Mál nr. 122/2012.
Úrskurður
Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða 11. júní 2013 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A nr. 122/2012.
1.
Málsatvik og kæruefni
Málsatvik eru þau að kærandi, A, þáði atvinnuleysisbætur frá Vinnumálastofnun en var synjað um greiðslur atvinnuleysisbóta fyrir tímabilið 22. desember 2011 til 13. apríl 2012 þar sem hann staðfesti ekki atvinnuleit sína á því tímabili. Með bréfi kæranda, dags. 15. apríl 2012, óskaði hann eftir endurupptöku á ákvörðuninni en fékk ekki svar frá stofnuninni. Með tölvubréfi, dags. 8. maí 2012, óskaði kærandi eftir rökstuðningi fyrir ákvörðuninni. Með bréfi, dags. 1. júní 2012, var kæranda veittur rökstuðningur fyrir ákvörðuninni og fallist á að greiða honum atvinnuleysisbætur fyrir tímabilið 22. desember 2011 til 13. janúar 2012 en síðarnefnda daginn mætti kærandi í íslenskumat á vegum stofnunarinnar og var það metið sem ígildi staðfestingar á atvinnuleit. Kærandi vildi ekki una þeirri ákvörðun Vinnumálastofnunar að hafna honum um afturvirkar greiðslur fyrir tímabilið 14. janúar til 12. apríl 2012 og kærði hana til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða með kæru móttekinni 9. júlí 2012. Vinnumálastofnun telur að hin kærða ákvörðun hafi verið rétt.
Kærandi sótti síðast um greiðslu atvinnuleysisbóta 4. október 2011 með rafrænni skráningu. Í kjölfarið fór kærandi á kynningarfund hjá Vinnumálastofnun þar sem hann var upplýstur um réttindi sín og skyldur.
Kærandi staðfesti atvinnuleit sína á vef Vinnumálastofnunar dagana 26. október, 20. nóvember og 22. desember 2011. Kærandi mætti í íslenskumat á vegum stofnunarinnar 13. janúar 2012 en staðfesti ekki atvinnuleit sína í janúar, febrúar og mars 2012. Kærandi hafði samband við Vinnumálastofnun 13. apríl 2012 er hann mætti á skrifstofu stofnunarinnar til að athuga með launagreiðslur til sín en hann hafði ekki fengið greitt fyrir það tímabil sem hann staðfesti ekki atvinnuleit sína, þ.e. frá 22. desember 2011 til 13. apríl 2012. Með bréfi, dags. 15. apríl 2012, sendi kærandi inn skýringar til Vinnumálastofnunar varðandi ástæður þess af hverju hann hafi ekki staðfest atvinnuleit sína og óskaði eftir afturvirkum greiðslum. Í skýringarbréfinu tilgreinir kærandi að hann hafi ekki staðfest atvinnuleit sína sökum misskilnings milli hans og sambýliskonu hans.
Á fundi Vinnumálastofnunar 30. apríl 2012 var tekin fyrir beiðni kæranda um afturvirka staðfestingu atvinnuleitar og greiðslu. Var sú ákvörðun tekin að beiðninni skyldi hafnað þar sem skýringar hans um ástæðu þess að atvinnuleit var ekki staðfest voru ekki metnar gildar. Kæranda var ekki sent umrætt bréf, dags. 30. apríl 2012, sökum mistaka hjá Vinnumálastofnun.
Vinnumálastofnun barst beiðni um rökstuðning fyrir ákvörðun stofnunarinnar í tölvubréfi, dags. 8. maí 2012, og var honum sendur rökstuðningur í bréfi stofnunarinnar, dags. 1. júní 2012. Í rökstuðningi Vinnumálastofnunar kom fram að þar sem kærandi hafi mætt í íslenskumat á vegum stofnunarinnar 13. janúar 2012 hafi stofnunin metið það svo að jafna mætti mætingunni til ígildis staðfestingar á atvinnuleit. Var því sú ákvörðun tekin að kærandi skyldi eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta fyrir tímabilið 22. desember 2011 til 13. janúar 2012. Að öðru leyti var ákvörðun stofnunarinnar frá 30. apríl 2012 staðfest.
Af hálfu kæranda kemur fram í kæru til úrskurðarnefndarinnar, móttekinni 9. júlí 2012, að hann hafi sökum tungumálaerfiðleika og misskilnings ekki staðfest atvinnuleit sína.
Í greinargerð Vinnumálastofnunar til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 31. júlí 2012, kemur fram að mál þetta varði þá ákvörðun Vinnumálastofnunar að neita kæranda um greiðslu atvinnuleysistrygginga fyrir tímabilið 14. janúar til 12. apríl 2012 þar sem kærandi staðfesti ekki atvinnuleit sína eins og honum hafi verið skylt að gera skv. 6. mgr. 9. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006. Í athugasemdum í greinargerð sem fylgdi frumvarpi því er varð að breytingarlögum nr. 134/2009 um breytingu á lögum um atvinnuleysistryggingar komi fram að mikilvægt sé að festa framangreinda framkvæmd stofnunarinnar enn frekar í sessi innan atvinnuleysistryggingakerfisins og undirstrika þannig að eftir að umsókn hins tryggða um atvinnuleysisbætur hefur verið samþykkt beri honum skylda til að hafa samband við stofnunina með reglulegum hætti samkvæmt því fyrirkomulagi sem stofnunin ákveður. Lagabreytingin hafi tekið gildi 1. janúar 2010.
Vinnumálastofnun bendir einnig á að sá háttur sé hafður á að atvinnuleitanda sé gert að staðfesta að hann sé virkur í atvinnuleit mánaðarlega hjá stofnuninni. Atvinnuleitendur geti hringt í þjónustufulltrúa, skráð sig rafrænt á heimasíðu stofnunarinnar eða mætt á þjónustuskrifstofu Vinnumálastofnunar til þess að staðfesta atvinnuleit sína. Í ljósi aukinna umsvifa þjónustuskrifstofa stofnunarinnar er atvinnuleitendum almennt ráðlagt að staðfesta sig rafrænt á Netinu.
Vinnumálastofnun greinir frá því að kærandi hafi sótt um greiðslur atvinnuleysistrygginga rafrænt 4. október 2011 og hafi hin rafræna skráning verið staðfest 12. október 2011. Með undirskrift sinni staðfesti kærandi að hafa fengið upplýsingar um að staðfesta skuli atvinnuleit mánaðarlega hjá stofnuninni símleiðis, á heimasíðu stofnunarinnar eða með komu á þjónustuskrifstofu. Þá séu á heimasíðu stofnunarinnar upplýsingar fyrir umsækjendur atvinnuleysisbóta. Sé þar meðal annars að finna ítarlegar upplýsingar um staðfestingu á atvinnuleit. Komi þar skýrt fram að staðfesta skuli atvinnuleit 20.–25. hvers mánaðar og að mögulegt sé að skrá staðfestingu á heimasíðu stofnunarinnar.
Vinnumálastofnun telur að af atvikum málsins sé ljóst að kærandi hafi verið nægilega upplýstur um skyldur sínar gagnvart Vinnumálastofnun, sbr. 7. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993. Þá bendir stofnunin á að kærandi segi í skýringarbréfi sínu til stofnunarinnar að sökum misskilnings milli hans og sambýliskonu hans um það hvort þeirra skyldi staðfesta atvinnuleit hans hafi það farist fyrir að það yrði gert. Jafnframt hafi kærandi greint frá því að þar sem þau hafi ekki litið á stöðu bankareiknings kæranda þá hafi hann og sambýliskona hans ekki áttað sig á að engar greiðslur hefðu borist frá Vinnumálastofnun um nokkra mánaða skeið.
Vinnumálastofnun segir reglulega staðfestingu á atvinnuleit hjá stofnuninni sé nauðsynleg til að tryggja greiðslur atvinnuleysistrygginga. Þau samskipti milli umsækjenda um atvinnuleysisbætur og Vinnumálastofnunar sem felast í því að staðfesta mánaðarlega atvinnuleit sé því mikilvægur þáttur í því að vera skráður atvinnulaus hjá stofnuninni. Vinnumálastofnun haldi úti heimasíðu stofnunarinnar þar sem atvinnuleitendum sé gert kleift að staðfesta atvinnuleit mánaðarlega.
Það sé mat Vinnumálastofnunar að það sé alfarið á ábyrgð atvinnuleitenda að staðfesting á atvinnuleit fari fram með tilskildum hætti. Í þeim tilvikum sem atvinnuleitendum hafi láðst að staðfesta atvinnuleit sína hafi verið litið til þess hvort viðkomandi hafi verið í samskiptum við stofnunina á þeim tíma og metið það til ígildis staðfestingar á atvinnuleit. Af þeim sökum hafi sú ákvörðun verið tekin, sem tilkynnt var með bréfi, dags. 1. júní 2012, að kærandi skyldi eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta fyrir tímabilið 22. desember 2011 til 13. janúar 2012 þar sem kærandi hafi mætt í íslenskumat á vegum stofnunarinnar 13. janúar 2012. Á tímabilinu 14. janúar til 12. apríl 2012 hafi kærandi ekki haft samband við Vinnumálastofnun og því liggi ekki fyrir staðfesting á atvinnuleysi kæranda á tímabilinu.
Kæranda var með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 20. ágúst 2012, sent afrit af greinargerð Vinnumálastofnunar og gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum fyrir 3. september 2012. Ekki bárust athugasemdir frá kæranda.
2.
Niðurstaða
Í 6. mgr. 9. gr. laga um atvinnuleysistryggingar kemur fram að sá sem telst tryggður á grundvelli laganna skuli, eftir að umsókn hans hefur verið samþykkt og á þeim tíma sem hann fær greiddar atvinnuleysisbætur eða sætir biðtíma eða viðurlögum, hafa reglulega samband við Vinnumálastofnun eftir nánara fyrirkomulagi sem stofnunin ákveður. Á heimasíðu Vinnumálastofnunar eru fyrirmæli um að hinum tryggða beri að staðfesta atvinnuleit á tímabilinu 20.–25. hvers mánaðar, hvort sem er í gegnum síma, á heimasíðu stofnunarinnar eða með komu á þjónustuskrifstofu Vinnumálastofnunar. Upplýsingar þessar eru einnig aðgengilegar á umsókn um atvinnuleysisbætur og umsækjendum er einnig leiðbeint um þessa skyldu á kynningarfundum og í kynningarbæklingi.
Kærandi færði fram þær skýringar til Vinnumálastofnunar í bréfi, dags. 15. apríl 2012, að vegna tungumálaerfiðleika hans hafi sambýliskona hans séð um að skrá hann rafrænt. Eftir að hún hafi kennt honum að skrá sig rafrænt hafi orðið misskilningur þeirra á milli og hún hafi haldið að hann væri að skrá sig sjálfur en hann hafi haldið að hún væri ennþá að skrá sig inn.
Samkvæmt upplýsingum í samskiptaskrá Vinnumálastofnunar við kæranda kemur fram að kærandi hafi fyrst verið skráður atvinnulaus árið 2007 en aftur árið 2011. Þá kemur fram að hann hafi sótt kynningarfund 4. nóvember 2011, þar sem farið hafi verið yfir þær reglur sem atvinnuleitendur þurfa að fara eftir til þess að eiga rétt á atvinnuleysisbótum samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar. Kærandi staðfesti ekki atvinnuleit sína líkt honum bar að gera og á þar af leiðandi ekki rétt greiðslu atvinnuleysisbóta fyrir tímabilið 14. janúar til 12. apríl 2012. Með vísan til framangreinds er hin kærða ákvörðun eins og henni var breytt með ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 1. júní 2012, staðfest.
Úrskurðarorð
Ákvörðun Vinnumálastofnunar þess efnis að A eigi ekki rétt á atvinnuleysisbótum fyrir tímabilið 14. janúar til 12. apríl 2012 er staðfest.
Brynhildur Georgsdóttir,
formaður
Hulda Rós Rúriksdóttir Helgi Áss Grétarsson