Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 112/2012

Úrskurður

 

Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða 21. júní 2013 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A nr. 112/2013.

 

1.

Málsatvik og kæruefni

 

Málsatvik eru þau að með bréfi, dags. 11. júní 2012, tilkynnti Vinnumálastofnun kæranda, A, að Vinnumálastofnun hefði ákveðið á grundvelli 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006, að stöðva greiðslur atvinnuleysisbóta til kæranda þar sem hann hefði verið staðinn að vinnu samhliða því að þiggja atvinnuleysisbætur. Var það niðurstaða Vinnumálastofnunar að kærandi skuli ekki eiga rétt á atvinnuleysisbótum fyrr en hann hafi starfað a.m.k. tólf mánuði á innlendum vinnumarkaði. Kærandi vildi ekki una ákvörðun Vinnumálastofnunar og kærði hana til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða með erindi, dags. 28. júní 2012. Kærandi krefst þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. Vinnumálastofnun telur að hin kærða ákvörðun sé rétt.

 Kærandi sótti síðast um atvinnuleysisbætur hjá Vinnumálastofnun 19. mars 2012. Þann 10. maí 2012 sendi Vinnumálastofnun kæranda erindi þar sem honum var tilkynnt að samkvæmt gögnum frá aðilum vinnumarkaðarins frá 20. apríl 2012 hafi hann verið við störf hjá fyrirtækinu B samhliða því að þiggja atvinnuleysisbætur og án þess að tilkynna það til stofnunarinnar. Óskað var eftir skýringum sem skyldu berast bréfleiðis til Vinnumálastofnunar eða með tölvupósti á hjálagt netfang. Þann 11. maí 2012 barst stofnuninni bréf frá kæranda þar sem hann greinir frá því að hann hafi ekki verið í vinnu hjá fyrirtækinu B. þann 20. apríl 2012. Skýringar kæranda á veru hans á vinnustað fyrirtækisins voru á þá leið að hann hafi verið staddur í Nauthólsvík til að athuga með verkefnastöðuna hjá fyrirtækinu þegar aðila vinnumarkaðarins bar að garði.

 Með bréfi, dags. 15. maí 2012, staðfesti starfsmaður aðila vinnumarkaðarins að kærandi hafi verið við störf á vinnuvél þegar úttekt þeirra á starfsemi fyrirtækisins B. fór fram.

 Með bréfi, dags. 11. júní 2012, var kæranda tilkynnt að Vinnumálastofnun hefði ákveðið á grundvelli 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, að stöðva greiðslur til hans vegna ótilkynntrar vinnu hans hjá B Í erindinu sagði enn fremur að það væri niðurstaða stofnunarinnar að kærandi skyldi ekki eiga rétt á atvinnuleysisbótum fyrr en hann hefði starfað a.m.k. í tólf mánuði á innlendum vinnumarkaði.

 Í kæru, dags. 28. júní 2012, kveður kærandi Vinnumálastofnun hafa ákveðið að stöðva greiðslur bóta til sín þar sem stofnunin hafi talið hann verið að vinna samhliða því að þiggja bætur, en það sé alrangt. Kærandi gerir kröfu um bætur frá þeim tíma sem þær hafi verið stöðvaðar og einnig bætur fyrir það fjárhagstjón sem hann hafi orðið fyrir. Einnig að faglegar verði staðið að svona ákvörðunum svo fleiri verði ekki fyrir þessu að ósekju.

 Kærandi greinir frá því að þann 20. apríl 2012 hafi hann farið í Nauthólsvík þar sem B hafi verið að fara af stað eftir vetrarstopp. Kærandi hafi spurt eftir vinnu hjá fyrirtækinu um sumarið en það hafi ekki verið komið með nein verk og aðeins verið að klára verk frá síðastliðnu hausti. Þar sem kærandi hafi þekkt starfsmenn fyrirtækisins hafi hann staldrað við í góðan tíma, enda hafi hann ekki haft annað við að vera. Meðan kærandi var staddur þarna hafi komið menn frá Vinnueftirlitinu og verið að athuga með „vinnustaðapassa“. Kærandi hafi sagt þeim að hann væri ekki að vinna hjá fyrirtækinu en þeir hafi samt viljað fá kennitölu sem kærandi því miður hafi gefið þeim. Þar sem kærandi hafði sagt þeim að hann væri að leita sér að vinnu hafi hann talið að hann fengi veru sína skráða sem „virka atvinnuleit“ sem því miður hafi ekki reynst raunin, því í byrjun maí hafi kærandi fengið bréf frá eftirlitsdeild Vinnumálastofnunar um að hann væri að vinna og þiggja bætur á sama tíma. Kærandi hafi verið beðinn að skýra mál sitt sem hann hafi gert með tölvupósti fyrir 16. maí 2012. Í lok maí og byrjun júní hafi kærandi verið á námskeiði hjá Vinnumálastofnun. Um mánaðamótin hafi kærandi engar bætur fengið. Hafi hann fengið þau svör að verið væri að skoða mál hans. Þar sem engin niðurstaða hafi verið komin hafi kærandi enga aðstoð fengið frá félagsþjónustunni. Loks hafi komið svar frá Vinnumálastofnun í ljósriti frá 10. júní 2012. Hjá félagsþjónustunni hafi hann ekki fengið nema 50% bætur. Kærandi hafi fengið 123.000 kr. frá 16. mars 2012 frá Vinnumálastofnun en ekki krónu meir. Kærandi spyr hvernig sé hægt að ætlast til að lifa á 40.000 kr. á mánuði.

Úrskurðarnefnd atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða hafði samband við C, forstöðumann B., en hann kannaðist við kæranda. C sagði að kærandi hefði aldrei unnið hjá sér, en hann hefði komið við í Nauthólsvík í fyrra og hjálpað smá eða eiginlega verið að „leika sér“ með starfsmönnunum á svokölluðum „bobcat“. Aðspurður hvort kærandi hafi fengið laun fyrir kvað C nei við heldur hefði honum verið boðið í kaffi.

 

 

Í greinargerð Vinnumálastofnunar til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 24. júlí 2012, bendir Vinnumálastofnun á að mál þetta varði viðurlög vegna brota á 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar þar sem kærandi hafi verið í starfi á innlendum vinnumarkaði á sama tíma og hann hafi fengið greiddar atvinnuleysisbætur, án þess að tilkynna að atvinnuleit væri hætt skv. 35. gr. a eða 10. gr. laganna.

Vinnumálastofnun vísar til 60. gr. laga um atvinnuleysistrygginga og bendir á að með lögum nr. 134/2009, um breytingu á lögum um atvinnuleysistryggingar, hafi verið gerðar veigamiklar breytingar á 60. gr. laganna. Verknaðarlýsing ákvæðisins geri grein fyrir því hvaða atvik geta leitt til þess að viðurlögum á grundvelli ákvæðisins er beitt. Í athugasemdum með 23. gr. frumvarpsins er varð að lögum nr. 134/2009, segi að Vinnumálastofnun skuli beita viðurlögunum ef atvinnuleitandi starfar á innlendum vinnumarkaði á sama tíma og hann fær greiddar atvinnuleysisbætur án þess að tilkynna stofnuninni um að atvinnuleit sé hætt skv. 10. gr. eða 35. gr. a laganna. Þá vísar Vinnumálastofnun til 10. gr. laga um atvinnuleysistryggingar sem fjallar um tilkynningu um að atvinnuleit sé hætt og 35. gr. a um tilkynningu um tilfallandi vinnu.

Þá bendir Vinnumálastofnun á að í 13. gr. laga um atvinnuleysistryggingar segi jafnframt að það sé skilyrði fyrir því að launamaður teljist vera tryggður í skilningi laganna að hann sé virkur í atvinnuleit. Í 14. gr. laga um atvinnuleysistryggingar sé að finna nánari útlistun á því hvað teljist til virkrar atvinnuleitar. Ljóst sé að aðili sem starfar á vinnumarkaði geti hvorki talist vera án atvinnu né í virkri atvinnuleit í skilningi laga um atvinnuleysistryggingar, hvort sem hann þiggi laun fyrir eður ei.

 Vinnumálastofnun telur ljóst af gögnum málsins að kærandi var við störf hjá B. þann 20. apríl 2012 þegar aðilar vinnumarkaðarins hittu hann fyrir á vinnustað. Það hafi verið sérstaklega skráð af starfsmanni aðila vinnumarkaðarins að kærandi hafi verið við störf á vinnuvél þegar þá hafi borið að garði og á meðan heimsókn þeirra hafi staðið. Þrátt fyrir andmæli kæranda um að hann hafi ekki verið við vinnu hjá fyrirtækinu B. í umrætt sinn þá sé það afstaða Vinnumálastofnunar að framkomnar upplýsingar frá aðilum vinnumarkaðarins vegi þyngra við matið á því hvort kærandi hafi stundað ótilkynnta vinnu samhliða töku atvinnuleysisbóta.

 Kærandi hafi ekki tilkynnt fyrirfram um þessar breytingar á högum sínum til stofnunarinnar, en rík skylda hvíli á þeim sem njóta greiðslna atvinnuleysisbóta að sjá til þess stofnunin hafi réttar upplýsingar til að ákvarða bótarétt viðkomandi. Í ljósi afdráttarlausrar verknaðarlýsingar 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar og þeirrar skyldu sem hvíli á atvinnuleitendum til að tilkynna að atvinnuleit sé hætt eða tilkynningu um tekjur, sbr. 10. gr. og 35. gr. a laga um atvinnuleysistryggingar, verði að telja að kærandi hafi brugðist skyldum sínum við stofnunina og eigi að sæta viðurlögum í samræmi við brot sitt.

 Kæranda var með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 26. júlí 2012, sent afrit af greinargerð Vinnumálastofnunar og gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum fyrir 9. ágúst 2012. Engar frekari athugasemdir bárust frá kæranda.

 

 

2.

Niðurstaða

Samkvæmt upplýsingum frá Vinnumálastofnun var lagt til grundvallar að aðilar vinnumarkaðarins hafi staðið kæranda að því að starfa hjá B samhliða því að þiggja atvinnuleysisbætur 20. apríl 2012. Stofnunin taldi mál þetta því lúta að túlkun á 1. mgr. 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006, eins og því ákvæði var breytt með 23. gr. laga nr. 134/2009 og 4. gr. laga nr. 103/2011 en helsti tilgangur ákvæðisins er að tryggja að atvinnuleitendur veiti réttar upplýsingar um hagi sína í atvinnumálum og upplýsi um breytingar sem á þeim kunna að verða.

 Kærandi hefur eindregið mótmælt þeirri staðhæfingu að hann hafi verið við störf hjá umræddu fyrirtæki. Hann hafi verið staddur í Nauthólsvík 20. apríl 2012 þar sem starfsmenn fyrirtækisins hafi verið að störfum með það fyrir augum að fá vinnu hjá þeim. Kærandi bendir á að honum þyki það hart að mega ekki leita sér að vinnu á vinnusvæði án þess að vera þar með talinn fullgildur starfsmaður hjá viðkomandi fyrirtæki. Úrskurðarnefnd atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða aflaði upplýsinga hjá forstöðumanni fyrirtækisins, C. C kannaðist við kæranda, en kvað hann aldrei hafa unnið hjá sér. Hann hefði komið við á starfsstöð í Nauthólsvík 2012 og hjálpað smávegis eða eiginlega verið að „leika sér“ með starfsmönnunum á svokölluðum „bobcat“. Aðspurður hvort kærandi hafi fengið laun fyrir kvað Cnei við heldur hefði honum verið boðið í kaffi.

Að mati úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða hefur Vinnumálastofnun ekki sýnt fram á að kærandi hafi verið við störf hjá B Stofnuninni láðist að sjá til þess að málið væri nægjanlega rannsakað skv. 10. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, með þeim hætti einkum að láta hjá líða að fá upplýsingar hjá og að kanna afstöðu þess aðila til málsins sem kærandi var talinn starfa hjá. Með vísan til þess sem hér hefur verið rakin er hin kærða ákvörðun felld úr gildi.


 

Úrskurðarorð

 

Ákvörðun Vinnumálastofnunar frá 11. júní 2012 í máli A þess efnis að kærandi skuli ekki eiga rétt á atvinnuleysisbótum fyrr en hann hefur starfað a.m.k. tólf mánuði á innlendum vinnumarkaði er felld úr gildi.

 

 

Brynhildur Georgsdóttir,

formaður

 

Hulda Rós Rúriksdóttir                                 Helgi Áss Grétarsson


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta