Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 80/2010

Úrskurður

Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða þann 7. desember 2010 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A nr. 80/2010.

1.

Málsatvik og kæruefni

Málsatvik eru þau að kærandi, A, sótti um atvinnuleysisbætur 4. janúar 2010 og fékk greiddar bætur í samræmi við rétt sinn. Vinnumálastofnun stóð kæranda að vinnu fyrir X ehf. þann 4. mars 2010 og var honum með bréfi, dags. 30. apríl 2010, tilkynnt að greiðslur atvinnuleysistrygginga til hans yrðu stöðvaðar af þeim sökum og var honum jafnframt gert að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur að fjárhæð 52.693 kr. fyrir það tímabil sem hann uppfyllti ekki skilyrði laga um atvinnuleysistryggingar. Kærandi vill ekki una þessari ákvörðun og kærði hana til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða með erindi mótteknu 14. maí 2010. Hann krefst þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. Vinnumálastofnun krefst þess að hin kærða ákvörðun verði staðfest.

Kærandi sótti um atvinnuleysisbætur í ársbyrjun 2010 og hóf töku atvinnuleysisbóta frá og með 4. janúar 2010. Í kæru kæranda kemur fram að honum hafi verið boðin aukavinna hjá X ehf. í kringum 20. desember 2009 en hann lét þess ekki getið í umsókn sinni um atvinnuleysisbætur. Eftirlitsmenn Vinnumálastofnunar stóðu kæranda að því að vera við vinnu þann 4. mars 2010 og í kjölfarið var kæranda tilkynnt að greiðslur atvinnuleysisbóta til hans væru stöðvaðar frá og með 19. febrúar 2010 og að hann hefði frest til 26. mars að skýra mál sitt, sbr. bréf Vinnumálastofnunar dags. 18. mars 2010. Kærandi benti á að hann hefði stundað verktakavinnu í nokkra daga fyrir X ehf. í janúar og febrúar og lagði fram gögn sem staðfestu það. Fjárhæð reikninganna nam samtals 85.600 kr. en engir reikningar hafa verið lagðir fram vegna vinnu hans fyrir X ehf. í mars 2010. Við þetta sama tækifæri tilkynnti kærandi um tekjur fyrir tilfallandi vinnu, sbr. eyðublað dags. 23. mars 2010.

Vinnumálastofnun tilkynnti kæranda með bréfi, dags. 30. apríl 2010, þá ákvörðun sína að stöðva greiðslur atvinnuleysisbóta til hans og var það niðurstaða stofnunarinnar að kærandi ætti ekki rétt á slíkum greiðslum fyrr en hann hefði starfað í a.m.k. tólf mánuði á innlendum vinnumarkaði, sbr. 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Kæranda var jafnframt gert að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur að fjárhæð 52.693 kr. fyrir það tímabil sem hann uppfyllti ekki skilyrði laga um atvinnuleysistryggingar.

Í kæru til úrskurðarnefndarinnar kveðst kærandi hafa tilkynnt verkkaupanum sem hann vann hjá að hann væri á atvinnuleysisbótum og sér hafi þá verið tjáð að hann mætti vinna fyrir allt að 50.000 kr. á mánuði án þess að það skerti bætur. Í upphafi hafi verið um að ræða tímabundna vinnu sem hann hafi síðan ílengst í og honum hafi ekki verið kunnugt að hann væri að brjóta lög.

Í greinargerð Vinnumálastofnunar til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 14. október 2010, kemur fram að með lögum nr. 134/2009 um breytingar á lögum um atvinnuleysistryggingar hafi verið gerðar veigamiklar breytingar á 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Ákvæðið mælir fyrir um hvaða atvik geti leitt til þess að viðurlögum sé beitt samkvæmt því. Fram komi í athugasemdum með 23. gr. frumvarpsins, er varð að lögum nr. 134/2009, að meðal annars komi til greina að beita viðurlögum á grundvelli ákvæðisins þegar atvinnuleitandi gefi stofnuninni „vísvitandi rangar upplýsingar“ sem leiði til þess að atvinnuleitandi teljist ranglega tryggður að fullu eða að hluta. Þá sé gert ráð fyrir því að Vinnumálastofnun beiti viðurlögunum ef atvinnuleitandi starfi á innlendum vinnumarkaði á sama tíma og hann fái greiddar atvinnuleysisbætur án þess að tilkynna stofnuninni um að atvinnuleit sé hætt skv. 35. gr. a eða 10. gr. laganna. Enn fremur komi fram í athugasemdum með 23. gr. frumvarpsins að breytingar á 60. gr. laganna sé mikilvægur liður í því að sporna við svartri atvinnustarfsemi þar sem atvinnuleitendur sem fái greiddar atvinnuleysisbætur verði að tilkynna fyrirfram um hina tilfallandi vinnu eða samdægurs í nánar tilgreindum undantekningartilvikum.

Í ljósi afdráttarlauss orðalags 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar og þeirrar skyldu sem hvíli á atvinnuleitendum til að tilkynna um tilfallandi vinnu til stofnunarinnar, sbr. 35. gr. a laga um atvinnuleysistryggingar, verði að telja kæranda hafa brugðist skyldum sínum. Verði ekki séð að skiljanlegar ástæður séu fyrir því að kærandi hafi látið undir höfuð leggjast að tilkynna stofnuninni um vinnu sína. Það sé niðurstaða Vinnumálastofnunar að stöðva skuli greiðslu atvinnuleysistrygginga til kæranda og að hann skuli ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta fyrr en hann hafi starfað a.m.k. tólf mánuði á innlendum vinnumarkaði, sbr. 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Það sé einnig niðurstaða stofnunarinnar að kærandi hafi fengið ofgreiddar atvinnuleysisbætur að fjárhæð 52.693 kr. sem honum beri að endurgreiða fyrir það tímabil er hann hafi ekki uppfyllt skilyrði laga um atvinnuleysistryggingar, sbr. 2. mgr. 39. gr. laganna.

Kæranda var með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 19. október 2010, sent afrit af greinargerð Vinnumálastofnunar og gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum fyrir 2. nóvember 2010. Engar frekari athugasemdir bárust frá kæranda.

 

2.

Niðurstaða

Samkvæmt gögnum málsins fékk kærandi greiddar atvinnuleysisbætur á tímabilinu 4. janúar 2010 til 19. febrúar 2010. Á því tímabili vann hann hjá X ehf. í fimm daga. Hann lét Vinnumálastofnun ekki vita af því fyrirfram. Það gerði hann ekki heldur þegar hann starfaði sem verktaki hjá X ehf. dagana 24. og 25. febrúar og 3. mars 2010. Eftirlitsmenn Vinnumálastofnunar komu að honum að vinna fyrir X ehf. 4. mars og í framhaldi af því voru greiðslur atvinnuleysisbóta til hans stöðvaðar, sbr. bréf Vinnumálastofnunar dags. 18. mars 2010. Í lok apríl var kæranda tilkynnt um hina kærðu ákvörðun en í henni fólst í fyrsta lagi að greiðslur atvinnuleysisbóta til hans voru stöðvaðar, í öðru lagi að hann fengi ekki rétt til atvinnuleysisbóta fyrr en eftir að hafa starfað a.m.k. 12 mánuði á innlendum vinnumarkaði og í þriðja lagi að honum bæri að endurgreiða samtals 52.693 kr. fyrir ofgreiddar atvinnuleysisbætur.

Hin kærða ákvörðun var tekin á grundvelli 2. mgr. 35. gr., 35. gr. a, og 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, sbr. lög nr. 134/2009, um breytingu á lögum um atvinnuleysistryggingar. Ákvæði laga nr. 134/2009 tóku gildi 1. janúar 2010.

Tilgangurinn með framangreindum ákvæðum laga um atvinnuleysistryggingar er að koma í veg fyrir að þeir sem fái greiddar atvinnuleysisbætur séu samhliða því að stunda atvinnu. Eigi að síður er atvinnuleitendum heimilt, að vissum skilyrðum uppfylltum, að stunda tilfallandi atvinnu samhliða því að fá greiddar atvinnuleysisbætur. Veigamesta skilyrðið í þessum efnum er að atvinnuleitandi upplýsi Vinnumálastofnun fyrirfram um að hann stundi tilfallandi vinnu.

Kærandi þáði atvinnuleysisbætur og lét ekki Vinnumálastofnun vita fyrirfram þegar hann tók að sér tilfallandi verkefni sem verktaki. Með þessu braut kærandi á skyldum sínum skv. 35. gr. a laga um atvinnuleysistryggingar, sbr. einnig 3. mgr. 9. gr. sömu laga. Það var því rétt af hálfu Vinnumálastofnunar að grípa til aðgerða af þessu tilefni og var það gert með því að stöðva greiðslur tímabundið til kæranda, sbr. áðurnefnt bréf stofnunarinnar dags. 18. mars 2010. Sú ákvörðun sem og eftirfarandi meðferð málsins var reist á svohljóðandi 2. mgr. 35. gr. laga um atvinnuleysistryggingar:

Vinnumálastofnun er heimilt að halda eftir greiðslu atvinnuleysisbóta sem hinum tryggða hefur áður verið ákvörðuð í allt að einn mánuð frá því að greiðsluna átti að inna af hendi þegar stofnunin hefur rökstuddan grun um að hinn tryggði uppfylli ekki lengur skilyrði laganna eða hafi þegar fengið ofgreiddar atvinnuleysisbætur. Þegar slíkur grunur vaknar skal Vinnumálastofnun án ástæðulauss dráttar og að lágmarki fimm virkum dögum fyrir næsta greiðsludag atvinnuleysisbóta skv. 1. mgr. tilkynna hlutaðeigandi með sannanlegum hætti að fyrirhugað sé að halda eftir greiðslu. Skal stofnunin jafnframt hefja athugun á málinu þegar í stað skv. 10. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, og veita hlutaðeigandi andmælarétt skv. 13. gr. sömu laga. Ákvæði stjórnsýslulaga gilda að öðru leyti um málsmeðferðina.

Með hliðsjón af þessu ákvæði og 1. mgr. 8. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, hafði Vinnumálastofnun frest til mánudagsins 3. maí 2010 til að taka endanlega ákvörðun í máli kæranda. Stofnunin hélt sér innan þess frests með því að tilkynna kæranda um hina kærðu ákvörðun með bréfi dagsettu 30. apríl 2010. Um afar íþyngjandi ákvörðun var að ræða í garð kæranda.

Í lok mars 2010 lágu fyrir trúverðugar skýringar kæranda um að hann hafi ekki brotið gegn tilkynningarskyldu sinni af ásetningi heldur fremur af vangæslu. Jafnframt voru þær fjárhæðir sem kærandi fékk fyrir vinnu sína tiltölulega lágar sé litið til efnis 36. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Þrátt fyrir þetta bar við afgreiðslu málsins að líta til svohljóðandi 1. mgr. 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar:

Sá sem veitir Vinnumálastofnun vísvitandi rangar upplýsingar í umsókn um atvinnuleysisbætur sem leiða til þess að hann telst ranglega tryggður að fullu eða að hluta samkvæmt lögum þessum skal ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta fyrr en hann hefur starfað a.m.k. tólf mánuði á innlendum vinnumarkaði áður en hann sækir aftur um atvinnuleysisbætur. Hið sama gildir um þann sem starfar á innlendum vinnumarkaði á sama tíma og hann fær greiddar atvinnuleysisbætur eða sætir biðtíma eða viðurlögum samkvæmt lögum þessum án þess að hafa tilkynnt Vinnumálastofnun um að atvinnuleit sé hætt skv. 10. gr. eða um tilfallandi vinnu skv. 35. gr. a. Skal honum jafnframt verða gert að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur skv. 39. gr.

Miðað við málavexti og framanrakin lagaákvæði er fallist á þær röksemdir sem Vinnumálastofnun hefur fært fram fyrir þeirri ákvörðun að svipta kæranda atvinnuleysisbótum og að hann eigi ekki rétt til greiðslu atvinnuleysisbóta fyrr en hann hefur starfað a.m.k. tólf mánuði á innlendum vinnumarkaði áður en hann sækir aftur um atvinnuleysisbætur. Óhjákvæmilegt er því að staðfesta þessa tvo liði í hinni kærðu ákvörðun.

Endurgreiðslukrafa Vinnumálastofnunar að fjárhæð 52.693 kr. byggir á að kærandi hafi fengið ofgreiddar atvinnuleysisbætur í átta daga. Ekki er hægt að fallast á kröfuna í heild sinni þar sem kærandi vann eingöngu í fimm daga það tímabil sem hann þáði atvinnuleysisbætur fyrir, þ.e. á tímabilinu 4. janúar til 19. febrúar 2010. Í ljósi þessa er fallist á að kæranda beri að endurgreiða Vinnumálastofnun samtals 32.933 kr. (52.693*5/8).

 

Úr­skurðar­orð

Staðfest er sú ákvörðun Vinnumálastofnunar frá 30. apríl 2010 í máli A að svipta hann atvinnuleysisbótum og hann eigi ekki rétt til greiðslu atvinnuleysisbóta fyrr en hann hefur starfað a.m.k. tólf mánuði á innlendum vinnumarkaði áður en hann sækir aftur um atvinnuleysisbætur. Kæranda ber að endurgreiða Vinnumálastofnun 32.933 kr.

 

 

Brynhildur Georgsdóttir, formaður

Hulda Rós Rúriksdóttir

Helgi Áss Grétarsson

 




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta