Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 400/2020

 

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 400/2020

Miðvikudaginn 4. nóvember 2020

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur og Kristinn Tómasson læknir.

Með kæru, móttekinni 17. ágúst 2020, kærði A til úrskurðarnefndar velferðarmála örorkumat Tryggingastofnunar ríkisins frá 6. ágúst 2020 þar sem kæranda var synjað um örorkulífeyri og tengdar greiðslur en honum metinn örorkustyrkur tímabundið.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um örorkulífeyri og tengdar greiðslur frá Tryggingastofnun ríkisins með rafrænni umsókn 25. júní 2020. Með örorkumati, dags. 6. ágúst 2020, var umsókn kæranda synjað en hann var talinn uppfylla skilyrði örorkustyrks frá 1. febrúar 2020 til 31. janúar 2024.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 17. ágúst 2020. Með bréfi, dags. 21. ágúst 2020, óskaði úrskurðarnefnd eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Með bréfi, dags. 7. september 2020, barst greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins og var hún kynnt kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 8. september 2020. Athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Af kæru má ráða að kærandi óski þess að ákvörðun Tryggingastofnunar um að synja umsókn hans um örorkulífeyri verði endurskoðuð.

Í kæru kemur fram að úrskurður Tryggingastofnunar sé óásættanlegur. Samkvæmt lækni lífeyrissjóðsins sé kærandi óvinnufær til 67 aldurs vegna krabbameinsmeðferðar sem hafi valdið varanlegum skaða á skjaldkirtli, munnvatnskirtli og þreki. Svefn hans sé verulega skertur vegna munnþurrks sem geri honum algerlega ófært að stunda vinnu.

III.  Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins

Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins kemur fram að kærð sé synjun á umsókn um örorkulífeyri.

Örorkulífeyrir greiðist samkvæmt 18. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar þeim sem séu metnir til að minnsta kosti 75% örorku til langframa vegna afleiðinga læknisfræðilega viðurkenndra sjúkdóma eða fötlunar.

Tryggingastofnun ríkisins meti örorku þeirra sem sæki um örorkulífeyri samkvæmt staðli sem byggður sé á læknisfræðilega viðurkenndum sjúkdómum eða fötlun, sbr. fylgiskjal 1 við reglugerð nr. 379/1999 um örorkumat, sem sett sé með skýrri lagastoð. Staðlinum sé skipt í tvo hluta. Í fyrri hlutanum sé fjallað um líkamlega færni og þurfi að fá 15 stig samanlagt til að teljast að minnsta kosti 75% öryrki. Síðari hluti staðalsins lúti að andlegri færni. Þar séu öll stig lögð saman og þurfi tíu stig til að teljast að minnsta kosti 75% öryrki. Nái umsækjandi ekki tilskildum stigafjölda í öðrum hluta staðalsins geti hann samt verið metinn að minnsta kosti 75% öryrki, nái hann að minnsta kosti sex stigum í hvorum hluta staðalsins. Tryggingastofnun sé bundin af staðlinum eins og hann hafi verið ákveðinn.

Samkvæmt 4. gr. reglugerðar um örorkumat sé heimilt að meta umsækjanda að minnsta kosti 75% öryrkja án þess að byggja á staðli, þ.e. utan örorkustaðals, ef tryggingayfirlæknir telji sýnt af læknisvottorði eða öðrum gögnum að umsækjandi hafi hlotið örorku til langframa vegna læknisfræðilega viðurkenndra sjúkdóma eða fötlunar eða muni sannanlega hljóta slíka örorku. Um undantekningarákvæði sé að ræða sem skýra verði þröngt í ljósi þess að 18. gr. laga um almannatryggingar mæli fyrir um staðlað mat og einnig samkvæmt almennum lögskýringarsjónarmiðum.

Örorkustyrkur greiðist samkvæmt 19. gr. laga um almannatryggingar þeim sem skorti að minnsta kosti helming starfsorku sinnar til langframa. Mat á skilyrðum örorkustyrks sé því framkvæmt sem mat á starfsorkuskerðingu, þ.e. getu til að afla atvinnutekna.

Við afgreiðslu málsins hjá Tryggingastofnun hafi legið fyrir umsókn um örorkulífeyri, dags. 25. júní 2020, svör við spurningalista, dags. 14. júlí 2020, skoðunarskýrsla, dags. 31. júlí 2020, og læknisvottorð, dags. 23. júlí 2020.

Með bréfi Tryggingastofnunar, dags. 6. ágúst 2020, hafi kæranda verið tilkynnt að umsókn um örorkulífeyri hefði verið synjað með þeim rökum að samkvæmt framlögðum gögnum væru skilyrði staðals um örorkulífeyri ekki uppfyllt en að færni til almennra starfa hafi verið talin skert að hluta. Hafi því læknisfræðileg skilyrði um örorkustyrk verið talin uppfyllt og örorka verið metin 50% tímabundið frá 1. febrúar 2020 til 31. janúar 2024.

Við mat á örorku hafi tryggingalæknir stuðst við þau gögn sem hafi legið fyrir.

Tryggingastofnun hafi vegna framkominnar kæru farið á ný yfir gögn málsins og athugasemdir kæranda til úrskurðarnefndar. Engin ný gögn hafi fylgt kæru.

Í læknisvottorði, dags. 23. júlí 2020, komi fram að kærandi hafi greinst með krabbamein í [...]. Einnig segi að eftir geislameðferð hafi kærandi þjáðst af [vanvirkum] skjaldkirtli (e. hypothyroidism), þrálátum munnþurrkum og mikilli þreytu. Að lokum segi að kærandi sé óvinnufær og að ekki megi búast við því að færni hans aukist.

Samkvæmt gögnum Tryggingastofnunar hafi örorkustyrkur verið ákveðinn á grundvelli örorkumats sem hafi farið fram 6. ágúst 2020 að teknu tilliti til skoðunarskýrslu, dags. 31. júlí 2020. Í skýrslunni komi fram að kærandi hafi alla tíð verið hraustur, eða þar til hann hafi veikst í […]. Sé þá vísað til krabbameinsgreiningar, ofvirks skjaldkirtils og munnþurrks. Þá komi einnig fram að kærandi sé ósáttur við stöðu sína en telji sig ekki þunglyndan.

Á grundvelli skýrslu skoðunarlæknis, dags. 31. júlí 2020, hafi kærandi fengið tíu stig í líkamlega hlutanum og þrjú í þeim andlega. Þar segi kærandi að ókunnugir eigi mjög erfitt með að skilja tal hans vegna munnþurrks. Auk þess segist kærandi ergja sig yfir því sem ekki hafi angrað hann áður en hann varð veikur, hann forðist hversdagsleg verkefni vegna þreytu eða álags og að svefnvandamál hafi áhrif á dagleg störf hans. 

Það nægi ekki til að uppfylla skilyrði staðals um hæsta örorkustig. Enn fremur sé þessi stigagjöf í samræmi við líkamsskoðun og umsögn skoðunarlæknis um geðheilsu kæranda þar sem segi meðal annars að hann sé þvoglumæltur en þó skiljanlegur og í eðlilegum holdum.

Niðurstaða örorkumats Tryggingastofnunar hafi verið sú að skilyrði staðals um hæsta örorkustig væru ekki uppfyllt en færni kæranda til almennra starfa hafi verið talin skert að hluta. Á þeim grundvelli hafi örorkustyrkur verið ákveðinn frá 1. febrúar 2020 til 31. janúar 2024.

Tryggingastofnun leggi skoðunarskýrslu, dags. 31. júlí 2020, til grundvallar við örorkumatið. Samanburður á þeim gögnum sem hafa legið til grundvallar kærðrar ákvörðunar stofnunarinnar bendi ekki til þess að ósamræmi sé á milli skoðunarskýrslu og annarra gagna um færniskerðingu kæranda. Þannig komi fram í læknisvottorði, dags. 23. júlí 2020, í spurningalista, dags. 14. júlí 2020, og í skoðunarskýrslu, dags. 31. júlí 2020, sömu upplýsingar um krabbameinsgreiningu, ofvirkan skjaldkirtil og munnþurrk kæranda. Verði þannig ekki séð að kært örorkumat hafi verið byggt á öðrum upplýsingum en þeim sem kærandi hafi sjálfur veitt og hafi verið staðfestar af skoðunarlækni. Því sé ljóst að þeir sjúkdómar sem hrjái kæranda leiði almennt til þeirra einkenna sem lýst sé í gögnunum og fái einkennin stoð í lýsingu atvika daglegs lífs kæranda.

Beiting undantekningarákvæðis 4. gr. reglugerðar nr. 379/1999 sé að mati Tryggingastofnunar aðeins heimil ef líkamleg og andleg færni sé svo mikið skert að augljóst sé að viðkomandi uppfylli skilyrði staðals eða fötlun hans verði jafnað til þess. Að mati Tryggingastofnunar eigi það ekki við í tilviki kæranda.

Að öllu samanlögðu gefi fyrirliggjandi gögn ekki tilefni til að ætla að kærandi uppfylli skilyrði 18. gr. laga um um almannatryggingar um að minnsta kosti 75% örorku til langframa vegna afleiðinga læknisfræðilega viðurkenndra sjúkdóma eða fötlunar, sbr. einnig skilyrði staðals um örorku samkvæmt reglugerð um örorkumat nr. 379/1999.

Með vísan til framanritaðs sé það því niðurstaða Tryggingastofnunar að sú ákvörðun að synja umsókn kæranda um örorkulífeyri en veita honum örorkustyrk hafi verið rétt miðað við fyrirliggjandi gögn, sem hafi byggst á faglegum sjónarmiðum og í samræmi við þær kröfur sem gerðar séu samkvæmt gildandi lögum og reglugerðum.

IV.  Niðurstaða

Kærð er ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 6. ágúst 2020, þar sem kæranda var synjað um örorkulífeyri og tengdar greiðslur en honum veittur tímabundinn örorkustyrkur. Ágreiningur málsins lýtur að því hvort kærandi eigi rétt á örorkulífeyri samkvæmt 18. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar.

Samkvæmt 1. mgr. 18. gr. laga um almannatryggingar eiga þeir rétt til örorkulífeyris sem metnir eru til að minnsta kosti 75% örorku til langframa vegna afleiðinga læknisfræðilega viðurkenndra sjúkdóma eða fötlunar. Samkvæmt 1. mgr. 19. gr. sömu laga skal Tryggingastofnun ríkisins að tilteknum skilyrðum uppfylltum veita einstaklingi örorkustyrk ef örorka hans er metin að minnsta kosti 50%.

Samkvæmt 2. mgr. 18. gr. laga um almannatryggingar metur Tryggingastofnun ríkisins örorku þeirra sem sækja um örorkulífeyri samkvæmt sérstökum örorkustaðli. Samkvæmt 1. mgr. 2. gr. reglugerðar nr. 379/1999 um örorkumat metur tryggingayfirlæknir örorku þeirra sem sækja um örorkulífeyri frá Tryggingastofnun ríkisins samkvæmt staðli sem byggður er á læknisfræðilega viðurkenndum sjúkdómum eða fötlun. Fyrri hluti örorkustaðalsins fjallar um líkamlega færni og þarf umsækjandi að fá fimmtán stig samanlagt til að teljast að minnsta kosti 75% öryrki. Síðari hluti staðalsins lýtur að andlegri færni og þarf umsækjandi að fá tíu stig til að teljast að minnsta kosti 75% öryrki. Nái umsækjandi ekki tilskildum stigafjölda í öðrum hluta staðalsins getur hann samt verið metinn að minnsta kosti 75% öryrki, nái hann að minnsta kosti sex stigum í hvorum hluta staðalsins. Samkvæmt 3. gr. reglugerðarinnar skal Tryggingastofnun, þegar umsókn og læknisvottorð hafa borist, að jafnaði senda umsækjanda staðlaðan spurningalista. Örorkumat er síðan unnið á grundvelli svara umsækjanda, læknisvottorðs og ef þurfa þykir læknisskoðunar og annarra gagna sem tryggingayfirlæknir telur nauðsynlegt að afla.

Meðfylgjandi umsókn kæranda um örorkulífeyri var læknisvottorð B, dags. 23. júlí 2020. Í vottorðinu kemur fram að kærandi sé óvinnufær og að ekki séu líkur á að færni aukist. Í vottorðinu er greint frá eftirfarandi sjúkdómsgreiningum:

„[[…]

Hypothyroidism, unspecified

Munnþurrkur]“

Um heilsuvanda og færniskerðingu kæranda segir í vottorðinu:

„A greindist þann […] með krabbamein […] en hann hafði haft óljós óþægindi í X um skeið […]. Í ljós kom við nánari rannsóknir krabbamein […] og var hafin meðferð með annars vegar geislum og fór í 33 slíkar en hins vegar lyfjameðferð og 3 slíkar. Allt þetta tók verulega mikið á og setja þurfti sondu í kvið til að hann gæti nærst […]. Við geislanirnar virðist sem skjaldkirtill hafi farið í rugling og er í eftirliti og kominn á meðferð við því. Það sem háir A mest er endalaus munnþurrkur og verður að vera með vatnsbrúsa á lofti, er að fara og fá sér vatnssopa 2-3 á nóttu. Á erfitt með að tala þegar að verst lætur og verður þvoglumæltur. Þá á hann erfitt með að borða og þarf að taka vatnssopa með hverjum bita. Það er lítið sem hann getur gert en ef hann gerir eitthvað þá er hann næsta dag að jafna sig, mjög þreyttur. Er þannig algjörlega óvinnufær og mælt með efra þrepi örorku.“

Um lýsingu læknisskoðunar segir í vottorðinu:

„Kemur vel fyrir en er svolítið stressaður og á í erfiðleikum með að tjá sig og blþr 170/1002“

Við örorkumatið lá fyrir spurningalisti með svörum kæranda vegna færniskerðingar sem kærandi skilaði til Tryggingastofnunar ríkisins í tengslum við umsókn sína. Kærandi lýsir heilsuvanda sínum þannig að hann sé afleiðing af krabbameini. Kærandi svarar spurningu um það hvort hann eigi í talerfiðleikum þannig að hann verði stundum óskýr í tali. Þá svarar kærandi spurningu um það hvort hann eigi við geðræn vandamál að stríða neitandi.

Skýrsla C skoðunarlæknis liggur fyrir í málinu en hann átti viðtal við kæranda og skoðaði hann að beiðni Tryggingastofnunar ríkisins þann 31. júlí 2020. Samkvæmt skýrslunni mat skoðunarlæknir líkamlega færniskerðingu kæranda þannig að ókunnugir eigi mjög erfitt með að skilja tal kæranda. Að öðru leyti telur skoðunarlæknir að kærandi búi ekki við líkamlega færniskerðingu. Hvað varðar andlega færniskerðingu kæranda telur skoðunarlæknir að kærandi ergi sig yfir því sem ekki hefði angrað hann áður en hann varð veikur. Skoðunarlæknir metur það svo að kærandi forðist hversdagsleg verkefni á þeim forsendum að þau muni valda of mikilli þreytu eða álagi. Skoðunarlæknir metur það svo að svefnvandamál hafi áhrif á dagleg störf kæranda og að geðrænt ástand komi í veg fyrir að hann sinni áhugamálum sem hann hafi notið áður. Að öðru leyti telur skoðunarlæknir að kærandi búi ekki við andlega færniskerðingu

Skoðunarlæknir lýsir líkamsskoðun kæranda þannig í skýrslu sinni:

„Í eðlilegum holdum. Almenn skoðun á stoðkerfi eðlileg, útlimir, axlir, hné, styrkur handa, hné. Hryggur eðlilegur. Nær ekki alveg með fingur í gólf. Gróf taugaskoðun eðlileg.“

Geðheilsu kæranda er lýst svo í skoðunarskýrslu:

„Snyrtilegur maður sem kemur vel fyrir. Strax áberandi í samtali að hann nær ekki að beita rödd eðlilega en er vel skiljanlegur í samtali. Talar lágt og er stundum þvoglumæltur. Hann gefur góðan kontakt, virkar með eilítið lækkaðan affect og þannig aðeins dapurt yfirbragð. Ekki lýsir hann þó slíkri líðan, ekki koma fram ranghugmyndir og ekki sjálfsvígshugsanir. Innsæi er gott.“

Um heilsufars- og sjúkrasögu kæranda segir í skoðunarskýrslunni:

„Um er að ræða X ára gamlan mann sem alla tíð hefur verið hraustur og ekki mikið vantað í vinnu. Veikist í […]. […] Greinist síðan fljótlega eftir þetta með illkynja æxli í […]. Við tók geisla- og lyfjameðferð. […] Ein afleiðing geislameðferðarinnar var truflun á skjaldkirtilsstarfsemi og þarf hann að fá lyf til að stilla það af. Önnur afleiðing var að hann hætti að geta nærst og léttist mikið en þetta hefur komið tilbaka. […] Krabbameinsmeðferðinni lauk í lok X 2019. Síðan þá verið í eftirliti á Landspítalanum á 3-6 mánaða fresti. Hefur fengið á þessum tíma greiðslur frá lífeyrissjóði sínum. Í mati þaðan metinn alveg óvinnufær að hans sögn. Að mati heimilislæknis talinn alveg óvinnufær og var ráðlagt að sækja um örorku. Afleiðingar af veikindunum fyrir starfsgetu hans eru að hann er með algjöran munnþurrk. Þarf að vakna 2-3 á nóttu til að drekka en hann er þurr niður í háls. Þarf að drekka til að geta komið mat niður. Þarf alltaf að vera að dreypa á vökva, líka til að geta talað. Eins er skerðing á úthaldi og orku en við áreynslu verður hann alveg uppgefinn og þarf að hvíla sig lengi á eftir. Keyrði t.d. á milli X og X í gær og þurfi að sofa í 10 tíma eftir það. Kveðst ekki sáttur við sína stöðu en telur sig ekki þunglyndan. Er aðallega ekki sáttur við að komast ekki í gang, vill geta verið meira að liði f sína nánustu og eins sinna áhugamálum eo X. Ekki verið rætt við hann um endurhæfingu eða Virk. Var boðið upp á sálfræðiþjónustu á Landspítala en taldi ekki þörf á því. Hefur ekki verið í sjúkraþjálfun. Lyf: euthyrox, omeprazol“

Félagssögu kæranda er lýst svo:

„[…] Er í dag húsnæðislaus, býr hjá X sínum og X á víxl. Hefur ekki efni á því að leigja. […] Er í samskiptum við X sín, en á ekki mikið af vinum eða kunningjum. Var á kafi í X en hættir því þegar hann veikist.“

Dæmigerðum degi er lýst svo í skoðunarskýrslu:

„Reynir að vakna milli 8 og 9 á morgnana. Les fréttir í tölvunni. Reynir að ganga ef það er ekki slæmt veður, 30 til 60 min. Gengur tvo hringi til skiptis, annar er 3,5 km og hinn er 5 km. Gengur þetta í einni lotu. Les mikið. Passar að snúa ekki sólahringnum við. Reynir að hjálpa til við heimilisstörf þar sem hann er hverju sinni. Kvöldinu er eytt í að horfa á sjónvarp eða þætti í tölvunni. Er með Facebook reikning. Fer að sofa um 23.“

Úrskurðarnefnd velferðarmála, sem meðal annars er skipuð lækni, hefur yfirfarið mat á örorku kæranda á grundvelli fyrirliggjandi gagna. Er þá metin skerðing á getu vegna afleiðinga læknisfræðilega viðurkenndra sjúkdóma samkvæmt sérstökum örorkustaðli. Eins og áður hefur komið fram er staðallinn hluti af reglugerð nr. 379/1999 um örorkumat sem sett er með skýrri lagastoð. Staðlinum er ætlað að mæla líkamlega og andlega færni á grundvelli staðlaðra spurninga og svara við þeim. Úrskurðarnefndin er bundin af staðlinum eins og hann hefur verið ákveðinn. Úrskurðarnefndin hefur lagt mat á skoðunarskýrslu matslæknis og virt hana í ljósi annarra læknisfræðilegra gagna sem liggja fyrir í málinu. Samkvæmt skoðunarskýrslu er líkamleg færniskerðing kæranda, svo sem hún er mæld samkvæmt örorkustaðli, sú að ókunnugir eigi mjög erfitt með að skilja tal kæranda. Slíkt gefur tíu stig samkvæmt örorkustaðli. Á grundvelli skýrslu skoðunarlæknis er því líkamleg færniskerðing kæranda metin til tíu stiga. Hvað varðar andlega færniskerðingu kæranda telur skoðunarlæknir að kærandi ergi sig yfir því sem ekki hefði angrað hann áður en hann varð veikur. Slíkt gefur eitt stig samkvæmt örorkustaðli. Skoðunarlæknir metur það svo að kærandi forðist hversdagsleg verkefni á þeim forsendum að þau muni valda of mikilli þreytu eða álagi. Slíkt gefur eitt stig samkvæmt örorkustaðli. Skoðunarlæknir metur það svo að svefnvandamál hafi áhrif á dagleg störf kæranda. Slíkt gefur eitt stig samkvæmt örorkustaðli. Skoðunarlæknir metur það svo að geðrænt ástand kæranda komi í veg fyrir að hann sinni áhugamálum sem hann hafi notið áður. Slíkt gefur eitt stig samkvæmt örorkustaðli. Á grundvelli skýrslu skoðunarlæknis er því andleg færniskerðing kæranda metin til fjögurra stiga samtals.

Samkvæmt 4. gr. reglugerðar nr. 379/1999 um örorkumat er heimilt að meta umsækjanda að minnsta kosti 75% öryrkja án þess að byggja á staðli ef tryggingayfirlæknir telur sýnt af læknisvottorði eða öðrum gögnum að umsækjandi hafi hlotið örorku til langframa vegna læknisfræðilega viðurkenndra sjúkdóma eða fötlunar eða muni sannanlega hljóta slíka örorku. Um undantekningarákvæði er að ræða sem skýra verður þröngt samkvæmt almennum lögskýringarsjónarmiðum. Ekki er í reglugerðinni sjálfri að finna leiðbeiningar um það hvenær ákvæðið á við, en þar sem 18. gr. almannatryggingalaga mælir fyrir um staðlað mat verður að gera mjög strangar kröfur við beitingu undantekningarákvæðisins. Slíkt er að mati úrskurðarnefndarinnar aðeins heimilt ef líkamleg og andleg færni er svo mikið skert að augljóst er að viðkomandi uppfylli skilyrði staðals eða fötlun hans verði jafnað til þess. Að mati nefndarinnar á það ekki við í tilviki kæranda.

Kærandi bendir á að hann hafi verið metinn óvinnufær hjá lífeyrissjóði. Úrskurðarnefndin telur rétt að benda á að örorka samkvæmt 1. mgr. 18. gr. laga um almannatryggingar er ekki metin með hliðsjón af starfsgetu umsækjanda heldur er hún ávallt metin samkvæmt örorkustaðli, nema framangreind undanþága í 4. mgr. reglugerðar nr. 379/1999 eigi við. Því þurfa umsækjendur um örorkulífeyri almennt að uppfylla skilyrði örorkustaðalsins til þess að öðlast rétt til örorkulífeyris, óháð því hvort þeir hafi verið metnir óvinnufærir eða ekki.  

Úrskurðarnefndin leggur sjálfstætt mat á öll fyrirliggjandi gögn. Við það mat skiptir máli hvort gögnin komi frá hlutlausum aðila og enn fremur hvort þau séu vel rökstudd. Loks horfir nefndin til þess hvort áverkar, fötlun eða sjúkdómar leiði almennt til þeirra einkenna sem lýst er í gögnum málsins og hvort einkennin fái stoð í lýsingu atvika daglegs lífs. Úrskurðarnefndin telur ekki tilefni til að gera athugasemdir við skoðunarskýrslu og leggur hana til grundvallar við mat á örorku kæranda samkvæmt örorkustaðli. Það er niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að þar sem kærandi fékk tíu stig úr þeim hluta staðals sem varðar líkamlega færni og fjögur stig úr andlega hlutanum, uppfylli hann ekki skilyrði 2. gr. reglugerðar nr. 379/1999 um örorkumat. Þá er það niðurstaða úrskurðarnefndar að kærandi uppfylli ekki undanþáguákvæði 4. gr. reglugerðarinnar sem gerir ráð fyrir að örorka sé metin utan örorkustaðals. Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 6. ágúst 2020 um að synja kæranda um örorkulífeyri og tengdar greiðslur er því staðfest.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja A, um örorkulífeyri og tengdar greiðslur, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir

 

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta