Hoppa yfir valmynd

Nr. 16/2019 - Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 16/2019

Miðvikudaginn 5. júní 2019

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

Ú R S K U R Ð U R

 

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eggert Óskarsson lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.

Með kæru, dags. 11. janúar 2019, kærði B félagsráðgjafi, f.h. A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 12. október 2018 um upphafstíma barnalífeyris með yngsta barni kæranda og synjun á umsókn um barnalífeyri með X börnum hans.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Með umsókn, dags. 18. júní 2018, sótti kærandi um barnalífeyri með yngsta barni sínu frá Tryggingastofnun ríkisins. Með bréfi, dags. 25. júní 2018, benti Tryggingastofnun kæranda á að hann þyrfti að leggja fram frekari upplýsingar um meðlagsgreiðslur hans með barninu. Með bréfi umboðsmanns kæranda, dags. 9. júlí 2018, voru umbeðin gögn lögð fram, auk þess sem farið var fram á barnalífeyri með X börnum kæranda. Með bréfi, dags. 12. október 2018, tilkynnti Tryggingastofnun kæranda að samþykktur hafi verið barnalífeyrir með yngsta barni hans frá X […] en umsókn um barnalífeyri með X börnum kæranda var synjað.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 11. janúar 2019. Með bréfi, dags. 21. janúar 2019, óskaði úrskurðarnefnd eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Með bréfi, dags. 6. mars 2019, barst greinargerð Tryggingastofnunar og var hún kynnt umboðsmanni kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 7. mars 2019. Með bréfi, dags. 26. mars 2019, bárust athugasemdir frá umboðsmanni kæranda og voru þær kynntar Tryggingastofnun með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 27. mars 2019. Með bréfi, dags. 3. maí 2019, barst viðbótargreinargerð frá Tryggingastofnun og var hún send kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 6. maí 2019. Frekari athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi gerir kröfu um að ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um upphafstíma greiðslna barnalífeyris með yngsta barni hans verði breytt þannig að honum verði ákvarðaður barnalífeyrir frá og með þeim tíma sem hann hafi átt rétt á honum. Þá er einnig gerð krafa um að synjun Tryggingastofnunar um greiðslu barnalífeyris með X börnum kæranda verði breytt og að fallist verði á að hann uppfylli skilyrði greiðslna barnalífeyris með þeim.

Í kæru er greint frá því að kærandi hafi verið með 75% örorkumat frá X og sé enn með mat í gildi. Kærandi eigi X börn en hann hafi einungis fengið greiddan barnalífeyri með yngsta barni sínu frá X […].

Kærandi hafi búið í C til X. Hann hafi sótt um örorkumat hjá Tryggingastofnun með umsókn, dags. X. Í E-204 vottorði (athugun á umsókn um örorkulífeyri) frá D, dags. X, hafi komið fram að kærandi ætti X börn, auk upplýsinga um fæðingardaga þeirra. Tryggingastofnun hafi því haft vitneskju um börn kæranda þegar á árinu X og hafi þær upplýsingar legið fyrir þegar í X þegar hann hafi sótt um örorkulífeyri.

Börn kæranda séu fædd á árunum X-X. Eins og fram komi í staðfestingu frá D, dags. X 2018, hafi kærandi verið meðlagsskyldur með börnum sínum um tíma eða frá árinu X. […] Kærandi hafi einnig greitt meðlag með yngsta barni sínu frá febrúar X […] og hafi einungis fengið greiddan barnalífeyri með því barni frá X […]. Kærandi hafi uppfyllt skilyrði um barnalífeyri hjá Tryggingastofnun löngu fyrir X. Með bréfi til Tryggingastofnunar, dags. 9. júlí 2018, hafi verið farið fram á að barnalífeyrisgreiðslur til kæranda yrðu endurskoðaðar og ákvarðaðar aftur í tímann með tilliti til meðfylgjandi upplýsinga um meðlagsskyldu og meðlagsgreiðslur hans vegna barna hans frá árinu X og frá árinu X.

Ákvæði um barnalífeyri sé hvorki heimildarákvæði né matskennt ákvæði. Þvert á móti sé um skyldu að ræða ef umsækjandi uppfylli skilyrðin. Kærandi hafi hins vegar hvorki verið upplýstur um rétt sinn til barnalífeyris þegar hann hafi sótt um örorkulífeyri né heldur þegar hann hafi sótt um endurnýjun örorkumats hjá Tryggingastofnun.

Tryggingastofnun hafi brotið gegn leiðbeiningar- og rannsóknarskyldu, sbr. 7. og 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, með því að hafa ekki upplýst kæranda um rétt hans til barnalífeyris. Almenna skyldan samkvæmt stjórnsýslulögum nái meðal annars til þess að leiðbeina umsækjendum um það hvernig þeir geti náð fram ýtrasta rétti sínum. Ákvæði 2. mgr. 53. gr. laga um almannatryggingar um að bætur skuli aldrei ákvarðaðar lengra aftur í tímann en tvö ár eigi ekki við í máli kæranda.

Tryggingastofnun hafi borið að kanna stöðu og réttindi kæranda heildstætt og sjá til þess að hann fengi ýtrasta rétt sinn. Auk 7. gr. stjórnsýslulaga sé sérstaklega kveðið á um þessa skyldu í 37. gr. laga um almannatryggingar. Efnislega sambærilegt ákvæði hafi verið í lögunum frá 2007. Þá hafi skilyrði til barnalífeyris sömuleiðis verið óbreytt frá 2007. Þannig séu engar breytingar á lögum eða atvikum máls sem réttlæti að Tryggingastofnun veiti kæranda ekki rétt sinn allt frá því hann hafi átt rétt á þeim greiðslum og fram að 18 ára aldri hvers barns.

Gerð sé sú krafa að ákvörðun Tryggingastofnunar um að barnalífeyrir skuli aðeins greiðast tvö ár aftur í tímann verði felld úr gildi og að stofnuninni verði gert að ákvarða kæranda barnalífeyri frá því að hann hafi átti rétt á þeim.

Í athugasemdum umboðsmanns kæranda, dags. 26. mars 2019, segir að Tryggingastofnun telji sig ekki hafa lagaheimild til að greiða lengra en tvö ár aftur í tímann. Í þessu samhengi beri að nefna að umboðsmaður kæranda hafi dæmi þess að stofnunin hafi greitt lengra aftur í tímann og vísar umboðsmaður kæranda þar í afrit af bréfi.

Samkvæmt 1. mgr. 53. gr. laga um almannatryggingar skuli bætur reiknaðar frá þeim degi sem umsækjandinn hafi uppfyllt skilyrði bótanna. Samkvæmt 2. mgr. 53. skuli bætur þó aldrei ákvarðaðar lengra aftur í tímann en tvö ár frá því að umsókn og önnur gögn, sem nauðsynleg séu til að unnt sé að taka ákvörðun um bótarétt og fjárhæð bóta, berast Tryggingastofnun.

Samkvæmt samræmisskýringu á 1. og 2. mgr. 53. gr. sé þannig ljóst að með „skilyrði bóta“ sé átt við þau lagaskilyrði sem lögin geri ráð fyrir að þurfi að vera til staðar fyrir ákvörðun bóta. Þrátt fyrir að skilyrði bóta séu til staðar þá greiðist bæturnar ekki sjálfkrafa heldur þurfi að sækja um þær. Umsóknin sé ekki eitt af skilyrðum bótaréttar. Bótarétturinn geti verið til staðar en það þurfi engu að síður að virkja réttinn með umsókn. Af ákvæðinu sé ljóst að bætur skuli reiknaðar frá og með þeim tíma sem skilyrði hafi verið til staðar. Lagagreinin geri þannig skýrlega ráð fyrir því að bótaréttur hafi getað verið til staðar löngu áður en sótt sé um bætur.

Réttur kæranda til barnalífeyris hafi verið til staðar löngu áður en hann sótti um barnalífeyri í X, enda hafi hann á þeim tíma greitt meðlag með X börnum […]. Hins vegar hafi honum ekki verið leiðbeint um að sækja um barnalífeyri. Eins áður hafi komið fram þá hafi Tryggingastofnun verið með upplýsingar um börn kæranda í E-204 vottorði og hafi því átt að leiðbeina honum um rétt hans til barnalífeyris. Í greinargerð Tryggingastofnunar komi fram að kærandi virðist ekki hafa átt rétt á barnalífeyri á því tímabili þar sem engar upplýsingar hafi legið fyrir um framfærsluskyldu hans gagnvart börnunum fram til ársins X. Kærandi hafi fyllt út umsókn um örorkulífeyri og tengdar greiðslur hjá Tryggingastofnun í X en á þeim tíma hafi hann verið meðlagsskyldur og hafi átt rétt á barnalífeyri. Hann hafi hins vegar ekki verið upplýstur um rétt sinn.

Þá leiði það af eðli máls og almennri skynsemi að gera hafi mátt ráð fyrir því að kærandi hefði sótt um barnalífeyri hefði hann vitað að hann ætti rétt á honum. Einstaklingur sem fái upplýsingar frá Tryggingastofnun um að hann geti aukið tekjur sínar um tugi þúsunda króna í hverjum mánuði með því einu að óska eftir því, muni sækja um slíkt. Það eitt að kærandi hafi ekki sótt um barnalífeyri veiti þannig yfirgnæfandi líkur fyrir því að leiðbeiningar hafi ekki verið veittar.

Í greinargerð Tryggingastofnunar segi að kærandi hafi mátt gera sér grein fyrir mögulegum rétti til greiðslu barnalífeyris þar sem á eyðublöðunum, sem hann hafi fyllt út árinX og X, komi fram upplýsingar um barnalífeyri. Engar upplýsingar um barnalífeyri sé að finna á eyðublaðinu, þ.e. hvað barnalífeyrir sé eða hverjir eigi rétt á honum. Eyðublað án upplýsinga komi ekki í staðinn fyrir eða dragi úr skyldu stofnunarinnar til að veita upplýsingar og leiðbeina einstaklingi um réttindi sín.

Tryggingastofnun hafi borið að upplýsa kæranda um rétt hans til barnalífeyris, sbr. 7. og 10. gr. stjórnsýslulaga. Almenna skyldan samkvæmt stjórnsýslulögum nái meðal annars til þess að leiðbeina umsækjendum um það hvernig þeir geti náð fram ýtrasta rétti sínum. Það hafi einnig verið áréttað sérstaklega í 4. mgr. 52. gr. laga um almannatryggingar eins og ákvæðið hafi verið áður en því hafi verið breytt með lögum nr. 8/2014:

„Starfsfólk Tryggingastofnunar og umboðsmenn hennar eða eftir atvikum starfsfólk sjúkratryggingastofnunarinnar skulu kynna sér til hlítar aðstæður umsækjenda og bótaþega og gera þeim grein fyrir ýtrasta rétti þeirra samkvæmt lögum þessum, reglugerðum settum á grundvelli laganna og starfsreglum stofnunarinnar.“

Tryggingastofnun hafi ítrekað haft tækifæri til að kynna fyrir kæranda rétt hans á greiðslu barnalífeyris og hafi átt að leiðbeina honum en það hafi ekki gert fyrr en í X.

Nauðsynlegt sé að taka fram að Tryggingastofnun hafi fengið upplýsingar um misbrest í þessum málaflokki árið X. Öryrkjabandalagið hafi reglulega og ítrekað bent á að leiðbeiningarskyldu Tryggingastofnunar hafi ekki verið sinnt sem skyldi. Megi meðal annars benda á að Öryrkjabandalagið hafi rekið mál fyrir úrskurðarnefnd almannatrygginga árið 2011, kærumál nr. 351/2011. Málið hafi varðað einstakling sem hafi uppfyllt skilyrði fyrir barnalífeyri en hafi ekki fengið leiðbeiningar um þann rétt sinn.

Á umsóknareyðublaði Tryggingastofnunar fyrir örorkulífeyri og tengdar greiðslur á árinu X hafi ekki verið gefinn möguleiki á að sækja um afturvirkt.

III.  Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins

Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins kemur fram að kærður sé upphafstími greiðslna barnalífeyris.

Kærandi hafi með umsókn, dags. 18. júní 2018, óskað eftir greiðslu barnalífeyris tvö ár aftur í tímann með barni sínu. Einnig hafi stofnuninni borist greinargerð frá umboðsmanni kæranda, dags. 9. júlí 2018, þar sem óskað hafi verið eftir greiðslu barnalífeyris lengra aftur í tímann með barni, fæddu X, og X öðrum börnum, fæddum X-X.

Með bréfi Tryggingastofnunar, dags. 12. október 2018, hafi verið samþykkt að greiða kæranda barnalífeyri með barni hans frá X […], þ.e. tvö ár aftur í tímann frá því að fyrri umsókn hans, dags. X, hafi borist um greiðslu barnalífeyris sem hafi ekki verið afgreidd. Ekki hafi verið samþykkt að greiða barnalífeyri lengra aftur í tímann.

Samkvæmt 20. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar, með síðari breytingum, greiði Tryggingastofnun barnalífeyri með börnum yngri en 18 ára ef annað hvort foreldra sé látið eða sé örorkulífeyrisþegi, hafi annað hvort foreldra þess eða barnið sjálft búið hér á landi að minnsta kosti þrjú síðustu árin áður en umsókn sé lögð fram. Séu báðir foreldrar látnir eða örorkulífeyrisþegar skuli greiddur tvöfaldur barnalífeyrir.

Samkvæmt 39. gr. laga um almannatryggingar sé umsækjanda rétt og skylt að veita Tryggingastofnun þær upplýsingar sem nauðsynlegar séu svo að unnt sé að taka ákvörðun um bótarétt, fjárhæð og greiðslu bóta og annarra greiðslna samkvæmt lögunum. Þá sé skylt að tilkynna um breytingar á tekjum eða öðrum aðstæðum sem geti haft áhrif á bætur og greiðslur. Efnislega sambærilegt ákvæði hafi verið í 2. mgr. 52. gr. laganna fram til 1. febrúar 2014 er nýtt ákvæði hafi tekið gildi með breytingalögum nr. 8/2014. Þá hafi ákvæðið verið umorðað til að gera það skýrara.

Í 52. gr. laga um almannatryggingar sé kveðið á um að sækja skuli um allar bætur frá Tryggingastofnun og að umsóknir skuli vera á þar til gerðum eyðublöðum. Þá komi fram í 4. mgr. 53. gr. laga um almannatryggingar að bætur skuli aldrei ákvarðaðar lengra aftur í tímann en tvö ár frá því að umsókn hafi borist og önnur gögn sem nauðsynleg séu til að unnt sé að taka ákvörðun um bótarétt og fjárhæð bóta. Efnislega sambærilegt ákvæði hafi verið í 2. mgr. 53. gr. laganna fram til 1. janúar 2016 er ákvæðinu hafi verið breytt með lögum nr. 88/2015.

Kæranda hafi verið metinn örorkulífeyrir frá Tryggingastofnun frá X. Hann hafi sótti um barnalífeyri með börnum sínum með umsókn, dags. 18. júní 2018, og með greinargerð umboðsmanns hans, dags. 9. júlí 2018. Með bréfi, dags. 12. október 2018, hafi umsókn um barnalífeyri verið samþykkt tvö ár aftur í tímann frá umsókn hans um örorkulífeyri, dags. X, eða frá X. Barnalífeyrir hafði ekki verið afgreiddur með þeirri umsókn en þar hafi verið tilgreint barn yngra en 18 ára sem hafi verið á framfæri kæranda.

Kærandi telji að hann eigi rétt til greiðslu barnalífeyris lengra aftur í tímann þar sem upplýsingaskylda Tryggingastofnunar um rétt hans til barnalífeyris hafi verið vanrækt.

Réttindi og skilyrði greiðslna barnalífeyris séu bundin í lögum. Samkvæmt 1. og 2. mgr. 52. gr. laga um almannatryggingar skuli sækja um allar bætur og greiðslur samkvæmt lögunum og umsóknir skulu vera á eyðublöðum Tryggingastofnunar eða sendar með rafrænum hætti. Í 4. mgr. 53. gr. laganna komi enn fremur fram að bætur skuli aldrei ákvarðaðar lengra aftur í tímann en tvö ár frá því að Tryggingastofnun berst umsókn og önnur nauðsynleg gögn. Þá segi í 39. gr. laganna að umsækjanda sé skylt að veita Tryggingastofnun allar nauðsynlegar upplýsingar til þess að hægt sé að taka ákvörðun um bótarétt. Sú skylda sé því lögð á bótaþega að hann leiti eftir rétti sínum.

Með framangreindri afgreiðslu á umsókn kæranda um greiðslu barnalífeyris telji Tryggingastofnun að komið hafi verið eins langt til móts við kröfur hans og leyfilegt sé lögum samkvæmt. Ekki sé til staðar lagaheimild til að verða við þeim kröfum sem settar hafi verið fram í kæru um greiðslu barnalífeyris lengra aftur í tímann en greitt hafi verið. 

Rétt þyki að benda á að í kæru sé gerð athugasemd við það að Tryggingastofnun hafi fengið upplýsingar um börn kæranda í E-204 vottorði frá D í C á árinu X og hafi því átt að leiðbeina kæranda um rétt hans til barnalífeyris. Samkvæmt gögnum málsins virðist hins vegar að kærandi hafi ekki átt rétt á barnalífeyri á því tímabili þar sem engar upplýsingar hafi legið fyrir um framfærsluskyldu hans gagnvart börnum sínum fram til ársins X.

Einnig megi benda á að kærandi hafi mátt gera sér grein fyrir mögulegum rétti til greiðslu barnalífeyris, meðal annars þegar hann hafi sótt um heimilisuppbót með umsókn, dags. X, en sótt hafi verið um á eyðublaðinu „Umsókn um örorkulífeyri og tengdar greiðslur“ þar sem komi fram upplýsingar um barnalífeyri. Einnig þegar hann hafi sótt um örorkulífeyri og heimilisuppbót að nýju með umsókn, dags. X.

Í viðbótargreinargerð Tryggingastofnunar, dags. 3. maí 2019, segir að í viðbótargögnum kæranda sé því haldið fram að Tryggingastofnun hafi áður samþykkt greiðslu réttinda lengra aftur í tímann en tvö ár frá umsókn og þá í fjögur ár frá móttöku beiðni um endurskoðun réttinda. Kærandi hafi vísað í afrit af bréfi til annars einstaklings máli sínu til stuðnings.

Eins og áður hafi komið fram þá sé ákvæði 4. mgr. 53. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar, með síðari breytingum, afar skýrt. Ekki sé heimilt að greiða lengra aftur í tímann en tvö ár frá því að umsókn um réttindi berst stofnuninni. Það hafi verið staðfest í úrskurðum úrskurðarnefndar og sé sú lagatúlkun sem ráði í sambærilegum málum. Hafi Tryggingastofnun hins vegar gert mistök við afgreiðslu í einu máli, líkt og virðist vera í því máli sem vísað sé til í gögnum kæranda, veiti það öðrum ekki rétt á grundvelli þeirra mistaka.

Það sé rétt að taka fram að almennum fyrningarreglum kröfuréttar hafi verið beitt í þeim málum þar sem sótt hafi verið um réttindi en Tryggingastofnun af einhverjum orsökum ekki afgreitt þau. Samkvæmt 3. gr. laga nr. 150/2007 um fyrningu kröfuréttinda sé almennur fyrningarfrestur fjögur ár. Stofnunin hafi því í slíkum málum greitt allt að fjögur ár aftur í tímann frá því að upp hafi komist um rangar greiðslur. Í þeim tilvikum sé ávallt um að ræða að fullnægjandi umsókn og gögn hafi legið fyrir.

Rétt þyki að benda á að tilvitnun kæranda til umsóknar, dags. X, sé líklega röng, umsóknin sé dagsett X.

Að öðru leyti sé vísað í fyrri greinargerð stofnunarinnar.

IV.  Niðurstaða

Kærð er ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 12. október 2018, um annars vegar upphafstíma greiðslu barnalífeyris með yngsta barni kæranda og hins vegar synjun um greiðslu barnalífeyris með X börnum kæranda.

Samkvæmt 1. mgr. 20. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar er barnalífeyrir greiddur með börnum yngri en 18 ára, ef annað hvort foreldra er látið eða er örorkulífeyrisþegi, hafi annað hvort foreldra þess eða barnið sjálft búið hér á landi að minnsta kosti þrjú síðustu árin áður en umsókn er lögð fram. Kærandi, sem hefur verið örorkulífeyrisþegi frá árinu X, á rétt á greiðslu barnalífeyris, sbr. 1. mgr. 20. gr. laga um almannatryggingar.

Við úrlausn þessa máls lítur úrskurðarnefnd velferðarmála til þess sem greinir í 1. málsl. 1. mgr. 52. gr. laga um almannatryggingar. Þar segir svo:

„Sækja skal um allar bætur og greiðslur samkvæmt lögum þessum.“

Samkvæmt framangreindu er barnalífeyrir vegna framfærslu barna ekki sjálfkrafa greiddur af Tryggingastofnun heldur verður að sækja sérstaklega um slíkar greiðslur með umsókn.

Um upphafstíma greiðslna almannatrygginga er fjallað í 53. gr. laga um almannatryggingar. Svohljóðandi er 1. og 4. mgr. ákvæðisins:

„Réttur til bóta stofnast frá og með þeim degi er umsækjandi telst uppfylla skilyrði til bótanna og skulu bætur reiknaðar frá fyrsta degi næsta mánaðar eftir að bótaréttur er fyrir hendi. Bætur falla niður í lok þess mánaðar er bótarétti lýkur.

[…]

Bætur skulu aldrei ákvarðaðar lengra aftur í tímann en tvö ár frá því að Tryggingastofnun berst umsókn og önnur gögn sem nauðsynleg eru til að unnt sé að taka ákvörðun um bótarétt og fjárhæð bóta.“

Af framangreindu ákvæði verður ráðið að ekki sé heimilt að ákvarða bætur lengra aftur í tímann en tvö ár frá því að umsókn og önnur nauðsynleg gögn til að leggja mat á bótarétt og fjárhæð bóta berast Tryggingastofnun. Þá skulu bætur reiknaðar frá fyrsta degi næsta mánaðar eftir að bótaréttur er fyrir hendi.

Kærandi sótti um greiðslu barnalífeyris með umsókn, dags. 18. júní 2018. Við afgreiðslu umsóknarinnar kom í ljós að kærandi hafði áður sótt um greiðslur barnalífeyris með sama barni með umsókn X. Tryggingastofnun ákvarðaði kæranda greiðslur frá X. Kærandi fékk því greiddar bætur tvö ár aftur í tímann, þ.e. miðað við fyrsta dag næsta mánaðar eftir að bótaréttur var fyrir hendi samkvæmt 4. mgr. 53. gr. laga um almannatryggingar, sbr. 1. mgr. sömu greinar. Engar heimildir eru í lögum til þess að greiða bætur lengra aftur í tímann.

Með bréfi umboðsmanns kæranda, dags. 9. júlí 2018, var fyrst sótt um barnalífeyri með X börnum kæranda sem urðu 18 ára X-X.

Byggt er á því í kæru að upplýsinga- og leiðbeiningarskylda Tryggingastofnunar um rétt kæranda til barnalífeyris hafi verið vanrækt. Samkvæmt 1. mgr. 7. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 skal stjórnvald veita þeim sem til þess leita nauðsynlega aðstoð og leiðbeiningar varðandi þau mál sem snerta starfssvið þess. Þá er fjallað um leiðbeiningarskyldu Tryggingastofnunar í 37. gr. laga um almannatryggingar en ákvæðinu var bætt inn í almannatryggingalögin með lögum nr. 8/2014 sem tóku gildi 1. febrúar 2017. Í 1. mgr. 37. gr. laga um almannatryggingar segir svo:

„Tryggingastofnun ríkisins skal kynna sér aðstæður umsækjenda og greiðsluþega og gera þeim grein fyrir rétti þeirra samkvæmt lögum þessum og öðrum lögum er stofnunin starfar eftir, reglugerðum settum á grundvelli laganna og starfsreglum stofnunarinnar. Við meðferð máls skulu staða og réttindi umsækjanda eða greiðsluþega skoðuð heildstætt. Stofnunin skal leiðbeina umsækjanda um réttarstöðu hans, þau gögn sem þurfa að fylgja umsókn og um framhald málsins.“

Fyrir liggur að kærandi hefur verið örorkulífeyrisþegi frá árinu X og að Tryggingastofnun var með upplýsingar í E-204 vottorði, dags. X, um að hann ætti X börn. Þá liggja fyrir upplýsingar frá E, dags. X 2018, um meðlagsskyldu kæranda með börnunum í X ár […].

Úrskurðarnefnd velferðarmála fellst á að þær upplýsingar sem lágu fyrir á árinu X hafi gefið Tryggingastofnun tilefni til að leiðbeina kæranda um hugsanlegan rétt sinn til greiðslu barnalífeyris. Það liggja hins vegar ekki fyrir í málinu gögn um hvort það hafi verið gert eða ekki. Fyrir liggja umsóknir frá kæranda um örorkulífeyri og tengdar greiðslur, dags. X og X, þar sem gefinn er kostur á að sækja um barnalífeyri en kærandi sótti ekki um slíkar greiðslur. Óumdeilt er að kærandi sótti ekki um barnalífeyri með yngsta barni sínu fyrr en í X og kærandi sótti ekki um barnalífeyri með eldri börnum sínum fyrr en í júlí 2018. Tryggingastofnun samþykkti greiðslur barnalífeyris með yngsta barni kæranda tvö ár aftur í tímann […]. Hvað varðar eldri börn kæranda þá voru meira en tvö ár liðin frá því að þau urðu öll 18 ára gömul þegar umsókn um barnalífeyri barst og því ekki heimilt að greiða barnalífeyri til þeirra með vísan til 4. mgr. 53. gr. laga um almannatryggingar. Í ljósi skýrs ákvæðis 4. mgr. 53. gr. laga um almannatryggingar fellst úrskurðarnefnd velferðarmála ekki á að til álita komi að breyta hinni kærðu ákvörðun á þeim grundvelli að Tryggingastofnun hafi ekki sinnt leiðbeiningarskyldu sinni, sbr. 1. mgr. 7. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og 1. mgr. 37. gr. laga um almannatryggingar.

Í kæru er bent á að Tryggingastofnun ríkisins hafi áður samþykkt greiðslu barnalífeyris lengra aftur í tímann í sambærilegu máli. Samkvæmt 1. mgr. 11. gr. stjórnsýslulaga skulu stjórnvöld gæta samræmis og jafnræðis í lagalegu tilliti. Í viðbótargreinargerð Tryggingastofnunar ríkisins segir að hafi stofnunin gert mistök í öðru máli þá veiti það ekki öðrum umsækjendum rétt á grundvelli þeirra mistaka. Úrskurðarnefnd velferðarmála telur að afgreiðsla Tryggingastofnunar í máli þessu sé í samræmi við ákvæði laga um almannatryggingar. Jafnræðisreglan veitir almennt ekki tilkall til neins sem ekki samrýmist lögum. Hafi Tryggingastofnun tekið ákvörðun sem ekki samrýmist lögum í öðru máli leiðir jafnræðisreglan ekki til þess að stofnuninni beri að taka sambærilega ákvörðun í þessu máli.

Að framangreindu virtu er ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 12. október 2018 staðfest.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 12. október 2018, um upphafstíma greiðslna barnalífeyris til A, vegna yngsta barns hans og að synja kæranda um greiðslu barnalífeyris með X börnum hans, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir

 

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta