Hoppa yfir valmynd

Nr. 269/2022 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Hinn 13. júlí er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 269/2022

í stjórnsýslumáli nr. KNU22050032

 

Kæra […]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

 

I.          Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Hinn 17. maí 2022 kærði […], fd. […], ríkisborgari Albaníu ( hér eftir nefndur kærandi), ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 4. maí 2022, um að synja umsókn hans um dvalarleyfi á grundvelli 70. gr. laga um útlendinga.

Kærandi krefst þess

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

Lagagrundvöllur

Í máli þessu gilda einkum ákvæði laga um útlendinga nr. 80/2016 ásamt síðari breytingum, reglugerð um útlendinga nr. 540/2017 ásamt síðari breytingum, ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993, Stjórnarskrá lýðveldisins Íslands, sbr. lög nr. 33/1944, mannréttindasáttmáli Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994 auk annarra alþjóðlegra skuldbindinga Íslands á sviði mannréttinda eftir því sem tilefni er til.

II.            Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi hefur aldrei verið með dvalarleyfi á Íslandi. Hinn 23. júní 2021 sótti kærandi um dvalarleyfi á grundvelli hjúskapar við íslenskan ríkisborgara. Við meðferð málsins bárust Útlendingastofnun upplýsingar frá maka kæranda þess efnis að hún hygðist sækja um skilnað við kæranda. Óskaði Útlendingastofnun eftir frekari upplýsingum frá maka kæranda með tölvubréfi, dags. 17. febrúar 2022, og í tölvubréfi maka kæranda, dags. 18. febrúar 2022, afturkallaði hún samþykki sitt fyrir dvalarleyfi kæranda og þar er jafnframt tekið fram að skilnaðarferli sé hafið hjá sýslumanni.

Með hinni kærðu ákvörðun var umsókn kæranda um dvalarleyfi synjað með vísan til 3. mgr. 69. gr. laga um útlendinga þar sem skilyrði fyrir veitingu leyfisins væru brostin. Greinargerð kæranda vegna málsins barst kærunefnd hinn 31. maí 2022.

Í kæru óskaði kærandi eftir frestun réttaráhrifa á ákvörðun Útlendingastofnunar á meðan málið væri til meðferðar hjá kærunefndinni, sbr. 2. mgr. 29. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Hinn 18. maí 2022 féllst kærunefnd á þá beiðni.

III.       Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð sinni byggir kærandi á því að ákvörðun Útlendingastofnunar brjóti í bága við meginreglur stjórnsýsluréttar, þá einkum ákvæði 13. gr. stjórnsýslulaga um andmælarétt aðila og 10. gr. sömu laga um rannsóknarskyldu stjórnvalda. Kærandi byggir jafnframt á því að ákvörðun Útlendingastofnunar hafi brotið gegn lögmætisreglu stjórnsýsluréttar. Telur kærandi að mat stjórnvalda á því hvort hann uppfylli skilyrði fyrir dvalarleyfi samkvæmt 70. gr. laga um útlendinga, sbr. 3. mgr. 69. gr. sömu laga, hafi verið verulega ábótavant og að sá ágalli varði ógildingu á ákvörðun Útlendingastofnunar. Kærandi hafi ekki fengið tækifæri til þess að tjá sig eða afla frekari upplýsinga um mat Útlendingastofnunar áður en stofnunin hafi tekið ákvörðun í máli hans. Það brjóti gegn andmælareglu 13. gr. stjórnsýslulaga. Í athugasemdum við IV. kafla frumvarps til stjórnsýslulaga sé tekið fram að í andmælareglunni felist að aðili máls, sem til meðferðar sé hjá stjórnvaldi, skuli eiga kost á því að tryggja réttindi sín og hagsmuni með því að kynna sér gögn máls og málsástæður sem ákvörðun byggist á, leiðrétta framkomnar upplýsingar og koma að frekari upplýsingum um málsatvik áður en stjórnvald taki ákvörðun í máli hans. Til þess að aðili geti neytt andmælaréttar síns þurfi hann að hafa vitneskju um að málið sé til meðferðar hjá stjórnvöldum, eiga greiðan aðgang að málsgögnum og kost á að tala máli sínu. Kærandi telji að hann hafi ekki getað beitt andmælarétti sínum vegna þess að Útlendingastofnun hafi talið að það væri augljóslega óþarft, líkt og orðað sé í hinni kærðu ákvörðun. Máli sínu til stuðnings vísar kærandi til lögskýringargagna með greinum þeim sem urðu að 13. og 14. gr. stjórnsýslulaga sem hafi mikla þýðingu við skýringu á andmælareglunni. Kærandi telji að umrædd andmælaregla eigi sérstaklega við þegar stjórnvöld afli að eigin frumkvæði upplýsinga, líkt og í máli hans þegar Útlendingastofnun hafi óskað eftir frekari upplýsingum frá þáverandi eiginkonu kæranda. Vísar kærandi til álita umboðsmanns Alþingis í málum nr. 3574/2002 og 4316/2005 máli sínu til stuðnings. Í báðum málum hafi umboðsmaður ítrekað að ef stjórnvald afli sjálft upplýsinga, sem málsaðila sé ókunnugt um, og telja verði að upplýsingarnar séu honum í óhag og hafi verulega þýðingu við úrlausn málsins, sé stjórnvaldinu almennt óheimilt að taka ákvörðun í málinu fyrr en honum hafi verið gefinn kostur á að kynna sér upplýsingarnar og tjá sig um þær. Eins og áður greini hafi kærandi ekki vitað af samskiptum Útlendingastofnunar við þáverandi eiginkonu sína. Þannig hafi Útlendingastofnun aflað að eigin frumkvæði upplýsinga sem kæranda hafi verið ókunnugt um. Umrædd samskipti hafi verið stefnanda í óhag enda hafi stofnunin lagst gegn umsókn kæranda að öllu leyti, en mat stofnunarinnar hafi eingöngu byggst á umræddum samskiptum. Stjórnvöldum beri ávallt að veita andmælarétt í vafatilvikum enda samræmist það góðum stjórnsýsluháttum.

Kærandi telur jafnframt að Útlendingastofnun hafi ekki uppfyllt rannsóknarskyldu sína við meðferð málsins samkvæmt 10. gr. stjórnsýslulaga. Útlendingastofnun hafi ekki kannað sérstaklega hvort kærandi uppfyllti skilyrði fyrir veitingu dvalarleyfis þótt þáverandi eiginkona hans hafi verið á móti því. Útlendingastofnun hafi borið að meta aðstæður hans sérstaklega og afla eða óska eftir frekari gögnum áður en ákvörðun hafi verið tekin, enda sé sérstaklega mælt fyrir um heimild en ekki skyldu til þess að hafna umsóknum við slíkar aðstæður. Athugasemdir við ákvæði 3. mgr. 69. gr. laga um útlendinga gefi eindregið til kynna að það geti verið réttlætanlegt við tilteknar aðstæður að veita dvalarleyfi þrátt fyrir að aðstandandi hér á landi sé mótfallinn því. Að mati kæranda hafi Útlendingastofnun því ekki mátt synja umsókn hans án þess að framkvæma einstaklingsbundið mat á aðstæðum hans, enda hafi hann verið í lögmætri dvöl hérlendis frá 23. júní 2021. Á tímabilinu sem um ræði hafi kærandi myndað sterk tengsl við bæði land og þjóð. Brjóti stjórnvald gegn rannsóknarreglunni sé um að ræða verulegan annmarka sem leiði til efnislegra rangrar niðurstöðu og sé ákvörðunin þá óumflýjanlega ógildanleg. Þá beri að líta til þess að samkvæmt 2. gr. laga um útlendinga sé markmið og tilgangur laganna að tryggja réttaröryggi útlendinga sem komi til landsins og tryggja mannúðlega meðferð stjórnvalda í málefnum þeirra hér á landi. Að auki sé áréttað að því tilfinnanlegri eða meira íþyngjandi sem stjórnvaldsákvörðun sé, þeim mun strangari kröfur verði að gera til rannsóknar á þeim atvikum er leiði til niðurstöðunnar.

Auk framangreinds telur kærandi að ákvörðun Útlendingastofnunar í máli hans sé ógild af þeirri ástæðu að mat stofnunarinnar hafi verið óforsvaranlegt. Réttmætisregla stjórnsýsluréttarins feli í sér að við töku matskenndra stjórnvaldsákvarðana þurfi að byggja á málefnalegum sjónarmiðum og að vægi þeirra innbyrðis þurfi einnig að vera málefnalegt og forsvaranlegt. Útlendingastofnun hafi ekki litið til stöðu og aðstæðna kæranda við mat sitt á því hvort hann uppfyllti skilyrði 70. gr. laga um útlendinga, sbr. 3. mgr. 69. gr. laga um útlendinga. Með því hafi stofnunin gerst brotleg við lögmætis- og réttmætisreglu stjórnsýsluréttarins. Þannig sé um að ræða skýrt brot á efnisreglum sem leiði til ógildingar framangreindrar ákvörðunar.

Í viðbótarrökstuðningi kæranda, sem barst kærunefnd hinn 6. júlí 2022, kemur m.a. fram að ekki sé útlistað með nákvæmum hætti í 3. mgr. 69. gr. hvers konar mat eigi að fara fram eða hvaða sjónarmið skuli leggja til grundvallar við beitingu þess. Þó sé ljóst að um sé að ræða heimildarákvæði sem virðist taka mið af sanngirnissjónarmiðum. Þá sé jafnframt ljóst að fyrrverandi eiginkona kæranda óttist hvorki misnotkun né ofbeldi af hálfu kæranda. Í því sambandi vísar kærandi til þess að hann hafi hreina sakaskrá og hafi aldrei verið sakaður um refsivert athæfi. Kærandi hafi uppfyllt öll skilyrði dvalarleyfis samkvæmt 70. gr. laga um útlendinga er hann hafi lagt fram umsókn sína hinn 23. júní 2021. Hvað varði sanngirnissjónarmið samkvæmt 3. mgr. 69. gr. laganna vísar kærandi til þess að um sé að ræða fyrstu umsókn hans um dvalarleyfi hér á landi. Kærandi hafi komið til landsins með lögmætum hætti í góðri trú um að hann fengi útgefið dvalarleyfi á grundvelli hjúskapar en um það bil tíu mánuðum síðar hafi umsókninni verið hafnað. Undanfarið ár hafi kærandi þó aðlagast íslensku samfélagi, starfað hérlendis og lært tungumálið. Kærandi telur að við mat á skilyrðum samkvæmt 3. mgr. 69. gr., sbr. 70. gr., beri einnig að líta til hjúskapartímans, en kærandi og fyrrverandi eiginkona hans hafi fengið útgefið leyfi til lögskilnaðar hinn 3. júní 2022. Þannig hafi þau verið gift í nánast heilt ár. Þá beri einnig að líta til þess að fyrrverandi eiginkona kæranda hafi staðfest afturköllun sína í febrúar 2022, rúmum 8 mánuðum frá því að umsókn kæranda hafi verið lögð fram. Langur málsmeðferðartími Útlendingastofnunar hafi því komið í veg fyrir útgáfu leyfisins á meðan öll skilyrði hafi verið uppfyllt. Hefði kærandi fengið leyfið útgefið með tímanlegum hætti þá ætti hann betri kost á að sækja um dvalarleyfi á grundvelli sérstakra tengsla við Ísland eftir skilnaðinn. Það væri því bersýnilega ósanngjarnt að synja kæranda um dvalarleyfi hérlendis. Í þessu sambandi beri einnig að líta til þess að engir aðrir augljósir dvalarleyfiskostir standi kæranda til boða. Jafnframt væri íþyngjandi fyrir kæranda að þurfa að fara úr landi og sækja að nýju um dvalarleyfi erlendis frá. Kærandi hafi myndað tengsl við land og þjóð og m.a. starfað hjá […] sem […]. Þá sé kærandi jafnframt búsettur í […] hjá íslenskri konu, en kærandi uppfylli þó ekki skilyrði fyrir dvalarleyfi á grundvelli sambúðar þar sem sambúð þeirra sé tiltölulega nýleg. Að mati kæranda væri það ósanngjarnt gagnvart honum og sambýliskonu hans að synja honum um dvalarleyfi hérlendis og vísa honum úr landi. Kærandi telji einsýnt að stjórnvöldum beri að líta til framangreindra sjónarmiða, enda mæli ríkar sanngirnisástæður með því að kærandi fái útgefið dvalarleyfi hérlendis samkvæmt 1. mgr. 70. gr. laga um útlendinga, sérstaklega með tilliti til málsmeðferðar Útlendingastofnunar.

Það sé ljóst að mati kæranda að löggjafinn hafi veitt stjórnvöldum heimild til þess að meta sérstaklega aðstæður umsækjanda þegar maki dragi samþykki sitt fyrir umsókn til baka. Slíkt mat hafi ekki farið fram hjá Útlendingastofnun. Málsmeðferðarannmarkar Útlendingastofnunar hafi bæði lotið að lagagrundvelli og rannsókn málsins. Stofnunin hafi látið hjá líða að leysa úr því álitaefni hvort aðstæður kæranda hafi fullnægt skilyrðum 3. mgr. 69. gr., sbr. 70. gr. laga um útlendinga. Eðli málsins samkvæmt hafi málsmeðferðin falið í sér beitingu matskenndra heimilda og hafi kærandi því haft brýna hagsmuni að fá umfjöllun um mál sitt á tveimur stjórnsýslustigum. Í ljósi framangreinds gæti reynst nauðsynlegt að mati kæranda að leggja fyrir Útlendingastofnun að taka málið til meðferðar á nýjan leik ef ekki verði fallist á kröfugerð hans. Það væri í samræmi við álit umboðsmanns Alþingis í málum nr. 5261/2008 og 4275/2004 þar sem fjallað hafi verið um þá brýnu hagsmuni útlendinga af því að fá umfjöllun um mál sín á tveimur stjórnsýslustigum. Þá telur kærandi að vönduð og málefnaleg málsmeðferð sé sérstaklega mikilvæg í ljósi þess að ekki hafi reynt á þessi lagaákvæði með þessum hætti áður.

IV.       Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Samkvæmt 1. mgr. 69. gr. laga um útlendinga getur nánasti aðstandandi íslensks eða annars norræns ríkisborgara sem er með fasta búsetu hér á landi eða útlendings sem dvelst hér á landi á grundvelli dvalarleyfis skv. 61., 63., 70., 73., 74. og 78. gr. eða ótímabundins dvalarleyfis skv. 58. gr. með umsókn fengið dvalarleyfi á grundvelli fjölskyldusameiningar að fullnægðum skilyrðum 55. gr. og VIII. kafla. Til nánustu aðstandanda samkvæmt ákvæðinu teljast maki, sambúðarmaki, börn viðkomandi yngri en 18 ára í forsjá hans og á framfæri og foreldrar 67 ára og eldri. Sama gildi um maka, sambúðarmaka og börn þeirra sem stunda framhaldsnám á háskólastigi, doktorsnám og rannsóknir hér á landi á grundvelli 65. gr. laganna. Samkvæmt 3. mgr. 69. gr. skal umsókn um fyrsta dvalarleyfi hafnað ef samþykki fjölskyldumeðlims fyrir útgáfu þess leyfis liggur ekki fyrir.

Í 70. gr. laga um útlendinga er kveðið á um dvalarleyfi á grundvelli hjúskapar eða sambúðar. Samkvæmt 7. mgr. 70. gr. skulu makar og sambúðarmakar hafa fasta búsetu á sama stað í samræmi við ákvæði laga um lögheimili og aðsetur. Heimilt er að víkja frá þessu ákvæði ef sérstakar tímabundnar ástæður eru fyrir hendi.

Í gögnum málsins liggja fyrir samskipti milli fyrrverandi eiginkonu kæranda og Útlendingastofnunar þar sem hún greinir frá því að hún hafi sótt um skilnað við kæranda og afturkalli þar með samþykki sitt fyrir dvalarleyfi kæranda á grundvelli hjúskapar. Í endurriti úr hjónaskilnaðarbók, sem kærunefnd barst 1. júlí 2022, kemur fram að þáverandi eiginkona kæranda hafi mætt á skrifstofu sýslumannsins á Suðurlandi hinn 25. apríl 2022 og krafist lögskilnaðar. Haft er eftir henni að ástæða skilnaðarins sé langvarandi ofbeldi af hálfu kæranda í garð hennar, bæði andlegt og fjárhagslegt, en einnig ofbeldi gagnvart barni hennar. Með tölvubréfi, dags. 2. júlí 2022, var kæranda veitt tækifæri á að andmæla framkomnum upplýsingum í málinu, sem og færi á að leggja fram rök fyrir því að honum skuli vera veitt dvalarleyfi á grundvelli hjúskapar samkvæmt 70. gr. laga um útlendinga í ljósi skilnaðarins og afturköllunar fyrrverandi eiginkonu kæranda á samþykki hennar fyrir dvalarleyfi hans.

Hinn 5. júlí 2022 barst kærunefnd tölvubréf frá íslenskri konu þar sem fram kemur m.a. að það sé einlægur vilji hennar og kæranda að kærandi verði sambýlismaður hennar og jafnframt eiginmaður í náinni framtíð. Kærandi hafi dvalið á heimili hennar í nokkra mánuði og kvað hún sambúð þeirra ganga vel. Hinn 6. júlí 2022 barst kærunefnd viðbótargögn frá kæranda, m.a. viðbótarrökstuðningur, afrit af leyfisbréfi kæranda og fyrrverandi eiginkonu hans til lögskilnaðar, dags. 3. júní 2022, og meðmælendabréf frá vinnuveitanda kæranda.

Líkt og áður greinir lagði kærandi fram umsókn um dvalarleyfi á grundvelli hjúskapar við þáverandi eiginkonu sína 23. júní 2021. Hinn 24. janúar 2022 sendi hún tölvubréf á Útlendingastofnun þar sem hún tilkynnti að hún væri að skilja við kæranda og að hún afturkalli samþykki sitt fyrir veitingu dvalarleyfis hans. Hinn 3. júní 2022 fengu þau leyfi til lögskilnaðar. Með vísan til framangreinds er ljóst að með því eru forsendur fyrir veitingu dvalarleyfis á grundvelli hjúskapar brostnar. Kærandi uppfyllir því ekki skilyrði fyrir veitingu dvalarleyfis á grundvelli hjúskapar samkvæmt 1. mgr. 70. gr. laga um útlendinga. Að því sögðu kemur ákvæði 3. mgr. 69. gr., um samþykki fjölskyldumeðlima fyrir veitingu dvalarleyfis, ekki til álita.

Athugasemdir við ákvörðun Útlendingastofnunar

Á þeim tíma er ákvörðun Útlendingastofnunar var tekin í máli kæranda hafði kærandi og þáverandi eiginkona hans ekki formlega hafið skilnaðarferli og voru því ennþá í hjúskap. Því byggði ákvörðun Útlendingastofnunar einkum á því að þáverandi eiginkona kæranda væri andvíg dvalarleyfi kæranda á grundvelli hjúskapar við sig, sbr. 3. mgr. 69. gr. laga um útlendinga. Kærandi telur að Útlendingastofnun hafi borið að meta hvort kærandi ætti rétt á dvalarleyfi á grundvelli 70. gr. laga um útlendinga þrátt fyrir að ákvæði 3. mgr. 69. gr. laganna mæli fyrir um að umsókn um dvalarleyfi samkvæmt 70. gr. skuli hafnað ef samþykki fjölskyldumeðlims fyrir útgáfu þess leyfis liggur ekki fyrir. Útlendingastofnun hafi heimild samkvæmt ákvæði 3. mgr. 69. gr. laganna til að veita umsækjanda dvalarleyfi þrátt fyrir andstöðu aðstandanda. Með þessu telur kærandi að Útlendingastofnun hafi brotið gegn rannsóknarskyldu sinni samkvæmt 10. gr. stjórnsýslulaga. Kærandi telur að Útlendingastofnun hafi brotið gegn andmælarétti hans samkvæmt 13. gr. stjórnsýslulaga með því að hafa tekið ákvörðun í máli hans á grundvelli upplýsinga frá fyrrverandi eiginkonu hans án þess að honum hafi verið veitt tækifæri til að leggja fram andmæli.

Í IV. kafla stjórnsýslulaga nr. 37/1993 eru lögfestar meginreglur um andmælarétt. Þeim er einkum ætlað að tryggja að aðili máls geti gætt hagsmuna sinna með því að koma afstöðu sinni til málsins á framfæri við stjórnvöld. Í athugasemdum við IV. kafla frumvarps til stjórnsýslulaga kemur m.a. fram að til þess að aðili geti neytt andmælaréttar síns þurfi hann að hafa vitneskju um að málið sé til meðferðar hjá stjórnvöldum, greiðan aðgang að málsgögnum og að eiga þess kost að tala máli sínu. Samkvæmt 13. gr. stjórnsýslulaga skal aðili máls eiga þess kost að tjá sig um efni máls áður en stjórnvald tekur ákvörðun í því, enda liggi ekki fyrir í gögnum málsins afstaða hans og rök fyrir henni eða slíkt sé augljóslega óþarft. Í reglunni um andmælarétt felst m.a. að málsaðili á að eiga kost á því að gæta réttar síns og hagsmuna með því að kynna sér gögn máls, tjá sig um efni máls og framkomnar upplýsingar í því áður en stjórnvald tekur ákvörðun í máli hans.  

Af lestri ákvörðunar Útlendingastofnunar er ljóst að upplýsingar sem stofnuninni bárust í tölvubréfum frá þáverandi eiginkonu kæranda voru grundvöllur synjunar stofnunarinnar á umsókn kæranda. Gögnin höfðu því verulega þýðingu fyrir úrlausn málsins og voru kæranda í óhag. Fram kemur í ákvörðun Útlendingastofnunar að stofnunin hefði talið það vera bersýnilega óþarft að veita kæranda kost á að tjá sig um efni málsins, enda hafi skýr vilji þáverandi eiginkonu hans um afturköllun á samþykki sínu fyrir veitingu dvalarleyfisins legið fyrir. Þegar horft er til efni upplýsinganna, þess tíma sem leið frá því upplýsingarnar bárust Útlendingastofnun og þar til ákvörðun var tekin, sem og þess að umræddar upplýsingar bárust í gegnum tölvupóst þar sem erfitt er að sannreyna hver sendandinn er, hefði að mati kærunefndar verið rétt og eðlilegt að gefa kæranda kost á að tjá sig um efni málsins. Af því leiðir að Útlendingastofnun var óheimilt að taka ákvörðun fyrr en kæranda hafði verið gefinn kostur á að tjá sig um efnið, sbr. 13. gr. stjórnsýslulaga.

Kærandi kærði mál sitt til kærunefndar sem veitti talsmanni hans frest til að leggja fram skriflega greinargerð í málinu, eftir atvikum studda frekari gögnum. Þá fékk kærandi tækifæri til að leggja fram andmæli, viðbótargögn og viðbótarrökstuðning hjá kærunefnd, sem hann gerði. Lagði kærandi einkum áherslu á að hann hafi myndað tengsl við land og þjóð þar sem hann stundi hér atvinnu og eigi í sambandi við íslenskan ríkisborgara. Sú staðreynd að kærandi stundi atvinnu hér á landi eða eigi í sambandi við íslenskan ríkisborgara hefði að mati kærunefndar ekki veitt Útlendingastofnun tilefni til þess að fara gegn afstöðu þáverandi eiginkonu kæranda. Þvert á móti hefðu upplýsingar um að kærandi væri kominn í samband að nýju styrkt niðurstöðu Útlendingastofnunar um að synja kæranda um dvalarleyfi á grundvelli hjúskapar við þáverandi eiginkonu sína enn frekar. Samkvæmt framansögðu hefur verið bætt úr annmarka á málsmeðferð Útlendingastofnunar á kærustigi. Þá er ljóst að mati kærunefndar að umræddur annmarki hafði ekki áhrif á efnislega niðurstöðu málsins. Kærunefnd hefur endurskoðað alla þætti máls kæranda og komist að sömu niðurstöðu og Útlendingastofnun.

Í ljósi niðurstöðu kærunefndar í máli kæranda er ekki ástæða til þess að fjalla frekar um aðrar athugasemdir kæranda við málsmeðferð útlendingastofnunar.

V.            Samantekt og leiðbeiningar

Að framangreindu virtu er það niðurstaða kærunefndar að kærandi uppfyllir ekki skilyrði 1. mgr. 70. gr. laga um útlendinga fyrir veitingu dvalarleyfis á grundvelli hjúskapar.

 


 

 

Úrskurðarorð:

Ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest.

The decision of the Directorate of Immigration is affirmed.

 

Þorsteinn Gunnarsson

 

Gunnar Páll Baldvinsson                                                                                Sandra Hlíf Ocares


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta