Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 126/2012.

Úrskurður

 

Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða þann 21. júní 2013 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A nr. 126/2012.

 

1.

Málsatvik og kæruefni

 

Málsatvik eru þau að með bréfi, dags. 21. júní 2012, tilkynnti Vinnumálastofnun kæranda, A, að stofnunin hefði á fundi sínum 15. júní 2012 tekið ákvörðun um að fella niður bótarétt hans frá og með 21. júní 2012 í tvo mánuði, sem ella hefðu verið greiddar atvinnuleysisbætur fyrir. Ástæðan var sú að kærandi uppfyllti ekki mætingarskyldu á námskeiðið grunnnám skólaliða. Ákvörðunin var tekin á grundvelli 1. mgr. 58. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006. Kærandi vildi ekki una þessari ákvörðun og kærði hana til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða með erindi, dags. 17. júlí 2012. Kærandi krefst þess að hin kærða ákvörðun verði felld niður. Vinnumálastofnun telur að staðfesta beri hina kærðu ákvörðun.

Kærandi sótti um atvinnuleysisbætur hjá Vinnumálastofnun þann 19. september 2011.

Þann 2. mars 2012 var kærandi boðaður til Vinnumálastofnunar til að skrifa undir bókunareyðublað á námskeiðið grunnnám skólaliða. Á bókunareyðublaðinu var greint frá því að það væri mikilvægt að uppfylltar yrðu kröfur um mætingarskyldu og það kynni að valda missi bótaréttar ef sá sem skráður er atvinnulaus hafnar þátttöku í vinnumarkaðsaðgerðum, sbr. 58. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

Námskeiðið fór fram milli 5. og 29. mars 2012. Kærandi hafði samband við Vinnumálastofnun 15. mars þar sem hann tilkynnti ráðgjafa stofnunarinnar að hann sæi sér ekki fært að klára námskeiðið sökum þess að hann ætti þess hvorki kost að fjármagna bensínkostnað né strætisvagnagjöld. Var því mætingarskylda kæranda á umrætt námskeið ófullnægjandi.

Með bréfi, dags. 4. júní 2012, var óskað eftir skriflegri afstöðu kæranda á ástæðum höfnunar hans á þátttöku í námskeiðinu grunnnám skólaliða. Skýringarbréf kæranda barst Vinnumálastofnun 6. júní 2012. Í því bréfi lýsir kærandi því yfir að hann hafi ekki getað sótt seinni hluta námskeiðsins sökum þess að fjármagn hans hafi verið af skornum skammti. Hann hafði því hvorki efni á að borga fyrir bensínkostnaðinn sem hefði hlotist af því að keyra frá heimili hans í Breiðholti til Skeifunnar þar sem námskeiðið var haldið né að borga fyrir strætisvagnagjöld. Með bréfinu fylgdi yfirlit af debetkortareikningi kæranda á tímabilinu 9.–28. mars 2012.

Mál kæranda var tekið fyrir á fundi Vinnumálastofnunar 15. júní 2012. Það var niðurstaða Vinnumálastofnunar að kærandi skyldi sæta biðtíma eftir greiðslu atvinnuleysisbóta í tvo mánuði frá ákvörðunardegi. Var það mat stofnunarinnar að ástæður kæranda fyrir höfnun á vinnumarkaðsúrræði teldust ekki gildar í skilningi laga um atvinnuleysistryggingar.

Í rökstuðningi með kæru til úrskurðarnefndarinnar, dags. 17. júlí 2012, bendir kærandi á að í lögunum segi að sá sem hafnar þátttöku í vinnumarkaðsaðgerðum skuli ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta en hann kveðst aldrei hafa hafnað að taka þátt í vinnumarkaðsaðgerðum.

Kærandi greinir frá því að 15. mars 2012 hafi hann keypt mat í Nettó og þá aðeins átt 2.441 kr. og bíllinn hans var næstum bensínlaus. Hafi hann ekki vitað hvað hann skyldi taka til bragðs. Hann bendir á að það sé erfitt að lifa á mánuði af 149.000 kr., vera atvinnulaus, 26 ára og eiga lítið barn. Kona kæranda sé atvinnulaus en hún fái aðeins 70.000 kr. í atvinnuleysisbætur á mánuði. Kærandi hefði þurft að ganga 4,2 km eða í um 50 mínútur til að komast á námskeiðið, en það hafi verið erfitt fyrir kæranda þar sem hann hafði farið í skurðaðgerð fyrir minna en tveimur árum vegna kviðslits.

Þann 15. mars 2012 ritaði kærandi bréf til Vinnumálastofnunar og greindi frá því að hann hefði verið mjög ánægður með námskeiðið en því miður hefði verið ómögulegt fyrir hann að sækja það. Hann hafi útskýrt aðstæður sínar í bréfinu og óskað eftir hjálp, en ekkert svar hafi borist. Kærandi telur sig þannig ekki hafa hafnað því að taka þátt í vinnumarkaðsaðgerðum.

Kærandi kveðst hafa starfað erlendis sem skólaliði í grunnskólum þannig að hann gæti sótt um vinnu sem skólaliði.

Kærandi bendir loks á að hann hafi hringt í Vinnumálastofnun 6. júní 2012 og þá hafi hann skrifað tölvupóst til þess að útskýra ástand sitt.

Þá kveðst kærandi ekki vilja vera atvinnulaus en hann þurfi að fá atvinnuleysisbætur og treysti á skilning úrskurðarnefndarinnar.

 

 

Í greinargerð Vinnumálastofnunar til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 7. ágúst 2012, kemur fram að málið lúti að 1. mgr. 58. gr. laga um atvinnuleysistryggingar þar sem komi skýrt fram að hafni einstaklingur þátttöku í vinnumarkaðsaðgerðum skuli hann sæta tveggja mánaða biðtíma eftir atvinnuleysisbótum. Í greinargerð er fylgdi frumvarpi því er varð að lögum um atvinnuleysistryggingar sé efni 58. gr. laganna nánar skýrt. Þar segi að Vinnumálastofnun annist skipulag vinnumarkaðsaðgerða og að litið sé svo á að þeim sem tryggðir séu innan atvinnuleysistryggingakerfisins sé skylt að taka þátt í vinnumarkaðsúrræðum. Þá sé jafnframt tekið fram í greinargerðinni að bregðist hinn tryggði þeirri skyldu leiði það til viðurlaga í formi biðtíma eftir atvinnuleysisbótum.

Samkvæmt g-lið 1. mgr. 14. gr. laga um atvinnuleysistryggingar felist virk atvinnuleit meðal annars í því að hafa vilja og getu til að taka þátt í þeim vinnumarkaðsaðgerðum er standi til boða.

Í 13. gr. laga um vinnumarkaðsúrræði, nr. 55/2006, komi einnig fram skylda þess sem teljist tryggður samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar til að taka þátt í vinnumarkaðsúrræðum sem Vinnumálastofnun bjóði upp á.

Kærandi hafi verið skráður á námskeiðið grunnnám skólaliða í mars 2012. Komi fram á bókunareyðublaði að það geti valdið missi bótaréttar ef atvinnuleitandi hafnar þátttöku í vinnumarkaðsaðgerðum. Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum hafi kærandi fallið á mætingu á umræddu námskeiði.

Í ljósi þess að rík skylda hvílir á umsækjendum um atvinnuleysisbætur til þátttöku í vinnumarkaðsaðgerðum sé það mat Vinnumálastofnunar að hvorki skýring sú er kærandi hafi tekið fram í bréfi sínu til stofnunarinnar né í kæru sinni til úrskurðarnefndar geti réttlætt fjarveru hans á framangreindu námskeiði og að með fjarveru sinni hafi kærandi brugðist skyldum sínum skv. 1. mgr. 58. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

Kæranda var með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 20. ágúst 2012, sent afrit af greinargerð Vinnumálastofnunar og gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum fyrir 3. september 2012. Engar frekari athugasemdir bárust frá kæranda.

 

 

2.

Niðurstaða

 

Mál þetta lýtur að 1. mgr. 58. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, sbr. 21. gr. laga nr. 134/2009, en hún er svohljóðandi:

Sá sem hafnar þátttöku í vinnumarkaðsaðgerðum, sbr. lög um vinnumarkaðsaðgerðir, samkvæmt ákvörðun Vinnumálastofnunar eftir að hafa verið í atvinnuleit í a.m.k. fjórar vikur frá móttöku Vinnumálastofnunar á umsókn um atvinnuleysisbætur skal ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta skv. VII. kafla fyrr en að tveimur mánuðum liðnum, sem ella hefðu verið greiddar bætur fyrir, frá þeim degi er viðurlagaákvörðun Vinnumálastofnunar er tilkynnt aðila. Hið sama gildir þegar hinn tryggði mætir ekki til Vinnumálastofnunar á áður boðuðum tíma skv. 6. mgr. 9. gr., 3. mgr. 13. gr. eða 3. mgr. 18. gr.

 

Í athugasemdum við 58. gr. með frumvarpi til laga um atvinnuleysistryggingar kemur fram að Vinnumálastofnun annist skipulag vinnumarkaðsaðgerða og hinir tryggðu njóti faglegrar ráðgjafar sérfræðinga stofnunarinnar og sé litið svo á að hinum tryggðu sé skylt að taka þátt í slíkum úrræðum. Bregðist hinn tryggði þessum skyldum sínum leiði það til viðurlaga í formi biðtíma eftir atvinnuleysisbótum.

Samkvæmt g-lið 1. mgr. 14. gr. laga um atvinnuleysistryggingar felst virk atvinnuleit meðal annars í því að hafa vilja og getu til að taka þátt í þeim vinnumarkaðsúrræðum sem standa til boða. Í 13. gr. laga um vinnumarkaðsúrræði, nr. 55/2006, kemur fram sama skylda:

Atvinnuleitandi skal fylgja eftir áætlun um atvinnuleit og þátttöku í viðeigandi vinnumarkaðsúrræðum skv. 11. gr. og gera það sem í hans valdi stendur til að bæta vinnufærni sína til þess að verða virkur þátttakandi á vinnumarkaði. Þar á meðal skal atvinnuleitandi ávallt mæta í viðtöl til ráðgjafa Vinnumálastofnunar skv. 14. gr. og taka þátt í þeim vinnumarkaðsúrræðum er standa honum til boða. Atvinnuleitandi skal jafnframt tilkynna Vinnumálastofnun um þær breytingar sem kunna að verða á vinnufærni hans eða aðstæðum að öðru leyti án ástæðulausrar tafar.

Í máli þessu liggur fyrir að kærandi óskaði sjálfur eftir að taka þátt í vinnumarkaðsaðgerð á vegum Vinnumálastofnunar er hann skráði sig í febrúar 2012 á námskeiðið grunnnám skólaliða. Kærandi byrjaði á námskeiðinu en hann hefur borið fyrir sig að hafa ekki haft fjárráð til að fara milli heimilis og námskeiðsstaðar og tilkynnti Vinnumálastofnun þegar leið á námskeiðið að hann teldi sig ekki geta sótt það vegna fjárhagsástæðna. Að mati úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða verður ekki fallist á að skýringar kæranda fyrir nefndinni réttlæti höfnun hans á vinnumarkaðsúrræði með vísan til 1. mgr. 58. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Hin kærða ákvörðun Vinnumálastofnunar er staðfest.

 

Úrskurðarorð

Hin kærða ákvörðun Vinnumálastofnunar þess efnis að kærandi, A, skuli sæta biðtíma eftir greiðslu atvinnuleysisbóta í tvo mánuði er staðfest.

 

 

Brynhildur Georgsdóttir,

formaður

 

 

 

Hulda Rós Rúriksdóttir                                 Helgi Áss Grétarsson


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta