Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 62/2010

Úrskurður

Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða þann 7. desember 2010 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A, nr. 62/2010.

 

1.

Málsatvik og kæruefni

Málsatvik eru þau að kærandi, A, sótti um greiðslur atvinnuleysistrygginga frá Vinnumálastofnun þann 15. febrúar 2010. Daginn eftir, þann 16. febrúar 2010, skilaði hann tilkynningu um afskráningu af launagreiðendaskrá til ríkisskattstjóra. Bótaréttur kæranda var, í samræmi við framlögð gögn, reiknaður 47% af grunnatvinnuleysisbótum. Honum var auk þess reiknuð tekjutenging í þrjá mánuði. Kærandi óskar þess að atvinnuleysistryggingar hans verði hækkaðar í 100% auk þess sem hann fái tekjutengingu.

Kærandi kveðst hafa starfað sem verktaki hjá X hf. frá árinu 2002. Framan af hafi hann verið í hálfu starfi, en árið 2005 hafi annar starfsmaður félagsins hætt og hafi kærandi eftir það verið í fullu starfi. Vegna fjárhagslegra erfiðleika fyrirtækisins hafi laun hans þó ekki breyst. Kærandi kveðst hafa greitt staðgreiðslu af 241.000 kr. á mánuði. Tekjur hans árið 2008 hafi verið 4.276 þúsund krónur og árið 2009 hafi þær verið 4.160 þúsund krónur.

Í greinargerð Vinnumálastofnunar, dags. 14. október 2010, kemur fram að mál þetta varði útreikning á bótarétti kæranda til greiðslu atvinnuleysistrygginga. Þar sem kærandi hafi verið sjálfstætt starfandi áður en hann hafi sótt um greiðslur atvinnuleysistrygginga fari um ávinnslutímabil hans eftir 19. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006. Samkvæmt 2. mgr. 1. tölul. A-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, skuli maður sem vinnur við eigin atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi reikna sér til tekna eigi lægra endurgjald fyrir starfið en hann hefði haft sem laun fyrir það hjá óskyldum eða ótengdum aðila. Fjármálaráðherra skuli að fengnum tillögum ríkisskattstjóra setja við upphaf árs reglur um reiknað endurgjald fyrir vinnu við eigin atvinnurekstur og ákveða viðmiðunarfjárhæðir fyrir lágmark þess með hliðsjón af raunverulegum tekjum fyrir sambærileg störf. Samkvæmt upplýsingum frá ríkisskattstjóra sé kærandi skráður í flokk A5. Lágmarksviðmiðun fyrir reiknað endurgjald sjálfstætt starfandi einstaklings í flokki A5 nemi 517 þúsund krónum á mánuði. Kærandi hafi greitt sér 241 þúsund krónur í mánaðarlaun á ávinnslutíma. Samkvæmt 2. mgr. 19. gr. laga um atvinnuleysistryggingar ákvarðist tryggingarhlutfall kæranda af hlutfalli milli viðmiðunarfjárhæð ríkisskattstjóra og fjárhæðar hins reiknaða endurgjalds sem greitt hafi verið af starfi hans. Tryggingarhlutfall kæranda sé því 47%.

Kæranda var send greinargerð Vinnumálastofnunar með bréfi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 19. október 2010, og var honum veittur frestur til 2. nóvember 2010 til að koma frekari athugasemdum á framfæri í máli þessu. Kærandi nýtti sér það ekki.

 

2.

Niðurstaða

Sjálfstætt starfandi einstaklingar eru tryggðir samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar þegar þeir verða atvinnulausir skv. 1. gr., sbr. b-lið 3. gr. laganna. Í IV. kafla laganna er fjallað um skilyrði fyrir atvinnuleysistryggingum sjálfstætt starfandi einstaklinga. Samkvæmt h-lið 1. mgr. 18. gr. laganna telst sjálfstætt starfandi einstaklingur tryggður samkvæmt lögunum ef hann hefur staðið skil á greiðslu tryggingagjalds og staðgreiðsluskatts af reiknuðu endurgjaldi samkvæmt ákvörðun skattyfirvalda við stöðvun rekstrar. Í 4. mgr. 19. gr. laganna segir að til að finna vinnuframlag sjálfstætt starfandi einstaklinga á ávinnslutímabili skv. 1. og 2. mgr. lagagreinarinnar skuli taka mið af skrám skattyfirvalda, sbr. einnig h-lið 1. mgr. 18. gr.

Eins og greinir í rökstuðningi Vinnumálastofnunar er kærandi skráður í flokk A5 sem sjálfstætt starfandi einstaklingur og er lágmarksviðmiðun fyrir reiknað endurgjald 517 þúsund kr. á mánuði. Framhjá þessu verður ekki horft við ákvörðun bótaréttar kæranda. Kærandi ákvað að greiða sér einungis hluta þessara lágmarksviðmiðunarlauna eða einungis 47%. Samkvæmt reglum laga um atvinnuleysistryggingar gat kærandi því ekki eignast meiri rétt til greiðslna úr atvinnuleysisbótakerfinu. Á grundvelli þess verður ekki hjá því komist að staðfesta hina kærðu ákvörðun.

Af framansögðu er ljóst að útreikningur Vinnumálastofnunar á bótarétti kæranda er í samræmi við 18. og 19. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Ákvörðun Vinnumálastofnunar er því staðfest.

 

Úr­skurðar­orð

Ákvörðun Vinnumálastofnunar um 47% tryggingarhlutfall til handa A er staðfest.

 

 

Brynhildur Georgsdóttir, for­maður

Hulda Rós Rúriksdóttir

Helgi Áss Grétarsson

 




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta