Mál nr. 171/2020 - Úrskurður
Úrskurðarnefnd velferðarmála
Mál nr. 171/2020
Miðvikudaginn 19. ágúst 2020
Dánarbú A
gegn
Sjúkratryggingum Íslands
Ú R S K U R Ð U R
Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur og Kristinn Tómasson læknir.
Með kæru, dags. 5. apríl 2020, kærði B lögmaður, f.h. dánarbús A-3709, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands frá 22. janúar 2020 um bætur úr sjúklingatryggingu. Til hægðarauka er vísað til hinnar látnu sem kæranda eftirleiðis.
I. Málsatvik og málsmeðferð
Kærandi sótti um bætur úr sjúklingatryggingu með umsókn, dags. 22. ágúst 2017, vegna afleiðinga meðferðar sem fór fram á Landspítala 29. júlí 2017. Kærandi lést þann X. Með ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands, dags. 22. janúar 2020, var fallist á bótaskyldu á þeirri forsendu að vangreining á ástandi kæranda hafi átt sér stað á Landspítala 30. júlí 2017 þegar leggja hefði átt kæranda inn til frekari rannsókna og meðferðar. Atvikið var talið eiga undir 1. tölul. 2. gr. laga um sjúklingatryggingu nr. 111/2000 og bótaskylda viðurkennd. Með ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands var stöðugleikapunktur ákveðinn 31. júlí 2018. Tímabil þjáningabóta var ákveðið 31. júlí 2017 til 31. október 2017, samtals 93 dagar. Varanlegur miski var metinn 16 stig og varanleg örorka engin.
Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 5. apríl 2020. Með bréfi, dags. 8. apríl 2020, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Sjúkratrygginga Íslands ásamt gögnum málsins. Greinargerð Sjúkratrygginga Íslands barst með bréfi, dags. 27. apríl 2020, og var hún send lögmanni kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 28. apríl 2020. Athugasemdir bárust ekki.
II. Sjónarmið kæranda
Í kæru kemur fram að Sjúkratryggingar Íslands hafi vanmetið varanlegan miska kæranda vegna sjúklingatryggingaratburðarins. Tjón kæranda megi rekja til vangreiningar þar sem læknar hafi talið hana vera með þvagfærasýkingu þegar hún hafi í raun og veru verið með blóðtappa í heila og heiladrep. Kærandi hafi handleggsbrotnað nokkrum dögum síðar og þá hafi hún fengið rétta greiningu. Ef kærandi hefði fengið rétta greiningu þann 29. júlí 2017 hefði mátt koma í veg fyrir þann mikla skaða sem hún hafi orðið fyrir af völdum blóðtappans. Vangreining og ófullnægjandi læknismeðferð hafi leitt til þess að kærandi lést X, X ára að aldri.
Með ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands, dags. 22. janúar 2020, hafi stofnunin komist að þeirri niðurstöðu að vangreining og ófullnægjandi læknismeðhöndlun hefði átt sér stað á Landspítala þann 30. júlí 2017 og afleiðingar sjúklingatryggingaratburðarins væru handleggsbrot sem bæri að meta til 16 stiga varanlegs miska. Kærandi sé ósammála niðurstöðu Sjúkratrygginga Íslands varðandi afleiðingar sjúklingatryggingaratburðarins.
Krafa um bætur úr sjúklingatryggingu byggir á því að kærandi hafi orðið fyrir varanlegu líkamstjóni sem hafi leitt til ótímabærs andláts hennar vegna rangrar greiningar á Landspítalanum þann 29. júlí 2017 og ófullnægjandi læknismeðferðar frá þeim degi til 2. ágúst 2017, sbr. 2. og 3. gr. laga um sjúklingatryggingu.
Málsatvikum er lýst á þann hátt að þann 29. júlí 2017 hafi kærandi farið að finna fyrir máttleysi sem hafi lýst sér þannig að það hafi verið eins og einhver stæði fyrir aftan hana og ræki hnéð í hnésbótina þannig að hún missti fótinn undan sér. Eftir að hafa fallið nokkrum sinnum í gólfið hafi hún verið flutt með sjúkrabíl á bráðamóttöku Landspítala. Við komu hafi hún kvartað undan miklum svima og átt erfitt með að standa í fæturna. Þá hafi hún kvartað undan máttleysi í öðrum ganglim. Á bráðamóttöku hafi hún verið vangreind með þvagfærasýkingu og send heim. Næstu daga hafi þessi einkenni haldið áfram og þann 31. júlí 2017 hafi kærandi fallið illa í gólfið. Hún hafi verið aftur flutt á Landspítala þar sem hún hafi greinst með handleggsbrot og verið tekin til aðgerðar. Hún hafi áfram sýnt máttleysiseinkenni, kastað upp og farið að sýna taugaeinkenni. Þrátt fyrir þetta hafi hún ekki verið send í tölvusneiðmynd af höfði fyrr en 2. ágúst 2017. Hún hafi þá greinst með blóðtappa og æðagúl í höfði og verið komin með heiladrep. Eftir þetta hafi heilsu hennar hrakað hratt og hafi hún látist þann X á líknardeild Landspítala.
Byggt sé á því að Sjúkratryggingar Íslands hafi vanmetið afleiðingar sjúklingatryggingaratburðarins verulega. Sjúkratryggingar Íslands telji að afleiðingar sjúklingatryggingaratburðarins séu aðeins brot á framhandlegg og olnboga og að meta beri það tjón til 16 stiga varanlegs miska. Kærandi hafi ekki fallist á þetta mat Sjúkratrygginga Íslands sem byggðist á álitsgerð C læknis, dags. 20. nóvember 2019.
Byggt sé á því að vegna þeirrar vangreiningar og ófullnægjandi læknismeðferðar sem kærandi óumdeilanlega hafi hlotið á Landspítala á tímabilinu 29. júlí 2017 til 2. ágúst 2017, hafi læknum Landspítala láðst að koma í veg fyrir þær alvarlegu afleiðingar sem blóðtapparnir í höfði hennar ollu. Byggt sé á því að ef kærandi hefði fengið rétta greiningu og meðhöndlun strax hefði mátt koma í veg fyrir tjónið. Þar sem kærandi hafi ekki fengið læknisaðstoð þann dag og næstu daga á eftir hafi ástandið þróast á mun verri veg en það hefði þurft að gera og á endanum hafi kærandi setið uppi með heiladrep. Líkt og fram komi í ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands þá myndist heiladrepið 24-48 klukkustundum áður en myndin hafi verið tekin þann 2. ágúst 2017, þ.e. nokkru eftir að kærandi hafi fyrst leitað til Landspítala með einkenni sem hafi bent til heilablóðfalls eða blóðtappa.
Í læknisfræði virðist almennt viðurkennt að besta aðferðin til að koma í veg fyrir heilablóðfall sé að beita segaleysandi lyfjum innan nokkurra klukkustunda eftir að fyrstu einkenni gera vart við sig. Á upplýsingasíðu Harvard Medical School komi fram að besta leiðin sé að beita slíkri meðferð ekki síðar en þremur klukkustundum eftir að leitað sé til læknis með einkenni. Á upplýsingasíðu annars spítala komi fram að ef ekkert sé gert innan þriggja tíma sé ekki hægt að koma í veg fyrir varanlegan heilaskaða eða dauða sjúklingsins. Í ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands komi fram að slíka meðferð þurfi að veita innan fjögurra klukkustunda frá því að einkenni komi fyrst fram og byggi það á áliti C læknis, dags. 29. nóvember 2017. Ljóst sé af gögnum málsins að starfsmenn Landspítala hafi haft tækifæri til að beita slíkri meðferð innan fjögurra klukkustunda frá því að einkenni kæranda hafi komið fyrst fram. Það hafi þeim láðst að gera og þar með hafi þeir misst af tækifæri til að koma í veg fyrir varanlegan heilaskaða kæranda.
Byggt sé á því að unnt hefði verið að koma í veg fyrir tjón kæranda hefði hún verið rétt greind strax og fengið segaleysandi lyf. Þar sem kærandi hafi verið vangreind og ekki fengið viðeigandi meðferð strax hafi hún hlotið heiladrep sem hafi á endanum dregið hana til dauða.
Í ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands sé því haldið fram að þegar kærandi hafi fyrst leitað á Landspítala þann 29. júlí 2017 hafi hún ekki verið með dæmigerð einkenni heilablóðfalls og þannig sé reynt að réttlæta vangreininguna. Líkt og fram komi í áliti Landlæknis, dags. 4. júní 2018, hafi einkenni kæranda við komu þann dag verið kraftleysi í ganglim, þ.e. augljós frávik í miðtaugakerfi. Landlæknir telji að þessi einkenni ein og sér hefðu átt að leiða til ítarlegri rannsókna sem hefðu þá leitt í ljós heilablóðfall. Taugaskoðun á kæranda hafi verið engin en með fullnægjandi taugaskoðun hefði verið unnt að fá fram rétta greiningu. Bent sé á að Sjúkratryggingar Íslands virðist ekki líta að neinu leyti til fyrirliggjandi álits Landlæknis, enda sé það ekki talið upp meðal þeirra gagna sem hafi legið til grundvallar ákvörðun stofnunarinnar.
Sjúkratryggingar Íslands haldi því fram að einkenni kæranda hafi byrjað sex klukkustundum áður en hún hafi verið flutt á Landspítala þann 29. júlí 2017 og því hefði segaleysandi meðferð ekki komið að gagni. Þessi skoðun stofnunarinnar virðist byggð á því sem fram komi í matsgerð C læknis, dags. 29. nóvember 2019. Þessu hafi kærandi verið ósammála. Líkt og fram komi í tilkynningu kæranda til Sjúkratrygginga Íslands hafi hún farið að finna fyrir einkennum upp úr klukkan 17:30 sama dag. Hún hafi verið flutt á Landspítala upp úr klukkan 22:00. Þarna líði rétt rúmir fjórir tímar frá því að einkenni hafi gert fyrst vart við sig. Þar sem ekki sé um nákvæma skráningu tímasetninga að ræða gæti þeim skeikað eitthvað og því ekki unnt að útiloka að segaleysandi meðferð hefði getað losað blóðtappana og stöðvað heilablóðfallið.
Af öllu ofangreindu sé ljóst að kærandi hafi fengið ranga greiningu og meðhöndlun á Landspítala 29. júlí 2017. Þessi ranga greining og meðhöndlun hafi valdið því að hún hafi fengið heiladrep sem hafi síðar leitt til dauða hennar. Hún eigi því rétt á bótum samkvæmt 2. og 3. gr. laga um sjúklingatryggingu. Telja verði sannað að ef rétt hefði verið staðið að læknismeðferð og greiningu í umrætt sinn hefði kærandi aldrei orðið fyrir þeim mikla heilaskaða sem hún varð fyrir.
Samkvæmt lögum um sjúklingatrygginu eigi þeir rétt til bóta sem verði fyrir meðal annars líkamstjóni í tengslum við rannsókn eða sjúkdómsmeðferð hér á landi. Byggt sé á því að varanlegan heilaskaða og að lokum dauða kæranda megi rekja til þess að ekki hafi verið rétt staðið að læknismeðferð, sbr. 1. tölul. 2. gr. og 3. gr. laga um sjúklingatryggingu, þar sem kærandi hafi verið vangreind.
III. Sjónarmið Sjúkratrygginga Íslands
Í greinargerð Sjúkratrygginga Íslands kemur fram að kærandi hafi sótt um bætur úr sjúklingatryggingu samkvæmt lögum um sjúklingatryggingu. Sótt hafi verið um bætur vegna meðferðar sem hafi farið fram á Landspítala þann 29. júlí 2017. Með ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands, dags. 22. janúar 2020, hafi umsókn kæranda um bætur úr sjúklingatryggingu verið samþykkt og greiddar bætur til handa kæranda.
Í hinni kærðu ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands komi eftirfarandi fram varðandi orsakatengsl á milli sjúklingatryggingartryggingaratburðar og þeirra líkamlegu einkenna sem kærandi hafi kvartað yfir:
„Samkvæmt gögnum málsins er ekki hægt að tímasetja nákvæmlega hvenær tjónþoli fékk infarct (drep) í heila. Samkvæmt gögnum virtist hún ekki hafa verið með skýr merki um heilablóðfall við skoðun þann 30.7. og ekki heldur þann 31.7. Hún fór síðan í aðgerð og daginn eftir átti hún erfitt með hreyfingar í hægri handleggs. Þann 2.8. var ákveðið að framkvæma tölvusneiðmynd að höfði vegna einkenna máttminnkunar og dofa í hægri fæti. Infarctinn (drepið) var sýnilegur á tölvusneiðmyndum þennan dag sem þýðir að blóðrásartruflun hefur átt sér stað a.m.k. 24-48 klst. fyrir þann tíma. Þetta gæti því hafa átt sér stað í tengslum við aðgerðina eða fyrr.
Frekari rannsóknir á LSH leiddu einnig í ljós að hún var með sk. carotið body æxli sem virðist hafa verið einkennalaust og einnig aneurysma (æðagúl) á s.k. circulus Willis sem einnig virðist hafa verið einkennalaus og er þetta talið vera tilfallandi fundur í myndrannsóknum og ekki einkennagefandi.
Ástand tjónþola þegar fyrstu veikindi fóru að gera vart við sig sem leiddu til skoðunar á bráðamóttöku virðast þannig ekki dæmigerð fyrir einkenni heilablóðfalls sem veldur infarct (drepi) í hluta heila.
SÍ telja að leggja hefði tjónþola inn á LSH þann 30.7.2017, þá fyrst og fremst til rannsóknar vegna svimans eða yfirliðs. Ástæða þess að það var ekki gert virðist samkvæmt gögnum málsins a.m.k. að hluta til vera kerfislægur álagsvandi spítalans. Það er ekki hægt að fullyrða að ef það hefði verið gert hefði tjónþoli ekki dottið aftur og hlotið áverka, en SÍ telja þó meiri líkur en minni til þess.
Af gögnum málsins má ráða að erfitt er að tímasetja hvenær heiladrepið af völdum blóðtappa varð. Hugsanlegt er að sjálft heiladrepið hafi átt sér stað í tengslum við eða eftir aðgerðina á brotunum þó að einkenni um að það væri yfirvofandi hafi geta verið til staðar fyrr en þau voru þá alls ekki skýr.
Meðferð við heiladrepi hefði ekki verið hafin við innlögn þann 30.7.2017 nema merki um blóðtappa hefðu fundist og engar frábendingar hefðu verið fyrir meðferð. Áhrifaríkasta meðferð við nýjum blóðtappa í heilaæð sem veldur drepi í heilavef sem æðin nærir er gjöf segaleysandi lyfs sem þarf að hefja ekki seinna en fjórum klukkustundum frá upphafi einkenna, ef hún á að koma að gagni. Sýna þarf fram á með myndgreiningu að ekki sé blæðing, æxli í heila eða önnur frábending segaleysandi meðferðar. Einkenni munu samkvæmt gögnum málsins hafa byrjað um 6 klst. fyrir innlögn. Það verður því að teljast ólíklegt, að segaleysandi meðferð hefði verið framkvæmd eða komið að gagni þótt hún hefði verið gefin án tafar. Þá reyndist tjónþoli við síðari rannsókn hafa æðagúl í heilaæð, en hann skapar frábendingu við segaleysandi meðferð. Sú rannsókn hefði verið gerð áður en meðferð hefði verið hafin. Tjónþola hefði því væntanlega ekki verið gefin segaleysandi meðferð, þótt hún hefði verið lögð inn strax við fyrstu komu og því önnur meðferðarúrræði vegna yfirvofandi heiladreps fá eða engin.
Í ljósi þessa telja SÍ að afleiðingar sjúklingatryggingaratburðarins, sem var vangreining á ástandinu sem leiddu að líkindum til falláverkans, verði þannig eingöngu taldar eftirstöðvar brotaáverka á fjærenda upphandleggs og fjærenda sveifar orsakað af falli en ekki önnur veikindi. Tafir á innlögn hafi þannig ekki sannanlega aukið miska hennar vegna heiladrepsins.“
Að mati Sjúkratrygginga Íslands styðji álit Landlæknis, dags. 4. júní 2018, við niðurstöðu Sjúkratrygginga Íslands í máli kæranda. Eins og Sjúkratryggingar Íslands hafi Landlæknir komist að þeirri niðurstöðu að leggja hefði átt kæranda inn til frekari rannsóknar þegar kærandi hafi komið á bráðadeild Landspítala þann 30. júlí 2017. Þá komi fram í umsögn D, sérfræðings í smitsjúkdómum, vegna atviksins sem rakið sé í áliti Landlæknis, að rétt viðbrögð á bráðadeildinni hefðu ekki komið í veg fyrir útkomu kæranda, fyrir utan að ætla megi að rétt viðbrögð hefðu komið í veg fyrir beinbrot kæranda. Ekkert komi fram í áliti Landlæknis um að koma hefði mátt í veg fyrir heilablóðfall kæranda. Jafnframt komi fram í áliti Landlæknis að kærandi hafi komið með sjúkrabíl kl. 00:13 á bráðadeild en hafi byrjað að finna fyrir einkennum um kl. 18:00 samkvæmt því sem komi fram í sjúkraskrá (kl. 17:30 í tilkynningu kæranda til Sjúkratrygginga Íslands). Því sé ljóst að minnsta kosti sex tímar líði á milli þess að kærandi hafi fundið fyrst fyrir einkennum og þar til hún komi upp á bráðadeild.
Með vísan til ofangreinds beri að staðfesta hina kærðu ákvörðun.
IV. Niðurstaða
Mál þetta varðar ágreining um afleiðingar sjúklingatryggingaratviks sem kærandi varð fyrir vegna vangreiningar á Landspítala 29. júlí 2017.
Samkvæmt 5. gr. laga nr. 111/2000 um sjúklingatryggingu fer um ákvörðun bótafjárhæðar samkvæmt þeim lögum eftir skaðabótalögum nr. 50/1993, sbr. þó 2. mgr. 10. gr. síðarnefndu laganna. Samkvæmt 1. mgr. 1. gr. skaðabótalaga skal sá sem ber bótaábyrgð á líkamstjóni greiða skaðabætur fyrir atvinnutjón, sjúkrakostnað og annað fjártjón sem af því hlýst og enn fremur þjáningabætur.
Varanlegur miski
Um mat á varanlegum miska segir í 1. mgr. 4. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 að litið skuli til eðlis og hversu miklar afleiðingar tjóns séu frá læknisfræðilegu sjónarmiði svo og til erfiðleika sem það valdi í lífi tjónþola. Varanlegur miski er metinn til stiga og skal miða við heilsufar tjónþola eins og það er þegar það er orðið stöðugt. Í hinni kærðu ákvörðun segir meðal annars svo um mat á heilsutjóni kæranda:
„Takmarkaðar upplýsingar eru um hver færniskerðing og hreyfigeta [tjónþola] í hægri olnboga og úlnlið voru mánuðina eftir atburðinn en af gögnum málsins má ráða að hún var með nokkra rétti- og beygiskerðingu í olnboga og skerðingu á snúningshreyfingu í hægri framhandlegg um 1,5 mánuði eftir atburðinn þegar gipsumbúðir voru fjarlægðar. Hún var eftir það í sjúkraþjálfunarmeðferð og endurhæfingu en ekki er að finna nákvæma lýsingu í gögnum málsins hver árangur endurhæfingarmeðferðar á hægri griplim varð. Það er staðreynd að brotið við olnboga var kurlað og náði inn í liðinn og brotið við úlnlið gréri samkvæmt röntgenmyndum með styttingu á radius. Við úlnliðinn hefur þannig ölnan orðið hlutfallslega lengri í þeim skilningi miðað við eðlilega samræmingu beinanna. Þetta þýðir að öllu jöfnu að slík brot gróa með all nokkurri hreyfiskerðingu og óþægindum og hugsanleag snemmkomnum slitbreytingum. Er það lagt til grundvallar við matið.
Við mat á varanlegum miska vegna áverka á hægri handlegg má leggja til grundvallar miskatöflur Örorkunefndar fyrir olnboga og framhandlegg liður VII.A.b2, og verður það metið til 8 stiga og vegna úlnliðar liður VII.A.c.2, verður það einnig metið til 8 stiga og verður þannig heildar varanlegur miski vegna afleiðinga sjúklingatryggingaratburðarins metinn samtals 16 stig. Hlutfallsreglan hefur ekki áhrif á þann útreikning.
Að mati SÍ er varanlegur miski vegna hins eiginlega sjúklingatryggingaratburðar réttilega metinn 16 (sextán) stig.“
Í álitsgerð C læknis, dags. 20. nóvember 2019, segir um mat á varanlegum miska:
„Undirritaður matsmaður telur að afleiðingar sjúklingatryggingaratburðarins sem var vangreining á ástandinu sem leiddu að líkindum til falláverkans verði þannig eingöngu taldar eftirstöðvar brotáverka á fjærenda upphandleggs og fjærenda sveifar orsakað af falli en ekki önnur veikindi. Tafir á innlögn hafi þannig að mati undirritaðs ekki sannanlega aukið miska hennar vegna heiladrepsins.
Takmarkaðar upplýsingar eru um hver færniskerðing og hreyfigeta A í hægri olnboga og úlnlið voru mánuðina eftir atburðinn en af gögnum málsins má ráða að hún var með nokkra rétti- og beygiskerðingu í olnboga og skerðingu á snúningshreyfingu í hægri framhandlegg um 1,5 mánuði eftir atburðinn þegar gipsumbúðir voru fjarlægðar. Hún var eftir það í sjúkraþjálfunarmeðferð og endurhæfingu en undirritaður finnur ekki í gögnum málsins nákvæma lýsingu á hver árangur endurhæfingarmeðferðar á hægri griplim varð. Það er staðreynd að brotið við olnboga var kurlað og náði inn í liðinn og brotið við úlnlið gréri samkvæmt röntgenmyndum með styttingu á radius. Við úlnliðinn hefur þannig ölnan orðið hlutfallslega lengri í þeim skilningi miðað við eðlilega samræmingu beinanna. Þetta þýðir að öllu jöfnu að slík brot gróa með all nokkurri hreyfiskerðingu og óþægindum og hugsanleg [snemmkomnum] slitbreytingum. Er það lagt til grundvallar við matið.
Við mat á varanlegum miska vegna áverka á hægri handlegg má leggja til grundvallar miskatöflur Örorkunefndar fyrir olnboga og framhandlegg liður VII.A.b.2, og verður það metið til 8 stiga og vegna úlnliðar liður VII.A.c.2, verður það [einnig] metið til 8 stiga þannig verður heildar varanlegur miski vegna afleiðinga sjúklingatryggingaratburðarins metinn samtals 16 stig.“
Í niðurstöðu álits Landlæknisembættisins, dags. 4. júní 2018, vegna kvörtunar kæranda til embættisins segir:
„Landlæknir telur efnisatriði liggja nokkuð ljóst fyrir, kona með nokkuð flókna sögu að baki leitar með afgerandi teikn um frávik í miðtaugakerfi en er meðhöndluð og útskrifuð vegna meintrar þvagfærasýkingar. Hér telur landlæknir að vakthafandi læknir hafi gert mistök, en af hálfu spítalans sé mjög ámælisvert að ungur og óreyndur læknir hafi staðið að slíkri greiningu og afgreiðslu án stuðnings frá vakthafandi lækni.“
Kærandi byggir á því að Sjúkratryggingar Íslands hafi vanmetið afleiðingar sjúklingatryggingaratburðarins verulega og að vangreining og meðhöndlun hafi valdið því að kærandi hafi fengið heiladrep sem síðar hafi leitt til dauða hennar.
Úrskurðarnefnd velferðarmála, sem meðal annars er skipuð lækni, hefur lagt mat á þau gögn sem fyrir liggja í málinu og telur þau fullnægjandi. Samkvæmt gögnum málsins kom kærandi á Landspítala klukkan 00:13 þann 30. júlí 2017 og hafði samkvæmt tilkynningu verið með einkenni frá klukkan 17:30 um máttleysi í hægri ganglim, svima og óstöðugleika. Hún var einnig með hroll en var greind með þvagfærasýkingu og send heim 31. júlí 2017. Samdægurs datt hún illa og hlaut af brotáverka á fjærenda upphandleggs sveifar. Hún var tekið til aðgerðar sama dag. Þann 2. ágúst 2017 var hún send í tölvusneiðmynd á höfði vegna máttminnkunar og dofa í hægri fæti. Tölvusneiðmyndin sýndi drep í heila og síðari rannsóknir sýndu æðagúl á s.k. circulus Willis. Erfitt er að tímasetja hvenær blóðrásartruflun varð til heilans, en kærandi var með taugaeinkenni í um sex tíma fyrir komu á spítala. Úrskurðarnefndin telur ljóst að vegna þessa tíma og æðagúls sé ólíklegt að koma hefði mátt í veg fyrir heiladrep kæranda. Hins vegar er ljóst að innlögn til frekari skoðunar í kjölfar komu þann 30. júlí 2017 hefði að öllum líkindum komið í veg fyrir fall kæranda og brot á fjærenda upphandleggs og fjærenda sveifar. Þetta eru því afleiðingar sjúklingatryggingaratburðarins. Á grundvelli fyrirliggjandi lýsinga verður þannig metið að miski vegna afleiðinga áverka á hægri handlegg fyrir olnboga og framhandlegg, liður VII.A.b.2, verði metinn til 8 stiga og miski vegna úlnliðar, liður VII.A.c.2, verði einnig metinn til 8 stiga. Varanlegur miski í heild vegna afleiðinga sjúklingatryggingaratburðarins er þannig metinn samtals 16 stig. Við matið hefur úrskurðarnefndin til hliðsjónar miskatöflur örorkunefndar frá 2019.
Að öllu framangreindu virtu er það niðurstaða úrskurðarnefndar velferðarmála að varanlegur miski kæranda teljist vera 16 stig.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands um bætur til dánarbús A, samkvæmt lögum nr. 111/2000 um sjúklingatryggingu, er staðfest.
F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála
Kári Gunndórsson