Hoppa yfir valmynd

Úrskurður nr. 129/2016

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

Þann 19. apríl 2016 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 129/2016

í stjórnsýslumáli nr. KNU15080002

Kæra [...]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Með stjórnsýslukæru, dags. 28. júlí 2015, kærði [...], fd. [...], ríkisborgari [...] (hér eftir nefndur kærandi) þá ákvörðun Útlendingastofnunar þann 23. júlí 2015, að synja honum um hæli á Íslandi ásamt því að synja honum um dvalarleyfi á grundvelli 12. gr. f laga nr. 96/2002 um útlendinga.

Kærandi krefst þess að fá viðurkennda réttarstöðu sína sem flóttamaður, með þeim réttindum og skyldum sem því fylgir. Til vara er krafist að hann fái dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 30. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests, sbr. 3. mgr. 30. gr. sömu laga.

II. Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi kom hingað til lands 4. júlí 2014 og sótti um hæli 8. júlí s.á. hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu. Kærandi skilaði inn ýmsum gögnum til Útlendingastofnun við meðferð málsins. Kærandi mætti í viðtal hjá Útlendingastofnun þann 23. júní 2015 ásamt löglærðum talsmanni sínum. Ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 23. júlí 2015, um að synja kæranda um hæli og dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða eða sérstakra tengsla við landið, var birt honum þann 28. júlí 2015. Kærandi kærði ákvörðun Útlendingastofnunar þann sama dag. Greinargerð vegna kæru barst kærunefnd útlendingamála þann 19. ágúst 2015. Þann 17. mars 2016 barst kærunefnd útlendingamála yfirlýsing með undirritun tveggja aðila um að kærandi sé í hættu í heimalandi sínu.

Kæra þessi hefur hlotið hefðbundna málsmeðferð, gagnaöflun er lokið og er málið hér með tekið til úrskurðar.

III. Ákvörðun Útlendingastofnunar

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að kærandi byggi umsókn sína um hæli á því að hann óttist ofsóknir í heimalandi vegna þátttöku sinnar í stjórnmálaflokknum [...] og vegna kæru hans á hendur [...] ríkinu vegna árásar á þátttakendur í óeirðum hinn [...] 2014. Kærandi óttist að verða fangelsaður eða líflátinn við heimkomu. Auk þess óttist kærandi mann að nafni [...] og fjölskyldu hans, en kærandi telur [...] vera forsprakka nefndra óeirða.

Það er mat Útlendingastofnunar að frásögn kæranda hafi verið trúverðug í grófum dráttum og komi heim og saman við skýrslur og gögn um heimaland hans. Synjun Útlendingastofnunar byggir á því að hann hafi ekki orðið fyrir ofsóknum af hálfu stjórnvalda. Mótmælendur hafi ekki verið ákærðir eða ofsóttir í kjölfar atburða þann [...]. Eftir þann atburð hafi verið efnt til fjölda mótmæla án þess að þátttakendur í þeim hafi verði ofsóttir af stjórnvöldum í kjölfarið. Kærandi hafi ekki verið ákærður eða hlotið dóm í heimalandi sínu vegna atburðanna og hafi ekki sannanlega þurft að sæta beinum hótunum eða ofsóknum af hálfu stjórnvalda eða annarra aðila í kjölfar atburðanna. Þá byggir Útlendingastofnun á því að stjórnmálaástand í [...] hafi verið stöðugt undanfarin ár og að handtökur án dóms og laga séu bannaðar. Því var það mat stofnunarinnar að kærandi hafi ekki ástæðuríkan ótta við að vera ofsóttur í heimalandinu og ekki væri tilefni til að ætla að aðstæður hans væru með þeim hætti sem greinir í 1. og 2. mgr. 44. gr. útlendingalaga. Ennfremur var það mat stofnunarinnar að kærandi ætti ekki rétt á dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða né heldur hafi kærandi borið fyrir sig að hann hefði sérstök tengsl við Ísland, sbr. 12. gr. f útlendingalaga.

Með vísan til 2. mgr. 56. gr. reglugerðar nr. 53/2003 um útlendinga þótti Útlendingastofnun rétt að beita frávísun í máli kæranda á grundvelli c-liðar 1. mgr. 18. gr. útlendingalaga. Þá var niðurstaða stofnunarinnar að kæra skyldi fresta réttaráhrifum með vísan til 1. mgr. 32. gr. útlendingalaga.

III. Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð kæranda kemur fram að kærandi sé giftur og faðir þriggja barna. Eiginkona hans og börn búi enn í [...] og hann óttist um velferð þeirra. Kærandi telji að símar fjölskyldunnar séu hleraðir og komi því fréttum til þeirra í gegnum þriðja aðila sem búsettur sé í Bretlandi.

Þann [...] hafi kærandi ásamt ótilteknum fjölda aðila verið viðstaddir fund til heiðurs háttsettum aðila innan stjórnmálaflokks kæranda í [...]. Stjórnvöld hafi komist á snoðir um að kærandi og aðrir í flokknum hafi unnið að því að steypa stjórn landsins og gert árás á þá um nóttina. Fjöldi fólks hafi látist og enn fleiri slasast. Árásirnar hafi verið sýndar í beinni útsendingu og þar hafi lögreglumenn sést skjóta úr skotvopnum á hópinn. Kærandi hafi ákveðið að kæra þennan atburð. Í kjölfarið hafi kæranda verið hótað af háttsettum aðila sem heiti [...]. Sá hafi brotið rúður í fjölda bifreiða á meðan á atburðinum hafi staðið. Kærandi telji að yfirvöld hafi fengið umræddan mann til að hvetja til óeirða á þessari samkomu. Í kjölfar ofangreinds atburðar hafi lögreglan komið heim til kæranda til að handtaka hann þar sem hann hafi ætlað að vitna gegn þeim en honum hafi tekist að komast undan. Kærandi hafi verið hvattur af lögreglumanni og hermanni í fjölskyldu sinni auk háttsettra aðila innan flokksins til að flýja land en ella yrði hann eltur uppi og drepinn.

Í greinargerð kæranda kemur fram að kærandi sé aðili að stjórnmálaaflokki sem heiti [...]. Hann hafi verið þekktur stjórnmálamaður í heimalandi sínu og hafi verið að vinna að því að komast á þing þegar fyrrnefndur fundur þann [...] hafi átt sér stað sem hafi orðið til þess að hann hafi flúið land. Sökum aðildar hans að þessum flokki fái hann enga vernd frá yfirvöldum. Hann hafi lýst sig reiðbúinn til að vitna gegn lögreglunni og yfirvöldum. Þá hafi hann verið ofsóttur af þeirra hálfu og muni ekki fá neina vernd frá þeim. Kærandi sé í lífshættu verði honum gert að snúa á nýjan leik til heimalands síns. Hann sé í hættu á að verða settur í fangelsi og allir stjórnmálamenn sem fari í fangelsi séu drepnir þar. Af hálfu kæranda er bent á að saga hans fái stoð í fréttum fjölmiðla og skýrslum mannréttindasamtaka, svo sem Amnesty International og Human Rights Watch auk annarra gagna. Kærandi bendir á 45. gr. útlendingalaga sem lögfestir 1. mgr. 33. gr. flóttamannasamnings í íslensk lög um að óheimilt sé að endursenda hælisleitanda eða flóttamann til síns heima eða til annars ríkis ef ljóst er að þeir eigi á hættu að verða fyrir pyndingum, lífláti eða annarri ómannúðlegri meðferð eða refsingu. Kærandi eigi á hættu að verða fyrir ómannúðlegri meðferð verði hann sendur aftur til síns heimaríkis og þar muni án efa verða brotið á réttindum hans.

Kærandi ítrekar að líf hans muni vera í hættu verði honum synjað um hæli hér á landi. Eitt ríkasta mannúðarsjónarmið sem til sé sé réttur til lífs og að ekki sé hægt að tryggja rétt kæranda til lífs með vægara móti en því að veita honum dvalarleyfi á Íslandi á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Íslenskum stjórnvöldum beri að gæta meðalhófs við ákvarðanatöku sína. Það sé verulega íþyngjandi fyrir kæranda að fá neitun á bæði hælisumsókn sinni og beiðni um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Vert sé að vísa til 45. gr. útlendingalaga sem og 2. og 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, 6. og 7. gr. samnings um Sameinuðu þjóðanna um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi, 68. gr. stjórnarskrárinnar og 33. gr. samnings um réttarstöðu flóttamanna frá 1951.

IV. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Lagarammi

Í máli þessu gilda ákvæði laga nr. 96/2002 um útlendinga, reglugerð nr. 53/2003 um útlendinga með áorðnum breytingum, stjórnarskrá lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 og mannréttindasáttmáli Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Jafnframt ber að líta til ákvæða alþjóðasamnings um stöðu flóttamanna frá 1951, ásamt viðauka við samninginn frá 1967, og annarra alþjóðlegra skuldbindinga Íslands á sviði mannréttinda eftir því sem tilefni er til.

Auðkenni

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að þegar kærandi sótti um hæli á Íslandi hafi hann lagt fram skilríki [...] sem búsettir eru erlendis auk þess að hafa lagt fram afrit af vegabréfi sínu. Kærunefndin leggur því til grundvallar að kærandi sé [...] ríkisborgari. Rétt er þó að geta þess að kærandi kom til landsins á fölsuðu vegabréfi undir öðru nafni.

Landaupplýsingar

[...]

Kærunefnd útlendingamála hefur skoðað skýrslur og gögn um [...] m.a. eftirfarandi: [...].

Ofangreind gögn benda til þess að einstaklingar sem taka þátt í stjórnmálum eigi almennt ekki á hættu að vera ofsóttir Í [...] vegna stjórnmálaskoðana sinna. Þar kemur m.a. fram að árið [...] hafi ný ríkisstjórn forsætisráðherrans [...] tekið við völdum og hafi kosningarnar að mestu farið vel fram. Í fyrsta sinn frá sjálfstæði [...] árið [...] hafi lýðræðislega kjörin ríkisstjórn lokið störfum að loknu fimm ára kjörtímabili með friðsamlegum hætti. Stjórnarandstæðingar hafa ásakað stjórnvöld um kosningasvindl og mótmæli verið haldin. Til átaka hafi komið í mótmælum þann [...] þar sem a.m.k. átta féllu og yfir hundrað særðust en mótmæli hafa farið að mestu friðsamlega fram síðan. Í kjölfarið varð vitundarvakning í samfélaginu um kosningar, spillingu, mótmæli, réttindi, lýðræði og hlutverk löggæslunnar. Handtökur án dóms og laga eru bannaðar en tíðkast þó í [...]. Mannshvörf eiga sér stað og beinast að einstaklingum grunuðum um hryðjuverk, sjálfstæðissinnum [...].

Ákvæði 1. mgr. 44. gr. útlendingalaga

Til að teljast flóttamaður hér á landi þarf kærandi að sýna fram á að aðstæður hans séu slíkar að þær falli undir 1. mgr. 44. gr. útlendingalaga, sbr. flóttamannasamning Sameinuðu þjóðanna, eða 2. mgr. 44. gr. sömu laga. Kærandi byggir kröfu sína a því að hann eigi á hættu ofsóknir af hendi stjórnvalda vegna þátttöku í stjórnmálastarfi og vegna þátttöku í mótmælum þann [...].

Í 1. mgr. 44. gr. laga nr. 96/2002 um útlendinga, sem byggir á A-lið 1. gr. flóttamannasamningsins, segir:

Flóttamaður samkvæmt lögum þessum telst vera útlendingur sem er utan heimalands síns af ástæðuríkum ótta við að vera ofsóttur vegna kynþáttar, trúarbragða, þjóðernis, aðildar að tilteknum þjóðfélagshópi eða vegna stjórnmálaskoðana og getur ekki, eða vill ekki, vegna slíks ótta færa sér í nyt vernd þess lands; eða sá sem er ríkisfangslaus og er utan þess lands þar sem hann áður hafði reglulegt aðsetur vegna slíkra atburða og getur ekki, eða vill ekki, vegna slíks ótta hverfa aftur þangað, sbr. A-lið 1. gr. alþjóðasamnings um stöðu flóttamanna frá 28. júlí 1951 og viðauka við samninginn frá 31. janúar 1967. Um skilyrði þess að teljast flóttamaður er frekar mælt í 44. gr. a.

Almennt ber að telja ótta umsækjanda ástæðuríkan ef hann getur á nægilega skýran hátt sýnt fram á að áframhaldandi dvöl í heimalandi sé honum óbærileg af ástæðum sem tilgreindar eru í ákvæðinu, eða yrði óbærileg af sömu ástæðum ef hann sneri aftur. Þessi sjónarmið þurfa jafnframt ekki endilega að byggjast á persónulegri reynslu umsækjanda, heldur geta ofsóknir sem vinir hans eða ættingjar eða aðrir sem tilheyra sama þjóðfélagshópi hafa orðið fyrir, gefið til kynna að ótti hans við að verða fyrr eða síðar fórnarlamb ofsókna sé ástæðuríkur.

Í 44. gr. a útlendingalaga eru sett fram viðmið um það hvað felist í hugtakinu ofsóknir, á hvaða grundvelli ofsóknir geta byggt og hvaða aðilar geta verið valdir að þeim. Í 1. mgr. ákvæðisins segir:

Til þess að um sé að ræða ofsóknir skv. 1. mgr. 44. gr. verður að vera um að ræða athafnir sem í eðli sínu, eða vegna þess að þær eru endurteknar, fela í sér alvarleg brot á grundvallarmannréttindum, einkum ófrávíkjanlegum grundvallarmannréttindum á borð við réttinn til lífs og bann við pyndingum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu, bann við þrældómi og þrælkun og bann við refsingum án laga. Sama á við um samansafn athafna, þ.m.t. ólögmæta mismunun, sem hafa eða geta haft sömu eða sambærileg áhrif á einstakling.

Í 3. mgr. 44. gr. a eru taldir upp þeir aðilar sem geta verið valdir að ofsóknum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð. Þar segir að:

Þeir sem geta verið valdir að ofsóknum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eru:

a. ríkið,

b. hópar eða samtök sem stjórna ríkinu eða verulegum hluta landsvæðis þess, og

c. aðrir aðilar, sem ekki fara með ríkisvald, ef sýnt er fram á að ríkið eða hópar eða samtök skv. b-lið þessarar málsgreinar, þar með talið alþjóðastofnanir, geti ekki eða vilji ekki veita vernd gegn ofsóknum eða meðferð sem fellur undir 2. mgr. 44. gr., m.a. með því að ákæra og refsa fyrir athafnir sem fela í sér ofsóknir.

Þótt fallist sé á að einstaklingur í þessari aðstöðu skuli njóta vafans upp að ákveðnu marki, verður kærandi a.m.k. að sýna fram á að einhverjar líkur séu á að hans bíði ofsóknir í heimaríki. Samkvæmt meginreglum um túlkun flóttamannahugtaksins sem fram koma í handbók Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna, er m.a. miðað við það að viðkomandi þurfi almennt að sýna fram á að gildar ástæður liggi til grundvallar ótta við ofsóknir og að hugarástand flóttamannsins skipti ekki eitt máli heldur verði yfirlýsing hans einnig að fá stuðning í hlutlægum og staðreynanlegum aðstæðum (Handbók um réttarstöðu flóttamanna. Um málsmeðferð og skilyrði samkvæmt flóttamannasamningnum frá 1951 og bókun frá 1967 um réttarstöðu flóttamanna. (Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna, Reykjavík 2008).

Kærandi hefur greint frá því að hann sé hátt settur innan stjórnmálaflokks síns, [...]. Því sé hann í hættu í heimalandi sínu. Máli sínu til stuðnings benti kærandi á að [...], formaður stjórnmálaflokksins, hafi nýlega sótt um og fengið hæli í [...]. Samkvæmt upplýsingum sem kærunefndin hefur kannað fékk [...] hæli í [...] árið [...]. [...] hafi hins vegar snúið aftur til [...], verið virkur í gagnrýni sinni á stjórnvöld og m.a. sagt opinberlega að hann vilji kollvarpa [...] kerfi [...]. Þá hafi hann verið mjög gagnrýninn í garð forsætisráðherra og stjórnvalda í landinu og staðið fyrir fjölda mótmæla. Þá benda gögn sem kærunefnd hefur yfirfarið ekki til þess að einstaklingar sem taka þátt í stjórnmálum í [...] eigi almennt á hættu að vera ofsóttir þar í landi vegna stjórnmálaskoðana sinna. Af þessu má leiða að ekki sé líklegt að þátttaka kæranda í mótmælum og gagnrýni á núverandi stjórnvöld setji hann í hættu á að verða fyrir ofsóknum af hálfu þeirra. Mótmælendur hafi verið handteknir vegna mótmæla í [...] en eigi þó ekki á hættu að verða fyrir ofsóknum í kjölfar þess. Gögn benda ekki til þess að kærandi sé eftirlýstur í [...] eða að handtökuskipun hafi verið gefin út á hendur honum þar. Kærandi hefur ekki með nægilega skýrum hætti gert grein fyrir því hvers vegna hann sé í hættu í [...] eða stutt þær fullyrðingar með gögnum. Kærunefnd þótti frásögn kæranda um ýmis atriði ótrúverðug. Kærandi gat t.a.m. ekki gert grein fyrir ferðaleið sinni frá [...]. Þá kom fram í gögnum málsins að kærandi hafi sótt um hæli árið [...] í Rúmeníu og verið synjað. Kærunefnd bað kæranda að skýra frá grundvelli þeirrar hælisumsóknar en hann vildi ekkert tjá sig um málið. Með vísan til alls ofangreinds er það mat kærunefndar að frásögn kæranda um aðstæður hans í [...] ásamt gögnum í málinu styðja ekki þá fullyrðingu að hann hafi ástæðuríkan ótta við ofsóknir í skilningi 1. mgr. 44. gr. útlendingalaga.

Ákvæði 2. mgr. 44. gr. útlendingalaga

Í 2. mgr. 44. gr. útlendingalaga er kveðið á um að flóttamaður samkvæmt útlendingalögum telst einnig útlendingur sem telst ekki flóttamaður samkvæmt ákvæði A-liðar 1. gr. alþjóðasamnings um stöðu flóttamanna ef raunhæf ástæða er til að ætla að hann eigi á hættu að sæta dauðarefsingu, pyndingum eða annarri ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu verði hann sendur aftur til heimalands. Í ljósi þess sem að framan er rakið telur kærunefndin að aðstæður kæranda í heimalandi hans séu ekki þannig að þær falli undir ákvæði 2. mgr. 44. gr. laganna. Þá telur kærunefndin ekkert fram komið sem bendir til þess að hætt sé við því að kærandi sæti ómannúðlegri og/eða vanvirðandi meðferð við heimkomuna, sbr. 2. mgr. 44. og 1. mgr. 45 gr. laganna.

Ákvæði 12. gr. f útlendingalaga

Til vara krefst kærandi þess að hinni kærðu ákvörðun verði breytt á þann veg að kæranda verði veitt dvalarleyfi á Íslandi af mannúðarástæðum, sbr. 12. gr. f laga nr. 96/2002.

Samkvæmt 12. gr. f er heimilt að veita útlendingi dvalarleyfi, þótt skilyrðum sé annars ekki fullnægt, ef rík mannúðarsjónarmið standa til þess eða vegna sérstakra tengsla útlendingsins við landið. Í 2. mgr. ákvæðisins kemur fram að veita má dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða ef útlendingur getur sýnt fram á ríka þörf á vernd, t.d. af heilbrigðisástæðum, eða vegna erfiðra félagslegra aðstæðna viðkomandi eða erfiðra almennra aðstæðna í heimaríki eða í landi sem honum yrði vísað til eða vegna annarra atvika sem ekki má með réttu gera honum að bera ábyrgð á. Sérstaklega skal taka tillit til þess ef um barn er að ræða og skal það sem barni er fyrir bestu haft að leiðarljósi við ákvörðun.

Kærandi hefur líst erfiðum aðstæðum sínum í heimaríki vegna tengsla hans við stjórnmálaflokkinn [...]. Gögn í málinu ásamt framburði kæranda benda hins vegar ekki til þess að hann hafi ríka þörf á vernd vegna umræddra tengsla.

Kærunefndin hefur þegar komist að þeirri niðurstöðu að kærandi uppfylli ekki skilyrði 1. eða 2. mgr. 44. gr. útlendingalaga og teljist því ekki flóttamaður. Þegar upplýsingar um heimaland kæranda og gögn málsins eru virt í heild er það niðurstaða kærunefndar að kærandi hafi heldur ekki sýnt fram á ríka þörf á vernd líkt og kveðið er á um í 12. gr. f útlendingalaga. Því er fallist á það með Útlendingastofnun að aðstæður kæranda í [...] séu ekki með þeim hætti að veita beri kæranda dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 12. gr. f útlendingalaga. Jafnframt telur kærunefndin kæranda ekki uppfylla skilyrði 12. gr. f útlendingalaga um sérstök tengsl við landið.

Samantekt

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið og forsendna hinnar kærðu ákvörðunar þykir rétt að staðfesta ákvörðun Útlendingastofnunar.

Athygli kæranda er vakin á því að skv. 6. mgr. 33. gr. laga um útlendinga frestar málshöfðun fyrir dómstólum til ógildingar á endanlegri ákvörðun um að útlendingur skuli yfirgefa landið ekki framkvæmd hennar. Að kröfu útlendings getur kærunefnd útlendingamála þó ákveðið að fresta réttaráhrifum endanlegrar ákvörðunar sé talin ástæða til þess. Krafa þess efnis skal gerð ekki síðar en sjö dögum frá birtingu endanlegrar ákvörðunar. Skal frestun bundin því skilyrði að útlendingur beri málið undir dómstóla innan fimm daga frá birtingu ákvörðunar um frestun réttaráhrifa úrskurðar og óski eftir að það hljóti flýtimeðferð. Nú er beiðni um flýtimeðferð synjað og skal þá mál höfðað innan sjö daga frá því að beiðni um það er synjað. Þó getur kærunefnd útlendingamála tekið ákvörðun um að fresta framkvæmd ákvörðunarinnar ef sýnt er fram á að verulega breyttar aðstæður hafi skapast frá því ákvörðun var tekin.

Úrskurðarorð

Ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest.

The decision of the Directorate of Immigration is affirmed.

Pétur Dam Leifsson Hjörtur Bragi Sverrisson


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta