Hoppa yfir valmynd

Nr. 647/2017 - Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

Þann 23. nóvember 2017 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 647/2017

í stjórnsýslumáli nr. KNU17100003

Kæra [...]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

 

I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Þann 29. september 2017 kærði [...] (hér eftir nefndur kærandi) ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 20. september 2017, um að synja honum um alþjóðlega vernd á Íslandi ásamt því að synja honum um dvalarleyfi á grundvelli 74. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga. Með ákvörðuninni var kæranda jafnframt vísað brott frá landinu og gert að sæta endurkomubanni til tveggja ára.Kærandi unir ákvörðun um synjun á alþjóðlegri vernd og dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða en krefst þess að ákvörðun um brottvísun og endurkomubann verði felld úr gildi.Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

II. Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um alþjóðlega vernd hér á landi þann 13. ágúst 2017. Kærandi kom í viðtal hjá Útlendingastofnun m.a. þann 7. september 2017 ásamt talsmanni sínum. Með ákvörðun, dags. 20. september 2017, synjaði Útlendingastofnun kæranda um alþjóðlega vernd ásamt því að synja honum um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Þá var kæranda vísað brott frá landinu og ákveðið endurkomubann til tveggja ára. Var sú ákvörðun kærð til kærunefndar útlendingamála þann 29. september 2017. Kærunefnd barst greinargerð kæranda þann 11. október 2017 ásamt fylgigögnum.

III. Ákvörðun Útlendingastofnunar

Við meðferð máls kæranda hjá Útlendingastofnun byggði hann umsókn sína um alþjóðlega vernd á því að hann yrði fyrir ofsóknum af hálfu ótilgreindra einstaklinga í [...].Niðurstaða ákvörðunar Útlendingastofnunar í máli kæranda var sú að kærandi sé ekki flóttamaður og honum skuli synjað um alþjóðlega vernd á Íslandi skv. ákvæðum 37. og 40. gr. laga um útlendinga. Kæranda var jafnframt synjað um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 74. gr. laga um útlendinga. Þá taldi stofnunin að ákvæði 42. gr. laga um útlendinga stæði endursendingu til heimaríkis ekki í vegi. Með ákvörðun Útlendingastofnunar var kæranda vísað frá landinu, sbr. c-lið 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga. Kæranda var jafnframt vísað brott frá landinu með vísan til 2. tölul. b-liðar 2. mgr. 98. gr. laga um útlendinga, sbr. b-liðar 2. mgr. 104. gr. laganna. Var kæranda ákveðið endurkomubann hingað til lands í tvö ár, sbr. 101. gr. sömu laga. Útlendingastofnun tilkynnti kæranda jafnframt að kæra frestaði ekki réttaráhrifum ákvörðunarinnar, sbr. 2. mgr. 35. gr. laga um útlendinga.

IV. Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð kæranda kemur fram að hann kæri einungis þann þátt ákvörðunar Útlendingastofnunar er lúti að brottvísun og endurkomubanni. Kærandi byggir í fyrsta lagi á því að áður en ákvörðun Útlendingastofnunar hafi verið birt fyrir honum hafi hann lýst yfir vilja til að draga umsóknina til baka fyrir talsmönnum sínum og hjá Útlendingastofnun. Þau skilaboð hafi ekki komist til skila sem hafi haft gríðarlegar afleiðingar í för mér sér fyrir hann, en hann eigi íslenska unnustu og þurfi að geta ferðast til landsins til að vera með henni. Í ljósi gallaðrar málsmeðferðar og ófullnægjandi lögfræðiaðstoðar telur kærandi rétt að ógilda ákvörðun Útlendingastofnunar að þessu leyti og gefa honum kost á að yfirgefa landið af sjálfsdáðum. Í öðru lagi byggir kærandi á því að þar sem hann hafi ekki notið raunhæfs kost á því að draga umsókn sína til baka, til jafns við aðra umsækjendur í sömu sporum, feli ákvörðun Útlendingastofnunar um brottvísun og endurkomubann í sér brot gegn jafnræðisreglum stjórnarskrár og stjórnsýslulaga.

Í þriðja lagi telur kærandi að ákvörðun Útlendingastofnunar um brottvísun og endurkomubann brjóti í bága við rétt hans til friðhelgi einkalífs og fjölskyldu sem njóti verndar samkvæmt 71. gr. stjórnarskrár og 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Kærandi hafi verið í sambandi með íslenskri konu frá því [...]. Þau hafi trúlofast og undirbúi nú brúðkaup. Kærandi vísar til 3. mgr. 102. gr. laga um útlendinga en samkvæmt ákvæðinu skal brottvísun ekki ákveða ef hún felur í sér ósanngjarna ráðstöfun gagnvart útlendingi eða nánustu aðstandendum hans. Telur kærandi ljóst að ákvörðun um brottvísun og endurkomubann feli í sér ósanngjarna ráðstöfun gagnvart honum og unnustu hans. Fram kemur að kærandi sé búsettur á heimili unnustu sinnar. Byggir kærandi á því að hann sé sambúðarmaki hennar í skilningi 16. tölul. 3. gr. laga um útlendinga og að unnusta hans teljist því nánasti aðstandandi hans samkvæmt 3. mgr. 102. gr. laga um útlendinga. Kærandi mótmælir því jafnframt að umsókn hans um alþjóðlega vernd hafi verið álitin bersýnilega tilhæfulaus og vísar til meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga. Þann 13. október sl. bárust kærunefnd útlendingamála upplýsingar frá kæranda um að hann og unnusta hans ættu von á barni. Kærandi byggir á því að ákvörðun um brottvísun og endurkomubann myndi teljast ósanngjörn ráðstöfun gagnvart ófæddu barni hans, sem muni búa á Íslandi og vera íslenskur ríkisborgari.

V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Í máli þessu er til úrlausnar hvort rétt sé að ákvarða kæranda brottvísun og endurkomubann til tveggja ára, sbr. 2. tölul. b-liðar 2. mgr. 98. gr. laga um útlendinga og 2. mgr. 101. gr. sömu laga.

Með vísan til atvika málsins tekur kærunefnd undir forsendur Útlendingastofnunar varðandi frávísun kæranda á grundvelli c-liðar 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga, sbr. til hliðsjónar 2. málsl. 3. mgr. 42. gr. reglugerðar nr. 540/2017.

Ákvörðun Útlendingastofnunar um brottvísun kæranda er byggð á því að skilyrði b-liðar 2. mgr. 104. gr. laga um útlendinga séu fyrir hendi. Samkvæmt ákvæðinu er heimilt að fella niður frest útlendings til að yfirgefa landið sjálfviljugur ef umsókn hans um dvalarleyfi eða alþjóðlega vernd telst bersýnilega tilhæfulaus eða hann hefur vísvitandi gefið misvísandi eða rangar upplýsingar við umsókn. Í ákvörðun Útlendingastofnunar er vísað til þess að kærandi hafi byggt umsókn sína um alþjóðlega vernd á því að hann óttist ótilgreinda einstaklinga í heimaríki sínu sem gætu verið á eftir honum. Að mati Útlendingastofnunar var talið ljóst að teknu tilliti til frásagnar kæranda, að virtu trúverðugleikamati, gagna málsins og fyrirliggjandi landaupplýsingum að kærandi hefði ekki vísað til neinna atvika eða aðstæðna sem gætu gefið til kynna að þeim yrði jafnað til meðferðar sem 1. og 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga tækju til. Þá væru aðstæður hans ekki þess eðlis eða á því alvarleikastigi að ástæða væri til að veita kæranda dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Var það því mat stofnunarinnar að umsókn kæranda teldist bersýnilega tilhæfulaus.

Lög um útlendinga skilgreina ekki hvað felist í orðalaginu „bersýnilega tilhæfulaus“ í skilningi b-liðar 2. mgr. 104. gr. laganna. Hugtakið kemur þó m.a. fyrir í b-lið 1. mgr. 29. gr. laga um útlendinga og er að vissu leyti skilgreint þar. Samkvæmt 1. tölul. ákvæðisins telst umsókn vera bersýnilega tilhæfulaus ef útlendingur hefur ríkisfang í ríki þar sem ekki er talið að hann þurfi að óttast ofsóknir eða meðferð sem fellur undir 37. gr. Það sama á við um ríki þar sem ríkisfangslaus einstaklingur hefur áður haft aðgang að vernd. Á grundvelli 2. tölul. b-liðar sama ákvæðis telst umsókn jafnframt bersýnilega tilhæfulaus ef senda má útlending til ríkis þar sem hann þarf ekki að óttast ofsóknir eða meðferð sem fellur undir ákvæði 37. gr. laganna. Þótt almennt skuli leita samræmis við túlkun sömu hugtaka innan sama lagabálks telur kærunefnd að túlkun á hugtakinu „bersýnilega tilhæfulaus“ í skilningi b-liðar 1. mgr. 29. gr. laga um útlendinga geti ekki ráðið úrslitum um skýringu sama hugtaks í b-lið 2. mgr. 104. gr. sömu laga. Í því sambandi hefur kærunefnd m.a. litið til mismunandi eðlis þeirra ákvarðana sem eru andlag ákvæðanna. Þannig er stjórnvöldum í 29. gr. laga um útlendinga veitt heimild til að setja reglur sem gilda eiga um sérstaka málsmeðferð. Um er að ræða heimild til að forgangsraða tilteknum málum í upphafi málsmeðferðar en slík forgangsröðun hefur ekki áhrif á mat á efni umsóknar um alþjóðlega vernd. Aftur á móti fjallar 104. gr. laganna um framkvæmd ákvarðana þegar útlendingur hefur ekki rétt til dvalar hér á landi og veitir stjórnvöldum heimild til að taka mjög íþyngjandi ákvörðun um brottvísun og endurkomubann að tilteknum skilyrðum uppfylltum.

Í 45. gr. reglugerðar um útlendinga nr. 540/2017, sbr. reglugerð nr. 775/2017, er fjallað um bersýnilega tilhæfulausar umsóknir. Þar segir í 2. mgr. að ef útlendingur kemur frá ríki sem er á lista Útlendingastofnunar yfir örugg upprunaríki teljist umsókn bersýnilega tilhæfulaus þegar hún er byggð á a) því að fullnægjandi vernd yfirvalda í heimaríki sé ekki til staðar, b) einstaklingsbundnum líkamsárásum, hótunum, ógnunum eða deilum sem ekki geta talist kerfisbundnar, c) því að fullnægjandi aðstoð og aðgengi að heilbrigðisaðstoð í heimaríki sé ekki til staðar, enda hafi þegar verið tekið mið af heilbrigðisaðstæðum við mat á því hvort upprunaríki teljist öruggt eða d) öðrum málsástæðum sem telja má ótrúverðugar með hliðsjón af fyrirliggjandi upplýsingum um heimaríki. Þá segir í 49. gr. reglugerðarinnar að ef umsókn hefur verið synjað á þeim grundvelli að hún sé bersýnilega tilhæfulaus skuli útlendingi almennt brottvísað og ákvarðað endurkomubann án þess að veittur sé frestur til sjálfviljugrar heimfarar, sbr. 2. mgr. 104. gr. og b-lið 2. mgr. 98. gr. laga um útlendinga. Útlendingastofnun sé heimilt í undantekningartilvikum að veita útlendingum sem falla undir þetta ákvæði frest til sjálfviljugrar heimfara og aðstoð, t.d. þegar um er að ræða fylgdarlaus ungmenni.

Samkvæmt efni sínu fjalla framangreind ákvæði reglugerðar um útlendinga bæði um mat á því hvort umsókn sé bersýnilega tilhæfulaus í skilningi 29. og 104. gr. laga um útlendinga. Eins og hefur áður komið fram í úrskurðum kærunefndar útlendingamála telur nefndin að þó rétt sé að líta til reglugerðarinnar við túlkun á inntaki orðalagsins „bersýnilega tilhæfulaus“ getur ákvæðið ekki takmarkað það skyldubundna mat sem löggjafinn hefur falið kærunefnd og Útlendingastofnun við beitingu heimildar til að fella niður frest til umsækjenda um alþjóðlega vernd og brottvísa þeim samhliða ákvörðun um synjun umsóknar. Í því sambandi hefur kærunefnd áréttað að reglugerðarheimildin í 8. mgr. 104. gr. laga um útlendinga tekur til eftirlits með framkvæmd frávísana og brottvísana skv. 7. mgr. og eftirlit með þeim en tekur samkvæmt efni sínu ekki til ákvarðananna sem slíkra. Þá tekur reglugerðarheimild í 5. mgr. 23. gr. laga um útlendinga til mála sem varða alþjóðlega vernd. Að mati kærunefndar hefur löggjafinn því ekki með skýrum hætti falið ráðherra heimild til að setja reglugerð sem er grundvöllur takmörkunar á mati sem stjórnvöldum er falið að því er varðar ákvarðanir um brottvísun og endurkomubann.

Með vísan til þess sem að framan hefur verið rakið og inntaks reglugerðarheimilda 3. mgr. 29. gr. og 8. mgr. 104. gr. laga um útlendinga telur kærunefnd að ákvæði 45. gr. reglugerðar nr. 540/2017 komi einungis til skoðunar í tengslum við beitingu á 29. gr. laganna. Hefur kærunefnd í þeim efnum jafnframt horft til þess að í athugasemdum við 29. gr. sem fylgdu frumvarpi því er síðar varð að lögum nr. 80/2016 er þess getið að gert sé ráð fyrir því að frekari reglur um viðmið um að umsókn skuli teljast tilhæfulaus verði settar í reglugerð.

Af framangreindu leiðir að ákvæði 49. gr. reglugerðarinnar verði ekki túlkað á þann veg að niðurstaða mats á því hvort umsókn sé bersýnilega tilhæfulaus í skilningi 29. gr. laga um útlendinga ráði úrslitum um það hvort rétt sé að fella niður frest til að yfirgefa landið og brottvísa umsækjanda með endurkomubanni, sbr. b-lið 2. mgr. 104. gr. laga um útlendinga, enda hafi löggjafinn ekki falið ráðherra vald til að setja slíka reglu. Telur kærunefnd því að ákvæði 49. gr. reglugerðarinnar hafi ekki áhrif á fyrri framkvæmd nefndarinnar varðandi mat á tilhæfuleysi umsókna um alþjóðlega vernd þegar kemur að beitingu brottvísunar.

Athugasemdir við 104. gr. með frumvarpi til laga um útlending varpa ekki ljósi á inntak orðalagsins „bersýnilega tilhæfulaust“. Þar er þó vísað til þess að ákvæðið sé í samræmi við 7. gr. tilskipunar 2008/115/EB um brottvísun útlendinga í ólögmætri dvöl. Við skoðun á tilskipun 2008/115/EB verður að hafa hugfast að tilskipunin hefur ekki verið tekin upp í EES-samninginn. Aftur á móti er þess að gæta að árið 1996 undirritaði íslenska ríkið Schengen samninginn sem tók gildi árið 2001. Með þátttöku íslenska ríkisins í Schengen samstarfinu hefur ríkið að þjóðarétti gengist undir þær skuldbindingar sem í því felast. Í 28. lið formálsorða tilskipunar 2008/115/EB er kveðið á um að tilskipunin feli í sér þróun á ákvæðum Schengen gerða í skilningi samnings sem ráð Evrópusambandsins, Ísland og Noregur gerðu með sér um framkvæmd, beitingu og þróun Schengen-gerða, sem fellur undir C. lið 1. gr. ákvörðunar ráðsins 1999/437/EB um sérstakt fyrirkomulag varðandi beitingu á þeim samning. Samkvæmt framangreindu ber íslenska ríkið skuldbindingar af þjóðréttarlegum toga til að virða tilskipun 2008/115/EB. Í íslenskum rétti er almennt viðurkennd sú meginregla að túlka beri landsrétt til samræmis við þær þjóðréttarlegu skuldbindingar sem íslenska ríkið hefur gengist undir.

Samkvæmt 1. mgr. 7. gr. tilskipunarinnar skal almennt veita útlendingi 7-30 daga frest til að yfirgefa landið en í 4. mgr. greinarinnar kemur m.a. fram að heimilt sé að stytta eða fella niður þennan frest þegar umsókn um löglega dvöl hefur verið hafnað sem bersýnilega tilhæfulausri (e. manifestly unfounded). Hugtakið „manifestly unfounded“ er hins vegar ekki skilgreint í 7. gr. eða 3. gr. tilskipunarinnar sem fjallar um skilgreiningar. Í dómaframkvæmd Evrópudómstólsins, sem að vissu leyti má hafa hliðsjón af, hefur dómstóllinn áréttað að hugtök í Evrópurétti sem ekki eru skilgreind í þar til gerðri löggjöf sambandsins skuli sæta þröngri túlkun ef þau fela í sér undantekningu frá almennri reglu, sbr. dómur í máli C-554/13 Z.Zh. og O (42. mgr. dómsins). Í dómi Evrópudómstólsins í máli C-61/11 El Dridi lagði dómstóllinn m.a. áherslu á að samkvæmt 2. lið formálsorða ofangreindrar tilskipunar beri við brottvísanir á einstaklingum að hafa mannúð, grundvallarréttindi og mannlega reisn að leiðarljósi (31. mgr. dómsins). Í sama máli tiltók dómstóllinn að nema kveðið sé á um annað eigi að gefa forgang þeirri reglu að einstaklingum sé heimilt að yfirgefa land sjálfviljugir, sbr. ákvæði 1. mgr. 7. gr. tilskipunarinnar (36. mgr. dómsins). Í máli Z.Zh. og O vísaði Evrópudómstóllinn jafnframt til þess að samkvæmt 4. mgr. 7. gr. tilskipunarinnar gætu ríki einungis í sérstökum aðstæðum stytt hinn 7-30 daga frest til sjálfviljugrar brottfarar eða fellt hann alveg niður (46. mgr. dómsins). Þá hefur Evrópudómstóllinn lagt áherslu á að gæta skuli meðalhófs við beitingu 7. gr. tilskipunarinnar, sbr. dómur í máli El Dridi (41. mgr. dómsins). Þrátt fyrir að þessir dómar Evrópudómstólsins séu ekki eiginleg fordæmi í íslenskum rétti veita þeir engu að síður vísbendingar um framkvæmd umræddra Schengen-gerða og þá hvaða sjónarmið leggja megi til grundvallar við túlkun á hugtakinu „bersýnilega tilhæfulaust“ í 4. mgr. 7. gr. tilskipunarinnar, sbr. b-lið 2. mgr. 104. gr. laga um útlendinga.

Til hliðsjónar bendir kærunefnd á að samkvæmt upplýsingum sem systurstofnun kærunefndar í Noregi aflaði frá innflytjendayfirvöldum aðildarríkja Evrópusambandsins árið 2014 um túlkun og notkun á hugtakinu „bersýnilega tilhæfulaus umsókn“ (e. manifestly unfounded application) í tengslum við brottvísanir frá aðildarríkjum Schengen-samstarfsins er notkun hugtaksins mismunandi á milli aðildarríkja. Af upplýsingunum má þó sjá að víða er stuðst við þá grunnhugmynd að umsókn geti eingöngu talist bersýnilega tilhæfulaus ef umsækjandi ber aðeins fyrir sig atvik sem ekki geta kallað á vernd, svo sem efnahagslegar eða félagslegar aðstæður, eða að umsóknin feli í sér misnotkun á hæliskerfi viðkomandi ríkis.

Með vísan til ofangreinds sem og orðalags ákvæðis b-liðar 2. mgr. 104. gr. laga um útlendinga er ljóst að svo að til greina komi að veita styttri eða engan frest til að yfirgefa landið sjálfviljugur er ekki nægilegt að umsókn sé tilhæfulaus, hún þarf að vera bersýnilega tilhæfulaus. Af orðalagi ákvæðisins leiðir því að tilhæfuleysi umsóknar þarf að blasa við stjórnvaldi þegar við skoðun málsins. Um er að ræða sérstakt mat á því hvort umsókn sé bersýnilega tilhæfulaus í skilningi ákvæðisins sem þarf að fara fram bæði hjá Útlendingastofnun og hjá kærunefnd. Að mati kærunefndar telst umsókn um dvalarleyfi eða alþjóðlega vernd bersýnilega tilhæfulaus í skilningi b. liðar 2. mgr. 104. gr. laganna ef eftirfarandi tilvik eiga einkum við:

a) ljóst er, við fyrstu sýn, að málsástæður umsækjanda varða ekki þá þætti sem 1. og 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga taka til,

b) ljóst er, við fyrstu sýn, að málsástæður umsækjanda séu ekki þess eðlis eða nái ekki því alvarleikastigi að þær gætu leitt til þeirrar niðurstöðu að heimilt væri að veita umsækjenda dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, og

c) að frekara mat og gagnaöflun, þar með talið viðtal við umsækjanda, hafi ekki breytt ofangreindu upphaflegu mati.

Ekki er nægjanlegt að kærandi hafi ríkisfang í ríki sem er á lista Útlendingastofnunar yfir örugg upprunaríki sem vísað er til í 2. mgr. 29. gr. laga um útlendinga. Þó svo að 2. mgr. 104. gr. laganna innihaldi ekki tilvísun til þess lista telur kærunefnd engu að síður að heimilt sé að styðjast við slíkan lista við mat á því hvort umsókn um dvalarleyfi eða alþjóðlega vernd teljist bersýnilega tilhæfulaus, enda eru ákveðin tengsl á milli ákvæða b-liðar 2. mgr. 104. gr. laga um útlendinga og 29. gr. laganna.

Í viðtali hjá Útlendingastofnun kvaðst kærandi hafa orðið vitni að því þegar hermenn [...] hersins hafi myrt 14 manns í vopnuðum átökum árið 2008, en kæranda hafi ekki ætlað að vera vitni að atvikinu. Einn hermannanna hafi í kjölfarið ráðist að kæranda en verið stoppaður af. Eftir þetta hafi kærandi orðið fyrir stríðni og áreiti í starfi sínu í hernum, sem hann telur að megi rekja til fyrrnefnds atviks. Kæranda hafi síðar verið vikið úr hernum og eftir það átt í erfiðleikum með fá vinnu í heimaríki. Þá kvað kærandi að sér stafi ógn af einstaklingum innan [...] mafíunnar. Faðir hans, sem nú sé látinn, hafi verið háttsettur í mafíunni en valdamiklir aðilar innan mafíunnar hafi reynt að fá hann til að ganga til liðs við mafíuna. Loks hafi kæranda borist hótanir sem hafi m.a. falist í smáskilaboðum í síma og að ótilgreindir menn hafi haldið til í bíl fyrir utan heimili hans.

Framburður kæranda um hótanir í sinn garð var um margt óljós. Kvaðst kærandi t.a.m. ekki vita hverjir standi að baki hótunum í hans garð en að lögregla, glæpamenn eða herinn geti borið ábyrgð á þeim. Kærandi gat ekki gert fullnægjandi grein fyrir því í hverju hótanirnar fælust að öðru leyti en því að honum væri sagt að „gera hitt og þetta“. Undir meðferð málsins lagði kærandi ekki fram nein gögn til stuðnings frásögn sinni um að honum hafi borist hótanir. Þá kom fram í framburði kæranda að hann hafi ekki leitað til lögregluyfirvalda í heimaríki vegna hótana í hans garð. Kærandi hefur lagt fram ljósmyndir sem hann kveður vera af föður sínum og öðrum tilgreindum brotamönnum. Kærandi hefur ekki sýnt fram á tengsl sín við þann einstakling sem hann kveður vera föður sinn. Þá hefur kærandi ekki lagt fram gögn sem leggja grunn að fullyrðingum um áreiti sem hann kveðst hafa orðið fyrir af hálfu hermanna eftir þann atburð sem hann kveðst hafa orðið vitni af árið 2008. Kærunefnd telur að flótta kæranda frá heimaríki hafi ekki borið að það brátt að ósanngjarnt sé að gera þá kröfu að hann leggi fram trúverðug gögn til stuðnings málsástæðum sínum. Kærunefnd telur ennfremur framburð kæranda vera ómarkvissan og ónægan til að sýna fram á að þau atvik hafi átt sér stað sem kærandi vísar til sem ástæður flótta síns.

Við meðferð þessa máls hjá kærunefnd hefur kærandi ekki fært fram sérstakar málsástæður varðandi þennan þátt málsins hjá kærunefnd og ekki mótmælt því að umsókn hans hafi verið metin bersýnilega tilhæfulaus. Með vísan til alls framangreinds telur kærunefnd að ekki sé annað unnt en að fallast á þá mat Útlendingastofnunar um að frá upphafi málsmeðferðarinnar hafi verið bersýnilegt að málsástæður kæranda vörðuðu ekki þá þætti sem 1. og 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga taka til. Enn fremur hafi verið bersýnilegt að aðrar aðstæður í heimaríki kæranda séu ekki þess eðlis eða nái því alvarleikastigi að þær gætu leitt til þeirrar niðurstöðu að heimilt væri að veita kæranda dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Í þessu sambandi lítur kærunefnd til þess að orðalag 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga mælir fyrir um að aðili þurfi að sýna fram á ríka þörf á vernd og tekur mat stjórnvalda á tilhæfuleysi slíkra umsókna mið af þeirri ábyrgð sem lögð er á aðila að þessu leyti.

Með vísan til framangreinds er fallist á það mat Útlendingastofnunar að umsókn kæranda um dvalarleyfi eða alþjóðlega vernd sé bersýnilega tilhæfulaus, sbr. b-lið 2. mgr. 104. gr. laga um útlendinga.

Þegar umsókn um dvalarleyfi eða alþjóðlega vernd er bersýnilega tilhæfulaus er heimilt að fella niður frest til að yfirgefa landið, sbr. b-lið 2. mgr. 104. gr. laga um útlendinga. Líkur eru á því að ákvörðun um niðurfellingu frests hafi varnaðaráhrif sem þjóni því markmiði að stuðla að fækkun bersýnilega tilhæfulausra umsókna frá öruggum upprunaríkjum. Fyrir liggur mat Útlendingastofnunar á því að framangreindu markmiði verði ekki náð með öðru og vægara móti.

Kærandi kom hingað til lands án fjölskyldu og sótti um alþjóðlega vernd þann 13. ágúst 2017. Í greinargerð hans fyrir kærunefnd kemur fram að eftir komu til landsins hann hafi kynnst íslenskri konu og að þau hafi verið í sambandi frá því [...]. Þau séu nú trúlofuð og hyggist ganga í hjónaband. Meðal fylgiskjala með greinargerð kæranda er tilkynning um hjónavígslu til Þjóðskrár Íslands, útfyllt af kæranda og unnustu hans, dags. 25. september 2017. Þann 13. október sl. bárust kærunefnd upplýsingar um að unnusta kæranda væri barnshafandi. Kærandi hefur lagt fram læknisvottorð þar sem fram kemur að unnusta hans hafi gert þungunarpróf sem hafi reynst jákvætt. Að mati kærunefndar myndi endurkomubann inn á Schengen-svæðið vera verulega íþyngjandi fyrir kæranda í ljósi framangreindrar aðstöðu hans. Þegar hagsmunir kæranda af samvistum við unnustu sína í tengslum við væntanlega barnsfæðingu eru vegnir á móti grundvelli brottvísunar, sem er að umsókn kæranda um dvalarleyfi og alþjóðlega vernd hafi verið bersýnilega tilhæfulaus í skilningi b-liðar 2. mgr. 104. gr. laga um útlendinga, telur nefndin, með hliðsjón af fyrirliggjandi upplýsingum um aðstæður kæranda og meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga, að rétt sé að fella ákvörðun Útlendingastofnunar um brottvísun og endurkomubann úr gildi, sbr. 3. mgr. 102. gr. laga um útlendinga.

Frávísun og frestur til að yfirgefa landið

Kærandi kom hingað til lands 13. ágúst 2017 og sótti um alþjóðlega vernd sama dag. Eins og að framan greinir hefur umsókn hans um vernd og dvalarleyfi hér á landi verið synjað og hefur hann því ekki tilskilin leyfi til dvalar enda verður að líta á umsókn hans um alþjóðlega vernd sem áform um að dveljast í landinu meira en 90 daga, sbr. til hliðsjónar 3. mgr. 42. gr. reglugerðar um útlendinga nr. 540/2017. Verður kæranda því vísað frá landinu á grundvelli c-liðar 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga, sbr. 2. og 5. mgr. 106. laganna, enda hafði hann verið hér á landi í innan við níu mánuði þegar málsmeðferð umsóknar hans hófst hjá Útlendingastofnun.

Kærunefnd telur með vísan til atvika máls að rétt sé að vísa kæranda frá landinu á grundvelli c-liðar 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga. Kærandi er við ágæta heilsu og kemur frá öruggu upprunaríki. Að mati kærunefndar og með vísan til 2. mgr. 104. gr. laga um útlendinga teljast 7 dagar hæfilegur frestur til að yfirgefa landið og er lagt fyrir kæranda að yfirgefa landið innan 7 daga frá birtingu úrskurðar þessa. Athygli kæranda er vakin á því að ef hann yfirgefur ekki landið innan frests er heimilt að brottvísa honum. Brottvísun felur í sér bann við komu til landsins síðar og skal endurkomubann að jafnaði ekki gilda skemur en tvö ár, sbr. a-lið 2. mgr. 98. gr. og 2. mgr. 101. gr. laga um útlendinga.

 

Úrskurðarorð

Ákvörðun Útlendingastofnunar um brottvísun og endurkomubann er felld úr gildi. Kærandi skal yfirgefa landið innan 7 daga.

The decision of the Directorate of Immigration regarding expulsion and entry ban is vacated. The appellant shall have 7 days to leave Iceland.

 

Hjörtur Bragi Sverrisson

 

Anna Tryggvadóttir                                                                                Pétur Dam Leifsson


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta