Hoppa yfir valmynd

319/2018 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Þann 12. júlí 2018 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 319/2018

í stjórnsýslumáli nr. KNU18050030

 

Kæra […]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

 

I.          Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Þann 23. apríl 2018 kærði […], fd. […], ríkisborgari Kólumbíu (hér eftir nefndur kærandi), ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 27. mars 2018, um að synja honum um dvalarleyfi á grundvelli sérstakra tengsla við landið, sbr. 78. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016.

Kærandi fer þess á leit við kærunefnd útlendingamála að kæra hans verði tekin til meðferðar.

Fyrrgreind ákvörðun var kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga, en kæra barst utan kærufrests.

II.            Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi lagði fram umsókn um dvalarleyfi á grundvelli sérstakra tengsla við landið þann 10. júlí 2017. Með hinni kærðu ákvörðun, dags. 27. mars 2018, var umsókn hans synjað. Ákvörðunin var móttekin fyrir hönd kæranda hér á landi þann 4. apríl 2018 og var hún kærð til kærunefndar útlendingamála þann 23. apríl 2018. Kærunefnd bárust athugasemdir frá kæranda þann 3. og 9. júlí sl.

III.       Málsástæður og rök kæranda

Í athugasemdum kæranda frá 3. júlí sl. kemur fram að hann telji kærufrest mjög stuttan þegar komi að því að þýða bréf á spænsku, senda til hans og fá útskýringar á niðurstöðu málsins. Fyrirsvarsmaður kæranda hafi einnig verið erlendis hluta af kærufresti og hafi því ekki getað sinnt málinu fyrr en nokkrum dögum of seint. Kærandi hafi lagt fram kæru fjórum dögum of seint og er þess óskað að tekið verið tillit til framangreindra aðstæðna og að kæran verði tekin til greina.

Þá segir í athugasemdum frá 9. júlí sl. að fyrirsvarsmaður kæranda hafi verið erlendis þegar gögn bárust á heimili hennar. Börn kæranda hafi ekki mátt taka við gögnunum og því hafi þau verið send aftur á pósthús. Þegar kærandi hafi komið heim, u.þ.b. þann 10. apríl sl., hafi lítið verið eftir af kærufresti. Óskar fyrirsvarmaður kæranda eftir að mál þetta verði tekið til athugunar.

IV.       Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Um kæru þessa gilda lög um útlendinga og reglugerð um útlendinga nr. 540/2017.

Ákvörðun Útlendingastofnunar er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga. Samkvæmt ákvæðinu skal útlendingur kæra ákvörðun innan 15 daga frá því að honum var kynnt ákvörðun.

Samkvæmt gögnum sem liggja fyrir frá Íslandspósti var ábyrgðarbréf með ákvörðun Útlendingastofnunar afhent á heimili fyrirsvarsmanns kæranda að kvöldi 4. apríl 2018. Þrátt fyrir athugasemdir kæranda þess efnis að ábyrgðarbréf hafi ekki verið afhent heldur sent aftur á pósthús telur kærunefnd að leggja verði til grundvallar við úrlausn málsins að umrætt bréf hafi verið afhent fyrirsvarsmanni kæranda hér á landi þann 4. apríl 2018 eins og fram kemur í gögnum frá Íslandspósti. Ákvörðunin var kærð til kærunefndar þann 23. apríl sl. Er því ljóst að kæran barst utan þess 15 daga kærufrests sem mælt er fyrir um í 7. gr. laga um útlendinga.

Í 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 er fjallað um viðbrögð stjórnvalda við kæru sem berst að liðnum kærufresti. Við þær aðstæður skuli vísa kæru frá nema afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr, sbr. 1. tölul., eða veigamiklar ástæður mæla með því að kæran verði tekin til meðferðar, sbr. 2. tölul.

Eins og fram er komið byggir kærandi á því að kærufrestur sé of stuttur enda hafi þurft að þýða ákvörðun Útlendingastofnunar yfir á spænsku og senda til hans í heimaríki. Þá hafi talsmaður hans verið erlendis hluta þess tímabils sem kærufrestur náði yfir. Að mati kæruefndar leiðir framangreint ekki til þess að afsakanlegt verði talið að kæra í málinu hafi borist of seint. Þá verða hagsmunir aðila af úrlausn málsins einir og sér ekki taldir svo veigamiklir að rétt sé að víkja frá kærufresti vegna þeirra. Verður kæru kæranda á ákvörðun Útlendingastofnunar því vísað frá kærunefnd.

Kæranda er leiðbeint um að unnt er að beina nýrri umsókn um dvalarleyfi til Útlendingastofnunar. Ef umsókninni er synjað er slík ákvörðun kæranleg til kærunefndar útlendingamála, sbr. 7. gr. laga um útlendinga.

 

 

 

 

Úrskurðarorð

Kæru á ákvörðun Útlendingastofnunar er vísað frá.

The appeal of the decision of the Directorate of Immigration is deemed inadmissible.

 

 

 

 

Anna Tryggvadóttir                                                        Gunnar Páll Baldvinsson

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta