Hoppa yfir valmynd

Nr. 369/2023 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Hinn 28. júní 2023 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 369/2023

í stjórnsýslumáli nr. KNU23040071

Kæra [...] og barna hennar

á ákvörðunum

Útlendingastofnunar

 

I.       Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Hinn 19. apríl 2023 kærði [...], fd. [...], ríkisborgari Palestínu (hér eftir kærandi) ákvarðanir Útlendingastofnunar, dags. 18. apríl 2023 um að taka ekki til efnismeðferðar umsóknir kæranda og barna hennar, [...], fd. [...] (hér eftir A), [...], fd. [...] (hér eftir B), [...], fd. [...] (hér eftir C), [...], fd. [...] (hér eftir D), [...], fd. [...] (hér eftir E) og [...], fd. [...] (hér eftir F), ríkisborgarar Palestínu um alþjóðlega vernd á Íslandi og vísa þeim frá landinu.

Kærandi krefst þess að hinar kærðu ákvarðanir verði felldar úr gildi og að umsóknir hennar og barna hennar um alþjóðlega vernd á Íslandi verði teknar til efnismeðferðar hér á landi, aðallega með vísan til 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016 og 32. gr. a reglugerðar um útlendinga nr. 540/2017, með síðari breytingum, en til vara á grundvelli 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga, sbr. 3. mgr. 36. gr. sömu laga. Til þrautavara er þess krafist að kæranda og börnum hennar verði veitt dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 74. gr. laga um útlendinga.

Fyrrgreindar ákvarðanir sættu sjálfkrafa kæru samkvæmt 3. málsl. 7. gr. laga um útlendinga.

II.        Málsmeðferð

Kærandi lagði fram umsóknir um alþjóðlega vernd á Íslandi fyrir sig og ólögráða börn sín 13. janúar 2023. Þar sem kærandi var með vegabréfsáritun til Spánar var 24. janúar 2023 beiðni um viðtöku kæranda, barna hennar og umsókna þeirra um alþjóðlega vernd beint til yfirvalda á Spáni, sbr. 2. eða 3. mgr. 12. gr. reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 604/2013 (hér eftir nefnd Dyflinnarreglugerðin). Í svari frá spænskum yfirvöldum, dags. 31. janúar 2023, samþykktu þau viðtöku kæranda og B, C, E og F á grundvelli 2. mgr. 12. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar. Þá samþykktu spænsk yfirvöld viðtöku á barninu A 4. apríl 2023 á grundvelli sama ákvæðis. Kærandi kom til viðtals hjá Útlendingastofnun 6. febrúar 2023. Útlendingastofnun ákvað 18. apríl 2023 að taka ekki umsóknir kæranda og barna hennar um alþjóðlega vernd hér á landi til efnismeðferðar og að þeim skyldi vísað frá landinu. Ákvarðanirnar voru birtar fyrir kæranda 19. apríl 2023 og sættu ákvarðanirnar sjálfkrafa kæru til kærunefndar útlendingamála sama dag. Greinargerð kæranda barst kærunefnd 2. maí 2023 ásamt fylgigögnum. Þá bárust frekari gögn 10. maí og 20. júní 2023.

III.      Ákvarðanir Útlendingastofnunar

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að spænsk stjórnvöld beri ábyrgð á meðferð umsóknar kæranda um alþjóðlega vernd á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar. Umsóknin yrði því ekki tekin til efnismeðferðar, sbr. c-lið 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga, enda fæli flutningur kæranda til Spánar ekki í sér brot gegn 42. gr. laga um útlendinga, sbr. jafnframt 3. mgr. 36. gr. laganna. Þá taldi Útlendingastofnun að kærandi hefði ekki slík tengsl við Ísland að nærtækast væri að hún fengi hér vernd eða að sérstakar ástæður mæltu annars með því að taka bæri umsókn hennar til efnismeðferðar, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Kæranda var vísað frá landinu, sbr. c-lið 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga, og skyldi hún flutt til Spánar.

Í ákvörðunum Útlendingastofnunar í málum barna kæranda kom fram að það væri niðurstaða stofnunarinnar, með vísan til niðurstöðu í málum móður þeirra, að gættum ákvæðum samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, sbr. lög nr. 19/2013, lög um útlendinga og barnaverndarlaga nr. 80/2002, að hagsmunum þeirra væri ekki stefnt í hættu með því að fylgja foreldri sínu til Spánar.

IV.      Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð kæranda kemur fram að hún sé með vegabréfsáritun frá Spáni, en hún hafi stoppað þar stutt ásamt eiginmanni sínum á leiðinni til Íslands. Kærandi hafi fundið fyrir óöryggi og ótta á Spáni sem rekja mætti til glæpa sem hún hafi orðið vitni að, m.a. þjófnaði á farangri ferðamanna og séð fíkniefnaneytendur á götum úti. Hafi þetta orðið til þess að hún og eiginmaður hennar hafi ekki treyst sér til að stoppa lengur en tvo daga á Spáni áður en þau héldu áfram leið sinni til Íslands. Upphaflega hafi þau ætlað sér að vera tíu daga á Spáni en vegna framangreinds hafi þau afbókað hótel og tapað flugmiðum sínum. Kærandi óttist að fjölskyldan, þá sérstaklega ung börn hennar, verði ekki örugg á Spáni. Sökum stuttrar dvalar kæranda og fjölskyldu hennar á Spáni hafi hún enga reynslu, upplýsingar eða þekkingu af flóttamannakerfinu þar í landi. Þá vísar kærandi til þess að útlendingaandúð ríki á Spáni sem lýsi sér m.a. í því að umsækjendur um alþjóðlega vernd eigi erfitt með að finna sér húsnæði og verði fyrir ofbeldi af hálfu spænskra yfirvalda. Þá fjallar kærandi um hjónaband sitt við eiginmann sinn en hann hafi beitt hana og börnin ofbeldi. Kærandi telur að eiginmaður hennar sé fær um að taka hana af lífi nái hann að hafa uppi á henni. Hefur kærandi lagt fram gögn um ofbeldi af hálfu eiginmanns síns. Samband kæranda við eiginmann sinn hafi einkennst af geðþótta- og ógnarstjórnun af hans hálfu. Eiginmaður kæranda hafi komið með henni hingað til lands en hafi svo yfirgefið kæranda og flutt aftur til heimaríkis um miðjan apríl. Eiginmaður kæranda hafi ítrekað haft samband símleiðis og hótað henni. Hótanir eiginmanns hennar hafi m.a. snúið að því að vinir hans sem búsettir séu á Spáni muni ræna þeim verði þau endursend þangað og flytja þau aftur til heimaríkis. Kærandi sé á biðlista eftir viðtali hjá Stígamótum.

Kærandi vísar til þess að hún hafi ekkert bakland á Spáni og endursending þangað gæti haft í för með sér slæmar afleiðingar fyrir hana og börn hennar til frambúðar. Þá vísar kærandi til þess að börn kæranda þjáist af ýmsum heilsufarsvandamálum. D þjáist af ofsahræðslu um nætur vegna atburða í heimaríki auk þess sem hún sé greind með […] og sé undir eftirliti á Landspítalanum. Þá glími þrjú af börnum kæranda við talmeinavandmál en þau hafi ekki fengið greiningu vegna slæms heilbrigðiskerfis í heimaríki þeirra. Þá bíði E þess að komast í aðgerð á eistum. Þá glími kærandi við nýrnastein. Heilsufarsvandamál kæranda og barna hennar sem og þær félagslegu aðstæður sem þau hafi þurft að upplifa og búa við bendi til þess að sérstakar ástæður í skilningi 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga séu uppi í máli þeirra. Þá telur kærandi að þau uppfylli skilyrði fyrir veitingu dvalarleyfis á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 74. gr. laga um útlendinga.

Þá telur kærandi að með framlagningu vegabréfs síns og barna hennar hafi þau sannað auðkenni sín með fullnægjandi hætti. Vísar kærandi til 1. mgr. 14. gr. og 2. mgr. 24. gr. laga um útlendinga.

V.        Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Aðstæður kæranda

Samkvæmt gögnum málsins er kærandi kona á [...] sem er stödd hér á landi ásamt 8 börnum sínum sem eru [...], [...][...], [...], [...] og [...] ára, þar af tveimur uppkomnum. Fjallað er um umsóknir uppkominna barna kæranda í úrskurðum kærunefndar nr. 370/2023 og 371/2023. Kærandi hafi komið hingað til lands ásamt eiginmanni sínum en hann hafi dregið umsókn sína til baka 4. apríl 2023 og farið aftur til heimaríkis. Kærandi hafi upphaflega ætlað að fara til Íslands en fengið vegabréfsáritun til Spánar og einungis ætlað að dvelja þar í stuttan tíma áður en hún hélt til Íslands. Kærandi greindi frá því að þekkja ekki til flóttamannakerfisins fyrir umsækjendur um alþjóðlega vernd á Spáni og þá hafi hún verið hrædd um að verða rænd á Spáni. Kærandi greindi frá því að eiginmaður hennar hafi beitt hana og börn þeirra ofbeldi. Þá hafi eiginmaður kæranda hringt í hana og hótað henni ítrekað eftir að hann yfirgaf landið. Kærandi óttist að vinir eiginmanns hennar muni hafa upp á henni og börnunum á Spáni og senda þau aftur til heimaríkis. Kærandi greindi frá því að vera með nýrnastein og hafi fengið lyf og sprautur vegna þess. Þá væri kærandi þreytt andlega. Kærandi greindi frá því að D glími við hræðslu vegna atburða í heimaríki auk þess sem hún hafi verið greind með barnaflogaveiki hér á landi. Þá væri E seinn að byrja tala og eistu hans séu ekki komin niður. E eigi bókaða skurðagerð í […] vegna þessa. Framlögð heilsufarsgögn bera með sér að börn kæranda séu heilsuhraust að öðru leyti.

Réttarstaða barna kæranda

Í 2. mgr. 10. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016 segir að ákvarðanir sem varði barn skuli teknar með það sem því sé fyrir bestu að leiðarljósi, því tryggður réttur til að tjá skoðanir sínar í málum sem það varði og að tekið sé tillit til skoðana barnsins í samræmi við aldur þess og þroska. Í 3. mgr. 25. gr. laga um útlendinga kemur fram að við ákvörðun sem sé háð mati stjórnvalds skuli huga að öryggi barns, velferð þess og félagslegum þroska og möguleika þess til að sameinast fjölskyldu sinni. Í 32. gr. a reglugerðar um útlendinga kemur m.a. fram að sé ólögráða barn í fylgd annars eða beggja foreldra skuli það almennt viðurkennt að hagsmunum barns sé best borgið með því að tryggja fjölskylduna sem heild og rétt hennar til að vera saman.

Kærunefnd hefur farið yfir gögn málsins, þ. á m. viðtöl við kæranda hjá Útlendingastofnun. Það er mat nefndarinnar að allt bendi til þess að hagsmunum ólögráða barna kæranda sé best borgið með því að tryggja rétt fjölskyldunnar til að vera saman og að réttarstaða barnanna verði ákvörðuð í samræmi við meginregluna um einingu fjölskyldunnar. Börnin eru í fylgd móður sinnar og verður því tekin afstaða til mála fjölskyldunnar í einum úrskurði.

Ákvæði 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga

Í 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga er mælt fyrir um að umsókn um alþjóðlega vernd skuli tekin til efnismeðferðar nema undantekningar sem greindar eru í a-, b-, c- og d-liðum ákvæðisins eigi við. Samkvæmt c-lið 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga er stjórnvöldum heimilt að synja því að taka umsókn um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar ef krefja má annað ríki, sem tekur þátt í samstarfi á grundvelli samninga sem Ísland hefur gert um viðmiðanir og fyrirkomulag við að ákvarða hvaða ríki skuli fara með beiðni um alþjóðlega vernd sem lögð er fram hér á landi eða í einhverju samningsríkjanna, um að taka við umsækjanda. Í samræmi við samning ráðs Evrópusambandsins og Íslands og Noregs um þátttöku hinna síðarnefndu í framkvæmd, beitingu og þróun Schengen-gerðanna samþykkti Ísland áðurnefnda Dyflinnarreglugerð, sbr. auglýsingu í C-deild Stjórnartíðinda nr. 1/2014.

Í III. kafla Dyflinnarreglugerðarinnar koma fram viðmið, í ákveðinni forgangsröð, um hvaða ríki skuli bera ábyrgð á umsókn um alþjóðlega vernd. Ábyrgð Spánar á umsókn kæranda er byggð á 2. mgr. 12. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar þar sem kærandi er með vegabréfsáritun til Spánar. Þá liggur fyrir að A og C hafi fengið vegabréfsáritun til Grikklands en á grundvelli meginreglunnar um einingu fjölskyldunnar hafi Spánn samþykkt viðtöku á umsóknum þeirra. Samkvæmt framansögðu er heimilt að krefja spænsk stjórnvöld um að taka við kæranda og börnum hennar, sbr. c-lið 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

Aðstæður á Spáni

Kærunefnd útlendingamála hefur lagt mat á aðstæður og málsmeðferð umsókna um alþjóðlega vernd á Spáni, m.a. með hliðsjón af eftirfarandi skýrslum og gögnum. Þá hefur kærunefnd farið yfir þær skýrslur sem kærandi vísar til í greinargerð sinni.

  • 2022 Country Reports on Human Rights Practices – Spain (United States Department of State, 20. mars 2023);
  • Amnesty International Report 2022/23 – The State of the World’s Human Rights (Amnesty International, 27. mars 2023);
  • Asylum Information Database, Country Report: Spain (European Council on Refugees and Exiles, 21. apríl 2023);
  • ECRI Report on Spain (fifth monitoring cycle) (European Commission against Racism and Intolerance, 27. febrúar 2018);
  • Freedom in the World 2023 – Spain (Freedom House, mars 2023);
  • Concluding observations on the sixth periodic report of Spain (UN Committee against Torture, 29. maí 2015);
  • Concluding observations on the twenty-first to twenty-third periodic reports of Spain (UN Committee on the Elimination of Racial Discrimination, 21. júní 2016);
  • Submission by the United Nations High Commissioner for Refugees For the Office of the High Commissioner for Human Rights‘ Compilation Report Universal Periodic Review: Spain (UNHCR, júlí 2019);
  • World Report 2023 – European Union (Human Rights Watch, 12. janúar 2023).

Spánn er eitt af aðildarríkjum Evrópusambandsins og því bundið af reglum sambandsins við málsmeðferð umsækjenda um alþjóðlega vernd, t.a.m. tilskipunum sambandsins um meðferð umsókna um alþjóðlega vernd nr. 2013/32/EU, um móttökuaðstæður nr. 2013/33/EU og um lágmarksviðmið til þess að teljast flóttamaður nr. 2011/95/EU. Þá hefur Spánn verið aðili að Evrópuráðinu frá 24. nóvember 1977 og fullgilti mannréttindasáttmála Evrópu 26. september 1979. Spánn gerðist aðili að samning Sameinuðu þjóðanna gegn pyndingum og annarri illri og ómannlegri eða vanvirðandi meðferð 21. október 1987 og fullgilti samning Sameinuðu þjóðanna um borgarleg og stjórnmálaleg réttindi og efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi 27. apríl 1977 og barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna árið 1990. Þá gerðist ríkið aðili að Flóttamannasamningnum 14. ágúst 1978.

Í framangreindri skýrslu European Council on Refugees and Exciles (ECRE) kemur fram að á Spáni sæti umsóknir um alþjóðlega vernd tvenns konar málsmeðferð, annars vegar málsmeðferð við landamæri (e. border procedure) og hins vegar málsmeðferð umsókna sem lagðar eru fram innan yfirráðasvæðis ríkisins. Í skýrslunni kemur einnig fram að umsóknir einstaklinga sem séu endursendir til Spánar á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar sæti hefðbundinni málsmeðferð. Umsóknir sem lagðar séu fram á yfirráðasvæði Spánar séu skoðaðar af spænsku útlendingastofnuninni (s. Oficina de Asilo y Refugio (OAR)) og lagðar fyrir nefnd (e. Inter-Ministerial Asylum and Refugee Commission (CIAR)) sem taki ákvörðun í málinu. Ákvarðanir séu kæranlegar til spænska innanríkisráðuneytisins (s. Ministerio del Interior). Þá verði ákvarðanirnar bornar undir dómstóla. Umsækjendur um alþjóðlega vernd á Spáni eigi rétt á viðtali með aðstoð túlks áður en ákvörðun sé tekin í máli þeirra. Þá eigi umsækjendur rétt á lögfræðiþjónustu á fyrsta stigi málsmeðferðar sem og við kærumeðferð.

Í skýrslu ECRE kemur fram að umsækjendur sem hafi verið endursendir til Spánar á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar hafi í einstaka tilvikum átt í erfiðleikum með aðgengi að móttökukerfinu þar í landi. Samkvæmt lögum um útlendinga á Spáni eiga umsækjendur um alþjóðlega vernd rétt á ýmis konar þjónustu og aðstoð á meðan umsókn þeirra er til meðferðar þar í landi. Stofnun aðlögunar og mannúðaraðstoðar (e. General Directorate for Inclusion and Humanitarian Aid (DGIAH)) sem fer með málefni útlendinga á Spáni hefur gefið út fyrirmæli um að umsækjendur sem endursendir eru til Spánar á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar skuli hafa aðgang að þeirri þjónustu sem umsækjendur um alþjóðlega vernd eigi rétt á þar í landi. Voru fyrirmælin gefin út eftir að dómstóll í ríkinu gagnrýndi spænska ríkið fyrir að synja slíkum umsækjendum um þjónustu. Umsækjendur fái úthlutað vasapeningum mánaðarlega, svo og ýmsum nauðsynjum til persónulegra nota, t.d. fatnaði. Þá standi spænsk yfirvöld straum af ýmsum kostnaði s.s. vegna samgangna, menntunar og annarrar þjálfunar, t.d. tungumálanáms. Umsækjendur fái úthlutað gistirými í móttökumiðstöðvum á meðan málsmeðferð umsóknar þeirra standi yfir. 

Umsækjendur um alþjóðlega vernd á Spáni geti fengið atvinnuleyfi að sex mánuðum liðnum frá móttöku umsóknar þeirra, á meðan þeir bíði eftir niðurstöðu. Engin frekari skilyrði séu sett fyrir útgáfu slíks atvinnuleyfis. Þá eigi umsækjendur rétt á heilbrigðisþjónustu á vegum hins opinbera, til jafns við spænska ríkisborgara og aðra ríkisborgara þriðju ríkja í löglegri dvöl á Spáni. Þá geti einstaklingar sem þess þurfa fengið aðgang að sérhæfðari heilbrigðisþjónustu, t.d. þolendur líkamlegs eða andlegs ofbeldis eða annarra áfalla.

Í framangreindum skýrslum kemur fram að spænsk stjórnvöld hafi verið gagnrýnd fyrir að tryggja ekki nógu snemma í umsóknarferlinu greiningu á því hvort einstaklingar séu í viðkvæmri stöðu og hafi sérþarfir af þeim sökum. Þá séu úrræðin sem séu í boði fyrir umræddan hóp almenn og nái ekki að fullu utan um sérþarfir þeirra sem séu hvað viðkvæmastir. Þeim bjóðist þó að leita til einkaaðila eða utanaðkomandi aðila eftir þjónustu.

Í skýrslu Evrópunefndar gegn kynþáttafordómum (e. European Commission against Racism and Intolerance) kemur m.a. fram að fordómar og hatursorðræða, einkum gagnvart múslimum, Rómafólki og hinsegin fólki, sé vandamál á Spáni en að spænsk yfirvöld hafi, með hjálp frjálsra félagasamtaka, unnið markvisst gegn þeim, þ. á m. með lagabreytingum, þjálfun lögreglu og slitum félaga með kynþáttahyggju að markmiði. Framangreindar skýrslur bera enn fremur með sér að almenningur á Spáni geti leitað aðstoðar hjá spænskum löggæsluyfirvöldum vegna ofbeldisbrota og hótana. Í framangreindri skýrslu bandaríska utanríkisráðuneytisins kemur fram að spænsk stjórnvöld viðhaldi góðri stjórn á löggæsluyfirvöldum ríkisins og hafi almennt skilvirka verkferla til að rannsaka og refsa fyrir misnotkun á valdi. Samkvæmt vefsíðu lögreglunnar á Spáni séu starfræktar sérhæfðar deildir sem rannsaki brot eftir viðfangsefni. Þá kemur fram að erlendir ríkisborgarar geti leitað til lögreglunnar, í eigin persónu eða gegnum síma, telji þeir á sér brotið og óskað eftir stuðningi eða tilkynnt um brot.

Í framangreindri skýrslu ECRE kemur fram að börn umsækjenda um alþjóðlega vernd á Spáni eigi rétt á að stunda nám. Þá kveði lög á Spáni á um skólaskyldu fyrir öll börn á aldrinum 6-16 ára. Margir skólar bjóði upp á úrræði til að hjálpa erlendum nemendum við að aðlagast, þ. á m. undirbúningsnámskeið eða sérkennara í kennslustofum. Þá komi fram á upplýsingasíðu um spænska menntakerfið að börn á aldrinum þriggja til sex ára hafi aðgang að leikskólum og leikskólar á vegum hins opinbera séu gjaldfrjálsir.

Ákvæði 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga

Í 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga kemur fram að ef svo standi á sem greini í 1. mgr. skuli þó taka umsókn um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar ef útlendingurinn hefur slík sérstök tengsl við landið að nærtækast sé að hann fái hér vernd eða ef sérstakar ástæður mæli annars með því. Í 32. gr. a og 32. gr. b reglugerðar um útlendinga nr. 540/2017, sbr. 4. mgr. 36. gr. laganna, koma fram viðmið varðandi mat á því hvort taka skuli umsókn um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar vegna sérstakra tengsla eða ef sérstakar ástæður mæla með því. Þá segir í 2. mgr. 36. gr. laganna að ef meira en 12 mánuðir hafa liðið frá því að umsókn um alþjóðlega vernd barst fyrst íslenskum stjórnvöldum og tafir á afgreiðslu hennar eru ekki á ábyrgð umsækjanda sjálfs skuli taka hana til efnismeðferðar. Ákvæði 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga verður því aðeins beitt ef stjórnvöld telja, á grundvelli hlutlægra og trúverðugra upplýsinga sem eru nægilega nákvæmar og uppfærðar eftir því sem við á, að skilyrði þess séu uppfyllt. Ákvæði 2. mgr. 36. gr. er til viðbótar þeirri vernd sem 3. mgr. 36. gr. veitir umsækjendum um alþjóðlega vernd.

Í athugasemdum við frumvarp til laga um útlendinga kemur fram að með „aðild Íslands að Dyflinnarsamstarfinu hefur ríkið skuldbundið sig til að fylgja og virða þær reglur sem felast í Dyflinnarreglugerðinni“ og að „íslensk stjórnvöld sem starfa að útlendingamálum [beiti] ákvæðum reglugerðarinnar við mat á því hvaða ríki beri ábyrgð á meðferð umsókna um alþjóðlega vernd sem lagðar eru fram hér á landi.“ Ákvæði 1. málsl. 2. mgr. 36. gr. byggir á heimild í 1. mgr. 17. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar og felur í sér frávik frá þeirri meginreglu reglugerðarinnar um að ákvarða skuli hvaða ríki beri ábyrgð á umsókn um alþjóðlega vernd á grundvelli þeirra viðmiða sem fram koma í reglugerðinni.

Á grundvelli 4. mgr. 36. gr. laga um útlendinga setti ráðherra reglugerð nr. 276/2018 um breytingu á reglugerð um útlendinga nr. 540/2017, en með henni bættust tvær greinar, 32. gr. a og 32. gr. b, við reglugerðina. Í 32. gr. a reglugerðarinnar kemur fram að með sérstökum ástæðum samkvæmt 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga sé átt við einstaklingsbundnar ástæður er varða umsækjanda sjálfan. Þá eru í ákvæðinu jafnframt talin upp viðmið í dæmaskyni sem leggja skuli til grundvallar við mat á því hvort sérstakar ástæður séu fyrir hendi en þau viðmið varða aðallega alvarlega mismunun eða alvarleg veikindi. Þar sem tilvikin eru talin upp í dæmaskyni geta aðrar aðstæður, sambærilegar í eðli sínu og af svipuðu alvarleikastigi, haft vægi við ákvörðun um hvort sérstakar ástæður séu til að taka mál umsækjanda til efnismeðferðar hér á landi, svo framarlega sem slíkar aðstæður séu ekki sérstaklega undanskildar, eins og efnahagslegar ástæður, sbr. 3. mgr. 32. gr. a reglugerðarinnar.

Samkvæmt 2. mgr. 32. gr. a reglugerðarinnar skal líta til þess hvort umsækjandi muni eiga erfitt uppdráttar í viðtökuríki vegna alvarlegrar mismununar, svo sem ef ríkið útilokar viðkomandi frá menntun, nauðsynlegri heilbrigðisþjónustu, nauðsynlegri þjónustu vegna fötlunar, eða atvinnuþátttöku á grundvelli kynhneigðar, kynþáttar eða kyns eða ef umsækjandi getur vænst þess að staða hans, í ljósi framangreindra ástæðna, verði verulega síðri en staða almennings í viðtökuríki. Kærunefnd telur að orðalagið „muni eiga“ feli ekki í sér kröfu um afdráttarlausa sönnun þess að umsækjandi verði fyrir alvarlegri mismunun sem leiði til þess að hann muni eiga erfitt uppdráttar. Orðalagið gerir þó kröfu um að tilteknar líkur verði að vera á alvarlegri mismunun, þ.e. að sýna verður fram á að umsækjandi sé í raunverulegri hættu á að verða fyrir mismunun af þeim toga, með þeim afleiðingum, og af því alvarleikastigi sem ákvæðið lýsir en að ekki sé nægilegt að aðeins sé um að ræða möguleika á slíkri mismunun. Af því leiðir að þó svo að dæmi séu um að einstaklingar í sambærilegri stöðu og umsækjandi í viðtökuríki hafi orðið fyrir alvarlegri mismunun af þeim toga sem 32. gr. a reglugerðar um útlendinga mælir fyrir um telst umsækjandi ekki sjálfkrafa eiga slíkt á hættu heldur þarf að sýna fram að verulegar ástæður séu til að ætla að umsækjandi, eða einstaklingur í sambærilegri stöðu og umsækjandi, verði fyrir slíkri meðferð.

Þá skal líta til þess hvort umsækjandi glími við mikil og alvarleg veikindi, s.s. skyndilegan og lífshættulegan sjúkdóm og meðferð við honum er aðgengileg hér á landi en ekki í viðtökuríki. Í reglugerðinni kemur fram að meðferð teljist, að öllu jöfnu, ekki óaðgengileg þótt greiða þurfi fyrir hana heldur sé átt við þau tilvik þar sem meðferð er til í viðtökuríkinu en umsækjanda muni ekki standa hún til boða. Við mat á því hvort umsækjandi glími við mikil og alvarleg veikindi lítur kærunefnd m.a. til heilsufarsgagna málsins og hlutlægra og trúverðugra gagna um hvort sú heilbrigðisþjónusta sem hann þarfnast sé honum aðgengileg í viðtökuríki.

Samkvæmt 3. mgr. 32. gr. a reglugerðarinnar hefur heilsufar umsækjanda takmarkað vægi umfram það sem leiðir af 2. mgr. 32. gr. a, nema það teljist til ástæðna sem séu svo einstaklingsbundnar og sérstakar að ekki verði fram hjá þeim litið. Þá tekur 3. mgr. 32. gr. a af tvímæli um það að efnahagslegar ástæður geta ekki talist til sérstakra ástæðna í skilningi 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Slíkar aðstæður gætu þó fallið undir 3. mgr. 36. gr. nái þær því alvarleikastigi sem við á, sbr. umfjöllun hér í framhaldinu.

Kærandi er kona á [...]sem lagði fram umsókn um alþjóðlega vernd hér á landi fyrir sig og sex ólögráða börn sín sem eru[...], [...][...], [...], [...] og [...]ára. Þá lagði eiginmaður kæranda jafnframt fram umsókn um alþjóðlega vernd um svipað leyti en dró umsókn sína til baka og er farinn aftur til heimaríkis. Í viðtali hjá Útlendingastofnun greindi kærandi frá því að vera þreytt andlega vegna þeirra vandamála sem hún glími við. Í vottorði frá hjúkrunarfræðingi hjá Vinnumálastofnun, dags. 23. febrúar 2023, kemur fram að kærandi sé með sögu um nýrnasteina. Kæranda hafi verið gefin tími á heilsugæslu til frekara mats. Í komunótu frá Göngudeild sóttvarna, dags. 9. mars 2023, kemur fram að kærandi hafi farið á vakt á heilsugæslunni 23. febrúar 2023 en viti ekki niðurstöður þeirra athugana en hún sé ekki betri af einkennum sem þá voru til staðar. Kærandi sé með 12 millimetra stein í nýrnaskjóðu. Í komunótu frá Göngudeild sóttvarna, dags. 22. mars 2023, kemur fram að kærandi sé komin á steinbrjótslista. Þá hafi kærandi greint frá því að hafa farið í aðgerð þar sem gallblaðra var fjarlægð fyrir 22 árum.

Í komunótu frá Göngudeild sóttvarna, dags. 22. mars 2023, kemur fram að A hafi greint frá því að líða vel andlega en vera með húðvandamál sem hún vilji láta skoða. A hafi verið bent á að leita til heimilislæknis.

Í komunótu frá Göngudeild sóttvarna, dags. 22. mars 2023, kemur fram að B hafi greint frá því að vera mjög heilsuhraust.

Í komunótu frá Göngudeild sóttvarna, dags. 13. mars 2023, kemur fram að C hafi greint frá því að vera mjög heilsuhraustur.

Í læknisvottorði, dags. 20. mars 2023, kemur fram að D hafi leitað til Barnaspítalans vegna nýgreindrar flogaveiki. D sé með góðkynja barnaflogaveiki og verði í eftirliti hjá taugateymi barna. Þá kvað kærandi, í viðtali hjá Útlendingastofnun, að D væri við bága andlega heilsu vegna áfalla sem hún hafi orðið fyrir í heimaríki.

Í komunótu frá Göngudeild sóttvarna, dags. 22. mars 2023, kemur fram að grunur sé um að vinstri eistu séu ekki komin niður hjá E. Gerð hafi verið beiðni um ómskoðun vegna þessa. Þá kemur fram að E hafi verið í talþjálfun í heimaríki þar sem hann hafi verið seinn til máls. Í læknabréfi, dags. 20. júní 2023, kemur fram að skoðun hafi leitt í ljós að E sé í þörf fyrir aðgerð á eistum. E eigi bókaða aðgerð í september 2023.

Í komunótu frá Göngudeild sóttvarna, dags. 22. mars 2023, kemur fram að F sé mjög heilsuhraustur.

Kærunefnd tekur fram að kæranda var leiðbeint í viðtali hjá Útlendingastofnun 6. febrúar 2023, um mikilvægi öflunar gagna um heilsufar, sem kærandi teldi hafa þýðingu fyrir mál sitt, og um að afla skriflegra upplýsinga og leggja fram við meðferð máls hennar hjá Útlendingastofnun. Þá var kæranda, sem nýtur aðstoðar löglærðs talsmanns, jafnframt leiðbeint með tölvubréfi kærunefndar, dags. 21. apríl 2023, um framlagningu frekari gagna í málinu. Frekari gögn bárust 2. og 10. maí 2023. Með vísan til fyrrgreindrar málsmeðferðar og þeirra gagna sem liggja fyrir í málinu telur kærunefnd að mál kæranda sé nægjanlega upplýst hvað varðar heilsufar kæranda og barna hennar og aðra þætti varðandi einstaklingsbundnar aðstæður þeirra. Þá er ekkert sem bendir til þess að frekari gögn um heilsufar þeirra geti haft áhrif á niðurstöðu málsins.

Kærunefnd telur ljóst að gögn málsins beri ekki með sér að heilsufar kæranda og barna hennar sé með þeim hætti að þau teljist glíma við mikil og alvarleg veikindi, s.s. skyndilegan og lífshættulegan sjúkdóm og meðferð við honum sé aðgengileg hér á landi en ekki í viðtökuríki, eins og segir í 2. mgr. 32. gr. a reglugerðarinnar. Kærunefnd telur ekki forsendur til annars, í ljósi þeirra upplýsinga sem liggja fyrir um aðstæður á Spáni, en að leggja til grundvallar við úrlausn málsins að kærandi geti fengið nauðsynlega heilbrigðisþjónustu þar í landi. Að framangreindu virtu er það mat kærunefndar að kæranda komi því til með að standa til boða fullnægjandi heilbrigðisþjónusta þar í landi, en hún muni e.t.v. þurfa að greiða fyrir slíka þjónustu sjálf. Kærunefnd áréttar það sem kemur fram í 2. mgr. 32. gr. a reglugerðarinnar, þ.e. að meðferð við veikindum teljist, að öllu jöfnu, ekki óaðgengileg þótt greiða þurfi fyrir hana. Telur kærunefnd því að aðstæður kæranda og barna hennar tengdar heilsufari séu ekki þess eðlis að þær teljist til sérstakra ástæðna í skilningi 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga eða samkvæmt þeim viðmiðum sem talin eru upp í dæmaskyni í 32. gr. a reglugerðar um útlendinga. Þá telur nefndin að heilbrigðisaðstæður kæranda og barna hennar geti ekki talist til ástæðna sem séu svo einstaklingsbundnar og sérstakar að ekki verði fram hjá þeim litið, sbr. 3. mgr. sömu greinar. Kærunefnd áréttar að samkvæmt 31. og 32. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar skuli miðla upplýsingum um heilsufar umsækjenda um alþjóðlega vernd til yfirvalda í viðtökuríki, að uppfylltum skilyrðum ákvæðanna, þannig að flutningur viðkomandi fari fram með þeim hætti að heilsufari þeirra verði ekki stefnt í hættu. Þá kemur fram í viðtökusamþykki Spánar að slíkum upplýsingum skuli miðlað til þeirra fyrir flutning þeirra þangað til lands.

Kærunefnd telur að gögn málsins, að teknu tilliti til einstaklingsbundinna aðstæðna kæranda og barna hennar, beri ekki með sér að þau muni eiga erfitt uppdráttar í viðtökuríki vegna alvarlegrar mismununar eða að þau geti af sömu ástæðu vænst þess að staða þeirra verði verulega síðri en staða almennings í viðtökuríki, sbr. áðurnefnd viðmið í 32. gr. a reglugerðar um útlendinga. Þá áréttar kærunefnd að gögn málsins bera með sér að kærandi hefur ekki lagt fram umsóknir um alþjóðlega vernd í viðtökuríki og því hafi þau ekki reynslu af móttökukerfinu þar í landi.

Kærandi hefur greint frá því að óttast vini eiginmanns hennar sem séu búsettir á Spáni og því sé öryggi þeirra ógnað þar í landi. Kærandi hefur greint frá því að hafa borist ítrekaðar hótanir frá eiginmanni sínum eftir að hann yfirgaf landið sem hafi m.a. snúið að því að vinir hans sem búsettir séu á Spáni muni ræna þeim verði þau endursend þangað og flytja þau aftur til heimaríkis. Þá hafi hún orðið vitni að glæpum þann stutta tíma sem hún hafi dvalið þar í landi. Jafnframt hefur kærandi lagt fram myndir og myndskeið sem hún kveður sýna eiginmann sinn beita sig og börn sín ofbeldi. Kærunefnd tekur fram að samkvæmt gögnum málsins er eiginmaður kæranda farinn til heimaríkis en Spánn hefur samþykkt viðtöku á kæranda og börnum hennar. Þau gögn sem kærunefnd hefur kynnt sér benda til þess að í viðtökuríkinu sé löggæslan virk og telji kærandi sér mismunað eða óttist hún um öryggi sitt eða barna sinna að einhverju leyti geti þau leitað aðstoðar hjá þar til bærum stjórnvöldum. Samkvæmt vefsíðu lögreglunnar á Spáni séu starfræktar sérhæfðar deildir sem rannsaki brot eftir viðfangsefni. Þá kemur fram að erlendir ríkisborgarar geti leitað til lögreglunnar, í eigin persónu eða gegnum síma, telji þeir á sér brotið og óskað eftir stuðningi eða tilkynnt um brot. Þá er ekkert sem bendir til þess að löggæsluyfirvöld á Spáni muni ekki veita kæranda viðeigandi vernd.

Í 32. gr. a reglugerðar um útlendinga koma jafnframt fram sérviðmið er varða börn og ungmenni. Þar segir m.a. að við mat á því hvort taka skuli umsókn til efnismeðferðar vegna sérstakra ástæðna skuli hagsmunir barnsins hafðir að leiðarljósi. Þá segir að við mat á hagsmunum barns skuli meðal annars líta til þess hvort flutningur til viðtökuríkis hafi í för með sér hættu á að fjölskyldan aðskiljist eða muni aðskiljast. Sem fyrr segir eru fjölskyldur sem leggja fram umsókn um alþjóðlega vernd á Spáni almennt vistaðar saman. Þá verður ráðið af framangreindum gögnum að leyst sé úr umsóknum þeirra m.t.t. meginreglunnar um einingu fjölskyldunnar.

Að öðru leyti og með vísan til niðurstöðu í málum kæranda og umfjöllunar um aðstæður barna sem sækja um alþjóðlega vernd á Spáni er það mat kærunefndar að flutningur fjölskyldunnar til Spánar samrýmist hagsmunum barnanna þegar litið er m.a. til öryggis þeirra, velferðar og félagslegs þroska, sbr. 3. mgr. 25. gr. laga um útlendinga.

Í ljósi alls ofangreinds er það niðurstaða kærunefndar að rétt sé að synja beiðni um að taka til efnismeðferðar umsóknir barna kæranda um alþjóðlega vernd hér á landi, og fallist á að senda þau til Spánar með vísan til c-liðar 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga enda er það niðurstaða nefndarinnar að það sé ekki andstætt réttindum barna kæranda að umsóknir þeirra verði ekki teknar til efnismeðferðar hér á landi.

Að teknu tilliti til einstaklingsbundinna aðstæðna kæranda og barna hennar er það mat kærunefndar að ekki séu fyrir hendi sérstakar ástæður sem mæla með því að mál þeirra verði tekin til efnismeðferðar hér á landi, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

Kærandi kvaðst í viðtali hjá Útlendingastofnun 6. febrúar 2023 ekki hafa sérstök tengsl við Ísland. Þar að auki er ekkert í gögnum málanna sem bendir til þess að hún hafi slík tengsl við landið að beita beri ákvæði 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

Þá telur kærunefnd ljóst að síðari málsliður 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga eigi ekki við í máli kæranda þar sem ekki eru liðnir 12 mánuðir frá því að hún sótti um alþjóðlega vernd hér á landi, en hún lagði fram umsóknir sínar 13. janúar 2023.

Ákvæði 3. mgr. 36. gr. laga um útlendinga

Í 3. mgr. 36. gr. laga um útlendinga kemur fram að ef beiting 1. mgr. myndi leiða til þess að brotið væri gegn 42. gr., t.d. vegna aðstæðna í því ríki sem senda á umsækjanda til, skuli taka umsókn til efnismeðferðar. Í 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga er kveðið á um að ekki sé heimilt að senda útlending eða ríkisfangslausan útlending til svæðis þar sem hann hefur ástæðu til að óttast ofsóknir, sbr. 37. og 38. gr., eða vegna svipaðra aðstæðna og greinir í flóttamannahugtakinu er í yfirvofandi hættu á að láta lífið eða verða fyrir ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð. Þá segir í 2. mgr. ákvæðisins að 1. mgr. eigi einnig við um sendingu útlendings til svæðis þar sem ekki er tryggt að hann verði ekki sendur áfram til slíks svæðis sem greinir í 1. mgr. Við túlkun á inntaki 42. gr. laga um útlendinga telur kærunefnd jafnframt að líta verði til þess að ákvörðun um brottvísun eða frávísun sem setur einstakling í raunverulega hættu á að verða fyrir pyndingum, ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu er í andstöðu við 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, sbr. jafnframt 68. gr. stjórnarskrárinnar.

Við túlkun 3. mgr. 36. gr. laga um útlendinga lítur kærunefnd til dómaframkvæmdar Mannréttindadómstóls Evrópu varðandi túlkun hans á 3. gr. sáttmálans. Þá hefur kærunefnd talið að til að stuðla að einsleitinni framkvæmd Dyflinnarreglugerðarinnar á meðal aðildarríkja Dyflinnarsamstarfsins sé rétt að líta til dóma Evrópudómstólsins í málum sem tengjast framkvæmd reglugerðarinnar.

Í dómaframkvæmd Mannréttindadómstóls Evrópu er vísað til þeirrar meginreglu að með fyrirvara um alþjóðlegar skuldbindingar hafi ríki rétt til að stjórna hverjir ferðist yfir landamæri þeirra, hverjir dvelji á landsvæði þeirra og hvort útlendingi skuli vísað úr landi, sbr. m.a. dóm Mannréttindadómstóls Evrópu í máli F.G. gegn Svíþjóð (nr. 43611/11) frá 23. mars 2016, 111. mgr., ákvörðun Samsam Mohammed Hussein o.fl. gegn Hollandi og Ítalíu (nr. 27725/10) frá 2. apríl 2013, 65. mgr., og dóm í máli Üner gegn Hollandi (nr. 46410/99) frá 18. október 2006, 54. mgr. Dómstóllinn hefur engu að síður talið að flutningur einstaklings til annars ríkis geti leitt til brots á 3. gr. mannréttindasáttmálans ef viðkomandi einstaklingur geti á viðhlítandi hátt sýnt fram á að veruleg ástæða sé til að ætla, verði hann fluttur úr landi, að hann sé í raunverulegri hættu á að sæta meðferð sem sé andstæð 3. gr. sáttmálans, sbr. m.a. F.G. gegn Svíþjóð, 111. - 113. mgr. Í dómaframkvæmd dómstólsins er jafnframt byggt á því að annmarkar á meðferð viðtökuríkis á umsækjanda og aðbúnaði hans þurfi að ná tilteknu lágmarks alvarleikastigi (e. „must attain a minimum level of severity“ sbr. m.a. dóm Mannréttindadómstóls Evrópu í máli M.S.S. gegn Belgíu og Grikklandi (nr. 30696/09) frá 21. janúar 2011, 219. mgr.) til að ákvörðun um brottvísun eða frávísun hans verði talin brot á 3. gr. mannréttindasáttmálans. Horfa verði til allra aðstæðna í fyrirliggjandi máli, svo sem lengdar og eðlis meðferðar, andlegra og líkamlegra áhrifa hennar auk stöðu einstaklings hverju sinni, svo sem kyns, aldurs og heilsufars, sbr. m.a. M.S.S. gegn Belgíu og Grikklandi, 219. mgr. Í því sambandi hefur dómstóllinn lagt ákveðna áherslu á að umsækjendur um alþjóðlega vernd tilheyri jaðarsettum og viðkvæmum þjóðfélagshóp sem þurfi sérstaka vernd, sbr. t.d. M.S.S. gegn Belgíu og Grikklandi, 251. mgr., og dóm Mannréttindadómstóls Evrópu í máli Tarakhel gegn Sviss (nr. 29217/12) frá 4. nóvember 2012, 97. mgr.

Mannréttindadómstóll Evrópu hefur talið ómannlega meðferð vera m.a. þá sem beitt er að yfirlögðu ráði, í margar klukkustundir í senn og veldur annað hvort líkamlegu tjóni eða alvarlegum andlegum eða líkamlegum þjáningum, sbr. t.d. dóma Mannréttindadómstóls Evrópu í máli Kudła gegn Póllandi (nr. 30210/96) frá 26. október 2000, 92. mgr., og M.S.S. gegn Belgíu og Grikklandi, 220. mgr. Þá hefur dómstóllinn talið meðferð vera vanvirðandi í skilningi 3. gr. mannréttindasáttmálans þegar meðferðin niðurlægir eða lítillækkar einstakling, sýnir skort á virðingu fyrir eða gerir lítið úr mannlegri reisn hans, eða skapar ótta, angist eða vanmátt, sem er til þess fallin að brjóta niður líkamlegt eða andlegt mótstöðuafl viðkomandi, sbr. t.d. dóma Mannréttindadómstóls Evrópu í máli Pretty gegn Bretlandi (nr. 2346/02) frá 29. apríl 2002, 52. mgr., og M.S.S. gegn Belgíu og Grikklandi, 220. mgr. Dómurinn hefur talið að þó að líta verði til þess hvort meðferðin sé veitt af ásetningi sé það ekki að öllu leyti útilokað að hún teljist brot á 3. gr. þó svo hafi ekki verið, sbr. dóm Mannréttindadómstóls Evrópu í máli Peers gegn Grikklandi (nr. 28524/95) frá 19. apríl 2001, 74. mgr.

Dómstóllinn hefur talið að 3. gr. mannréttindasáttmálans verði ekki túlkuð á þann hátt að í greininni felist skylda aðildarríkja til að sjá umsækjendum um alþjóðlega vernd fyrir húsnæði eða fjárhagsaðstoð sem geri þeim kleift að viðhalda ákveðnum lífskjörum, sbr. M.S.S. gegn Belgíu og Grikklandi, 249. mgr.

Í dómaframkvæmd Evrópudómstólsins er vísað til þess að framkvæmd Dyflinnarreglugerðarinnar verði að vera í samræmi við sáttmála Evrópusambandsins um grundvallarréttindi og er þar fyrst og fremst vísað til 4. gr. sáttmálans sem, í þeim atriðum sem máli skipta, er sambærileg 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Samkvæmt dómaframkvæmd Evrópudómstólsins eru lög Evrópusambandsins byggð á þeirri grundvallarforsendu að aðildarríki þess deila þeim sameiginlegu gildum sem Evrópusambandið byggist á. Sú forsenda leggur grunn að gagnkvæmu trausti um að þessi gildi séu viðurkennd, að lög Evrópusambandsins verði virt og að réttarkerfi aðildarríkjanna geti veitt sambærilega og virka vernd þeirra grundvallarréttinda sem sáttmáli Evrópusambandsins um grundvallarréttindi mælir fyrir um, sbr. t.d. dóma Evrópudómstólsins í Jawo, C-163/17, frá 19. mars 2019, 80. mgr., og Minister for Justice and Equality (Deficiencies in the system of justice), C-216/18 PPU, frá 25. júlí 2018, 35.-37. mgr. Dyflinnarreglugerðin er byggð á nefndri meginreglu um gagnkvæmt traust og miðar að því að hraða og straumlínulaga afgreiðslu umsókna um alþjóðlega vernd til hagsbóta fyrir umsækjendur og aðildarríki samstarfsins. Því verði að gera ráð fyrir því að meðferð umsækjenda um alþjóðlega vernd í aðildarríkjum Dyflinnarsamstarfsins samrýmist þeim kröfum sem sáttmáli Evrópusambandsins um grundvallarréttindi, flóttamannasáttmálinn og Mannréttindasáttmáli Evrópu gera, sbr. dóm Evrópudómstólsins í N. S. o.fl., C-411/10 og C-493/1021, frá 21. desember 2011, 78.-80. mgr. Það er hins vegar ekki útilokað að viðtökuríki kunni að glíma við meiriháttar erfiðleika við framkvæmd reglugerðarinnar sem gæti skapað verulega hættu á að umsækjandi sæti meðferð sem samrýmist ekki sáttmála Evrópusambandsins um grundvallarréttindi, sbr. áðurnefndan dóm í máli N. S. o.fl., 81. mgr. Af þeim sökum verður ekki byggt á því skilyrðislaust að aðildarríki Evrópusambandsins tryggi grundvallarmannréttindi, svo sem samkvæmt 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu og 4. gr. sáttmála Evrópusambandsins um grundvallarréttindi, sbr. N. S. o.fl., 99., 100. og 105. mgr., og Ibrahim o.fl., 87. mgr. Evrópudómstóllinn hefur talið, m.a. í Jawo, 85. mgr., að ekki megi flytja umsækjanda um alþjóðlega vernd til viðtökuríkis ef veigamikil rök standa til þess að raunveruleg hætta sé á að hann sæti ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð í skilningi 4. gr. sáttmála Evrópusambandsins um grundvallarréttindi, verði hann fluttur til viðtökuríkis. Þeir annmarkar sem eru á meðferð umsækjenda um alþjóðlega vernd verða hins vegar að ná sérstaklega háu alvarleikastigi til að endursending á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar teljist andstæð 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu og 4. gr. sáttmálans um grundvallarréttindi. Þessu alvarleikastigi er náð þegar sinnuleysi stjórnvalda aðildarríkis Dyflinnarsamstarfsins hefur þær afleiðingar að einstaklingur sem að öllu leyti er háður stuðningi ríkisins, t.d. vegna sérstaklega viðkvæmrar stöðu, verður í slíkri stöðu sárafátæktar að hann geti ekki mætt grundvallarþörfum sínum, og sem grefur undan líkamlegri og andlegri heilsu hans eða setur hann í aðstöðu sem er ósamrýmanleg mannlegri reisn, sbr. M.S.S. gegn Belgíu og Grikklandi, 252.-263. mgr., og Jawo, 92. og 95. mgr., og Ibrahim o.fl., 90. mgr.

Hátt stig óöryggis eða veruleg hnignun lífsskilyrða viðkomandi umsækjanda myndi þar af leiðandi ekki ná þessu alvarleikastigi nema ofangreindar aðstæður efnislegrar sárafátæktar séu fyrir hendi. Sama á við þó að umsækjanda skorti það félagslega stuðningsnet, eins og t.d. fjölskyldutengsl, sem vegur á móti afleiðingum ófullnægjandi félagslegs kerfis aðildarríkis, sbr. Jawo, 93. og 94. mgr. Ennfremur, það eitt að lífsskilyrði séu ákjósanlegri í endursendingarríki en í viðtökuríki getur heldur ekki leitt til þess að um brot á 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu sé að ræða, sbr. til hliðsjónar Jawo, 97. mgr.

Eins og ráða má af ofangreindu þurfa annmarkar á meðferð viðtökuríkis á umsækjanda og aðbúnaði hans að ná háu alvarleikastigi til að endursending teljist brot á 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu og tekur beiting 3. mgr. 36. gr. laga um útlendinga mið af því.

Til að endursending geti talist brot á 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu þarf að sýna fram á, með vísan til hlutlægra og trúverðugra upplýsinga sem eru nægilega nákvæmar og uppfærðar, að umsækjandi sé í raunverulegri hættu á að sæta meðferð sem sé ósamrýmanleg ákvæðinu, sbr. fyrri umfjöllun. Ekki er nægilegt að aðeins sé um að ræða möguleika á slíkri meðferð, sbr. Vilvarajah o.fl. gegn Bretlandi (mál nr. 13163/87; 13164/87; 13165/87; 13447/87; 13448/87) frá 30. október 1991, 111. mgr., N. gegn Finnlandi (mál nr. 38885/02) frá 26. júlí 2005, 167. mgr., og NA gegn Bretlandi (mál nr. 25904/07) frá 7. júlí 2008, 109.-110. mgr.

Að mati kærunefndar bera gögn málsins jafnframt með sér að í viðtökuríki sé veitt raunhæf vernd gegn því að fólki sé vísað brott eða það endursent til ríkja þar sem einstaklingar eiga á hættu að verða fyrir ofsóknum eða þar sem lífi þeirra og frelsi er ógnað. Í því sambandi hefur kærunefnd einkum litið til þess að gögnin benda til þess að meðferð stjórnvalda viðtökuríkis á umsóknum um alþjóðlega vernd sé með þeim hætti að lagt sé einstaklingsbundið mat á aðstæður einstaklinga. Telur kærunefnd að gögn málsins gefi ekki til kynna að endursending kæranda og barna hennar til viðtökuríkis sé í andstöðu við 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga, sbr. 2. mgr. ákvæðisins.

Þá benda öll gögn til þess að kærandi hafi raunhæf úrræði á Spáni, bæði að landsrétti og fyrir Mannréttindadómstól Evrópu, sbr. jafnframt 13. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sem tryggja að þau verði ekki send áfram til annars ríkis þar sem líf þeirra eða frelsi kann að vera í hættu, sbr. 2. mgr. 42. gr. laga um útlendinga.

Áður hefur verið fjallað um málsmeðferð umsókna um alþjóðlega vernd á Spáni, þ.m.t. möguleika umsækjenda til að fá ákvarðanir um synjun verndar endurskoðaðar af spænskum yfirvöldum. Spænsk yfirvöld eru bundin af sambærilegum reglum og Ísland um vernd gegn brottvísun umsækjenda um alþjóðlega vernd til ríkis þar sem einstaklingar eiga á hættu að verða fyrir ofsóknum og lífi þeirra eða frelsi ógnað (non-refoulement). Að mati kærunefndar veitir málsmeðferð spænskra yfirvalda nægilega tryggingu fyrir því að einstaklingsbundið mat sé lagt á aðstæður umsækjenda um alþjóðlega vernd í því skyni að tryggja að enginn umsækjandi sé sendur þangað sem líf hans eða frelsi er í hættu. Vegna athugasemdar í greinargerð leggur kærunefndin áherslu á að við túlkun á því hvaða skyldur hvíla á ríkjum sem senda einstaklinga til annarra ríkja þar sem þeir kunna að vera sendir áfram til þriðja ríkis (e. indirect refoulement) hefur nefndin horft á hvort ríkið, sem senda á einstaklinginn til, veiti raunhæfa vernd (e. effective guarentees) til að tryggja að einstaklingar verði ekki sendir áfram í ómannúðlegar og vanvirðandi aðstæður, sbr. til hliðsjónar M.S.S. gegn Belgíu og Grikklandi. Kærunefnd telur gögn málsins bera með sér að á Spáni sé veitt raunhæf vernd gegn því að fólki sé vísað brott eða endursent til ríkja þar sem það eigi á hættu að verða fyrir ofsóknum eða þar sem líf þess eða frelsi sé ógnað. Samkvæmt framsögðu benda öll gögn til þess að kærandi hafi raunhæf úrræði á Spáni, bæði fyrir landsrétti og fyrir Mannréttindadómstól Evrópu, sbr. jafnframt 13. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sem tryggja að þau verði ekki send áfram til annars ríkis þar sem líf þeirra eða frelsi kann að vera í hættu, sbr. 2. mgr. 42. gr. laga um útlendinga. Sambærileg aðferðarfræði er varðar mat á því hvort viðtökuríki tryggi raunhæfa vernd gegn því að fólki sé vísað brott eða endursent til ríkja þar sem það eigi á hættu að verða fyrir ofsóknum eða lífi þess og frelsi er ógnað kemur fram í dómi Hæstaréttar í máli nr. 405/2013, dags. 24. október 2013.

Með vísan til framangreindra viðmiða, umfjöllunar um aðstæður og móttökuskilyrði umsækjenda um alþjóðlega vernd á Spáni og einstaklingsbundinna aðstæðna kæranda og barna hennar, er það niðurstaða kærunefndar að ekki hafi verið sýnt fram á að kærandi og börn hennar eigi á hættu meðferð sem gangi gegn 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Synjun á efnismeðferð umsókna kæranda og barna hennar um alþjóðlega vernd og flutningur þeirra til viðtökuríkis leiðir því ekki til brots gegn 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga, sbr. jafnframt 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu.

Samkvæmt framansögðu verða mál kæranda og barna hennar ekki tekin til efnismeðferðar á grundvelli 3. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

Athugasemdir kæranda í greinargerð og framlögð gögn

Í greinargerð kæranda er vísað til fréttar af vefsíðu France24. Kærunefnd tekur fram að fréttin fjallar um átök á landamærum Spánar og Marokkó og telur kærunefnd því að fréttin hafi ekki þýðingu í máli kæranda og barna hennar.

Þá er í greinargerð kæranda vísað til greinar á vef framkvæmdarstjórnar Evrópusambandsins um fordóma og erfiðleika sem innflytjendur standi frammi fyrir á leigumarkaðnum á Spáni. Kærunefnd tekur fram að kærandi og börn hennar eiga rétt á búsetuúrræðum á vegum spænskra stjórnvalda sem umsækjendur um alþjóðlega vernd þar í landi, sbr. framangreindar skýrslur um aðstæður umsækjenda um alþjóðlega vernd þar í landi. Aðstæðunum sem þar er lýst verður því ekki jafnað við aðstæður kæranda og barna hennar vegna endursendingu þeirra til Spánar.

Kærandi fjallar um í greinargerð sinni að hún hafi lagt fram vegabréf sitt og barna sinna og því hafi hún sannað með fullnægjandi hætti auðkenni sitt. Tekur kærunefnd fram að það hafi ekki þýðingu fyrir niðurstöðu málsins um það hvort taka skuli mál þeirra til efnismeðferðar. Við meðferð málsins hjá íslenskum stjórnvöldum hefur auðkenni kæranda og barna hennar frá heimaríki verið lagt til grundvallar en kærunefnd telur eðlilegt að stjórnvöld hafi svigrúm til að meta auðkenni viðkomandi sjálfstætt í þeim tilvikum þar sem mál eru tekin til efnismeðferðar.

Kærunefnd hefur farið yfir hinar kærðu ákvarðanir að öðru leyti og telur ekki tilefni til þess að gera athugasemdir við þær.

Vegna kröfu um veitingu dvalarleyfis á grundvelli 74. gr. laga um útlendinga

Í greinargerð krefst kærandi þess að þeim verði veitt dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða samkvæmt 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.

Samkvæmt orðalagi ákvæðisins kemur ekki til skoðunar að veita útlendingi dvalarleyfi á grundvelli þess nema umsókn um alþjóðlega vernd hafi verið tekin til efnismeðferðar. Eins og að framan greinir hafa spænsk stjórnvöld samþykkt viðtöku á kæranda og börnum hennar og verða umsóknir þeirra ekki teknar til efnismeðferðar hér á landi. Kemur því ekki til skoðunar hvort þau uppfylli skilyrði fyrir veitingu dvalarleyfis á grundvelli 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.

Frávísun

Kærandi kom hingað til lands 13. janúar 2023 ásamt börnum sínum og sótti um alþjóðlega vernd sama dag. Eins og að framan greinir hefur umsóknum þeirra um alþjóðlega vernd verið synjað um efnismeðferð og hafa þau því ekki tilskilin leyfi til dvalar. Verður kæranda og börnum hennar því vísað frá landinu á grundvelli c-liðar 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga, sbr. 2. og 5. mgr. 106. gr. laganna, enda höfðu þau verið hér á landi í innan við níu mánuði þegar málsmeðferð umsókna þeirra hófst hjá Útlendingastofnun.

Kærandi og börn hennar skulu flutt til Spánar innan tilskilins frests nema ákveðið verði að fresta réttaráhrifum úrskurðar þessa að kröfu kæranda, sbr. 6. mgr. 104. gr. laga um útlendinga.

Samantekt

Í málum þessum hafa spænsk stjórnvöld fallist á að taka við kæranda og umsókn hennar um alþjóðlega vernd á grundvelli ákvæða Dyflinnarreglugerðarinnar. Í ljósi alls ofangreinds er það niðurstaða kærunefndar að rétt sé að synja því að taka til efnismeðferðar umsóknir kæranda og barna hennar um alþjóðlega vernd hér á landi og senda þau til Spánar með vísan til c-liðar 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

Ákvarðanir Útlendingastofnunar eru því staðfestar.

Athygli kæranda er vakin á því að samkvæmt 6. mgr. 104. gr. laga um útlendinga frestar málshöfðun fyrir dómstólum til ógildingar á endanlegri ákvörðun um að útlendingur skuli yfirgefa landið ekki framkvæmd hennar. Að kröfu útlendings getur kærunefnd útlendingamála þó ákveðið að fresta réttaráhrifum endanlegrar ákvörðunar sé talin ástæða til þess. Krafa þess efnis skal gerð ekki síðar en sjö dögum frá birtingu endanlegrar ákvörðunar. Skal frestun bundin því skilyrði að útlendingur beri málið undir dómstóla innan fimm daga frá birtingu ákvörðunar um frestun réttaráhrifa úrskurðar og óski eftir að það hljóti flýtimeðferð. Nú er beiðni um flýtimeðferð synjað og skal þá mál höfðað innan sjö daga frá þeirri synjun. Þó getur kærunefnd útlendingamála tekið ákvörðun um að fresta framkvæmd ef sýnt er fram á að verulega breyttar aðstæður hafi skapast frá því að endanleg ákvörðun var tekin.

Athygli kæranda er einnig vakin á því að Útlendingastofnun getur frestað framkvæmd ákvörðunar með vísan til 2. mgr. 103. gr. laga um útlendinga vegna sérstakra aðstæðna útlendings eða vegna þess að ómögulegt sé að framkvæma ákvörðun að svo stöddu.

Úrskurðarorð:

 

Ákvarðanir Útlendingastofnunar eru staðfestar.

 

The decisions of the Directorate of Immigration are affirmed.

 

 

Þorsteinn Gunnarsson

 

 

Bjarnveig Eiríksdóttir                                                            Sandra Hlíf Ocares


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta