Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 543/2023-Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 543/2022

Miðvikudaginn 18. janúar 2023

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Unnþór Jónsson lögfræðingur og Kristinn Tómasson læknir.

Með rafrænni kæru, móttekinni 17. nóvember 2022, kærði A til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 10. nóvember 2022 þar sem umsókn kæranda um örorkulífeyri og tengdar greiðslur var synjað.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um örorkulífeyri og tengdar greiðslur frá Tryggingastofnun ríkisins með rafrænni umsókn, móttekinni 15. október 2022. Með ákvörðun stofnunarinnar, dags. 10. nóvember 2022, var umsókn kæranda synjað á þeim grundvelli að endurhæfing væri ekki fullreynd.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 17. nóvember 2022. Með bréfi, dags. 22. nóvember 2022, óskaði úrskurðarnefnd eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Með bréfi, dags. 7. desember 2022, barst greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins og var hún send kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar samdægurs. Frekari athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Í kæru kemur fram að kærandi sé ósátt við niðurstöðu Tryggingastofnunar ríkisins í kjölfar umsóknar hennar um örorku. Kærandi hafi gert ítrekaðar tilraunir til endurhæfingar yfir margra ára tímabil sem hafi ekki skilað fullri starfsgetu.

Kærandi hafi farið í endurhæfingu hjá VIRK fyrri hluta ársins 2020 og verið þar í þrjá mánuði. Í september sama ár hafi hún verið útskrifuð þaðan þar sem endurhæfing væri ekki talin raunhæf vegna andlegrar heilsu.

Í kjölfarið hafi kærandi leitað úrræða hjá Geðheilsuteymi H. Hún hafi verið þar í rúmt ár í góðri þverfaglegri þjónustu. Kærandi hafi hafið núverandi starf í september 2021 í 50% stöðu. Á þeim tíma hafi hún verið útskrifuð hjá geðheilsuteyminu en þó sé hún enn að fá aðstoð frá geðlækni teymisins.

Eftir útskrift hjá geðheilsuteyminu hafi hún farið aftur í starfsendurhæfingu hjá VIRK og nýtt sér þá miklu þjónustu sem hún hafi fengið þar. Eftir eitt ár án aukinnar starfsgetu hafi verið ákveðið að hún færi í starfsendurhæfingarmat hjá lækni á þeirra vegum. Læknirinn hafi talið hana búa við skerta starfsgetu.

Kærandi hafi verið útskrifuð frá VIRK í október 2022 þar sem endurhæfing hafi verið talin fullreynd.

III.  Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins

Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins kemur fram að kærð sé synjun á örorkumati, dags. 10. nóvember 2022. Í kærðri ákvörðun hafi kæranda verið synjað um örorkumat þar sem ekki væri tímabært að taka afstöðu til örorku kæranda þar sem endurhæfing hefði ekki verið fullreynd.

Ágreiningur málsins lúti að því hvort kærandi eigi rétt á annaðhvort örorkulífeyri eða örorkustyrk samkvæmt 18. eða 19. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar.

Eins og b-liður 1. mgr. 18. gr. laga um almannatryggingar kveði á um greiðist örorkulífeyrir þeim sem metnir séu til að minnsta kosti 75% örorku til langframa vegna afleiðinga læknisfræðilega viðurkenndra sjúkdóma eða fötlunar. Í 19. gr. laganna sé kveðið á um að örorkustyrkur greiðist þeim sem skorti að minnsta kosti helming starfsorku sinnar. Tryggingastofnun meti samkvæmt 2. mgr. 18. gr. laganna örorku umsækjenda um örorkubætur og sé það gert í samræmi við örorkustaðal sem kveðið sé á um í reglugerð nr. 379/1999 um örorkumat. Í 2. mgr. 18. gr. laga um almannatryggingar sé einnig tekið fram að heimilt sé að setja það skilyrði að umsækjandi gangist undir sérhæft mat á möguleikum til endurhæfingar og viðeigandi endurhæfingu áður en til örorkumats komi, sbr. 7. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð.

Í samræmi við ákvæðið sé liður í verklagi Tryggingastofnunar við afgreiðslu umsókna um örorkumat að skoða hvort endurhæfing sé fullreynd áður en til örorkumats komi. Stofnunin leggi sjálfstætt mat á gögn málsins. Í læknisvottorði eigi að koma fram hvort búast megi við að færni aukist með læknismeðferð, eftir endurhæfingu eða með tímanum. Í gögnum sem berist til Tryggingastofnunar geti verið óvissa um hvort meðferð/endurhæfing sé að fullu lokið. Ef heildarmat Tryggingastofnunar, með fyrirliggjandi gögn til hliðsjónar, bendi til þess að endurhæfing sé ekki fullreynd, sé synjað um örorkumat. Ef umsókn um örorkumat sé synjað á grundvelli þess að endurhæfing sé ekki fullreynd geti reynt á endurhæfingarlífeyri, sbr. 1. mgr. 7. gr. laga um félagslega aðstoð, sbr. 11. gr. laga nr. 120/2009 um breytingu á þeim lögum, þar sem segi:

„Heimilt er að greiða endurhæfingarlífeyri í allt að 18 mánuði þegar ekki verður séð hver starfshæfni einstaklings er á aldrinum 18 til 67 ára. verður til frambúðar eftir sjúkdóma og slys. Greiðslur skulu inntar af hendi á grundvelli endurhæfingaráætlunar. Skilyrði fyrir greiðslum er að umsækjandi taki þátt í endurhæfingu með starfshæfni að markmiði sem telst fullnægjandi að mati framkvæmdaraðila og eigi hvorki rétt til launa í veikindaleyfi né greiðslna úr sjúkrasjóðum eða teljist tryggður samkvæmt lögum um atvinnuleysis­tryggingar.“

Í 2. mgr. 7. gr. laga um félagslega aðstoð sé heimild til framlengingar á greiðslutímabilinu um allt að 18 mánuði ef sérstakar ástæður séu fyrir hendi. Greiðslutímabilið geti að hámarki varað í 36 mánuði.

Í 51. gr. laga um almannatryggingar komi fram að bætur, sem ætlaðar séu bótaþegum sjálfum, greiðist ekki ef hlutaðeigandi vanræki að fara að læknisráðum eða neiti að hlíta fyrirmælum um þátttöku í þjálfun eða starfsnámi sem bætt gæti afkomu hans eða búið hann undir nýtt starf.

Við meðferð máls skuli staða og réttindi umsækjanda eða greiðsluþega skoðuð heildstætt. Stofnunin skuli leiðbeina umsækjanda um réttarstöðu hans, þau gögn sem þurfi að fylgja umsókninni og um framhald málsins.

Kærandi sé menntuð í I við J, hún hafi lokið BA-prófi í K frá háskólanum í L og hafi lært M hjá N. Kærandi hafi starfað sem O og Ó hjá B, sem tækniteiknari hjá C og síðan sem I hjá D frá því í ágúst 2021.

Kærandi hafi fengið greiddan endurhæfingarlífeyri samkvæmt 7. gr. laga um félagslega aðstoð í samtals 22 mánuði af 36 mögulegum. Hún hafi fengið endurhæfingarlífeyri greiddan samfleytt í 22 mánuði með framlengingum frá 1. desember 2020 til 30. september 2022.

Í framhaldinu er í greinargerð Tryggingastofnunar fjallað ítarlega um ýmis gögn sem lágu fyrir þegar hin kærða ákvörðun var tekin. Þá segir að Tryggingastofnun hafi borist umsókn um örorku, dags. 15. október 2022. Ástæða hennar hafi verið kvíði og þunglyndi. Umsókninni hafi verið synjað með bréfi, dags. 10. nóvember 2022. Í kjölfar framlagningar á nýju læknisvottorði, dags. 22. nóvember 2022, útbúnu af E lækni, hafi læknateymi Tryggingastofnunar þótt tilefni til að taka málið fyrir á fundi að nýju. Eftir athugun hafi verið ákveðið að standa við fyrri ákvörðun um að synja kæranda um örorkulífeyri með bréfi þess efnis, dags. 29. nóvember 2022.

Við mat á umsóknum um örorkulífeyri styðjist tryggingalæknar við þau gögn sem séu fyrirliggjandi hverju sinni. Við matið hafi legið fyrir læknisvottorð, dags. 12. október 2022, umsókn um örorkulífeyri, dags. 15. október 2022, starfsgetumat VIRK starfsendurhæfingar, dags. 15. október 2022, spurningalisti vegna færniskerðingar, dags. 27. október 2022, og síðara læknisvottorð, dags. 22. nóvember 2022. Til viðbótar hafi legið fyrir gögn vegna eldri umsókna kæranda.

Heimilt sé samkvæmt 18. gr. laga um almannatryggingar að setja það skilyrði að umsækjandi gangist undir sérhæft mat á möguleikum til endurhæfingar og viðeigandi endurhæfingu áður en til örorkumats komi. Læknateymi Tryggingastofnunar ríkisins hafi farið vandlega yfir gögn málsins, en hafi metið að ekki væri tímabært að samþykkja umsókn kæranda um örorku þar sem endurhæfing væri ekki fullreynd. Tryggingastofnun sé í ákvörðunum sínum bundin af jafnræðisreglu stjórnsýsluréttar, sbr. 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, sem kveði á um að stjórnvöld skuli gæta samræmis og jafnræðis. Læknateymi og aðrir sérfræðingar Tryggingastofnunar hafi metið mál kæranda með sama hætti og hjá umsækjendum um örorkulífeyri í sambærilegum málum sem hafi verið synjað um slíkan lífeyri. Því mati til grundvallar sé hvort tveggja heilsufarsvandi sem um ræði og sú endurhæfing sem enn sé talin möguleg.

Tryggingastofnun leggi sjálfstætt mat á færniskerðingu umsækjanda á grundvelli framlagðra gagna þar sem meðal annars sé horft til sjúkdómsgreininga, heilsufarssögu og upplýsinga um meðferðir/endurhæfingu sem umsækjandi hafi undirgengist í kjölfar veikinda og/eða slysa. Við mat á umsóknum um örorkulífeyri sé Tryggingastofnun því ekki bundin af ályktunum lækna eða annarra meðferðaraðila um meinta örorku eða óvinnufærni umsækjenda. Við það mat skipti máli hvort gögnin komi frá hlutlausum aðila og enn fremur hvort þau séu vel rökstudd. Loks horfi Tryggingastofnun til þess hvort áverkar, fötlun eða sjúkdómar leiði almennt til þeirra einkenna sem lýst sé í gögnum málsins og hvort einkenni fái stoð í lýsingu atvika daglegs lífs.

Við mat Tryggingastofnunar hafi meðal annars verið litið til niðurstöðu starfsgetumats VIRK. Þar komi fram að raunhæft sé fyrir kæranda að stefna á þátttöku á almennum vinnumarkaði, þrátt fyrir þann heilsuvanda sem hún glími við. Kærandi sé nú þegar í 50% starfi sem tækniteiknari á verkfræðistofu og mælt sé með því í starfsgetumatinu að hún haldi áfram í því starfi. Í samantekt og áliti læknisins sé tekið fram að henni líki starfið vel og mæti vel, auk þess sem almenn líðan hennar batni og að hún finni fyrir meira öryggi. Þetta mat fái stoð í heildarmati á upplýsingum í ýmsum öðrum gögnum, svo sem læknisvottorðum og endurhæfingaráætlunum. Einnig sé litið til þess að það sem komi í veg fyrir stigvaxandi starfshlutfall samkvæmt starfsgetumati og læknisvottorðinu með umsókninni sé kvíði samhliða tilhugsun kæranda um hærra starfshlutfall, umfangsmeiri vinnu en hún leggi nú þegar að mörkum. Sérfræðingar Tryggingastofnunar telji að ekki sé útséð um starfshugur og starfsþrek kæranda aukist ef slíkur kvíði sé meðhöndlaður af þar til bæru fagfólki. Í því sambandi beri að nefna að fleiri komi að endurhæfingu en VIRK og þó að starfsendurhæfing hjá VIRK sé talin fullreynd geti verið að aðrir endurhæfingaraðilar geti veitt meðferðir sem beri árangur fyrir kæranda. Læknar og aðrir sérfræðingar Tryggingastofnunar geti komist að slíkri niðurstöðu og þannig talið að umsækjandi þurfi að undirgangast sérhæft mat á endurhæfingarmöguleikum innan heilbrigðiskerfisins og iðka þá endurhæfingu sem talin sé að henti. Hlutverk lækna og annarra sérfræðinga Tryggingastofnunar sé hins vegar ekki að mæla með endurhæfingarúrræðum þar sem stofnunin sé framkvæmdaraðili, heldur sé slík ráðlegging á hendi aðila innan heilbrigðiskerfisins. Við matið skipti máli að kærandi hafi einungis notið endurhæfingarlífeyris í 22 mánuði af 36 mánuðum. Kærandi geti því hugsanlega fengið slíkan lífeyri í 14 mánuði til viðbótar að því gefnu að í endurhæfingaráætlun sé tekið á þeim endurhæfingarþáttum sem skipti máli í tilviki kæranda.

Niðurstaða lækna og annarra sérfræðinga Tryggingastofnunar sé sú að endurhæfing kæranda sé ekki fullreynd og af þeim sökum sé ekki tímabært að samþykkja umsókn hennar til örorkulífeyris eða örorkustyrks, sbr. 18. eða 19. gr. laga um almannatryggingar. Þá sé það einnig niðurstaða stofnunarinnar að kærandi uppfylli ekki undanþáguákvæði 4. gr. reglugerðar nr. 379/1999 um örorkumat sem geri ráð fyrir að örorka sé metin utan örorkustaðalsins.

Niðurstaða Tryggingastofnunar sé sú að afgreiðslan á umsókn kæranda, þ.e. að synja umsókn hennar um örorkulífeyri vegna þess að ekki sé tímabært að taka afstöðu til örorku hennar þar sem endurhæfing hafi ekki verið fullreynd, sé rétt. Sú niðurstaða sé byggð á faglegum sjónarmiðum sem eigi stoð í gildandi lögum og reglum.

Tryggingastofnun fari fram á staðfestingu á ákvörðun sinni frá 10. nóvember 2022 um að synja kæranda um örorkulífeyri og tengdar greiðslur. Tryggingastofnun bendi kæranda á að hún geti sótt um endurhæfingarlífeyri í fjórtán mánuði í viðbót og hafi umsókn um slíkan lífeyri til ákveðins tíma nú þegar verið móttekin af stofnuninni.

IV.  Niðurstaða

Mál þetta varðar ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 10. nóvember 2022 þar sem kæranda var synjað um örorkulífeyri og tengdar greiðslur. Ágreiningur málsins lýtur að því hvort heimilt sé að synja kæranda um örorkumat samkvæmt 18. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar á þeim grundvelli að endurhæfing samkvæmt 7. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð hafi ekki verið fullreynd.

Samkvæmt 1. mgr. 18. gr. laga um almannatryggingar eiga þeir rétt til örorkulífeyris sem metnir eru til að minnsta kosti 75% örorku til langframa vegna afleiðinga læknisfræðilega viðurkenndra sjúkdóma eða fötlunar. Samkvæmt 1. málsl. 2. mgr. 18. gr. laga um almannatryggingar metur Tryggingastofnun ríkisins örorku þeirra sem sækja um örorkulífeyri samkvæmt sérstökum örorkustaðli.

Samkvæmt 3. málsl. 2. mgr. 18. gr. laga um almannatryggingar er heimilt að setja það skilyrði að umsækjandi gangist undir sérhæft mat á möguleikum til endurhæfingar og viðeigandi endurhæfingu áður en til örorkumats kemur, sbr. 7. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð. Í þágildandi 1. mgr. og 2. mgr. 7. gr. laganna segir:

„Heimilt er að greiða endurhæfingarlífeyri í allt að 18 mánuði þegar ekki verður séð hver starfshæfni einstaklings sem er á aldrinum 18 til 67 ára verður til frambúðar eftir sjúkdóma eða slys. Greiðslur skulu inntar af hendi á grundvelli endurhæfingaráætlunar. Skilyrði fyrir greiðslum er að umsækjandi taki þátt í endurhæfingu með starfshæfni að markmiði sem telst fullnægjandi að mati framkvæmdaraðila og eigi hvorki rétt til launa í veikindaleyfi né greiðslna frá sjúkrasjóðum eða teljist tryggður samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar.

Heimilt er að framlengja greiðslutímabil skv. 1. mgr. um allt að 18 mánuði ef sérstakar ástæður eru fyrir hendi.“

Meðfylgjandi umsókn kæranda um örorkulífeyri var læknisvottorð Gnu Júlíusdóttur, dags. 22. nóvember 2022. Í vottorðinu kemur fram að sjúkdómsgreiningar kæranda séu:

„GENERALIZED ANXIETY DISORDER

ENDURTEKIN GEÐLÆGÐARRÖSKUN“

Um heilsuvanda og færniskerðingu nú segir í vottorðinu:

„A er X ára kona með mjög langa sögu um meðferðarresistent þunglyndi. Örorku hafnað nýlega á þeim forsendum að endurhæfing væri ekki fullreynd þar sem 10 mánuðir væru eftir af réttindum til örorku.

A hefur lokið umtalsverðri endurhæfingu á síðustu árum, lauk 13 mánuðum hjá Geðheilsuteymi H þar sem F var hennar geðlæknir. Í kjölfar útskriftar frá geðheilsuteymi lauk A 13 mánaða endurhæfingu hjá VIRK þaðaðn sem hún útskrifaðist í október sl. Hún hefur verið í 50% vinnu frá 1. september sem tækniteiknari. Var það mat VIRK að ekki væri raunhæft að stefna á frekari starfsendurhæfingu og væri hún fullreynd.

Undirrituð ræddi nýlega við F hennar geðlækni hjá geðheilsuteymi H sem lýsti mjög resistant þunglyndi hjá A. Reynd hefur verið lyfjameðferð með SSRI, SNRI og Mironi sem hjálpaði ekki nægilega. Var sl. vor sett á Modiodal sem skilaði ákveðnum árangri en hún glími áfram við þunglyndi og félagsfælni. A er í reglulegum viðtölum hjá sálfræðingi á stofu.

Undirrituð ræddi við ráðgjafa VIRK áður en hún var útskrifuð. Kom þar fram að í hvert skipti sem reynt var að auka starfshlutfall umfram 50% versnaði líðan A til muna en líðan náðist stabil í 50% vinnu og því var ekki ráðlagt að reyna frekari starfsendurhæfingu og hún talin fullreynd.“

Í vottorðinu segir að kærandi hafi verið óvinnufær frá 9. janúar 2021 og að ekki megi búast við að færni hennar aukist.

Jafnframt fylgi með umsókn kæranda um örorkulífeyri fyrra læknisvottorð E, dags. 12. nóvember 2022. Í vottorðinu kemur fram að sjúkdómsgreiningar kæranda séu:

„DYSTHYMIA

GENERALIZED ANXIETY DISORDER

ENDURTEKIN GEÐLÆGÐARRÖSKUN

ENDURTEKIN GEÐLÆGÐARRÖSKUN, YFIRSTANDANDI LOTA MEÐALDJÚP

FÉLAGSFÆLNI“

Um heilsufarsvanda og færniskerðingu nú segir:

„X ára kona sem hefur glímt við endurtekið þunglyndi frá ca. 15 ára aldri, en kvíðaeinkenni bættust svo við á framhaldsskólaárum. Hún lagðist inn á móttökugeðdeild í 4-5 daga þegar hún var ca. X ára vegna sjálfsvígshugsana. Fengið sálfræðiviðtöl af og til í gegnum tíðina og gengið til nokkurra geðlækna. A var vísað í VIRK starfsendurhæfingu, sem hófst í júní 2020. Eftir matsviðtal í geðheilsuteymi suður þann 13.8.'20 var haft samband við VIRK ráðgjafa A, sem sagðist meta stöðu A þannig að hún væri of veik til að nýta sér starfsendurhæfingu.

Matsaðilar teymis voru á sama máli, og því ákveðið í samráði við A að fresta meðferð hjá VIRK þangað til meiri bati fengist. A lauk meðferð hjá geðheilsuteymi Suður í október 2021, sótti þar ýmiskonar meðferð og var m.a. í þéttri eftirfylgd hjá geðlækni teymis og lyfjabreytingar reyndar. Hóf hún í kjölfar útskriftar endurhæfingu hjá VIRK þaðan sem hún útskrifaðist nú í lok september sl. Skv. skýrslu virk hefur líðan farið batnandi en þó áfram viðvarandi kvíða og depurðareinkenni. Hún hefur verið í 50% starfi á litlum vinnustað frá 1. sept 2021. Mæting verið góð en yfirþyrmandi kvíði þegar hún hefur skoðað stigvaxandi starfshlutfall. Mat VIRK að A búi við skerta starfsgetu og mælt með að hún haldi áfram í 50% starfi. Ekki taldar forsendur fyrir frekari starfsendurhæfingu sem er talin fullreynd.

Menntaður I og K.

Starfað frá 1. september 2021 sem tækniteiknari hjá litlu fyrirtæki.“

Um lýsingu læknisskoðunar í vottorðinu segir:

„A er snyrtilega klædd, myndar þokkalegan kontakt. Geðslag virkar lækkað og affect er flatur.“

Í vottorðinu segir að kærandi hafi verið óvinnufær frá 9. janúar 2021 og að búast megi við að færni aukist með tímanum.

Í starfsendurhæfingarmati VIRK, dags. 20. september 2022, segir í samantekt og áliti:

„X ára kvk. sem hefur glímt við þunglyndi frá ca. X ára aldri, en kvíðaeinkenni bættust við á framhaldsskólaárunum. […]

Eftir matsviðtal í geðheilsuteymi suður þann 13.8´20 var haft samband við VIRK ráðgjafa A, sem sagðist meta stöðu A þannig að hún væri of veik til að nýta sér starfsendurhæfingu. Matsaðilar teymisins voru á sama máli, og því ákveðið í samráði við A að fresta meðferð hjá VIRK þangað til meiri bati fengist. A hefur notið þjónustu Geðheilsuteymis suður síðan í ágúst 2020. Hún hefur fengið viðtöl hjá málastjóra u.þ.b. 2x í mánuði, grunnnámskeið í HAM meðferð, einstaklingsmeðferð í HAM við lágu sjálfsmati, aðstoð IPS atvinnulífstengils og viðtöl hjá fjölskyldufræðingi. Einnig hefur hún verið í þéttri eftirfylgd hjá geðlækni teymisins og ýmsar lyfjabreytingar verið reyndar. Þegar svo komið að Annað hafði náð töluverðum bata og staðan metin þannig að kominn sé tími á útskrift úr teyminu. Það sem helst stóð eftir eru einkum hamlandi félagsfælnieinkenni sem æskilegt væri að reyna að aðstoða A við að vinna bug á. Einnig gæti A nýtt sér úrræði sem miða að uppbyggingu jákvæðrar sjálfsmyndar og hvatningu til að hreyfa sig reglulega. A kemur í þjónustu Virk haustið 2021 og hefur starfsendurhæfingu saman staðið af sálfræðimeðferð í bæði hóp- og einkatímum, ásamt jóga svo það helsta sé talið til. Skv. greinargerð sálfræðings frá því í maí 2022 þá var markmið meðferðar að setja mörk í daglegu lífi og auka sjálfstraust og sjálfsmynd, ásamt að ná á stöðugleika í líðan. Meðferð hefur gengið ágætlega og skv. sálfræðingnum hefur A lagt sig fram í sinni meðferð, sinnir heimavinnu vel, og finnst hún vera á uppleið. Almenn líðan hennar virðist fara batnandi og hún finnur fyrir meira öryggi. Hún fór í magaermis aðgerð í mái og hefur náð sér alveg eftir þá aðgerð. A finnur þó enn fyrir kvíða- og depurð einkennum en þau eru minna hamlandi en áður. Hún er nú komin í 50% starfi litlum vinnustað frá 1. sept 2021 sem tækniteiknari og líkar starfið vel. Mæting hefur verið góð, en yfirþyrmandi kvíði kom þegar A íhugaði hvort hún gæti skoðaða stigvaxandi starfshlutfall.

20.09.2022 22:25 – G

Niðurstaða: Heilsubrestur til staðar sem veldur óvinnufærni. Starfsendurhæfing hjá VIRK er talin fullreynd.

Ekki eru forsendur fyrir frekari starfsendurhæfingu nú, þar sem vissum stöðuleikapunkti er náð og ekki raunhæft og gera ráð fyrir afgerandi aukinni starfsgetu í næstu framtíð. Starfsendurhæfing telst fullreynd.Mælt er með að hún haldi áfram í 50% starfi en vísa annars á heimilislækni til að finna úrræði við hæfi í heilbrigðiskerfinu og/eða samtryggingarkerfinu.“

Í fyrirliggjandi spurningalista vegna færniskerðingar, sem kærandi lagði fram með umsókn um örorkumat, svaraði hún spurningum sem snúa að líkamlegri og andlegri færni. Í lýsingu á heilsuvanda nefnir kærandi þunglyndi og kvíða. Í athugasemdum með spurningalistanum kemur fram:

„Hef barist við þunglyndi og kvíða meirihluta ævinar. Lenti á vegg sumarið 2018 og fór geðheilsa hratt niður eftir það. Komst að hjá Virk vorið 2020 og var metin ekki nógu frísk í endurhæfingu hjá þeim.

Komst að hjá Geðheilsuteymi H um sumarið 2020 og var útskrifuð frá þeim í september 2021. Hef verið í endurhæfingu hjá Virk aftur eftir að ég var útskrifuð frá Geðheilsuteyminu en ekki gengið nógu vel og eftir læknisviðtal ákveðið að sækja um örorku.“

Úrskurðarnefnd velferðarmála, sem meðal annars er skipuð lækni, leggur sjálfstætt mat á öll fyrirliggjandi gögn. Eins og áður hefur komið fram er Tryggingastofnun ríkisins heimilt að setja það skilyrði að umsækjandi um örorkulífeyri gangist undir sérhæft mat á möguleikum til endurhæfingar og viðeigandi endurhæfingu áður en til örorkumats kemur, sbr. 3. málsl. 2. mgr. 18. gr. laga um almannatryggingar. Í hinni kærðu ákvörðun kemur fram að ekki hafi verið tímabært að taka afstöðu til örorku kæranda þar sem endurhæfing hafi ekki verið fullreynd. Þá var kæranda leiðbeint að fá ráðgjöf hjá heimilislækni um þau endurhæfingarúrræði sem væru í boði.

Fyrir liggur að kærandi býr við ýmis vandamál af andlegum toga. Af gögnum málsins má ráða að kærandi hefur verið í starfsendurhæfingu. Í fyrrgreindum læknisvottorðum E, dags. 12. október 2022 og 22. nóvember 2022, kemur annars vegar fram að búast megi við að færni kæranda aukist með tímanum og hins vegar að ekki megi búast við því að færni kæranda aukist með tímanum. Í starfsendurhæfingarmati VIRK frá 20. september 2022 kemur fram að starfsendurhæfing sé fullreynd og ekki raunhæft að gera ráð fyrir afgerandi aukinni starfsendurhæfingu í framtíðinni. Kæranda sé bent á heilbrigðiskerfið og/eða samtryggingakerfið til frekari uppvinnslu og meðferðar.

Úrskurðarnefnd velferðarmála telur ljóst af framangreindu að starfsendurhæfing hjá VIRK sé óraunhæf en ekki verður dregin sú ályktun af niðurstöðu VIRK að ekki sé möguleiki á endurhæfingu á öðrum vettvangi. Þá verður ekki ráðið af eðli veikinda kæranda að endurhæfing geti ekki komið að gagni. Einnig liggur fyrir að kærandi hefur fengið greiddan endurhæfingarlífeyri frá Tryggingastofnun í 22 mánuði en heimilt var að greiða endurhæfingarlífeyri í allt að 36 mánuði þegar hin kærða ákvörðun var tekin samkvæmt þágildandi 7. gr. laga um félagslega aðstoð. Með hliðsjón af framangreindu telur úrskurðarnefnd velferðarmála rétt að láta reyna á endurhæfingu í tilviki kæranda áður en til örorkumats kemur.

Að öllu framangreindu virtu er það niðurstaða úrskurðarnefndar velferðarmála að staðfesta ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 10. nóvember 2022, um að synja kæranda um örorkumat.


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja A, um örorkumat, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir

 

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta