Mál nr. 129/2012
Úrskurður
Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða 21. júní 2013 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A í máli nr. 129/2012.
1.
Málsatvik og kæruefni
Málsatvik eru þau að með bréfi, dags. 11. júní 2012, tilkynnti Vinnumálastofnun kæranda, A, að stofnunin hefði ákveðið að stöðva greiðslur atvinnuleysisbóta til hans þar sem hann hafði verið staðinn að vinnu hjá B samhliða því að þiggja atvinnuleysisbætur og að hann skuli ekki eiga rétt á atvinnuleysisbótum fyrr en hann hefur starfað að minnsta kosti tólf mánuði á innlendum vinnumarkaði. Ákvörðunin var tekin á grundvelli 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006. Kærandi vildi ekki una þeirri ákvörðun og kærði hana til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða með erindi, dags. 13. júlí 2012. Þess er krafist af hálfu kæranda að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. Það er mat Vinnumálastofnunar að hin kærða ákvörðun skuli halda gildi sínu.
Kærandi sótti síðast um greiðslur atvinnuleysisbóta hjá Vinnumálastofnun þann 2. febrúar 2012. Þann 10. maí 2012 var kæranda sent erindi þar sem honum var tilkynnt að samkvæmt gögnum frá aðilum vinnumarkaðarins frá 4. apríl 2012 hafi hann verið við störf hjá fyrirtækinu B samhliða því að þiggja atvinnuleysisbætur og án þess að tilkynna það til stofnunarinnar. Eftirlitsferðir eru farnar samkvæmt heimild í 4. gr. laga um vinnustaðaskírteini og eftirlit á vinnustöðum, nr. 42/2010. Óskað var eftir skýringum sem skyldu berast bréfleiðis til Vinnumálastofnunar eða með tölvupósti. Þann 29. maí 2012 barst stofnuninni tölvupóstur frá kæranda þar sem hann greinir frá því að daginn áður en hann hóf störf hafi hann með aðstoð vinnuveitanda fyllt út umsókn til Vinnumálastofnunar og að vinnuveitandi hefði átt að tilkynna að hann hefði byrjað að vinna.
Með bréfi, dags. 11. júní 2012, var kæranda tilkynnt að Vinnumálastofnun hefði ákveðið á grundvelli 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006, að stöðva greiðslur til hans vegna ótilkynntrar vinnu hans hjá B. Í erindinu sagði enn fremur að það væri niðurstaða stofnunarinnar að kærandi skyldi ekki eiga rétt á atvinnuleysisbótum fyrr en hann hefði starfað a.m.k. í tólf mánuði á innlendum vinnumarkaði.
Í kæru til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 13. júlí 2012, greinir kærandi frá því að hann telji að mistök hafi átt sér stað er hann var sviptur bótum. Að hans mati hafi hann ekki vanrækt skyldur sínar. Daginn áður en kærandi byrjaði að vinna hafi hann fyllt út eyðublað með aðstoð vinnuveitanda sem hafi lofað að skila eyðublaðinu til Vinnumálastofnunar. Vinnuveitandi hafi sagt kæranda að nauðsynlegt væri að hann hæfi störf morguninn eftir.
Kærandi tekur fram að hann hafi ávallt leitað að vinnu en ekki setið aðgerðalaus. Þegar hann hafi fundið tilfallandi vinnu hafi hann látið stöðva greiðslur atvinnuleysisbóta.
Raunin sé sú að kærandi hafi heimsótt vinnuveitandann viku áður en hann hafi verið ráðinn en kærandi hafi ekki búist við því að fá vinnuna.
Í greinargerð Vinnumálastofnunar til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 1. ágúst 2012, vísar Vinnumálastofnun til þess að lög um atvinnuleysistryggingar gildi um atvinnuleysisbætur launamanna og sjálfstætt starfandi einstaklinga á innlendum vinnumarkaði þegar þeir verða atvinnulausir. Mál þetta varði viðurlög vegna brota á 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar þar sem kærandi hafi verið í starfi á innlendum vinnumarkaði á sama tíma og hann fékk greiddar atvinnuleysisbætur, án þess að tilkynna til stofnunarinnar að atvinnuleit væri hætt skv. 35. gr. a eða 10. gr. laganna.
Með lögum nr. 134/2009 um breytingar á lögum um atvinnuleysistryggingar hafi verið gerðar veigamiklar breytingar á 60. gr. laganna. Verknaðarlýsing ákvæðisins geri grein fyrir því hvaða atvik geti leitt til þess að viðurlögum á grundvelli ákvæðisins sé beitt. Í athugasemdum með 23. gr. frumvarpsins sem varð að lögum nr. 134/2009 segi að Vinnumálastofnun skuli beita viðurlögunum ef atvinnuleitandi starfar á innlendum vinnumarkaði á sama tíma og hann fær greiddar atvinnuleysisbætur án þess að tilkynna stofnuninni um að atvinnuleit sé hætt skv. 10. eða 35. gr. a laganna.
Í 13. gr. laganna segi að það sé skilyrði fyrir því að launamaður teljist vera tryggður í skilningi laga um atvinnuleysistryggingar að hann sé í virkri atvinnuleit. Í 14. gr. laganna sé að finna nánari útlistun á því hvað teljist til virkrar atvinnuleitar. Ljóst sé að aðili sem starfar á vinnumarkaði geti hvorki talist vera án atvinnu eða í virkri atvinnuleit í skilningi laga um atvinnuleysistryggingar, hvort sem hann þiggi laun fyrir eður ei.
Af gögnum málsins megi ráða að kærandi hafi verið við störf fyrir B 4. apríl 2012 þegar aðilar vinnumarkaðarins hittu hann fyrir á vinnustað, sú færsla sé skráð kl. 10.45 í eftirlitskerfi aðila vinnumarkaðarins. Í samskiptasögu kæranda hjá Vinnumálastofnun sé að finna tilkynningu frá 4. apríl 2012 um að hann hafi hafið störf hjá B frá og með 3. apríl. Sú færsla sé skráð inn kl. 11.55 í kerfi stofnunarinnar. Það sé mat Vinnumálastofnunar að tilkynning kæranda eftir að eftirlitsmenn hafi komið að honum við störf hjá B geti ekki talist tilkynning í samræmi við 35. gr. a laga um atvinnuleysistryggingar enda hafi kærandi tekið fram að hann hafi hafið störf 3. apríl 2012 en ekki tilkynnt það fyrr en 4. apríl 2012. Jafnframt sé það mat stofnunarinnar að tilkynning sem berist henni eftir að aðili hafi verið staðinn að því að sinna ótilkynntri vinnu samhliða því að þiggja atvinnuleysisbætur geti tilkynning sem komi í kjölfarið ekki leyst viðkomandi aðila undan þeim viðurlögum sem hann skuli sæta samkvæmt skýru orðalagi laga um atvinnuleysistryggingar.
Tilgangur laga um vinnustaðaskírteini og eftirlit á vinnustöðum sé meðal annars að vinna gegn svartri atvinnustarfsemi og misnotkun á atvinnuleysisbótum. Sami tilgangur sé með 35. gr. a og 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.
Í skýringarbréfi sínu, dags. 29. maí, og í skýringarbréfi forstjóra B., dags. 21. júní, sé tekið fram að kærandi hafi fyllt út umsókn sem forstjóri B hafi ætlað svo að skila til Vinnumálastofnunar en sökum mikilla anna hafi það farist fyrir hjá forstjóranum að skila inn upplýsingum til stofnunarinnar. Það sé mat Vinnumálastofnunar að skýringar kæranda teljist ekki gildar. Mistök hans og vinnuveitanda hans við að tilkynna stofnuninni um fyrirhugaða vinnu leysi hann ekki undan skýrri skyldu sinni skv. 35. gr. a laganna um að tilkynna um vinnu með a.m.k. eins dags fyrirvara. Líkt og áður hafi verið tekið fram sé tilgangur eftirlitsferða aðila vinnumarkaðarins og tilkynningarskyldunnar í 35. gr. a að sporna gegn svartri atvinnustarfsemi og misnotkun á atvinnuleysistryggingakerfinu. Í samræmi við þetta sé það mat Vinnumálastofnunar að í tilfelli kæranda hefði ólíklega komið til tilkynningar vegna vinnu hans hjá Bf. nema að eftirlitsaðilar vinnumarkaðarins hafi komið að honum við störf. Af samskiptasögu kæranda sé einnig ljóst að hann hafi haft vitneskju um að honum bar að tilkynna um fyrirhuguð störf til Vinnumálastofnunar, en kærandi hafi tilkynnt 21. júlí 2010 að hann myndi hefja störf daginn eftir og það sama hafi kærandi gert 22. október 2009.
Kærandi hafi ekki tilkynnt fyrirfram um breytingar á högum sínum til stofnunarinnar en rík skylda hvíli á þeim sem njóta greiðslna atvinnuleysisbóta að sjá til þess að stofnunin hafi réttar upplýsingar sem geti ákvarðað bótarétt viðkomandi. Í ljósi afdráttarlausrar verknaðarlýsingar í 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar og þeirrar skyldu sem hvíli á atvinnuleitendum að tilkynna til stofnunarinnar að atvinnuleit sé hætt eða tilkynningu um tekjur, sbr. 10. gr. og 35. gr. a laga um atvinnuleysistryggingar, verði að telja að kærandi hafi brugðist skyldum sínum við stofnunina og eigi að sæta viðurlögum í samræmi við brot sitt.
Kæranda var með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 20. ágúst 2012, sent afrit af greinargerð Vinnumálastofnunar og gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum fyrir 3. september 2012. Ekki bárust frekari athugasemdir frá kæranda.
2.
Niðurstaða
Mál þetta lýtur að túlkun á 1. mgr. 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, eins og því ákvæði hefur verið breytt með 23. gr. laga nr. 134/2009 og 4. gr. laga nr. 103/2011 en helsti tilgangur ákvæðisins er að tryggja að atvinnuleitendur veiti réttar upplýsingar um hagi sína í atvinnumálum og upplýsi um breytingar sem á þeim kunna að verða. Með þessu á meðal annars að sporna gegn „svartri atvinnustarfsemi“. Síðan 3. september 2011 hefur ákvæðið verið svohljóðandi:
„Sá sem lætur vísvitandi hjá líða að tilkynna Vinnumálastofnun um þær breytingar sem kunna að verða á högum hans á því tímabili sem hann fær greiddar atvinnuleysisbætur eða sætir biðtíma eða viðurlögum samkvæmt lögum þessum eða veitir vísvitandi rangar upplýsingar sem leiða til þess að hann telst ranglega tryggður að fullu eða að hluta samkvæmt lögum þessum skal ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta fyrr en hann hefur starfað a.m.k. tólf mánuði á innlendum vinnumarkaði áður en hann sækir aftur um atvinnuleysisbætur. Hið sama gildir um þann sem starfar á innlendum vinnumarkaði á sama tíma og hann fær greiddar atvinnuleysisbætur eða sætir biðtíma eða viðurlögum samkvæmt lögum þessum án þess að hafa tilkynnt Vinnumálastofnun um að atvinnuleit sé hætt skv. 10. gr. eða um tilfallandi vinnu skv. 35. gr. a. Skal honum jafnframt verða gert að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur skv. 39. gr.“
Ákvæðið var í gildi þegar Vinnumálastofnun bárust upplýsingar frá eftirlitsaðilum um starf kæranda hjá B. Kærandi upplýsti Vinnumálastofnun ekki fyrirfram um þessa vinnu sína en í 3. mgr. 9. gr. laga um atvinnuleysistryggingar er kveðið á um þá skyldu atvinnuleitanda að upplýsa Vinnumálastofnun um breytingar á högum viðkomandi eða annað það sem kann að hafa áhrif á rétt hans samkvæmt lögunum, eins og námsþátttöku og tekjur fyrir tilfallandi vinnu.
Með vísan til gagna þessa máls er ljóst að kærandi starfaði á vinnumarkaði 4. apríl 2012 á sama tíma og hann þáði atvinnuleysisbætur án þess að tilkynna Vinnumálastofnun um tilfallandi vinnu eða að atvinnuleit hafi verið hætt. Kærandi hafði áður sjálfur séð um að tilkynna Vinnumálastofnun um tilfallandi vinnu og mátti vera það ljóst að honum bæri að annast tilkynningarskylduna en ekki treysta vinnuveitanda sínum að sjá um slíkt.
Verður að telja í ljósi afdráttarlausrar verknaðarlýsingar í 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar og þeirrar skyldu atvinnuleitanda sem kveðið er á um í 35. gr. a sömu laga, að kærandi hafi brugðist trúnaðar- og upplýsingaskyldum sínum gagnvart Vinnumálastofnun. Háttsemi kæranda hefur því réttilega verið heimfærð til ákvæðis 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar og ber kæranda því að sæta viðurlögum þeim sem þar er kveðið á um. Skal kærandi ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta fyrr en hann hefur starfað a.m.k. tólf mánuði á innlendum vinnumarkaði.
Með vísan til framangreinds og þeirra raka sem Vinnumálastofnun hefur fært fram fyrir hinni kærðu ákvörðun, verður hún staðfest.
Úrskurðarorð
Ákvörðun Vinnumálastofnunar frá 11. júní 2012 í máli A um niðurfellingu bótaréttar hans í a.m.k. tólf mánuði er staðfest.
Brynhildur Georgsdóttir,
formaður
Hulda Rós Rúriksdóttir Helgi Áss Grétarsson