga um almannatryggingar meðal annars kveðið á um að Tryggingastofnun ríkisins skuli kynna sér aðstæður umsækjenda og greiðsluþega og gera þeim grein fyrir rétti þeirra samkvæmt lögum þessum og öðrum lögum er stofnunin starfi eftir, reglugerðum settum á grundvelli laganna og starfsreglum stofnunarinnar. Við meðferð máls skuli staða og réttindi umsækjanda eða greiðsluþega skoðuð heildstætt. Stofnunin skuli leiðbeina umsækjanda um réttarstöðu hans, þau gögn sem þurfi að fylgja umsókn og um framhald málsins og hafi því öllu verið sinnt í máli þessu.

Kærandi hafi sótt um örorku þann 13. janúar 2023 og sótt um afturvirkt frá 1. janúar 2021. Honum hafi verið synjað þann [20. janúar 2023] á þeim forsendum að samkvæmt læknisfræðilegu mati sérfræðinga Tryggingastofnunar ríkisins þættu ekki forsendur til þess að meta afturvirkt frá þeim tíma þar sem ekki lægju fyrir gögn sem myndu styðja það.

Kærandi hafi nokkrum sinnum reynt sjálfsvíg miðað við læknisfræðileg vottorð og hafi glímt við geðrænan vanda í dágóðan tíma. Hann hafi búið hjá móður sinni og með ketti sínum og eigi frekar erfitt með daglega rútínu svo sem þrif og eldamennsku, sbr. læknisvottorð frá Danmörku, dags. 28. september 2022. Hann hafi verið frá um 2015 inn og út af geðdeild og taki nokkrar tegundir af lyfjum daglega til þess að halda geðheilsunni góðri og viðhalda nokkurn veginn jafnaðargeði. Kærandi hafi verið af og til með […] en annars nokkuð einangraður, eða út af fyrir sig í lífinu. Hann hafi haft sjálfsvígshugsanir lengi. Kærandi sé í yfirvigt og hafi reykt lengi. Svefninn sé orðinn aðeins betri en áður, kærandi vakni nokkrum sinnum á nóttu en sé fljótur að sofna aftur.

Kærandi hafi verið greindur með geðhvarfasýki fyrir nokkrum árum og hafi verið á geðdeyfðarlyfjum síðan. Hann hafi verið lagður reglulega inn á spítala í Danmörku vegna endurtekinnar geðdeyfðar og örlítils ójafnvægis í geðheilsu. Einnig sé talað um skerta starfshæfni, sbr. læknisvottorð, dags. 28. september 2022. Kærandi eigi nokkurra ára sögu um misnotkun á áfengi og sígarettum og hafi verið greindur með kvíða og þunglyndi um nokkurt skeið. Kærandi hafi verið á vinnumarkaði í dágóðan tíma og með langa sögu um depurð. Samkvæmt læknisvottorði, dags. 20. apríl 2020, hafi hann verið með góðan augnkontakt og venjulegt geðslag og hlakki til að vera meira utandyra, en kærandi hafi lítið verið utandyra síðustu daga. Hann hafi talað um að hafa haft fjóra mismunandi „heima“ í höfðinu sínu og hafi ekki upplifað slíkt áður og hafi talið það vera vegna þess að hann hefði fengið ný lyf sem færu illa í hann. Hann hlakki til að fara aftur í fótboltalið sitt ef hann gæti það sökum heilsu. Honum hafi fundist hann vera verri af nýju lyfjunum og vera að upplifa eins og lifandi martröð. Hann sé með fjárhagslegan stuðning frá bænum. Kærandi segist smá hræddur við að upplifa aftur slæmar óraunverulegar hugsanir sem séu óþægilegar.

Samkvæmt læknisvottorði hafi hann verið útskrifaður þann 28. september 2022 og hafði tekið inn 18 gr af quetapine og hafi því verið lagður inn á gjörgæslu. Kærandi hafi neitað því að hafa tekið lyfin í sjálfsvígstilraun. 

Kærandi virðist vera orðinn betri í dag varðandi sjálfsvígshugsanir og í betra jafnvægi en áður. Hann muni líklega taka þátt í sálfræðimeðferð í B sem stuðli að betri andlegri líðan þegar þar að komi.

Ekki sé ljóst hvaða tegund af endurhæfingu muni koma að gagni en vonandi eitthvað úrræði sem kærandi geti nýtt sér með það að markmiði að komast aftur út á vinnumarkað. Hjúkrunarfræðingar komi þrisvar sinnum í viku til hans og hafi gert í árabil til þess að flokka lyf hans og veita honum sinn daglega lyfjaskammt þar sem honum sé ekki treyst til þess að taka lyfin sjálfur. Þess vegna séu þau læst í lyfjaboxi.

Þegar hann hafi náð betra jafnvægi í geðheilsu muni hann taka þátt í sálfræðilegri hópmeðferð í B fyrir þau sem meðal annars þjáist af geðhvarfasýki.

Af öllu framangreindu sé niðurstaða mats Tryggingastofnunar sú að kærandi uppfylli ekki skilyrði til þess að hljóta afturvirka örorku frá tímabilinu sem hann sækist eftir eða frá 1. janúar 2021, sbr. m.a. þágildandi 4. mgr. 53. gr. laga nr. nr. 100/2007 um almannatryggingar þar sem kveðið sé á um heimild til þess að ákvarða bætur allt að tvö ár aftur í tímann ef skilyrði um það séu uppfyllt og nauðsynleg gögn fyrir hendi.

Kærandi vísi í að hann eigi 100% rétt á Íslandi eins og hver annar borgari þó hann búi í Danmörku og eins og hann skilji það gildi ekki sömu lög í Danmörku og á Íslandi. Hann telji að hann eigi rétt á greiðslum frá þeim tíma sem hann hafi sótt um örorku í Danmörku..

Upphafstími örorkumats sé metinn á grundvelli fyrirliggjandi læknisfræðilegra upplýsinga og staðfestingar á óvinnufærni sem samkvæmt P2200 vottorði sé 1. febrúar 2022. Miðað við fyrirliggjandi gögn, læknisfræðileg og önnur í þessu máli hafi sérfræðingar Tryggingastofnunar metið það svo að frekari afturvirkni lægi ekki fyrir og því standi fyrrgreint mat kæranda.

Samkvæmt P2200 vottorði frá Danmörku sé það svo að kærandi sé úrskurðaður með „fultidspension“ frá 1. febrúar 2022 og mat Tryggingastofnunar sé til samræmis við þann úrskurð enda sé það yfirleitt svo að stofnunin ákvarði í samræmi við úrskurði sem fram fari í hinum norrænu ríkjunum og þyrfti mikið til þess að hnekkja þeim ákvörðunum.

Þar á undan hafi kærandi fengið „kontanthjælp“ frá 1. ágúst 2018 til og með 31. janúar 2022 sem útiloki endurkomu á vinnumarkað og því sé hann mögulega endurhæfanlegur.

IV.  Niðurstaða

Mál þetta varðar ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 20. janúar 2023 þar sem umsókn kæranda um örorkulífeyri og tengdar greiðslur var samþykkt frá 1. febrúar 2022 og var gildistími matsins ákvarðaður til 30. apríl 2025. Ágreiningur málsins lýtur að því hvort kærandi eigi rétt á frekari afturvirkum greiðslum örorkulífeyris.

Samkvæmt þágildandi 1. mgr. 18. gr. laga um almannatryggingar eiga þeir rétt til örorkulífeyris sem metnir eru til að minnsta kosti 75% örorku til langframa vegna afleiðinga læknisfræðilega viðurkenndra sjúkdóma eða fötlunar. Samkvæmt þágildandi 1. mgr. 19. gr. sömu laga skal Tryggingastofnun ríkisins, að tilteknum skilyrðum uppfylltum, veita einstaklingi örorkustyrk ef örorka hans er metin að minnsta kosti 50%. Samkvæmt þágildandi 2. mgr. 18. gr. laga um almannatryggingar metur Tryggingastofnun ríkisins örorku þeirra sem sækja um örorkulífeyri samkvæmt sérstökum örorkustaðli. Örorkustaðallinn er byggður upp af stöðluðum spurningum sem varða líkamlega og andlega færni viðkomandi. Almennt er leitað eftir svörum og mati umsækjanda sjálfs á þeim spurningum sem í staðlinum eru. Enn fremur liggur fyrir skoðunarskýrsla læknis sem á grundvelli skoðunar og viðtals við umsækjanda fyllir út staðalinn. Umsækjandi fær stig miðað við færni sína. Til að metin verði 75% örorka þarf að ná fimmtán stigum í líkamlega hluta staðalsins eða tíu stigum í andlega hlutanum eða sex stigum í báðum. Í undantekningartilvikum er samkvæmt 4. gr. reglugerðar nr. 379/1999 um örorkumat hægt að meta viðkomandi utan staðals.

Samkvæmt þágildandi 1. mgr. 52. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar skal sækja um allar bætur samkvæmt þeim lögum. Örorkubætur reiknast frá fyrsta degi næsta mánaðar eftir að bótaréttur er fyrir hendi samkvæmt þágildandi 1. mgr. 53. gr. laganna. Samkvæmt þágildandi 4. mgr. nefndrar 53. gr. skulu bætur aldrei ákvarðaðar lengra aftur í tímann en tvö ár frá því að umsókn og önnur gögn, sem nauðsynleg eru til að unnt sé að taka ákvörðun um bótarétt og fjárhæð bóta, berst Tryggingastofnun.

Af framangreindu má ráða að örorkulífeyrir skal reiknaður frá fyrsta degi næsta mánaðar eftir að bótaréttur er fyrir hendi en þó aldrei lengra aftur í tímann en tvö ár frá því að umsókn og önnur nauðsynleg gögn berast Tryggingastofnun ríkisins. Við mat á upphafstíma örorkumats kæranda lítur úrskurðarnefnd velferðarmála til þess frá hvaða tíma kærandi uppfyllti skilyrði 75% örorku. Þegar úrskurðarnefndin metur hvort skilyrði örorku séu uppfyllt aftur í tímann horfir úrskurðarnefndin til þess hvers eðlis sjúkdómur eða fötlun viðkomandi er. Margs konar líkamleg fötlun er þess eðlis að hún kemur fram strax við fæðingu eða til dæmis við slys þannig að viðkomandi uppfyllir ótvírætt skilyrði örorku. Í öðrum tilvikum geta veikindi eða fötlun verið þess eðlis að hún sé hægt versnandi eða breytileg frá einum tíma til annars, svo sem ýmis andleg veikindi og hrörnunarsjúkdómar. Úrskurðarnefndin horfir einnig til þess hvort fyrir liggja samtímagögn, svo sem læknisvottorð eða mat annarra sambærilegra sérfræðinga, sem séu það ítarleg og skýr að byggja megi á þeim mat á örorku.

Eins og áður hefur komið fram var kærandi talinn uppfylla læknisfræðileg skilyrði örorkulífeyris með örorkumati, dags. 20. janúar 2023, og var upphafstími matsins ákvarðaður frá 1. febrúar 2022.

Meðfylgjandi umsókn kæranda um örorkulífeyri var læknisvottorð G, dags. 28. september 2022. Í vottorðinu er greint frá eftirfarandi sjúkdómsgreiningum:

„Bipolær affektiv sindslidelse

Alkoholafhængigheds syndrom“

Í læknisvottorðinu segir að kærandi hafi verið óvinnufær frá 2013 og að ekki megi búast við því að færni aukist.

Í læknisvottorði E, dags. 11. febrúar 2021, segir meðal annars:

„Til dette skal oplyses at A i det folgende benævnt A følges i dette ambulatorie under ovenstående diagnose. Behandling består af medicinering mod den bipolare sygdom, regelmæssige samtaler mcd en sygeplejefaglig kontaktperson og andre tværfaglige medlemmer af behandlingsteamet, oftest som udkørende indsats i form af hjemmebesøg.

A er blevet tilbudt gruppebaseret psykoedukation som en del af behandlingen, men har grundet forværring af symptomerne ikke opstartet. Hos den pågældende er der tale om en livslang tilstand, som foruden at vare episodisk med stemningssvingninger også har medført en form for kognitiv dysfunktion (forringet evner ifm. Tænkning, såsom visse forstyrrelser i opmærksomheds- og koncentrationsevne, andre udfordringer i arbejdshukommelsen, samt påvirkning af højere funktioner såsom evne til kompleks indlæring, planlægning og tilpasning til nve uforudsete situationer. Ud over de benævnte symptomer ved den bipolare sygdom lider A yderligere af tvangssymptomer, i form af gentagne påtrængende ubehagelige tanker omhandlende tilskyndelser til bl.a. selvmord og selvskade, samt en impulsivitet ift. handlinger af denne art. Disse specifikke symptomer opfattes som enkeltstående fænomen som ikke nødvendigvis er direkte relateret til stemningssvingninger, idet tvangstankerne også forekommer i perioder af stemningsstabilitet.

Der er tale om en forholdsvis ugunstig prognose af følgende årsager: tidlig symptom-debut af både stemningssvinger og tvangssymptomerne, lav uddannelsesniveau og derved laver intellektuel/kognitiv formåen forud for symptomdebut, hvilket en ensbetydende en lavere kognitiv reserve, dvs. ugunstigt udgangspunkt for den kognitiv dysfunktion som siden er hændt som konsekvens af den bipolare sygdoms progression. Derudover er komorbiditet med tvangssymptomer en yderligere ugunstig prognostisk faktor. A tilstand er meget svingende, også selvom man har reguleret den medicinsk stemningsstabilserende behandling til at imødegå episoder af depression, mani eller blandingstisltande. De anførte symptomer, særligt den kognitive dysfunktion afspejler sig i pågældendes funktionsindskrænkning hvad angår svært formindsket evne til at bo selvstændigt (A har i mange år boet hos [...], som varetager de instrumentelle funktioner i hjemmet, noget som A ikke evner at bidrage til).

Det erkendes, at langt de fleste af A's mange alvorlige og impulsive selvmordsforsøg er sket på baggrund af tvangssymptomerne, som han også selv identificerer som mest invaliderende symptom. for hvilket der på nuværende tidspunkt ikke findes flere medicinske behandlingsmuligheder. I stedet har man erkendt at A kan i nogle måneders perioder være stabilt på langt de fleste punkter ved hjælp af fast daglig struktur, rutiner med regelmæssighed og tilpas forudseelighed, hvilet han i allerhøjeste grad profiterer af.

Overordnet er der tale om en tilstand som er stationær i den betragtning at der er tale om en livsvarig og fasisk tilstand, som skønnes at have indtaget et kronisk forløb idet den både har været længevarende og yderligere kompliceret af kognitiv dysfunktion. De egentlige muligheder for medicinsk behandling vurderes som udtømt. Man kan ikke på det foreliggende forvente en bedring i tilstanden som gør at funktionsniveauet følger med.

Det bør dog nævnes, at visse aspekter ved et arbejde kunne bidrage til en struktureret hverdag hos A, bidrage til social interaktion og på andenvis være meningsfuld. Dog er det ikke realistisk at forvente at A kunne derudefra varetage et arbejde på ordinære vilkår.

Såfremt man alligevel beslutter at iværksætte erhvervsfremmende aktivitet, uanset mål ville det være vigtigt at pågældendes kognitive dysfunktion imødegås, f,eks. ved planlagning af en gradueret opstart, samt en primær fokus på struktur og forudseelighed når muligt. Der bør tages hensyn til disse problemer således at A undgår udvikling af stress,/belastning som kunne medføre væsentlig forværring af det psykiske helbred. Det skønnes vigtigt at A ikke unødigt bliver presset til at gennemføre opgaver som overstiger hans nuvarende kognitiv formåen, som I værste fald kunne det udmønte sig i yderligere instabilitet.“

Fyrir liggur sjúkraskrá kæranda frá tímabilinu 12. janúar 2016 til 20. apríl 2020. Í nótu H sálfræðings, dags. 12. janúar 2016, segir meðal annars að kærandi hafi leitað á bráðamóttöku vegna þunglyndiseinkenna og sjálfsvígshugsana. Þá segir að kærandi sé með geðhvarfasýki. Kærandi var lagður inn X 2015 og útskrifaður X 2016 þar sem hann var ekki talinn með virkar sjálfsvígshugsanir. Í nótu I yfirlæknis, dags. 8. júlí 2016, segir að kærandi hafi oft sótt þjónustu geðsviðs síðustu þrjú ár. Hann hafi tilhneigingu til einangrunar og eigi það til að taka skyndilega bráðar sveiflur í skapi. Þá eigi hann stundum við svefnvandamál og kvíða að stríða. Hann hafi haft langvarandi sjálfsvígshugsanir og áfengisvandamál en væri þessa stundina ekki að drekka áfengi. Í nótu Í sálfræðings, dags. 3. ágúst 2018, kemur fram að kærandi hafi verið lagður inn á geðdeild frá X til X 2018 vegna vaxandi þunglyndiseinkenna, uppgjafar auk áhugaleysis á persónulegri umhirðu. Þá kemur fram að hann sé með vaxandi sjálfsvígshugsanir. Við útskrift segir að hann geti forðast að bregðast við sjálfsvígshugsunum og dregið athygli sína frá því að vilja skaða aðra. Kærandi hafi verið útskrifaður þó lengri sjúkrahúsvist væri æskileg. Þá kemur fram að framfarir hafi orðið með svefn hans og góður ávinningur hafi fengist af því að losa um gremju og reiði í líkamsrækt. Enn fremur segir að kærandi hafi ekki þörf fyrir áfengi en eigi erfitt með hversdagsleg verkefni eins og þrif og eldamennsku. Í bráðamóttökuskrá J læknanema, dags. 20. apríl 2020, segir meðal annars að kærandi hafi komið fré D sjúkrahúsinu þar sem hann hefði legið inni síðan 1. apríl eftir að hafa tekið inn 18 gr af quetiapine og hefði hann meðal annars verið á gjörgæslu í öndunarvél. Kærandi hafi sagt að hann hafi ekki tekið töflurnar í sjálfsvígsskyni heldur vegna þess að hann hafi farið í geðrof og tekið töflurnar í von um að komast aftur í raunveruleikann. Hann hafi upplifað það eins og hann væri vakandi í martröð, líkt og það væru fjórir mismunandi heimar í höfðinu á honum. Þá sagði hann að hann hefði sofið vel þá vikuna. Kærandi var ekki metinn í sjálfsvígshættu og engar ofskynjanir eða ranghugmyndir greindust í viðtali.

Mál þetta varðar kröfu um afturvirkar greiðslur örorkulífeyris. Með örorkumati Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 20. janúar 2023, var kæranda metinn örorkulífeyrir frá 1. febrúar 2022 til 30. apríl 2025. Kærandi krefst þess að upphafstíminn verði ákvarðaður lengra aftur í tímann.

Úrskurðarnefnd velferðarmála, sem meðal annars er skipuð lækni, leggur sjálfstætt mat á öll gögn málsins. Tryggingastofnun miðaði upphafstíma örorkumats kæranda við 1. febrúar 2022, þ.e. þegar kærandi hóf greiðslur örorkulífeyris frá Danmörku. Í læknisvottorði G, dags. 28. september 2022, sem fylgdi umsókn kæranda um örorkulífeyri kemur fram að kærandi hafi verið óvinnufær frá 2013. Í P2200 eyðublaði frá Danmörku kemur fram að kærandi hafi verið óvinnufær frá 30. september 2014. Af læknisvottorði E og sjúkraskrá vegna tímabilsins 12. janúar 2016 til 20. apríl 2020 verður ráðið að kærandi var greindur með geðhvarfasýki fyrir árið 2016 og hefur verið að glíma við alvarleg veikindi í mörg ár. Auk þess má ráða af framangreindum gögnum að mörg ár eru síðan starfsendurhæfing reyndist óraunhæf. Úrskurðarnefndin telur því ljóst að kærandi uppfyllti læknisfræðileg skilyrði fyrir greiðslum örorkulífeyris mun fyrr en 1. febrúar 2022.    

Samkvæmt þágildandi 1. mgr. 53. gr. laga um almannatryggingar reiknast örorkubætur frá fyrsta degi næsta mánaðar eftir að bótaréttur er fyrir hendi samkvæmt. Þó skulu bætur aldrei ákvarðaðar lengra aftur í tímann en tvö ár frá því að umsókn og önnur gögn, sem nauðsynleg eru til að unnt sé að taka ákvörðun um bótarétt og fjárhæð bóta, berst Tryggingastofnun, sbr. þágildandi 4. mgr. 53. gr. laganna. Fyrir liggur að umsókn kæranda um örorkulífeyri barst Tryggingastofnun 1. janúar 2023 og því telur úrskurðarnefndin að upphafstími örorkumats kæranda skuli vera 1. febrúar 2021, sbr. þágildandi 53. gr. laganna, enda uppfyllti kærandi þá þegar læknisfræðileg skilyrði örorkulífeyris að mati úrskurðarnefndarinnar.

Með vísan til þess, sem rakið hefur verið hér að framan, er ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 20. janúar 2023 um upphafstíma örorkumats kæranda felld úr gildi. Upphafstími örorkumatsins skal vera 1. febrúar 2021.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins í máli A, um upphafstíma örorkumats, er felld úr gildi. Upphafstími örorkumatsins skal vera 1. febrúar 2021.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir

 

 

 

 

 

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta